Blik 1976/Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja, þar sem getið er um 320 Vestmannaeyinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 26. nóvember 2016 kl. 21:26 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 26. nóvember 2016 kl. 21:26 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit Blik 1976



Íbúðarhúsin á tveim Kirkjubæjarjörðunum. Kirkjuból er til hægri á myndinni, en íbúðarhús Helgu Þorsteinsdóttur og Þorbjörns Guðjónssonar til vinstri og nær. (Leiðrétting)


Minjaskrá Byggðarsafns Vestmannaeyja

Framhald


(Árin 1972 og 1973 birti ég í Bliki skýringar við 562 hluti í Byggðarsafni Vestmannaeyja. Eldgosið á Heimaey truflaði þetta starf mitt og færði það úr skorðum, svo að framhald á minjaskránni birtist ekki í Bliki 1974, sem var 31. árgangur ritsins. Hér birti ég framhaldið, skýringar við hluti nr. 563-989 og fylla þær þrjár arkir. Þá hef ég látið prenta 8 arkir af minjaskránni eða samtals 128 bls. Sé engin skýring við hlutinn, er ástæðan sú, að mér er ekki leyfilegt að tjá hana eða ég veit engin deili á því, hver hann hefur átt. (Þ.Þ.V.).



7.kafli


Úr og klukkur



563. Bakkaúr. Þetta gamla bakkaúr „erfði“ Byggðarsafnið úr dánarbúi frú Margrétar Sigurþórsdóttur húsfr. á Garðstöðum, (nr. 5) við Sjómannasund. Úr þetta var keypt á Eyrarbakka á fyrri öld og var lengi eign Sigurþórs bónda Ólafssonar á Garðstöðum á Rangárvöllum, föður frú Margrétar. Kristján Thorberg Tómasson, matsveinn, fóstursonur frú Margrétar, og kona hans frú Lydia Anika Einarsdóttir gáfu Byggðarsafninu úrið.
564. Klukka. Þessa borðklukku áttu héraðslæknishjónin frú Anna og Halldór Gunnlaugsson. Héraðslæknir þessi starfaði hér í Eyjum við góðan orðstír í 18 ár (1906-1924). Hann drukknaði við Eiðið 16. des. 1924. Börn læknishjónanna gáfu Byggðarsafninu klukkuna.
565. Klukka. Þessa klukku áttu hjónin á Gjábakka (nr. 8) við Bakkastíg, Jón kaupmaður Einarsson og frú Sesselja Ingimundardóttir.
566. Klukka - veggklukka. Þessa veggklukku áttu héraðslæknishjónin í Landlyst (1865-1905) Þorsteinn Jónsson og frú Matthildur Magnúsdóttir. Hjónin áttu klukku þessa um tugi ára. Þegar læknishjónin fluttu héðan árið 1905, gáfu þau hjónunum á Hjalla við Vestmannabraut (nr. 57) klukkuna, en þau voru þá frú Kristólína Bergsteinsdóttir og Sveinn Pálsson Scheving meðhjálpari. Einar Einarsson frá Norðurgarði eignaðist síðan klukkuna og flutti hana með sér til Reykjavíkur. Þegar hann féll frá, var hún send Byggðarsafninu samkvæmt beiðni hans.
Upprunalega var annar kassi skrautlegri um klukkuverkið, en hann fór forgörðum veturinn 1918 í kulda og raka frostavetrarins mikla, og smíðaði þá Ágúst kennari og smiður Árnason í Baldurshaga (nr. 5 A) við Vesturveg þennan klukkukassa.
