Blik 1976/Bréf til vinar míns og frænda, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 25. apríl 2017 kl. 18:35 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 25. apríl 2017 kl. 18:35 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1976



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda


(Æviþáttur)
(3. hluti)


Fyrsta lota


Önnur stefna
Nú þurfti af greindum ástæðum að hefja nýja málsókn eða leggja að fullu niður rófuna. Þeim „var aldrei list sú léð“.
Bráðlega tók kona mín á móti nýrri stefnu. Héraðsdómslögmaðurinn í klæðum skattstjórans var bara furðu vígreifur og mér var ekkert að vanbúnaði. Töluvert hafði ég þegar lært í málarekstri, þó að sókn mín og vörn bæri meiri keim af blaðamennsku en lögfræðilegri snilld í málflutningi, sagði héraðsdómslögmaðurinn.
Eins og fyrri daginn mætti ég ekki á sáttanefndarfundinum. Ég ákvað að nýju að til stáls skyldi sverfa í máli þessu.
Ég skrifaði þegar sakadómaranum í Reykjavík og bað um að fá keyptar útskriftir úr bókum embættisins, þar sem fjallað hafði verið um fyrirtæki stefnanda, sem flutti inn á sínum tíma „Faktúruna í tunnunni“, eins og hneykslismál þau voru kölluð manna á milli á sínum tíma.
Afrit þessi fékk ég bráðlega, heilmikla doðranta.
Ég vann úr þessum gögnum eftir mætti og bjó mig undir réttarhald, sem fram skyldi fara 11. maí eða á lokadaginn (1950).
Þá lagði ég fram þessi skilríki í bæjarþingi Vestmannaeyja:

1. Staðfest afrit af ýmsum köflum úr lögregluþingbók og Dómabók Reykjavíkur.
2. 29. og 30. tölublað Skutuls á Ísafirði, 21. júní 1945, 33. árg.
3. 48. tölubl. Tímans, 29. júní 1945, 29. árg.
4. Afrit af grein í Tímanum, 1. febr. 1947, 22. tbl.
5. 61. tbl. Þjóðviljans, 14. árg., 18. marz 1949.
6. Greinargerð þá, sem hér fer á eftir orðrétt, eins og ég afhenti hana dómaranum:

„Á framboðsfundi til bæjarstjórnarkjörs, sem haldinn var í Samkomuhúsi Vestmannaeyja 27. jan. s.l., las Guðlaugur Gíslason, kaupmaður, Skólavegi 21 hér i bæ, upp bréf, sem hann fullyrti, að væri frá „ráðuneytinu.“ Efni bréfs þessa var framtal mitt fyrir árið 1947. Í bréfi þessu var greinilega og umbúðarlaust dróttað að mér skattsvikum eða tilraun til skattsvika, - að ég hefði sýnt í því verulega viðleitni að draga tekjur mínar og eignir undan skatti.
Þessu til sönnunar og staðfestu vísa ég til vitnanna, sem sóru í máli þessu málstað stefnanda til þóknanlegs framdráttar.
Efni umrædds bréfs og upplestur vakti því í fleira en einu tilliti almenna furðu og undur á nefndum framboðsfundi.
Nú leyfi ég mér hér með að skrá í vörn þessa afrit að bréfi fjármálaráðuneytisins til mín, þar sem því er lýst yfir, að afrit af bréfi varðandi framtal mitt og skattamál hafi ekki verið sent frá ráðuneytinu.

Bréfið er svohljóðandi:

„Fjármálaráðuneytið

Reykjavík, 11. marz 1950.

Ráðuneytið hefur móttekið bréf yðar dags. 6. marz 1950 varðandi afrit af bréfi, er þér nefnið og á að hafa verið um skattamál yðar. Ekki verður séð í skjalasafni ráðuneytisins eða bréfaskrám þess, að neitt bréf hafi verið ritað héðan um skattamál yðar.

