Gísli Stefánsson (kaupmaður)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. desember 2016 kl. 19:59 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. desember 2016 kl. 19:59 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Gísli Stefánsson


Gísli Stefánsson kaupmaður fæddist 28. ágúst 1842 og lést 25. september 1903. Hann var kvæntur Soffíu Lisbeth Andersdóttur frá Stakkagerði.

Börn þeirra voru Friðrik f. 1870, Jes f. 1872, Ágúst Gíslason, f. 1874, Stefán f. 1876, Anna Ásdís f. 1878, Guðbjörg Jónína f. 1880, Jóhann f. 1883, Lárus f. 1885, Kristján f. 1891 og Rebekka.

Á meðal afkomenda hans eru Gísli Stefánsson frá Ási og Friðrik Jesson.


ctr


Fjölskyldan í Hlíðarhúsi um 1895.


Skýring við fjölskyldumynd frá Hlíðarhúsi samkv. Þóri Óskarssyni, Kárasonar og Jes Einari Þorsteinssyni, Einarssonar.
Fremsta röð frá vinstri: Friðrik Gísli ljósmyndari, f. 1870, d. 1906, Gísli Stefánsson kaupmaður, húsbóndi, f. 1842, d. 1903, heldur á (líklega) Rebekku, f. 1889, d. 1897, Soffía Lísbet húsfreyja, f. 1847, d. 1936, heldur á Kristjáni sjómanni, f. 1891, d. 1948.
Miðröð frá vinstri: Anna Ásdís, síðar Johnsen, húsfreyja, f. 1878, d. 1945, Guðbjörg Jónína, síðar Petersen og síðast kona Sæmundar Jónssonar, húsfreyja, f. 1880, d. 1969, Jóhann sjómaður og verkamaður, f. 1883, d. 1944 og Lárus ljósmyndari, f. 1885, d. 1950.
Aftasta röð frá vinstri: Ágúst útvegsbóndi, f. 1874, d. 1922, Jes Anders á Hól, prestur, verzlunarstjóri, kennari, bókasafnsvörður, f. 1872, d. 1961 og Stefán útvegsbóndi og veitingamaður á Sigríðarstöðum, f. 1876, d. 1953.
Friðrik Gíslason tók myndina.


ctr


Hlíðarhús.


Gísli Stefánsson kaupmaður í Hlíðarhúsum fæddist 28. ágúst 1842 í Selkoti undir Eyjafjöllum og lést 25. september 1903 í Reykjavík.
Faðir hans var Stefán bóndi og stúdent á Rauðafelli, í Selkoti, í Miðbæli, í Varmahlíð og (1814) aftur í Selkoti undir Eyjafjöllum, f. 3. apríl 1772, d. 12. desember 1854, Ólafsson bónda, silfursmiðs og hreppstjóra í Selkoti 1801, f. 1742, d. 5. október 1814, Jónssonar bónda á Lambafelli, síðar bónda og lögréttumanns í Selkoti, getið á Alþingi 1747-1765, f. um 1703 og er látinn 1782, og konu Jóns, Vigdísar húsfreyju, f. 1705, Magnúsdóttur lögréttumanns Brandssonar.
Móðir Stefáns í Selkoti og kona Ólafs bónda var Guðlaug húsfreyja þar 1801, f. 1735, Stefánsdóttir prests, síðast að Laufási í Eyjafirði 1738-dd., f. 1699, d. 1. nóvember 1754, Einarssonar bónda í Borgarfirði, og konu sr. Stefáns, Jórunnar húsfreyju, f. um 1699, d. 7. nóvember 1775, Steinsdóttur biskups Jónssonar. Jórunn átti fyrr Hannes Lauritzson Scheving sýslumann og var dóttir þeirra Þórunn Hannesdóttir Scheving, (því hálfsystir Guðlaugar í Selkoti), kona Jóns Vigfússonar klausturhaldara Reynistaðarklausturs, en síðar kona Jóns eldklerks Steingrímssonar.

Móðir Gísla kaupmanns í Hlíðarhúsum og þriðja kona Stefáns í Selkoti var Anna húsfreyja, f. 12. apríl 1803 í Vogsósum í Selvogi, d. 11. júlí 1879 í Hlíðarhúsi, Jónsdóttir „mjóa“, þá prests í Vogsósum, en síðast í Stóradalsþingum og bjó þá í Mið-Mörk, f. 9. ágúst 1772 í Hvammi í Skaftártungu, d. 8. júní 1843, Jónssonar bónda í Hraungerði í Álftaveri, en síðast í Langholti í Meðallandi, f. 1739, og konu Jóns bónda, Halldóru húsfreyju, f. 1741, Þorsteinsdóttur.
Móðir Önnu og fyrri kona (1799) sr. Jóns var Ingveldur húsfreyja, f. í september 1771, d. 2. júlí 1823, Sveinsdóttir prests og prófasts í Hraungerði í Árnessýslu, f. 1725, d. 8. október 1805, Halldórssonar, og konu sr. Sveins, Önnu, f. 1731, d. 22. febrúar 1797, Eiríksdóttur, systur Jóns konferensráðs.

