Blik 1974/Skýrsla um starfsemi Vestmannaeyjabæjar í Hafnarbúðum

From Heimaslóð
Revision as of 16:32, 8 October 2010 by Viglundur (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to: navigation, search

Efnisyfirlit 1974


GEORG TRYGGVASON lögfræðingur:


Skýrsla um starfsemi Vestmannaeyjabæjar
í Hafnarbúðum í Reykjavík vegna eldgossins í Heimaey 1973


(Hér hefur Bliki borizt sýrsla Georgs Tryggvasonar, lögfræðings Vestmannaeyjakaupstaðar, um starfsemina í Hafnarbúðum í Reykjavík eftir flótta Eyjafólks frá heimkynnum sínum, þegar eldgosið brauzt út aðfaranótt 23. jan. 1973. Að skýrslu þessari er mikill fengur. Hún sannar okkur eitt og annað aðdáunarvert. Efst eða ríkast verður okkur í huga fórnarvilji fólksins, manndómur þess til hjálpar löndum sínum í neyð. Við dáum þessa eiginleika landa okkar og þökkum þeim innilega. Allt það starf var sómi þjóðarinnar og hefur vakið athygli með erlendum þjóðum. Þ.Þ.V.).


Tímabilið 24. janúar til 1. júlí 1973


1. kafli. Undirbúningurinn
Það var ljóst þann 24. janúar, morguninn eftir að eldgosið hófst, að Vestmannaeyjakaupstaður yrði að flytja til bráðabirgða eitthvað af starfsemi sinni til Reykjavíkur. Auk þess var svo fyrirsjáanlegt, að strax yrði að snúast gegn margs konar vandamálum, sem þessar einstæðu aðstæður sköpuðu, og ekkert sveitarfélag hafði nokkru sinni þurft að glíma við.
Strax þennan dag bauð borgarráð Reykjavíkur Vestmannaeyjabæ endurgjaldslaust afnot af Hafnarbúðum, svo lengi sem þörf væri á. Var þar með lagður grundvöllur að þeirri starfsemi, sem næstu daga og vikur átti eftir að vaxa og eflast með ótrúlega skjótum hætti. Á Reykjavíkurborg miklar þakkir skyldar fyrir þessa ómetanlegu aðstoð.
Þessi fyrsti dagur fór í það, að kanna aðstæður í Hafnarbúðum, panta þangað þrjá nýja síma og hreingerningarfólk og afla nauðsynlegra skrifstofuhúsgagna. Flest nauðsynleg skrifstofutæki, svo sem rit- og reiknivélar, fjölritara o.fl. tók framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga, Magnús Guðjónsson, að sér að útvega. Veitti hann og hans fólk okkur margvíslega aðstoð fyrstu dagana.
Hina umbeðnu síma lét bæjarsíminn okkur í té samdægurs. Voru þeir síðan auglýstir um kvöldið. Er skemmst frá því að segja, að álag á þessa síma varð strax næsta dag svo mikið, að ógerningur var að hringja úr þeim. Voru þegar í stað pantaðir fleiri símar og áður en vikan var liðin voru allar þær ellefu símalínur, sem liggja inn í húsið, komnar í notkun. Fljótlega varð að leggja í húsið sérstaka loftlínu með tíu línum í viðbót og í marz var sett upp fullkomið skiptiborð með 16 innanhúss símum. Þessi saga símamálanna gefur nokkra hugmynd um það, hvernig starfsemin þandist út á örskömmum tíma. Skilningur og hjálpsemi starfsmanna bæjarsímans í Reykjavík er sannarlega þakkarvert, enda lögðu þessir menn stundum nótt við dag þegar mest lá á.
Hin eiginlegi starfsemi í Hafnarbúðum hófst svo að morgni fimmtudagsins 25. janúar. Nokkrir úr starfsliði bæjarsjóðs mættu þá þegar til starfa. Engin fastmótuð áætlun lá fyrir um það, hvernig starfsemin skyldi skipulögð og til hvaða þátta hún ætti að taka. Raunin varð líka sú, að aldrei gafst tóm til slíkra áætlanagerða. Aðstæðurnar sköpuðu þarfirnar, oftast hraðar en hægt var að sjá þær fyrir. Þær réðu ferðinni og voru hinn raunverulegi stjórnandi starfsins.