F. h.r.
Magnús Gíslason (sign),
Kristján Thorlacius (sign).“

Staðfest afrit af bréfi þessu legg ég fram í rétt, ef ég sé ástæðu til þess eða það verður véfengt.
Böndin virðast því óneitanlega berast að stefnanda sjálfum, að hann, fjármálaráðherrann og alþingismaðurinn, hafi skrifað umrætt bréf og sent það nefndum Guðlaugi Gíslasyni, formanni Flokksins hér, til að lesa upp á opinberum framboðsfundi til þess að ærumeiða mig og mannskemma.
Ég krefst þess, að háttvirtur dómari rannsaki þegar þetta bréfmál, því að upplestur þess í eyru almennings veldur þessu málaþrasi, og láta stefnanda, ef hann reynist höfundur bréfsins, sæta þyngstu refsingu, eins og lög frekast leyfa, fyrir ærumeiðingar þær og álitshnekki, er stefnandi hefur þannig valdið mér. Enda er slikt athæfi algjört brot á trúnaðarstarfi fjármálaráðherra, æðsta valdsmanni skattalaganna og verndara þeirra. Sé stefnandi valdur að umræddu bréfi, sem lítill vafi virðist leika á, er hann valdur að meiðyrðamáli þessu og á því upptökin að deilum okkar. Ella hefði nafn hans naumast spunnizt inn í umræðurnar á umræddum framboðsfundi. Sá veldur miklu, sem upphafinu veldur, stendur þar.
Í svarræðu minni á framboðsfundinum lét ég í ljós undrun mína yfir margnefndu bréfi og tók það sérstaklega fram, að ég undraðist mest, ef alþingismaður og ráðherra í einu og sömu persónu, eins og stefnandi var þá, gæti lagzt svo lágt að skrifa slíkt bréf til óviðkomandi einstaklings til þess að hann læsi það í eyru almennings. Í þeirri undran minni lét ég þá þau orð falla um stefnanda, að hann sjálfur hefði verið sakaður um að vera einhver stœrsti faktúrufalsari og gjaldeyrisþjófur, sem þjóðin hefði alið. Vil ég nú finna þeim orðum mínum nokkurn stað:


Þeir höfðu samráð
„Árið 1942, 2. sept., voru þessir menn skráðir eigendur heildsöluverzlunarinnar .... og smásöluverzlunarinnar .... í Reykjavík: 1. Stefnandi. 2 .... og 3 .... Ekki fleiri. Þessir þrír einstaklingar kölluðu nefndar verzlanir sameignarfélag sitt.
Í 77. grein laga um hlutafélög, 21. júní 1921, stendur skrifað til eftirbreytni:
„Félagsstjórn fer með málefni félagsins milli hluthafafunda. Hún ræður framkvæmdastjóra einn eða fleiri, hefur umsjón með rekstri atvinnunnar, gerir reikningsskil og skuldbindur félagið, allt samkvæmt lögum og samþykktum félagsins.“
Nú skal það viðurkennt hér, að sameignarfélag þriggja manna, getur ekki verið hlutafélag samkv. nefndum hlutafélagslögum. En því meir er vald hvers eiganda fyrirtækisins, því færri sem þeir eru. Og löggjafinn ætlast auðvitað til þess, því að það er fjárhagsleg þjóðfélagsnauðsyn, að umsjón með rekstri sameignarfélags sé engu minni en hlutafélags, enda munur á, hvort eigendur fyrirtækis eru þrír eða til dæmis fimm (hlutafélög).
Nú er það alkunnugt, að stefnandi er hinn mesti áhugamaður um fjáröflun og glöggur fjármálamaður, sem lætur ekki fyrirtæki sín rekin eða reka afskiptalaus og í óhirðu. Hann fylgist í hvívetna með öllum rekstri þeirra og afkomu. Það er stefnanda klár sómi.
Slíks eftirlits hins fjárglögga hirðumanns með ríkan fjáraflahug mun hafa verið full þörf í umræddum sameignafélögum þeirra þremenninganna. Þau rök eru fyrir þeirri ályktun, að í lögreglurétti Reykjavíkur 11. janúar 1945 lýsir skrifstofustjóri fyrirtækis stefnanda yfir því, að „reyndar allt s.l. ár (1944-1945) hafi framkvæmdastjóri og meðeigandi félagsins fylgzt mjög illa með því, sem gerðist í rekstri fyrirtækisins, og í mörgum tilvikum ekkert vitað um það, sem þar var að gerast,“ - allt af ástæðum, sem vitnið færist undan að skýra frá að svo stöddu. Í sama réttarhaldi eða sama dag lætur annar aðaleigandi fyrirtækisins bóka eftir sér þetta: „Að gefnu tilefni frá dómara kveður vitnið (einn af þrem eigendum fyrirtækisins) það sannast sagna, að framkvæmdastjórinn hafi s.l. ár vanrækt mjög starf sitt við verzlanirnar vegna drykkjuskaparóreglu.“
Hér var því mikil þörf á, að stefnandi væri árvakur um allan rekstur nefndra fyrirtækja sinna. Enda viðurkennir stefnandi í lögreglurétti Reykjavíkur, „að hann hafi undirritað verzlunarbréf fyrir firmað sitt.“ Í sama lögreglurétti 7. jan. 1948 viðurkennir stefnandi, að eigendur kærðu fyrirtækjanna, sem nefnd eru hér að ofan, hittist einstaka sinnum til skrafs og ráðagerða um rekstur félaganna.
Í lögreglurétti Reykjavíkur fimmtudaginn 30. jan. 1947 lýsir framkvæmdastjóri þessara fyrirtækja þremenninganna yfir því og lætur bóka þetta:

