Guðsteinn Þorbjörnsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. mars 2018 kl. 18:00 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. mars 2018 kl. 18:00 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Guðsteinn Þorbjörnsson.

Guðsteinn Ingvar Þorbjörnsson frá Reynifelli fæddist 6. september 1910 og lést 14. febrúar 1995. Foreldrar hans voru Margrét Gunnarsdóttir og Þorbjörn Arnbjörnsson. Þau bjuggu á Vesturvegi 15b, Reynifelli.

Kona Guðsteins var Margrét Guðmundsdóttir. Á meðal barna þeirra var Reynir Guðsteinsson skólastjóri.

Guðsteinn var formaður á mótorbátnum Unni.

Óskar Kárason samdi formannavísu um Guðstein:

Guðsteinn heitir arkar ás,
ýtinn sjós á grunni.
Dragnótar þá dregur lás,
drjúgan hleður Unni.

Heimildir

  • Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.

Frekari umfjöllun

Guðsteinn Ingvar Þorbjörnsson frá Reynifelli, sjómaður, vélstjóri, skipstjóri, hugvitsmaður fæddist 6. september 1910 á Fagurhóli og lést 14. febrúar 1995 í Hafnarfirði.
Foreldrar hans voru Þorbjörn Arnbjörnsson útgerðarmaður, verkamaður, póstur, sótari, f. 8. október 1886 í Helgahjalli, d. 10. nóvember 1956, og kona hans Margrét Gunnarsdóttir húsfreyja, f. 13. febrúar 1880 á Sperðli í V-Landeyjum, d. 25. september 1947.

Börn Margrétar og Þorbjörns:
1. Arnmundur Óskar Þorbjörnsson, f. 9. apríl 1909 í Fagurhól, d. 23. júní 1911.
2. Guðsteinn Ingvar Þorbjörnsson, f. 6. september 1910 í Fagurhól, d. 14. febrúar 1995.
3. Guðrún Þorbjörnsdóttir húsfreyja, sjúkraþjálfari, hjúkrunarfræðingur, f. 20. júní 1912 í Fagurhól, d. 13. ágúst 1996.
4. Elísabet Sóley Þorbjörnsdóttir, f. 10. apríl 1914 á Reynifelli, d. 21. febrúar 1915.
5. Elísabet Arnbjörg Þorbjörnsdóttir, f. 22. september 1915 á Reynifelli, d. 9. nóvember 1936.
6. Sóley Ingveldur Sigurbjörg Þorbjörnsdóttir húsfreyja í Kaupmannahöfn, f. 4. mars 1917 á Reynifelli, d. 30. janúar 1996.
7. Jóna Þorbjörnsdóttir húsfreyja á Siglufirði, f. 1. nóvember 1919 á Reynifelli, d. 15. júní 1950.
8. Arnmundur Óskar Þorbjörnsson netagerðarmeistari, útgerðarmaður, f. 18. apríl 1922 á Reynifelli, d. 3. júlí 2014.
Fósturdóttir hjónanna, dóttir Gústavs Stefánssonar og Solveigar Guðmundsdóttur saumakonu í Reykjavík, f. 12. nóvember 1902, d. 10. nóvember 1939:
9. Sigríður Hermanns á Akureyri, f. 17. júlí 1926.

Guðsteinn Ingvar ólst upp hjá foreldrum sínum á Fagurhóli og síðar á Reynifelli. Tvítugur að aldri, sumarið 1930, var hann sendur á Vífilsstaði til rannsóknar vegna slæmra og langvarandi brjóstverkja, sem höfðu hrjáð hann um veturinn.
Í þá daga var óttinn við berkla yfirþyrmandi á Íslandi. Þetta sumar var ung kona úr Borgarfirði samtímis Guðsteini á Vífilsstöðum. Það var Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, ættuð úr Borgarfirði og af Snæfellsnesi. Guðsteinn og Margrét felldu hugi saman þetta sumar á Vífilstöðum. Þegar þau útskrifuðust um haustið fór Margrét með honum til Vestmannaeyja og bjó á Reynifelli í skjóli tilvonandi tengdaforeldra sinna, Þorbjörns og Margrétar á Reynifelli. Guðsteinn og Guðrún Margrét gengu í hjónaband 7. febrúar 1931. Þau bjuggu í kjallaranum á Reynifelli fyrstu árin, en reistu árið 1940 viðbyggingu austan við Reynifell. Fjölskyldan bjó á Helgafelli 1949. Árið 1950 fluttu þau í nýbyggt hús sitt á Vallargötu 6, Bjarkarlund og bjuggu þar uns þau fluttu til Reykjavíkur 1967.
Rekja má sögu sjómennsku og útgerðar Guðsteins til þess er hann keypti trillu, ásamt Pétri Guðbjartssyni og Kristjáni Guðmundssyni mági sínum 1934. Í dagbók frá þessu ári segir hann skilmerkilega frá því daglega basli sem menn bjuggu við á þessum árum, stopulli vinnu, erfiðleikum við að ná í efni til að gera upp nær ósjófæran bát, hvernig hinir nýju eigendur þurftu að ganga frá manni til manns til að fá leigða kró til að beita í, og hvernig þeir „björguðu sér fyrir horn“ í efnisskorti með því að sauma sjálfir segl á bátinn úr pokum.

