Blik 1980/Bréf til vinar míns og frænda, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. október 2010 kl. 10:55 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. október 2010 kl. 10:55 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda
Tveir æviþættir
(3. hluti, lok)


Björn Guðmundsson, kaupmaður og útgerðarmaður, var einn af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórninni. Hann sat einnig í útgerðarstjórn togaranna.
Það er gömul reynsla mín af Birni kaupmanni, að hann sé fjárglöggur maður og vel skyni gæddur um meðferð fjár og rekstur fyrirtækja. Þess vegna birti ég hér tillögu hans og greinargerð, sem hann lagði fram í bæjarstjórn síðla árs 1952:
„Í framhaldi af tillögu minni í útgerðarstjórn og bókuð er í fundargjörð útgerðarstjórnar 16. sept. s.l., þá legg ég til, að annað skip bæjarútgerðarinnar verði selt. Verði fyrst reynt að selja skipið til einstaklinga eða félaga með búsetu í bænum. Sé það ekki unnt, þá verði hvatt til fundar í bæjarstjórn og þar tekin ákvörðun um, hvort reynt skuli að selja það burt úr bænum.

Greinargerð:

Svo sem kunnugt er, hefur fjárhagur Bæjarútgerðarinnar alla tíð verið mjög erfiður og stöðugt sigið á ógæfuhliðina í þessum efnum. Hefur bæjarsjóður sí og æ orðið að láta þessu fyrirtæki sínu aukið fjármagn í té og nú seinast fyrir nokkrum mánuðum lét bæjarsjóður útgerðinni í té 2 millj. króna. Þrátt fyrir þetta mun hagur Bæjarútgerðarinnar aldrei hafa verið verri en nú. Má í þessu sambandi benda á annað skip útgerðarinnar, „Bjarnarey“, sem lá bundið við bryggju 13 mánuði og komst ekki á veiðar vegna þess, að Bæjarútgerðina brast fjárhagsleg geta til þess að koma skipinu á veiðar. Og loks er tókst að ýta skipinu úr vör, var það gert með hjálp frystihúsanna í Vestmannaeyjum, sem áhuga höfðu á að verða sér úti um fisk til frystingar.
Viðurkennt er, að það er allra hagur, að Eyjatogararnir séu gerðir út héðan úr bænum. Hins vegar er það orðið mjög almennt viðurkennt, að bæjarsjóði er gjörsamlega um megn að standa í svo stórfelldum taprekstri, sem útgerð bæjartogaranna er, og hefur þar að auki ekki möguleika til þess að útvega frekara fjármagn til útgerðarinnar, sem henni er þó lífsnauðsyn á. Vil ég í þessu sambandi benda á ummæli útgerðarstjóra varðandi frekari fjárútvegun til Bæjarútgerðarinnar, svo og stöðvun Bjarnareyjar, sem fyrr er getið.
Nú hníga margar stoðir undir þá skoðun, að frystihúsin hafi allmikinn áhuga á að fá til frystingar fisk, sem togarar einir hafa möguleika á að afla. Þess vegna hefi ég í tillögu minni um innanbæjarsölu togaranna einmitt haft þau í huga. Ef svo vel til tækist, að þessir aðilar vildu kaupa, væru tvær flugur slegnar í einu höggi: Bæjarsjóður firrtur miklu fjárhagstjóni, og svo væri að miklu eða öllu leyti tryggt, að sú atvinna, sem togararekstur skapar, haldi áfram í líkum ef ekki stærri mæli en hingað til.“

Björn Guðmundsson


Þessa tillögu Björns bæjarfulltrúa samþykkti bæjarstjórn Vestmannaeyjakaupstaðar með 7 atkvæðum samhljóða. Tveir fulltrúar greiddu ekki atkvæði.
Unnið var að því fram á haust, að fá fiskvinnslustöðvarnar í bænum til þess að kaupa í sameiningu Bæjartogarana og gera þá út, með því að of lítið var um hráefni hjá þeim til vinnslu á vissum tímum ársins a.m.k.
Loks létu þeir tilleiðast að senda bæjarstjórn sameiginlegt tilboð í togarana. Tilboð þeirra var tekið fyrir á bæjarstjórnarfundi 13. nóvember (1952). Ekki man ég nú orðið, hve hátt það var. En á fundi þessum bar Hrólfur Ingólfsson fram svohljóðandi tillögu:
„Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að hafna framkomnu tilboði dags. 3. þ.m. frá Vinnslustöð Vestmannaeyja og Fiskiðjunni h/f um kaup á togurum Bæjarútgerðar Vestmannaeyja. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að gera nefndum aðilum gagntilboð.“
Svo greinir tillögumaður verð togaranna beggja. Skyldi söluverð þeirra vera kr. 11,2 milljónir króna, og skyldu kaupendur greiða kr. 1,2 millj. við undirskrift samningsins og taka að sér áhvílandi skuldir kr. 7,9 millj. Afgangurinn skyldi síðan greiðast á 10 árum með jöfnum greiðslum og 4% vöxtum.
Vildu ofangreindir aðilar ekki kaupa skipin, var sú hugmynd orðuð, að stofnað yrði hlutafélag í bænum um togarana og ætti þá kaupstaðurinn helming hlutafjárins.
Í bæjarstjórninni urðu miklar og heitar umræður um þetta mál svo að gneistaði. - Því var mótmælt, að Sighvatur Bjarnason, skipstjóri, útgerðarmaður og bæjarfulltrúi, hefði rétt til að greiða atkvæði um gagntilboðið, þar sem hann var einn af aðaleigendum Vinnslustöðvarinnar. Sama máli gegndi um Þorstein Sigurðsson, bæjarfulltrúa, sem var einn af þrem eigendum Fiskiðjunnar h/f.
Forseti bæjarstjórnarinnar, Helgi Benediktsson, kaupmaður og útgerðarmaður, taldi sig ekki eiga atkvæðisrétt í þessu máli, þar sem hann ætti sæti í stjórn Ísfélags Vestmannaeyja.
Tillaga Hrólfs bæjarfulltrúa var síðan borin undir atkvæði og sögðu við nafnakall þessir fulltrúar: Hrólfur Ingólfsson, Þorsteinn Þ. Víglundsson, Björn Guðmundsson og Guðlaugur Gíslason.
Nei sögðu bæjarfulltrúar Sósíalista, Þorbjörn bóndi Guðjónsson og Gísli Þ. Sigurðsson.
Þrír bæjarfulltrúar töldust ekki hafa atkvæðisrétt samkvæmt framanrituðu.
Þessa menn kaus síðan bæjarstjórnin til þess að hafa á hendi sölu bæjartogaranna: Hrólf Ingólfsson, Björn Guðmundsson og Þ.Þ.V. Þessi sölunefnd var samþykkt í bæjarstjórn með sex atkv. gegn einu.
Ekki reyndust nein tök á að selja togarann innan bæjar við sæmilegu verði.
Nú liðu mánuðir með framhaldi bæjarins á togaraútgerðinni og sívaxandi töpum.
Á bæjarstjórnarfundi 12. marz 1953 bar Guðlaugur Gíslason, bæjarfulltrúi, fram þessa tillögu:
„Legg til, að togarasölunefnd með skírskotun til meðfylgjandi greinargerðar verði falið að kanna, hvort möguleikar eru fyrir sölu annars bæjartogarans utan bæjar og þá fyrir hvaða verð, þar sem sjáanlega ekki er möguleiki fyrir sölu innan bæjar.“

Greinargerð:

„Ég tel, að fjárreiður Bæjarútgerðarinnar séu komnar í það öngþveiti og þá sjálfheldu, að fyrirsjáanlegt er, verði haldið áfram á sömu braut, að töpin á útgerðinni muni koma í veg fyrir eðlilega þróun bæjarfélagsins um ófyrirsjáanlegan tíma. Eftir því sem næst verður komizt munu heildarskuldir útgerðarinnar hafa numið um 14 milljónum króna við s.l. áramót. Sé aðeins gert ráð fyrir 500 þúsund króna reksturshalla hjá útgerðinni á næstu fjórum árum, verða skuldir hennar komnar upp í 16 milljónir króna.
Verðmæti togaranna og þess, sem þeim fylgir, hefur verið áætlað í dag um 11 milljónir.
Viðhaldskostnaður skipanna mun aukast eftir því sem þau eldast, en verðgildi þeirra rýrna samtímis. Þannig er það bjartsýni, að gera ráð fyrir því, að verðmæti þeirra að fjórum árum liðnum verði meira en 8 milljónir króna. Yrði bæjarfélagið því að þeim tíma liðnum komið í 8 milljón króna skuld vegna útgerðarinnar umfram hugsanleg verðmæti hennar. Ég tel líka þessa fjármálastefnu of glæfralega fyrir bæjarfélag, sem halda verður á öllu sínu til þess að fullnægja þeim eðlilegu kröfum, sem almenningur gerir til áframhaldandi þróunar bæjarfélagsins.“
Hér lýkur greinargerð.
Nafnakall fór fram um togarasöluna í bæjarstjórninni.
Já sögðu: Magnús Bergsson, Guðlaugur Gíslason, Björn Guðmundsson, Hrólfur Ingólfsson, Þorsteinn Þ. Víglundsson.
Nei sögðu: Helgi Benediktsson, Þorbjörn Guðjónsson og Sigurjón Sigurðsson. Þorsteinn Sigurðsson sat hjá.
Togarasölunefnd vann síðan sleitulaust að því að útvega kaupendur að Bæjartogurunum og bjarga þannig því, sem bjargað varð í efnahagsmálum bæjarins, hvað svo sem hrópum og lastyrðum leið, brigzlyrðum og bægslagangi hinna hamrömmu kjósenda og aðdáenda Bæjarútgerðarinnar.
Í byrjun september 1953 hafði útgerðarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og bæjarstjórn sett fram viðunandi tilboð í annan togarann, Elliðaey.
Knúinn var fram aukafundur í bæjarstjórn Vestmannaeyja 11. sept 1953, til þess að fjalla um gjörðir togarasölunefndar og tilboð Hafnarfjarðarkaupstaðar.
Á fundi þessum bárum við fram svohljóðandi tillögur:
Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir að selja annað skip Bæjarútgerðarinnar svo fremi að viðunandi verð fáist og felur togarasölunefnd að eiga viðræður við þá aðila, sem tilboð hafa gert í skipið og leggja niðurstöður sínar fyrir bæjarstjórn til endanlegrar afgreiðslu.

Björn Guðmundsson
Þorsteinn Þ. Víglundsson
Guðlaugur Gíslason
Þorsteinn Sigurðsson
Jónas Jónsson

Tillaga þessi var samþ. með 6 atkv. gegn 2.
Þá báru fulltrúar Sósíalista fram þessa tillögu:

„Bæjarstjórn telur, að sala á togurum bæjarins burt úr byggðarlaginu sé í alla staði óeðlileg án þess að eigendum skipanna, bæjarbúum, sé gefinn kostur á að segja álit sitt um þá ráðstöfun, þar sem engar líkur eru til þess, að bæjarfélagið eigi þess kost á nálægum tíma að eignast botnvörpuskip á nýjan leik, þótt vilji til þess væri fyrir hendi. Bæjarstjórn samþykkir því að lýsa yfir, að togarar Vestmannaeyjabæjar séu ekki til sölu.“
Tillaga þessi var felld með 6 atkvæðum gegn 3.
Þá báru sömu menn fram þessa tillögu til vara:
„Bæjarstjórn samþykkir að láta fara fram almenna atkvæðagreiðslu meðal bæjarbúa um það, hvort selja skuli togarana úr eign bæjarins eða ekki.“
Tillaga þessi var felld með 5 atkv. gegn 3.
Tillaga til þrautavara: „Söluverð skipsins verði eigi lægra en 6,5 milljónir króna án veiðarfæra.“ - Tillaga þessi var felld með 5 atkv. gegn 2.
Þá lestu þetta í fundargjörð bæjarstjórnar:
„Helgi Benediktsson greiðir atkvæði með tillögunni með skírskotun til samþykktar Framsóknarfélags Vestmannaeyja um að sala skipanna verði ekki ákveðin nema að undangenginni atkvæðagreiðslu meðal kjósenda í bænum.“
Mér var fyllilega ljóst strax, að þessi bókun var áminning til mín. Í fyrsta lagi vissi ég vel, hvernig þessi samþykkt Framsóknarfélagsins var undir komin. Í öðru lagi þekkti ég sjálfan mig það vel, að „mér varð aldrei markaður bás meira en svona og svona“, vissi, að mér var það eiginlegast að láta samvizku mína og sannfæringu ráða gjörðum mínum í hverju tilviki, sem skipti einhverju máli, og taka svo afleiðingunum með þreki og karlmennsku. Við því var ég ætíð búinn hverju sinni. Ég hefði ekki átt gott með að svæfa sannfæringu mína í einhverjum þingflokki og hlýða skilyrðislaust, - samlaga mig tiktúrum eða duttlungum framámanna og aka seglum eftir vindi eða hverjum goluþyt í stjórnmálum frá degi til dags eða ári til árs. Sökum þessa „afleita“ eiginleika míns, hafa t.d. Eyjaskeggjar alltaf getað ætlað á það, hvoru megin hryggjar ég lægi, ef til minna kasta hefur komið um eitthvert mál.
Þegar hér var komið í togstreitunni í togarasölumálinu, létu fulltrúar Sósíalista í bæjarstjórn bóka eftirfarandi yfrlýsingu:
„Fulltrúar Sósíalista í bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsa yfir því, að þeir muni að sjálfsögðu viðurkenna þá staðreynd, að myndazt hefur nýr meiri hluti í bæjarstjórninni, þar sem er samstarfshópur Sjálfstæðisflokksins og Þorsteins Þ. Víglundssonar. Bein afleiðing þessa liggur því fyrir, að sá meiri hluti, sem til þessa hefur borið ábyrgð á störfum bæjarstjórnarinar, er ekki lengur fyrir hendi.“
Satt að segja kom þessi bókun ekki við mig, snart mig ekki. Ég þekkti svo vel drengskap og manndóm Þorbjörns bónda Guðjónssonar á Kirkjubæ, sem var þarna annar fulltrúi Sósíalista í bæjarstjórninni, að hann mundi aldrei bregðast málefnum þeirra, sem við töldum standa höllum fæti í bæjarfélaginu, með því að slíta allri samvinnu við mig í þeim sameiginlegu hugsjónamálum okkar. Þá yrði þar með öllum vinstri öflunum í bæjarstjórninni tvístrað, fyrst ég ætti ekki samleið með þeim í þessum risavöxnu fjárhagsmálum bæjarfélagsins.
Ýmisleg mikilvæg menningarmál m.m. dró okkur Þorbjörn bónda hvorn að öðrum. Um vorið (1953) höfðum við t.d. flutt saman tillögu í bæjarstjórn um byggingu safnahúss í kaupstaðnum. Þetta var okkur báðum brennandi hugsjónamál. En ýmsir erfiðleikar steðjuðu að. Ekkert framtak í byggingarmálum mátti eiga sér stað í landinu nema með leyfi hins svokallaða Fjárhagsráðs, sem var einskonar alveldisnefnd ríkisvaldsins á þeim tímum.
Tillaga okkar Þorbjarnar bónda var þessi: „Bæjarstjórn samþykkir að fela bæjarstjóra að sækja um til Fjárhagsráðs nauðsynleg leyfi til að mega byggja hús yfir bókasafn, byggðarsafn og skjalasafn bæjarins og yrði leyfið miðað við að verkið gæti hafizt í sumar.“ - Þessa tillögu okkar sambykkti bæjarstjórnin einróma. En engu fékkst framgengt á þeim einveldisárum guðfræðiprófessorsins við Háskóla Íslands, sem var formaður Fjárhagsráðs, enda vorum við Þorbjörn ekki á hægra brjóstinu þar. Það er víst og satt. Og þá heldur ekki meirihluti bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum, eins og blærinn var þá á honum. En sameiginleg sorg sameinar sálir. Eitthvað í þá átt var því varið einnig með okkur Þorbjörn Guðjónsson, bónda og bæjarfulltrúa.
Við Þorbjörn bóndi áttum þó eftir að koma ýmsum góðum málum í farsæla höfn til hagsældar bæjarfélaginu okkar. Og eru mér þá efst í huga mjólkurmálin og skólamálin, svo sem bygging Gagnfræðaskólans o.fl. o.fl. Enda reyndist ofanrituð bókun samstarfsmanna minna í bæjarstjórn aðeins meiningarlaus orðaflaumur.
Þegar leið fram í september haustið 1953 gaf Hafnarfjarðarkaupstaður kost á því að kaupa annan Vestmannaeyjatogarann. Þá var kallaður saman aukafundur í bæjarstjórn. Þar var gert uppkast að sölusamningi. - Þrír bæjarfulltrúar Hafnarfjarðarkaupstaðar ásamt forstjóra útgerðar kaupstaðarins komu síðan til Eyja, og við gerðum út um togarakaupin. Þá samningsgjörð önnuðumst við Björn Guðmundsson, bæjarfulltrúi og kaupmaður, en við skipuðum togarasölunefndina f.h. bæjarstjórnar. Að sjálfsögðu höfðum við náið samráð við bæjarstjórnina í heild í þessu starfi okkar.
Hafnfirðingar keyptu sem sé togarann Elliðaey. Kaupverð var kr. 5,5 milljónir.
Þegar þessu var lokið, var samþykkt í bæjarstjórn kaupstaðarins að leita eftir hlutafé hjá bæjarbúum til þess að halda togaranum Bjarnarey í bænum og geta gert hann sómasamlega út. Þar voru allir bæjarfulltrúar á eitt sáttir.
En hlutafjársöfnunin gekk treglega. Það er víst og satt. Fólkið vildi njóta en engu fórna, - ekkert eiga á hættu. Þrátt fyrir andúðina á gjörðum okkar sölumanna virtust Eyjamenn ekki hafa trú á fyrirtækinu sjálfum sér til hagnaðar og bæjarfélaginu til viðgangs og vaxtar.


„Glæpamaður“


Ég get naumast skilið svo við þennan þátt minn í sölu bæjartogarans Elliðaeyjar, að ég bæti ekki við þessa frásögn mína tveim skrítlum.
Ég er staddur í Reykjavík nokkrum mánuðum eftir að Hafnfirðingar tóku að gera út Vestamannaeyjatogarann og moka saman gróða af útgerð hans vonandi!
Þá mæti ég kunningja mínum á götu. Áður fyrr þekktumst við mæta vel. Hann var þá góðkunningi minn. Vitaskuld nam ég staðar til þess að heilsa innilega þessum fornkunningja mínum, sem þá átti heima á Akranesi. Hann þekkti mig strax, þrátt fyrir mörg liðin ár frá síðustu kynnum. Hann brást illur við og vildi ekki taka í hendina á mér. „Nú, hvað er að, gamli kunningi?“ spurði ég. „Ég tek ekki í hendina á glæpamanni,“ sagði hann og yggldi sig. „Hvað segirðu maður?“ sagði ég undrandi, „engan glæp hef ég framið.“ „Víst hefirðu framið glæp. Maður, sem vinnur að því, rær að því öllum árum, að selja burt úr bæjarfélaginu sínu stærstu og arðsömustu framleiðslutækin, er hreinræktaður glæpamaður í mínum augum.“ Þar með skundaði hann frá mér. Ég tók að velta málunum fyrir mér. Ég var sem sé orðinn kunnur glæpamaður fyrir það að beita mér fyrir sölu á Vestmannaeyjatogaranum til þess að bjarga bænum frá fjárhagslegu hruni að minni sannfæringu. - Það sem mér fannst athyglisverðast var þó þetta gífuryrði, sem Karl nokkur Guðjónsson hafði dembt yfir mig nokkru áður á opinberum fundi í Vestmannaeyjakaupstað.
Ef til vill var þessi gamli kunningi minn í sömu pólitísku fylkingunni?
Illur var orðstírinn. - Sum atriði gleymast manni aldrei.
Svavar bróðir minn var búsettur í Hafnarfirði síðustu árin, sem hann lifði.
Einn af bæjarfulltrúunum í Firðinum var gamall skólabróðir minn og góðkunningi. Þegar Hafnfirðingar höfðu gert út Vestmannaeyjatogarann nokkur ár, hittumst við af tilviljun, gömlu skólabræðurnir. Þá sagði hann: „Þú ert verri maður en Svavar bróðir þinn.“ „Nú, af hverju segirðu það?“ „Þetta fengum við Hafnfirðingar að reyna, þegar þú prangaðir togaranum inn á okkur.“ „Nú finnst mér þú gera heldur lítið úr ykkur, foringjum alþýðunnar í Firðinum.“ Meira var það ekki. Við skólabræðurnir sáumst aldrei eftir þetta. Honum var kippt yfir landamærin nokkru síðar.
Árin liðu. Þá las ég grein í Hamri, einu af blöðum Hafnfirðinga, um togaraútgerð bæjarins og fjárhag hennar. Hafnfirðingar höfðu þá tapað tugum milljóna á togaraútgerð sinni á undanförnum árum. Páll V. Daníelsson skrifaði þessa blaðagrein. Hann var bæjarráðsmaður og bæjarfulltrúi kaupstaðarins um árabil.
Við árslok 1960 sýna reikningar togaraútgerðar Útgerðarfélags Akureyringa, að tugi milljóna skortir til þess að ná saman endum tekna og gjalda, eigna og skulda.
Og fyrst ég byrjaði á því að segja þér skrítlur frá atburðum þessum, held ég, satt að segja, að ég verði að bæta einni við.
Við bæjarstjórnarkosningar í janúarlokin 1954 var ég hafður efstur á lista Framsóknarflokksins í Vestmannaeyjum. Ekki man ég, hvernig það atvikaðist. En hitt man ég, að flokkurinn tapaði þá miklu fylgi og margur kjósandinn strikaði mig út, þegar hann kaus. Flokkurinn fékk einn bæjarfulltrúa og ég varð fyrsti varamaður flokksins í bæjarstjórninni.
Svo var rætt um samvinnu í bæjarstjórn eftir kosningarnar, ýmist til vinstri eða hægri. Fulltrúi Framsóknarflokksins var hinn staki, ef svo mætti orða það.

