Blik 1976/Bréf til vinar míns og frænda, VI. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 10. október 2010 kl. 14:31 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 10. október 2010 kl. 14:31 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit Blik 1976



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda


(Æviþáttur)
(6. hluti)


Önnur lota


Kaup kaups
Þegar Flokksforustan uppgötvaði, hversu auðvelt var að fá mig sektaðan, þar sem ég var dæmdur til AÐ GREIÐA RÍKISSJÓÐI SEKTIR fyrir persónulegar ærumeiðingar í minn garð þrátt fyrir upptök ráðherrans og skattstjórans að deilum þessum, þá afréð Flokksforustan, að fram skyldi haldið í sama anda í trausti á dómsvaldið í kaupstaðnum. Nokkra svölun gætu þær málsóknir og sektir veitt þeim vegna kosningaósigursins 29. janúar.
Fyrir bæjarstjórnarkosningarnar hafði ég skrifað langa grein í Framsóknarblaðið í Eyjum um forustulið Flokksins, eiginhagsmunabaráttu þess og vanstjórn, meðan þeir höfðu þar völdin, mennirnir sem skipuðu forustuna. Grein þessa kallaði ég Óhappamenn - niðurrifsmenn. Án efa átti hún nokkurn þátt í kosningasigri okkar Framsóknarmanna við bæjarstjórnarkosningarnar. - Nú sá „upplesari skattsvikabréfsins“, sem orðinn var forustumaður Flokksins, sér slag á borði eftir ábendingu héraðsdómslögmannsins. Tínd voru upp nokkur bitur orð úr grein þessari og talin meiðyrði, sem rétt væri að fá dóm fyrir. Síðan stefndi Guðlaugur, „upplesari skattsvikabréfsins“, mér fyrir þau. Þá hófst önnur lota þessara málaferla.
Héraðsdómslögmaðurinn, sjálfur skattstjórinn, sótti mál þetta fyrir „upplesarann“ og leiddi hann nánast við hlið sér inn í bæjarþingið eins og einhvern ómálga peyja. Af þeirri sjón hafði ég mikla ánægju. Það var mér vissulega gleðiefni að sjá þá saman hlið við hlið í stólunum í bæjarþingskrubbunni að Tindastóli, bæjarfógetasetrinu í Eyjum. Og mig langar til að skjóta því hérna inn í mál mitt, að það varð mitt hlutskipti að láta byggja hús í bænum, þar sem bæjarfógetaembættið fékk húsnæði við sitt hæfi, svo að við Eyjabúar þyrftum ekki lengur að blygðast okkar fyrir aðbúnað bæjarfógetaembættisins, þegar t.d. útlendingar áttu erindi til þessa æðsta embættismanns í bæjarfélaginu, fulltrúa íslenzka ríkisins. Það var árið 1964 að bæjarfógetaembættið fékk inni í byggingu Sparisjóðs Vestmannaeyja, í hinni nýju byggingu hans, fyrir atbeina minn. Mér þótti vænt um að geta komið þessu svona vel fyrir, enda voru bæjarfógetarnir sjálfir jafnan velviljaðir mér og starfi mínu og engir ofstækismenn að mínu mati. En þetta er allt önnur saga og hvarf frá efni frásagnar minnar.