567. Klukka. Þetta er elzta klukkan, sem Byggðarsafnið á. Klukku þessa áttu hin merku og nafnkunnu hjón í Nýjabæ, frú Kristín Einarsdóttir húsfr. og Magnús J. Austmann, bóndi þar og alþingismaður Eyjabúa. Þau giftust árið 1844 og fengu þá m.a. klukku þessa í brúðargjöf. M.J. Austmann andaðist 1859.
Fósturdóttir þeirra hjóna var frú Kristín S. Jónsdóttir, síðar kona Davíðs Árnasonar afgreiðslumanns frá Grænanesi í Norðfirði. Þau bjuggu hér á Ólafsvöllum (nr. 61) við Strandveg. Frú Kristín eignaðist klukkuna, þegar fóstra hennar féll frá árið 1899. Frú Ásta Gunnarsdóttir, húsfreyja í Hólshúsi, er dóttir frú Kristínar S. Jónsdóttur. Hún eignaðist klukkuna að móður sinni látinni og gaf hana Byggðarsafninu.
568. Klukka. Þessar klukkur voru framleiddar á styrjaldarárunum síðari (1939-1945). Ekki var þá leyft að nota málm í klukkukassa. Alla málma þurfti að nota í þágu hernaðarátakanna til tortímingar eignum og mannslífum.
569. Borðklukka. Þessa gömlu klukku áttu tómthúshjónin á Fögruvöllum, Sigurður sjómaður Vigfússon (Siggi Fúsa) og frú Þorgerður Erlendsdóttir. Hann var einn af kunnustu sjómönnum hér í kauptúninu á sínum langa æviferli. Þau hjónin bjuggu að Fögruvöllum við Strandveg (áður nr. 39 C, nú nr. 18 við Miðstræti) um hálfrar aldar skeið eða frá 1885-1935. Ýmsir töldu Sigurð Vigfússon fræðaþul og svo eru ýmis hnyttiyrði eftir honum höfð.
570. Klukka (standklukka). Hún var á sínum tíma einskonar „Bornholmsklukka“, sem stóð um árabil í stofunni á Gerði hjá hjónunum frú Margréti Eyjólfsdóttur og Guðlaugi bónda Jónssyni, útgerðarmanni. Klukkukassa þennan smíðaði á fyrri öld Jón bóndi og smiður Vigfússon í Túni.
571. Klukka. Þegar flúið var úr bænum með Byggðarsafnið á fyrstu dögum eldsumbrotanna, tapaðist annar „vængurinn“ af klukkukassa þessum. Þessa klukku áttu fósturforeldrar Þorsteins Þ. Víglundssonar, hjónin á Hóli í Norðfirði, frú Stefanía Guðjónsdóttir frá Hamarsholti í Hreppum og Vigfús smiður og útgerðarmaður Sigurðsson frá Kúfhóli í Landeyjum. Hann smíðaði klukkukassann. Þ.Þ.V. erfði klukku þessa eftir fósturforeldra sína og gaf hana Byggðarsafninu.
572. Klukka. Þessi veggklukka var keypt haustið 1927 af Gísla Lárussyni gullsmið í Stakkagerði, sem verzlaði þar með úr, klukkur og skartgripi. Hjónin Þorsteinn Þ. Víglundsson og Ingigerður Jóhannsdóttir, sem þá voru nýflutt til kaupstaðarins, keyptu þessa klukku og áttu hana um tugi ára. Þau gáfu hana Byggðarsafninu.
573. Klukka - vekjaraklukka. Klukku þessa átti eitt sinn einn af lögregluþjónum kaupstaðarins. Erfingjar hans gáfu hana Byggðarsafninu.
574. Klukka (veggklukka) frá Stóru-Löndum. Klukku þessa áttu hjónin frú Elín Þorsteinsdóttir frá Dyrhólum í Mýrdal og Friðrik Svipmundsson, skipstjóri og útgerðarmaður. Þau byggðu íbúðarhúsið að Stóru-Löndum (nr. 11) við Landagötu 1909.