„Engin stjórn hefur verið kosin í félaginu og hafa félagsmenn (eigendur) samráð sín á milli um allar meiri háttar ráðstafanir félagsins“ . . . Allt ber þetta að sama brunni. Stefnandi virðist hafa árvakurt eftirlit með umræddum fyrirtækjum sínum og samráð við meðeigendur sína um allar meiri háttar ráðstafanir. Enda er stefnandi hvergi grunaður um að segja annað en hreinan og kláran sannleikann!
Með bréfi dagsettu 6. sept. 1944 kærði verðlagsstjóri fyrirtæki stefnanda fyrir innflutning á 2000 tylftum af bollapörum (í 130 tunnum) frá Ameríku með skipinu Eastern Guide, 7. apríl 1944.
Þessi bollapör seldi fyrirtæki stefnanda á kr. 56,20 bverja tylft, en rétt verð skyldi vera kr. 46,04. Ólöglegur hagnaður var talinn vera af þessari sölu samtals kr. 20.320,00. Við frekari rannsókn kom einnig í ljós, að vátryggingarupphæð sú, sem tilgreind var í verðlagsreikningi fyrirtækis stefnanda var sett of há, eftir því sem vátryggingar voru þá.
Nú verður mér á að spyrja:
Stafaði hið ólöglega verð á bollapörunum af fölsuðum eða sviknum faktúrum eða fölsuðum reikningum? Hvað olli svikna verðinu? Hvers vegna var vátryggingarupphæðin reiknuð of há?
Með bréfi dagsettu 16. des. 1944, kærði verðlagsstjóri fyrirtæki stefnanda í annað sinn fyrir ólöglegan innflutning og gjaldeyrismeðferð. Þá hafði þetta firma flutt inn vörur með m/s Braga, sem kom frá New York í nóv. s.á., fyrir 13.900 dollara án innflutnings- og gjaldeyrisleyfa. Þar voru í leikföng, pelsar, spil, púðurdósir, púður, leðurhandtöskur og ýmsar „gjafavörur“. - Ég minnist þess, að áður einhvern tíma hefur stefnandi látið í ljós í verki ríka náttúru til þess að verzla með leikföng! Það mun hafa verið hér í Eyjum fyrir allmörgum árum. Og vitum við, sem þekkjum stefnanda bezt, að slík verzlunarnáttúra stafar af einskæru eðallyndi stefnanda og meðfæddri barngæzku!
Með bréfi til viðskiptaráðs dags. 11. og 17. des. 1944 lýsir firma stefnanda yfir því, að alls hafi það átt vörur með M/s Braga fyrir 54.238,17 dollara eða nær krónur 350.000,00.
Hvað eru meiri háttar ráðstafanir í rekstri íslenzks fyrirtækis, ef ekki þær, þegar fastráðin er pöntun á vörum eða vörukaup, sem nema yfir þriðjung úr milljón. (Þetta gerðist 1944).
Mál þessi, sem nú hafa verið rakin í fáum dráttum, fengu þann endi, að stefnandi var dæmdur til að greiða persónulega kr. 5000,00 í sektir til ríkissjóðs og svo meðeigandi hans og hinn ólöglega hagnað kr. 30.000,00, samtals kr. 40.000,00. Já, þetta greiddi stefnandi persónulega!
Ég hef aldrei sagt, að stefnandi sé talinn vera o. s. frv. En óneitanlega virðist hann hafa verið sekur fundinn um einhverja þátttöku í þessum óleyfilegu verzlunarháttum fyrirtækja sinna, fyrst hann var dæmdur til að greiða sektir, persónulegar sektir, vegna þeirra. Eða greiddi stefnandi sektina fyrir oflítið samráð við meðeigendur sína um þessi stórkostlegu og ólöglegu vörukaup? - Ég kem aftur að þeim til þess að sanna mál mitt um þá fullyrðingu mína, að stefnandi hafi verið sakaður um að vera einhver stœrsti o.s.frv.
