Ingi R. Helgason (Ásnesi)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. janúar 2019 kl. 13:07 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. janúar 2019 kl. 13:07 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Ingi R. Helgason (Ásnesi)“ ([Breyta=Leyfa aðeins stjórnendur] (ótiltekinn) [Færa=Leyfa aðeins stjórnendur] (ótiltekinn)))
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Ingi Ragnar Helgason.

Ingi Ragnar Helgason frá Ásnesi, lögfræðingur, forstjóri, stjórnmálamaður fæddist þar 29. júlí 1929 og lést 10. mars 2000 í Sjúkrahúsi Reykjavíkur.
Foreldrar hans voru Helgi Guðmundsson sjómaður, verkamaður, f. 8. október 1881, d. 30. mars 1937, og kona hans Einarína Eyrún Helgadóttir húsfreyja, verkakona, f. 16. maí 1891, d. 31. maí 1980.

Börn Eyrúnar og Helga voru:
1. Guðmundur Helgason húsgagnasmíðameistari, umsjónarmaður í Reykjavík, f. 6. nóvember 1911, d. 13. febrúar 1999.
2. Guðlaug Helgadóttir húsfreyja, verslunarmaður, f. 9. nóvember 1913, d. 8. febrúar 1988.
3. Sigdór Helgason verkamaður í Reykjavík, f. 18. janúar 1917, d. 30. mars 2012.
4. Ingi Ragnar Helgason lögfræðingur, varaþingmaður, borgarfulltrúi í Reykjavík, forstjóri m.m., f. 29. júlí 1924 í Ásnesi, d. 10. mars 2000.
5. Fjóla Helgadóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 4. september 1930 í Heiðarbýli, d. 1. júlí 2015.
6. Hulda Helgadóttir húsfreyja, ritari í Reykjavík, f. 4. september 1930 í Heiðarbýli, d. 1. maí 1995.

Ingi var með foreldrum sínum í æsku, með þeim í Ásnesi og Heiðarbýli, fluttist með þeim til Reykjavíkur 1930, bjó með þeim þá á Klapparstíg 42.
Hann lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík 1945 og hóf þá nám við læknadeild Háskóla Íslands en eftir tveggja ára nám færði hann sig yfir í lagadeildina og lauk þaðan prófi með 1. einkunn árið 1953. Sama ár stofnaði hann eigin lögfræðistofu, sem hann rak með dyggri aðstoð Huldu systur sinnar, allt til ársins 1981, lengst af við Laugaveg 31. Hann hlaut málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi 27. október 1956 og fyrir hæstarétti 15. júní 1964.
Ingi hóf afskipti af stjórnmálum strax á námsárunum, var formaður Félags róttækra stúdenta 1945 og ritari í Stúdentaráði Háskóla Íslands 1946. Hann var í fyrstu stjórn Lánasjóðs stúdenta árið 1952.
Ingi átti sæti í miðstjórn Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokksins frá 1949 til 1968, er hann var lagður niður, og var jafnframt framkvæmdastjóri flokksins á árunum 1956-1962. Hann var forseti Æskulýðsfylkingarinnar 1950 og 1953. Hann var borgarfulltrúi í Reykjavík fyrir Sósíalistaflokkinn 1950-1958 og varaborgarfulltrúi 1958-1962 og sat í hafnarstjórn Reykjavíkur á árunum 1950-1957.
Ingi sat í miðstjórn Alþýðubandalagsins um árabil og gegndi ýmsum trúnaðarstörfum innan flokksins. Hann var lengi í útgáfustjórn Þjóðviljans og sat í stjórn Sigfúsarsjóðs um árabil, allt til ársloka 1999. Hann sat í félagsráði Máls og menningar um langt árabil.
Ingi skipaði efsta sæti G-lista, framboðslista Alþýðubandalagsins, í Borgarfjarðarsýslu við alþingiskosningarnar 1956 og í Vesturlandskjördæmi 1959 og 1963.
Hann var landskjörinn varaþingmaður og tók þrisvar sinnum sæti á Alþingi, í nóvember 1961 og október til desember 1965.
Árið 1954 var hann kosinn í kosningalaganefnd og árið 1957 í yfirmatsnefnd um skatt á stóreignir. Hann var í yfirkjörstjórn Reykjavíkur vegna borgarstjórnarkosninga árin 1970, 1974, 1978, 1982 og 1986, formaður hennar árið 1982.
Ingi gegndi einnig fjölmörgum trúnaðarstörfum á vegum hins opinbera. Hann sat meðal annars í bankastjórn Seðlabanka Íslands 1957-1960 og í bankaráði hans 1961-1968 og 1973-1982, þar af sem bankaráðsformaður 1979-1980. Hann var í stjórn Sementsverksmiðju ríkisins á árunum 1960-1968 og var varamaður í stjórn Innkaupastofnunar Reykjavíkur frá stofnun hennar 1959 til 1962.
Hann var í viðræðunefnd um orkufrekan iðnað á árunum 1971-1982, í álviðræðunefnd iðnaðarráðuneytisins 1981-1983, formaður olíunefndar 1979, sat í olíuviðskiptanefnd 1980 og starfsskilyrðanefnd atvinnuveganna 1980-1982. Hann var fulltrúi ríkisstjórnarinnar í stjórn Íslenska álfélagsins hf. 1972-1975 og 1979-1981. Hann var formaður Iðnlánasjóðs á árunum 1972-1975 og aftur 1979-1983, varaformaður í stjórn Iðnþróunarsjóðs 1978-1984.
Árið 1981 tók hann við starfi forstjóra Brunabótafélags Íslands og eftir sameiningu þess við Samvinnutryggingar g.t. árið 1989 tók hann við starfi stjórnarformanns hins nýja félags, Vátryggingafélags Íslands, og gegndi því starfi til ársins 1996 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Hann var forstjóri BÍ Líftrygginga g.t. á árunum 1985-1990 og stjórnarformaður Líftryggingafélags Íslands frá 1991-1996.
Ingi var í stjórn Lýsingar frá upphafi árið 1986-1997, í stjórn Bifreiðaskoðunar Íslands 1988-1997 og í stjórn Viðlagatryggingar Íslands frá 1991-1995. Hann var í stjórn Sambands íslenskra tryggingafélaga frá 1982-1984, þar af formaður hennar frá 1983, hann var aftur valinn í stjórnina 1988-1992 og sinnti formennsku árin 1990-1992. Ingi var í stjórn Brunamálastofnunar ríkisins 1982-1986 og frá 1991-1996, og sinnti þar formennsku á árunum 1982-1986. Hann átti sæti í nefnd félagsmálaráðuneytisins til að samræma matskerfi fasteigna hérlendis 1984-1986 og var formaður nefndar fjármálaráðuneytisins um sama efni 1990. Ingi sat einnig í nefnd félagsmálaráðuneytisins sem skipuð var 1990 til að gera úttekt á brunatjónum hérlendis á árunum 1980-1989.
Menningarmál og þá einkum tónlist voru honum sérlega hugleikin og hann var í stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands 1978-1982. Hann tók virkan þátt í stofnun Samtaka um byggingu tónlistarhúss, tók strax sæti í 1. fulltrúaráði þeirra og fjáröflunarráði við stofnun þeirra árið 1983. Í desember 1993 var hann kjörinn formaður samtakanna og sinnti því starfi fram á mitt ár 1996, er hann tók við stöðu varaformanns, sem hann hélt allt til dauðadags.
Ingi átti sæti í vísindaráði Krabbameinsfélags Íslands á árunum 1988-1991, þar af sem formaður 1990 og 1991. Hann var kjörinn í stjórn félagsins og gjaldkeri framkvæmdastjórnar þess árið 1991 og sinnti þeim störfum til dauðadags.
Hann átti sæti í ráðgjafaráði Hollvinafélags lagadeildar Háskóla Íslands.
Ingi beitti sér fyrir því að komið var á fót Heiðurslaunum Brunabótafélags Íslands og síðar Menningarlaunum VÍS.
Hann kom snemma að Listasafni Sigurjóns Ólafssonar og var formaður fulltrúaráðs þess frá árinu 1989 og var í stjórn Styrktarsjóðs Svavars Guðnasonar listmálara og Ástu Eiríksdóttur frá stofnun hans árið 1993.