Þegar hér var komið sögu, hafði ég þjálfazt þó nokkuð í þessari málsvarnariðju og hafði, þó að skömm sé frá að segja, býsna mikla ánægju af henni. Mér gáfust þarna tök á að sálgreina lögfræðingana og fá staðfestingu á samstöðu þeirra í málarekstri þessum gegn leikmanninum. Skerpa þeirra og gáfnafar varð mér líka ljósara en áður og listin sú að kunna að beita lögfræðilegum rökum. Þarna hafði ég líka ánægju af því að sjá héraðsdómslögmanninn í bæjarþinginu með skjólstæðing sinn, sænska konsúlinn, við hlið sér eins og svolítinn drenghnokka, sem ekki kunni fótum sínum forráð.
Klögumálin gengu á víxl, eins og segir í sögunum okkar. Þetta var raunar orðinn spennandi sjónleikur. Málin sótt og varin, færð fram sök og gagnsök, því að ég gagnstefndi Guðlaugi Gíslasyni fyrir að lesa bréfið, skattsvikabréfið, í eyru almennings. Ég gerði kröfu til þess að hann yrði dæmdur til að leggja bréfið fram í bæjarþinginu. Þá fannst mér málsvörnin verða að kátbroslegri skrítlu undir verndarvæng héraðsdómslögmannsins, því að „upplesarinn“ var látinn leggja fram í bæjarþinginu þannig orðaða vörn gegn því, að hann gæti lagt fram „Skattsvikabréfið“, og tók dómarinn þessa vörn hans góða og gilda!:
Við athugun kemur í ljós, að í skjölum þeim, sem ég enn á eftir frá framboðsfundinum 27. jan. s.l., fyrirfinnst ekkert bréf eða skjal, sem gæti verið það, sem um ræðir í stefnu. Ég leyfi mér því að krefjast algjörrar sýknar í máli þessu og málskostnað eftir mati dómarans.“
Í málsvörn þessari undir handleiðslu héraðsdómslögmannsins var vissulega treyst á dómarann, vinsemd hans, samúð og flokkslega fylgispekt. Og vissulega brást hann ekki. Hann tók það gott og gilt, að skattsvikabréfið fannst ekki í bréfarusli því, sem sakborningurinn átti eftir í fórum sínum frá bæjarmálafundinum. Að öðrum kosti var æru þingmannsins hætta búin. Verja þurfti ráðherrann til hins ýtrasta. Annað gátu beinlínis talist svik við Flokkinn.
Í þessari lotu varð útkoman „kaup kaups“, eins og eitt bæjarblaðið í Eyjum orðaði það. Ég var dæmdur til að greiða sektir í ríkissjóð og málskostnað samtals kr. 900,00 og upplesari skattsvikabréfsins samtals kr. 1300,00. Þarna fannst fólki dómarinn standa sig furðu vel og betur en búizt var við.
Ekki minnist ég þess, að þessar sektir væru nokkru sinni innheimtar. Gat sú vanræksla verið hlífð við Flokksforingjann, upplesara skattsvikabréfsins?


