Blik 1976/Minnisstæð prestshjón að Ofanleiti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 9. október 2010 kl. 14:15 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 9. október 2010 kl. 14:15 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit Blik 1976



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON


Minnisstæð prestshjón að Ofanleiti


ctr


Prestshjónin að Ofanleiti, séra Halldór og frú Lára með börn sín og fósturbörn.


„Þau voru gædd bjartsýni, lífsgleði og mannúð. Hin ljúfa gleði fylgdi ávallt þessum hjónum. Hún var trúuð kona, hógvær, mild og festuleg. Hún vildi öllum vel.“
Þannig orðaði höfundur það í minningargrein, þegar þau voru fallin frá, séra Halldór Kolbeins og frú Lára Ólafsdóttir Kolbeins. Presturinn var hvers manns hugljúfi, léttur í lyndi, gamansamur, velviljaður öllum og hjartahlýr, gáfaður mætismaður.
Mig hefur lengi langað til að láta Blik mitt geyma nokkur minningarorð um þessi mætu prestshjón, sem gegndu hér í Vestmannaeyjum kristilegri forustu um árabil, sem nam þriðjungi starfsára minna í kaupstaðnum. Þau voru bæði kennarar hjá mér við gagnfræðaskólann og svo dætur þeirra tvær á mismunandi tímum.
Séra Halldór Kristján Eyjólfsson Kolbeins, eins og hann hét fullu nafni, fæddist að Staðarbakka í Miðfirði í Vestur-Húnavatnssýslu 16. febrúar 1893. Foreldrar hans voru prestshjónin þar séra Eyjólfur Kolbeins Eyjólfsson og frú Þórey Bjarnadóttir.
Að loknu stúdentsprófi (1915), afréð Halldór á Staðarbakka, eins og hann var jafnan nefndur í sveit sinni á uppvaxtarárum sínum, að lesa guðfræði eins og faðir hans hafði gert. Hann hóf þá námið í Kaupmannahöfn og varð þar cand. phil. 1916. Þá hvarf hann að náminu hér heima og varð kandidat í guðfræði við Háskóla Íslands árið 1920.
Séra Halldór Kolbeins, eins og hann var alltaf nefndur af sóknarbörnum sínum í Vestmannaeyjum, var mikill námshestur á yngri árum sínum. Hann beitti námsgáfum sínum af festu og einbeitni að settu marki. Síðasta árið, sem hann stundaði guðfræðinámið og bjó sig undir kandidatsprófið, stundaði hann jafnframt nám í þriðja bekk Kennaraskóla Íslands og lauk kennaraprófi samhliða kandidatsprófinu í guðfræðinni.
Á unglingsárunum las hann esperanto á eigin spýtur og var talinn vel að sér í því máli, og kom mörgum sá lærdómur hans til nota í Vestmannaeyjum mörgum árum síðar, þegar ungir Eyjamenn stunduðu esperantonám undir handleiðslu sóknarprestsins.
Mennigarhugsjónir séra Halldórs Kolbeins voru margþættar. Ríkur þáttur í þeim efnum var bindindisstarfið og regluboðunin. Presturinn starfaði í Goodtemplarareglunni töluverðan hluta ævi sinnar og fyrir Stórstúku Íslands um langt árabil.
Árið eftir að séra Halldór Kolbeins lauk guðfræðiprófinu (1920), gerðist hann prestur í Flatey á Breiðafirði. Þá bar honum sem öðrum íslenzkum sóknarpresti fyrr og síðar að húsvitja, eins og það var kallað, taka manntal, prófa kunnáttu uppvaxandi barna o.fl. Töluverður hluti sóknarbarna hans byggði Breiðafjarðareyjar, bjó þar. Þangað hlaut því leið hans að liggja. Meðal annarra eyjaheimila húsvitjaði ungi presturinn heimilið að Hvallátrum. þar sem voru yfir 20 manns, fast heimilisfólk. Hjónin á Hvallátrum þá voru kunn um allar byggðir Breiðafjarðar sökum framtaks, búhyggju og rausnar. Þau hétu Ólafur Aðalsteinn Bergsveinsson, bóndi og jarðræktarmaður mikill og kunnur bátasmiður, og frú Ólína Jóhanna Jónsdóttir, húsfreyja. Þau áttu mörg börn og meðal þeirra dóttur 23 ára gamla, Láru Ágústu að nafni. - Já, jarðræktarmaður mikill, sagði ég. Ólafur faðir heimasætunnar að Hvallátrum var ekki aðeins nafnkunnur bátasmiður um allar sveitir Breiðafjarðar fyrir báta sína, sem voru bæði stórir og smáir.
Sjálfum sér smíðaði hann teinæring (tíæring), sem bóndi notaði lengi, m.a. til flutninga á fé milli eyja, hinna „óteljandi eyja“ þar um fjarðarslóðir. Teinæring þennan kallaði hann Egil.
