Halldór Gunnlaugsson (héraðslæknir)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
(Endurbeint frá Halldór Gunnlaugsson)
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Halldór og fjölskylda

Halldór Gunnlaugsson var héraðslæknir Vestmannaeyja frá 1906 til 1924. Hann fæddist á Skeggjastöðum á Langanessströnd 25. ágúst 1875 og lést 16. desember 1924. Foreldrar hans voru Gunnlaugur Halldórsson og Margrét Andrea Lúðvíksdóttir.

Halldór varð stúdent í Reykjavík 1897 og cand. med. frá Háskóla Íslands árið 1903. Hann starfaði á Köbenhavns-Amtsjúkrahúsinu árið 1903 og seinna sem aðstoðarlæknir á Akureyri 1903-1905. Halldór var skipaður héraðslæknir í Vestmannaeyjum árið 1906 og gegndi því embætti þar til hann drukknaði við skyldustörf sín í hinu mikla sjóslysi sem varð við Eiðið 16. desember 1924.

Hann var franskur ræðismaður og starfaði sem yfirlæknir á Franska spítalanum sem rekinn var í Eyjum um alllangt skeið í húsinu sem nú er Kirkjuvegur 20 (Gamli spítalinn). Kona hans var Anna Sigrid Threp (Anna Gunnlaugsson) og áttu þau fjögur börn og eru allmargir afkomendur þeirra búsettir í Vestmannaeyjum.


Heimildir

  • Guðlaugur Gíslason: Eyjar gegnum aldirnar. Frásagnir af mannlífi og atburðum í Vestmannaeyjum frá gamalli tíð og nýrri. Reykjavík, 1982.