Blik 1974/Ævisögubrot

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 4. febrúar 2015 kl. 14:57 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 4. febrúar 2015 kl. 14:57 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit


TRAUSTI EYJÓLFSSON:


Ævisögubrot


Það var síðsumar 1943. Heimsstyrjöldin geisar án afláts. Landið er setið erlendum her. Herstöðvarnar eru við þéttbýli landsins. Í sveitunum verður lítið vart við hernaðarástandið, nema þá bílalestir hersins á þjóðvegum og flugvélagný í lofti. Þannig var það að minnsta kosti uppi undir Eyjafjöllum, en þar var ég sumarstrákur.
Á þeim árum gátu allir krakkar úr bæjunum, sem áhuga höfðu, komizt út í sveitirnar í sumarleyfum skólanna. Endalaus þörf var fyrir starfsfúsar hendur þar á þessum árstíma. Þá voru hjálpartækin enn fábrotin og heyvinnuvélarnar, ef til voru, dregnar af hestum.
Já, þarna undir Fjöllunum hafði ég verið sumarlangt hvert ár, frá því ég mundi eftir mér, en nú var ég orðinn fimmtán ára. Eiginlega hafði ég ekki ætlað þangað að þessu sinni. Ég hafði verið í 1. bekk Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum veturinn áður og ætlaði að vinna mér inn nokkrar krónur, til að geta haldið áfram í skólanum og létt undir með móður minni, sem til þessa hafði alið önn fyrir stráknum sínum, því auðvitað hafði ég aðeins verið matvinnungur í sveitinni. En þetta vor veiktist mamma og var lögð á sjúkrahús. Sjúkdómur hennar reyndist illlæknanlegur og komst hún aldrei til fyrri heilsu. Við gátum því ekki haldið heimilið okkar í Eyjum og urðum að segja upp íbúðinni, sem við höfðum leigt.
Ég þóttist nú eygja endalok skólagöngu minnar. Ég ætlaði að vinna hjá frændfólki mínu í sveitinni fram eftir haustinu, en vissi raunar ekki, hvað til bragðs skyldi taka. - Þá var það einn dag, að ég fékk símakvaðningu. Í símanum var Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum. Samtalið var eitthvað á þessa leið: Þorsteinn: „Sæll Trausti minn. Ætlarðu ekki að koma í skólann?“ - Ég segi honum, hvernig komið sé fyrir mömmu minni og ég sé heimilislaus. - Jú, hann vissi undan og ofan af því, en spyr, hvort frændfólk mitt í Eyjum vilji ekki liðsinna mér. - Ég segi honum, sem satt var, að enginn hafi haft samband við mig um þá hluti. - „Og þú treystir þér ekki til að koma þér fyrir?“ - „Nei,“ segi ég, „ég er gersamlega peningalaus.“ „Auðvitað ert þú það,“ segir Þorsteinn „og þess vegna höfum við Inga ákveðið að bjóða þér að vera hérna hjá okkur í Háagarði í vetur. Þú verður í herbergi með Dedda mínum. Hann hlakkar til, að þú komir.“ - Þetta kom svo óvænt, að mér varð svarafátt, tuldraði þó einhver þakklætisorð fyrir þetta höfðinglega boð, þegar við kvöddumst.
Svo var ég allt í einu kominn í Háagarð til þessa rausnarfólks, sem var mér algerlega óvandabundið og nær óþekkt, en tók mig að sér, eins og ég væri einn úr fjölskyldunni, gaf mér fæði og umhirðu fram á næsta sumar, - og það sem meira var, sýndi mér umhyggju og ástúð, sem með fágætum má telja. Ég hef aldrei fengið að greiða krónu fyrir. Þetta var gjöf til mín á erfiðu ári - og raunar ekki sú eina, því þau hjón hafa alla tíð síðan verið veitandi mér og mínum.
En fleiri nutu gæzku þessara ágætu hjóna, því að ég veit fyrir víst, að alls munu níu ungmenni hafa dvalizt hjá þeim á námsárum sínum í kaupstaðnum, sum þrjá vetur eða fleiri.
