Brynjólfur Einarsson (skipasmiður)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. júní 2007 kl. 14:20 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. júní 2007 kl. 14:20 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit
Brynjólfur bátasmiður

Brynjólfur Einarsson, bátasmiður, var fæddur á Brekku í Lóni 7. júní 1903. Hann lést 93 ára að aldri 11. apríl 1996. Hann var kvæntur Hrefnu Hálfdánardóttur.

Brynjólfur orti mikið af vísum og birtum við hér smá sýnishorn.

Þessa vísu orti Brynjólfur vegna mengaðs vatns í Vestmannaeyjum af völdum gossins í Surtsey:

Breyti um veður þá veit ég þú sérð
í vatnsmálum okkar hvað skeður.
Hér verður allsherjar gosdrykkjagerð
gang'ann í útsynnings veður.


Þá samdi Brynjólfur formannavísu um Einar Svein Jóhannesson, skipstjóra:

Einn sem hér af öðrum ber
aflamaður mikill,
oft á sjó í illu fer
Einar Sveinn Jóhannesson.


Hér kemur afmælisvísa sem bátasmiðurinn hagyrti setti saman:

Brynjólfur í eldhúsinu á Hraunbúðum.
Óprýða ljótir lestir
lífsferil þessa manns
enda formæla flestir
fæðingardegi hans.


---

Fjandi fannst mér það skrítið
að fá henni svona breytt.
Hún færðist úr lagi lítið
en lagaðist ekki neitt.

---

Eyverjar flestir eru nú
uppteknir þorsk að skera.
Þó er eindregin þeirra trú
að þetta sé heilög vera.

---

Kristján féll úr fræðslunefnd
flestum þótti lítið tap.
Ætli það sé ekki hefnd
á hann fyrir bulluskap


Brynjólfur var skipasmiður og vann í slippnum. Einhverju sinni urðu heitar umræður á þeim vinnustað um þá óráðvendni sumra manna að stela fýlseggjum sem jarðabændur ættu tilkall til. Sá er mest kvartaði yfir þessum þjófnaði hafði lent í því fyrir skömmu að stela lögreglubílnum, ölvaður. Þegar hann hafði lokið reiðilestri sínum um eggjaþjófana, sagði Brynjólfur af sínu kunna hæglæti:

Hugar mér vekur víl
að verða að umgangast skríl.
Einn stelur eggjum og fýl,
annar fógetans bíl.


Hér yrkir Brynjólfur síðan um vísur sínar:

Um vísur mínar helst er þetta að hafa í minni
þær áttu við á einum stað
og einu sinni.



Heimildir

  • Dagblaðið Tíminn 8. desember 1963.
  • Vísnasafn Sigurðar J. Gíslasonar í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.
  • Sigurgeir Jónsson. Nýjar sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum.