Blik 1974/Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum, I. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 8. október 2009 kl. 15:33 eftir Elinbjork (spjall | framlög) Útgáfa frá 8. október 2009 kl. 15:33 eftir Elinbjork (spjall | framlög) (→‎4. Kaupfélagið Fram)
Fara í flakk Fara í leit

ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON

Blik 1974/ Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum

Aðfararorð
(Íhugull lesandi hafi það í huga, að grein þessi er skrifuð, áður en gosið á Heimaey átti sér stað. Húsin, sem um er getið í greininni, eru nú mörg undir hrauni).
Um miðja 16. öld hafði danska konungsvaldinu tekizt að útrýma að mestu leyti verzlun Englendinga við Eyjafólk. Þá var stofnað til algjörrar einokunarverzlunar í Eyjum. Til þess að tryggja sér tögl og hagldir, því að stundum létu Englendingar á sér kræla þrátt fyrir bönn og fyrirskipanir, þá bauð konungsvaldið að gera skyldi virki í Vestmannaeyjum og koma þar fyrir öflugum „fallstykkjum.“ Það gerðist árið 1586.
Viðskipti Eyjafólks við enska á undanförnum áratugum og jafnvel öldum höfðu reynzt hin hagkvæmustu og til mikils hagræðis Eyjasjómönnum og stéttarbræðrum þeirra úr sveitum Suðurlandsins, sem lágu þá fjölmennir við í Eyjum á hverri vetrarvertíð, sérstaklega úr Rangárvalla- og Skaftafellssýslu hinni vestari.
Um 1600 hafði konungsvaldið fengið nokkra reynslu af rekstri einokunarverzlunar í Vestmannaeyjum. Var þá afráðið að leiða hana í lög um allt land.
Hún hafði reynzt konungsvaldinu og dönskum kaupmönnum hagstæð og gaf vonir um framhald á þeirri reynslu án þess að taka tillit til íslenzkra hagsmuna og íslenzka þjóðfélagsins í heild. Gróðavonin var þeim allt, þó að verzlunarhættir þessir reyndust niðurdrep íslenzku efnahags- og menningarlífi og tortíming mannlegra hvata til sjálfsbjargar.
Næstu þrjár aldirnar var einokunarverzlunin í Vestmannaeyjum rekin ýmist af sjálfum kónginum, leppum hans eða dönskum kaupsýslumönnum. Það átti sér stað, að íslenzkur kaupmaður eða gróðahyggjumaður fékk aðstöðu til að reka einokunarverzlunina í Vestmannaeyjum á þessum þrem öldum, t.d. Jens kaupmaður Benediktsson, og bar ekki á því, að þeir reyndust mun betri en hinir.
Sökum einangrunarinnar var verzlunarkúgunin ennþá tilfinnanlegri og grimmari í Vestmannaeyjum en víðast hvar annars staðar í landinu.
Svo sem kunnugt er var einokunarverzlunin sjálf alls ráðandi um söluverð innfluttrar vöru og svo um verð á framleiðsluvörum landsmanna til sjós og lands, þrátt fyrir einhver málamyndarákvæði, sem þar um fjölluðu, sem auðvelt var að fara kringum og virða að vettugi.
Þannig var íslenzku þjóðinni frá ári til árs og öld fram af öld skömmtuð hin efnalega afkoma og það í allra naumasta lagi.
Ekkert vörumat átti sér stað í landinu, hvorki um innfluttar vörur né útfluttar afurðir.
Öll samkeppni í verzlunarrekstri var hindruð með því, að einungis einn kaupmaður fékk leyfi til að reka verzlun á hverjum stað.
Þetta, sem hér er sagt um einokunarverzlunina dönsku, á ekki hvað sízt við um einokunarverzlunina í Vestmannaeyjum, -Monopolhandelen på Vestpansöe i Island, eins og hún hét á dönsku máli.
Og þó að það héti svo, að verzlunin væri gefin frjáls öllum þegnum Danakonungs samkv. lögum, sem tóku gildi 1. jan. 1788, héldust nálega sömu verzlunarhættirnir a.m.k. í Vestmannaeyjum næstu 100 árin eða fram á síðustu ár 19. aldarinnar. En þá tók að rofa til.
Samkvæmt lögunum til handa öllum þegnum Danakonungs um frjálsan verzlunarrekstur á Íslandi, var stofnað til verzlunarreksturs í Vestmannaeyjum á fyrri hluta 19. aldar við hlið hinnar gömlu og grónu einokunarverzlunar. (Sjá greinina um Godthaabverzlunina hér í ritinu á bls. 167).
Undir miðja 19. öldina var svo stofnað til þriðju verzlunarinnar í Vestmannaeyjum, Júlíushaabverzlunarinnar. (Sjá grein um hana í ritinu á bls. 172).
Brátt keypti gamla einokunarverzlunin hana þrátt fyrir ákvæði laganna um það, að sami maður mætti ekki eiga eða reka nema eina verzlun á sama staðnum. Einokunarkaupmaðurinn hafði jafnan ráð undir rifi hverju til að fara í kringum þau lagaákvæði. Hann keypti sér lepp, sem hann trúði vel og var honum dyggilega „undirgefinn.“ Látið var heita svo, að hann ætti fyrirtækið. Þannig gat aðalkaupmaðurinn verið einráður um vöruverð allt, þrátt fyrir lög og reglur.
Um þessar þrjár verzlanir í Vestmannaeyjum kemst Sigfús M. Johnsen svo að orði í Vestmannaeyjasögu sinni: „Þótt verzlununum að vísu fjölgaði og nokkur samkeppni hæfist, hafði það samt lítið að segja, því að kaupmenn hliðruðu til hver fyrir öðrum og höfðu samtök sín á milli.“

„Birtir yfir breiðum ...“
Svo sem kunnugt er, þá voru það Þingeyingar fyrstir Íslendinga, sem gerðu uppreisn svo að um munaði gegn heljarfjötrum einokunarverzlunarinnar, gegn undirokun og kúgun verzlunaraflanna þar í sýslu. Þeir efndu til eigin verzlunarsamtaka, stofnuðu samvinnufélag gegn einokunarverzluninni á Húsavík og í Þingeyjarsýslu árið 1882. Þá var, sem kunnugt er, Kaupfélag Þingeyinga stofnað.
Þegar fregnir um þennan manndóm, þessa dáð hinna þingeysku Íslendinga, spurðist út, „fór hitamagn um önd“ ýmissa landsmanna. Þetta var þá hægt að gera, þrátt fyrir alla eymdina, allan fjárskortinn. En til þess þurfti dáð, óvenjulegt hugrekki, dyggð og drengskap, og þó umfram allt fórnarlund, rétt hugarfar, réttan skilning á þörfum þjóðar í nauð, félagslyndi, þroska. Mannrækt hafði átt sér stað á þingeyskum heimilum um langan aldur. Þarna birtust ávextirnir alþjóð.
Þetta samvinnuframtak þingeysku bændanna og búaliða þeirra vakti fjölmarga landsmenn til íhugunar um verzlunarmálin í landinu. Sumsstaðar hugsuðu einstaklingar sér til hreyfings, vildu reyna að efna til einhverra verzlunarsamtaka til þess að höggva þó að ekki væri nema eilítið skarð í einokunarmúrinn. Og þannig hugsaði brautryðjandinn á þessu hagsmunasviði í Vestmannaeyjum.

Brautin rudd — Brotið blað
Árið 1885 eða þrem árum eftir stofnun Kaupfélags Þingeyinga, efndi íslenzkur einstaklingur til verzlunarreksturs í Vestmannaeyjum. Þessi maður var Gísli bóndi og útgerðarmaður Stefánsson í Hlíðarhúsi. Hann var sonur Stefáns bónda og stúdents Ólafssonar í Selkoti undir Eyjafjöllum, gullsmiðs Jónssonar í Selkoti.

Gísli kaupmaður Stefánsson í Hlíðarhúsi, kona hans frú Soffía Andersdóttir frá Stakkagerði og börn


















Gísli Stefánsson í Hlíðarhúsi var greindur maður og athugull, atorkusamur og sækinn, enda hafði skóli lífsins verið honum býsna erfiður og stælt kjark hans og þor, en jafnframt verið honum gjöfull á ýmsa lund, eftir að hann missti föður sinn 12 ára gamall.
Gísli Stefánsson rak verzlun sína í Eyjum af gætni og hagsýni, enda var fjárhagsgetan lítil. Viðskiptatraust hafði hann mikið og fór vel með það. Það var honum hálfur höfuðstóll eins og fleirum fyrr og síðar. Stundum efndi hann til verzlunarsamtaka með bændum í Eyjum með því móti að gefa þeim kost á að panta vörur hjá sér, sérstaklega matvörur og greiða þær við kostnaðarverði. Þetta framtak hans var vel séð og sannaði Eyjafólki, hversu bæta mátti verzlunarhætti alla og kjör fólksins með samtökum og samvinnu. En kaupmaðurinn í Gísla Stefánssyni sá sér líka leik á borði. Með slíku hagsbótastarfi, pöntunarstarfinu, ávann hann sér traust og velvild fólksins og jók með því vörusölu sína og viðskipti á öðrum sviðum. Oft sigldi Gísli kaupmaður Stefánsson til útlanda, sérstaklega Bretlands, til þess að festa kaup á vörum til verzlunar sinnar eða gera hagstæð kaup á matvörum, sem pantaðar höfðu verið hjá honum sérstaklega.
Um 1890 efndu Vestmannaeyingar til pöntunarstarfsemi til hagsbóta sér og heimilum sínum. Þá var það, sem Sigfús Árnason frá Vilborgarstöðum, organisti og formaður, stofnaði til pöntunarfélags með Eyjabændum. Öðru hvoru á undanförnum árum hafði verið efnt til slíkrar pöntunarstarfsemi í Eyjakauptúni með hagstæðum árangri.
Einnig seldi pöntunarfélag þetta undir forustu Sigfúsar Árnasonar afurðir Eyjabænda og reyndist þá verðið mjög hagstætt framleiðendunum. Sigfús M. Johnsen getur þessara verzlunarsamtaka í Vestmannaeyjasögu sinni. Þar fullyrðir hann, að pöntunarfélagið, sem jafnframt seldi afurðir fyrir bændur í Eyjum, hafi getað greitt þeim 46 krónur fyrir hvert skippund (160 kg) af fullverkuðum fiski (þorski). Á sama tíma greiddi einokunarkaupmaðurinn Eyjabændum 36 krónur fyrir skippundið af sömu afurðavöru. Þá getur höfundur þess, að olíutunnan hafi verið kr. 7,50 ódýrari hjá pöntunarfélagi bændanna en hjá einokunarkaupmanninum. Og þriggja krónu munur var á verði rúgmjölstunnunnar.
Gísli kaupmaður Stefánsson annaðist þessa vörupöntunarstarfsemi Eyjamanna árið 1892. Í janúarmánuði þetta ár fengu þessi pöntunarsamtök Eyjamanna mikla vörusendingu frá Englandi. Vöruverðið var svo lágt samanborið við ríkjandi vöruverð hjá einokunarkaupmanninum, að Eyjamenn undruðust stórum.


