Blik 1980/A-A samtökin í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 29. júlí 2007 kl. 09:37 eftir Sigurgeir (spjall | framlög) Útgáfa frá 29. júlí 2007 kl. 09:37 eftir Sigurgeir (spjall | framlög) (Smáleiðr.)
Fara í flakk Fara í leit

Ég sit fund bindindismanna. Umræður fara fram. Ég leyfi mér að taka til máls. Á eftir orðum mínum bíður einn af framámönnum bindindisfélagsmanna um orðið. Hann flytur stutta ræðu. Efni hennar hrífur mig. Hann ræðir hið gagnmerka starf og þau heilvænlegu áhrif, sem félagasamtök A-A manna í Vestmannaeyjum hafa komið til leiðar fjölmörgum fjölskyldum í Eyjum til mikillar blessunar á undanförnum árum. - Ég hrífst með. Ræðumaður virðist gagnkunnur þessum málum og talar af hita. - Ræða hins mæta manns gleður mig innilega. Eftir ræðu mannsins eru mér ríkust í huga öll þau Eyjaheimili, sem hafa endurheimt hamingju sína fyrir atbeina þessara samtaka. - Síðan tek ég að glugga í nokkrar heimildir, þar sem gerð er nokkur grein fyrir samtökum þessum, anda þeirra og afli. Hvert sækja svo þessi samtök kraftinn sinn?
Í gildri heimild stendur skráð, að grundvöllur A-A samtakanna sé eftirfarandi Tólf „reynsluspor“ þau eru þessi:

  1. „Vér viðurkennum vanmátt vorn gegn áfengi og oss var orðið um megn að stjórna lífi voru.
  2. Vér fórum að trúa, að æðri kraftur máttugri vorum eigin vilja gæti gert oss heilbrigð að nýju.
  3. Vér tókum þá ákvörðun að leita guðs og reyna að láta vilja vorn og líf lúta handleiðslu hans, Sankvæmt skilningi vorum á honum.
  4. Vér gerðum rækilega og óttalaust reikningsskil í lífi voru.
  5. Vér játuðum afdráttarlaust fyrir guði, sjálfum oss og öðrum yfirsjónir vorar.
  6. Vér treystum því fullkomlega, að guð mundi lækna sérhvern veikleika vorn.
  7. Vér báðum guð í auðmýkt að losa oss við bresti vora.
  8. Vér rifjuðum upp misgjörðir vorar gegn náunganum og vorum fús til að bæta fyrir þær.
  9. Vér jöfnuðum ágreining og bættum brot vort milliliðalaust, svo framarlega sem það særði engan.
  10. Vér iðkuðum stöðuga sjálfsrannsókn, og þegar út af bar, viðurkenndum vér yfirsjónir vorar undanbragðalaust.
  11. Vér leituðumst við bæn og hugleiðslu að styrkja vitundarsamband vort við guð og báum um skilning á því, sem oss var fyrir beztu, og mátt til að framkvæma það.
  12. Vér fundum, að sá árangur, sem náðist með hjálp reynslusporanna, var andleg vakning, og þess vegna reyndum vér að flytja öðrum alkóhólistum þennan boðskap og fylgja þessum meginreglum í lífi voru og starfi.“


A-A samtökin voru stofnuð hér á landi 16. apríl 1954. Hér í Vestmannaeyjum voru þau stofnuð 16. febrúar 1969.- Þessi samtök eru „Félagsskapur karla og kvenna, sem samhæfa reynslu sína, styrk og vonir, svo að þau megi leysa sameiginlega vandamál sín og séu fær um að hjálpa öðrum til að losna frá áfengisbölinu.“ - Og svo stendur þar skráð í heimildinni: Til að gerast A-A félagi þarf aðeins eitt: Löngun til að hætta að drekka. Og ennfremur:
„A-A samtökin eru sjálfstæð heild og óháð hvers kyns félagsskap öðrum. Þau halda sig utan við þras og þrætur og taka ekki afstöðu til opinberra mála...“
Tvennt er það í samþykktum A-A samtakanna, sem vekur sérstaklega athygli okkar. Í fyrsta lagi viðurkennir mannssálin vanmátt sinn og veiklyndi nema hún njóti styrks almættis. Í öðru lagi er lögð á það megináherzla að leita þessa styrks, -leita guðlegs styrks og máttar. Það er meiginþáttur mannlegs lífs. Leitið, og þér munið finna. Knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Þetta eru hin veigamiklu sannindi, grundvöllur og skilyrði sálarlegs friðar og farsældar. Og þetta hafa vissulega fjöldamargir félagar hinna markverðu og veigamiklu A-A samtaka reynt og þreifað á, þeim sjálfum og ástvinum þeirra til sannrar og guðlegrar farsældar. En þetta er algilt lífsins lögmál, sem varðar okkur öll. Sumir þykjast því miður yfir það hafnir að skilja það eða vilja lúta því.

Þ.Þ.V