Þennan vetur var heimilisfólkið í Háagarði auk þeirra hjóna börn þeirra, sem þá voru fædd. Þau voru þrjú, Stefán, Kristín og Víglundur Þór. Þá var þar Katrín, öldruð móðir húsfreyjunnar, og ung frænka þeirra frá Norðfirði, Inga Halldórsdóttir. Hún var þennan vetur við saumanám þarna einhvers staðar í kaupstaðnum. Alls eru þetta átta manns að mér meðtöldum. Árið áður mun fóstra Þorsteins hafa látizt. Hún dvaldist einnig hjá þeim hjónum síðustu æviárin.
Við Stefán vorum jafnaldrar, en mikill stærðarmunur var á okkur. Hann var óvenju stór og þroskalegur unglingur. - Við deildum sama herbergi. Var það þakherbergi við austurstafn hússins. Okkur kom vel saman og urðum aldavinir. Hins vegar kom stundum fyrir, að við tókumst á, svona til að styrkja kraftana. Ég átti auðvitað ekkert að gera í Dedda, því að hann var miklu öflugri en ég. Þó gafst ég aldrei upp fyrr en í fulla hnefana, svo að af þessu varð mikið brambolt og skellir, sem glumdi um allt húsið. Þó minnist ég þess ekki, að við þessu væri amast utan einu sinni, að Þorsteinn birtist í dyrunum og spurði: „Ætlið þið að mölva niður kofann, drengir?“ „Nei, það var nú ekki meining okkar. -Heyrist þetta niður?“ spurðum við undrandi. Við höfum bara ekki gert okkur grein fyrir, hve hljóðbært var í svona timburhúsi. En ekki gat ég betur séð, en að Þorsteinn brosti í laumi að þeirri sjón, er við honum blasti, þar sem við strákarnir lágum saman kræktir og snúnir á gólfinu, leitandi að nýjum brögðum til að geta yfirbugað hinn, móðir og rjóðir af átökunum. - Háigarður þurfti líka öflugri hamfarir, til að gliðna í sundur. Það skeði nákvæmlega þrjátíu árum síðar, þá er jörðin rifnaði á Foldum austur og eldgos reið yfir. En það er önnur saga, sem hér verður ekki sögð.
Ef ég er spurður nú um, hvað mér sé eftirminnilegast frá veru minni í Háagarði, þá á ég örðugt um svar. Dvöl mín á þessu ágæta heimili er mér öll ógleymanleg og ljúf í endurminningunni. Enda sá tími, sem mest afgerandi varð um framvindu lífshlaups míns. - Eitt er það þó, sem efst ber, þá ég hugleiði þetta: Sjálft hjónaband húsráðenda. Þar var ástarsælan ekki skammvinn, hún ljómaði og skein alla daga og vermdi heimilislífið, sem eldur á arni. Samvinna Ingu og Þorsteins til að gera heimilið að sannkölluðum velferðarreit og griðastað, þar sem vopnabrak umhverfisins var víðsfjarri, var undraverð og fögur fyrirmynd.
Það gustaði köldu um Þorstein á þessum árum. Það voru ekki allt fyrirbænir, sem hann fékk í eyra, hvað þá á bak. Skoðanir hans pössuðu ekki alltaf í kramið hjá þeim, sem einir þóttust réttbornir til að ráða og láta skoðanir sínar í ljós. Mörgum gramdist „bindindisþvælan“ í honum. „Maður fékk ekki orðið frið til að lyfta glasi fyrir þessum ofstækismanni.“ Öðrum fannst hann allt of „harðskeyttur og orðhvass“ í orðasennum við hina alls ráðandi „burgeisa“ bæjarins, svo að honum væri trúandi til að hafa afskipti af unglingum, hvað þá stjórna skóla fyrir þá. - Svo var hann að vasast í hreint öllu, sem honum kom barasta ekkert við, svo sem kaupgjaldsmálum verkalýðsins, samvinnumálum, ræktunarmálum bænda o.fl. Já, þvílíkt „ómenni“. - Áróður þessu líkur glumdi í eyrum manns útífrá. En ekki minnist ég þess, að verið væri að fjasa um andstæðingana heima í Háagarði, þó að ærið tilefni væri. Slíkt féll ekki við anda ástar og kærleika. Það var því ekki á dagskrá á þeim bæ, nema þá til að brosa að.

(Hvanneyri í Borgarfirði í jan. 1974).