Samanburður
Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson skráir vöruverð þetta í fréttabréf sitt frá Eyjum, sem hann birti almenningi í landinu í blaðinu Fjallkonunni árið 1893. Hér tek ég upp þann samanburð og fel Bliki mínu að geyma hann: Útsöluverð pöntunarfélagsins og svo einokunarverzlunarinnar:

200 pd Rúgmjöl 16.10 19,00
200 — Bankabygg 18,00 23,11
200 — Hafragrjón 18,00 25,00
200 — Ertur 19,00 22,00
200 — Flórmjöl 24,00 36.00
1 — Kaffi 0,90 1,25
1 — Kandís 0,28 0,36
1 — Export 0,40 0,45
1 — Rúsínur 0,16 0,30
1 tunna Steinolía 26,50 34,00
1 pd Tvíbökur 0,36 0,45
60 fm. Fjógurra pd lína 3,00 4,50
1 pt Fernisolía 0,36 0,50
1 pd. Munntóbak 1,60 2,10
Verð á 1. flokks þorski 46,00 36,00

Þessar vörubirgðir entust Eyjamönnum fram á síðsumar þetta ár (1892). Þá var efnt til nýrrar vörupöntunar fyrir atbeina Gísla kaupmanns Stefánssonar.
En nú gerðust undarlegir hlutir! Þessari vörupöntun Eyjamanna var aldrei sinnt. Og aldrei fékkst skýring á því fyrirbrigði. Staðreyndin var aðeins sú, að vörupöntunin fékkst ekki afgreidd, hvernig sem á var sótt og eftir leitað.
Hver skyldi ástæðan hafa verið? Hver skyldi hafa komið ár sinni þarna fyrir borð, svo að þessari sjálfsbjargarviðleitni Eyjamanna var komið fyrir kattarnef að því sinni?
Gísli kaupmaður Stefánsson rak einkaverzlun sína til aldurtilastundar árið 1903. Mjög þótti hagstætt við hann að skipta og hann sjálfur góður viðskiptis. Hann mat menn ekki eftir klæðum eða efnahag.
Eftir að verzlun hans tók að eflast, neyddist einokunarkaupmaðurinn til að taka tillit til vöruverðs hjá honum. Ég hef átt þess kost að bera saman vöruverð hjá kaupmönnum þessum, þegar leið fram undir aldamótin og hin smáa verzlun Gísla kaupmanns var orðin býsna stór á ýmsum sviðum, t. d. um vöruverðið. Áhrifa hennar gætir mjög í daglegu vöruverði í kauptúninu. Hér berum við saman verð hjá verzlunum þessum á nokkrum neyzluvörum undir aldamótin.

1898 G.St J.P.T. Bryde
l pd Kaffi 0,55 0,65
1 Kandís 0,34 0,34
1 Rúgmjöl 0,07 1/2 0,09
1 Bygg 0,10 0,13
1 Melis 0,30 0,34
1 Baunir 0,10 1/2 0,12

1899. Á þessu ári var svo komið, að munur á útsöluverði hjá kaupmönnum þessum var sáralítill og stundum reyndist vöruverðið lægra hjá einokunarkaupmanninum gamla en Gísla kaupmanni.
Þannig varð þróunin einnig um afurðaverðið.
Árið 1901 var afurðaverðið orðið hið sama hjá báðum verzlununum eða eins og hér segir:

Sundmagapundið kr. 0,75
1 skippund Saltfiskur, 1. fl. —52,00
1 —— Langa —46,00
1 —— Smáfiskur —38,00
1 —— Ýsa —32,00

Vissulega vekur það athygli mína, að J. P. Bjarnasen „factor“ eða verzlunarstjóri einokunarverzlunarinnar gömlu var efstur á lista yfir fasta viðskiptavini Gísla kaupmanns Stefánssonar um árabil, meðan mestu munaði um vöruverð hjá þessum verzlunum. Þar hefur „factorinn“ séð sér leik á borði. Ég undrast hugrekki hans í þessum efnum og dáist að honum.

Umboðsverzlun
Fyrir aldamótin tók frú Sigríður Árnadóttir í Frydendal, ekkja Jóhanns J. Johnsen, til að reka dálitla umboðsverzlun fyrir fyrirtæki í Reykjavík.
Þessa verzlun rak hún í stofu á neðri hæð íbúðarhúss síns, Frydendal, og seldi þar margskonar smávarning og álnavöru við hagstæðu verði. Elzti sonur hennar, Gísli Jóhannsson Johnsen, var móður sinni hægri hönd um verzlunarrekstur þennan. Þá þróaðist sú hugsun með honum, að hann skyldi efna sjálfur til verzlunarreksturs í Vestmannaeyjum svo fljótt sem hann fengi aldur til, en hann var þá tæplega tvítugur að aldri.
Árið 1902 tókst svo þeim mæðginum, frú Sigríði Árnadóttur Johnsen í Frydendal og syni hennar Gísla Jóhannssyni Johnsen, að ná tangarhaldi á lóð Godthaabsverzlunarinnar eða Miðbúðarinnar, sem svo var oft kölluð, fá byggingu fyrir henni. Þá hafði þar ekki verið rekin verzlun nokkur ár. Danski einokunarkaupmaðurinn hafði keypt verzlunarhúsin og flutt þau austur í Vík í Mýrdal, þar sem hann stofnaði til verzlunarreksturs á síðasta tugi 19. aldarinnar. Þá voru einnig nokkur ár liðin, síðan einokunarkaupmaðurinn hafði lagt niður Júlíushaabverzlun sína á Tanganum.

Fréttir tóku að berast
Orð bárust til Eyja og fréttir af verzlunarsamtökum bænda, samvinnusamtökum víða um landið. Sum samtökin börðust í bökkum vegna þroskaleysis fólksins sjálfs. Önnur döfnuðu vel og urðu með tímanum sverð og skjöldur félagsmanna sinna og margra fleiri í hinni daglegu lífsbaráttu. Pöntunarfélög og kaupfélög fólksins í sveit og við sjó juku samtakamátt þess, bættu hag þess og efldu trú þess á eigin mátt og félagsþroska.
Árið eftir að Gísli kaupmaður Stefánsson féll frá (1903) efndu nokkrir Eyjabændur til sameiginlegra vöruinnkaupa hjá kaupmönnunum tveim í kauptúninu, J. P. T. Bryde og Gísla J. Johnsen. Það voru bændurnir „fyrir ofan Hraun,“ bændur í Ofanleitishverfinu. Þeir afhentu kaupmönnunum pöntunarlista sinn og æsktu þess, að þeir gerðu tilboð um verð vörunnar miðað við staðgreiðslu. Á þessum árum (1905 og 1906) beitti Sveinn Pálsson Scheving, bóndinn á Steinsstöðum þar í hverfinu, sér fyrir samtökum þessum. Bæði þessi ár naut Verzlun Gísla J. Johnsens þessara viðskipta, af því að hann bauð þeim vörurnar við lægsta verði. Og bændur töldu sig hafa mikinn hagnað af þessu framtaki sínu.
Segja má með sanni, að aldrei hafi peningar sést manna á milli í Eyjum einokunaraldirnar. Allt voru það reikningsviðskipti. Vörukaup skráð til skuldar. Vinnulaun færð þar inn til tekna. Þyrfti maður að greiða skuld sína, var upphæðin færð út af reikningi hans hjá kaupmanninum og inn á reikning hins, sem greiðsluna fékk. Millifærsla, millifærsla og enn millifærsla.
Hvernig fóru þá bændurnir að, þegar þeir þurftu að greiða pantaðar vörur út í hönd? Þeir höfðu nánast nurlað saman aurum og krónum fyrir fugl og fiður, sem þeir seldu einstaklingum, sem greitt gátu smávegis utan milliskriftar í verzlun einokunarkaupmannsins. Og svo kom Sparisjóður Vestmannaeyja mörgum að liði, þó að lítið fjármagn hefði til umráða, en Eyjamenn stofnuðu hann 1893, hinn eldri með því nafni. Hér birti ég skrá yfir vörukaup hvers bónda um sig, skrá yfir það fjármagn, sem hann keypti fyrir.

Árið 1905 Vörukaup hvers bónda
Sveinn P. Scheving Steinsstöðum 153,20
Sæmundur Ingimundars Draumbæ 182,65
Sigurður Sveinbjörnss Brekkuhúsi 234,98
Einar Jónsson Norðurgarði 187,45
Finnbogi Björnsson Norðurgarði 109,63
Jón Jónsson Gvendarhúsi 100,05
Jón Guðmundsson Suðurgarði 100,83
Einar Sveinsson Þórlaugargerði v 105,98
Jón Pétursson Þórlaugargerði e 155,48
Samtals kr. 1375,25
Árið 1906 Vörukaup hvers bónda
Sr.Oddgeir Gumundsen (þannig skrifað í handriti) Ofanleiti 148,90
Magnús Þórðarson Dal 400,67
Vigfús P. Scheving Vilborgarst 406,70
Einar Jónsson Norðurgarði 417,55
Jón Pétursson Þórlaugargerði e 331,80
Jón Jónsson Gvendarhúsi 740,80
Sæmundur Ingimundars Draumbæ 220,20
Ögmundur Arnbjörnss Landakoti 156,35
Sveinn P. Scheving Steinsstöðum 238,07
Einar Sveinsson Þórlaugargerði v 254,20
Finnbogi Björnss Norðurgarði e 311,75
Jón Guðmundsson Suðurgarði 64,80
Samtals kr. 3691,87

Enn reitt til höggs
Liðið er fram á fyrsta tug tuttugustu aldarinnar. Samvinnuhreyfingin hefur fest rætur víða í landinu til ómetanlegs hagræðis almenningi. Spurnir berast af sigrum hennar og samtakamætti víðsvegar að. Þær góðu fréttir efldu trú landsmanna á eigin mátt og sjálfsbjörg. Þær spurnir berast einnig til Vestmannaeyja.
Nokkrir Eyjabúa hugleiða hina breyttu tíma, hin breyttu viðhorf, og hinn hagfræðilega og hallkvæma árangur af pöntunarsamtökum bænda þar í byggð, sem Sigfús Árnason, organisti, og Gísli Stefánsson, kaupmaður, höfðu beitt sér fyrir. Var fólkið í Eyjum ekki enn vaxið því að feta í fótspor annarra landsmanna í framfara- og félagsmálum? Jú, vissulega. Hin miklu vélbátakaup Eyjamanna á árunum 1906-1908 voru óhrekjandi sannanir þess. Þau sýndu og sönnuðu, að samvinnuhneigð og samvinnuandi byggi með Eyjabúum. Ekki færri en 200 Eyjamenn áttu saman þessa 35 vélbáta, sem þá þegar voru gerðir út frá Vestmannaeyjum.
Víst var um það, að í Eyjum voru þá búsettir þeir félagshyggjumenn, sem leggja vildu mikið í sölurnar, fórna hugsun og starfsorku til eflingar hag alls almennings með því að beita sér fyrir samvinnusamtökum til ábata og hagræðis í hinu örtvaxandi viðskiptalífi með stóraukinni vélbátaútgerð frá ári til árs.
Vissulega þurfti að vinna að mun hagstæðari kaupum á öllum útgerðarvörum og daglegum vöruþörfum heimilanna, þar sem allur þorri aðkomufólksins, vertíðarfólksins, bjó hjá húsbændum sínum og atvinnurekendum. Þá þurftu öll heimili útvegsbændanna að sjálfsögðu mikils með.
Hins vegar var það svo afurðasalan, salan á þurrkuðum saltfiski, lýsi, sundmaga, hrognum o.fl., sem til féllst og hæft var til sölu.
Alveg sérstaklega voru það sameignarmenn eins vélbátsins, sem veltu því gaumgæfilega fyrir sér og íhuguðu vandlega, hvort ekki væri vert að stofna til varanlegra samvinnusamtaka í hinni örtvaxandi verstöð til þess að bæta verzlunarhættina og tryggja útvegsbændum meiri hagnað af útgerðinni. Þessir Eyjamenn voru Sigurður skipstjóri og útgerðarmaður Sigurfinnsson og sameignarmaður hans, Árni Filippusson, gjaldkeri Ísfélags Vestmannaeyja og fyrrv. barnakennari í byggðarlaginu. Skipstjórinn sigldi sjálfur fyrsta vélbátnum heim til Eyja frá Danmörku. Það var vélbáturinn Knörr.¹)
Á hinu leitinu var svo Þorsteinn Jónsson, formaður og útvegsbóndi í Laufási, sem fékk vélbát sinn til Eyja fjórum dögum síðar eða 9. sept. 1905. Hann var fluttur með skipi frá Frederikssund í Danmörku, þar sem hann var smíðaður. Það er sjálfsagt engin tilviljun, að sömu mennirnir, sem fyrstir sönnuðu meðfæddan manndóm sinn, hugrekki og dugnað með því að kaupa fyrstu vélbátana til Vestmannaeyja, beittu sér jafnframt fyrir samtökum útvegsbænda þar um hagstæðari verzlunarkjör með því að brjóta á bak aftur hið gamla einokunarvald með samvinnusamtökum fólksins.
En dok var á um stofnun þessara samvinnusamtaka. Þurfti einokunarvaldið ef til vill enn einu sinni að lyfta svipunni og reiða til höggs til þess að brýna skapið og hvessa samvinnuviljann til framtaks? Já, svo varð raunin á.
Báðir hinir ríkjandi kaupmenn í Vestmannaeyjum, Johan P. T. Bryde og Gísli J. Johnsen, fluttu til Eyja einvörðungu þær birgðir af salti, sem þeim að jafnaði voru sjálfum nauðsynlegar í fisk og svo þeim útvegsbændum og hlutamönnum, sem skiptu einvörðungu við þá. En árin 1907 og 1908 brá nokkuð til breytingar í þessum efnum hjá einokunarkaupmanninum gamla. Verzlun J. P. T. Bryde flutti til Eyja mjög mikið salt haustið 1907 og svo á vertíð 1908. Í fyrstu varð ekki ljóslega séð, hvað fyrir vakti um þennan mikla saltinnflutning. Þurfti að óttast þurrð á salti erlendis?
Í júlímánuði 1907 fékk gamla einokunarverzlunin gufuskipið Ísafold hlaðið salti til Eyja. Meginið af þeim birgðum skyldi geymast til næstu vetrarvertíðar. Þegar svo leið fram á vertíð 1908 átti Brydeverzlun von á tveim saltförmum til Eyja. Þá virtist Edinborgarverzlunin hafa orðið takmarkaðar saltbirgðir. Þá var það, sem svipunni var brugðið á loft, svo að kviknaði í skapi hinna dokandi samvinnuleiðtoga eða væntanlegra leiðtoga.
Bryde kaupmaður hafði skrifað heim til Eyja frá bækistöð sinni í Kaupmannahöfn og boðið „faktor“ sínum að tilkynna í Vestmannaeyjum, að einungis þeir útvegsbændur og hlutasjómenn í verstöðinni, sem vildu skuldbinda sig til að selja verzlun hans allan fisk sinn, þegar hann væri fullverkaður, fengju keypt salt í aflann hjá honum, aðrir ekki.
Þetta boð einokunarkaupmannsins var gert Eyjamönnum ljóst með auglýsingu. Þær voru venjulega hengdar upp við kirkjudyr eða í anddyri Landakirkju, meðan ekkert blað var gefið út í kauptúninu.
Nokkru síðar, eða 10. 4. (1908), fékk Garðsverzlunin (Brydeverzlunin) einn saltfarminn enn. Og ellefu dögum síðar kom norska skipið Jæderen með 459 smálestir af salti til einokunarverzlunarinnar gömlu, Brydeverzlunarinnar. Enginn skyldi óttast þurrð á salti í Eyjum það árið, ef Eyjamenn vildu aðeins skuldbinda sig til þess að selja einokunarverzluninni fiskinn sinn, þegar hann væri orðinn vel þurr á stakkstæði, og þá auðvitað fyrir það verð, sem einokunarkaupmaðurinn sjálfur afréði.

¹) Báturinn náði til hafnar í Vestmannaeyjum síðari hluta dags 5. sept. 1905 í austan-suðaustan stormi eftir nokkra hrakninga á hafinu.

1. Kaupfélag Vestmannaeyinga

Nú loks var mælirinn fullur. Eldri menn í Eyjum mundu atburðinn 1895. En þá í janúarlokin komu boð frá „etatsráðinu,“ en það var heiðurstitill J. P. T. Bryde einokunarkaupmanns, að selja ekki salt nema kaupandinn skuldbindi sig skriflega til að selja kaupmanninum allan fisk sinn og öll hrogn fyrir verð, sem hann vitaskuld afréði sjálfur. Hér endurtók sagan sig eins og fyrri daginn. Og reiðin sauð og vall.
Upp úr vertíðarlokunum 1908 eða um miðjan maímánuð boðuðu þeir Sigurður hreppstjóri og skipstjóri Sigurfinnsson og Árni gjaldkeri Filippusson til fundar í Þinghúsi hreppsins, barnaskólahúsinu Borg við Heimagötu. Ræða skyldi stofnun kaupfélags í byggðarlaginu.
Fundur þessi var furðuvel sóttur og áhugi manna almennur um stofnun félagsins. Loks var kosin sex manna nefnd til þess að semja hinu væntanlega kaupfélagi lög. Sú nefnd skyldi síðan boða til stofnfundar hið bráðasta. Engin fundargerð var skráð á fundinum.
Hinn 24. maí (1908), eða eftir rúma viku, boðuðu forgöngumenn hugsjónarinnar til annars fundar í Þinghúsinu. Það var stofnfundur félagsins. Þarna lagði nefndin fram frumvarp til laga í 24 greinum handa félaginu. Allar voru lagagreinar þessar samþykktar samhljóða. Kaupfélag þetta skyldi heita Kaupfélag Vestmannaeyinga. Stofnendur munu hafa verið um 30 alls. Allur þorri þeirra var útvegsbændur í kauptúninu. Tilgangur Kaupfélagsins var að útvega félagsmönnum venjulegar neyzluvörur handa heimilunum við allra lægsta verði og svo útgerðarvörur allar. Svo skyldi það gera sitt ýtrasta til að selja afurðir útvegsbændanna, framleiðsluvörurnar, við hæsta verði, sem fáanlegt væri hverju sinni.

Forðast skyldi alla skuldaverzlun
Lög hins nýstofnaða kaupfélags voru ekki skráð í fundargjörðarbók, og ekki voru þau prentuð, svo að ekki er með vissu vitað um orðalag þeirra að öðru leyti. Þó voru þar skýr ákvæði um það, að forðast skyldi alla skuldaverzlun.
Í stjórn Kaupfélags Vestmannaeyinga voru þessir menn kosnir: Sigurður Sigurfinnsson, hreppstjóri, með 29 atkvæðum; Árni Filippusson, gjaldkeri, með 20 atkvæðum og Þorsteinn Jónsson, útvegsbóndi í Laufási, með 24 atkvæðum. Aðeins þrír menn skipuðu stjórnina.
Endurskoðendur reikninganna voru kosnir þeir Ágúst kennari Árnason í Baldurshaga, og Gísli gullsmiður og útgerðarmaður Lárusson í Stakkagerði.
Árni Filippusson var einróma kosinn framkvæmdastjóri Kaupfélagsins og afgreiðslumaður á vörum þess. Ekki er mér kunnugt, hvar Kaupfélag Vestmannaeyinga hafði vöruafgreiðslu sína, en hér virðist einvörðungu hafa verið um pöntunarfélag að ræða fyrst í stað og svo afurðasölufélag.
Formaður kaupfélagsins var kjörinn Sigurður Sigurfinnsson og varaformaður Þorsteinn Jónsson.
Neyzluvörur þær, sem félaginu bar að útvega félagsmönnum, voru m.a. allar kornvörur, margskonar brauðvörur, smjörlíki, kaffi, sykurvörur, hreinlætisvörur og tóbaksvörur. Þá var ætlunin að fá steinolíuna keypta á mun lægra verði en til þessa hafði átt sér stað í verstöðinni, en þá var öll steinolía flutt í tunnum til landsins, — ljósmeti heimilanna og aflvökvi bátavélanna.
Jafnframt var Kaupfélagi Vestmannaeyinga ætlað að útvega félagsmönnum sínum allt efni til veiðarfæragerðar, svo sem línu og handfærastrengi og öngla.
Þetta var sú hliðin, sem laut að innkaupunum. Hin laut að afurðasölunni.
Kaupfélagið skyldi kosta kapps um að selja afurðir félagsmanna sinna, bæði útvegsbændanna og hlutasjómanna, við hæsta fáanlega verði við fækkandi milliliði og rofna einokun, svo sem allan saltfisk, lýsi, verkaðan sundmaga og saltaða gotu.
A næstu ellefu mánuðum eftir stofnun kaupfélagsins var mikið starfað í viðskiptamálum þessum. Framkvæmdastjórinn sendi hvert bréfið af öðru til útlanda til erlendra stórkaupmanna og fiskkaupenda.
Vörurnar streymdu að og frá. Búðarverð á neyzluvörum öllum hjá kaupmönnunum í kauptúninu fór mjög lækkandi til samræmis við verð á neyzluvörum hjá pöntunardeild kaupfélagsins. Jafnframt tókst stjórn félagsins að selja framleiðsluvörur félagsmanna sinna við mun hagstæðara verði en kaupmenn buðu, bæði þar í Eyjum og svo í Reykjavík.
Eg birti hér fáein bréf, sem framkvæmdastjóri kaupfélagsins skrifaði nokkrum fyrirtækjum erlendis á fyrsta starfsári félagsins. Þau veita íhugulum lesanda nokkurt innsýn í starfið og tilgang þess.
Hér hef ég í hendi mér fyrsta bréfið, sem framkvæmdastjóri hins nýstofnaða kaupfélags skrifaði daginn eftir að það var stofnað. Hann var ötull framkvæmdamaður, sem ekki lét það bíða til morguns, sem gera þurfti í dag.


„Vestmannaeyjum, 25. maí 1908.
Herra Grosserer Dines Petersen,
Havnegade 31,
Köbenhavn.
Að þessu bréfi mínu þykist ég þurfa að hafa nokkurn „Formála,“ og vil þá geta þess:
1. Að ég leyfi mér að skrifa yður bréfið á íslenzku máli, af því að mér er ótamt að skrifa dönsku, en ég veit, að þér lesið og skiljið og jafnvel talið íslenzku, en væntanlegt svar yðar upp á þetta bréf mitt kemur mér að sömu notum, þó að á dönsku máli sé.
2. Að ég hefi verið hér í þjónustu Herra Etatsr. J. P. T. Bryde nálægt 15 ár samtals, en gekk úr þeirri þjónustu um miðjan fyrra mánuð. Þessa er getið í því skyni, að þér ef til vill kannist við nafn mitt, jafnvel þó að það hafi enga þýðingu.
3. Að hér hefur verið myndað „kaupfélag,“ - stofnsett í gær, - og mér hefur verið falið á hendur að sjá um framkvæmdir þess hér. Jafnframt afréð núverandi stjórn félagsins (Sigurður Sigurfinnsson, Þorsteinn Jónsson og ég) að fara fram á það við yður, að þér tækjuð yður það á hendur að vera fyrst um sinn umboðsmaður félagsins erlendis, og selja fyrir það þær íslenzkar vörur, sem það fær til þeirra umráða, og keyptuð að og önnuðust um, að hingað yrðu sendar þær útlendar vörur,sem félagið pantar.
4. Þess er þar næst að geta, að Eyjabúar, þar á meðal kaupmenn, vilja kosta kapps um, að saltfiskur Vestmannaeyinga komist í jafngott álit erlendis eins og fiskurinn frá Faxaflóa (Reykjavík), og í því skyni hefur verið ráðinn hingað vörumatsmaður (Vrager) frá Reykjavík. Þar af leiðir, að gera má ráð fyrir, að talsvert af slíkum fiski (þorski), sem að undanförnu hefur verið tekinn hér sem nr. 1, verði í ár tekinn sem nr. 2. Meira eða minna af slíkum fiski er ráðgjört, að kaupfélagið hafi til umráða (en ekki príma Spánarfisk) ásamt löngu nr. 1, ýsu nr. 1 og sundmaga nr. 1.
Þar sem félagið er, eins og áður er sagt, alveg nýstofnað, og enn er óvíst, hve margir í því verða í ár, er nú sem stendur, því miður, ómögulegt að gera áætlun um, hve mikið af nefndum vörutegundum stjórn félagsins fær til umráða, en ég get ekki búizt við, að það verði meira en 200 skippund samtals af öllum tegundum.
Svo er um það að segja, er snertir útlendu vöruna, sem kaupa skal, að þær tegundir þeirra, sem ég býst við að félagið kaupi, er ýmisleg kornvara, þar á meðal maís til skepnufóðurs, Kolonialvörur (kaffi, kandis, melis, rúsínur, tóbak (Roel, Skraa) og veiðarfæri (lína, krókar)).
Í von um, að þér viljið takast á hendur að gerast umboðsmaður félagsins í ár, fyrir venjuleg umboðslaun, leyfi ég mér að biðja yður að gjöra svo vel að gefa mér vísbendingu ekki seinna en með s/s Ceres 14. júní um það, hvort ráðlegt sé að senda íslenzku vörurnar héðan til Leith eða þá til Kaupmannahafnar, og svo hvort hentugra sé að senda þær fyrr eða seinna, allar í einu eða smátt og smátt.
Aðrar fleiri upplýsingar, sem yður kynni að hugkvæmast að veita, svo sem t.d. söluverð á íslenzkum „Produkter“ og aðkaupsverð á útlendum vörum, mundi ég einnig þiggja með þökkum.
Loks vil ég biðja yður að gjöra svo vel að kaupa handa félaginu og senda mér með fyrstu ferð hingað (s/s Ceres 14. júní n.k.) eina Decimalvog, sem tekur 4-500 pund ....“ (Og svo nefnir hann í bréfinu runu af vogum, og þá einnig borðvogum með stórum og smáum lóðum. Þ. Þ. V.).
„Sem andvirði þessara muna sendi ég yður hér með 120 krónur. Að því leyti, sem það kann að vera of- eða vangreitt, óska ég, að mismunurinn verði látinn bíða væntanlegra frekari viðskipta félagsins við yður.

