Guðmundur Guðmundsson (mormóni)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.
Guðmundur Guðmundsson gullsmiður.

Guðmundur Guðmundsson gullsmiður og trúboði frá Ártúnum á Rangárvöllum, síðar í Þorlaugargerði, fæddist 10. mars 1825 og lést 20. september 1883.
Faðir Guðmundar var Guðmundur bóndi í Ártúnum, síðar á Búlandi í A-Landeyjum, f. 1779 í Ólafshúsum u. Eyjafjöllum, d. 23. febrúar 1848 í Syðri-Vatnahjáleigu í A-Landeyjum, Benediktsson bónda í Ólafshúsum, f. 1740, Árnasonar bónda í Álfhólum í V-Landeyjum, f. 1712, á lífi 1801, Jónssonar, og konu Árna, Þorgerðar húsfreyju, f. 1711, á lífi 1801, Guðmundsdóttur.
Móðir Guðmundar í Ártúnum og kona Benedikts í Ólafshúsum var Sigríður húsfreyja, skírð 16. júlí 1751, d. 22. apríl 1819, Guðmundsdóttir bónda á Steinkrossi á Rangárvöllum, f. 1712, Hallvarðssonar, og konu Guðmundar, Katrínar húsfreyju, f. 1721, d. 17. júlí 1799, Helgadóttur.

Móðir Guðmundar gullsmiðs og kona Guðmundar í Ártúnum var Guðrún húsfreyja, f. 18. júní 1879, d. 14. janúar 1842, Vigfúsdóttir bónda í Búðarhóls-Austurhjáleigu (Hólavatni) í A-Landeyjum, síðar í Eystra-Fíflholti í V-Landeyjum, f. 1749, d. 27. febrúar 1813, Magnússonar bónda á Kirkjulandi í A-Landeyjum, f. 1702, á lífi 1763, Ólafssonar, og konu Magnúsar, Kristínar húsfreyju, f. 1712, d. 18. desember 1809, Jónsdóttur.
Móðir Guðrúnar í Ártúnum og kona Vigfúsar í Búðarhóls-Austurhjáleigu var Guðlaug húsfreyja, f. 1754, d. 5. júní 1820, Jónsdóttir bónda á Vindási á Landi, f. 1727, d. 12. febrúar 1787, Bjarnasonar, og konu hans, Ástríðar húsfreyju, f. 1729, d. 28. nóvember 1785, Jónsdóttur.

Systkini Guðmundar í Eyjum voru:
1. Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja í Hólmahjáleigu í A-Landeyjum, síðar í Draumbæ, f. 26. desember 1813, drukknaði 29. september 1855.
2. Árni Guðmundsson bóndi í Brekkuhúsi, f. 18. desember 1817, d. 20. júlí 1889, kvæntur Þóru Stígsdóttur.
3. Benedikt Guðmundsson vinnumaður í Háagarði, f. 19. apríl 1821, drukknaði 26. mars 1842. Hann var faðir Péturs í Þorlaugargerði ættföður eldri Oddsstaðasystkina.
4. Þorgerður Guðmundsdóttir vinnukona í Brekkuhúsi, f. 15. febrúar 1824, d. 1. júní 1866, ógift.
4. Guðrún Guðmundsdóttir húsfreyja í Vanangri, f. 19. september 1828, d. 9. september 1860, gift Magnúsi Eyjólfssyni silfursmið.

Guðmundur lærði gullsmíðar í Danmörku og vann um skeið við iðn sína þar, dvaldi þar þá í 6 ár. Hann tók þar mormónatrú, var skírður 15. febrúar 1851 og tók prestvígslu.
Hann kom til Eyja 1851.
Guðmundur var mormónatrúboði og forseti safnaðarins í Eyjum, starfaði þar í 3 ár, m.a. með Þórarni Hafliðasyni og Lofti Jónssyni í Þorlaugargerði, en hélt aftur til Danmerkur frá Þorlaugargerði 1854 og stundaði trúboð í hálft annað ár. Var hann fangelsaður þar og þoldi ýmsar kárínur vegna trúar sinnar og starfa, var m.a. þvingaður í herinn. Guðmundur var heilsuveill og þoldi illa herskylduna, var um skeið á sjúkrahúsi, en komst að lokum til Utah 1857.
Hann ferðaðist vestur í hópi mormónskra innflytjenda. Í för voru Maía Garff og maður hennar Niels. Hann lést á leiðinni og Guðmundur kvæntist Maríu og tók að sér 4 börn hennar.
Fjölskyldan hélt vestur til Sacramento í Kaliforníu og dvaldi þar í nokkur ár, en fluttist svo til Lehi í Utah þar sem Guðmundur vann sem gull- og úrsmiður.
Kona hans var María Guðmundsson af dönskum ættum. Þau eignuðust 3 börn.
Guðmundur lést 1883.
Börn þeirra hétu:
1. Abraham.
2. Isaac.
3. Jacob.
Ítarlegt efni um Guðmund, trúboðið í Eyjum og samstarf hans og Þórarins Hafliðasonar eftir Sigfús M. Johnsen er í Bliki 1960.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Blik 1960, Þórarinn Hafliðason.
  • halfdan.is.
  • Landeyingabók – Austur-Landeyjar. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjóri: Ragnar Böðvarsson. Austur-Landeyjahreppur, Gunnarshólma 1999.
  • Manntöl.
  • Our Pioneer Heritage Vol. 7. Kate B. Carter. Daughters of Utah Pioneers. Salt Lake City 1964.
  • Prestþjónustubækur.
  • Rangvellingabók. Valgeir Sigurðsson. Rangárvallahreppur, Hellu 1982.
  • Saga Vestmannaeyja. Sigfús M. Johnsen. Ísafoldarprentsmiðja h.f. 1946.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.