Borg

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 9. júlí 2007 kl. 10:32 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 9. júlí 2007 kl. 10:32 eftir Daniel (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Einnig stóð hús við Stakkagerðistún sem hét Borg. Sjá Borg (við Stakkagerðistún)


Húsið Borg

Húsið Borg stóð við Heimagötu 3a og var reist sumarið 1904 til að hýsa Barnaskólann í Vestmannaeyjum. Yfirsmiður við byggingu hússins var Ágúst Árnason og aðrir smiðir sem komu að byggingu hússins voru Magnús Ísleifsson í London og Sigurður í Merkisteini. Einnig var þarna þinghús Vestmannaeyja, réttarsalur og fangelsi, sem var viðbygging austast á húsinu.

Áður stóð á lóðinni torfhús sem reist var á tíð Andreas August von Kohl sýslumanns og hafði verið þinghús Eyjanna frá 1857.

Borg var timburhús á tveimur hæðum, með hlöðnum kjallara og kom sérstakt timburskip með viðinn og músteina. Var það mjög vel byggt og var annað stærsta húsið í Eyjum á sínum tíma, aðeins Austurbúðin var stærri.

Barnaskóli Vestmannaeyja

Sjá aðalgrein: Barnaskólinn í Vestmannaeyjum

Haustið 1904 hóf Barnaskólinn starfsemi sína í þessu nýja húsnæði. Var skólinn á báðum hæðum, með tvær stofur á efri hæð og eina stofu og leikfimisal á þeirri neðri. Eftir því sem leið á árin og bærinn stækkaði varð húsið of lítið til að hýsa barnaskólann, þannig að skólinn flutti í annað nýbyggt húsnæði við Landakirkju árið 1915. Einnig var á þessum sömu árum Bókasafn Vestmannaeyja þar til húsa.

Gamla bíó

Borg.

Árið 1917 keyptu Sigurjón Högnason frá Baldurshaga og Arnbjörn Ólafsson á Reyni Borg á 13 þúsund krónur og komu á fót kvikmyndarekstri í húsinu. Á vesturhluta hússins stóð „Biograph Theatre — Moving Pictures“.

Rýmið á neðri hæð hússins var stækkað þannig að þetta var einn stór salur með tjaldið á vesturvegg salarins. Salurinn tók 118 manns í betri sæti og 72 í almenn sæti, en fremst voru þrír bekkir með barnasætum. Norðan megin við tjaldið var klefi þar sem spilað var á píanó í tíð þöglu kvikmyndanna. Gengið var inn í húsið að austan og var þar miðasala og sýningarklefi. Salurinn var fallega skreyttur af Engilberti Gíslasyni listmálara. Sunnan megin við tjaldið var málverk af grísku goði og fyrir ofan glugga voru grískar leikgrímur.

Arnbjörn var sýningarstjóri, Sigurjón sá um litla rafstöð, sem var í gamla fangaklefanum. Kvikmyndahúsið þurfti að hafa sér rafstöð vegna þess að Rafstöðin gat ekki haft svo stóran notanda.

Fyrsta kvikmyndin, sem var sýnd 3. mars, hét Zirli. Kunnu Vestmannaeyingar vel að meta þessa nýjung. Var það ósjaldan að fólk lifði sig inn í myndirnar og sem dæmi má nefna að þegar lestirnar komu æðandi á móti áhorfendum eins og þær ætluðu út úr tjaldinu mátti heyra: „Jón, Jón, passaðu börnin!“

Kvikmyndahúsið var að Borg til ársins 1930, er Nýja bíó varð að kvikmyndahúsi. Póststjórn tók neðri hæðina á leigu og var þá pósthús þar frá 1931 til 1948. Póstmeistari var Ólafur Jensson.

Árið 1948 keypti Sigurjón eignarhluta Arnbjarnar og átti þá húsið einn. Eftir að Barnaskólinn flutti starfsemi sína var efri hæðin innréttuð sem íbúð og átti Sigurjón heima þar ásamt konu sinni, Kristínu Þórðardóttur, til dauðadags 1958, en kona hans lést árið 1948.

Fram að gosi bjó Garðar sonur Sigurjóns, rafveitustjóri í Eyjum, ásamt konu sinni, Ástu Kristinsdóttur frá Löndum, og tveimur börnum þeirra Kristínu og Þóri á efri hæðinni


Heimildir

  • Guðjón Ármann Eyjólfsson. Vestmannaeyjar - byggð og eldgos. Reykjavík: Ísafoldaprentsmiðja, 1973.
  • Íbúaskrá Vestmannaeyja 1. desember 1972.