Guðrún Erlendsdóttir (Vesturhúsum)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Hjónin Guðmundur Þórarinsson og Guðrún Erlendsdóttir með Höllu dóttur sína.
Börn hjónanna á Vesturhúsum, Guðmundar og Guðrúnar. Standandi: Halla og Magnús. Sitjandi: Þórdís og Guðleif.

Guðrún Erlendsdóttir húsfreyja á Vesturhúsum fæddist 1. febrúar 1841 í Stóradalssókn undir Eyjafjöllum og lést 14. júní 1921.
Faðir Guðrúnar var Erlendur bóndi á Borgareyrum þar, f. 7. mars 1805 í Krosssókn í A-Landeyjum, d. 10. júní 1851, Höskuldsson bónda í Krosshjáleigu (nú Kross II) í A-Landeyjum, f. 1778 þar, d. 28. apríl 1818, drukknaði, Erlendssonar bónda í Álftarhóli, f. 1738, d. 9. febrúar 1786, Höskuldssonar og konu Erlendar Höskuldssonar, Marínar húsfreyju, f. 1743, d. 7. febrúar 1805, Sigmundsdóttur.
Móðir Erlendar Höskuldssonar á Borgareyrum og fyrri kona Höskuldar í Krosshjáleigu var Guðrún húsfreyja, f. 1776, d. 18. mars 1810, Einarsdóttir bónda í Drangshlíð undir Eyjafjöllum og Kanastöðum í Landeyjum, f. 30. janúar 1747, á lífi 1813, Einarssonar, Hallssonar, og fyrri konu Einars Einarssonar í Drangshlíð, sem er óþekkt. Seinni kona hans var Anna Vigfúsdóttir móðir Auðbjargar (Iðbjargar) langömmu Guðmundar Þórarinssonar manns Guðrúnar Erlendsdóttur.

Móðir Guðrúnar á Vesturhúsum var Þórdís húsfreyja á Borgareyrum, áður á Vilborgarstöðum, Gjábakka og Stóru-Hildisey, f. 1800 á Vilborgarstöðum, d. 29. nóvember 1855 í Stóra-Dalssókn undir Eyjafjöllum, Magnúsdóttir bónda á Vilborgarstöðum 1801 og 1816, ekkli á Borgareyrum undir Eyjafjöllum 1845, f. 1771, d. 2. ágúst 1846 í Stóra-Dalssókn, Jónssonar í Gvendarhúsi Einarssonar og konu Jóns Einarssonar, Margrétar Brandsdóttur.
Kona Magnúsar á Vilborgarstöðum og móðir Þórdísar var Herborg Helgadóttir og móðir Herborgar var Guðríður Sveinsdóttir.

Guðrún Erlendsdóttir á Vesturhúsum var systir Guðmundar Erlendssonar hafnsögumanns í London og Þorgerðar Erlendsdóttur á Fögruvöllum, konu Sigurðar Vigfússonar.
Hún var líka hálfsystir, (af sömu móður), Guðríðar Guðmundsdóttur í Grímshjalli, konu Hannesar Gíslasonar, en þau voru foreldrar Andríu Hannesdóttur móður Hjálmars Ísakssonar skipasmiðs í Kuðungi.

Guðrún var með foreldrum sínum á Borgareyrum u. Eyjafjöllum 1845 og 1850. Við manntal 1855 var hún léttastúlka í Dalseli þar og þar var ekkjan móðir hennar húskona (dó á því ári).
Hún var vinnukona hjá Matthildi Magnúsdóttur og Þorsteini Jónssyni héraðslækni í Landlyst 1870.
Við manntal 1890 var hún húsfreyja á Vesturhúsum með eiginmanni, þrem börnum þeirra, Margréti Hafliðadóttur móður Guðmundar og niðursetningnum Helgu Þorláksdóttur, ekkju, 85 ára. Hún var líklega fyrrv. húsfreyja á Kirkjubæ og húsmóðir Guðmundar Þórarinssonar, er hann kom fyrst til dvalar í Eyjum. Hún var kona Sveins Sveinssonar bónda á Kirkjubæ.
1910 var Guðrún á Vesturhúsum með Guðmundi og Margréti tengdamóður sinni.
Tvö fósturbörn voru hjá þeim: Guðmundur Jóelsson Eyjólfssonar, dótturbarn þeirra 4 ára og Oddrós Anna Sigríður Oddsdóttir á Oddsstöðum Árnasonar Þórarinssonar 13 ára. Oddrós var hálfsystir Árna á Burstafelli.
Við manntal 1920 var Guðrún ekkja hjá dóttur sinni Guðleifu í Holti.

Maður Guðrúnar á Vesturhúsum, (18. okt. 1872), var Guðmundur Þórarinsson útvegsbóndi á Vesturhúsum, f. 28. des. 1850, d. 13. marz 1916, drukknaði við Álsey.
Börn Guðmundar og Guðrúnar voru:
1. Guðleif, kona Vigfúsar í Holti.
2. Magnús, kvæntur Jórunni Hannesdóttur.
3. Halla, gift Guðjóni Eyjólfssyni.
4. Þórdís, gift Jóel Eyjólfssyni.
Tvö fósturbörn þeirra:
5. Guðmundur Jóelsson.
6. Oddrós Anna Sigríður Oddsdóttir.

Sjá nánar Blik 1969: Vesturhúsafeðgarnir.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.