Þannig varð það þennan fyrsta morgun. Símarnir hringdu linnulaust og fyrr en varði dreif að fjöldi fólks. Einkum vantaði fólk upplýsingar um það, hvar vinir og ættingjar væru niður komnir og margir inntu eftir upplýsingum um það, hvort og þá hvenær þeim væri mögulegt að komast út til Eyja aftur til þess að sækja föt og aðrar sínar brýnustu lífsnauðsynjar. Varðandi fyrra atriðið var haft samband við starfsfólk Rauða Krossins. Kom þá í ljós, að þar höfðu menn ekki setið auðum höndum, þótt móttaka fólksins væri um garð gengin og búið að koma því öllu fyrir til bráðabirgða. Strax þennan morgun var tilbúin tölvuunnin skrá um dvalarstaði og símanúmer 4442 Vestmannaeyinga. Var þetta hvorki í fyrsta né síðasta skipti sem skjót og skipulögð störf þess fólks, sem vann undir merki Rauða Krossins, komu okkur gjörsamlega á óvart. Ákveðið var, að öll sú starfsemi, sem hafin var eða í undirbúningi hjá Rauða Krossinum í þágu Vestmannaeyinga, yrði flutt í Hafnarbúðir. - Strax komu til starfa með okkar fólki hópur sjálfboðaliða frá Rauða Krossinum. Mikið fjölgaði í þessum hópi næstu daga og vann þetta fólk síðan við nánast alla þætti starfseminnar í Hafnarbúðum við hlið okkar, sumt hvert vikum saman, og lagði ótrúlega mikið að mörkum til hjálparstarfsins.
Hvað viðkom möguleikum manna til þess að komast aftur út til Vestmannaeyja, þá upplýstist, að m.s. Hekla átti að fara þangað frá Þorlákshöfn þá um kvöldið og e.t.v. einnig m.s. Herjólfur nokkru síðar. Skýrðum við fólkinu frá þessu. Flaug nú fiskisagan og þegar Heklan skyldi láta úr höfn, voru að sögn lögreglunnar í Þorlákshöfn ekki færri en 360 Vestmannaeyingar komnir á bryggjuna og leituðu ákaft eftir því að komast með skipinu. Skapaðist þarna sannkallað vandræðaástand, sem um síðir leystist þó þannig, að um 240 manns fóru með Heklunni en um 120 manns með Herjólfi töluvert síðar um kvöldið.
Augljóst var, að svona gat þetta ekki gengið, enda mátti búast við enn aukinni ásókn fólks í að komast til Eyja næstu daga. Var málið rætt við Almannavarnaráð, sem ákvað að setja sérstakar reglur um ferðir fólks til Eyja. Reglur þessar skyldu bornar undir bæjarstjórn Vestmannaeyja. Til bráðabirgða ákvað ráðið þá tilhögun, að gefin væru út af starfsfólkinu í Hafnarbúðum sérstök ferðaleyfi til þeirra, sem vildu komast til Eyja, og var ákveðið, að hámarksfjöldi með Herjólfi skyldi vera 90-100 manns en um 120 með Heklunni. Fólkið skyldi fá að dvelja í Eyjum þá 3-5 klukkutíma, sem venjulega tók að ferma skipin, og koma síðan aftur til baka með þeim. Fjöldi ferðaleyfa með varðskipunum, sem alltaf annað slagið voru í ferðum milli Þorlákshafnar og Vestmananeyja, var ákveðinn 80-100. Loks voru skip Eimskipafélagsins í förum milli Eyja og Reykjavíkur annað slagið og var ákveðið, að ákvörðun um fjölda ferðaleyfa með þeim skipum skyldi tekin hverju sinni í samráði við skipstjóra hvers skips. Þegar Ríkisskipin og varðskipin þurftu að koma til Reykjavíkur, sem stundum kom fyrir er veður hamlaði ferðum til Þorlákshafnar, var fjöldi ferðaleyfa skorinn verulega niður, og þá miðað við venjulegan farþegafjölda þessara skipa.
Útgáfa þessara ferðaleyfa átti eftir að verða eitt verst þokkaða og vandasamasta verkefni fólksins í Hafnarbúðum, og verður nánar skýrt frá því síðar.
Þessi ákvörðun um ferðaleyfi og umræður um þau mál urðu okkar fyrstu samskipti við Almannavarnaráð Ríkisins. Þau samskipti áttu síðar eftir að verða mikil og náin. Höfðum við um tíma fastan fulltrúa á fundum ráðsins, sem haldnir voru daglega. Hafði forseti bæjarstjórnar það hlutverk með höndum, ásamt ýmsu öðru, en þar að auki sóttu svo þessa fundi oft fleira af starfsfólki Hafnarbúða, er sérstök tilefni gáfust. Voru samskipti okkar við þessa menn hin beztu og þeirra framlag til björgunarstarfsins ómetanlegt. Sátu þeir fyrstu dagana nærfellt stöðugt á fundum allan daginn og stundum raunar fram á nótt. Til ágreinings kom þó nokkrum sinnum í samskiptum okkar við ráðið, en hann tókst ætíð að jafna.
Verða nú skýrðir nokkuð hinir einstöku þættir starfseminnar.


2. kafli. Upplýsingastarfsemi
Eins og áður er að vikið voru fyrstu símarnir, sem lagðir voru í Hafnarbúðir, auglýstir sem upplýsingasímar. Geysilegt álag var strax á þessa síma og hélzt það svo fyrstu vikurnar. Erindi þau, sem þessi þáttur starfseminnar sinnti, voru nánast um allt milli himins og jarðar og er þess enginn kostur að gera þeim tæmandi skil. Fljótlega tókst að skipuleggja fastar vaktir á þessa síma og störfuðu þær framan af frá kl. 8.00 á morgnana og oftast fram yfir miðnætti. Mikill fjöldi sjálfboðaliða, nær eingöngu Vestmannaeyingar, komu þar við sögu. Meiri hluti þeirra var konur. Man ég sérstaklega að nefna stúlkurnar af símstöðinni í Vestmannaeyjum, en margar fleiri lögðu hönd á plóginn. Raunar var það svo fyrstu vikurnar, að meirihluti þeirra sjálfboðaliða úr röðum Vestmannaeyinga, sem störfuðu í hinum ýmsu deildum í Hafnarbúðum, voru konur, enda höfðu karlmennirnir í önnur horn að líta.
Eftir því sem fastara form komst á starfsemina og stofnaðar voru fleiri deildir til úrlausnar á afmörkuðum viðfangsefnum, þá létti að sama skapi á upplýsingadeildinni, og þýðing hennar fór minnkandi sem sjálfstæðs aðila í starfseminni. Nú er starfi því, sem undir hana féll, sinnt af þeim stúlkum, sem vinna á skiptiborðinu, og starfsfólki annarra deilda jöfnum höndum.


3. kafli. Aðsetursskráning og upplýsingar um búsetu
Að morgni miðvikudagsins 24. janúar, þegar Vestmannaeyingar tóku að koma til Reykjavíkur með flugvélum og langferðabílum, höfðu starfsmenn Rauða Krossins tilbúin fjölrituð skrásetningarspjöld fyrir fólkið. Á þessi spjöld voru m.a. skráðar upplýsingar um væntanlega dvalarstaði þess hér á meginlandinu og símanúmer. Skipulagning þessa verks hefur tekizt með miklum ágætum, því að þannig tókst að afla upplýsinga um dvalarstaði rúmlega 4200 Vestmannaeyinga og hlýtur sú skráning að hafa verið því sem næst tæmandi enda vitað, að nokkur hópur fólks yfirgaf Eyjarnar ekki strax, áhafnir bátanna komu ekki strax til Reykjavíkur og einhverjir urðu eftir fyrir austan fjall.
Á miðvikudaginn og aðfararnótt fimmtudagsins voru unnar skrár eftir þessum spjöldum, þær gataðar til úrvinnslu í tölvum og voru þessar tölvuskrár tilbúnar strax á fimmtudagsmorgun, eins og áður segir. Það er vafalítið einsdæmi, að jafn mikil vinna og hér liggur að baki, hafi verið unnin á svo ótrúlega skömmum tíma.
Þessar skrár voru fluttar í Hafnarbúðir á fimmtudaginn og fylgdi þeim einn af sjálfboðaliðum Rauða Krossins, Haraldur Arngrímsson, sem var yfirmaður skrásetningardeildarinnar fram yfir miðjan febrúar, er Hagstofan sendi okkur tvær stúlkur úr sínu starfsliði. Í þessari deild störfuðu einnig lengst af 2-3 af þeim stúlkum, sem starfað höfðu á bæjarskrifstofunum í Eyjum. Deildin fékk sérstaka síma, sem auglýstir voru rækilega, og tók þar á móti öllum tilkynningum um aðsetursskipti og dvalarstaði fólks og símanúmer. Álag á hana var mikið og langvarandi, enda voru búsetuskipti fólksins afar tíð framan af.
Skrá sú, sem Rauði Krossinn fékk unna strax fyrsta daginn, varð mjög fljótt úrelt, enda fór ekki hjá því, að ýmsar upplýsingar, sem í hana fóru, væru ónákvæmar. Var því strax tekið að undirbúa nýja skrá, í samráði við Hagstofuna, og var hún tilbúin 2. febrúar. Sú skrá var nokkru fyllri en sú fyrri, og var meðal annars getið þar nafns húsráðanda. Með þessa skrá fór þó sem þá fyrri, að hún varð ótrúlega fljótt úrelt. Var því enn prentuð ný skrá þann 16. febrúar og loks sú fjórða í byrjun marz. Enn hefur svo verið gerð ný skrá eftir það.
Þótt undarlegt kunni að virðast, þá gætti hjá nokkrum hópi Vestmannaeyinga vissrar tregðu til þess að láta skrásetningardeildinni í té nauðsynlegar upplýsingar. Voru tilmæli þessa efnis þó ítarlega auglýst. Virtist skilningi fólks á þýðingu þessarar starfsemi nokkuð ábótavant, einkum framan af. Þegar í það var ráðizt í byrjun febrúar, að gefa út sérstök skírteini til staðfestingar á því, hverjir væru Vestmannaeyingar, en frá því verður skýrt nánar síðar, má þó segja, að góð regla hafi komizt á búsetuskráninguna. Það var enda gert að skilyrði fyrir því, að menn fengju þessi skírteini, að þeir gæfu skráningardeildinni allar nauðsynlegar upplýsingar.
Þeir aðilar, sem komið hafa við sögu þessa þáttar starfseminnar og eiga þar þakkir skyldar, eru auk starfsfólks Rauða Krossins og Vestmannaeyinga sjálfra, IBM á Íslandi, sem sá um tölvuvinnu á fyrstu skránni, Hagstofan og Skýrsluvélar ríkisins og Reykjavíkurborgar, sem önnuðust prentun síðari skránna. Fleiri komu þó hér við sögu, en þá yrði of langt mál að telja upp alla.


4. kafli. Flutningadeild
Strax á fimmtudaginn 25. janúar fór að berast töluvert af óskilamunum niður í Hafnarbúðir. Var það fatnaður og ýmislegt dót, sem orðið hafði eftir um borð í bátunum, í Þorlákshöfn og í skólunum, þar sem tekið var á móti fólkinu á miðvikudagsmorguninn. Settir voru til þess tveir menn, Einar Jónsson bókari og Þóroddur Stefánsson, að safna þessum munum saman, merkja þá og skrásetja og annast um varðveizlu þeirra og afhendingu. Þessi deild fékk til umráða eitt lítið herbergi og einn síma.
Það gerði sér áreiðanlega enginn ljóst á þessum tíma, með hversu ótrúlega skjótum hætti þessi deild átti eftir að vaxa og verkefni þau, sem hún fékkst við, urðu risavaxin áður en yfir lauk.
Fljótlega varð að flytja aðsetur deildarinnar niður í kjallara Hafnarbúða, þar sem var allgott húsrými og töluvert geymslupláss, enda streymdu sífellt að óskilamunir úr öllum áttum. Nýr kapítuli hófst í starfsemi þessarar deildar, þegar bátarnir tóku að flytja til lands búslóðir í stórum stíl. Á þessum tíma beindust kraftar björgunarsveitanna í Eyjum að því að flytja búslóðir úr þeim húsum, sem talin voru í yfirvofandi hættu, og koma þeim fyrir til geymslu á þeim stöðum, sem telja mátti nokkuð örugga. Hins vegar var ekki hafinn skipulegur flutningur búslóðanna til lands. Bátarnir voru í stöðugum flutningum milli lands og Eyja þessa fyrstu sólarhringa eftir upphaf gossins, og sumir raunar vikum saman, og fluttu þeir með sér mikið af búslóðum, sem taka varð á móti og koma á öruggan stað.
Þetta verkefni kom í hlut óskilamunadeildarinnar, sem nú fékk um nóg að hugsa. Bátarnir skipuðu flutningi sínum upp á öllum tímum sólarhrings og í ýmsum höfnum. Mest þó í Keflavík, Þorlákshöfn og Reykjavík. Varð því að skipuleggja vaktir í deildinni, útvega bifreiðar til þess að aka búslóðunum og húsnæði til þess að geyma þær í. Loks þurfti svo töluverðan hóp sjálfboðaliða til þess að vinna að þessu verki.
Tók nú fyrst verulega að mæða á þessum strákum, sem settir höfðu verið til þess að gæta óskilamunanna, og varð það hreinlega ótrúlegt, hve miklu þeir fengu til leiðar komið.