Þriðja lota


Fyrsta stefna. Hóskólapróf í lögfræði
er ekki einhlítt
Þegar allir svardagar voru um garð gengnir varðandi „Faktúruna í tunnunni“, kom brauðgerðarmeistarinn aftur heim til Eyja vestan úr Stykkishólmi. Þá tók hann sætið sitt í bæjarstjórn kaupstaðarins eins og ekkert hefði í skorizt, og okkur kom þar býsna vel saman. Hann hafði verið efsti maður á lista Flokksins við bæjarstjórnarkosningarnar 29. jan. (1950).
Hinn 18. jan. 1951 var haldinn fundur í bæjarstjórn Vestmannaeyja. Fyrir fundi þessum lá m.a. tillaga um ráðningu lögregluþjóns. Goodtemplari nokkur í bænum hafði sótt um stöðuna. Þó að hann væri bindindismaður, sem ég taldi veigamikla kosti, hafði ég ekki persónulega trú á því, að hann reyndist vaxinn lögregluþjónsstarfinu, því að meira þurfti með, svo að hann gæti innt starfið af hendi vel og sómasamlega. Ég lagðist þess vegna gegn því, að hann yrði ráðinn í stöðuna.
Þá tók brauðgerðarmeistarinn að stríða mér, að mér fannst. Hann var býsna kerskinn. Hann sagði það skjóta dálítið skökku við, að ég skyldi ekki veita þessum manni brautargengi til þessa starfs, þar sem hann væri bindindismaður eins og ég og goodtemplari. Ekki kvaðst hann sjálfur vera bindindismaður, eins og ég vissi, og þó vildi hann stuðla að því með atkvæði sínu, að þessi goodtemplari fengi lögregluþjónsstöðuna. Mér varð á að svara honum á þá lund, að þess væru dæmin, þegar stjórnmálaleg hagsmunavon væri annars vegar, að jafnvel þeir sem neyttu áfengis daglega eða annan hvern dag árið í kring, gætu með góðri samvizku stutt goodtemplara til starfs með atkvæði sínu. En sá, sem ráðinn yrði til lögreglustarfs í bænum, þyrfti vissulega að hafa fleiri góða kosti til brunns að bera en bindindi á áfenga drykki, þó að það væri áberandi mikill kostur allra starfsmanna.
Þar með var þetta mál útkljáð og annar maður ráðinn í stöðuna. Næsta dag þinguðu menn á „sjakketum“ þarna neðst við Heimagötuna og dreyptu á. Ég átti þar trúnaðarvin í hópnum, þó að lágt færi.
Nokkrum dögum síðar bar gesti að garði í Goðasteini, íbúðarhúsi okkar hjóna (nr. 11 við Kirkjubæjabraut). Þetta voru blessaðir stefnuvottarnir í bænum. Í fjarveru minni við skyldustörf afhentu þeir konunni minni stefnu, sem hún kvittaði fyrir. Héraðsdómslögmaðurinn, skattstjórinn í bænum, hafði tekið að sér að reka málið fyrir hinn eiginlega stefnanda, brauðgerðarmeistarann. Tilefni stefnunnar var það, að ég hefði átt að segja brauðgerðarmeistarann neyta áfengis hvern dag árið um kring eða að minnsta kosti annan hvern dag allt árið. Já, meira að segja sagt hann fullan hvern dag eða annan hvern dag árið í kring. Þannig átti sökin a.m.k. að vera borin fram, og sótt skyldi til þeirrar sakar. En annað varð uppi á teningnum, þegar á hólminn kom.
Ég mætti ekki fyrir sáttanefnd, svo að mál þetta fór fyrir bæjarþingið. Þess vegna þurfti að stefna mér aftur.
Þegar ég las stefnuna, sá ég mér strax slag á borði. Stefnan var skakkt gerð eða orðuð hjá héraðsdómslögmanninum og þá vitleysu skyldi ég svo sannarlega notfæra mér.
Sakargiftin var þannig orðuð í stefnunni og sett innan gæsalappa: „ ... þar sem ég væri undir áhrifum hvern dag eða a.m.k. annan hvern dag ...“ Og taktu vel eftir: Þessi orð voru sett innan gæsalappa í stefnunni, sem sé mín eigin orð um sjálfan mig. Svo mætti ég í bæjarþinginu á tilskildum tíma með greinargerð mína og frávísunarkröfu. Hún hljóðaði þannig að nokkrum hluta:
„Í sáttarkæru, réttarskjali nr. 2., hefur stefnandi eftir mér í beinni ræðu innan gæsalappa: „Þar sem ég er undir áhrifum hvern dag eða að minnsta kosti annan hvern dag.“ Þessi orð kveðst stefnandi taka orðrétt eftir mér á bæjarstjórnarfundi 18. jan. s.l. og telur þau „mjög ærumeiðandi og álitsspillandi fyrir sig. Hann hefur því hafið málsókn á hendur mér sökum þeirra. Ég fæ ekki annað skilið en að hin tilgreindu orð eigi við sjálfan mig, eins og þau eru sett fram í sáttakærunni, og ég mótmæli því, að þau eigi eða geti átt við nokkurn annan eða ærumeitt hann.
Stefnanda brestur algjöran rétt og aðild til að höfða á mig meiðyrðamál út af hnjóðsyrðum eða ásökunarorðum, sem ég kann að hafa látið falla um sjálfan mig, eins og þau eru sett fram í sáttakærunni. Sjálfsásökunarrétturinn er helgasti réttur mannssálarinnar, og hann getur enginn tekið frá mér eða dæmt af mér fremur en það er í mannlegu valdi að deyða sjálfa sálina.
Í réttarhaldi, sem fram fór í máli þessu 19. marz s.l. fullyrti stefnandi að ég hefði sagt um hann á bæjarstjórnarfundi, að hann (þá hann sjálfur) væri „fullur“ hvern dag eða a.m.k. annan hvern dag. Þá koma sem sé fram nýjar sakir, en ekki minnzt einu orði á sakarefnið sjálft, sem sett er fram í sáttakæru, þ.e. „sjálfsásökunarorðin“.
Þetta var þá meginuppistaðan í svari mínu við fyrstu stefnu í meiðyrðamáli þessu, og ég undraðist sljóleika hins háskólalærða lögfræðings, sem rak málið fyrir brauðgerðarmeistarann.
Í bæjarþinginu lagði ég sem sé á það áherzlu, að stefnandi hefði engan rétt til þess að stefna mér og lögsækja mig fyrir sjálfsásökun og benti dómaranum á orðalag stefnunnar. Þá gerðist atburður, sem ég gleymi aldrei:
Héraðsdómslögmaðurinn, skattstjórinn Jón Eiríksson, lagðist að hálfu leyti fram á borðið fyrir framan dómarann, svo að botninn blasti við mér. Hann tók upp penna sinn og breytti orðalagi stefnunnar þarna fyrir framan nefbroddinn á sjálfum dómaranum. Það ætlaði hann að dygði í bæjarþingi Vestmannaeyja!
Ég leyfði mér að benda dómaranum á þá staðreynd í lögfræðilegri fávizku minni, að hér væri um skjalafölsun að ræða fyrir framan augun á sjálfum dómaranum, þar sem sakargiftirnar væru nú allt aðrar en teknar væru fram í stefnuafriti því, sem konan mín hefði veitt viðtöku fyrir tveim dögum í máli þessu. Hér væri um skjalafölsun að ræða, sem ég gerði kröfu til, að umboðsmaður stefnanda, hinn vísi héraðsdómslögmaður, yrði dæmdur í sektir fyrir, skjalafölsun fyrir framan augun á sjálfum dómaranum. Jafnframt krafðist ég þess, að máli þessu yrði vísað frá bæjarþingi fyrir endalausa vitleysu og endemis þvælu um það, að ég hefði sakað sjálfan mig um drykkjuskap, sjálfur bindindismaðurinn! Nú fann ég, að ég stóð föstum fótum og þá svalaði ég mér eilítið þarna í bæjarþinginu. Þá byrsti dómarinn sig, varð hryssingslegur í minn garð, kuldalegur og nánast ruddalegur. Þessa framkomu hans hafði ég liðið fyrir áður í „skattsvikamálinu“, svo að mér kom hún ekki á óvart. Ég hafði hugsað þetta mál og tekið mínar ákvarðanir. Á þessu kýli skyldi ég stinga og hleypa út úr því vondum vessa. Hroki valdsmannsins átti sér lítil takmörk og samúðin með hinum lögfræðilega vini og samborgara nánast óviðurkvæmileg. Enn skyldi til stáls sverfa. Það hafði ég afráðið. Í bæjarþinginu lýsti ég yfir andstyggð minn á framferði dómarans og vildi láta hann bóka ávítanir mínar í sinn garð um auðsýnda andúð, hryssing og kuldaleg svör og hlutdrægni gagnvart mér. Jafnframt tilkynnti ég honum þá ætlan mína, að kæra hann og réttarfarið í kaupstaðnum fyrir dómsmálaráðuneytinu og tjá því, hverju ég hefði orðið vitni að, þar sem héraðsdómslögmaðurinn leyfir sér að falsa réttarskjöl fyrir framan nefbroddinn á sjálfum dómaranum. Jafnframt kæru þessari tjáði ég honum, að ég ætlaði að skrifa grein í tilnefnt bæjarblað í kaupstaðnum og tjá þar Eyjamönnum, hverju ég hefði orðið vitni að í bæjarþinginu og hvers þeir mættu vænta, ef vildarvinir dómarans, lögfræðingar að hans skapi, ættu þar hlut að máli.
Þegar ég hafði þannig létt á mér, sljákkaði í dómaranum og hann varð hinn ljúfasti í viðmóti. Það vissi ég að var ,,kápan á báðum öxlum“.
Málalyktir urðu þær, að máli þessu var vísað frá sökum endaleysu í hugsun og galla á orðalagi. Hins vegar voru kröfur mínar um sektir vegna tilraunar til skjalafölsunar ekki teknar til greina. Samt hlógum við og skemmtum okkur dásamlega, kunningjarnir.
Ég skrifaði síðan blaðagrein og lýsti reynslu minni af réttarfarinu í kaupstaðnum. Greinina kallaði ég: Bæjarþing Vestmannaeyja er virðuleg stofnun. (Sjá Framsóknarblaðið 6. júní 1951).


Önnur stefna.
Og aftur geigaði
Eins og ég hef tekið fram, frændi minn, þá er háskólapróf í lögfræði ekki einhlítt. Það skal ég nú aftur sanna þér.
Og svo var þá stefnt á ný í máli þessu. Mig langar til að leggja á það áherzlu, frændi minn góður, að ég vissi aldrei til þess, að stefnandi, brauðgerðarmeistarinn, umbjóðandi héraðsdómslögmannsins, væri teljandi vínneytandi, og mér hafði aldrei komið til hugar nein slík brigslyrði í hans garð. Þetta sagði ég brauðgerðarmeistaranum einslega, því að við vorum góðir kunningjar og þekktumst vel. En nú var það pólitíkin, sem réði lögum og lofum og flokksforustan þurfti að svala sér einhvernveginn fyrir hrakfarirnar í bæjarstjórnarkosningunum 29. jan. 1950.
Í trausti þess, að dómarinn hefði ekki tapað hinni ríku réttlætiskennd sinni og óhlutdrægni í dómum! Þá var konu minni enn fært afrit af stefnu, þar sem ég var fjarverandi við skyldustörf. Það varð þannig oftast hennar hlutskipti að kvitta fyrir stefnurnar, þegar stefnuvottana bar að garði. Og þeir höfðu orð á því síðar, hversu hún tók við þeim ljúflega og umyrðalaust, því að heimsóknir þessara manna og stefnuafhendingar kostuðu stundum skútyrði og illsku, svo að ekki sé meira sagt.
Og nú fór heldur báglega fyrir héraðsdómslögmanninum eins og fyrri daginn. Hann gleymdi að skrifa undir stefnuna f.h. umbjóðanda síns, brauðgerðarmeistarans. Þessa gleymsku hans notfærð ég mér sannarlega. Þarna stóðu þessi orð í stefnunni: „ ... og í þriðja lagi, að þau eru töluð í þeim tóni, að vínnautn vœri mér til vansa og að ég væri ofdrykkjumaður“.
Ég leyfi mér að benda dómaranum á þá staðreynd í lögfræðilegri fávizku minni, að umboðsmaður brauðgerðarmeistarans, héraðsdómslögmaðurinn, skrifaði undir stefnuna fyrir sína eigin hönd en ekki brauðgerðarmeistarans. Þar með væri það hann sjálfur, sem stefndi mér í máli þessu, þ.e., að þau orð, sem stefnandi eða umboðsmaður hans hefði fullyrt í fyrri stefnu, að ég hefði sagt um sjálfan mig, fullyrti nú héraðsdómslögmaðurinn að ég hefði sagt um hann sjálfan en ekki brauðgerðarmeistarann í þeim tón, að hann, hin lögspaki héraðsdómslögmaður sjálfur, hefði vansa af drykkjuskap sínum, og hann væri ofdrykkjumaður.
Ég krafðist þess, að þessari málsóknarendaleysu héraðsdómslögmannsins yrði vísað frá dómi, þar sem hún ætti enga stoð í veruleikanum, væri uppspuni frá rótum, væri algjörlega út í hött. Nú var úr vöndu að ráða. Ekki þurfti annað en að héraðsdómslögmaðurinn tæki upp pennann sinn og skrifaði f.h. brauðgerðarmeistarans eða í umboði hans. En nú var það ekki vogandi, því að ég hafði þá þegar kært hann fyrir skjalafölsun eða tilraun til slíks verknaðar í bæjarþinginu. Héraðsdómslögmaðurinn vissi, að kæra mín lá í dómsmálaráðuneytinu.
Dómarinn varð að fallast á það í annað sinn, að vísa máli þessu frá bæjarþinginu. Þá var vissulega hlegið í borg og bæ. Ég sagði frá atburðunum í Framsóknarblaðinu í Eyjum og lét óspart í ljós undrun mína á ásókn þessari og reynslu minni af réttarfarinu í kaupstaðnum. Héraðsdómslögmaðurinn sakaði símann og ritvélina sína um gallana á málskjölunum! Ég dró dár að öllu saman. Þannig svalaði ég mér með grein í Framsóknarblaðinu í bænum.


