Helgi Sæmundsson (rithöfundur)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 15. ágúst 2022 kl. 12:14 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 15. ágúst 2022 kl. 12:14 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Helgi Sæmundsson.

Helgi Sæmundsson frá Fagrafelli við Hvítingaveg 5, blaðamaður, rithöfundur, ljóðskáld fæddist 17. júlí 1920 í Baldurshaga á Stokkseyri og lést 18. febrúar 2004 á Landspítalanum.
Foreldrar hans voru Sæmundur Benediktsson sjómaður, verkamaður, f. 6. desember 1879 í Vestra-Íragerði í Stokkseyrarhreppi, d. 5. september 1955, og kona hans Ástríður Helgadóttir frá Helgastöðum á Stokkseyri, húsfreyja, f. 28. ágúst 1883, d. 30. nóvember 1970.

Börn Ástríðar og Sæmundar:
1. Benedikt Elías Sæmundsson sjómaður, vélstjóri, f. 7. október 1907, d. 3. október 2005.
2. Guðrún Sæmundsdóttir húsfreyja, f. 19. febrúar 1909, d. 24. apríl 1993.
3. Anna Sæmundsdóttir húsfreyja, f. 21. febrúar 1909, d. 26. mars 1998.
4. Ástmundur Sæmundsson bóndi, f. 23. október 1910, d. 28. júlí 1985.
5. Ágúst Sæmundsson, f. 10. ágúst 1912, d. 12. nóvember 1912.
6. Þorgerður Sæmundsdóttir, f. 27. ágúst 1914, d. 18. nóvember 1914.
7. Þorvaldur Sæmundsson kennari, f. 20. september 1918, d. 12. júlí 2007.
8. Helgi Sæmundsson rithöfundur, blaðamaður, f. 17. júlí 1920, d. 18. febrúar 2004.
9. Ástbjartur Sæmundsson skrifstofumaður, framkvæmdastjóri, verslunarstjóri, aðalgjaldkeri, f. 7. febrúar 1926, d. 9. ágúst 2019.

Helgi var með foreldrum sínum í æsku, flutti með þeim frá Stokkseyri til Eyja 1935, var hjá þeim á Fagrafelli.
Hann varð gagnfræðingur í í Gagnfræðaskólanum 1939 og lauk námi í Samvinnuskólanum í Reykjavík.
Helgi var blaðamaður við Alþýðublaðið 1943-1952, ritstjóri Alþýðublaðsins 1952-1959, starfsmaður Bókaútgáfu Menningarsjóðs 1959-1990, ritstjóri tímaritsins Andvara 1960-1972.
Hann sat í menntamálaráði 1956-1971, formaður ráðsins 1956-1967 og varaformaður 1967-1971. Hann átti sæti í úthlutunarnefnd listamannalauna 1952-1978 og var oft formaður nefndarinnar. Helgi var fulltrúi Íslands í dómnefnd um bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1961-1972.
Helgi hóf ungur þátttöku í félagsmálum. Á skólaárum sínum var hann formaður Sambands bindindisfélaga í skólum. Hann átti sæti í stjórn Sambands ungra jafnaðarmanna og í miðstjórn Alþýðuflokksins. Hann var heiðursfélagi Karlakórsins Fóstbræðra. Einnig var hann heiðursfélagi í félaginu Akóges í Reykjavík.
Árið 1955 tók hann þátt í útvarpsþætti Sveins Ásgeirssonar og botnaði vísur ásamt þrem öðrum: Steini Steinarr, Karli Ísfeld og Guðmundi Sigurðssyni.
Helgi sendi frá sér sjö ljóðabækur:
Sól yfir sundum, 1940 (æskuljóð)
Sunnan í móti, 1975, 2. prentun 1984 (ljóð 1935-1975)
Fjallasýn, 1977,
Tíundir, 1979,
Kertaljósið granna, 1981,
Vefurinn sífelldi, 1987,
Streymandi lindir, 1997.
Önnur ritverk:
Sjá þann hinn mikla flokk, 1956 (palladómar undir dulnefninu Lúpus),
Í minningarskyni, 1967, (greinar),
Íslenskt skáldatal I og II, 1973-1976 (ásamt Hannesi Péturssyni).
Auk þess þýddi Helgi margar bækur og eftir hann liggur fjöldi greina og ritgerða, sem hann skrifaði í blöð og tímarit, einkum um bókmenntir og menningarmál.
Þá bjó hann til prentunar ljóðasöfnin Rósir í mjöll eftir Vihjálm frá Skáholti, 1992, og Sóldagar eftir Guðmund Inga Kristjánsson, 1993.
Viðurkenningar:
Móðurmálsverðlaun Björns Jónssonar, 1956,
verðlaun úr Rithöfundasjóði Ríkisútvarpsins, 1977.
Þau Valný giftu sig 1943, eignuðust níu börn. Þau bjuggu lengst á Holtsgötu 23 og Miklubraut 60.
Helgi lést 2004 og Valný 2014.

I. Kona Helga, (23. október 1943), var Valný Bárðardóttir húsfeyja, f. 24. október 1917 í Keflavík í Nessókn á Snæfellsnesi, d. 17. janúar 2014. Foreldrar hennar voru Bárður Helgi Jónasson skipstjóri, síðar skipstjóri og fiskimatsmaður á Hellissandi, f. 13. júní 1894, d. 25. júlí 1964, og kona hans Guðlaug Pétursdóttir húsfreyja, f. 13. ágúst 1895, d. 16. febrúar 1986.
Börn þeirra:
1. Helgi Elías Helgason, f. 31. maí 1944. Kona hans Ásdís Ásmundsdóttir.
2. Drengur, f. 31. maí 1944, d. sama dag.
3. Gunnar Helgason, f. 20. júní 1946, d. 6. janúar 1947.
4. Gísli Már Helgason, f. 14. nóvember 1947.
5. Sæmundur Helgason, f. 5. júlí 1949, d. 21. nóvember 1973.
6. Gunnar Hans Helgason, f. 4. maí 1951. Kona hans Sigrún Þórðardóttir.
7. Óttar Helgason, f. 5. maí 1953, d. 2. september 1996. Kona hans Ásdís Stefánsdóttir.
8. Sigurður Helgason, f. 1. október 1954. Kona hans Anna B. Ólafsdóttir.
9. Bárður Helgason, f. 30. júlí 1961. Kona hans Svanhildur Jónsdóttir.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.