Blik 1978/Safnahúsið í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Efnisyfirlit 1978



Safnahúsið í Vestmannaeyjum


ctr


Tekin fyrsta skóflustungan.


ctr


Hér hefur neðsta gólf safnahússins verið steypt.


Þessi mynd er af neðsta gólfi safnahússins í Vestmannaeyjum. Það var steypt 15. maí 1970. Þó var fyrsta skóflustungan að byggingu þessari tekin 15. júní árið áður (1969) til minningar um 50 ára kaupstaðarréttindi Vestmannaeyjabyggðar.
Þau lög voru samþykkt á Alþingi 22. nóvembermánaðar 1918 og eru nr. 26. Í janúarmánuði árið eftir áttu síðan fyrstu bæjarstjórnarkosningarnar sér stað í Eyjum. Við þann atburð var afmælið miðað.
Þegar leið á vorið 1969 hafði sérfróður arkitekt um teikningar safnahúsa lokið við að teikna hið fyrirhugaða safnahús Vestmannaeyinga. Ekki var þá annað vitað um vorið en að leyfilegt væri að hefja byggingarframkvæmdirnar þá þegar. En þá kom babb í bátinn. Andstæð öfl ollu því. Sá andstæði þrýstingur leiddi til þess, að skipulagsstjóri ríkisins gerði þá kröfu, að líkanið af hinni fyrirhuguðu safnabyggingu Vestmannaeyjakaupstaðar yrði endursent til Reykjavíkur til gaumgæfilegrar athugunar með tilliti til staðsetningar hússins og ekkert yrði aðhafzt um byggingarframkvæmdirnar meðan sú athugun færi fram. Skyldi þeim takast að stöðva byggingarframkvæmdirnar að fullu og öllu? Maður spurði mann.
Loks 29. júlí um sumarið barst bæjarstjórn Vestmannaeyja leyfi skipulagsstjóra að hefja mætti byggingarframkvæmdirnar. Andstæðan og áróðurinn var einskis virt. Haldlaust skraf heiftugra manna.
Þá dróst það í tæpan mánuð að hafizt yrði handa við að grafa fyrir undirstöðum byggingarinnar. Það verk hófst 27. ágúst um sumarið.
Sú hugsjón að byggja safnahús í Vestmannaeyjum átti sér orðið býsna langa sögu. Ekki skal sú saga rakin hér að þessu sinni, þar sem hún yrði tæpast sársaukalaus sumum fyrrverandi ráðamönnum í bæjarstjórn kaupstaðarins.


ctr


Hjónin frú Björg Ágústsdóttir og Sigurgeir Kristjánsson, fyrrv. forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyjakaupstaðar og stjórnarmaður Sparisjóðs Vestmannaeyja síðan 1959.


ctr


Hjónin frú Marta Björnsdóttir og Magnús H. Magnússon, fyrrv. bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja síðan 1958.


Hins vegar ber að minnast þess, að hugsjón þessi fékk byr undir báða vængi, eftir að þeir tóku höndum saman um framfaramálin í bænum Sigurgeir Kristjánsson og Magnús H. Magnússon. Þá gerðist Sigurgeir forseti bæjarstjórnarinnar og Magnús bæjarstjóri kaupstaðarins. Einn glæsilegasti ávöxtur þeirrar samvinnu um velferðar- og menningarmál Vestmannaeyjakaupstaðar er bygging safnahússins.
Mér var veitt sú virðing eftir 30 ára jaml og jag í sumum blöðunum í kaupstaðnum um nauðsyn þess að byggja þetta safnahús að taka fyrstu skóflustunguna að byggingunni og svo á lóð þeirri, sem ég hafði ávallt bent á að valin yrði til safnahússbyggingar, þ.e. á Stakkagerðistúninu vestanvert við „Gamla sjúkrahúsið“, sem Gísli J. Johnsen byggði og afhenti kaupstaðnum til fullra nota 1927. Nú er sú bygging Ráðhús Vestmannaeyja. Safnabyggingin skyldi blasa við opinni Bárugötunni og svo vissum hluta hafnarinnar, eins og hún gerir nú, sunnanvert við hið óbyggða svæði: Stakkagerðistúnið norðanvert.
Þegar fyrsta skóflustungan var tekin, flutti forseti bæjarstjórnar, Sigurgeir Kristjánsson, ræðu, sem mér hefur orðið minnisstæð. M.a. benti hann á þá staðreynd, að bókasafn Vestmannaeyjabyggðar væri á því ári 107 ára (1969) og hefði frá upphafi alltaf verið starfrækt í leiguhúsnæði, jafnan þröngu og illa gerðu til þess hlutverks. Forseti kvað slíka aðbúð að veigamikilli menningarstofnun, eins og bókasafnið væri í kaupstaðnum, ósamboðna Vestmannaeyingum á þeim tímum velmegunar og framfara, sem þá áttu sér stað í Vestmannaeyjakaupstað.
Svo fór forsetinn fögrum og skýrum orðum um gildi Byggðarsafnsins og menningarhlutverk þess í bænum, ef vel og skipulega yrði að því hlynnt. Hann benti á sögulegt og fræðilegt gildi þess. Þannig hafði ég aldrei fyrr heyrt orðaða skilgreiningu á gildi Byggðarsafnsins, og hafði þó unnið að því þá í 37 ára að koma því á fót.
Lúðrasveit Vestmannaeyja lék nokkur lög við þetta tækifæri og jók það hátíðleikann að miklum mun. — Ég var í sjöunda himni, eins og geta má nærri.


ctr


Hjónin frú Unnur Pálsdóttir og Sveinn Guðmundsson, fulltrúi, stjórnarmaður Sparisjóðs Vestmannaeyja frá 1950-1973 og formaður sparisjóðsstjórnar frá 1965-1973.


Alltaf skal það viðurkennt, sem vel er gert. Þannig ber mér að haga orðum mínum og gjörðum gagnvart þeim mönnum, sem bezt hafa reynzt mér í baráttunni fyrir tilveru og þróun Byggðarsafnsins í Vestmannaeyjum. Þá eru mér nöfn þriggja manna ríkust í huga. Tvo þeirra hefi ég nefnt hér í máli mínu. Þriðji maðurinn er sveitungi minn, Sveinn Guðmundsson, fyrrv. forstjóri í Eyjum. Við þrír unnum saman í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja á þriðja tug ára.
Þegar ég fékk lausn frá skólastjórastarfinu 1963, þurfti ég að flytja Byggðarsafnið með mér úr Gagnfræðaskólabyggingunni. Þá samþykktu þessir samstarfsmenn mínir í stjórn Sparisjóðsins að leigja mér þriðju hæð Sparisjóðsbyggingarinnar til handa Byggðarsafninu. Þá var hún óinnréttuð. Og sjálfur skyldi ég afráða húsaleiguna.
Um leið og ég færi þessum samstarfsmönnum mínum innilegustu þakkir mínar fyrir þann góða skilning á þessu hugsjónamáli mínu og þann mikla drengskap, sem þeir sýndu í hvívetna, þegar ég átti í vök að verjast til verndar þessu starfi mínu, þá óska ég sjálfur að biðja Blik mitt að geyma fyrir mig mynd af þeim og eiginkonum þeirra. Birtingu þeirri fylgja frá mér innilegustu árnaðaróskir til hjónanna.
Önnur hlið þessa máls snýr að Eyjabúum sjálfum. Þeir ólu með sér hugsjónina.