Ingi Ragnar var tvíkvæntur og átti barnsmóður.
I. Fyrri kona hans, (12. október 1951, skildu), var Ása Guðmundsdóttir húsfreyja, hannyrðakona, f. 24. ágúst 1927, d. 19. apríl 1962. Foreldrar hennar voru Guðmundur Páll Pálsson sjómaður í Hafnarfirði, f. 12. janúar 1906, d. 11. nóvember 1973, og kona hans Kristín Þorvarðardóttir húsfreyja, f. 25. september 1898, d. 13. janúar 1983.
Barn þeirra:
1. Álfheiður Ingadóttir húsfreyja, líffræðingur, fyrrum alþingiskona, f. 1. maí 1951. Maður hennar er Sigurmar Kristján Albertsson.

II. Barnsmóðir Inga Ragnars var Geirlaug Sigurðardóttir læknaritari, f. 1. september 1933, d. 16. janúar 2012. Foreldrar hennar voru Sigurður Magnússon skrifstofustjóri í Hafnarfirði, f. 27. september 1901, d. 21. júlí 1973 og kona hans Ragnheiður Einarsdóttir húsfreyja, f. 22. júní 1900, d. 30. maí 1985.
Barn þeirra:
2. Ragnheiður Ingadóttir húsfreyja, bókhaldsfulltrúi, f. 21. nóvember 1958. Maður hennar, (skildu), var Haraldur H. Helgason.

III. Síðari kona Inga Ragnars, (17. desember 1965), var Ragna Magnea Karlsdóttir Þorsteins húsfreyja, fyrrum flugfreyja, f. 5. desember 1938. Foreldrar hennar voru Karl Andreas Eiríksson Þorsteins kaupmaður, f. 18. ágúst 1901, d. 21. janúar 1987, og Jóhanna Steinunn Sigurhansdóttir Þorsteins húsfreyja, f. 16. ágúst 1909, d. 20. apríl 2002.
Börn þeirra:
3. Eyrún Ingadóttir, f. 1. nóvember 1968. Maður hennar er Birgir Ellert Birgisson.
4. Ingi Ragnar Ingason kvikmyndagerðarmaður, f. 25. maí 1971. Kona hans er Eva Þorgeirsdóttir.
Dóttir Rögnu Magneu og fósturdóttir Inga Ragnars:
5. Steinunn Ásmundsdóttir, f. 31. desember 1962. Maður hennar er Stefán Ingimar Bjarnason.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Manntöl.
  • Morgunblaðið 21. mars 2000. Minning. Hér er nánast orðrétt skráning lífshlaups.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.