Virðingarfyllst,
Árni Filippusson“


Þá sendir framkvæmdastjórinn þennan pöntunarlista 21. ágúst 1908. Hann skrifaði jafnan vörupöntunarlistana á dönsku máli til þess að koma í veg fyrir misskilning um vörurnar.

„Rekvisition
Til undertegnede önskes opsendt ved förste Lejlighed:

3000 pund Rug
500 — Havremel
200 — Havre (til Heste)
10 — Sekk. Ris hele
200 pd Sago fin
100/2 Sekker Rugmel
5 Sekker Kaffe pillet
3 —— Exportkaffe L. D.
20 Ks Kandis brun
70 — Kandis gul
30 — Melis krystal
400 pd Melis stödt
20 Ks Rusiner
ca. 200 pd Tvebakker
ca. 200 pd Kringler
20 pd Gærpulver
20 — Cacoapulver
5 — ———
20 — The
20 Gl. Citrondraaber á c 30 gr.
60 pd Skraatobak B B
100 — Zinkhvidt (i 10-20 Pots Ds)
15 Rl Tagpap „Herkules“
1 Tn Fernis
14 Pakk Rörsöm galv.“

Framkvæmdastjórinn hafði hjá sér verðlista yfir allar þessar vörur og margar fleiri frá stórkaupmönnunum erlendis, sem voru umboðsmenn smákaupmanna og kaupfélaga hérlendis, útveguðu þeim vörurnar og sáu um sendingu á þeim til landsins og fengu venjulega ákveðna þóknun af viðskiptunum.
Viðskiptavinir erlendis voru G. Gíslason og Hay í Leith og Grosserer Dines Petersen í Kaupmannahöfn.
Og svo afrit af pöntunarlista yfir útgerðarvörur frá Noregi dags. 10. sept. 1908:

„A/s Spilkevigs Snöre-Not og
Garn-fabrik,
Aalesund, Norge.
Fra Deres ærede Fabrik önskes ved förste Lejlighed sendt til undertegnede:

60 Dusin Fiskeliner (Snörer) kr. 4,15
80 — — (do) — 10,15
100 — — (do) — 12,15
12 Dusin Bankliner 21 Garns
8 — ———— 24 —

Jeg troer at det vilde passe bedst at De afsende dette linetöj (med s/s Axelhus, s/s Riberhus eller andet Skip) til Köbenhavn til videre Forsendelse med et af D.F.D.S. Skibe til Vestmannö Island. Vedlagt fölger 1 Anvisning Kr. 5600,00 og haaber jeg, at det (efter Deres eventuelle Regning) bliver en lille Saldo.“

„Pr. „Laura“
Vestmannaeyjum, 10. okt. 1908
Herra G. Gíslason og Hay,
Leith.
Heiðruð bréf yðar dags. 8. og 9. f.m. hefi ég meðtekið ásamt vöruskrám og sölureikningi. Vörur þær, sem þér senduð mér með „Lauru“ (án bréfs) 22/9 meðtók ég 29/9, en þeim vörum, sem þér senduð mér með „Vestu“ 5. sept., var skipað upp í Reykjavík, og fékk ég þær með „Hólum“ 4. þ.m.
Ég hefi ásett mér að senda yður með „Lauru“ á morgun (ef veður og aðrar kringumstæður leyfa) 121 pk. (á 150 pd) af þorski. Um þá 6 pk., sem samkvæmt farmskránni eru merktir „K X“ er þess að geta, að í þeim er fiskurinn að því leyti frábrugðinn fiskinum nr. 1 (100 pd), að sporðurinn er skorinn af, vegna þess að hann (sporðurinn) hafði sólbrunnið, en fiskurinn er þó í raun og veru eins góður og sá, sem er nr. 1.
Fiskur sá, sem merktur er K 2 (15 pk), er þar á móti lakari tegund.
Ég verð að láta það farast fyrir í þetta sinn að panta hjá yður vörur, einkanlega af því, að ég get ekki komizt hjá því að gefa út ávísun á yður til þess að standa sýslumanni skil á tolli. Ráðgjört er, að ég gefi hana út nálægt 20. þ.m. hljóðandi upp á 12-13 hundruð. Verður hún þá send gjaldkera landssjóðs í Reykjavík, og leyfi ég mér að mælast til, að þér gjörið svo vel að borga hana við framvísun.
(Síðast í bréfi þessu kvartar framkvæmdastjórinn yfir of grófum maís, sem firmað hafi sent honum. Einnig hafi vara þessi reynzt dýrari en verðskrá frá firmanu sagði til um eða gaf til kynna). „En hvað sem verðinu líður, er þó verst, að hann þykir ekki reynast vel.
Fyrirgefið möglið.

Virðingarfyllst,
Árni Filippusson.


„Pr. „Laura“ Vestmannaeyjum, 10. okt. 1908
Herra Grosserer Dines Petersen,
Kaupmannahöfn.
Með þakklæti viðurkenni ég að hafa meðtekið heiðrað bréf yðar dags. 3. og 19. f.m. ásamt Fakturu.
Ég leyfi mér hér með að senda yður Connossiment (farmskírteini) yfir 120 pk. af saltfiski og 12 pk. af smáfiski (hver á 150 pd) og biðja yður að gjöra svo vel að selja þann fisk fyrir okkur. Sömuleiðis fylgir skrá yfir vörur, sem ég óska að þér sendið mér við fyrsta þóknanlegt tækifæri.
Eg hefi lofað sýslumanninum hér að láta hann fá ávísun á yður til að borga með henni toll. Er svo ráð fyrir gert, að hún hljóði upp á 17-1800 krónur og verði gefin út um þann 20. þ.m. og þá send gjaldkera landssjóðs í Reykjavík, og leyfi ég mér að mælast til, að þér borgið hana út ved Sigt. Og af því að pöntunum er nú væntanlega að miklu leyti lokið í ár, er það ósk mín að þér, með tilliti til þeirrar greiðslu og smávegis pöntunar sendið mér það, sem félagið á hjá yður. Með öðrum orðum, að þér haldið eftir af innstæðu K. V. hjá yður 17-1800 krónum vegna ávísunarinnar og 1-200 krónum til vara fyrir pöntun, en sendið mér það sem umfram er, annað hvort í peningum eða ávísun á Íslandsbanka (helzt þó í peningum, - og þó ekki allt í stórum seðlum).
Geti ég afskipað umtöluðum fiski nú með „Laura“, og viðlíka miklu til G. Gíslason og Hay í Leith, verða hér eftir nálega 10 skpd af löngu og ekki annað.

Virðingarfyllst,
Árni Filippusson.

„Rekvisition
Til Kaupfélags Vestmannaeyinga önskes opsendt ved förste Lejlighed:

600 pd Bankebyg
60/2 Sk Rugmel
30/2 Sk Hvedemel Roe City
300 Pd Havre
5 Sk Kaffe pillet
20 Ks Kandis röd
20 Ks Melis
50 Pd Gærpulver Fermente i 10 Pds Dus.
25 Gl. Citrondraaber 30 gr.
60-70 Pd Skraa B B
3 stk Faktura-Bind (Faktura-Hefte?) nye Tilbehör.

Vestmannö d. 10. oktober 1908

Árni Filippusson.

Illa gekk að þurrka fiskinn sumarið 1908 sökum tíðra rigninga og þráláts þokuveðurs við Suðurströndina, en þá var allur fiskur þurrkaður úti á reitum eða stakkstæðum.
Hinn 22. september hafði þó Eyjamönnum tekizt að þurrka megnið af fiski sínum. Þá hafði Kaupfélag Vestmannaeyinga fengið til sín í hús 725 skippund af „öllum fiski samtals,“ þ.e. 308 skpd af þorski, 322 skpd af löngu, 5 skpd af smáfiski (styttri en 18 þumlungar) og 90 skpd af ýsu. Hvert skpd vó 320 pund eða 160 kg.).
Allur fiskur var þá fluttur út í strigaumbúðum, oftast 100 pd í hverjum pakka.
Ekki gat Kaupfélag Vestmannaeyinga byrjað að láta pakka fiskinum haustið 1908, fyrr en hann var allur kominn í hús, sökum skorts á húsrými. Og ekki er mér kunnugt um, hvar það var til húsa þetta fyrsta starfsár sitt.
Í septemberlokin gat Árni framkvæmdastjóri sent Garðari Gíslasyni og Hay í Leith og Dines grosserer Petersen í Kaupmannahöfn 5-600 skpd af fiski. Jafnframt sendi hann fyrirtækjum þessum eða umboðsmönnum pöntunarlista yfir þær vörur, er hann æskti að fá sendar til félagsins. Í bréfinu til Garðars Gíslasonar og Hay stóð skrifað: „Sömuleiðis sendi ég yður skrá yfir þær vörur, sem ég óska að fá frá yður; en að því leyti, sem þær nema meira en það, sem ég nú sendi, er yður að sjálfsögðu í sjálfsvald sett, hvort þér sendið þær fyrr en ég hefi sent yður svo mikinn fisk, sem nægir til endurgjalds fyrir hið pantaða.“
Þessi síðustu orð framkvæmdastjórans til stórkaupmannsins eru þess verð, að þau séu hugleidd, því að þau gefa okkur eilitla hugmynd um viðskiptahugsun hans og heiðarleik. Aldrei skyldi ganga á hlut annarra í viðskiptum, aldrei safna skuldum, svo að nokkru næmi, ekki panta vörur fyrr en tök væru á að greiða þær. Verð hinnar pöntuðu vöru vissi hann nokkurn veginn fyrir, því að hann hafði í höndum verðlista frá stórkaupmönnunum, en fiskverðið var meira á lausu á erlendum markaði.

Kaupfélagið óskar eftir byggingarlóð
„Eins og yður, háttvirti herra sýslumaður, mun kunnugt, var næst liðið vor stofnað hér félag, sem nefnist „Kaupfélag Vestmannaeyinga“ og er tilgangur þess aðallega „að útvega félagsmönnum sem beztar vörur með svo góðu verði, sem unnt er, og koma innlendum afurðum í svo hátt verð, sem auðið er,“ - eins og kveðið er að orði í lögum félagsins. Í félag þetta hafa gengið því nær allir búendur í Vestmannaeyjum auk nokkurra búlausra manna, og af því að velta félagsins, - útfluttar og aðfluttar vörur, - hefur í sumar numið nokkrum tugum þúsunda (Ath.: Þ.e. 1908! Þ. Þ. V.), hafa félagsmenn komizt að raun um, að félagið getur ekki komizt í nánd við takmark sitt, nema það hafi hús og lóð til umráða, eins og það frá byrjun sinni hefur ásett sér að hafa.
Þess vegna leyfi ég mér, sem kosinn framkvæmdastjóri nefnds félags, í nafni þess, með skírskotun til laga 13. marz 1891, að beiðast þess, að yður mætti þóknast að mæla því út lóð, sem því sé heimilt að reisa hús og hefja verzlun á næstkomandi ári. Í þessu skyni óska ég, að félaginu verði mæld út Nausthamar ásamt „Fúlu“, sem er áföst við hann, enda er engin önnur óbyggð lóð hér í kauptúninu nálægt sjó hentug til að reisa verzlunarhús á.
Undir eins og þessi umbeðna útmæling hefur farið fram, mun félagið búast til að reisa verzlunarhús á þeirri útmældu lóð.

Vestmannaeyjum, 24. okt. 1908.
Árni Filippusson.