575. Klukka („stimpilklukka“). Þetta mun vera fyrsta stimpilklukka, sem keypt var til Eyja. Hana átti Einar Sigurðsson, hraðfrystihúsaeigandi, („Einar ríki“) og notaði hana um árabil í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja. Hann gaf Byggðarsafninu klukkuna árið 1966.
576. Klukka („rafmagnsklukka“). Þessa klukku gaf Friðfinnur Finnsson, kaupmaður frá Oddgeirshólum, Byggðarsafninu. Frú Anna Johnsen, Túngötu 7 í Reykjavík, gaf F.F. klukkuna og lagði um leið svo fyrir, að hann skyldi gefa hana Byggðarsafninu, þegar hann vildi ekki nota hana lengur eða eiga.
577. Klukka (borðklukka) úr gleri. Þessa klukku áttu héraðslæknishjónin að Kirkjuhvoli (nr. 65 við Kirkjuveg), frú Anna og Halldór Gunnlaugsson. Börn þeirra gáfu Byggðarsafninu klukkuna eftir þeirra dag.
578. Klukka. Þessa klukku átti Maríus Jónsson, sjómaður í Framnesi (nr. 3 B) við Vesturveg. Klukkan var send Byggðarsafninu frá Vossabæjarhjáleigu í Gaulverjabæjarhreppi eftir fráfall Maríusar Jónssonar. Gefandi: Frú Anný Guðjónsdóttir, bróðurdóttir M.J.
579. Karlmannsúr. Það fannst í norskum heybagga, sem keyptur var til Eyja um eða eftir 1930 og var fluttur frá Noregi með norska millilandaskipinu Lyru, sem þá hafði fasta áætlun milli landanna. Árni J. Johnsen frá Frydendal, síðast bóndi í Suðurgarði, gaf byggðarsafninu úrið.
580. Karlmannsúr. Þetta vasaúr gáfu fósturforeldrar Þ.Þ.V. honum, þegar hann fermdist vorið 1914. Það er „15 steina úr“, eins og það var þá orðað. Síðan notaði hann úr þetta hér í bæ í 37 ár, en alls 46 ár samfleytt. Með því gætti hann stundanna í Unglingaskóla Vestmannaeyja í 3 ár, í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum í 30 ár og í Sparisjóði Vestmannaeyja í 17 ár, áður en hann eignaðist armbandsúr. Úr þetta var sem sé notað til ársins 1960 og þá gefið Byggðarsafninu.
581. Karlmannsúr, mjög gamalt, enda dregið upp með lykli. Það var á sínum tíma keypt í einokunarverzluninni hér um 1860. — Úr þetta notaði um tugi ára Finnbogi bóndi og skipstjóri Björnsson í Norðurgarði. Gefandi: Frú Klara Kristjánsdóttir frá Heiðarbrún við Vestmannabraut (nr. 59).
582. Karlmannsúr mjög gamalt, enda dregið upp með lykli. Þetta úr átti hér upprunalega Michael Marius Ludvig Aagaard, sem var sýslumaður hér í Eyjum 1872-1891. Pétur bóndi og bátasmiður Benediktsson í Þórlaugargerði eignaðist úrið við brottför sýslumanns frá Eyjum. Síðan erfði Jón bóndi og smiður Pétursson í Þórlaugargerði það eftir föður sinn og síðan Jón bóndi og smiður Guðjónsson í Þórlaugargerði eftir fósturforeldra sína. Hann gaf það Byggðarsafninu.
583. Karlmannsúr. Á árunum 1878-1882 reisti Jóhann Jörgen Johnsen í Vestmannaeyjum tvílyft timburhús byggt úr finnskum kjarnaviði. Meira en tvo tugi ára var hús þetta sjúkraskýli Eyjamanna, og veitingahús og gististaður gesta í kauptúninu. Yfirsmið við bygginguna sóttu hjónin, sem byggðu þetta langstærsta hús í kauptúninu, norður í Skagafjörð. Hann hét Árni Árnason, smiður. Hann settist síðan að í Eyjum og stundaði hér sjó, þegar hann var ekki við smíðar. Hann drukknaði í fiskiróðri árið 1887. Árni Árnason húsasmiður átti þetta úr. Sigfús M. Johnsen, sonur hjónanna Jóhanns J. Johnsen og frú Önnu Sigríðar Árnadóttir, sem byggðu húsið, eignaðist úrið og gaf það Byggðarsafninu.
584. Karlmannsúr. Þetta vasaúr átti Einar Kári Jónsson frá Káragerði í Landeyjum. Hann var bróðir frú Guðríðar, síðari konu Sigurðar hreppstjóra Sigurfinnssonar og þannig móðurbróðir Einars Sigurðssonar, hraðfrystihúsaeiganda. Einar Kári þótti með afbrigðum góður ræðari, og tók hann þátt í kappróðrum í Eyjum. Jafnframt var hann kunn aflakló á handfærið sitt.
585. Kvenúr. Þetta úr gaf Byggðarsafninu frú Steinunn Jónasdóttir, síðast til heimilis hjá Óskari Jósúasyni, syni sínum og frú að Kirkjuvegi 20 hér í kaupstaðnum. Hún var ekkja Jósúa Teitssonar bólstrara. Úri þessu skyldi ávallt fylgja þessi orð frá gefanda: „Úrið er tryggðarpantur eiginmanns míns frá árinu 1910, en það ár hétum við hvort öðru trú og tryggð, unnum hjúskaparheit okkar í Snóksdal í Dalasýslu.“
586. Úrfesti, sem notað var við úrið nr. 580.
587. Úrfesti úr kvenhári. Úrfesti þessa átti Jón kaupmaður Einarsson á Gjábakka. Hún var gefin Byggðarsafninu við fráfall hans.
588. Úrkassi. Þennan úrkassa með rómverskum tölum átti Brynjólfur Einarsson, bátasmíðameistari, Boðaslóð 4 hér í bæ.
589. Vasaúr. Þetta stóra vasaúr er sérlegt að því leyti, að á því eru engar tölur. Það er ætlað blindu fólki. Þetta úr átti Halldór Brynjólfsson frá Norðurgarði, fóstursonur Jóns bónda í Gvendarhúsi og frú Sesselju Jónsdóttur konu hans. Halldór var blindur frá 13 ára aldri. Þó stundaði hann sjó um tugi ára og vann ýmis störf önnur til framfærslu sér og sínum. (Sjá grein um þennan merka mann í Bliki árið 1954). Halldór Brynjólfsson þreifaði um úrskífuna og fann á örðunum, hvað tímanum leið.
590. Skipsklukka. Þessa skipsklukku sendi Friðrik Ólafsson, sem var skipherra á varðskipum ríkisins í 6 ár á árunum 1925-1934. Síðar var hann skólastjóri Stýrimannaskólans í Reykjavík. Björgunar- og varðskipið Þór strandaði á Sölvabakkaskerjum utanvert við Blönduós 21. des. 1929. Friðrik Ólafsson bjargaði ýmsum hlutum úr varðskipinu, m.a. þessari klukku, sem hann sendi Byggðarsafninu að gjöf. Klukka þessi mætti minna Eyjafólk á það mikla framtak, er Eyjamenn keyptu þetta fyrsta björgunar- og varðskip íslenzku þjóðarinnar til landsins árið 1920.
591. Borðklukka.
592. Lóðaklukka. Þessa litlu lóðaklukku átti frú Una Jónsdóttir, skáldkona, sem bjó um árabil að Faxastíg 21 (Sólbrekku) hér í bæ.
593. Veggklukka.
594. Úrfesti. Úrfesti þessi fylgdi úri nr. 584.
595. Úrkassi, gulur að lit. Úrkassar þessir voru algengir hér áður fyrr, þegar vasaúrin voru í tízku. Þeir voru notaðir til hlífðar þeim í vestisvasa. Þennan kassa átti Einar Kári Jónsson frá Káragerði (sjá nr. 584).


