Blik 1974/Skýrsla um starfsemi Vestmannaeyjabæjar í Hafnarbúðum, seinni hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Efnisyfirlit 1974



GEORG TRYGGVASON lögfræðingur:


Skýrsla um starfsemi Vestmannaeyjabæjar

í Hafnarbúðum í Reykjavík vegna eldgossins í Heimaey 1973

(síðari hluti)

5. kafli. Ferðaleyfi
Áður er að því vikið, að Almannavarnaráð ríkisins ákvað hámarkstölu þess fólks, sem ferðast mátti til Eyja með skipunum fyrstu vikurnar eftir upphaf gossins. Þetta fyrirkomulag olli töluverðri óánægju og sætti síðar mikilli gagnrýni. Er í því sambandi á það bent, að björgun úr húsum fólks hefði vafalaust oft gengið betur, ef eigendurnir sjálfir hefðu fengið að vinna að henni. Sjálfur álít ég, að þessi gagnrýni sé ekki réttmæt. Til grundvallar við ákvörðun hámarkstölu lágu þau sjónarmið helzt, að öryggi fólksins sjálfs væri ekki stefnt í hættu umfram það, sem óhjákvæmilegt var. Bæði var með þessu að því stefnt, að aldrei væri í Eyjum fleira fólk en svo samtímis, að hægt væri að flytja það allt á brott á skömmum tíma, ef svo hrapalega vildi til, að gosstöðvarnar breyttu sér og nýjar sprungur mynduðust, e.t.v. í bænum sjálfum. Eins var hitt haft til hliðsjónar, að aldrei væri samtímis fleiri farþegar í hverju skipi en svo, að þar gæti ríkt þokkaleg regla og aðbúnaður væri viðunandi. Varð í því sambandi að taka tillit til þess, að sjóferðirnar gátu orðið, og urðu oftlega langar. Bæði kom það fyrir, að skipin yrðu að bíða eftir því að komast inn til Eyja, stundum marga klukkutíma, en hitt var þó enn algengara, að höfnin í Þorlákshöfn væri lokuð, þegar haldið var til baka, og skipin yrðu að sigla alla leið til Reykjavíkur. Sé málið virt af sanngirni, hlýtur það að teljast eðlilegt, að setja velferð og öryggi fólksins ofar umhyggjunni fyrir eignum þess. Þær má þó alltaf bæta en mannskaða ekki.
Fyrstu vikurnar var það ætíð svo, að fleiri, og stundum margfalt fleiri, sóttu um að komast með ferðunum en hámarkið sagði til um. Settar voru þá þær reglur, að forgang hefðu þeir, sem næst bjuggu gosstöðvunum og síðan koll af kolli. Var bænum skipt í fjögur áhættusvæði. Eigendum húsa, sem voru austast í bænum, var leyft að senda annan fyrir sig, ef þeir komust ekki sjálfir. Þá var og reynt að miða við það, að einungis einn færi fyrir hönd hverrar fjölskyldu. Yfirleitt sætti fólk sig við þessar reglur.
Að hálfu Almannavarnaráðs var skipstjórnarmönnum og lögreglu falið að hafa eftirlit með því, að um borð í skipi færu eingöngu þeir, sem þessi leyfu höfðu. Á þessu vildi þó verða einhver misbrestur. Þessu fyrirkomulagi um útgáfu ferðaleyfa var haldið óbreyttu, þótt ásóknin minnkaði síðar svo, að henni var hægt að anna að fullu. Ástæðan til þessa var sú, að talin var hætta á því, að til Eyja kynnu að sækja miður heiðarlegir kumpánar, sem þar hyggðu á auðfundinn gróða. Varð raunar vart við slíka menn í Þorlákshöfn nokkrum sinnum og tókst, eftir því sem bezt er vitað, ætíð að bægja þeim frá.