Ólafur bóndi á Hvallátrum keypti fyrstur manna við Breiðafjörð plóg, herfi og hestareku og notaði af hinni mestu elju þessi nýtízkuverkfæri við jarðyrkjustörfin, svo að sögur fóru af framkvæmdum þessum á jörðinni. Á þeim árum varð ekki svo auðveldlega gripið til hins tilbúna áburðar til þess að bæta jarðvegi ræktaðs lands þurrð áburðarefna. Og ekki voru kýr Ólafs bónda fleiri en svo, að mykjan hrykki meir en til að nota á gamla jarðartúnið. Þá gekk sauðfé bónda að töluverðu leyti sjálfala í eyjum á vetrum og svo á heiðum uppi að sumrinu.
Hvað var þá til ráða til þess að afla áburðar, svo að aukin jarðrækt gæti átt sér stað? Framtak þessa bónda var einstakt og dugnaður frábær. Hann safnaði með vinnumönnum sínum og öðru tiltæku starfsliði, fugladriti í Breiðafjarðareyjum og -skerjum og notaði hann við aukna túnrækt á Hvallátrum. Ég get ekki stillt mig um að geta þessa hér, þó að um sé að ræða minningarorð um dóttur hans. Ber þar tvennt til. Vissulega hafði frú Lára, prestskonan að Ofanleiti, erft framtak og hyggjuvit föður síns, það sýndi hún í félagsstörfum í sókninni og heimilisháttum, þó að annar blær væri yfir því öllu en ræktunarframkvæmdum föður hennar á Hvallátrum. Í öðru lagi minnir þetta hyggjuvit og framtak Hvallátrabóndans mig á það snjallasta og kraftmesta framtak, sem gladdi mig mest um tugi ára í Eyjum. Þar á ég við hin heilladrjúgu uppbyggingarstörf í Vestmannaeyjum eftir liðin styrjaldarár, þar sem fjölmargir einstaklingar minntu vissulega á þennan breiðfirzka bónda um hyggjuvit, dugnað og framtakshug, svo að bærinn okkar skipaði veglegt og virðulegt sæti í fremstu línu til sóknar í atvinnulífi þjóðarinnar. Sú vitneskja var mér ávallt gleðigjafi.
Ólafur bóndi Bergsveinsson lærði fyrst bátasmíðar hjá föður sínum Bjarna bónda og bátasmið í Sviðnum, sem var kunn búskapareyja í Breiðafirði frá fornu fari. Þar voru allir bátar smíðaðir, „undir berum himni“, hvernig sem viðraði. Af þvi lærði Ólafur, hinn ungi sonur bátasmíðameistarans. Ólafur bóndi í Hvallátrum byggði skála mikinn heima í Hvallátrum til þess að smíða í bátana. Það þótti þá einstakt framtak þar um slóðir, svo að frægt varð. Ef til vill segir þetta litla atvik okkur meir en virðist í fljótu bragði um starfsháttu manna yfirleitt hér á landi og kröfur um verklega aðstoð í upphafi uppbyggingaraldarinnar eftir hið langa eymdarlíf og lágreistu framtakshætti á niðurlægingartímabilinu langa í sögu íslenzku þjóðarinnar.
Og nú fylgjum við unga prestinum heim að Hvallátrum til þess að húsvitja, skrá í manntalsskrá sína nöfn heimilisfólks, aldur og e.t.v. kunnáttu í kristnum fræðum. Þarna sá hinn ungi prestur og guðsþjónn heimasætuna áður nefndu á Hvallátrum. Og ekki er að leyna því, að þar „varð ást við fyrstu sýn“, eins og bróðir séra Halldórs Kolbeins skrifaði um húsvitjun þessa hálfri öld síðar. Séra Halldór Kolbeins, sóknarprestur í Flatey, og Lára Ágústa, heimasæta að Hvallátrum, gengu í heilagt hjónaband 26. júlí 1924. Hún var þá 26 ára (f. 26. marz 1898) og hann 31 árs (f. 1893).
Hjónavígslan átti sér stað í sóknarkirkju séra Halldórs í Flatey. Séra Bjarni Símonarson, sóknarprestur að Brjánslæk og prófastur í Barðastrandarsýslu, framkvæmdi hjónavígsluna.
Séra Halldór Kolbeins var sóknarprestur í Flatey í fimm ár. Árið 1926 sótti hann um Stað í Súgandafirði og hlaut þar kosningu. Þar sat hann síðan prestur í fimmtán ár (1926-1941).
Árið 1941 var séra Halldóri veitt brauðið að Mælifelli í Skagafirði. Þar dvöldust þau hjónin aðeins í fjögur ár (1941-1945). Þá gerðist atburður, sem varð þess valdandi, að prestshjónin fluttust til Vestmannaeyja.