8. kafli
Póstur og sími



596. Flöskuskeyti. Um aldir var byggðin í Vestmannaeyjum mjög einangruð. Skipaferðir voru strjálar og vikum saman var ekki lendandi við sanda Suðurlandsstrandarinnar sökum brims. Fyrr á tímum var þess vegna algengt, að Eyjabúar sendu boð í flöskum til vina og nánasta vandafólks í Suðursveitum landsins með því að láta sunnan storminn bera skeytið (flöskuna) norður til strandar.
Oft var daglega genginn Landeyjasandur í leit að reka, og svo fiski til matar. Þá fundust flöskur þessar. Skeytunum var komið til skila svo fljótt sem við varð komið. Það þótti sjálfsögð skylda og var ríkjandi drengskapur. Launin, burðargjaldið, fólst í flöskunni: Eilítil tóbakslús.
Þetta er eftirlíking af flöskuskeyti, sem frú Ingibjörg Ólafsdóttir frá Bólstaðarhlíð (nr. 39 við Heimagötu) sendi föður sínum, Ólafi bónda Ólafssyni í Eyvindarholti undir Eyjafjöllum, haustið 1921. Guðjón skipstjóri Jónsson frá Sandfelli (nr. 36 við Vestmannabraut), kastaði flöskunni í sjóinn norður af Eiði á leið í fiskiróður. Ekki er annað vitað, en að þetta hafi verið síðasta flöskuskeytið, sem sent var milli Eyja og lands.
597. Frímerkjahylki. Þessi bláu hylki notaði póststjórnin íslenzka um tugi ára til þess að senda frímerki í til pósthúsa víðsvegar um landið. Þetta gamla frímerkjahylki fannst í gömlum skjalakassa, sem geymdur var í Godthaabshúsinu frá þeim tíma, er Gísli J. Johnsen gerðist hér póstmeistari (1904). Þá gerði hann húsið Godthaab að pósthúsi. En hylkið er eldra. Sigfús Árnason á Litlu-Löndum fékk send frímerki í hylkjum þessum, þegar hann var póstmeistari í Eyjum á árunum 1894-1904.
598. Ritsímalykill. Þetta er hinn fyrsti svokallaði ritsímalykill, sem notaður var með Morstækjunum hér í Eyjum. Með morslykli þessum voru búnir til punktar og strik, sem mynduðu stafrófið eða táknuðu stafi eftir punkta og strikafjölda. T.d. var A táknað með • - og B með — - ••• og C með — •- • o.s.frv.
Þrír punktar áttu að vera jafnlangir og eitt strik og bil milli punkta og striks jafnlangt og einn punktur. Símritarar gátu náð ótrúlegum hraða í sendingu morsmerkja með svona ritsímalyklum. Algengt var að senda 150-160 stafatákn á mínútu. Morslykill þessi var tekinn í notkun hér á landi 1906. Þessi morslykill var gefinn Árna Árnasyni, símritara frá Grund við Kirkjuveg (nr. 31), árið 1919. Þá lærði hann að nota lykilinn. Það þótti þá mikið afrek í símritarastarfinu. Árni Árnason gaf Byggðarsafninu lykilinn ásamt táknum þeim, sem hér eru birt.
599. Símtól. Árið 1919 var síminn lagður suður í Stórhöfða. Þetta er fyrsta talsímatólið, sem þar var notað og hékk þar á vegg.
600. Símtól. Þannig litu mörg fyrstu símtólin út, þau, sem ætlað var að standa á borðum. Valdimar Kristjánsson, smíðakennari frá Kirkjubóli, gaf Byggðarsafninu þetta tæki.


9. kafli
Tóvinnutæki, vefnaður og dúkar


(Sumum finnst nóg um, hversu Byggðarsafn Vestmannaeyja hefur til sýnis mörg tóvinnutæki af líkri gerð, t.d. rokka og snældustóla. Þessu er til að svara:
Tóvinnukonur, sem notað höfðu hluti þessa árum og áratugum saman og þótti vænt um þá, hafa gefið þá Byggðarsafninu, beðið það að geyma þá til minnis um eigendur og notendur þeirra og þær mörgu ánægjustundir, sem vinnan og tækin veittu þeim. Stundum eru það afkomendur þessara mætu kvenna, sem hér eiga hlut að máli. Það væri að bregðast góðum gefanda og göfugri hugsun að stinga einhverjum af hlutum þessum undir stól. Einnig eru munir þessir býsna mismunandi að gerð).