Til sýslumannsins í Vestmannaeyjasýslu.“


Óskað eftir fundi — Verzlunarskólalærður Vestmannaeyingur
Segja mátti með sanni, að Kaupfélag Vestmannaeyinga færi vel af stað.
Að vísu var það erfiðleikum bundið að gera þar mikil vörukaup bæði til heimilanna og útgerðarinnar, þar sem svo smátt var um peninga í umferð, og forkólfar samtakanna voru andvígir skuldaverzlun. Dálítið gat Sparisjóður Vestmannaeyja greitt götu samtakanna, og þar voru að nokkru leyti hæg heimatökin, þar sem framkvæmdastjóri kaupfélagsins var gjaldkeri Sparisjóðsins og sparisjóðsstjóri í raun og veru. En kaupmaðurinn G. J. J. var formaður hans og ríkur áhrifaaðili um lánveitingar og hélt þar fast í tauminn.
Auðvitað kreppti að hjá mörgum útvegsbóndanum sökum skorts á fjármagni. Og margir hugsuðu sem svo, að ákjósanlegt væri að geta fengið lán, bæði lán til kaupa á ýmisskonar útgerðarvörum og svo til heimilanna á vertíð. Heimilin þurftu mikils með á þeim tíma árs sérstaklega, þar sem útvegsbændur urðu að hýsa og fæða marga aðkomumenn, sem unnu að útgerð þeirra um háannatíma ársins. Margar munnlegar óskir hafði stjórninni borizt um inngöngu í kaupfélagið.
Og svo barst stjórn kaupfélagsins bréf, þar sem þess var beiðzt, að hún boðaði til almenns fundar í Kaupfélagi Vestmannaeyinga. Ekki var neitt látið í ljós um tilefni fundarins. En beiðnin var lögleg. Svo margir fullgildir félagsmenn höfðu skrifað undir bréfið. Jafnframt barst stjórninni bréf frá ungum Vestmannaeying, sem lesið hafði verzlunarfræði erlendis.<br Liðið var fram á vertíð 1909, þegar þessi hreyfing gerði vart við sig. Annir voru því miklar í verstöðinni og ekkert áhlaupaverk að ná saman löglegum fundi í félagsskap.
Loks lét stjórn Kaupfélagsins til leiðast og boðaði til fundarins 14. apríl (1909).
Á fundinum byrjaði stjórnin að afsaka sig, þótt hún gæti ekki nærri strax boðað til aðalfundar, þar eð reikningar fyrra árs væru ekki að fullu gerðir og endurskoðaðir.
Afgreiðslumaðurinn, sem jafnframt var lífið og sálin í félagsstarfinu, tjáði fundarmönnum, að starf stjórnarinnar hefði orðið umsvifameira en gert hafði verið ráð fyrir í fyrstu, með því að fólk hefði þyrpzt að samtökunum og æskt þess að njóta þar hins lága vöruverðs, þegar það tók að kynnast því. Og svo vildu útvegsbændur njóta hins hækkandi verðs á afurðunum, sem leiddi af samtökum þessum. Þetta mikla starf hafði tafið allan undirbúning aðalfundarins. Menn létu sér þessa skýringu lynda. Enda var tilgangurinn með beiðninni um fundinn allur annar en að reka á eftir stjórninni um að halda aðalfundinn, hinn fyrsta í sögu félagsins.
Og málin tóku að skýrast.
Ungi Vestmannaeyingurinn, verzlunarskólalærði, hóf mál sitt og sagði fundarmönnum frá námi sínu í dönskum verzlunarskóla, þar sem hann m.a. hafði kynnzt rekstri hinna dönsku samvinnufélaga. Jafnframt tjáði hann fundarmönnum, að hann hygðist stofna samvinnufélag í kauptúninu að danskri fyrirmynd, nema félagsmenn vildu breyta Kaupfélagi Vestmannaeyinga og starfrækja það samkvæmt dönskum samvinnulögum og að dönsku sniði, danskri fyrirmynd. Þar væri vissulega öðruvísi að starfinu staðið en hér heima.
Þá kvaðst ungi maðurinn hafa fengið stórkaupmanninn Þórarin Túliníus til þess að gerast erindreki utanlands þessa væntanlega kaupfélags síns þar í verstöðinni.
Þegar ungi maðurinn hafði lokið máli sínu á fundinum, æskti stjórn kaupfélagsins þess, að fundarmenn létu í ljós skoðun sína á máli þessu. Enginn tók til máls nema formaður kaupfélagsins, Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson, „sem ekki kvaðst álíta ástœðu til að hörfa að svo stöddu frá tiltekinni stefnu,“ eins og það er orðað í frumheimild.
Ungi verzlunarlærði Vestmannaeyingurinn tjáði félagsmönnum, að stórkaupmaðurinn byðist til að lána Vestmannaeyingum vörur við hagstæðu verði og góðum kjörum. Þannig gyllti hann þetta allt fyrir félagsmönnum, sem sátu hljóðir og biðu þess, að eitthvað gerðist sögulegt á fundinum.
Til svars við þessum boðum um vörulánin, sagði Sigurður hreppstjóri og fullyrti, að öll slík lánaviðskipti væru varúðarverð, „þar sem hætt vœri við, að lánstraustið yrði misnotað.“ (Frumheimild). Formaður kaupfélagsins hvatti aftur félagsmenn til að hvika ekki frá settu marki í félagsskap þessum.
Að lokum bað formaður fundarmenn að kveða upp úr um það, hvort þeir vildu, að stjórnin fylgdi markaðri stefnu í rekstri félagsins, þ.e.a.s. rekstur þess án skuldasöfnunar, eða fara hina leiðina og stofna til skulda. Aðeins tveir menn létu skoðun sína í ljós um félagsskapinn og vildu ekki að svo stöddu taka neina ákvörðun um það, hvora leiðina þeir kysu í rekstri félagsins. Eftir 4 daga var enn boðað til fundar í Kaupfélagi Vestmannaeyinga, eða 18. apr. 1909. Fyrir þeim fundi lá tilboð frá P. J. Thorsteinsson, fyrrv. kaupm. á Bíldudal, um kaup á saltfiski af félagsmönnum. Samþykkt var að sinna ekki tilboði því, þar sem það þótti ekki „aðgengilegt.“
Þessir 4 dagar, sem liðu milli funda, höfðu verið notaðir mikið til áróðurs meðal félagsmanna um það að taka boði Þórarins kaupmanns Túliníusar um lánsviðskiptin og að breyta kaupfélaginu í vörukaupafélag að danskri fyrirmynd. Gamall bóndi í Eyjum, sem jafnan naut mikils trausts almennings, hafði verið fenginn til að hreyfa máli þessu á fundinum og mæla eindregið fyrir því.
Hinir þroskaðri félagsmenn bentu á það, að með þessum tvískinnungi væri verið að kljúfa félagsskapinn, tvískipta félaginu, með því að vissir áhrifamenn innan þess vildu nú stofna til skuldaverzlunar, sem þeir hefðu í upphafi viljað verjast með stofnun félagsins.
Ungi verzlunarlærði maðurinn var nú kvaddur á fundinn til þess að skýra anda og ákvæði hinna dönsku félagslaga. Að lokum var kosin 5 manna nefnd til að breyta lögum Kaupfélags Vestmannaeyinga í samræmi við hin dönsku samvinnulög, svo að félagið gæti a.m.k. notið vörulánaviðskipta ýmissa stórkaupmanna. Eitt meginatriði laganna var það, að nokkrir félagsmenn skyldu vera persónulega ábyrgir að skuldum félagsins við stórkaupmenn, t.d. við erindreka félagsins erlendis, Þórarin stórkaupmann Túliníus. Á þessum fundi játuðust 55 menn undir ábyrgð á vörulánum stórkaupmanna til kaupfélagsins. Halldór læknir Gunnlaugsson talaði fyrir hinu nýja skipulagi á rekstri félagsins og lánsviðskiptum þess.
Ýmsir félagsmenn, sem andstæðir voru skuldaverzlun og lánaviðskiptum, gengu af fundi þegjandi og hljóðalaust, er þeir urðu þess áskynja, að meiri hluti félagsmanna aðhylltist lánakerfið, - lánaviðskipti og skuldasöfnun. Þeir greiddu þess vegna ekki atkvæði á fundinum.
Á næsta fundi félagsins, sem haldinn var 2. maí (1909), bættust 13 ábyrgðarmenn við frá síðasta fundi, en aðrir gengu úr skaftinu, neituðu að vera með í samtökunum.


