Guðjón Jónsson (Hlíðardal)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 23. febrúar 2018 kl. 19:55 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 23. febrúar 2018 kl. 19:55 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Guðjón Jónsson


Guðjón í brúnni á Skuld.

Guðjón Jónsson, Hlíðardal, fæddist 5. desember 1899 að Steinum undir Eyjafjöllum og lést 8. júlí 1966. Guðjón fór fyrst til Vestmannaeyja 16 ára gamall til sjóróðra. Formennsku byrjaði Guðjón árið 1930 á bátnum Siggu. Eftir það var Guðjón með Hebron, Gullfoss og Skuld. Guðjón stundaði mest dragnótaveiði og var einn heppnasti formaður í Eyjum á það veiðarfæri.

Óskar Kárason samdi formannavísu um Guðjón:

Græðis erjar gæða mið
Gaui í Hlíðardalnum,
heppinn þegar síla svið
siglir reiða valnum.

Óskar samdi seinna aðra vísu um hann:

Jónsson ég greini Guðjón
greindan Hlíðardals reyndan,
bragn, sem að fiski fagnar,
flóða á miðum góðum.
Skuld fær ei drengur dulda,
djúp þó að borðin hjúpi,
hlaðna þá garpur glaður
gnoð færir heim frá boða.

Heimildir

  • Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.
  • Óskar Kárason. Formannavísur II. Vestmannaeyjum, 1956.
  • Sjómannablaðið Víkingur. Farmanna- og Fiskimannasamband Íslands.

Frekari umfjöllun

Guðjón Jónsson skipstjóri og útgerðarmaður fæddist 15. desember 1899 í Steinum u. Eyjafjöllum og lést 8. júlí 1966.
Foreldrar hans voru Jón Einarsson bóndi, bókbindari, f. 28. júlí 1867, d. 21. ágúst 1916, og kona hans Jóhanna Magnúsdóttir húsfreyja, f. 9. september 1868, d. 13. febrúar 1955.

Börn Jóns og Jóhönnu voru:
1. Einar Jónsson símaverkstjóri, síðast í Reykjavík, f. 28. apríl 1892, d. 9. apríl 1994.
2. Steinunn Jónsdóttir, f. 21. september 1893, d. 27. september 1893.
3. Bergþóra Jónsdóttir húsfreyja á Reykjum, f. 10. október 1894, d. 20. desember 1989.
4. Magnús Jónsson skipstjóri, útgerðarmaður á Arnarfelli, f. 16. febrúar 1897, d. 8. ágúst 1927.
5. Sigurjón Jónsson bifreiðastjóri, bifvélavirki, f. 5. mars 1898, d. 1. nóvember 1981.
6. Guðjón Jónsson skipstjóri í Hlíðardal, f. 15. desember 1899, d. 8. júlí 1966.
7. Guðni Jónsson vélstjóri, formaður, síðar í Keflavík, f. 3. janúar 1906, d. 18. október 1957.
8. Steindór Jónsson bifreiðastjóri, síðar í Reykjavík, f. 24. september 1908, d. 16. febrúar 2010.
9. Guðmundur Einar Jónsson bifreiðastjóri, f. 16. desember 1912, síðast á Skólavegi 25, d. 24. apríl 1950.

Guðjón var með foreldrum sínum í æsku, var með þeim í Steinum 1901 og 1910. Jón faðir hans lést 1916.
Guðjón fluttist með móður sinni og Guðmundi Einari bróður sínum til Eyja 1919. Þau bjuggu á Eystri Gjábakka 1920.
Hann byggði Hlíðaradal og var kominn þangað með Sigurbjörgu og barnið Jóhönnu 1923. Þau bjuggu þar síðan, eignuðuat Bergþór þar 1925.
Sigurbjörg ól andvana stúlku þar 1927 og lést tveim dögum síðar.
Guðjón bjó með börnunum tveim í Hlíðardal í lok árs 1927.
Þau Rannveig giftu sig 1929 og bjuggu í Hlíðardal, eignuðust Ástu Sigurbjörgu þar 1929 og tóku Dóru Steindórsdóttur bróðurdóttur Guðjóns í fóstur 1939.
Guðjón lést 1966 og Rannveig 1982.

Guðjón var tvíkvæntur.
I. Fyrri kona hans var Sigurbjörg Guðmundsdóttir húsfreyja frá Þóroddsstöðum í Grímsnesi, f. 20. september 1892, d. 13. desember 1927.
Börn þeirra:
1. Jóhanna Magnúsína Guðjónsdóttir húsfreyja, f. 6. september 1923 í Hlíðardal.
2. Bergþór Guðjónsson skipstjóri, útgerðarmaður, f. 28. ágúst 1925 í Hlíðardal, d. 18. nóvember 2007.
3. Andvana stúlka, f. 11. desember 1927 í Hlíðardal.

II. Síðari kona hans, (26. janúar 1929), var Rannveig Eyjólfsdóttir húsfreyja, f. 9. september 1896, d. 15. september 1982.
Barn þeirra:
4. Ásta Sigurbjörg Guðjónsdóttir húsfreyja, f. 1. ágúst 1929 í Hlíðardal.
Fósturbarn þeirra, dóttir Steindórs bróður Guðjóns:
5. Dóra Steindórsdóttir húsfreyja, sjúkrahússstarfsmaður, dagmóðir, f. 28. nóvember 1934 í Langa-Hvammi.
Fósturbarn þeirra:
6. Pálína Guðbjörg Gunnlaugsdóttir, f. 18. júlí 1951 á Hásteinsvegi 7, d. 29. janúar 1984. Foreldrar hennar voru Gunnlaugur Sigurðsson sjómaður, f. 20. maí 1921 á Reynifelli, d. 29. nóvember 1963, og kona hans Jóhanna Bjarnheiður Jónsdóttir húsfreyja, f. 4. mars 1920 á Mið-Grund u. Eyjafjöllum, d. 20. nóvember 1954.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.