Sú deild, sem sá um útgáfu ferðaleyfanna, sá einnig um að skipuleggja sætaferðir frá Þorlákshöfn í tengslum við skipsferðirnar. Var það oft mikið vandaverk, því skipin sigldu ekki eftir föstum áætlunum, enda tók mjög mislangan tíma að lesta þau í Eyjum. Þá lokaðist höfnin í Þorlákshöfn alltaf annað slagið, þannig að beina varð skipunum til Reykjavíkur. Við það fóru að sjálfsögðu allar áætlanir og skipulagning úr skorðum, enda voru mun færri sendir með skipunum frá Reykjavík en þegar þau fóru frá Þorlákshöfn. Varð þá stundum að flytja hópa fólks á milli skipa og afturkalla hluta af leyfunum. Gekk það ekki alltaf árekstralaust. Loks kom það svo til, að um ferðir varðskipanna fékk deildin venjulega ekki að vita nema með mjög litlum fyrirvara, stundum seint um kvöld, og var þá oft miklum erfiðleikum háð, að skipuleggja hópferðir með þeim. Kom það sér þá vel, að ríkisútvarpið var ætíð reiðubúið til þess að skjóta inn í dagskrá sína tilkynningum og orðsendingum frá okkur. Var hjálpsemi starfsmanna ríkisútvarpsins og raunar allra fjölmiðla afar mikils virði fyrir okkur. Allir þessir aðilar voru boðnir og búnir til aðstoðar, hvenær sem eftir henni var leitað og ætíð án nokkurs endurgjalds.
Þessi deild leystist upp í lok febrúar, enda þá önnur skipan komin á málin. Í fyrirsvari fyrir hana var lengst af Garðar Júlíusson. Mæddi um tíma geysimikið á honum og þeim, sem með honum störfuðu. Stóð Garðar sig með mikilli prýði og sóma í þessu vanþakkláta og erfiða starfi.


6. kafli. Fjárhagsaðstoð
Strax á fimmtudaginn 25. janúar kom í ljós, að nokkur hluti Vestmannaeyinga var fjárvana með öllu. Var það að vonum, er þess er gætt, að flestir yfirgáfu Eyjarnar í miklum skyndingi, og hugsuðu því ekki til þess að hafa með sér farareyri. Í mörgum tilvikum var um hreina neyð að ræða og dæmi þess, að fólkið átti ekki fyrir mat.
Hér kom Rauði Krossinn enn til hjálpar. Honum hafði þegar borizt töluvert fé erlendis frá og lýstu forráðamenn hans sig nú til þess fúsa að verja hluta þessa fjár strax til styrktar við fólkið. Var það að vanda, er forráðamenn Rauða Krossins sáu hvar skórinn kreppti, að ekki var beðið með framkvæmdir. Þeir óskuðu aðeins eftir því, að við leggðum til eina manneskju, sem væri vel kunnug Vestmannaeyingum, en síðan var starfsemin sett í fullan gang samdægurs.
Mikil aðsókn varð strax að þessari deild, og mynduðust langar biðraðir. Varð fljótlega að fjölga í starfsliði hennar, sem mun hafa orðið um 10 manns, þegar mest var. Fram til 3. febrúar var úthlutað tæplega 1700 framlögum til einstaklinga og fjölskyldna, samtals að fjárhæð 17,8 millj. Allan þennan tíma bar starfsfólk Rauða Krossins hita og þunga starfsins og allt fjármagnið kom frá Rauða Krossinum.
Í byrjun febrúar var gerð breyting á starfseminni. Þá var einnig hafin úthlutun fjár á vegum Hjálparstofnunar þjóðkirkjunnar og Hjálparsjóður æskufólks hafði úthlutað nokkru fé. Þótti eðlilegt og til hægðarauka, að öll þessi hjálparstarfsemi væri sameinuð undir einum hatti. Varð það að sammæli, að starfsfólk bæjarsjóðs Vestmannaeyja skyldi yfirtaka þessa starfsemi alla og vinna að henni framvegis í nánu samstarfi við fulltrúa Rauða Krossins og Hjálparstofnunarinnar. Þegar í stað var hafizt handa um gerð spjaldskrár og sérstakra umsóknareyðublaða fyrir deildina.
Tvennt af fastráðnu starfsfólki bæjarsjóðs var sett til starfa í henni. Ræddu þessir starfsmenn við fólkið, veittu upplýsingar og tóku á móti umsóknum. Þeir sáu jafnframt um gerð spjaldskrárinnar, útborgun framlaga og allt reikningshald. Endanlegt vald um úthlutanir var hins vegar í höndum þeirrar framfærslunefndar, sem starfað hafði í Eyjum. Kom nefndin framan af saman til fundar daglega. Starfsemi nefndarinnar var markaður sá rammi, að hún reyndi að tryggja, að enginn Vestmannaeyingur þyrfti að búa við neyð vegna féleysis. Til þess að rækja þetta hlutverk sitt, hefur nefndin ekki látið sitja við það eitt, að afgreiða þær umsóknir, sem borizt hafa henni um fjárhagsaðstoð. Þvert á móti hefur mikið verið gert í því, að leita uppi það fólk, sem ætla mátti að væri aðstoðar þurfi, en hefur af einhverjum ástæðum ekki fengið sig til þess að óska eftir henni. Hefur fólkinu í þó nokkrum tilvikum, er þannig stóð á, verið send aðstoðin án þess nokkur umsókn kæmi til.