Þegar hér er komið þessum málum, var framkvæmdastjóri fyrirtækisins látinn.
Hinn 1. nóv. 1945 ræðst nýr framkvæmdastjóri að fyrirtækjum stefnanda. Skyldi maður ætla, að þetta fyrirtæki stefnanda hefði nú gætt sín eftirleiðis og ekki lent aftur í lögbrotum um innflutningsleyfi og gjaldeyrismeðferð. En náttúran er löngum náminu ríkari.
Hinn 30. jan. 1947 kærði verðlagsstjóri fyrirtæki stefnanda enn á ný fyrir meint brot gegn verðlags- og gjaldeyrislöggjöfinni. Tilefni kærunnar voru bréf til fyrirtækis stefnanda frá brezkum firmum. Í öðru bréfinu stóð þetta skrifað í íslenzkri þýðingu eftir löggiltan skjalaþýðara:
„Við athugum, að fyrir upphæð umboðslaunanna óskið þér að ávísun verði send Hambros Bank Ltd. til greiðslu inn á reikning yðar, eftir að okkur hefur verið greitt að fullu.“
Í öðru brezku bréfi til fyrirtækis stefnanda dags. 24. sept. 1946 segir svo orðrétt:
„Eins og þér sjáið, höfum við ekki dregið frá neinn afslátt á reikningi þessum, og eins og um var beðið, verður hinn veitti afsláttur greiddur inn á reikning yðar við Hambros Bank Ltd. í London, þegar sendingin hefur verið borguð.“
Þetta er tekið orðrétt upp úr Dómabók Reykjavíkur, en öll leturbreyting er mín.
Enn segir í Dómabókinni:
Bendir verðlagsstjóri á í kærunni, að greinilega virðist koma fram í hinum umgetnu bréfum, að fyrirtœki stefnanda (hér sleppi ég nafni þess) hafi óskað þess, að hinar pöntuðu vörur væru færðar til reiknings á hœrra verði en raunverulega þyrfti að greiða fyrir þær með því að draga ekki frá þeim afslátt, sem fengist af andvirði þeirra, heldur greiða hann inn á reikning fyrirtækisins í Hambros Bank Ltd. Þetta bendir verðlagsstjóri á. Þetta voru hans orð. Það er engum blöðum um það að fletta, að hér gerir fyrirtæki stefnanda tilraun til að afla gjaldeyris á ólöglegan hátt, þar sem óskað er eftir, að varan sé raunverulega reiknuð erlendis hærra verði en hún kostar og mismunurinn lagður inn á reikning fyrirtækisins í Hambros Bank Ltd. í London, sterlingspundainnstæða auðvitað.
Ég óska að taka dæmi dómaranum til skilningsauka: Setjum svo, að ég semji við enskan kaupmann um það að kaupa af honum bifreið, sem kostar 200 sterlingspund. Jafnframt fæ ég hann til að lofa mér því, að hann sendi mér reikning yfir verð bifreiðarinnar og skuli hann hljóða á 400 sterlingspund. Mismuninn, 200 sterlingspund, skuldbindur enski kaupmaðurinn sig til að leggja inn á reikning minn í Hambros Bank. Síðan kný ég út gjaldeyrisleyfi hjá íslenzkum gjaldeyrisyfirvöldum fyrir hinu logna verði bifreiðarinnar og fæ 400 sterlingspund til þess að greiða hana með. Á þessu þéna ég 200 sterlingspund, sem ég gæti svo að tjaldabaki notað til þess að kaupa fyrir t. d. púður, pelsa, leikföng, nælonsokka o. s. frv. Svo gæti ég e.t.v. selt þessar vörur með allt að 200% álagningu bakdyramegin. Stal ég raunar ekki gjaldeyri fyrir vörum þessum? Hvað er þá gjaldeyrisþjófnaður? Og svo verð ég auðvitað að láta falsa faktúru fyrir bifreiðinni, svo að allt sé í réttri afstöðu hvað við annað.
