Grímur M. Steindórsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Grímur Marinó Steindórsson.

Grímur Marinó Steindórsson listamaður fæddist 25. maí 1933 að Vestmannabraut 76 og lést 5. júní 2019 á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð í Kópavogi.
Foreldrar hans voru Steindór Jónsson, þá bifreiðastjóri í Langa-Hvammi, f. 24. september 1909, d. 16. febrúar 2010 á Steinum u. Eyjafjöllum og sambýliskona hans Þórunn Ólöf Benediktsdóttir, síðar í Reykjavík, vinnukona, verkakona, saumakona, f. 24. júní 1912, d. 28. maí 1964.

Börn Steindórs og Þórunnar Ólafar:
1. Grímur Marinó Steindórsson listamaður, f. 25. maí 1933 á Vestmannabraut 76.
2. Dóra Steindórsdóttir húsfreyja, starfsstúlka, dagmóðir frá Hlíðardal, f. 28. nóvember 1934 í Langa-Hvammi.
3. Hrönn Steindórsdóttir, f. 26. febrúar 1936 á Hásteinsvegi 17, d. 16. mars 1936.
Barn Þórunnar Ólafar með James L. McKenney, bandarískum hermanni:
4) Hrafn Steindórsson blikksmiður, leigubifreiðastjóri, f. 8. janúar 1944.

Grímur var með vinnukonunni móður sinni á Vestmannabraut 76 við fæðingu 1933, með foreldrum sínum í Litla-Hvammi 1934, á Hásteinsvegi 17 og á Herjólfsgötu 12.
Foreldrar hans slitu samvistir sínar og Grímur fluttist til Reykjavíkur með móður sinni 1939.
Hann stundaði nám í Héraðsskólanum á Laugarvatni og sótti nám í Myndlista- og handíðaskólanum.
Grímur var lærður járnsmiður og vann við þá iðn sína, og lagði stund á höggmynda og málaralist.
Hann sótti sjóinn frá unga aldri, átti og gerði út trillu.

Listaverk Gríms Marinós eru víða um land, meðal annars Súlurnar á Hörgaeyrargarði í Eyjum, skútan við höfnina í Stykkishólmi, Beðið í von á Hellissandi, Vor við Fjölbrautaskólann á Húsavík og Friður, verðlaunaverkið um fund þeirra Gorbatsjov og Reagan í Reykjavík. Þá var verk hans Landpóstar vígt með athöfn við Staðarskála í Hrútafirði að viðstöddu fjölmenni, Jötnar fyrir utan Fjarðarkaup í Hafnarfirði. Í Kópavogi er Freyjublómið við Boðaþing.
Grímur Marinó myndskreytti einnig bækur..
Grímur Marinó tók tvisvar þátt í listasamkeppni og fékk jafnoft viðurkenningu fyrir verk sín. Hann fékk önnur verðlaun í samkeppni Listahátíðar um merki hátíðarinnar 1988 og sama ár fékk hann fyrstu verðlaun í samkeppni ferðamálanefndar Reykjavíkur um minjagrip í tilefni af leiðtogafundinum sem haldinn var í Reykjavík.
Grímur Marinó hélt fjölda sýninga, bæði einn og með öðrum, einkasýningar m.a. í Stöðlakoti, í Eyjum, Lions-heimilinu í Kópavogi, Safnahúsi Borgarfjarðar, Áhaldahúsi Kópavogs, Listasafni Kópavogs, Bókasafni Kópavogs, Hafnarborg, menningar- og listastofnun Hafnarfjarðar, safnaðarheimilinu Borgum, FÍM-salnum auk fjölda samsýninga, m.a. í Alþjóðlegri bóka- og listamessu í Sviss, Kongens Have, Skulpturbiennalen, Kaupmannahöfn, Nyborg í Danmörku, Kjarvalsstöðum, Gallerí Langbrók.
Árið 1992 hélt hann mikla sýningu í Perlunni í Reykjavík, með verkum úr stáli og grjóti. Hrafn Andrés Harðarson frændi Gríms orti ljóð við verkin og voru þau birt á veggjum. Gunnar Reynir Sveinsson tónskáld samdi tónlist við verkin og ljóðin.
Grímur stóð fyrir annarri sýningu í Perlunni og í bæði skiptin var boðið upp á tónlist Gunnars Reynis, m.a. verkið Málmgrímur og söngvasveigar hans við ljóð Hrafns Andrésar, Hlér og Tónmyndaljóð, og einnig gáfu þeir þremenningar út bók með heitinu Tónmyndaljóð, bæði á íslensku og ensku.
Á alheimsráðstefnu World Renewable Energy í Flórens átti að heiðra þá þjóð, sem mest hefur lagt af mörkum til að breyta innviðum sínum í sjálfbæra orkugjafa. Verðlaunagripurinn var listaverk eftir Grím Marinó Steindórsson, sem hannaði sérstakan táknrænan grip; skip sem siglir fullum seglum vindorku, með sólargeisla yfir hraunmola í skál á þilfari, tákn jarðvarma og vatnsafls. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti orkumálaráðherra Kýpur verðlaunagripinn í glæsilegum hallarkynnum Palazzo Pitti.
Grímur bjó í Kópavogi um áratugaskeið, var útnefndur bæjarlistamaður Kópavogs.
Verk hans eru í opinberri eigu víða um land.
Þau Rósa eignuðust tvö börn.
Rósa lést 2015 og Grímur Marinó 2019.

I. Kona Gríms Marinós var Rósa Jónsdóttir frá Ártúni á Langanesi, húsfreyja, bifreiðastjóri, starfsmaður hjá Bifreiðastöð Reykjavíkur (BSR), f. 13. október 1942 á Ártúni, d. 9. nóvember 2015. Foreldrar hennar voru Jón Ólafsson bóndi, f. 11. mars 1901, d. 7. október 1945 og kona hans Rósa Gunnlaugsdóttir húsfreyja, f. 11. nóvember 1911, d. 17. mars 2004.
Börn þeirra:
1. Jón Þór Grímsson sjómaður, kjörbarn, f. 10. janúar 1965, d. 23. september 2018.
2. Gríma Sóley Grímsdóttir húsfreyja, f. 9. júní 1974. Maður hennar er Viðar Guðmundsson.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.