Á hinn bóginn hefur verið kostað kapps um að einskorða þessa fjárhagsaðstoð við raunverulega þörf og það verið forðast, að hún fengi á sig einhvern svip allsherjar fjárúthlutunar, eða gengi inn á svið Viðlagasjóðs með beinum bótagreiðslum.
Alls mun nefndin, fram til 1. júní s.l., hafa veitt framlög að fjárhæð um 14 milljónir kr. og nemur samanlögð aðstoð á hennar vegum og Rauða Krossins þannig um 31,8 milljónum króna.
Samanlagður fjöldi þeirra framlaga mun vera 2766. Hafa 718 fjölskyldur og einstaklingar fengið slíka aðstoð einu sinni, 743 hafa notið hennar tvisvar, 135 þrisvar, 30 fjórum sinnum og 7 oftar en það. Mun nú láta nærri, að tæplega 100 fjölskyldur og um 70 einstaklingar fái einhverja aðstoð reglulega. Er eldra fólkið þar í miklum meirihluta. Einnig er nokkuð um það, að aðstoða þurfi skólafólk, sem áður bjó hjá fjölskyldum sínum í Eyjum, en þarf nú að greiða húsaleigu og fæði að fullu.
Þær 14 milljónir, sem úthlutað hefur verið til fólksins frá því í byrjun febrúar, hafa Rauði Krossinn og Hjálparstofnun Þjóðkirkjunnar lagt fram af gjafafé því, sem þeim hefur borizt. Fyrirsjáanlegt er, að þessari starfsemi verður að halda áfram í svipuðum mæli og verið hefur að undanförnu, meðan á dvöl fólksins hér á meginlandinu stendur.


7. kafli. Staðfestingarskírteini
Töluvert var um það, að ýmis fyrirtæki og stofnanir biðu Vestmannaeyingum afslátt eða einhverja sérstaka þjónustu. Tóku boð þessa efnis að berast niður í Hafnarbúðir strax á öðrum eða þriðja degi eftir upphaf gossins. Ritaðar voru tilkynningar um öll slík tilboð og þær festar upp á áberandi stöðum í Hafnarbúðum. Sömuleiðis voru öll þessi tilboð kynnt í þeim fjölrituðu fréttablöðum, sem gefin voru út af Vestmannaeyingum og dreift í Hafnarbúðum. Til nokkurs óhagræðis var þó það, að ekki var til að dreifa neinum sérstökum gögnum, sem staðfestu, hver væri í raun Vestmannaeyingur og hver ekki. Höfðu sumir þeir aðilar, sem buðu okkur sérstaka fyrirgreiðslu, orð á þessu og kváðust óttast, að einhverrar misnotkunar kynni að gæta.
Einnig kom það svo til, að hætta gat verið á því, að eignir manna misfærust úr móttökustöðvum okkar fyrir búslóðirnar, þegar verið var að sækja þangað muni. Þeir sjálfboðaliðar, sem þarna unnu, þekktu auðvitað ekki, hverjir væru Vestmannaeyingar og hverjir ekki. Reynt var að bæta úr þessu með því að hafa ætíð a.m.k. einn kunnugan Vestmannaeying á hverjum stað, en oft, og þá einkum framan af, reyndist mjög erfitt að fá fólk til þessa starfa.
Til þess að ráða bót hér á var ákveðið að gefa út sérstök skírteini til allra þeirra, sem voru á íbúaskrá í Vestmannaeyjum 1. desember s.l. Útgáfa skírteinanna hófst 3. febrúar og gekk hún mjög vel. Voru gefin út 4 fyrstu dagana hátt á 3. þúsund skírteini. Unnu við þetta starf framan af um 10 manns, þar á meðal 2-3 stúlkur frá Hagstofunni, sem tóku niður í leiðinni allar breytingar á aðsetursstöðum fólksins. Komst nú um leið gott lag á íbúaskrárnar hjá okkur.
Skírteini þessi giltu síðan sem aðgönguseðill að allri sérstakri fyrirgreiðslu, sem Vestmannaeyingum stóð til boða, og varð einnig forsenda þess, að menn fengju afhentar búslóðir eða búsmuni úr móttökustöðvunum. Síðar hefur þeim verið veitt þýðing í sambandi við fararleyfi til Vestmannaeyja og afslátt af flugfargjöldum.