Hver lagði á ráðin hjá fyrirtæki stefnanda, að það reyndi þannig að klófesta með umboðslaunum og fölsuðu vöruverði enskan gjaldeyri bak við gjaldeyrisyfirvöld þjóðarinnar og gegn lögum og rétti?
Í lögregluþingbók Reykjavíkur 31. janúar 1947 stendur bókað eftir framkvæmdastjóra fyrirtækis stefnanda: „Engin stjórn hefur verið kosin í félaginu, og hafa félagsmenn (þ. e. eigendurnir) samráð sín á milli um allar meiriháttar ráðstafanir félagsins.“ Eru það ekki meiri háttar ráðstafanir firma að hnupla gjaldeyri eða afla sér hans gegn lögum og rétti? Hvað segir meðlimur sjálfs löggjafans, sjálfs alþingis, háttvirtur stefnandi, um það mál? Og hvað eru meiri háttar ráðstafanir hjá eigendum firma eða fyrirtækis, ef ekki þær, þegar tekin er ákvörðun um að plægja af almenningi tugi þúsunda gegn lögum og rétti með ofháu vöruverði? Nei, fjárplógsmenn eru þetta ekki!
Nú höfðu umboðslaunin með álagningunni hækkað vöruverð hjá fyrirtækjum stefnanda umfram leyfilega álagningu um samtals krónur 17.397,40.
Eigi var farið fram á leyfi viðskiptaráðs til að taka þessi umboðslaun, segir í áðurnefndri Dómabók. Og ennfremur stendur þar: „... síðan hafa hin ensku firmu yfirleitt að beiðni „fyrirtœkis stefnanda“ lagt umboðslaunin inn á reikning þess firma í Hambros Bank. Allar þær vörur, sem umboðslaunin voru reiknuð af, voru fluttar hingað til lands og verðlagðar eftir að verðlagningarreglur frá 11. marz 1943, síðar frá 6. okt. s.á., gengu í gildi.“ Svona segir orðrétt í Dómabókinni. - Sem sé: Umrædd fyrirtæki stefnanda brutu hér allar verðlagningarreglur. - Er það nú trúlegt, að stefnandi, sem er einn aðaleigandi umræddra fyrirtækja, hafi ekkert vitað um þessi umboðslaun, sem hér um ræðir og lögð voru inn í Hambros Bank? Þó gerir framkvæmdastjóri fyrirtækisins ráð fyrir því í lögreglurétti Reykjavíkur, að í skjalasafni fyrirtækis stefnanda finnist sannanir fyrir því, að firmað hafi fengið umboðslaun frá erlendum firmum allt frá því að fyrirtækið var stofnað árið 1933. Í lögreglurétti Reykjavíkur er bókað eftir framkvæmdastjóranum: Vitnið (þ.e. framkvæmdastjórinn) „telur víst að meðeigendur sínir í félaginu (m.a. stefnandi) hafi, eins og allir, sem við viðskipti fást, vitað, að félagið fékk umboðslaun frá firmum, sem það hafði umboð fyrir, bæði af umboðssöluvörum og vörum, sem félagið sjálft keypti.“ Þetta sagði framkvæmdastjóri fyrirtækis stefnanda. Stefnandi vissi þvi auðvitað um umboðslaunin og sterlingspundatekjur fyrirtækisins af umboðunum. Er það líklegt, að hann hafi ekki jafnframt vitað, að þessi umboðslaun voru ávallt lögð inn í Hambros Bank Ltd. og engin grein fyrir þeim gjörð hjá gjaldeyrisyfirvöldum þjóðarinnar? Í lögreglurétti Reykjavíkur 6. jan. 1948 segir framkvæmdastjóri stefnanda, að umboðslaunin hafi „gengið til greiðslu sýnishorna og upp í andvirði keyptra vara frá viðkomandi löndum. Félögin hafa ekki leitað leyfis gjaldeyrisyfirvalda til þessara ráðstafana.“ - Mundi stefnandi ekki fást til þess að skilgreina hugtakið gjaldeyrisþjófnaður?