2. Kaupfélagið Herjólfur

Á þessum síðasta umrædda fundi í Kaupfélagi Vestmannaeyinga var skipt um stjórn, með því að hinir fyrri stjórnarmenn, Sigurður Sigurfinnsson og Árni Filippusson, gáfu ekki þess kost að vinna lengur að þessum félagsmálum og neituðu að vera í stjórn félagsins. Svo mótfallnir voru þeir breytingunni.
Samkvæmt hinum nýsömdu lögum félagsins skyldu fimm menn skipa stjórnina, en lögin eru ekki ljós að öðru leyti, með því að þau voru enn hvergi skráð.
Í hina nýju stjórn félagsins voru kosnir þessir menn:
Halldór Gunnlaugsson læknir með 58 atkvæðum. Hann var síðan kosinn formaður félagsins; Magnús útvegsbóndi Guðmundsson á Vesturhúsum með 57 atkvæðum; Þorsteinn Jónsson, útvegsbóndi í Laufási, með 57 atkvæðum; Gísli Lárusson, gullsmiður og útvegsbóndi í Stakkagerði, með 30 atkvæðum; Jón Einarsson, útvegsbóndi á Gjábakka, með 24 atkvæðum.
Endurskoðendur og umsjónarmenn voru kosnir Ágúst Árnason, kennari í Baldurshaga, og Einar Jónsson, útvegsbóndi að Garðhúsum.
Eftir þessa breytingu á lögum, sniði og mótun félagsins var skipt um nafn á því. Nú skyldi það heita Kaupfélagið Herjólfur og var nú í rauninni orðið hlutafélag, með því að afráðið var að láta prenta hlutabréf, sem ætlað var, að félagsmenn keyptu eftir efnum og vilja. Nafnverð bréfanna var 25 krónur.
Á fundi 9. maí (1909) var undirbúið skjal, þar sem útgerðarmenn skyldu skrá sig með loforðum um innlegg á afurðum hjá félaginu, þurrkuðum þorski nr. 1 og 2 og svo löngu. Þessir menn áttu að vita, hversu mikið innlegg þeir hefðu á takteinum af fiski, þegar á sumarið leið og þeir hefðu verkað vetraraflann. Jafnframt var mönnum á fundi þessum boðin hlutabréf til kaups í Kaupfélaginu Herjólfi. Fyrstu menn, sem buðust til að kaupa hlutabréfin, voru Anton Bjarnasen, verzlunarstjóri einokunarverzlunarinnar dönsku, Austurbúðarinnar, - Brydeverzlunarinnar -, og Gísli J. Johnsen, konsúll og kaupmaður.
Alls voru seld 16 hlutabréf á fundi þessum eða samtals fyrir kr. 400,00.
Þá reis ágreiningur innan félagsmanna. Átti að selja hinum tveim nefndu hlutabréfakaupendum hlutabréf og skapa þeim þannig áhrif innan kaupfélagsins? Það varð að lokum samþykkt að neita þeim um hlutabréfin!
Nú þegar var hafizt handa um það að fá lóð handa félaginu og hefja byggingarframkvæmdir. Á sama tíma var vörupöntunum safnað hjá félagsmönnum. Svo skyldi ungi maðurinn verzlunarlærði sendur til Kaupmannahafnar með erindi Kaupfélagsins Herjólfs og tala þar máli félagsins og tryggja öll viðskipti þess.
Jafnframt var samþykkt að hefjast þegar handa um að byggja á lóð þeirri, sem hið sálaða Kaupfélag Vestmannaeyinga hafði fengið vilyrði fyrir hjá sýslumanni, umboðsmanni landssjóðs, sem þá átti allar Vestmannaeyjar. Lóð þessi var fast austan við Bæjarbryggjuna á suðurmörkum uppsátursins gamla, Hrófanna, norðan Strandstígs, 1227 ferálnir að stærð. Var lóðarsamningur þessi dagsettur 9. júní 1909. Áætlað var, að hið nýstofnaða félag á rústum Kaupfélags Vestmannaeyinga verði kr. 8000,00 til nýbyggingar þessarar.
Bráðlega tókst að selja 79 hlutabréf til þess að safna veltufé. Og svo voru það gömlu hlutabréfin, sem margir félagsmenn áttu enn í Kaupfélagi Vestmannaeyinga.
Árni Filippusson, fyrrverandi framkvæmdastjóri þess, var kvaddur á fund til þess að gera grein fyrir andvirði þeirra. Hann kvað þau hlutabréf vera alls 170 að tölu og eigendur þeirra samtals 120-130. Jafnframt tilkynnti þessi fyrrv. framkvæmdastjóri og stjórnarmaður kaupfélagsins sálaða, að andvirði þeirra hlutabréfa væri allt fast í vöruleifum og útistandandi skuldum.
Brátt hvarf ungi, verzlunarlærði Vestmannaeyingurinn af landi burt, sigldi til Kaupmannahafnar til þess að fá lánað timbur í hina væntanlegu nýbyggingu Kaupfélagsins Herjólfs, sem brátt skyldi rísa af grunni þarna austan við Hafnarbryggjuna svokölluðu þá, - síðar Bœjarbryggjan, eftir að Vestmannaeyjabyggð fékk bæjar- eða kaupstaðarréttindi.
Einnig fór ungi maðurinn verzlunarlærði, sem nú hafði verið ráðinn framkvæmdastjóri hins nýja kaupfélags, með herjans mikinn vörulista upp á vasann, pöntunarlista yfir neyzluvörur, sem hann sagði, að stórkaupmaðurinn hefði heitið kaupfélaginu „upp á krít“, samkvæmt fullyrðingu unga verzlunarlærða mannsins, er hann sló fleyginn í félagsskapinn, Kaupfélag Vestmannaeyinga, - eða beitti öngulinn, sem allur fjöldi félagsmanna beit á.
Tíminn leið. - Og svo kom heldur betur babb í bátinn.
Formaður Kaupfélagsins Herjólfs, héraðslæknirinn Halldór Gunnlaugsson, boðaði til almenns fundar í kaupfélaginu 18. júní um sumarið eða nokkrum dögum eftir að ungi framkvæmdastjórinn hvarf út til hennar Kaupmannahafnar. Þarna skýrði formaðurinn frá þeirri leiðinlegu staðreynd, - og var þá ekki brattur, - að honum hefði borizt bréf frá Túliníusi stórkaupmanni, þar sem hann gerði þær kröfur til Kaupfélagsins Herjólfs, að það sendi honum þá þegar kr. 12000,00 í peningum upp í andvirði hinna pöntuðu vara. Þá skyldi stórkaupmanninum þar að auki sent allt andvirði efnisins, timbursins, í hina væntanlegu byggingu Kaupfélagsins, vörugeymsluhúsið, sem byggja skyldi þá um haustið (1909), kr. 8000,00.
Nú óska ég að birta hér dálítinn kafla orðréttan úr frumheimildinni um orð formannsins á fundinum: „Ennfremur tjáir nefndur stórkaupmaður, að þó þessir peningar verði sendir fyrirfram, og að fiskur sá, sem félagið kann að hafa á boðstólum í sumar, verði seldar öðrum en honum sjálfum, þá reikni hann sér 5% fyrir innkaup á vörum og „konto kurant“ (hlaupareikningur) að auki miðað við hæstu vexti í National-bankanum í Kaupmannahöfn eða 1% hærri en nefndur banki reiknar sér. Þar að auki skýrir vel nefndur stórkaupmaður frá, að allir „Rabatar“ (ágóði), sem kunni að myndast af innkaupum fyrir nefnt kaupfélag falli þeim sjálfum til en ekki Kaupfélaginu Herjólfi, en selji þeir sjálfir fiskinn fyrir það, reikna þeir sér 2 1/2% í ómakslaun. Ennfremur ber Kaupfélaginu Herjólfi að sækja verzlunarfélagið Thor. E. Tulinius og Co. til saka í Sö- og Handelsreten í Kaupmannahöfn, ef mál rís á milli aðilanna.“ Þegar formaðurinn hafði lesið fundarmönnum þessi kjör stórkaupmannsins, urðu fundarmenn felmtri slegnir. Hvernig gátu þeir látið sér koma til hugar önnur eins ókjör eftir alla blíðmælgina, sem ungi verzlunarskólalærði Vestmannaeyingurinn hafði notað, þegar hann var að gylla fyrir þeim hin hagkvæmu og góðu kjör, sem þessi kunni stórkaupmaður byði þeim eða mundi bjóða þeim, ef þeir létu tilleiðast að stofna til viðskipta við hann og til skulda, en margfalda um leið viðskipti félagsins með auknum vörukaupum og hagstæðum sölum á fiskafurðum? Fundarmönnum tók að súrna sáldur í andans augum. Þeir voru slegnir blygðun sökum þess, að þeir höfðu látið ginna sig svona herfilega. Trúgirni og tál. Tæld var einföld sál! —
Með einróma samþykkt fundarmanna var ungi, verzlunarlærði maðurinn úti í henni Kaupmannahöfn, þegar settur af framkvæmdastjórastöðunni. Jafnframt var einn af stjórnarmönnum félagsins ráðinn framkvæmdastjóri Kaupfélagsins Herjólfs. Það var Jón Einarsson á Gjábakka. Svo fór um sjóferð þá.
Halldór læknir Gunnlaugsson, formaður kaupfélagsins, réði mestu um þessar samþykktir fundarmanna, enda hafði hann um sárast að binda.
Hinn nýráðni framkvæmdastjóri, Jón Einarsson, fór þegar til Reykjavíkur og festi kaup á vörum handa kaupfélaginu hjá Garðari Gíslasyni og Hay með þeim skilmálum, að félagið greiddi 500 pund sterlings strax upp í andvirði varanna. Til þess að leysa út gjaldeyri þennan skyldi seldur víxill í Íslandsbanka. Samþykkjandi á víxlinum skyldi vera heildverzlunarfyrirtækið Garðar Gíslason og Hay en útgefandi og ábekingur skyldi vera Jón Einarsson framkvæmdastjóri f.h. Kaupfélagsins Herjólfs. Svo var um samið, að heildsölufyrirtækið reiknaði sér engin ómakslaun af seldum vörum, ef Kaupfélagið yrði skuldlaust við það 11. september um haustið. Jafnframt gerði kaupfélagið skuldbindandi samning við Garðar Gíslason og Hay um kolakaup í stærri stíl. Skyldi verð þeirra vera kr. 2,62 fyrir skippundið (160 kg eða um 320 pund) komið á Víkina í Vestmannaeyjum. Fyrir andvirði kolanna tók fyrirtækið veð í þeim fiski, sem kaupfélagið kæmi til með að fá til sölu á sumrinu.
Nokkru síðar samdi framkvæmdastjórinn einnig um kaup á salti hjá þessu fyrirtæki til handa útvegsbændum í kaupfélaginu. Verðið var 17-18 krónur hver smálest.
Um miðjan ágústmánuð 1909 hélt stjórn kaupfélagsins fund með félagsmönnum. Þar tilkynnti formaður félagsins útvegsbændum, að verð á fiski þeim, sem félagið kæmi til að selja fyrir þá, yrði sem hér segir:
Spánarfiskur nr. 1 greiddur kaupfélagsmönnum á kr. 61,00 hvert skippund, og fiskur nr. 2 á kr. 44,00 sama þyngd.
Fund þennan sat hinn ungi og verzlunarlærði Vestmannaeyingur, sem settur hafði verið af framkvæmdatjórastöðunni, meðan hann spókaði sig við vörukaupin og afurðasöluna þarna úti í henni Kaupmannahöfn. Sagðist hann á fundinum líta enn á sig framkvæmdastjóra kaupfélagsins, þar sem honum hefði aldrei borizt neitt uppsagnarbréf eða verið sagt upp stöðunni á löglegan hátt. Jafnframt krafðist hann launa frá kaupfélaginu fyrir störf sín í þágu þess.
Hannes Jónsson, hafnsögumaður í Miðhúsum vildi miðla málum á fundinum og kom fram með þá tillögu, að kaupfélagið greiddi unga manninum einhverja þóknun. Enginn greiddi þeirri tillögu atkvæði. Það sannar bezt, hve gremja fundarmanna var bitur og vonbrigðin sár.
Hinn 2. september (1909) var haldinn almennur fundur í Kaupfélaginu Herjólfi. Þar voru m.a. lagðir fram ársreikningar Kaupfél. Vestmannaeyinga fyrir árið 1908, þetta eina starfsár þess. Þeir skyldu fást samþykktir á fundinum. Reis þá ágreiningur með fundarmönnum: Var Kaupfélagið Herjólfur arftaki Kaupfélags Vestmannaeyinga eða var það því gjörsamlega óháð? Að lokum var gengið til atkvæða um það mál og samþykkt nær einróma, að Kaupfélaginu Herjólfi kæmi Kaupfélag Vestmannaeyinga ekkert við. Það yrði því gert upp án nokkurra afskipta Kaupfélagsins Herjólfs eða fundar þess. Þrátt fyrir þessa samþykkt fundarmanna, gengu þeir Sigurður hreppstjóri og Árni gjaldkeri í Kaupfélagið Herjólf og gjörðust þar virkir starfskraftar til þess að fylgja sem öflugast fram samvinnuhugsjóninni í kauptúninu. Samvinnuhugsjónina og bætta verzlunarhætti til hagræðis Eyjafólki í heild mátu þessir menn meira en ágreining um skuldaverzlun eða hið gagnstæða. Enda var það þegar viðurkennt af öllum, að Kaupfélagið Herjólfur eins og Kaupfélag Vestmannaeyinga árið áður, hefði þá þegar haft mikil áhrif á almennt afurðaverð til mikils hagræðis útvegsbændum. Jafnframt hefði það stuðlað að mikilli lækkun á verði allrar neyzluvöru í kauptúninu.
Fyrir forustustarf sitt og brennandi áhuga á þessum hagsmunamálum Vestmannaeyinga hlaut héraðslæknirinn Halldór Gunnlaugsson og nánustu samstarfsmenn hans almennt lof og traust Eyjamanna.
Í marzmánaðarlokin 1910 var haldinn aðalfundur hins unga kaupfélags. Hann var haldinn í Þinghúsinu, sem jafnframt var barnaskólahúsið í byggðarlaginu, húseignin Borg nr. 3 við Heimagötu. A fundi þeim var stjórn kaupfélagsins að mestu leyti endurkjörin. Halldór læknir hlaut 67 atkvæði, Þorsteinn í Laufási 56 atkv., Magnús á Vesturhúsum 65 atkv., Gísli í Stakkagerði 43 atkv. og Erlendur Árnason, smiður á Gilsbakka, 33 atkv.
Nú skyldu gjörðar breytingar á lögum kaupfélagsins. Til þess starfs voru kjörnir hinir fyrrum forustumenn Kaupfélags Vestmannaeyinga, Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson og Árni gjaldkeri Filippusson. Þeim var bezt til þess trúandi.
Á aukafundi í félaginu 21. sept 1910 var mjög til umræðu allur sá rógur, sem spunnizt hafði utan um starfsemi Kaupfélagsins Herjólfs á liðnu sumri. Virðist stjórnin hafa boðað til þessa fundar til þess að kveða hann niður, veita félagsmönnum svör við ýmsum spurningum, svo að þeir vissu hið sanna um rekstur þess og áhrif til hins betra í daglegum viðskiptum alls almennings í kauptúninu. Á fundi þessum hélt Magnús Guðmundsson ræðu. Óska ég að birta kafla úr henni. Á milli orðanna má álykta um uppsprettu rógsins á starf félagsins o.s.frv. Þar segir í frumheimild: „Magnús Guðmundsson talaði um nauðsyn kaupfélagsins, og hve áríðandi væri, að góður andi ríkti innan þess félagsskapar og hve mikið það hefði að segja, að menn töluðu svo vel um hann, sem hann verðskuldaði. Gat hann þess, að óhyggilegt væri fyrir einn og sérhvern að taka trúanleg orð kaupmanna um hann vegna þess, að það væri öllum vitanlegt, að þeim væri illa við slíkan félagsskap.“ —
„Þorsteinn Jónsson, Laufási, skýrði frá, að hann hefði heyrt menn segja, að vörur í félaginu væru ekki ódýrari en hjá kaupmönnum. Ef svo væri, þá væri það félaginu að þakka ... og bæri að þakka því hið fallandi verð á flestum útlendum vörum hér ...“
Hin 22. jan. 1911 samþykkti almennur fundur í kaupfélaginu hin nýju lög, er Sigurður hreppstjóri og Árni gjaldkeri höfðu þá lokið við að semja fyrir félagið í samvinnu og í samráði við stjórn þess, og þá fyrst og fremst formann þess, Halldór lækni. Áður en fundi lauk, var samþykkt að kosta til prentunar á lögunum. Þess vegna hefi ég þessi lög í hendi mér og óska að láta prenta hér nokkra kafla úr þeim til þess að gefa til kynna og undirstrika hugsjónir þeirra manna, sem beittu sér fyrir hagsbótastarfi Kaupfélagsins Herjólfs hf. hér í Vestmannaeyjum.