– Við vorum boðaðir á fund vinstri aflanna. Þau höfðu unnið fylgi á því að vilja ekki losa bæjarsjóð við töpin á togurunum, eins og við orðuðum það.
Þarna hafði Karl Guðjónsson frá Breiðholti orðið. Hann var foringi Sósíalistaliðsins í bæjarstjórninni. - Rætt var um það, hvort vinstri samvinna gæti tekizt um bæjarmálin. Í fyrstu var ég því fylgjandi. Nýi bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins var því fremur mótfallinn. Þarna vorum við báðir staddir.
„Hvað viljið þið gera við bæjartogarann, ef samvinna tækist með fulltrúum vinstri manna í bæjarstjórn?“ spurði ég. „Ætlið þið að gera hann út áfram eða viljið þið reyna að selja hann?“ - „Auðvitað reynum við að selja dallinn,“ sagði Karl Guðjónsson. „Bæjarsjóður hefur ekki efni á að eiga skipið, og það er engin leið að stjórna bænum með slíkri afætu á sér.“
Þarna sat ég agndofa sem steini lostinn. Í kosningabaráttunni fyrir rúmri viku, hét það glæpur að selja togarann úr bænum. Það gátu háttvirtir kjósendur fallizt á og sýndu það við atkvæðagreiðsluna. En nú sagði sami maður það góðverk, sjálfsagðan hlut til bjargar bæjarfélaginu. Öðruvísi yrði því ekki stjórnað, svo að vit og hyggindi réðu þar ríkjum.
„Við skulum hafa okkur héðan í brott,“ sagði ég við aðalfulltrúa flokksins, „ráð þú gjörðunum. Ég óska ekki að vera við þetta riðinn.“
Aðeins eina kröfu hafði ég á oddinum, ef hann stofnaði til samvinnu við Sjálfstæðisflokkinn í bæjarstjórninni: Að byggt yrði stórt og veglegt safnahús í bænum, þar sem bókasafn kaupstaðarins og Byggðarsafnið fengju inni.
Samningar tókust um þetta allt við Sjálfstæðisflokkinn og Guðlaugur Gíslason var ráðinn bæjarstjóri. Gjörðir voru skriflegir samningar um það helzta sem gjöra skyldi til framfara og menningar í bæjarfélaginu á kjörtímabilinu.
Svo liðu 15 ár. Þá hófust loks framkvæmdir við byggingu safnahússins í kaupstaðnum. Þá hafði tekizt vinstri samvinna á ný innan bæjarstjórnar Vestmannaeyjakaupstaðar.
Það féll einnig í minn hlut að leggja til atkvæði í bæjarstjórn kaupstaðarins um sölu á bæjartogaranum Vilborgu Herjólfsdóttur (áður hét togarinn Bjarnarey). Sú sala var samþykkt í bæjarstjórninni með 5 atkvæðum gegn 3. Fulltrúi Alþýðuflokksins fylgdi þar hinum tveim fulltrúum Sósíalistanna, en Hrólfur Ingólfsson sat hjá. Hann taldist þá fulltrúi Þjóðvarnarflokksins.
Allra hluta vegna þótti heppilegast, að ég sæti bæjarstjórnarfundinn, þar sem lögð var síðasta hönd að sölu seinni togarans úr bænum. Ég var „ataður“ hvort eð var og jafn sannfærður og nokkru sinni fyrr, að salan væri mesta og bezta bjargræði bæjarfélagsins úr því sem komið var. Söluverðið var 4-5 milljónir króna með veiðarfærum. Kaupstaðir á Norðurlandi keyptu togarann. Það gerðist í árslokin 1954. Þá námu útgerðartöpin samtals yfir 14 milljónum króna og hafði bæjarsjóður Vestmannaeyja greitt með togaraútgerð sinni kr. 9.350.000,oo á síðastliðnum 7 árum. (1948-1954).
Nokkru síðar hét það aftur glæpur á máli K.G. að selja togarann úr bænum. Glæpur annan daginn, góðverk hinn daginn, alveg eftir því, hvor ályktunin var líklegri til stjórnmálalegs hagnaðar í það og það sinnið.
Mér hefur hins vegar aldrei verið sú list léð að „sýna mönnum lotning fyrir hagnaðarsakir“, eins og komizt er að orði í Hinu almenna bréfi Júdasar. Og rógnum var haldið áfram þindarlaust og fór illa með mig. Fjölmargir Eyjabúar trúðu því enn, að ég hefði af fjármálaglópsku beitt mér fyrir sölu togaranna. Ég reyndi að verja mig og gjörðir mínar með grein um togarana og togaratöpin í Framsóknarblaðinu. Sú grein fékk þennan endi:
„Ekki er ég alveg viss um, að allir bæjarbúar geri sér fulla grein fyrir því, hvað töpin á togurunum eru í rauninni stórkostlegar fjárfúlgur.
Heildartöpin nema með afskriftum s.l. 7 ár yfir 14 milljónum króna. Þar af hafa Eyjabúar greitt í peningum úr eigin vasa um kr. 9.350.000,oo eða verða að greiða þær áður en lýkur ...
Hvað gætum við t.d. gert við 9.35 millj. króna næstu 7 árin, ef við vildum greiða þær í útsvörum og nota þær í annað en að greiða með þeim útgerðartöp?
Við gætum t.d. lánað yfir 300 húsbyggjendum 30 þúsundir hverjum með góðum lánskjörum, og þó væri höfuðstóllinn vís en ekki tapaður með öllu, eins og hér á sér stað.

