Blik 1976/Atorku- og gæðakonu minnzt

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. nóvember 2018 kl. 15:17 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. nóvember 2018 kl. 15:17 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit Blik 1976



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON


Atorku- og gæðakonu minnzt
í tilefni kvennaársins 1975


Mæðgurnar frú Katrín Unadóttir og Pálína Pálsdóttir, sem var á fermingaraldri, þegar myndin var tekin.


Víst er það tilhlýðilegt, að ársrit Vestmannaeyja, Blik, velji sér konu kvennaársins og birti nokkur orð um æviferil hennar, þó að þetta gerist ári eftir hið eiginlega kvennaár, þar sem dýrtíðin varð þess valdandi, að Blik gat ekki komið út á fyrra ári.
Þessi kona er frú Katrín Unadóttir frá Hólakoti undir Eyjafjöllum. Hún átti sérstæða sögu. Þess vegna er hún kona Bliks á kvennaárinu; hún var sérstæð kona. Frú Katrín Unadóttir var kona atorku og hugrekkis, kona gleði og sorgar, kona trúar og trausts á guðlega tilveru, kona mikilla mannkosta í einu orði sagt.
Frú Katrín Unadóttir fæddist að Hólakoti undir Eyjafjöllum 13. sept. 1878. Foreldrar hennar voru bóndahjónin fátæku í Hólakoti, Uni Runólfsson og frú Elín Skúladóttir frá Skeiðflöt í Skaftafellssýslu. Frú Katrín var yngsta barn þeirra hjóna, en þau áttu tíu börn. Jörðin var rýrðarkot, svo að fátækt og sultur í búi var svo að segja árlegt fyrirbæri.
- Já, við förum nærri um það, hvernig afkoma þessarar tólf manna fjölskyldu hefur verið á koti þessu á síðari hluta síðustu aldar, og þá sérstaklega, þegar aldrei gaf á sjó svo að vikum skipti, engan afla að fá nema það litla, sem rak á fjörur í aftökum á vetrardegi, þegar nógur var fiskurinn upp við sandströndina hafnlausu, þó að hann næðist ekki af gildum ástæðum. Búsvelta á vissum tima árs var ekki óþekkt fyrirbrigði undir Eyjafjöllum og víðar þar um slóðir á þeim árum. Alltof oft hættu bændur og búaliðar lífi sínu við það bjargræðisbasl að ná fiski úr sjó við hafnleysu þá, brim og boðaföll. Sjósókn sú var ekki heiglum hend.
Um aldamótin bjuggu foreldrar frú Katrínar Unadóttur að Moldnúp undir Eyjafjöllum. Þar var þá Katrín dóttir þeirra hjá þeim um tvítugt.
Liðið var fram á vetrarvertíð. Tíð hafði verið suðlæg með brimi og boðaföllum við Eyjafjallasand, svo að sjaldan gaf á sjó.
Heimilið að Moldnúp, heimili Una og Elínar, var bjargarlítið. Búsvelta, búsvelta. Katrín heimasæta fann til með foreldrum sínum, sem bjuggu við sult og seyru, og faðirinn nær sjötugur að aldri, svo að hæpið var það, að hann fengi að fljóta með hinum harðsæknu á hafið, þegar gæfi. Hvað var til ráða?
Hannes, sonur Sigurðar bónda á Seljalandi, hafði ákveðið að stunda sjósókn út frá Eyjafjallasandi þessa vetrarvertíð. Bátur hans var jul, svo að þeir fóru þar fjórir á með handfærin sín. Þeir stunduðu sjóinn frá Holtsvör. Voru líkur til þess, að Hannes á Seljalandi vildi lofa stúlku að fljóta með í fiskiróður? Heimasætan á Moldnúp afréð að finna Hannes Sigurðsson að máli og bera fram þessa bón sína. Ef hún yrði heppin, gat það lánast henni að færa drjúga björg í bú foreldra sinna til þess að bæta úr sárustu neyð. Þannig gæti hún létt foreldrum sínum daglegar áhyggjur, draga úr sultinum og seyrunni, seðja sárasta hungrið.
Bóndasonurinn á Seljalandi tók vel málaleitan heimasætunnar á Moldnúp, svo að afráðið var, að hún fengi kall, þegar á sjó gæfi. Og Hannes velti vöngum yfir þessari beiðni. Hún var sjaldgæf, ef ekki einsdæmi.
Hann lagði á ráðin við heimasætuna um sjóbúnað allan. Góða skinnbrók varð hún að hafa, vel gerðan skinnstakk og sjóhatt. Handfærið varð einnig að vera í góðu lagi. Annars varð ekki erindi sem erfiði við færaskakið. Heimasætan gerði sitt ýtrasta til þess að útvega sér að láni allt sem með þurfti, en sumt varð vandfengið, því að fátítt var, að menn ættu skinnklæði til skiptanna, og flestir vildu freista gæfunnar með færið sitt, þegar fram liði.
Svo var heimasætan á Moldnúp kölluð til skips, því að róður var fyrirhugaður. Og nú gerðist kraftaverkið, eins og það var jafnan kallað, þegar atburðinn bar á góma. Hvaða atburður?
Hér kemur sagan um kraftaverkið, sem gerðist, þegar Katrínu Unadóttur var vísað frá sökum skorts á viðhlítandi sjóverjum.
Heimasætan hafði fengið lánaða skinnbrók til þess að róa í, en stakk hafði ekki lánast að fá léðan, hvernig sem á var sótt. Ekki kom til mála að lofa henni að róa stakklausri. Það gat kostað hana lífið, ef illa rættist úr veðri. Hattlaus var hún einnig. Hvað var nú til ráða fyrir hinni hugrökku heimasætu, hjartahlýju og tilfinninganæmu. Heimilið bjargarlaust og hún ráðalaus.
Brimsúgur var við sandinn, svo að sjómennirnir í Holtsvör voru í vomum. Þeir drógu það við sig að ýta. Þeir tóku til að „bræð'ann“, eins og stundum var komizt að orði. Á meðan varð heimasætunni á Moldnúpi reikað austur með sjávarströndinni. Hún var í öngum sínum. Vonbrigðin voru sár. Eins og hún hafði þó hlakkað til að geta innt þetta starf af hendi. Það var nánast líknarstarf, þó að til þess þyrfti óvenjulegt hugrekki og mikinn dugnað.