Mágur séra Halldórs Kolbeins, séra Sigurjón Þorvaldur Árnason, sóknarprestur að Ofanleiti í Vestmannaeyjum (1924-1945), var kvæntur systur séra Halldórs, frú Þórunni Kolbeins að Ofanleiti. Þau hjón fluttust til Reykjavíkur þetta ár (1945), þar sem séra Sigurjón gerðist sóknarprestur í Hallgrímsprestakalli. Hann hafði þá verið sóknarprestur í Vestmannaeyjum í 21 ár við mikinn og góðan orðstír. (Sjá Blik 1974). Þá sótti séra Halldór Kolbeins um Eyjasókn og hlaut kosningu.
Síðan sátu þau prestshjónin, séra Halldór og frú Lára Kolbeins, Ofanleiti með dyggð og miklum sóma í sextán ár eða þar til séra Halldór lét af prestsskap 1961 sökum heilsubrests, enda þá nær sjötugur að aldri. Þá fluttust prestshjónin til Reykjavíkur og nutu þar samlífs og öryggis dætra sinna, sem þar eru búsettar, svo og hinna, sem fjær bjuggu.
Árið 1962 gegndi séra Halldór Kolbeins prestsstörfum austur í Neskaupstað um átta mánaða skeið í forföllum eða sökum skorts á presti.
Sama árið (1945) sem þau prestshjónin fluttu til Eyja, tók séra Halldór að sér tímakennslu hjá mér við gagnfræðaskólann. Því starfi hélt hann um árabil eða meðan heilsa hans leyfði og hann gat innt það starf af hendi. Þá kenndi frú Lára einnig um tíma handavinnu (sauma) við gagnfræðaskólann og síðan dætur þeirra prestshjónanna á mismunandi tíma. Presturinn kenndi kristinfræði, ensku og sögu. Þá var séra Halldór einnig um sinn prófdómari við gagnfræðaskólann, og formaður skólanefndar var hann eitt sinn. Öll störf þessa fólks voru innt af hendi af alúð, góðvild og ræktarsemi við skyldustörfin og uppeldis- og fræðslugildi skólans. Þessa samstarfs minnist ég með hlýju og ánægju.
Á uppvaxtarárum sínum á Hvallátrum stundaði heimasætan nám í Kvennaskólanum í Reykjavík. Áður hafði hún stundað nám við Rjómabústýruskóla Grönfelds á Hvítárvöllum í Borgarfirði.
Eftir að frú Lára Kolbeins giftist séra Halldóri, stundaði hún nám í orgelleik hjá Páli Ísólfssyni með þeirri fyrirætlan, að geta leikið á orgel við prestlegar athafnir eiginmanns síns, þegar hann t.d. skírði hörn heima hjá prestshjónunum eða gifti elskendur. Einnig vann hún mikið að félagsstörfum með manni sínum, t.d. bindindismálum. Hún var félagslynd kona, hugljúf og hlý, sem ávann sér traust og hlýhug. Þá má einnig geta þess, að hún veitti málefnum vangefinna í landinu mikinn stuðning í hugsun og starfi.
Frú Lára Kolbeins var formaður Kvenfélags Landakirkju í Vestmannaeyjum um sinn og fékk þar mörgu góðu og gagnlegu til vegar komið til eflingar kristindómi og sönnu safnaðarlífi í Ofanleitissókn.
Haraldur Guðnason, bókavörður í Vestmannaeyjum, var heimilisvinur prestshjónanna að Ofanleiti. Hann og séra Halldór störfuðu saman að ýmsum fræðslumálum, t.d. við esperantonám o.fl. Eftir fráfall frú Láru Kolbeins skrifaði bókavörðurinn: „Frú Lára Kolbeins var félagslynd. Hún vann ótrauðlega að bindindismálum með manni sínum, en séra Halldór boðaði fleira en guðs orð, t.d. prédikaði hann alla ævi af krafti móti Bakkusi . . . Prestskonan á Ofanleiti trúði á hina betri parta mannsins, þótt brokkgengur sé enn sem fyrr. Hún lagði ávallt gott til mála. Allt starf hennar var uppeldis- og mannbótastarf.
Ofanleitishjón stjórnuðu búi sínu með rausn. Á Ofanleiti var mönnum tekið með sömu virkt, hvort sem gesturinn var umkomulítill eða hélt sig vera höfðingja. Séra Halldór var heimspekingur og idealisti. Frúin var þetta kannski engu síður, en hún var líka raunsæ og áræðin dugnaðarkona. Það hefur líklega verið arfur frá Hvallátrum. Stórt bú þurfti mikils með. Ég held, að séra Halldór hafi í engu vanrækt sitt húsbóndahlutverk, en vafalaust hefði lífsgangan orðið honum stórum örðugri, ef hann hefði ekki haft við hlið sér til endadægurs aðra eins mannkostakonu og heimasætuna frá Hvallátrum, sem var honum ung gefin.“ -Þetta voru orð bókavarðarins.
Prestshjónin séra Halldór og frú Lára Kolbeins eignuðust 6 börn, sem öll eru á lífi. Þau eru þessi:

1. Ingveldur Aðalheiður Kolbeins, ljósmóðir á Patreksfirði, gift Sæmundi Jóni Kristjánssyni, járnsmið.
2. Gísli Kolbeins sóknarprestur að Melstað í Miðfirði, kvæntur Sigríði Ingibjörgu Bjarnadóttur frá Brekkubæ í Nesjum í Austur-Skaftafellssýslu.
3. Erna Kolbeins, handavinnukennari, gift Torfa Magnússyni, skrifstofum., Reykjavík.
4. Eyjólfur Kolbeins, kvæntur Ragnhildi Láru Hannesdóttur hjúkrunarkonu.
5. Þórey Mjallhvít Kolbeins, barnakennari, gift Baldri Sigurþór Ragnarssyni, kennara, Rvk.
6. Lára Ágústa Kolbeins, barnakennari, gift Snorra Gunnlaugssyni, vélstjóra, Patreksfirði.
Prestshjónin ólu upp tvö vandalaus börn, sem prestsfrúin fyrst og fremst tók til fósturs vegna báginda framfærendanna og fráfalls fyrirvinnunnar.

Séra Halldór Kolbeins lézt 29. nóv. 1964 og frú Lára Á. Ó. Kolbeins kona hans, 18. marz 1973. Við hjónin minnumst þeirra með hlýhug. Blessuð sé minning þeirra.