Ef við vildum heldur nota þessa fjárfúlgu til þess að efla atvinnulífið í bænum, þá nægði hún til að lána til kaupa á 45 stórum vélbátum, svo að hver bátskaupandi gæti fengið rúmar 200.000,oo til stofnunar útgerðar. Bærilegur skildingur væri það handa ungum og framgjörnum Eyjabúa, sem vildi stofna til útgerðar og eflingar atvinnulífinu í bænum.“ (Skrifað árið 1955)

„Fyrir fjárfúlgu, sem jafngildir togaratöpunum, væri hægt að byggja stórt og fullkomið fiskiðjuver í bænum til ómetanlegs hagnaðar atvinnulífinu langt fram í tímann.

Ef við svo vildum heldur nota fjárfúlguna, 9,35 milljónir, til hafnarframkvæmda, þá svarar hún til þess, að hér yrðu gerð hafnarmannvirki fyrir 15,57 milljónir króna, með því að ríkið greiðir 2/5 af hafnarframkvæmdunum.
Væri nokkurt vit í því að sökkva yfir 9 milljónum króna eða meira úr vasa bæjarbúa næstu 7 árin í útgerðartöp, meðan Eyjabúar verða að fá árlega á annað þúsund sjómanna og landverkafólks til þess að geta rekið bátaflota sinn á vertíð? Nei, það sér hver bæjarbúi, að það er þynnkan einskær og hin mesta fásinna. Við verðum og eigum að fara aðrar leiðir til þess að tryggja bæjarbúum næga atvinnu allt árið ...“
Ég læt þessi fáu orð úr greininni fylgja hér með, því að greinin í heild virtist mér hafa undraverð áhrif til viðreisnar mannorði mínu. Þetta heyrði ég og þess varð ég glögglega áskynja svo að segja daglega, eftir að greinin birtist almenningi.
Tíminn leið og þögn ríkti um málið, að minnsta kosti í kringum mig. Atvinna í bænum var aldrei meiri og stöðugri en eftir það, að togararnir voru seldir. Vitaskuld áttu þar hinir harðduglegu atvinnurekendur og sjómenn hér skildastar þakkirnar. Enda treystum við, sem stóðum að togarasölunni, mest á þá um eflingu atvinnulífsins, og vissulega brugðust þeir ekki.
Rógsraddirnar tóku að þagna, og ég fékk orðið frið á götum bæjarins.
Svo tóku að berast fréttir úr ýmsum kaupstöðum landsins. Þá voru ekki liðin mörg ár frá því, að við seldum Bæjartogarana.
Í einu dagblaðanna gaf að lesa:
„Bæjarstjórnin (Akraness) samþykkti að leggja niður Bæjarútgerð Akraness, sem komin er 140 milljón króna skuldir og á nú orðið fáar útgöngudyr.“
Og síðar: „Togarinn Ísborg (Ísafirði) var sleginn Stofnlánadeild sjávarútvegsins fyrir 940 þúsundir króna eða rétt rúmlega fyrir sjóveðum. Sólborg (annar togarinn Ísafjarðarkaupstaðar) var sleginn ríkissjóði fyrir 2,8 millj. kr. Sólborgin er af nýrri gerð nýsköpunartogaranna og hefur nýlega verið í klössun.“
Og síðar gaf að lesa í dagblaði:
„Bæjarútgerðinni í Hafnarfirði lokað vegna skulda… Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í gær voru lagðir fram reikningar Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar fyrir árið 1963 ... Reikningar Bæjarútgerðarinnar sýndu, að tap á rekstri fyrirtækisins 1963 nam rúmum 11 millj. króna, þrátt fyrir að greiðslur frá Aflatryggingasjóði og ríkissjóði árið 1963 námu 7,5 milljónum, og eru þá skuldir umfram eignir 1. janúar 1964 samtals kr. 47,63 milljónir króna.“
Nú er það ætlan mín, að ég gefi ekki út Blik mitt oftar. Þá er því verki mínu þar með lokið. Og þá hætti ég sem sé um leið að svala forvitni þinni í ritinu mínu, kæri frændi minn og vinur.
Ég kveð þig af hjartans hlýju. Mætti heill og hamingja fylgja þér og þínum alla tíð í einkalífi og starfi.

Þorsteinn Þ. Víglundsson

Til baka