Auglýst var eftir bifreiðum til aðstoðar og gaf sig strax fram til starfa fjöldi bifreiðastjóra úr Reykjavík, Kópavogi og nærliggjandi byggðarlögum. Voru það bæði atvinnubifreiðastjórar af sendibíla- og vörubílastöðvum, en einnig gaf sig fram fjöldi einstaklinga og mörg fyrirtæki buðu fram bílakost sinn. Einnig var auglýst eftir sjálfboðaliðum til starfa og urðu undirtektir þar mjög á sama veg. Fjöldi þeirra bauð sig fram, bæði einstaklingar, ýmis félagasamtök og fjölmennir hópar úr ýmsum skólum. Af skólafólki komu fyrstir til starfa hópar úr Verzlunarskólanum og Kvennaskólanum, en síðar átti eftir að bætast við fjöldi nemenda úr Sjómannaskólanum, Kennaraskólanum og Menntaskólunum og raunar fleiri skólum. Urðu sumir þessir skólar síðar óstarfhæfir um tíma og tveimur þeirra var hreinlega lokað í nokkra daga, er megnið af nemendunum var komið í sjálfboðavinnu fyrir okkur.
Loks þurfti svo að útvega húsnæði fyrir búslóðirnar. Fyrsta húsnæðið sem fékkst var í vélsm. Héðni og í byggingu Strætisvagna Reykjavíkur á Kirkjusandi. Svo mikið barst þó að, að þetta rými fylltist á 2-3 dögum. Þá fengust afnot af kjallaranum undir Fellaskóla í Breiðholti III. Var það mikið rými og gott, en nokkuð erfitt, því bera þurfti þar búslóðirnar niður stiga. Þurfti því alltaf mikinn fjölda sjálfboðaliða þar. Allt það, sem komið var til geymslu á þessa staði, var rækilega merkt og skráð niður.
Auk þessa húsnæðis, sem hér var getið, var boðið fram mikið af alls konar minna húsnæði t.d. geymslur og bílskúrar. Var fólki gefinn kostur á að fá þessa staði fyrir einstakar búslóðir og tókst með því að létta töluvert á móttökustöðunum, enda ekki vanþörf á.
Mikill bifreiðaflutningur átti sér einnig stað fyrstu dagana. Ekki var þó mikil vinna samfara þeim flutningum. Tekið var á móti í Hafnarbúðum lyklum af þeim bifreiðum, sem voru læstar í Eyjum, og þeim komið til réttra aðila. Flestar bifreiðarnar sóttu eigendurnir strax á bryggjurnar, er skipin komu, enda ætíð rækilega auglýst í útvarpi, hvaða bifreiðar voru með hverri ferð. Stöku sinnum kom þó fyrir, að bifreiðar væru ekki sóttar, og varð þá að koma þeim fyrir til geymslu um stundar sakir. Gekk það ætíð greiðlega.
Í Þorlákshöfn kom mikið af búslóðum, sem bátarnir fluttu til lands, en einnig mikið af hvers konar flutningi, sem varð viðskila frá því fólki, sem fékk að skreppa til Eyja og hafði með sér þaðan meiri flutning en svo, að hann kæmist fyrir í langferðabifreiðum til Reykjavíkur. Þessum flutningi var ýmist komið strax með flutningabílum til Reykjavíkur, einkum framan af, meðan nægur bílakostur var fyrir hendi, eða komið til bráðabirgða í vöruskemmur í Þorlákshöfn og flutningabílar sendir eftir því síðar, er þeir gáfu sig fram.
Þessum flutningum um Þorlákshöfn fylgdi mikil vinna og ónæði á öllum tímum sólarhringsins. Mæddi því mikið á Katli Kristjánssyni, sem þar fór með stjórnina og öllu því fólki, sem með honum starfaði. Íbúar Þorlákshafnar og fjöldi fólks úr nærliggjandi sveitum og bæjum lögðu að mörkum óhemju mikla vinnu þær vikur, sem flutningarnir stóðu yfir með mestum þunga. Heimili Ketils sjálfs og konu hans var vikum saman eins og nokkurs konar þjónustu- og upplýsingamiðstöð fyrir Vestmannaeyinga allar stundir sólarhringsins. Eiga þau hjón sérstakar þakkir skyldar fyrir sitt ómetanlega framlag.
Það sem olli hvað mestum erfiðleikum í flutningunum á þessum tíma var það, hversu örðugt það reyndist oft að vita um ferðir bátanna, sem komu til lands á öllum tímum sólarhrings. Kom þar einkum til erfitt símasamband við Vestmannaeyjar, en einnig það mikla álag, sem var á símakerfinu í Hafnarbúðum. Til þess að leysa þennan vanda voru fengnir til starfa fyrir tilstuðlan Rauða Krossins, félagar úr Farstöðvaklúbbi Reykjavíkur. - Höfðu þeir eftirlit með öllum bryggjum og létu vita, er bátarnir komu að, og voru þá bílar og vinnuflokkar sendir á staðinn til aðstoðar við uppskipun og flutning búslóðanna í öruggar geymslur. Síðar setti klúbburinn upp fullkomið fjarskiptasamband við Þorlákshöfn og allar götur til Vestmannaeyja um Eyrarbakka. Var þetta vandamál þá úr sögunni.