601. Alinmál úr harðviði, sem eingöngu var notað, þegar unnið var að vefnaði. Íslenzk smíði. - Þegar Árni Filippusson í Ásgarði (nr. 29) við Heimagötu, hinn kunni Eyjabúi á sínum tíma (d. 1932), var sýsluskrifari hjá Hermanníusi sýslumanni Johnsson á Velli í Hvolhreppi á sínum yngri árum (f. 1856), stundaði hann vefnað í hjáverkum sínum. Þá smíðaði hann sér þetta alinmál. Það er þess vegna um það bil aldargamalt.
602. Bandprjónar. Prjóna þessa átti frú Marta Jónsdóttir í Baldurshaga (nr. 5 við Vesturveg), sem var prjónakona mikil. Þessa örmjóu prjóna notaði frúin, þegar hún prjónaði skotthúfur við íslenzka kvenbúninginn og svo fíngerða fingravettlinga.
603. „Bandstýra“. Svo var þessi hlutur kallaður. Ullarbandið var látið renna gegnum gatið á „bandstýrunni“, þegar það var undið í hnykil.
604. Hesputré, smíðað úr málmi. Þetta sérkennilega hesputré er gjöf til Byggðarsafnsins frá frú Dýrfinnu Gunnarsdóttur, ekkju Páls heitins Bjarnasonar barnaskólastjóra í Vestmannaeyjum. Bróðir frúarinnar smíðaði á sínum tíma hesputréð handa móður sinni, frú Katrínu Sigurðardóttur, sem síðast var húsfreyja á Hólmum í Landeyjum.
605. Hesputré. Þetta hesputré átti og notaði um árabil frú Marta Jónsdóttir í Baldurshaga, kona Högna Sigurðssonar, síðasta hreppstjórans í Vestmannaeyjum.
606. Hesputré, mjög gamalt. Síðast átti þetta hesputré frú Hólmfríður Jónsdóttir, húsfreyja að Skjaldbreið í Eyjum (nr. 36 við Urðaveg), kona Sigurðar skipstjóra Ingimundarsonar. Frú Hólmfríður gaf Byggðarsafninu hesputréð nokkrum vikum áður en hún andaðist.
607. Hesputré. Þetta hesputré er upprunalega komið til Eyja frá Káragerði í Landeyjum. Árið 1903 fluttist hin aldraða húsfreyja í Káragerði, frú Ástríður Pétursdóttir, til Vestmannaeyja með Guðrúnu dóttur sinni og manni hennar, Sigurði Ísleifssyni trésmíðameistara. (Sjá Blik 1969, grein um hjónin í Merkisteini).
608. Hesputré. Þetta hesputré áttu hjónin á Heiði (nr. 34 við Heimagötu. þ.e. Gömlu Heiði), frú Guðríður Jónsdóttir frá Káragerði í Landeyjum og Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson (d. 1916), foreldrar Einars hraðfrystihúsaeiganda.
609. Hesputré. Þetta hesputré áttu hjónin á Heiði (nr. 19 við Sólhlíð, Stóru-Heiði. Húsið skemmdist í eldsumbrotunum og var brotið niður til grunna í júnímánuði 1975). Hjónin voru frú Bjarngerður Ólafsdóttir og Guðjón Jónsson skipstjóri. Frú Bjarngerður gaf Byggðarsafninu hesputréð.
610. Hnokki. Hann er smíðaður úr hvalbeini og þess vegna mjög sérlegur. Þennan hnokka gaf Byggðarsafninu frú Jóhanna Jónsdóttir, sem hér dvaldist þá á elliheimilinu að Skálholti (nr. 43) við Urðaveg.
611. Hnyklatína. Þær voru helzt notaðar til þess að geyma í bandhnykla. Hnyklatínu þessa átti frú Kristín Gísladóttir, húsfreyja á Búastöðum (d. 1921). kona Lárusar Jónssonar hreppstjóra. Þau voru foreldrar hinna merku Eyjabúa Gísla gullsmiðs Lárussonar, útgerðarmanns, hákarlaformanns og kaupfélagsstjóra, og Fríðar Lárusdóttur, konu Sturlu Indriðasonar. Frú Fríður gaf Byggðarsafninu tínuna.