Þriðja stefna. Ósannindi staðfest með eiði
Í þriðja sinn stefndi svo héraðsdómslögmaðurinn mér og þá fyrir hönd brauðgerðarmeistarans. Ég hafði átt að fullyrða, að brauðgerðarmeistarinn væri ofdrykkjumaður, sem væri undir áhrifum áfengis hvern dag eða annan hvern dag árið í kring.
Hér tjái ég þér orðréttan nokkurn kafla greinargerðar minnar til varnar málstað mínum í bæjarþingi kaupstaðarins, eftir að stefnandi hafði skrapað saman vitnum málstað sínum til fulltingis og ákæru sinni til staðfestingar. Ég ætlaðist satt að segja til þess, að dómarinn tæki tillit til þessara athugasemda minna og veigraði sér við að fella dóm mér til áfellis. Þá höfðu vitni verið leidd í réttinn og þau látin kalla guð sinn til vitnis um sannsögli brauðgerðarmeistaranum til framdráttar.
Hér læt ég fljóta með kafla úr greinargerð minni og vörn. Vörnin ber það auðvitað með sér, að hér stýrir leikmaður pennanum en ekki lögfræðingur:

„Nú eru leidd fram í bæjarþingið tvö vitni, sem bera eða fullyrða allt annað mér til dómsáfellis en tilgreint er í sáttakærunni og mér er stefnt fyrir. Þau fullyrða og sverja, að ég hafi sagt að stefnandi væri sjálfur undir áhrifum hvern dag eða a.m.k. annan hvern dag allt árið. Þetta er í rauninni það eina, sem vitnunum ber saman um, enda voru þau leidd fyrir réttinn eitt og eitt með fjögurra daga millibili. Þau viðurkenna samfundi sína milli réttarhalda ...“
Eitt vitnið var ekki flokksmaður brauðgerðarmeistarans. Þetta vitni skulum við kalla Social Demo í þessu bréfi mínu til þín, frændi minn góður.
Og þá minnist ég broslegs atviks, þegar þetta vitni átti að mæta þarna í réttarhaldskrubbunni hjá bæjarfógeta að Tindastóli við Sólhlíð og bera sannleikanum vitni! Lokið var við að pumpa eitt vitni, góðan Flokksmann, sem fullyrt hafði margt málstað brauðgerðarmeistarans til framdráttar.
Vitnið Social Demo mætti ekki á tilskyldum tíma til réttarhaldsins. Ég krafðist þess, að pumpaða vitnið yrði geymt í eins konar stofufangelsi, þar til Social Demo væri fundinn og yfirheyrður, svo að vitnin ættu þess ekki kost að bera sig saman. Þeirri kröfu minni var fullnægt. Einnig var héraðsd.l. geymdur.
Fyrir augum mínum var þetta allt sprenghlægilegur skollaleikur og efni í góðan leikþátt. Og allt þetta málastapp væri orðið að leikriti, ef mig hefði ekki skort gáfur til þess að færa það í viðeigandi og viðhlítandi búning.
Eftir hálfrar annarrar klukkustundarleit fundu lögregluþjónarnir loks Social Demo. Þá hló mér hugur í brjósti. Vitnið hafði ekki fundizt heima við. Þá var leigð bifreið til leitarinnar og ekið um Heimaey suður og norður, austur og vestur. Loks fannst Social Demo vestur í Hrauni. Þar var hann að ganga sér til hressingar og gera upp við sálu sína, ályktaði ég og brosti svona innra með mér. Ég gerði þessu skóna: Á ég? Á ég ekki? - Nú, en fyrst þeir fundu hann, varð hann að standa við orð sín og reyna að duga þeim vel. Það er stundum erfitt að hemja neistann, sem liggur innst eða hafa vald á honum!
Hitt vitnið, sem þegar hafði skilað af sér og unnið eið að framburði sínum, síðan geymt í búrinu nær tvo tíma, var góður Flokksmaður, einn úr Foringjaliðinu og sat í fulltrúaráði Flokksins.
Og svo greini ég þér hér með orðréttan kafla úr vörn minni. Fyrir mér eru skrif þessi eins konar „íslenzk fyndni“, sem ég rifja upp mér til kátínu í ellinni. - Þessar ábendingar mínar til dómarans voru sendar honum til þess að veikja málstað stefnanda öðrum þræði og svo til að halda til haga hinni spaugilegu hliðinni á vitnaleiðslum þessum og málaþrasi:

„Mætti ég biðja háttvirtan dómarann að íhuga og athuga vel það, sem skráð er í bæjarþingsbók Vestmannaeyja um framburð Sócial Demó fyrir réttinum 19. marz s.l. Má ég biðja dómarann að athuga og íhuga, hvernig vitni þetta orðar svör sín við spurningum mínum varðandi málsatvik. Vitnið, „... kvaðst halda ...“, „ ... kvaðst halda ...“, „... heldur minni hann ...“, „... kvaðst hann ekki muna ...“, „ ... kvaðst ekki muna ...“, „ ... hann heldur ...“, „... að því er vitnið minnir ...“, „ ... og kvaðst hann halda ...“, ... gæti vel verið, að hann ...“, ... ekki væri sér unnt að sanna ...“, „ ... hann kvaðst ekki muna ...“, „ ... hann kvaðst ekki muna ...“, „ ... hann kvaðst halda ...“, „ ... ekki kvaðst hann geta fullyrt það með vissu ...“ Þannig eru svör vitnisins við spurningum mínum. Vill dómarinn segja mér, hvers konar svör eru táknræn fyrir pólitísk ljúgvitni? Virðist ekki dómaranum, að minni vitnisins sé æði gloppótt?“
En svo allt í einu fær vitnið gott minni, svo að það fullyrðir: „Þorsteinn Þ. Víglundsson lét orð falla á þá leið, að á lista sjálfstæðisflokksins hafi verið hrúgað saman fyllibyttum við síðustu bœjarstjórnarkosningar.“ Þessa lexíu mundi vitnið, hann Sócial Demó, vel og staðfesti síðan þennan framburð sinn með eiði.“
Mér er enn í fersku minni, hversu vitninu brá, þegar ég krafðist þess, að það staðfesti þennan framburð sinn með eiði.
Svo tók dómarinn til að búa vitnið undir athöfnina, eiðinn.
„Ert þú í þjóðkirkjunni?“ spyr dómarinn. Vitnið vissi það ekki vel, hélt það þó eftir nokkra íhugun. „Trúir þú á guð?“ spyr dómarinn. Steinhljóð. Og svo: „Jú, ég geri það. Hann er þó líklega ekki sá sami og þú trúir á,“ svarar vitnið og beinir orðum sínum að dómaranum. Dómarinn anzar því engu.
Síðan vann vitnið eið að því, að ég hafi fullyrt á bæjarstjórnarfundinum, að hrúgað hafi verið saman fyllibyttum á lista sjálfstæðisflokksins við síðustu bæjarstjórnarkosningar. Mér ofbauð. Og svo var guð kallaður til vitnis!
Dómarinn vissi það vel sjálfur, að hér voru hin grófustu ósannindi staðfest með eiði.
Þegar svo hitt vitnið stefnandans, brauðgerðarmeistarans, mætti fyrir réttinum, vann það eið að þeim framburði sínum, að ég hafi sagt stefnanda fullan hvern dag eða annan hvern dag árið í kring. Hins vegar kvað vitnið sig ekki hafa heyrt mig nefna „fyllibyttur“ á bæjarstjórnarfundinum. - Vitnið var flokksbróðir stefnanda og átti sem sé sæti í fulltrúaráði Flokksins.
Svo féll dómur í máli þessu. Ég var dæmdur til að greiða ríkissjóði kr. 400,00 í sekt fyrir illmælgi, sem ég hafði sem sé aldrei sagt og hugsunin aldrei átt sér stað í hugskoti mínu. Jafnframt skyldi ég greiða stefnanda kr. 250,00 í málskostnað. Að öðrum kosti skyldi ég sæta fimm daga fangelsi.
Ég greiddi hvorki sektina né málskostnaðinn. Ég krafðist þess að fá að sitja hvorttveggja af mér í fangageymslunni í kaupstaðnum eða annars staðar, þar sem dómsvaldinu þóknaðist að geyma mig.
Geturðu gert þér í hugarlund, hvernig þér mundi líða þá stundina, sem dæmd væri af þér æran fyrir hugsanir, sem þú hefur aldrei hugsað, og orð, sem þú hefur aldrei sagt?
Ég stóð við þær hótanir mínar að kæra framkomu dómarans gagnvart mér í réttarhöldunum, hlutdrægni hans í orðum, hryssing í tali og andblæ í málafylgju. Jafnframt kærði ég héraðsdómslögmanninn fyrir tilraun til skjalafölsunar og það fyrir framan nefið á sjálfum dómaranum.
Nokkru síðar barst mér bréf frá bæjarfógetanum. Með því var afrit af bréfi Dóms og kirkjumálaráðuneytisins dags. 21. júní 1951, svo hljóðandi:
„Eftir viðtöku bréfs yðar, herra bæjarfógeti, dags. 11. f.m., er fylgdi útskrift úr réttarrannsókn vegna kæru Þorsteins Víglundssonar á hendur Jóni Eiríkssyni, héraðsdómslögmanni, tekur ráðuneytið fram, að það fyrirskipar ekki frekari aðgerðir í máli þessu. Ráðuneytið telur hins vegar eðlilegt, að héraðsdómslögmaðurinn verði áminntur vegna óviðeigandi háttar hans við leiðréttingu á réttarskjali.

F.h. r.e.u.
Ragnar Bjarkan.