8. kafli. Mötuneyti
Í Hafnarbúðum er nokkuð þokkalegt eldhús, sæmilega vel búið tækjum og rúmgóður borðsalur. Kom fljótlega til tals, að nauðsynlegt væri að koma upp einhverri veitingaaðstöðu í húsinu, bæði fyrir þann mikla fjölda fólks, sem þar starfaði, og eins fyrir fólkið, sem þar dvaldi oft langtímum saman í ýmsum erindagjörðum. Einkum þótti þetta eftirsóknarvert af þeim sökum, að með þessu móti myndi skapast vísir að félagslegri aðstöðu fyrir Vestmannaeyinga. Þarna gætu menn hitzt og rætt málin yfir kaffibolla. Þá var og vitað, að margt af því fólki, sem bjó inni á fjölskyldum og í margs konar bráðabirgðahúsnæði, hafði ekki eldunaraðstöðu og varð því að kaupa máltíðir dýru verði.
Það var því strax ráðizt í það að hreingera eldhúsið og láta framkvæma nauðsynlegustu viðgerðir á tækjabúnaði þess, sem lengi hafði staðið ónotaður. Kaffisala hófst svo fimmtudaginn 25. janúar. Við hana starfaði hópur kvenna frá Vestmannaeyjum og sömuleiðis margar konur úr kvenfélaginu Heimaey í Reykjavík. Þessar konur unnu margar 10-12 tíma á dag í sjálfboðavinnu allt fram til mánaðarmóta febrúar-marz. Var dugnaður þeirra og ósérhlífni til sérstakrar fyrirmyndar.
Forsvarsmenn Rauða Krossins vildu þó, að markið yrði sett hærra og hafin sala á heitum máltíðum. Tókst þeim að koma því til leiðar á aðeins einum degi. Friðrik Gíslason, skólastjóri Hótel- og veitingaskóla Íslands tók að sér yfirsjón eldamennskunnar og hafði hann sér við hlið alla nemendur skólans, tæplega 40 að tölu. Fékkst sérstakt leyfi ráðherra til þess að loka skólanum um tíma af þessum sökum. Sá hópur, sem þarna kom til starfa, reyndist alveg sérstaklega vel. Þeir sáu um eldamennsku fyrir mötuneytið í 3 vikur samfellt, en fjöldi máltíða á dag var oft um 600. Að auki önnuðust þeir alla matargerð fyrir þann mikla fjölda sjálfboðaliða, sem unnu við móttöku búslóðanna, en þeim var sendur matur reglulega á vinnustaðina.
Loks önnuðust svo þrír af nemendum skólans rekstur mötuneytis í Glettingi í Þorlákshöfn þann tíma, sem mest umferð Vestmannaeyinga var þar um á leið til og frá Eyjum. Gat fólkið fengið þar heitar veitingar á meðan það beið eftir skipsferð til Eyja, en oft vildi sú bið verða ærið löng. Enn störfuðu svo nokkrir nemendur skólans við mötuneytin, sem rekin voru í Eyjum fyrir björgunarsveitirnar, sem þar unnu. Um skeið var ekið reglulega með heitar máltíðir frá Hafnarbúðum til Þorlákshafnar handa þeim mikla fjölda sjálfboðaliða, sem þar starfaði við uppskipun og akstur búslóða. Konur úr kvenfélaginu í Þorlákshöfn sáu um framreiðslu matarins en umsjón með rekstrinum hafði sveitarstjórinn.
Auk Friðriks og nemenda hans störfuðu svo oft lærðir matreiðslumenn víða að, t.d. frá Loftleiðum í Keflavík og ýmsum matsölustöðum í Reykjavík, lengri eða skemmri tíma sem sjálfboðaliðar við mötuneytið.
Rauði Krossinn útvegaði menn til þess að hafa umsjón með rekstri mötuneytisins í Hafnarbúðum. Fór Stefán Hirst hdl. með það starf fyrstu dagana, síðan Kári Jónsson og loks Haraldur Arngrímsson, sem enn fer með forstöðu þess.
Eins og áður segir, komst mötuneytið í fulla starfrækslu strax þann 26. janúar. Voru þá framreiddar tvær heitar máltíðir á dag, en auk þess kaffi og brauð allan daginn. Fyrst í stað voru máltíðarnar seldar á kr. 30-50 og kaffi með brauði á kr. 10. Þetta lága verð var mögulegt án óeðlilega mikils kostnaðar vegna þess að kostnaður vegna húsnæðis var enginn, öll vinna gefin og loks kom það til, að ýmsir aðilar gáfu Rauða Krossinum eða mötuneytinu mjög rausnarlegar matargjafir. Þannig gaf stórkaupmaður einn í Reykjavík vöruúttekt hjá fyrirtæki sínu fyrir 2 millj. kr. Bóndi einn úr Hreppunum kom einn daginn með 20-30 kg af eggjum í jeppa sínum og gaf mötuneytinu. Eru þessi tvö tilvik aðeins nefnd sem dæmi um fjölmörg hliðstæð.