Þá segir enn í Dómabók Reykjavíkur: „Vörur þœr, sem firmun (þ.e. firmu stefnanda) fengu hin ólöglegu umboðslaun af, greiddu þau með erlendum gjaldeyri samkv. leyfum gjaldeyrisyfirvalda hér, þar á meðal umboðslaunin, sem lögðust fyrir sem gjaldeyriseign erlendis. Þurftu firmun (þ.e. fyrirtæki stefnanda) því eigi að nota til greiðslu hins raunverulega vöruverðs allan þann gjaldeyri, sem þau sendu seljendum varanna.“
Þá er tekið fram, að fyrirtækjum stefnanda hafi borið að skila sölubanka gjaldeyrisins hér þeim hluta gjaldeyrisins, sem eigi þurfti að nota til greiðslu á andvirði hinna keyptu vara. Þetta gerðu fyrirtæki stefnanda ekki.
Er hér ekki gefið fyllilega í skyn, að firmun hafi stolið nokkrum hluta þessa gjaldeyris, sem þau töldu sig hafa fengið frá íslenzku gjaldeyrisyfirvöldunum?
Árið 1948, 7. janúar, mætti stefnandi í lögreglurétti Reykjavíkur og var áminntur um sannsögli. Fyrir réttinum fullyrti stefnandi (höfundur skattsvikabréfsins), að þýzkur ríkisborgari, frk. Meinert, sem lengi hefur starfað í þjónustu fyrirtækis hans, hafi „fengið leyfi hjá gjaldeyrisyfirvöldunum hér til þess að geyma 200 sterlingspund, sem hún átti,“ á þessum reikningi fyrirtækja stefnanda í Hambros Bank Ltd.
Þessum fullyrðingum stefnanda svarar verðlagsstjóri þannig:
„Hvað viðvíkur leyfi frk. Meinert til þess að eiga erlenda innstæðu á bankareikningi fyrirtækis stefnanda í Englandi, þá hef ég spurzt fyrir um það atriði hjá viðskiptanefnd, og verður þar eigi séð, að slíkt leyfi hafi verið veitt, enda mundi ungfrúin þá hafa fengið skilríki um það.“ Þetta voru orð verðlagsstjóra.
Þegar mér var send útskrift úr lögregluþingbók Reykjavíkur og Dómabók varðandi þessi mál, fylgdi þessi vísa með á lausu blaði frá skrifstofu sakadómara:

Yfir sakadómstól datt,
dómarinn komst í þvingu,
þegar Jóhann sagði ei satt
samkvæmt áminningu.

Skyldi vísa þessi hafa verið ort, þegar sannleikurinn kom í ljós um innstæðu frk. Meinert í Hambros Bank Ltd.? Finnst dómaranum sjálfum það fjarstæða?
Þannig reyndist stefnandi hafa farið með ósannindi í réttinum þrátt fyrir áminninguna! Honum mun það fyrirgefið, þar sem um sjálfsvörn og sjálfsbjargarviðleitni var að ræða og ein syndin virðist alltaf bjóða annarri heim.
Þessi mál entu þannig, að eigendur fyrirtækjanna (firma stefnanda), sem sakirnar skullu á, greiddu samtals kr. 13000,00 - þrettán þúsundir - í sektir fyrir gjaldeyrisþjófnaðinn eða þjófnaðarviðleitnina, og jafnframt voru firmu stefnanda látin skila aftur samtals kr. 18.254,45 í ríkissjóð samkv. 69. grein 3. málsgreinar hegningarlaganna. Sú grein fjallar um muni eða ávinning, sem aflað hefur verið með broti. Þessar þúsundir voru hinn ólöglegi ágóði af verðlagsbrotunum í sambandi við gjaldeyrisáætlunina eða gjaldeyrisþjófnaðinn.
Eins og áður segir er skjalfest og skráð í lögregluþingbók Reykjavíkur, að eigendur fyrirtækis þess, sem sakað er hér um misnotkun á einu og öðru í viðskiptalífinu, hafi samráð sín á milli um allar meiri háttar ráðstafanir í verzlunarrekstrinum. Og hvað eru svo meiri háttar ráðstafanir í þessum efnum, ef ekki þær, sem geta kostað eigendurna og fyrirtækin æruskerðingu og tugi þúsunda í sektir, ef illa tekst til eða samráðin geiga? Mundi stefnandi ekki hafa hirt sinn hlut af hinum ólöglega gróða, ef hann hefði ekki verið dæmdur i ríkissjóð? Einn eigandinn skýrir svo frá í lögreglurétti: „Félögin (þ.e. fyrirtæki stefnanda) eru sameignarfélög án sérstakrar stjórnar og koma eigendurnir saman við og við til ráðagerða en fundargerðir hafa aldrei verið skrifaðar.“ Þetta er ein sönnunin enn um samráð eigendanna um rekstur nefndra fyrirtækja og ég undirstrika það, að stefnandi er þar hvergi undan skilinn. Hinir eigendurnir virðast ekki vilja vera án hans ráða, enda er stefnandi kunnur að því að vera bæði ráðhollur og ráðslyngur og hvergi grunaður um græsku! Þess vegna hef ég aldrei sagt eða haldið því fram, að stefnandi hafi nokkru sinni lagt á ráð um faktúrusvik eða gjaldeyrisþjófnað! Ekki heldur hef og nokkru sinni talað það, að stefnandi væri talinn stærsti eða mesti faktúrufalsari og gjaldeyrisþjófur landsins. Ég mótmæli því einbeittlega og eindregið. Hitt hef ég sagt, að stefnandi hafi verið sakaður um að vera o. s. frv. Vil ég nú færa fyrir þvi nokkrar sannanir.
Í blaðinu Skutli, sem út kom á Ísafirði 21. júní 1945, er birt grein um fyrirtæki stefnanda, verðlagsbrot firmans og óleyfilegan innflutning. Þar segir: „Vörur fyrir 280 þúsundir króna fluttar inn í leyfisleysi. Á að fela J.Þ.J. allan innflutning til landsins? Skutull skýrði frá því fyrir nokkru, að komizt hefði upp um stórfelld verðlagsbrot firmans (þ.e. fyrirtækis stefnanda) og óleyfilegan innflutning ...
Þegar að því kom, að viðskiptaráð skyldi ráðstafa vörunum, kemur það allt í einu í ljós, að andvirði vörunnar, sem flutt hafði verið inn í algjöru heimildarleysi, er ekki 13.000 dollarar heldur 43000 dollarar eða 280 þúsund íslenzkra króna að innkaupsverði ...“
Og svo kom ég þá loks að aðalsönnununum.