Til bæjarfógetans í Vestm.eyjum.“

Vissulega var þetta bréf ráðuneytisins mér dálítil svölun. Og þó að dómarinn slyppi við opinbera áminningu, varð hann allt annar viðskiptis á eftir, svo að ég hafði ekki undan neinu að kvarta. Og héraðsdómslögmaðurinn fékk þarna verðskuldaða áminningu. Mér var efst í huga spurningin sú, hvernig farið er með þegnlegan rétt almennings við slíkar og þvílíkar réttarstofnanir eins og bæjarþing Vestmannaeyja var þá samkvæmt reynslu minni, þar sem lögfræðingasamfellan með allt sitt mikillæti þarf ekki að óttast andstöðu eða séð verður við brellum hennar, sem annars getur kostað hana mannorðsblett eða álitshnekki.
Ekki er ýkjalangt síðan ég heyrði notuð stór orð í fjölmiðli um hið „illræmda embættismannakerfi landsins“, eins og komizt var að orði. Mér ofbuðu þessi stóryrði, þrátt fyrir þessa reynslu mína. Mér varð á að hvarfla huga til bæjarfógetanna tveggja í Vestmannaeyjum, sem ég reyndi alltaf að drengskap og velvild öll þau ár, sem þeir voru þar embættismenn íslenzka ríkisins. Það voru þeir Sigfús M. Johnsen og Torfi Jóhannsson. Ég kynntist þeim báðum mikið, hugsun þeirra og starfi, af sérstökum ástæðum.
Líklega var það snemma á þessu ári (1975), að dagblaðið Vísir fór hörðum orðum um vissan hæstaréttardóm. Þar komst hann m.a. svo að orði: ,, ... Hitt er líklegra, að hér hafi embættismenn verið að sýkna embættismenn ...“
Og svo: „Tímabært er orðið, að almennir borgarar snúist til varnar gegn embættismannakerfinu, ekki aðeins á þessu sviði, heldur ótal öðrum ...“ Eftir nokkurn tíma var ritstjórinn rekinn frá blaðinu.


ctr


Gagnfræðaskólinn, suðurhlið.


Lokaþáttur þriðju lotu
Haustið 1951 fékk ég ársorlof frá starfi samkvæmt fræðslulögunum frá 1946. Liðið var fram í september, þegar ég fékk þetta leyfi menntamálaráðuneytisins í hendur.
Ég hafði greitt allar opinberar skuldir mínar, svo sem útsvar og skatt, svo að ég gæti hindrunarlaust fengið vegabréfið til útlanda. Ég arkaði í skrifstofu bæjarfógetaembættisins og lagði fram kvittanir fyrir greiðslum þessum og æskti þess að fá vegabréfið. Þá urðu þeir eitthvað svo kindarlegir, starfsmennirnir þarna í skrifstofunni, og svöruðu engu fyrst í stað.
Brátt kallaði einn starfsmaðurinn mig á eintal. Hann tjáði mér í hálfum hljóðum, að ég skuldaði sektir í ríkissjóð frá meiðyrðamáli brauðgerðarmeistarans og þeim væri bannað að afhenda mér vegabréfið fyrr en þær væru að fullu greiddar.
Ég bað um viðtal við fógetann (dómarann). „Hvers vegna er mér neitað um vegabréf hér hjá ykkur?“ spurði ég. „Ógreiddar sektir,“ sagði hann. „Ég hef sagt þér það áður, bæjarfógeti, að ég greiði ekki þessar sektir öðruvísi en með tukthúsvist. Ég krefst þess að fá að sitja þær af mér strax, því að tími minn er naumur og það má ekki dragast. Vegabréf verð ég að fá, ella missi ég af orlofinu. Sé það ætlan ykkar að neita mér um vegabréfið, þá krefst ég þess að fá þá neitun skrifaða og staðfesta. Og ég endurtek þá kröfu mína, að þú fullnægir dómnum strax. Þið skuluð sannarlega hafa ánægju af því að geyma mig í fangelsinu hjá ykkur nokkra daga.“ „Við höfum enga ánægju af því,“ sagði valdsmaðurinn og var heldur svona niðurlágur. Ég dró það í efa. En nú var ekki hryssingurinn eða andblærinn í fasi og í orðum dómarans eins og þegar ég var í réttarhöldunm fyrr á árinu.
Loks bauð hann einum starfsmanni sínum að afhenda mér vegabréfið. Aldrei var framar minnzt á þessar sektir eða málskostnaðinn.
Allar þessar málsóknir og allt þetta málavafstur varð mér síðar í minni eitt af þessum kátbroslegu fyrirbærum tilverunnar í kaupstaðnum á þeim árum, sem baráttan stóð sem hæst og átakamest um tilveru og þróun gagnfræðaskólans í bænum undir minni stjórn. Ég veit, að minnin um þessi kæru málavafstursævintýri lengja líf mitt. Og einmitt vegna þeirra el ég með mér vonir um að geta gefið út eitt hefti enn af Bliki mínu, þó að aldraður sé orðinn. Þá færðu framhald þessara þátta.
Ég kveð þig kærlega, góði vinur og frændi, með innilegum árnaðar óskum til þín og ungu konunnar þinnar.

Þ.Þ.V.

Til baka