Síðar kom þó að því, að ráða þyrfti launað starfsfólk að mötuneytinu. Varð þá að hækka verðið, þótt það hafi þó ætíð verið töluvert undir því, sem gerist á venjulegum matsölum. Í marz hafði nokkuð dregið úr aðsókn, einkum um kvöld og helgar, og var þá hætt að selja heitan mat á kvöldin og á sunnudögum. Var þá hægt að fækka matsveinum úr 4 í 1, en rekstrarhalli í matsölunni var þá orðinn um 300 þús. kr. á mánuði. Í júní var svo einnig hætt að selja máltíðir á laugardögum, af sömu ástæðum.
Enn er mötuneytið rekið og eru nú framreiddar þar heitar máltíðir í hádeginu alla virka daga og kaffi með brauði frá kl. 9-17. Er aðsókn að því nokkur og gegnir það enn því hlutverki sínu, að vera nokkurs konar mótsstaður fjölmargra Vestmannaeyinga á meginlandinu. Þar hefur einnig verið útvarp og sjónvarp frá því í janúar, til afnota fyrir gesti.
Framan af sá Rauði Krossinn algjörlega um rekstur mötuneytisins og bar á honum alla ábyrgð. Síðan yfirtók bæjarsjóður þó stjórn rekstursins en Rauði Krossinn stendur enn undir reksturskostnaðinum.


9. kafli. Húsnæðismiðlun
Þegar starfsemin í Hafnarbúðum hófst, voru um garð gengnar fyrstu skyndiaðgerðirnar í húshnæðismálum. Starfsmenn Rauða Krossins höfðu þar borið hitann og þungann og skilað hlutverki sínu með sóma, sem endranær. Að kvöldi 24. janúar höfðu nokkrir skólar verið útbúnir sem neyðarhúsnæði og þangað fluttar dýnur og viðlegubúnaður. Til þess kom þó ekki, að þessa svefnstaði þyrfti að nota, því allir, sem til Reykjavíkur komu, höfðu þá strax fengið inni á einkaheimilum til bráðabirgða. Gistingu á hótelum þurfti aðeins að útvega um 70 manns.
Þegar það er haft í huga, að daginn sem gosið hófst, komu um 4200 manns til Reykjavíkur, má ljóst vera, hversu ótrúlega vel gekk að koma fólkinu fyrir fyrst í stað. Þar réðu að sjálfsögðu mestu um viðbrögð íbúa höfuðborgarsvæðisins, sem buðu fjölda fólks inn á heimili sín.
Í fjölmörgum tilvikum var hér þó um hreinar bráðabirgðalausnir að ræða og var því strax ljóst, að eitt stórfelldasta verkefnið, sem við yrði að glíma, væri útvegun á íbúðarhúsnæði.
Húsnæðismiðlun tók til starfa í Hafnarbúðum strax að morgni hins 25. janúar. Var það mikið happ, að til forstöðu þar völdust strax þrír sérstaklega duglegir sjálfboðaliðar frá Rauða Krossinum, sem þrátt fyrir gífurlegt álag, komu strax á og tókst að halda reglu og skipulagi á störfum deildarinnar.
Innan tíðar störfuðu þar 12 manns, þar á meðal nokkrir Vestmannaeyingar, sem þekktu til aðstæðna fólksins.
Aðstaða sú, sem þessi deild fékk fyrst í stað á 3. hæð í Hafnarbúðum, varð strax alltof þröng. Til úrbóta var sú leið farin, að borgaryfirvöld voru beðin um að kanna, hvort hægt væri að rýma neðstu hæðina í húsinu, en þar var fyrir komið margvíslegum gögnum og teikningum á vegum skipulagsnefndar Reykjavíkurborgar. Þessari málaleitan okkar var afar vel tekið og hæðin rýmd samdægurs. Var það þó mikið verk. Fluttist húsnæðismiðlunin síðan í þetta húsnæði og var henni þá vel borgið í bili.