Kona Gísla í Hlíðarhúsum var Soffía Lísbet húsfreyja. Hún var barn í Sjólyst 1845, síðar í Stakkagerði, skráð Sophie Elísebet Andersdóttir í prestþjónustubók, f. 8. október 1847, d. 10. júní 1936, Andersdóttir skipstjóra frá Arendal í Noregi, Asmundsen. Skúta hans fórst með allri áhöfn 1851. Við Anders er kennt Andersarvik, en þar bjargaði hann barni frá drukknun.

Á æskuskeiði stundaði Gísli Stefánsson hefðbundin landbúnaðarstörf hjá foreldrum sínum og einnig sjómennsku við Eyjafjallasand, en einkum við Jökulsá á Sólheimasandi.
Hann kom til Eyja um 1860 og gerðist brátt „saltmaður “ við Garðsverslun hjá N. N. Bryde, sá um salt og tók við blautfiski.
Hann kvæntist síðan Soffíu dóttur Ásdísar Jónsdóttur og Anders Asmundsens í Stakkagerði.
Þau Soffía hófu búskap í Selkoti, en bjuggu þar aðeins eitt ár, en hættu vegna leiða Soffíu. Fluttust þau þá aftur til Eyja og bjuggu þar síðan.
Þau keyptu Jónshús, (nú Hlíðarhús) af Torfa Magnússyni og bjuggu þar síðan. Þar ól Soffía 10 börn.

Gísli hóf verslunarstörf hjá N. N. Bryde, en 1881 hóf hann sjálfstæðan verslunarrekstur. Hann bauð fólki að flytja inn vörur fyrir pöntunarsamtök þeirra, þar sem hann keypti vörur frá Englandi fyrir íbúana. Fór hann sjálfur til Englands til að kaupa vörurnar og valdi sjálfur. Ýmsar nýjar og nýstárlegar vörutegundir flutti hann til Eyja, t.d. fór þá bárujárn að sjást þar og nýtast. Með þessu móti ruddi hann braut verslun íslenskra manna í Eyjum og átti þá í samkeppni við dönsku selstöðukaupmennina, sem rekið höfðu einokun þar. Var verð hans mun hagstæðara (sjá Blik 1974/Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum).

Matarþörf heimilisins var mikil, en þar voru oft 15-20 manns til borðs.
Landbúnaður var Gísla þessvegna hugleikinn. Hann fékk ábúð á einni Kirkjubæjarjörðinni og á annari Dalajörðinni, en síðast á Eystri-Presthúsajörðinni. Hann ræktaði tún í heiðinni milli Stakkagerðis og Vesturhúsa, Hólstúnið austan Breiðabliks og einnig við Hlíðarhús. Var áburðurinn, sem var fiskslóg, borinn á handbörum og í skrínum, en fyrsta handvagninn flutti hann til Eyja til þessarra flutninga og annarra.
Garðrækt stundaði Gísli af krafti. Byggði hann vermireiti fyrir frumræktun matjurta.
Útgerð stundaði Gísli einnig og af sama kappi.
Smiður var hann góður, bæði á tré og járn.
Hann var bindindismaður og hafði tekið þátt í bindindisfélagi séra Brynjólfs Jónssonar.

Trúnaðarstörf Gísla voru margvísleg. Hann vann fyrir Skipaábyrgðarfélagið, sat í sýslunefnd 1874-1903, yfirskattanefnd, var kjörinn í skólanefnd 1882, en hún hafði umsjón með barnaskólabyggingunni 1883. Sæti átti hann í Framfarafélaginu.

„Hann var ráðhollur maður, enda prettlaus og heill, og leituðu margir ráða hjá honum í vandræðum sínum og þótti gefast vel,“ segir Jóhann Gunnar Ólafsson í sögu Bátaábyrgðarfélagsins 1939.

Börn þeirra Soffíu voru:
1. Friðrik Gísli Gíslason, f. 11. maí 1870, d. 15. janúar 1906.
2. Jes Anders Gíslason, f. 28. maí 1872, d. 7. febrúar 1961.
3. Ágúst Gíslason, 15. ágúst 1874, d. 24. desember 1922.
4. Stefán Gíslason, f. 6. ágúst 1877, d. 11. janúar 1953.
5. Anna Ásdís Gísladóttir Johnsen, f. 11. október 1878, d. 23. febrúar 1945.
6. Guðbjörg Jónína Gísladóttir Petersen, f. 25. ágúst 1880, d. 29. nóvember 1969.
7. Jóhann Gíslason, f. 16. júlí 1883, d. 1. mars 1944.
8. Lárus Gíslason, f. 9. ágúst 1885, d. 21. júlí 1950.
9. Kristján Gíslason, f. 16. janúar 1891, d. 10. febrúar 1948.
10. Rebekka Gísladóttir, f. 22. janúar 1889, d. 24. apríl 1897.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.