Mikið fjölgaði þessa fyrstu daga í starfsliði flutningadeildarinnar í Hafnarbúðum. Fleiri Vestmannaeyingar komu þar til starfa en einnig hópur sjálfboðaliða m.a. úr Junior Chamber félögunum í Reykjavík og Kópavogi. Í byrjun febrúar var aðstaða flutningadeildarinnar í kjallara Hafnarbúða orðin allt of þröng og var hún þá flutt í salinn á 1. hæð hússins. Þar starfaði hún fram til 9. febrúar ásamt húsnæðis- og atvinnumiðlun, en hafði síðan allan salinn að mestu til afnota, er þessar deildir fluttu starfsemi sína í Tollstöðina nýju.
Enda þótt allt væri þannig gert, sem hægt var, til þess að koma á skipulagi við þessa flutninga og skapa sem bezta aðstöðu til móttöku og varðveizlu búslóðanna, þá voru þó miklir annmarkar á þeim. Búslóðirnar voru fluttar lausar með fiskibátunum og strandferðaskipunum og oft illa um þær búið. Fór því ekki hjá því, að töluverðar skemmdir hlytust oft á þeim við flutninga. Voru þess jafnvel dæmi fyrstu dagana, meðan asinn var mestur, að heilar búslóðir væru fluttar umbúðalausar og án yfirbreiðslu á þilfari fiskibáta alla leið til Reykjavíkur. Þarf ekki neinna lýsinga við um það, hvernig vönduð stofuhúsgögn og viðkvæm heimilistæki fóru í slíkum flutningum.
Einnig kom það til, að húsmunir voru fluttir á bílpöllum, oft óvarðir, frá húsunum og niður að höfn í Eyjum. Fór ekki hjá því, að oft skemmdust þeir einnig við þá flutninga, einkum þegar gerði öskufall á bæinn.
Skylt er þó að geta þess, að þessi mikli búslóðaflutningur fiskibátanna gekk í mörgum tilvikum ótrúlega vel og áfallalítið miðað við allar aðstæður. Á þetta sérstaklega við um stærri bátana, þar sem aðstaða öll var til muna betri en hjá þeim minni, og hægt að koma flutningnum fyrir í lest. Engin leið er að gera sér nákvæma grein fyrir því, hversu mikið magn bátarnir fluttu frá Eyjum til lands þessa fyrstu daga eftir upphaf gossins. Hitt er ljóst, að það var geysimikið, enda unnu margar skipshafnir að þessum flutningum linnulaust sólarhringum saman og sýndu, eins og vænta mátti, mikinn dugnað og áræði. Er þeirra hlutur í þessum þætti björgunarstarfsins ekki lítill, þótt hitt sé þó enn meira um vert, hversu farsællega þeim fór úr hendi flutningur meirihluta íbúanna til lands nóttina sem gosið byrjaði.
Eins og áður er að vikið, þá beindust kraftar björgunarsveitanna í Eyjum að því að flytja húsmuni úr þeim húsum, sem talin voru í yfirvofandi hættu, og komu þeim til geymslu á öruggum stöðum. Flutningsgeta farmskipanna var enda nýtt til þess fyrstu dagana, að flytja allar bifreiðarnar í land. Þegar þeim flutningum lauk í byrjun febrúar var ákveðið, að taka þessi skip til búslóðaflutninganna, enda benti þá flest til, að viðdvöl Vestmannaeyinga á fastalandinu yrði lengri en menn leyfðu sér að vona í fyrstu. Gott skipulag var þá komið á starf hjálparsveitanna í Eyjum og því grundvöllur fyrir því, að hefja þessa flutninga í stórum stíl. Loks rak hér á eftir það tjón, sem yfir vofði og iðulega varð á búslóðum fólks, er þær voru fluttar með bátunum eða lausar í lestum strandferðaskipanna. Hófst nú nýr kapítuli í sögu flutningadeildarinnar.