Síðar, þegar umsvifin í sambandi við búslóðaflutningana tóku að vaxa og veruleg fjölgun var hjá því starfsliði, sem við flutningana vann, varð að flytja hana í þetta húsnæði einnig. Tók þá aftur að þrengja að deildinni. Um svipað leyti komu þau boð frá tollstjóranum í Reykjavík, að við gætum fengið afnot að miklu óinnréttuðu húsnæði í Tollstöðinni nýju. Var það boð þakksamlega þegið og húsnæðismiðlunin, ásamt vinnumiðluninni, flutt þangað hinn 9. febrúar.
Um þetta leyti varð sú breyting á, að sjálfboðaliðar Rauða Krossins hættu störfum og tóku Vestmannaeyingar nú alveg við rekstrinum.
Nokkur sveitarfélög lögðu okkur mikið lið með því að setja á stofn sérstakar fyrirgreiðsluskrifstofur fyrir Vestmannaeyinga innan sinna vébanda og ráða þangað menn til starfa. Má hér til nefna bæði Þorlákshöfn og Grindavík, en þó alveg sérstaklega Keflavík og Akureyri, sem bæði ráku umfangsmiklar atvinnu- og húsnæðismiðlanir og sendu okkur reglulega allar upplýsingar á þar til gerðum spjöldum. Var af þessu mikið lið.
Þann tíma, sem húsnæðismiðlunin starfaði í Hafnarbúðum, var engin skrá haldin yfir störf hennar og þann árangur, sem hún skilaði. Til slíks gafst ekki tóm. Þegar flutt var í Tollstöðina, komst hins vegar ágætt skipulag á alla starfsemi, skráningu þess húsnæðis, sem til boða stóð, og þá fyrirgreiðslu, sem miðlunin veitti. Allar skrár voru unnar í rafreiknum samkvæmt kerfi, sem starfsmenn IBM settu upp. Á þessum tíma lágu fyrir beiðnir frá 305 fjölskyldum um aðstoð við öflun húsnæðis.
Ljóst er, að starf húsnæðismiðlunarinnar skilaði miklum árangri þann tíma, sem hún starfaði í Hafnarbúðum, þótt margar úrlausnir hennar væru reyndar aðeins til bráðabirgða. Tilboðum um hvers konar húsnæði rigndi yfir deildina allt frá fyrsta degi. Boðin voru afnot að einstaklingsherbergjum, íbúðum, sumarbústöðum og allt upp í heilu sumardvalaheimilin. Munaði þar mest um Ölfusborgir, en þar var strax þann 28. janúar búið að koma varanlega fyrir um 280 manns.
Bráðabirgðahús, sem staðsett voru við Búrfellsvirkjun, voru flutt til Þorlákshafnar og tekin þar í notkun fyrir Vestmannaeyinga og þannig mætti lengi telja.
Samkvæmt skrám húsnæðismiðlunarinnar hefur hún haft milligöngu um útvegun á um 720 íbúðum, frá því að hún flutti í Tollstöðina, í afar mörgum tilvikum hefur hér aðeins verið um að ræða tímabundnar lausnir og hafa því vandamál sömu fjölskyldnanna stundum komið oftsinnis til úrlausnar hjá Miðluninni.
Fyrstu dagana hafði húsnæðismiðlunin opið frá kl. 8-23. Í febrúar var opnunartímanum breytt og hann hafður frá kl. 10 til 22. Í tollstöðinni hefur svo alla tíð verið opið á venjulegum skrifstofutíma. Þar komst sú regla fljótlega á, að allar húseignir, sem boðnar voru fram til leigu, væru skoðaðar af starfsmanni miðlunarinnar áður en fólki var vísað á þær. Hefur sá háttur gefið góða raun.
Að frumkvæði Björns Tryggvasonar form. RKÍ, störfuðu um tíma í Tollstöðinni nokkrir reyndir bankamenn, sem höfðu það hlutverk að taka ákvarðanir um lánveitingar til húseigenda, sem áttu húsnæði í byggingu og skorti aðeins herzlumuninn á að ljúka þeim. Hér var um skammtímalán að ræða og voru þau veitt með því skilyrði, að viðkomandi húsnæði væri síðan leigt Vestmannaeyingum. Alls munu lán þessi hafa numið kr. 14.8 millj. og fékkst með þessu móti nokkuð varanleg lausn á húsnæðismálum u.þ.b. 50 fjölskyldna.
