Blik 1978/Punginn í land, strákar (saga)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Efnisyfirlit 1978



„Punginn í land, strákar,
skipstjórinn kallar“


Það var uppi fótur og fit hjá okkur strákunum á Stekkjarnesinu. Ástæðan var sú, að ég hafði eignazt líkan af færeyskum sexæring með rá og reiða.
Vissulega voru tök á því að láta bátinn sigla yfir fjörðinn í hagstæðum byr, því að seglin á honum voru í bezta lagi. Hann hafði framsegl, aftursegl og fokku. Og fallegur var báturinn með öll seglin þanin.
Einhver ráð urðum við að finna til þess, að hann þyldi kalda í öll þessi segl án þess að kollsigla sig. — Auðvitað var nóg grjót til í kjölfestu, en þá þurfti að tryggja það, að báturinn sykki ekki, ef hann fylltist af sjó.
Halli í Brennu hafði ráð undir hverju rifi. „Við fáum okkur tómar mjólkurdósir hjá henni mömmu og festum þær undir þófturnar á bátnum.“ Þessa tillögu hans gátum við strákarnir allir fallizt á. Hún var býsna skynsamleg. En göt voru á dósunum, rennsligat og loftgat. Og dósirnar fengum við, sex dósir. En galli var á gjöf Njarðar. Áttum við þess kost að þétta götin? Mangi sá ráð við því. Pabbi hans var einhverskonar járnsmiður. Hann átti m.a. lóðbolta og tin og gat þess vegna brætt þennan málm í götin, lokað þeim. Allt lék þannig í lyndi fyrir okkur.
Hann Mangi, félagi okkar, var dálítið sérstæður drengur, 13 ára að aldri. T.d. tuggði hann skro eins og gamall tóbaksjaxl. Það hafði hann vanizt á í blárri bernsku. Þegar barnstennurnar tóku að skemmast og tannpínan þjáði drenginn, hafði faðir hans, sem var skromaður mikill, troðið skroögn í tannskemmdina. Við það svíaði verkurinn en drengurinn ánetjaðist og gat ekki án eitursins verið. Þannig varð hann þræll þessarar tóbaksnautnar.
Svo biðum við byrjar. — Fagran sunnudagsmorgun rann á vestan kul, hæfilegur kaldi handa bátnum okkar til þess að sigla suður yfir fjörðinn.
Skektu fékk ég lánaða hjá honum fóstra mínum. Á henni fylgdum við bátnum okkar á siglingunni. En okkur var vandi á höndum, því að krökt var af erlendum fiskiskútum um alla höfnina. Þarna lágu franskar skútur frá Dönkirk¹ og Pompól og margar færeyskar skútur, því að mikill stormur hafði ríkt á fiskimiðunum úti fyrir Austfjörðum að undanförnu, svo að ekki gátu þessir erlendu sjómenn stundað handfærafiskirí í slíkum stormi og stórsjó. Önnur veiðarfæri höfðu þeir ekki. Engar voru skútur þessar knúnar vélum. Á seglin urðu þeir að treysta, hvað sem á bjátaði um veðrið á hafinu. Framhjá þessum hindrunum á höfninni urðum við að sigla bátnum okkar.

¹Öll erlend orð í sögu þessari eru skrifuð eftir framburði í daglegu tali Norðfirðinga á þeim árum.


ctr


Norðfjarðarhöfn um 1920. Franskar og færeyskar fiskiskútur liggja á höfninni. Myndina tók Björn kaupm. Björnsson.