Fyrst varð þá fyrir að útvega gáma til flutninganna. Lánuðu Eimskipafélag Íslands og Skipaútgerð ríkisins strax alla þá gáma, sem þeir mögulega gátu látið frá sér fara. Ekki nægði það þó, og hófst þá mikil leit að gámum. Var leitað til allra þeirra aðila, sem til greina kom að gætu lánað gáma, og látunum ekki linnt fyrr en á fjórða hundrað gámar voru komnir í notkun við flutningana og fleiri var ekki að fá. Voru þá m.a. komnir í notkun allir þeir gámar, sem herinn á Keflavíkurflugvelli átti og gat verið án.
Í flutningunum voru tvö skip Skipaútgerðar ríkisins, m.s. Hekla og m.s. Herjólfur, en einnig fóru skip Eimskipafélagsins nokkrar ferðir fyrst í stað. Þessi skip þóttu þó óþarflega stór og svifasein, einkum eftir að hraun tók að renna í átt að hafnarmynninu og ógnaði innsiglingunni. Var þá ákveðið, að skip Eimskipafélagsins hættu í flutningunum en í staðinn kæmi þriðja skip Skipaútgerðarinnar, m.s. Esja. Fór búslóðaflutningurinn einkum fram með þessum þremur skipum. Jafnframt var svo ákveðið að beina þessum skipum sem mest til Þorlákshafnar, til þess að nýting þeirra yrði sem bezt, en meðan á bílaflutningunum stóð, höfðu þau siglt mest til Reykjavíkur.
Þessi ákvörðun krafðist hins vegar mjög aukins viðbúnaðar við móttöku flutningsins. Koma varð upp eins konar flutningabrú til Þorlákshafnar, til þess að aka gámunum til Reykjavíkur og tómum aftur til baka og sömuleiðis þurfti að skapa aðstöðu í Reykjavík til þess að taka við þessum geysimikla flutningi. Umfram allt varð að losa gámana strax, svo að þeir kæmust samstundis til baka, en mikill skortur var ætíð á gámum í Vestmannaeyjum. Loks þurfti svo töluverðan tækjakost til Þorlákshafnar, til þess að upp- og útskipun gæti gengið sem greiðast. Þessu kerfi tókst að koma upp furðu fljótt, og skal því nú lýst.
Í Þorlákshöfn voru staðsettir tveir lyftarar til þess að forfæra gámana þar á staðnum. Voru þeir báðir fengnir að láni frá hernum og sömuleiðis þeir menn, sem á þeim voru. Þangað var einnig fenginn krani, til þess að hægt væri að skipa upp og út í tveimur gengjum. Töluverðan vinnukraft þurfti við þessa umskipun í Þorlákshöfn og voru það lengst af heimamenn og fólk úr nágrannabyggðum, sem þau störf unnu undir stjórn Ketils Kristjánssonar. Munu það oftast hafa verið á milli 20 og 30 manns. Þarna var, eins og raunar annars staðar við flutningana, unnið oft á tíðum nær samfellt allan sólarhringinn.
Í flutningunum milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur voru oftast um 45 flutningabílar. Miklu munaði þar um liðstyrk, sem fékkst frá hernum, en á þeirra vegum keyrðu á þessari leið um 20 stórir flutningabílar, sem sumir hverjir voru með stóra aftanívagna. Tvöföld áhöfn fylgdi hverjum bíl og óku þeir á vöktum allan sólarhringinn. Til viðbótar voru svo fengnir vörubílar úr Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði. Voru það ýmist bílar, sem fyrirtæki lánuðu endurgjaldslaust, eða þá bílar, sem fengnir voru á bifreiðastöðvunum, og flestir óku framan af í sjálfboðavinnu, en síðar gegn greiðslu.
Eimskipafélag Íslands lét í té afnot af mjög stórri vörugeymslu inni við Sundahöfn, svonefndum Sundaskála, og varð það okkar aðalmóttökustöð. Þar voru við störf tveir lyftarar og fjöldi sjálfboðaliða. Gekk vinnan þar þannig, að flutningabílarnir frá Þorlákshöfn óku að suðurhlið skemmunnar. Þar tók annar lyftarinn gámana af þeim og flutti inn í skemmu, þar sem vinnuflokkar tæmdu úr þeim á svipstundu. Flutningabíllinn ók fyrir enda skemmunnar og að norðurhlið hennar, þar sem síðari lyftarinn setti tómu gámana á þá aftur.