Hún var heittrúuð, þessi unga heimasæta á Moldnúpi, og nú bað hún til guðs. Það hafði móðir hennar kennt henni.
Hvað var þetta gula, sem blasti þarna við í hallanum suður af sjávarkambinum? Hún nálgaðist það á styrkum fótum. Og svo sannarlega var það sjóstakkur, gulur og olíuborinn en ekki gjörður úr íslenzku skinni. Og meira fann hún þarna. Nokkru austar kom hún auga á annað, lítið, gult. Það reyndist vera sjóhattur. Hvernig gat annars á þessu staðið? Og einmitt nú, þegar hún þurfti þessa svo sannarlega með, svo að nauðsyn knúði. Nei, þetta var næstum óskiljanlegt, nema hér hafi kraftaverk átt sér stað.
Katrín heimasæta kom arkandi vestur eftir fjörukambinum með stakkinn og sjóhattinn og sýndi skipshöfninni, hvað hún hefði fundið. Þeir stóðu þarna undrandi og orðlausir. Svo ýttu þeir, og auðvitað fékk heimasætan að fljóta með.
Brátt sannaðist, að hún var í rauninni lúsfiskin. Hún dró og dró og hlutur hennar var sízt minni en þeirra á bátnum, sem mest drógu. Hún færði foreldrum sínum verulega björg í bú eftir róðurinn. Og marga róðra áttu hún þá ófarna.
Eftir þetta réri Katrín Unadóttir tvær vorvertíðir og eina vetrarvertíð frá Eyjafjallasandi og þótti jafnan liðtæk í því starfi. Víst hafði það miklar hættur í för með sér að stunda sjó frá þessari sendnu og hafnlausu strönd og það að vetrinum, þar sem brimið og boðaföllin gerðu oft lendinguna tvísýna. Hin miklu slys sönnuðu hættuna miklu.
Og sagan um „kraftaverkið“ lifði á vörum og í huga bændafólksins undir Eyjafjöllum um tugi ára. Mér, sem þetta ritar, var sögð hún 75 árum eftir að hún gerðist. Og sá, sem sagði mér, trúði því einlæglega, að kraftaverkið hefði raunverulega gerzt. Ég undraðist, en sá enga ástæðu til að rengja frásögn hans. Margt er svo óskiljanlegt í lífi okkar mannanna. Og ég finn jafnan til með þeim, sem ekkert undrast og engu trúa nema því, sem gómað verður.
Nokkru eftir að mér var tjáð þessi kraftaverkasaga, fann ég Hannes Sigurðsson að máli. Hann var furðu málhress svo aldraður, sem hann var, 94 ára. Hann mundi vel atburðinn þann, þegar „kraftaverkið“ gjörðist. Hvernig gat það gerzt? Hvaðan bárust hlutirnir upp í hendurnar á hinni heittrúuðu og bænheitu heimasætu, ungu stúlkunni einlægu og hugrökku? Hannes sagði svo frá: „Við skildum það strax, hvernig þetta gerðist. Franskar skútur voru þarna úti fyrir á víð og dreif á færafiski, sumar djúpt úti, aðrar grynnra. Sunnan-átt var á. Frönsku skútukarlarnir hengdu oft sjóstakka sína og sjóhatta til þerris á slár eða í stög. Stakkur og sjóhattur fuku út á sjó fyrir sunnan vindinum og þá rak á land.“ Þetta sagði Hannes Sigurðsson, fyrrv. formaður í Holtsvör og síðan bóndi á Steinsstöðum og svo Brimhólum í Vestmannaeyjum um tugi ára. Og svo gerðist þetta á hinu rétta augnabliki, að stakkurinn og sjóhatturinn fuku og þá bar að landi á þeirri stundu eða svo, þegar Katrín Unadóttir þurfti þeirra svo sárt með til þess að geta innt af hendi miskunnarverkið við foreldra sína. Tilviljun, segja sumir; kraftaverk, segja aðrir, sem trúa því að kraftaverk hafi gerzt og geti gerzt. Hverju trúir þú, lesari minn góður? Ég á mína sannfæringu.
Frú Katrín Unadóttir fluttist til Vestmannaeyja árið 1903 með systur sinni, frú Ingveldi Unadóttur húsfr. á Sandfelli (nr. 36) við Vestmannabraut, og manni hennar Guðjóni skipstjóra Jónssyni. En hjá þeim hjónum dvaldist hún síðustu árin undir Eyjafjöllum, áður en þau fluttust til Eyja. Faðir hennar, Uni Runólfsson, fluttist til Eyja árið 1907, þá nær 80 ára gamall, til þess að hinar góðu dætur hans þar gætu annast hann síðustu ævistundirnar. Það var þeim báðum hugleiknast, svo næmar, hugljúfar og ástríkar, sem þær voru af guði gerðar. Þá var kona hans fallin frá.
Frú Katrín Unadóttir giftist síðast á árinu 1917 Páli Einarssyni sjómanni frá Nýjabæ undir Eyjafjöllum. Hann var mikill dugnaðarmaður og þau unnust hugástum. En fljótlega bar skugga á. Hann olli sorg, sem entist það sem eftir var ævinnar.
Á vetrarvertíð 1918 réri Páll Einarsson á vélbátnum Adólf frá Vestmannaeyjum. Þessi bátur fórst með allri áhöfn 3. marz 1918. Þannig missti frú Katrín eiginmann sinn 2-3 mánuðum eftir brúðkaupið. Hér verður hver og einn að fara í eigin barm, leita og finna orð.
Þegar þetta hörmulega slys átti sér stað, gekk frú Katrín með barni þeirra hjóna. Það fæddi hún sex mánuðum eftir fráfall eiginmannsins. Hún ól meybarn, sem skírt var eftir föður sínum. Þetta var hún Pálína Pálsdóttir, sem í fyllingu tímans giftist Haraldi Guðjónssyni frá Skaftafelli (nr. 62) við Vestmannabraut. Þau bjuggu í Keflavík, en þessi einkadóttir frú Katrínar er látin fyrir fám árum. Hún var nemandi minn í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum. Betri nemanda og yndislegri stúlku á skólabekk er naumast hægt að hugsa sér. Þetta var dóttir frú Katrínar Unadóttur, og þær mæðgur skildu aldrei þau 32 ár, sem frú Katrín lifði, eftir að hún missti mann sinn og fæddi stúlkuna sína. Frú Katrín Unadóttir andaðist árið 1950.