Það, sem fannst í tunnunum
Blaðið Skutull heldur áfram og segir frá: „Þegar tollyfirvöldin voru að athuga vörur þessar, kom í ljós, að í umbúðunum var ekki einungis spil, leikföng, samkvæmistöskur og ráptuðrur, heldur einnig álitlegur skjalabúnki. Við nánari athugun á honum kom í ljós, að þar voru ekki aðeins „faktúrur“ til hins íslenzka fyrirtækis, heldur höfðu einnig slæðzt þar með nokkrir reikningar frá amerískum verzlunarfyrirtækjum til þess fyrirtækis, sem seldi vörurnar hingað fyrirtæki stefnanda. Fyrirtækið ameríska hafði leyft sér að leggja á vörurnar allt að l00% af hinu eiginlega innkaupsverði hennar ...“
Blandast nokkrum hugur um það, sem les þessa framanrituðu kafla úr Skutulsgreininni, að ritstjóri blaðsins sveigir mjög að stefnanda, þáverandi formanni Nýbyggingarráðs, um það, að eiga sinn þátt í verðlagsbrotum fyrirtækis stefnanda? Hvers vegna spyr ritstjórinn, hvort fela eigi stefnanda innflutning til landsins? Um leið skýrir ritstjórinn frá hinum stórkostlegu innflutnings- og verðlagsbrotum fyrirtækis stefnanda og blaðið leggur á það mikla áherzlu, að stefnandi sé annar aðaleigandi fyrirtækisins. Leikur það á tveim tungum, að í spurningu ritstjóra Skutuls felst ásökun til stefnanda um þátttöku í þeim ráðum og samráðum, sem leitt hafa til hins ólöglega verknaðar? Hvað var annars til fyrirstöðu að fela stefnanda allan innflutning til landsins? ...
Mundi ekki stefnandi vilja gera grein fyrir því, hversvegna umrædda „ameriska“ fyrirtækið sendi fyrirtæki stefnanda reikningana í tunnu innan um andlitspúðrið, pelsana, töskurnar og tuðrurnar, en valdi ekki hina venjulegu, viðurkenndu, heiðarlegu leið, sem sé póstinn? Hversu langt er það fjarri sannleikanum, að faktúran í tunnunni hafi verið sönnunargagn fyrir hinu raunverulega innkaupsverði varanna? Hefði vara þessi verið greidd á eðlilegu verði þar vestur frá, hefði ekki þurft til þess nema 140 þúsundir króna í stað 280 þúsunda. Eru svikin og blekkingarnar ekki þjófnaður á íslenzkum gjaldeyri?
Í 48. tbl. Tímans 1945 er birt grein um þetta sama innflutnings- og gjaldeyrishneyksli fyrirtækis stefnanda. Þar er stefnandi ásakaður og gefið fyllilega í skyn, að hann sé meðsekur. Stefnandi höfðaði meiðyrðamál og fékk Tímann dæmdan í sektir fyrir að segja sannleikann, en samkvæmt refsilöggjöf þjóðarinnar er það líka sektarsök að segja sannleikann, ef hann er ljótur og kemur illa við, ekki sízt mikilsmegandi einstaklinga!
Þetta meiðyrðamál sannar þá fullyrðingu mína, að stefnandi hefur verið sakaður um þátttöku í hneykslismálum þessum um gjaldeyrisþjófnað og faktúrufölsun. Það sannar okkur sýknudómurinn, sem ég gat um. Fyrst ásökun, síðan sýknun. - Í þessari grein Tímans standa þessi orð: „Fyrirtækið (þ.e. fyrirtæki stefnanda) hafði áður lagt fram falsaða reikninga til þess að ná hærra innflutningsverði og meiri álagningu á vörur sínar. Það sannaðist einnig, að það hafði flutt inn allt aðrar vörur, en því hafði verið veitt leyfi til af gjaldeyrisyfirvöldum.“


IV. hluti

Til baka