2. grein. Tilgangur félagsins er: a) Að safna stofnsjóði — veltufé — með hlutum frá félagsmönnum til þess að geta ávallt keypt útlendan varning sem mest gegn borgun út í hönd.
b) Að safna varasjóði til að tryggja framtíð félagsins.
c) Að fækka svo sem auðið er öllum óeðlilegum milliliðum í verzlunarviðskiptum.
d) Að útvega félagsmönnum sem beztar vörur með svo góðu verði sem unnt er, og koma innlendum afurðum í svo hátt verð sem auðið er.
e) Að auka þekkingu félagsmanna, einkum í því er snertir samvinnu, félagsskap, verklegar framkvæmdir, vöruvöndun o. fl.

3. grein. Félagsmaður er hver sá, er kaupir a.m.k. eitt af stofnbréfum félagsins, er hljóða upp á 25 krónur. Af þeim, er hlutabréf hafa og panta vörur í félaginu, sem og utanfélagsmönnum, getur framkvæmdastjórn eða stjórn félagsins heimtað tryggingu.

Úr 8. grein. „ ... Félagsmenn einir hafa atkvæðisrétt á fundum þannig: að eitt atkvæði skal vera fyrir þann, er á 1—5 stofnbréf; 2 atkvæði fyrir 5—10 stofnbréf; 3 atkv. fyrir 10—15 stofnbréf og 4 atkv. fyrir 15—20 stofnbréf. Þó á enginn rétt til að greiða meira en 5 atkvæði um félagsmál ...“

14. grein. Framkvæmdastjóri hefur ábyrgð á því fyrir stjórninni — en stjórnin fyrir félaginu, að ekkert fari forgörðum af eignum eða skjölum félagsins, er hann getur að gjört, hvort heldur er fyrir óvarkárni eða hirðuleysi.

15. grein. Stjórn félagsins og starfsmenn semja skrá yfir þær útlendar vörur, sem hún vill láta útvega félagsmönnum, og þær innlendu vörur, sem hún vill annast um sölu á fyrir þá, og ákveður svo hver einstakur félagsmaður, hverjar og hve miklar vörur hann vill fá keyptar eða seldar fyrir milligöngu félagsstjórnarinnar. Þegar félagið álítur sér fært að láta kaupa vörur til útsölu, útvegar félagsstjórnin þær og leggur útsöluverð á þær jafnt fyrir félagsmenn og utanfélagsmenn.

16. grein. Allar vörur, sem félagið útvegar einstökum félagsmönnum, sem utanfélagsmönnum, og þeir veita móttöku og borga á tilteknum tíma, skulu þeir fá með minnsta álagi, er stjórn félagsins sér sér fært að leggja á vörurnar. Sama gildir með útsölu á innlendri vöru, hvort heldur hún er til lúkningar skuldar í félaginu (andvirði pantaðrar vöru), eða félagið skal greiða andvirði hinnar innlendu vöru í peningum.

18. grein. Eigi bera félagsmenn frekari ábyrgð á skuldum félagsins, en að því er stofnfé þeirra nær til.

19. grein. Flytji hluthafi frá Vestmannaeyjum, á hann heimtingu á, að hlutabréf hans séu innleyst með ákvæðisverði, — sömuleiðis erfingjar, ef hluthafi deyr. — (Sjá þó grein 18).

20. grein. Ágreiningsmál, er rísa kunna milli stjórnar og félagsmanna, eða stjórnar og starfsmanna félagsins, skulu lögð í gerð, og kjósa málsaðilar sinn gerðarmanninn hvor og þeir oddamann. Kostnað við gerðina greiðir sá, er málið fellur á.“

Ég hefi hér hlaupið yfir þær greinar laganna, sem fela í sér ákvæði almennra félagslaga þann dag í dag.
Svo sem lögin bera með sér, er Kaupfélagið Herjólfur fyrst og fremst pöntunarfélag og afurðasölufélag, sem þó er byggt upp eins og hvert annað hlutafélag um atkvæðavald og ábyrgð félagsmanna (samanber 18. greinina) enda er félagið iðulega nefnt Hf. Herjólfur.
Hin persónulega allsherjarábyrgð á lántökum félagsins, sem félagsmenn urðu að ganga undir fyrsta rekstrarárið, féll úr gildi að því ári liðnu.
Á aðalfundi félagsins 1. maí 1911, ræddi formaður þess, Halldór læknir, um félagsskapinn í heild og taldi hag hans alveg viðunandi. Flesta byrjunarerfiðleika taldi hann sigraða að mestu. Aðalhættu félagsins taldi formaður stafa af veilu innanfrá, - „frá félagsmönnum sjálfum, svo sem fyrir tortryggni eða aðra slæma framkomu í garð félagsins,“ svo að greind séu hér hans eigin orð.
Þegar formaður bar upp endurskoðaða reikninga félagsins til samþykktar, greiddu örfáir fundarmenn þeim atkvæði. Allur þorri þeirra sat hjá. Þannig var andinn í fundinum þeim og félagsmönnum.
A fundi þessum gat formaður þess, að stjórn félagsins væri búin að útvega félaginu góða lóð til þess að byggja á vörugeymslu- og afgreiðsluhús, - lóð austan við Bæjarbryggjuna, suður og vestur af Hrófunum. Naumast tók nokkur félagsmanna til máls um þetta framtak félagsstjórnarinnar. Þarna reis hið stóra hús, sem síðar hlaut nafnið Geirseyri og var rifið fyrir fáum árum. Þegar leið á árið 1911 fór að bera á bágborinni eða slæmri samvinnu framkvæmdastjóra félagsins við stjórnina. Taldi hann, að stjórninni kæmi sumt ekkert við um skuldbindingar o.fl. á vegum félagsins. Undir áramótin 1911/1912 fól stjórnin tveim samstjórnarmönnum sínum að gera athugun á vöru- eða útlánum framkvæmdastjórans til ýmissa manna í kauptúninu og svo skuldasöfnun félagsins við stórkaupmenn. Við athugun þessa kom í ljós, að félagið átti útistandandi hjá Eyjabúum um 45 þúsundir króna og skuldaði á sama tíma stórkaupmönnum nálega 134 þúsundir. Stjórninni þótti þessar tölur uggvænlegar, en fékk lítil svör með axlaypptingu hjá framkvæmdastjóranum.
Í byrjun ársins 1912 samþykkti stjórnin að gefa félagsmönnum upp eftirfarandi verð á fiski eftir því sem tilboð fiskkaupenda lágu fyrir þá: Verð á þurrkuðum þorski nr. 1 kr. 60,00 hver 160 kg (skpd); á þorski nr. 2 kr. 45,00 hver 160 kg, á löngu kr. 53,00; á ýsu nr. 1 kr. 32,00, og á smáfiski kr. 45,00 hver 160 kg. Verð á þurrum sundmaga var afráðið kr. 0,50 pundið (kr. 1,00 hvert kg), hvít ull 65 aura pundið, mislit ull 50 aura pundið og haustull 45 aura pundið. Þessar tölur birti ég hér til gamans og fróðleiks íhugulum lesendum Bliks.
Eftir aðalfund félagsins 20. apríl 1912 má svo að orði komast, að Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum annist formennsku félagsins, enda þótt Halldór héraðslæknir væri áfram í stjórninni með óskertu trausti félagsmanna. Ef til vill hafa annir hans í embættinu hamlað starfi hans fyrir félagið.
Hinn 21. júní 1912 sendi félagsstjórnin framkvæmdastjóra sínum svolátandi bréf:

„Herra framkvæmdastjóri
Jón Einarsson.

Við höfum athugað yðar heiðruðu athugasemdir og svör við samningsformi því, er við lögðum fyrir yður til athugunar. Við höfum í sem fæstum orðum lítið annað við þeim að segja en það, að við höfum ekki ætlað að breyta þar verulegu til með samningum í aðalatriðum við þann framkvæmdastjóra, er við hugsuðum okkur að hafa. Hins vegar vildum við benda yður á lög félagsins Herjólfs, og hvað stjórnina snertir þá geymum við okkur þar fullan rétt. Við viljum í sambandi við þetta alvarlega skora á yður í tíma, að þér undirbúið yður að innheimta skuldir, svo að þær verði sem minnstar um næstu áramót, og til hliðsjónar af því gæta þess að lána ekki þeim, sem ekki eru líkur fyrir, að þá geti verið skuldlausir.
Okkur er það fyllilega ljóst eins og yður er víst einnig, að skuldir inn á við um áramót, þegar félagið á að standa í skilum út á við, er félaginu til hins mesta niðurdreps. Nú virðist, að félagið fari að súpa af því seyðið, að þér svo mjög brugðust trausti okkar með því að lána svo mikið í fyrra.
Við höfum áður skrifað yður um þetta atriði og jafnframt óskað eftir góðri samvinnu við yður, en því miður ekki fengið neitt svar. Þrátt fyrir það leyfum við okkur enn á ný að óska eftir góðri samvinnu við yður þann tíma, sem við kunnum að eiga óunnið saman, því að það er sannfæring vor, að þess sé full þörf, og hefði hún verið nógu góð undanfarið og þér gætt þess að fylgja lögunum í því efni, mundi sumt hafa farið betur í störfum og framkvæmdum félagsins.

Með virðingu.
Í stjórn h.f. Herjólfs
Magnús Guðmundsson
Halldór Gunnlaugsson
Sveinn P. Scheving
Þorsteinn Jónsson
Gísli Lárusson

