Guðmundur Jónsson (Málmey)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Guðmundur Jónsson í Málmey, verkamaður, sjómaður fæddist 7. febrúar 1875 í Eystri-Móhúsum á Stokkseyri og lést 25. nóvember 1953.
Foreldrar hans voru Jón Jónsson frá Gerðum í Flóa, formaður og aflakló á Stokkseyri, f. 20. júlí 1842 , d. 27. janúar 1903 í Eystri-Móhúsum, og fyrri kona hans Guðríður Stefánsdóttir frá Réttarhúsum í Innri-Njarðvík, húsfreyja, f. 13. október 1844, d. 19. október 1879.

Guðmundur flutti frá Eystri-Móhúsum á Stokkseyri til Eyja 1902.
Hann var vetrarmaður hjá Guðjóni Eyjólfssyni á Kirkjubæ (Norðurbæ) 1906, var sjómaður, stýrimaður á þilskipi P. Stangelands 1910, skráð heimili á Kirkjubæ 1913.
Guðmundur og Kristbjörg bjuggu á Hjalla 1914 og 1915, á Vestari Vesturhúsum 1918 og 1919.
Þau voru komin í Málmey 1920 með þrem börnum sínum. Þar bjuggu þau síðan.
Guðmundur lést 1953 og Kristbjörg 1967.

I. Sambúðarkona Guðmundar var Kristbjörg Einarsdóttir bústýra, húsfreyja, f. 2. desember 1886 í Málmey á Skagafirði, d. 27. nóvember 1967 í Eyjum.
Börn þeirra:
1. Einar Sæmundur Guðmundsson skipstjóri, útgerðarmaður, f. 14. júlí 1914, d. 21. mars 1995.
2. Jón Guðmundsson bifreiðastjóri á Selfossi, f. 15. júlí 1915, d. 26. desember 1994.
3. Árný Rósa Pálína Guðmundsdóttir í Miðey, húsfreyja, f. 15. júní 1918, d. 27. apríl 1974.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.