Blik 1974/Vornæturkyrrð, ljóð

From Heimaslóð
Revision as of 20:38, 7 October 2010 by Viglundur (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1974SÉRA ÞORSTEINN L. JÓNSSON, SÓKNARPRESTUR:

Vornæturkyrrð
Fjalladalur ilmi andar,
æðasláttur lífsins hljóðnar,
fjöll og jöklar fögru skauta,
fald sinn baða í vatni skyggndu,
röðull blóðgum brennur loga,
býst til hvíldar dagur liðinn.
Fjallavatnsins báru-blikið
bifast mjúkt sem móðurfaðmur,
kynjadjúpur að sér allan
alheim rúmar himindjúpan,
gjálpar stilltu, ljúfu lagi
af lífsfögnuði um bjartar nætur.
Sælt og kyrrlátt byggðin blundar,
burstaþil á verði standa,
féð sig bælir mjúkt í móa,
mosa-þúfa, grænu í flosi,
mýrisnípa ei heyrist hneggja,
hvergi vella nokkur spói.
Daginn, þegar röðull roðar,
rísa af blundi annir dagsins,
bæjarþila burstir gneipar
búralegar úr sér teygja,
reykir upp í leti-lygnu
líða fyrir engum blænum.
Lækjarniður lífsóð kveður,
lækinn kljúfa sporðar kvikir,
ærnar lembdar lóna um grundir,
lömbin sjúga, dyndli skvetta,
hneggjar loft af hrossagauki,
heyrist spóinn líka vella.
Í friðsæld byrjar bjartur dagur,
blítt hann fer á ný að skína,
bóndi rís til lofts að líta
um leið og sinnir þörfum brýnum.
Þannig byrja bændur daginn,
brauðs og neyta í andlits-sveita.
Friður lifi, - friðar-vaki,-
fullnustunnar orkugjafi,
allar götur út til stranda,
innst til fjalla, vítt um byggðir,
vaxi farsæld innst sem utast,
andann veki himin-tungur.
Þá mun dagsins þjóðin njóta,
þjónustunni trúnað sverja.