612. Hnyklatína. Þessi hnyklatína er mjög gömul. Hana átti og notaði síðast frú Salvör Þórðardóttir, stjúpa Árna gjaldkera Filippusonar í Ásgarði (nr. 29 við Heimagötu). Frú Salvör var seinni kona Filippusar ferjumanns og bónda Bjarnasonar í Háfshól í Holtum. Fyrri kona Filippusar ferjumanns, frú Guðrún Árnadóttir, dannibrogsmanns og bónda Jónssonar, átti tínu þessa. Hún var fædd að Stóra-Hofi á Rángárvöllum 26. okt. 1833 og lézt árið 1866. Frú Guðrún var unglingsstúlka, þegar hún eignaðist tínuna.
Frú Salvör Þórðardóttir var fædd 16. nóv. 1831 og andaðist í Ásgarði við Heimagötu 17. nóv. 1911. Dætur Árna Filippussonar, stjúpsonar hennar, frú Guðrún og frú Katrín, gáfu Byggðarsafninu hnyklatínuna.
613. Kembulár eða lyppulár. Kembulár þennan átti frú Ingibjörg Jónsdóttir, húsfreyja í Hraungerði (nr. 9) við Landagötu. Hún var síðari kona Gottskálks sjómanns Hreiðarssonar og stjúpa Sigurðar Gottskálkssonar, síðast bónda á Kirkjubæ. Í kembulárinn voru lagðar kembur, þegar verið var að kemba ullina.
Áður en rokkar komu til sögunnar, var ullin lyppuð ofan í lárinn. Þar af nafnið lyppulár. Ullin var þá spunnin á halasnældu eins og hrosshár.
Kembulár þessi á dálitla sögu. Móðir frú Ingibjargar í Hraungerði, frú Katrín Guðmundsdóttir, eignaðist lárinn úr dánarbúi séra Ásmundar sóknarprests í Odda á Rangárvöllum Jónssonar. Hann lézt árið 1880. Móðir séra Ásmundar, frú Karítas Illugadóttir, kona Jóns lektors Jónssonar á Bessastöðum, átti lárinn upphaflega. Hún lézt árið 1837. Þá eignaðist sonur hennar, séra Ásmundur, lárinn.
614. Krókarefskefli. Þau voru smíðuð úr einni spýtu og þóttu völundarsmíð, ef vel tókst að telgja þau. Þau þóttu jafnan dýrgripir. Miklar hannyrðakonur áttu þau jafnan. Þær höfðu á þeim mislitan þráð til útsauma. Á þeim voru 2 eða 3 þráðahöld, sem svo voru nefnd. Þetta krókarefskefli áttu hjónin Sigfús M. og Jarþrúður P. Johnsen og gáfu það Byggðarsafninu.
615. Prjónastokkur, skrautmálaður. Prjónastokkur þessi er mjög gamall. Frú Katrín Þórðardóttir í Júlíushaab á Tanganum hér á Heimaey, flutti hann með sér hingað til Eyja árið 1869, en hún var tengdamóðir Gísla verzlunarstjóra Engilbertssonar í Júlíushaabverzlun. Eiginmaður hennar var Þórarinn bóndi Þórarinsson frá Mörtungu á Síðu. Frú Katrín Þórðardóttir eignaðist prjónastokkinn, þegar hún var fermd eða um það bil 1820. Þau hjón bjuggu í Neðra-Dal undir Eyjafjöllum.
616. Prjónastokkur. Þennan útskorna prjónastokk átti Guðrún Pálsdóttir prests Jónssonar á Kirkjubæ, Gunna skálda, sem svo var kölluð, af því að hún lét oft fjúka í kviðlingum, og var hún vel hagmælt eins og séra Páll skáldi faðir hennar. Hún fæddist árið 1818 og lézt 1890. Síðustu æviárin bjó hún í tómthúsinu Kuðungi við Sjómannasund, sem var þröng gata, er lá norður á Strandveginn.
617. Prjónastokkur. Þennan prjónastokk átti Björg Jóhannsdóttir frá Krosshjáleigu í Landeyjum, en hún var lengi vinnukona hjá frú Jónínu Jónsdóttur í Gerði og andaðist hjá henni árið 1940. Björg Jóhannsdóttir var margar vetrarvertíðir sjóbúðarbústýra, eins og það var kallað, hjá skipshöfnum úr Landeyjum, sem lágu hér við til fiskveiða á vetrarvertíðum. Frú Jónína Jónsdóttir. fyrrv. húsfreyja í Gerði, gaf Byggðarsafninu prjónastokkinn.

II. hluti