Þórður H. Gíslason, sem um árabil gegndi meðhjálparastarfi við Landakirkju í Vestmannaeyjum, þekkti mætavel frú Katrínu Unadóttur, enda kvæntur systurdóttur hennar. Hann skrifaði þessi orð m.a. um frú Katrínu í minningargrein um hana:
„Katrín sáluga var í orðsins fyllsta skilningi góð kona og síglöð í lund. Góðvildin skein út úr hverjum drætti andlitsins, enda mátti hún ekkert aumt sjá án þess að bæta úr því á einhvern hátt, ef hún mátti því við koma. Hún var umtalsfróm og síbætandi kona . . . Þó var hún alvörumanneskja. Þykir mér það líklegt, að reynslan á æskuárunum hafi markað djúp spor í skapgerð hennar . . . Hún var trúuð kona, sem bezt sást í daglegri breytni hennar við meðbræður sína . . . Það virðist hafa verið gefið Katrínu í vöggugjöf að miðla öllum, sem hún kynntist, af því bezta, sem hún átti til . . .“
Við segjum öll, sem kynntumst frú Katrínu Unadóttur og svo frú Pálínu dóttur hennar: Blessuð sé minning þeirra beggja.

——————————————————————————————————


ctr


Íbúðarhúsið að Stóru-Löndum í Vestmannaeyjum, sem hjónin frú Elín Þorsteinsdóttir frá Dyrhólum og Friðrik Svipmundsson, útgerðarm. og formaður, byggðu árið 1909. Húsið fór undir hraun í marzmánuði 1973.