Þegar á heildina er litið, tel ég að segja megi, að húsnæðismiðlunin hafi skilað ótrúlega miklum árangri. Er þess að gæta, að Vestmannaeyingar hafa að mjög miklu leyti setzt að í Reykjavík og næsta nágrenni, svæði, sem bjó við talsverð vandræði í húsnæðismálum fyrir. Athuganir, sem gerðar voru í byrjun febrúar, leiddu í ljós, að á þessu svæði höfðu um 66% Vestmannaeyinga setzt að. Þetta hlutfall virðist hafa haldizt næstum óbreytt síðan, þannig að á þessu svæði séu enn búsettir u.þ.b. 3000 Vestmannaeyingar. Þrátt fyrir þetta mun þó ekki hafa til þess komið, að fjölskyldur hreinlega lentu á götunni, þótt vitanlega hafi margir orðið að láta sér lynda ófullnægjandi og í sumum tilvikum mjög ófullnægjandi húsnæði um lengri eða skemmri tíma.
Þess má geta til gamans, að nýjustu athuganir, gerðar í ágúst 1973, benda til þess, að milli 60 og 65% Vestmannaeyinga hafi setzt að í Reykjavík og nærliggjandi byggðarlögum (Kópavogi, Hafnarfirði, Garðahreppi, Seltjarnarnesi og Mosfellshreppi), um 15-20% á Suðurnesjum og suður með sjó einkum í Keflavík, Þorlákshöfn og Grindavík og á Selfossi og í Hveragerði, en um 20% fólksins hafi dreifzt til annarra landshluta, þ.e. vestur-, austur- og norðurlands, þar af eitthvað á annað hundrað manns til Akureyrar.


10. kafli. Atvinnumiðlun
Fyrsta dag starfseminnar í Hafnarbúðum tóku að berast tilboð víða að frá ýmsum aðilum, sem buðu Vestmannaeyingum vinnu. Stöðugt framhald var á þessu framboði næstu daga og vikur. Eftirspurn eftir atvinnu var hins vegar framan af engin, enda höfðu víst allir í nógu að snúast öðru en því, að leita sér að vinnu, og þeir, sem voru á lausum kili, voru umsvifalaust teknir til starfa í Hafnarbúðum eða fóru til aðstoðar við björgunarsveitirnar í Eyjum.
Öllum þessum tilboðum var þó haldið til haga og um þau gerð sérstök spjaldskrá. Þegar leið að lokum janúar, tóku að berast fyrirspurnir frá Vestmannaeyjum um atvinnu og fjölgaði þeim smám saman, er á leið. Var þá í það ráðizt, að setja á stofn sérstaka vinnumiðlun og tók hún formlega til starfa í Tollstöðinni um leið og húsnæðismiðlunin flutti þangað. Höfðu þessar deildir síðan náið samstarf og samvinnu, eins og raunar óhjákvæmilegt er. Vinnumiðlunin starfaði síðan í Tollstöðinni fram eftir sumri, en flutti þá í húsnæði Alþýðusambands Íslands, en þar hafa verkalýðsfélögin í Vestmannaeyjum haft aðstöðu fyrir margvíslega félagslega starfsemi frá því í marz.
Samkvæmt skrám vinnumiðlunarinnar hafði hún, þann tíma sem hún starfaði í Tollstöðinni, milligöngu um að útvega um 200 manns atvinnu. Við vinnumiðlunina starfaði framan af tvennt af forvígisfólki verkalýðshreyfingarinnar í Vestmannaeyjum, en frá 1. marz hefur Vilborg Sigurðardóttir gegnt ein þessu starfi.


11. kafli. Niðurlag
Þótt skýrsla þessi sé orðin nokkur að vöxtum, geri ég mér þess fulla grein, að þar er framhjá mörgu hlaupið, sem frásagnar væri vert. Þannig hefur t.d. ekkert verið vikið að þeim þætti starfsins, sem laut að margvíslegri aðstoð og fyrirgreiðslu við björgunarsveitirnar, sem störfuðu í Eyjum, en starfsfólkið í Hafnarbúðum hafði einmitt margsinnis milligöngu um útvegun manna til starfa þar og um öflun efnis og tækja, auk margvíslegrar fyrirgreiðslu annarrar af ýmsu tagi.
Í skýrslunni hef ég tilgreint í hinum ýmsu köflum nokkra aðila, sem þar komu sérstaklega við sögu, og lögðu öðrum fremur mikið af mörkum til hjálparstarfsins. Þá hef ég og sumsstaðar nafngreint einstaklinga og félagasamtök fremur til skýringar og sem dæmi, en að þar hafi ekki aðrir komið jafn mikið við sögu. Er þessi háttur hafður á af þeim sökum, að áreiðanlega yrðu seint eða aldrei upptaldir allir þeir, sem lögðu okkur lið í stóru og smáu. Til þess er fjöldi þeirra alltof mikill. Einnig er þess að gæta, að skýrsla þessi er skráð nokkuð löngu eftir að atburðirnir áttu sér stað og kann því eitthvað að hafa skolazt til í minni mínu.