Og svo var ýtt úr vör. Brátt kom í ljós, að stýrið á litlu fleytunni var ekki rétt stillt. Úr þeim mistökum bættum við. Svo hjakkaði hún suður yfir fjörðinn í vestan golunni og gáranum.
Klaklaust komst báturinn okkar fram hjá færeysku skútunum tveim, sem lágu mjög nærri slóð okkar suður fjörðinn. En þá sáum við hindrun framundan.
Frönsk skúta frá Pompól lág þarna í leiðinni, ef bátinn okkar bæri dálítið af á ferð sinni yfir fjörðinn. Þá gæti hann blátt áfram rekizt á „fransmanninn“.
Og þetta gerðist fyrr en varði. —
Frönsku skútukarlarnir komu út að borðstokknum á fari sínu og ávörpuðu okkur. Við skildum ekki eitt einasta orð af því, sem þeir sögðu. En þeir voru glaðklakkalegir og bentu okkur að koma um borð. Það þorðum við ekki. Allt í einu kom eldri maður fram að öldustokknum með töluverðu fasi og kallaði:
„Plentí biskví for vetterling“. — Við strákarnir tókum að hugleiða orð hans. Halli í Brennu skildi orðið plentí. Það sagði hann að þýddi mikið af einhverju. Við skildum allir orðið biskví. Það orð þekktum við mæta vel. Það þýddi kex eða brauð eða eitthvað þess kyns. Franskt „biskví“ höfðum við etið frá blautu barnsbeini, því að það var daglega á borðum margra í Norðfirði, eftir að frönsku fiskiskúturnar sigldu til hafnar hjá okkur á vorin. Kaupmaður þar í þorpinu, sem hafði mikil viðskipti við frönsku sjómennina, verzlaði með þetta franska kex, þegar á vorið leið. Það var af tveim gerðum, eftir því hvort það var keypt af skútum frá Dönkirk eða Pompól. En þá var það síðasta orðið, sem franski sjómaðurinn hrópaði, orðið vetterling. Jú, við uppgötvuðum merkingu þess við nánari íhugun. Þetta hlaut að vera afbökun eða skrípamynd af íslenzka orðinu vettlingur. Fransmaðurinn var sem sé að bjóða okkur mikið af kexi fyrir vettlinga. Þá vissum við einnig, hvernig þetta kex var, því að skútan var frá Pompól. Það sáum við á byggingarlagi hennar. Auðvitað voru þetta sjóvettlingar, sem hann var að biðja um. — Svo veifuðum við frönsku sjómönnunum og hrópuðum „Ví, ví“. Það sagði Halli okkur að þýddi já, já. Vissulega höfðum við Mangi heyrt það fyrr.
„Á ég að hrópa til þeirra orðin, sem hann Geiri Adams kenndi mér um daginn?“ spurði Mangi og var ögn heimskulegur. „Hvaða orð eru það?“ spurði Halli. „Tumör malin kújón,“ sagði Mangi og spýtti mórauðu. „Ertu vitlaus, drengur,“ sagði Halli í Brennu, „veiztu ekki, að þetta eru þau bitrustu skammaryrði, sem þú getur sagt við Fransmann?“ Nei, það vissi Mangi ekki. Hann hafði aðeins grun um, að þau þýddu eitthvað ekki fallegt. „Hvað þýða þau svo?“ spurði Mangi. „Það get ég sagt þér,“ sagði Halli og gerðist hvass á brún og harður í máli. „Þau þýða nánast bölvað óféti og ræfill,“ sagði hann og var ekkert lítið hreykinn af kunnáttu sinni í franskri tungu, snáðinn sá.
Svo héldum við ferð okkar áfram yfir fjörðinn, suður undir Búlandið. Þar innbyrtum við litla bátinn okkar, hagræddum seglunum og stilltum stýrið á nýjan leik og létum hann síðan sigla norður yfir fjörðinn aftur. — Á þessari siglingu sluppum við naumlega framhjá færeyskri skútu. Færeyingarnir kölluðu til okkar og buðu okkur um borð. Það þáðum við ekki. „Velsigne lúsakroppane,“ sögðu þeir í gælutón. Þau orð skildum við vel. Þessi kunnu gæluyrði þeirra þekktum við mæta vel, því að við strákarnir vorum oft hjálplegir þeim Færeyingum, sem lágu þarna við í þorpinu hvert sumar og stunduðu sjóinn á fallegu og rennilegu sexæringunum sínum. Þeir voru vinir okkar.
Nokkuð hafði borið af hjá okkur á siglingunni yfir fjörðinn, svo að nú vorum við komnir æðilangt út eftir og nálguðumst Sigfúsarbryggjuna. Þar lá stór vélbátur, eða væri réttara að kalla það vélskip, svo mjög sem við undruðumst stærð þess. Útgerðarmenn á Norðfirði höfðu nýlega fest kaup á þessu stóra fiskiskipi. Það var nú meira skipið. Svo fannst okkur strákunum að minnsta kosti. Menn sögðu það 30 rúmlestir að stærð. Þrjátíu tonn, sögðu þeir, sem bezt þóttust kunna skil á svona stórum fiskiskipum.
Og við létum það eftir okkur að róa að hlið þessa stóra fiskiskips og hafa tal af tveim hásetum, kunningjum okkar, sem stóðu þarna úti við öldustokkinn.
Karlarnir voru hinir alþýðlegustu við okkur strákana og buðu okkur um borð. Það þáðum við. En enginn hægðarleikur var það fyrir okkur að klifra yfir öldustokkinn á þessu stóra skipi, ekki eldri eða stærri en við vorum. Samt tókst okkur þetta slysalaust með hjálp sjómannanna, sem tóku í rassinn á buxunum okkar og vippuðu okkur yfir.
Svo drukkum við okkur kaffisopa hjá þeim í káetunni og skeggræddum við þá, þó að lítið væri á okkur skeggið. Við urðum þess brátt áskynja, að skipstjórinn á fleytu þessari var í landi og hafði verið þar við mikla áfengisneyzlu um nóttina, enda ein af kunnustu fyllibyttunum í þorpinu, en þó aflamaður mikill.
Meðan við sátum þarna í káetunni hjá sjómönnunum, heyrðist kallað frá landi, líklega þó af bryggjusporði Sigfúsarbryggjunnar: „Punginn í land, strákar, — skipstjórinn kallar.“ Það var ekki um að villast. Það var sjálfur skipstjórinn á nýja skipinu, sem hrópaði. Röddin var hás. „Hann er slompaður enn,“ sögðu þeir og skunduðu aftur eftir farkostinum til þess að losa smábát, sem flaut þar í kulinu. Það var pungurinn þeirra.
Við strákarnir leituðum lands hið bráðasta. — Fast var liðið að miðdegisverði, þegar við komum heim til okkar, en hann var þá oftast snæddur milli hádegis og nóns eða sem næst miðmunda.

Þ.Þ.V.