ctr
Guðsteinn og félagar á Birgi VE, á siglingu inn Ólafsfjörð.

Eftir þetta „ævintýri“ tók Guðsteinn vélstjórapróf 1936 og fékk síðar skipstjórnarréttindi. Hann var til sjós, lengst af starfsævi sinni. Hann eignaðist og gerði út trilluna Birgi Ve 306. hann var ýmist vélstjóri eða formaður á bátum í Vestmannaeyjum. Má þar nefna Mýrdæling, Örn, Unni, Skaftfelling, Vonarstjörnuna og Mugg. Lengst var hann þó formaður á Unni VE 80, sem hann átti hlut í með Jóhanni Kristjánssyni og fleirum. Guðsteinn þótti fengsæll og farsæll formaður. Hann var mjög veðurglöggur og stálminnugur á fengsæl fiskimið við Eyjar.
Í kringum 1950 fékk Guðsteinn vin sinn, Guðjón Jónsson hagleiksmann í Vélsmiðjunni Magna til að smíða „fellingavél“ fyrir þorskanet eftir hugmynd sinni. Guðjón gerði útlitsteikningar af vélinni, sem var smíðuð í Magna. Hún var fyrst tekin í notkun á Netaverkstæði Reykdals og þótti framfaraskref við netafellingar. Vélin var síðar endurbætt af ýmsum netagerðarmönnum í Eyjum. Guðsteinn sótti aldrei um einkaleyfi á vélinni en teikningar af henni eru geymdar á Héraðskjalasafni Vestmannaeyja.
Um tíma var Guðsteinn starfsmaður Vélsmiðjunnar Magna og vann á Netaverkstæði Reykdals Jónssonar, en síðustu árin í Vestmannaeyjum var hann bifreiðastjóri á Vörubílastöð Vestmannaeyja.
Guðsteinn og Margrét fluttu frá Vestmannaeyjum árið 1967. Fyrst bjuggu þau í Reykjavík, þar sem Guðsteinn starfaði, m.a. hjá Kexverksmiðjunni Frón og við skiltagerð, sem hann átti hlut í. Síðan bjuggu þau hjón nokkur ár á Hlíðardalsskóla í Ölfusi þar sem Guðsteinn var eftirlitsmaður húseigna.
Eftir það fluttu þau til Hafnarfjarðar þar sem Guðsteinn starfaði í nokkur ár hjá Rafha. Hann andaðist á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði 14. febrúar 1995. Margrét lést 2000.

I. Kona Guðsteins, (7. febrúar 1931), var Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, f. í Reykjavík 20. júní 1909, dáin í Hafnarfirði 7. júlí 2000. Börn þeirra:
1. Svanhvít Kristrós Guðsteinsdóttir, f. 22. maí 1931, d. 8. ágúst 1935.
2. Guðbjörn Reynir Guðsteinsson skólastjóri f. 10. maí 1933.
3. Margrét Sóley Guðsteinsdóttir Hólm hjúkrunarfræðingur, f. 2. október 1934, d. 18. ágúst 2012.
4. Svanur Birgir Guðsteinsson kennari f. 9. júní 1936.
5. Guðrún Lilja Guðsteinsdóttir sérkennari f. 25. desember 1937, d. 2. apríl 2010.
6. Hreinn Smári Guðsteinsson vélstjóri f. 12. desember 1939.
7. Eygló Björk Guðsteinsdóttir talmeinafræðingur f. 2. október 1944.
8. Erna Kristrós Guðsteinsdóttir Johnson fyrrverandi deildarstjóri, f. 24. október 1948.
Fósturdóttir hjónanna er dóttir Arnþórs Árnasonar kennara og konu hans Helgu Lovísu Jónsdóttur húsfreyju. Vegna veikinda Helgu tóku hjónin hana í fóstur.
9. Helga Arnþórsdóttir, kennari, f. 12. september 1952.

Myndir


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.