Hallgrímur Jónasson (kennari)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Hallgrímur Jónasson.

Hallgrímur Jónasson frá Fremrikotum í Skagafirði, kennari, bókavörður, fararstjóri fæddist þar 30. október 1894 og lést 24. október 1991.
Foreldrar hans voru Jónas Jósep Hallgrímsson bóndi, f. 28. nóvember 1863, d. 3. nóvember 1906, og kona hans Þórey Jónasdóttir húsfreyja, f. 19. apríl 1861, d. 20. ágúst 1936.

Hallgrímur var með foreldrum sínum í Fremrkotum 1901, með ekkjunni móður sinni á Bjarnastöðum í Skagafirði 1910.
Hann nam við Alþýðuskólann á Hvítárbakka í Borgarfirði 1914-1916, lauk kennaraprófi 1920, nam við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn 1920-1921, sat kennaranámskeið í Askov 1921, fór námsferðir til Englands 1931, til Norðurlanda 1935, 1937, 1947 og 1952.
Hallgrímur var kennari í Barnaskólanum í Eyjum 1921-1931, og Unglingaskólanum þar um skeið. Hann var bókavörður við Bókasafn bæjarins.




ctr


Hallgrímur er til vinstri á myndinni, 84 ára. Hægra megin er Haraldur Guðnason.


Umsögn í Bliki 1978: ,,Segja má með sanni, að hann hafi átt ríkastan þátt í því að endurreisa bókasafn Eyjabúa, taka það myglað og fúkkað til hirðu og handargagns og hefja á ný reglubundin útlán á því. Það gerðist árið 1924.
Næstu 6 árin vann Hallgrímur Jónasson sleitulaust að þessu verki. Hann bjargaði miklum hluta safnsins frá algjörri tortímingu og hóf safnið „til vegs og virðingar“, ef ég mætti orða það þannig. A.m.k. óx Eyjafólki skilningur á margþættu gildi þess, eftir að Hallgrímur tók að starfrækja það og tryggði því örugga framtíð og eðlilegan og heilbrigðan viðgang í kaupstaðnum.“

Hann sat í skólanefnd Vestmannaeyja í nokkur ár.
Hallgrímur var kennari í Kennaraskólanum í Reykjavík frá 1931 til 1968.
Hann sat í stjórn Ferðafélags Íslands 1944-1972, Kennarafélags Kennaraskólans, var fararstjóri hjá Ferðafélagi Íslands frá 1940 í 20 sumur.
Hallgrímur var meðritstjóri Nýja dagblaðsins í Reykjavík 1934-1935.
Hann var heiðursfélagi Ferðafélags Íslands og stytta honum til heiðurs er reist á Sprengisandi.
Rit:
Frændlönd og heimahagar, ferðaþættir og erindi, 1946.
Skagafjörður. Árbók Ferðafélags Íslands 1946.
Ferhendur á ferðaleiðum, ljóð og vísur, 1950.
Á öræfum, 1961.
Sprengisandur. Árbók Ferðafélags Íslands, 1967.
Kjalvegur hinn forni. Árbók Ferðafélags Íslands 1971.
Heimar dals og heiða, 1973.
Ritgerð í ársriti Útivistar í 7. árgangi, 1973.
Geislar yfir kynkvíslum, sérprentun úr Fólk og fróðleikur, 1979.
Fjöldi greina í blöð og tímarit.
Mörg erindi flutt í Ríkisútvarpinu.

Þau Elísabet Valgerður giftu sig 1921, eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu á Kirkjuhól við Bessastíg 4, byggðu og bjuggu síðan við Kirkjuveg 86.
Elísabet Valgerður lést 1976 og Hallgrímur 1991.

I. Kona Hallgríms, (20. október 1921), var Elísabet Valgerður Ingvarsdóttir frá Akureyri, húsfreyja, f. 8. apríl 1898 í Bárðarkoti í Grenivíkursókn, S.-Þing., d. 22. mars 1976.
Börn þeirra:
1. Ingvar Hallgrímsson fiskifræðingur, f. 23. janúar 1923, d. 19. september 2017.
2. Jónas Hallgrímsson bifreiðastjóri í Reykjavík, starfsmaður Olíufélagsins Esso, húsvörður, f. 28. júní 1928, d. 25. júní 2017.
3. Þórir Hallgrímsson skólastjóri, f. 7. ágúst 1936.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.
  • Kennaratal á Íslandi. Ólafur Þ. Kristjánsson og fleiri. Prentsmiðjan Oddi 1958-1988.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.