Við þessa skýrslu get ég þó ekki skilið án þess að láta sérstaklega getið og þakka framlag formanns Rauða Krossins, Björns Tryggvasonar bankastjóra. Þótt hann gegni ábyrgðarstöðu og hafi vafalaust í mörg horn að líta, þá var hann þó potturinn og pannan í skipulagningu margra þátta hjálparstarfsins hér í Hafnarbúðum og stjórnaði hinum fjölmennu sveitum sjálfboðaliða Rauða Krossins af röggsemi og öryggi. Ætíð, þegar vandamálin hrönnuðust upp, var Björn nálægur, fumlaus og úrræðagóður og eldfljótur til aðgerða.
Ég hef víða í skýrslu minni vikið að þætti þeirra sjálfboðaliða, sem störfuðu með okkur undir merki Rauða Krossins, og ætti því þegar að vera ljóst orðið, hversu ómetanleg aðstoð þeirra var. Ég vil þó enn ítreka þakklæti mitt til þessa ágæta fólks. Upp til hópa var þetta mesta dugnaðarfólk og góðir félagar og myndaðist strax með því og okkar fólki góður félagsandi og bezta samstarf í hvívetna.
Loks vil ég færa þakkir þeim fjölmörgu Vestmannaeyingum, sem komið hafa við sögu hjálparstarfsins í Hafnarbúðum. Bæði voru það ýmsir af starfsliði bæjarsjóðs en auk þess fjöldi annarra, sem buðu fram liðsinni sitt, og störfuðu með okkur sólarhringum saman af miklum dugnaði og kappi. Það er ánægjulegt að hafa kynnzt mörgu af þessu fólki og starfað með því og þrátt fyrir allt veit ég með vissu, að minningin um vökunæturnar í Hafnarbúðum, hina sérstæðu eindrægni og félagsanda, sem þar ríkti, á eftir að verða með dýrmætustu endurminningum mínum.
Að síðustu langar mig að segja frá einum litlum atburði, sem ekki markaði tímamót á nokkurn hátt, en gefur þó kannski hugmynd um velvild þá og hjálparvilja, sem við áttum allsstaðar að mæta meðal landsmanna.
Það mun hafa verið í fyrstu eða annarri viku febrúar, að einhver kallaði til mín þau skilaboð, að hringt hefði verið frá Eyjum og beðið um nokkur þúsund pappakassa auk annars efnis til innpökkunar. Þetta gerðist um kvöld. Að vanda var haft samband við starfsmenn Kassagerðar Reykjavíkur, sem brugðu eins og alltaf áður skjótt við, og sendu menn á afgreiðslu sína. Útvegaðir voru í snatri sendiferðabílar, sem tóku umbúðirnar og fluttu til Þorlákshafnar, þar sem þær komust strax um borð í fiskibát og áleiðis til Eyja. Þetta atvik hefði á engan hátt verið frásagnarvert, ef það hefði ekki skeð, að einn af starfsliðinu heyrði fyrir hendingu skilaboðin og ákvað að leysa málið að eigin frumkvæði. Hann hringdi inn í útvarp, án samráðs við nokkurn mann, og bað fyrir tilkynningu þess efnis, að mikill skortur væri á pappakössum til Eyja og væru allir þeir, sem slíka kassa ættu, beðnir um að koma þeim niður í Hafnarbúðir. Í þetta skipti breytti útvarpið út af þeirri megin reglu sinni, að taka ekki við slíkum tilkynningum frá öðrum en stjórnendum starfsins í Hafnarbúðum, og var þessari tilkynningu skotið inn í dagskrána um kvöldið.
Fyrir okkur, sem ekkert vissum um þetta einkaframtak, varð þetta kvöld martröð líkast, þegar að dreif ógrynni gangandi fólks og bifreiða, allir rogandi með pappakassa af öllum hugsanlegum stærðum og gerðum. Karlar, konur og börn dengdu yfir okkur skæðadrífu af kössum og flutningabílar frá ýmsum fyrirtækjum komu fullhlaðnir af kössum. Anddyrið, gangar og afgreiðslusalurinn á 1. hæð fylltust upp í loft og öll starfsemin drukknaði um stund í þessu pappakassaflóði.
Slíkur var hugur fólks til okkar og viljinn til þess að gera það, sem í þess valdi stæði, til þess að aðstoða við björgunina.

Hafnarbúðum, júní-sept. 1973.

Til baka