Skipunum fylgdi skrá um eigendur flutnings og gámanúmer. Var strax hringt í eigendurna og þeir beðnir um að sækja sínar búslóðir og brugðust margir vel við því. Ef búslóðirnar höfðu ekki verið sóttar innan 2-3 daga varð að koma þeim fyrir annars staðar, svo að skemman fylltist ekki. Oft lá það þó við borð, og var þá gripið til þess að fá lánað stórt flugskýli á Reykjavíkurflugvelli, Flugskýli III, og var móttaka þar oft í fullum gangi samtímis og í Sundaskála. Nærri mun láta, að á þessum stöðum hafi unnið á vöktum um 120 manns, þegar mest var. Jafnhliða þessu var móttaka í fullum gangi í Fellaskóla, en þangað var töluvert flutt af þeim búslóðum, sem eigendurnir gátu ekki sjálfir sótt í Sundaskála, og einnig það, sem kom með bátunum. Þeir hættu þó flestir fljótlega flutningum, þegar þetta kerfi var komið í fullan gang. Allt í allt munu því hafa starfað við flutningadeildina eina á þriðja hundrað manns, þegar mest var. Komu þar við sögu ýmis félagasamtök og skipulagðar hjálparsveitir víða af suðurlandi. Þegar farið var að senda þessar sveitir til starfa í Vestmannaeyjum í stórum stíl, voru það fyrst og fremst nemendur úr ýmsum skólum í Reykjavík, sem störfin unnu.
Er áður frá því sagt, að sumir skólarnir urðu óstarfhæfir og þurftu hreinlega að loka um tíma, meðan á þessu stóð.
Fyrstu ferðina til Eyja með tóma gáma fór m.s. Dettifoss, og hafði hann meðferðis 130 gáma. Stærri skip skipaútgerðarinnar, m.s. Esja og Hekla, fluttu yfirleitt um 50 gáma í ferð en m.s. Herjólfur um 15. Þessi tala var þó nokkuð breytileg eftir stærð gámanna. Alls munu skip Eimskipafélagsins hafa farið 5 eða 6 ferðir til Eyja, fram til 1. marz. Tvö og síðar þrjú skip Skipaútgerðar ríkisins voru í stöðugum ferðum, eins og áður segir, og loks fóru svo Sambandsskipin nokkrar ferðir. Má af þessu marka, hversu gífurlegt flutningamagnið var.
Enn er þá ótalinn þáttur Fraktflugs í þessum flutningum. Flugvél félagsins fór alls 43 ferðir með búslóðir frá Eyjum til lands og áætlað er, að hún hafi flutt um 550 tonn. Móttaka á þessum flutningi fór fram í Flugskýli III, og sömuleiðis á því, sem flugvélar varnarliðsins fluttu, en Douglas Dakota vélar þeirra flugu einnig margar ferðir með búslóðir. Oft unnu fjölmennir flokkar varnarliðsmanna við móttökuna í Flugskýli III.
Framan af var stjórn þessara flutningamála að nokkru í hendi Almannavarnaráðs ríkisins og að nokkru hjá starfsfólki bæjarsjóðs í Hafnarbúðum. Var verkaskiptingin sú, að Almannavarnaráð stýrði öllum skipaferðum, sá að mestu um útvegun gáma og hafði auk þess milligöngu um alla aðstoð frá varnarliðinu. Ráðið hafði einnig með höndum að mestu útvegun á hjálparsveitum til Eyja og sömuleiðis sá það um að útvega umbúðir og tæki til starfsins þar. Hins vegar sá starfsfólkið í Hafnarbúðum að mestu um skipulagningu og stjórn móttökunnar. Ekki voru þessi mörk þó skýr eða afdráttarlaus, heldur fór þetta eftir aðstæðum, og oft unnu þessir aðilar sameiginlega að lausn ýmissa vandamála, en þau voru óteljandi í sambandi við þetta mikla starf.
Það kom hinsvegar fljótlega í ljós, að því fylgdu vissir ókostir, að ákvarðanir um flutninga voru teknar á tveimur stöðum. Þótt samstarfið væri ágætt og fulltrúi okkar sæti fundi ráðsins þegar ástæða þótti til, vildi samt út af bregða, að annar aðilinn vissi nægilega um áætlanir hins. Það varð þá að samkomulagi, að Almannavarnaráð sendi til samstarfs við okkur niður í Hafnarbúðir skipherra hjá landhelgisgæzlunni, Þröst Sigtryggsson, og hafði hann umboð ráðsins til þess að ráða að mestu ferðum skipanna og gera aðrar ráðstafanir vegna búslóðaflutninganna. Strax tókst ágætt og náið samstarf með þessum manni og okkar fólki og varð þessi tilhögun mjög til bóta. Vann hann, eins og aðrir þeir, sem flutningunum stjórnuðu, vikum saman undir afar miklu álagi og oft 18-20 st. á sólarhring. Á hann þakkir skyldar fyrir mikið og ágætt starf.

seinni hluti