Fram eftir öllu sumri fóru fram samningaumleitanir milli stjórnarinnar og ýmissa fiskkaupmanna um verð á afurðum, sem stjórnin hafði til sölu fyrir félagsmenn. Símskeyti send um verð og magn vörunnar, þjarkað og þrefað. Valdimar Ottesen hafði verið starfsmaður félagsins um sinn. Hann virðist hafa ætlað að nota aðstöðu sína í starfi fyrir félagið til þess að skara eld að sinni eigin köku, svo að stjórnin neyddist til að segja honum upp starfa og losa sig við hann. Hann hafði safnað skuldum við félagið.
Á fundi stjórnar félagsins 9. sept. 1912 er rætt mikið og ýtarlega um fjárhag félagsins og rekstur. Komst stjórnin að þeirri niðurstöðu, að félagið skorti mjög veltufé sökum þess, hve mikið fé væri fast í útistandandi skuldum, sem trauðlega fengjust greiddar fyrir áramótin næstu.
„ ... aðalásteytingarsteinninn er oflítið veltufé og svo einkennilegur skortur á lánstrausti, að helzt lítur út fyrir, að félagið megi hætta störfum innan skamms,“ eins og segir í fundargerðarbók stjórnarinnar.
Seinast í sept. 1912 barst stjórn Kaupfélags Herjólfs h.f. bréf frá framkvæmdastjóranum Jóni Einarssyni, þar sem hann segir upp stöðu sinni með 6 mánaða fyrirvara. Stjórnin samþykkti, að hann hyrfi frá framkvæmdastjórastarfinu þegar á næsta degi. Jafnframt tilkynnti stjórnin honum, að hann fengi kaup sitt greitt í 3 mánuði, eða til áramóta.
Þegar til átti að taka og stjórnin ætlaði að sækja lyklana að húsakynnum kaupfélagsins, neitaði framkvæmdastjórinn að afhenda þá. Var þá leitað lögfræðilegrar aðstoðar í Reykjavík. Átök þessi fengu þann endi, að Karl sýslumaður Einarsson skarst í málið. Afhenti þá hinn fráfarandi framkvæmdastjóri lyklana.
Nú var Árni Gíslason Lárussonar í Stakkagerði ráðinn til að veita félaginu forstöðu til næstu áramóta. Þótti þó mikið á hann lagt, 23 ára manninn! Laun hans skyldu vera kr. 150,00 á mánuði þessa þrjá mánuði, sem eftir voru af árinu.
Brátt var svo fast að félaginu sótt sökum skulda við stórkaupmenn, að stjórnin sá engin tök á því að reka félagið áfram, nema einhver ráð yrðu fundin til þess að greiða stærstu skuldaeigendunum. Jafnframt var afráðið að kalla saman almennan fund í félaginu og greina félagsmönnum frá, hvernig komið var hag félagsins. Sá fundur var haldinn 26. okt. Í ljós kom, að félagið hafði tapað á verzlunarrekstri sínum kr. 3.900,00 frá s.l. áramótum. Það var geysimikið tap þá á ekki lengri tíma. Ekki gat fráfarandi framkvæmdastjóri gert fundarmönnum, sem einungis voru hluthafar í félaginu, grein fyrir þessu mikla tapi. Síðast var samþykkt tillaga þess efnis, að stjórnin kysi sér sjö félagsmenn sér til aðstoðar til þess að athuga fjárhagsstöðu félagsins og gera síðan að vel athuguðu máli tillögu um framhaldandi rekstur félagsins eða félagsslit. Stjórnin kaus sér þessa aðstoðarmenn: Geir Guðmundsson á Geirlandi, Helga Jónsson í Steinum, Högna Sigurðsson í Baldurshaga, Jón Einarsson á Hrauni, Ólaf Auðunsson, Hnausum (nú Sólnes, nr. 5 A við Landagötu), Magnús Þórðarson í Dal og Sigurð Sigurfinnsson á Heiði.
Þrem dögum síðar hélt stjórn félagsins aftur fund með sér og „ráðgjöfum“ sínum. Nú var verulega illt í efni: Bréf hafði borizt frá stórkaupmanninum Jakob Gunnlögssyni í Kaupmannahöfn þess efnis, að hann mundi brátt ganga að félaginu, ef hann fengi ekki greiddar þær skuldir, sem Kf. Herjólfur stæði í við hann. Námu þær rúmum 25 þúsundum króna. Fyrir skuldum þessum hafði stórkaupmaðurinn veð í verzlunarhúsi félagsins. Hér með hófust látlausar skuldakröfur á félagið. Nú var Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum formaður þess, svo að fjárhagsvandræðin og baráttan við kröfuhafana bitnaði hvað mest á honum. Læknirinn virðist nú draga sig mjög í hlé frá öllu starfinu. Þó var hann í stjórn félagsins og mætti þar mjög oft á stjórnarfundum, en skrifaði aldrei undir neina fundargerð stjórnarinnar, eftir að Magnús Guðmundsson var kosinn formaður félagsins 1912. Segja má, að uppgjörið á Kaupfélaginu Herjólfi hf. stæði með litlum hvíldum til ársins 1916. Innheimta þurfti sem mest af öllum útistandandi skuldum hjá Eyjabúum, selja hús félagsins og aðrar eignir, mæta fyrir sáttanefnd og í héraðsrétti vegna málaferla o.fl. o.fl.
Eignir félagsins voru sem hér segir:
1. Verzlunarhúsið, sem það hafði keypt af Lyder Höydal og hann hafði byggt hér í Eyjum nokkru eftir aldamótin. Það hús hefur nú lengi borið nafnið Þingvellir og stóð nokkrum húsbreiddum norðar en nú.
2. „Pakkhús“ félagsins, sem það hafði nýlega lokið við að byggja, þegar ósköpin dundu yfir. Síðar bar þetta hús nafnið Geirseyri. Það stóð við Bæjarbryggjuna austanverða og neðan við Strandveginn. Sneri það stafni að bryggjunni. Síðast eignaðist Einar Sigurðsson, hraðfrystihúsaeigandi þetta hús og lét rífa það árið 1969.
3. Bræðsluskúr með öllum tækjum.
4. Kolaport.
5. Uppskipunarbátur. Allar vörur voru fluttar úr skipum utan af ytri höfn, Víkinni, inn að bryggju.
6. Verzlunaráhöld öll.
7. Vörubirgðir.
8. Útistandandi skuldir.
Allt voru þetta töluverðar eignir, ef heppnin yrði með um sölu á þeim. Vonir stóðu því til að megin skuldanna yrði greitt, ef vel tækist til um sölu á eignunum.
Í júní 1913 var endanlega samþykkt að leysa Kaupfélagið Herjólf upp og selja eignir þess til lúkningar á skuldum. Þá hafði á undanförnum mánuðum verið efnt til útsölu á vörum og nokkuð af beztu vörunum verið selt til verzlana í bænum. Magnús Þórðarson í Hvammi keypti bræðsluskúr K.f. Herjólfs með öllum áhöldum fyrir kr. 1000,00.
Brillouin, fyrrverandi Frakklandskonsúll í Reykjavík, sem um þessar mundir var að móta beinamjölsverksmiðju á Eiðinu í Vestmannaeyjum, keypti uppskipunarbát K.f. Herjólfs fyrir kr. 600.00.
Loks samdist svo um, að Valdimar Ottesen, sem hug hafði á verzlunarrekstri í Eyjum, keypti verzlunarhús félagsins, Þingvelli, fyrir kr. l8.000,00. Lét hann konu sína, frú Sigríði Eyjólfsdóttur, kaupa húsið eða hafa það á sínu nafni. Þar efndi síðan Valdimar Ottesen til verzlunarreksturs, sem sætti að lokum svipuðum örlögum og verzlunarrekstur K.f. Herjólfs.
Sigurgeir Torfason kaupmaður í Reykjavík, hreppti að lokum „pakkhús“ félagsins, sem hann kallaði síðan Geirseyri. Söluverð mun hafa verið 16 þúsundir króna. Hann lét smíða vélbáta í Eyjum og efndi þar til útgerðar.
Maður undir mannshönd gekk í það að innheimta útistandandi verzlunarskuldir Kaupfélagsins Herjólfs hf., en lítið var þeim ágengt. Afskrifað var að fullu kr. 10.000,00 eða þar um bil, sem vonlaust var að innheimta af skuldum þeim. Loks varð Jakob Gunnlögsson stórkaupmaður í Kaupmannahöfn að gefa eftir af innstæðu sinni hjá félaginu kr. 5000,00. Annað fékk hann greitt. Sumt með krókaleiðum.
Árið 1916 gerði dr. Alexander Jóhannesson í Reykjavík mikla skuldakröfu á Kaupfélagið Herjólf hf. Doktorinn taldi sig hafa í höndum og eiga sjálfur 96 hlutabréf í fyrirtækinu og hótaði málsókn, yrðu þau ekki endurgreidd strax. Engin tök voru á því, og stefndi hann þá stjórn félagsins, hóf málsókn. Magnús Guðmundsson og Gísli Lárusson mættu í máli þessu f.h. félagsins. Engar sættir urðu þar, og mun svo mál það hafa fjarað út í sandinn.
Síðasti stjórnarfundur Herjólfs var haldinn 6. apríl 1916. Þá hafði stjórn félagsins staðið í látlausu skuldafargani, málssóknum og málsvörnum m.m. undanfarin 3 ár.


3. Kaupfélagið Bjarmi

Þegar útséð var um það, að Kaupfélagið Herjólfur yrði að leggja upp laupana, stofnuðu nokkrir útgerðarmenn, sem þar höfðu notið hagkvæmra viðskipta, nýtt hlutafélag. Þetta félag kölluðu þeir Bjarma. Það var stofnað með hlutafé 25 stofnenda og þess vegna kallað hlutafélag fyrst um sinn. Stofndagur þess hinn fyrsti var 25. jan. 1914. Þá komu stofnendurnir á fund í Goodtemplarahúsinu á Mylluhól og afréðu að stofna félagið. Kristmann Þorkelsson, yfirfiskimatsmaður, stjórnaði fyrsta fundi. Þegar var rætt um það að verja meginhluta stofnfjárins til þess að byggja hús, þar sem starfsemi félagsins færi fram. Megin markmiðið skyldi vera pöntun á öllum neyzluvörum og svo útgerðarvörum handa félagsmönnum, enda allt útgerðarmenn, sem stóðu að stofnun hlutafélags þessa. Þá skyldi félagið annast sölu á afurðum félagsmanna.
Lögð höfðu verið drög að því að fá hentuga lóð undir húsbyggingu félagsins o. fl. Kaupa skyldi kálgarð norðan við húseignina Frydendal og byggja húsið þar. Ekkjan á Eystri-Vesturhúsum, frú Valgerður Eiríksdóttir átti afnotaréttinn að kálgarðinum þeim.
Kosin var þriggja manna nefnd til þess að hefja framkvæmdir: panta timbrið í húsið og sement, semja uppkast að lögum og festa félaginu byggingarlóð. Þessir menn hlutu sæti í nefndinni: Geir útgerðarmaður Guðmundsson á Geirlandi, Högni Sigurðsson í Baldurshaga og Gísli Lárusson, gullsmiður og útgerðarmaður í Stakkagerði. Til framtaks og ráða kusu stjórnarmenn með sér Magnús Guðmundsson, útvegsbónda á Vesturhúsum. Hann hafði verið stoðin sterka í K.f. Herjólfi, enda þótt hann fengi þar ekki reist rönd við gæfusnauðum rekstri, sem aðrir, og þó sérstaklega einn maður, átti sök á.

Gísli Lárusson, gullsmiður m.m., Stakkagerði.

Loks 15. apríl (1914) var aðalstofnfundar Hf. Bjarma haldinn á sama stað og áður. Þá lá fyrir frumvarp að lögum félagsins. Fleira hafði verið gert til þess að félagið gæti þá þegar tekið til starfa og unnið að hag félagsmanna.
Hér skrái ég lög félagsins, sem fundarmenn samþykktu í einu hljóði, enda borin áður undir félagsmenn til athugunar og þeir gert sínar athugasemdir við þau. Höfðu þær verið teknar til greina.

Lög Hf. Bjarma:
1. Félagið heitir Bjarmi. Heimili þess og varnarþing er í Vestmannaeyjum.
2. Tilgangur félagsins er að útvega félagsmönnum sem beztar vörur við svo góðu verði sem unnt er og að koma innlendum afurðum í sem hæst verð.
3. Skyldur er hver félagsmaður, er pantar vörur hjá félaginu, að veita þeim móttöku, þegar hann hefur fengið tilkynningu frá félagsstjórninni um að varan sé komin til félagsins.
4. Félagsmaður er hver sá, sem skrifar undir lög félagsins og kaupir eitt hlutabréf, er hljóðar upp á 200 krónur. Skal fé því varið til húsbyggingar og kaupa á nauðsynlegum verzlunaráhöldum. Félagatala má ekki fara fram úr 25.
5. Stofnbréf skal hljóða upp á nafn eiganda, en vilji hann selja það eða flytja úr sýslunni, skal hann skyldur að selja það stjórninni, sem þá kaupir það fyrir félagsins hönd með ákvæðisverði, en vilji stjórnin ekki kaupa bréfið fullu verði, má handhafi selja það öðrum.
Glatist hlutabréf, skal eigandi tilkynna stjórn félagsins það, og hún á hans kostnað annast um, að bréfið verði innkallað með auglýsingu birtri á venjulegan hátt í Vestmannaeyjum. Gefi enginn sig fram með bréfið innan þriggja mánaða frá auglýsingardegi, skal eigandi hins glataða stofnbréfs fá annað í þess stað.
6. Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok janúarmánaðar ár hvert, en aukafund má halda, ef 2 menn úr stjórninni eða þriðjungur félagsmanna óska þess.
Fundir félagsmanna eru lögmætir, ef meiri hluti stjórnar og annarra félagsmanna eru mættir. Félagsmenn einir hafa atkvæðisrétt þannig, að hver félagi hefur eitt atkvæði.
7. A fundum má ræða og taka ákvörðun um hvað eina, sem félagið varðar. Á aðalfundi skal leggja fram til úrskurðar reikninga félagsins:
a) Rekstrarreikning.
b) Efnahagsreikning frá næstliðnu ári með fylgiskjölum ásamt athugasemdum endurskoðenda. Skal þá skipt ágóða eða halla félagsins frá næstliðnu ári jafnt milli allra félagsmanna, nema aðalfundur samþykki með löglegri atkvæðagreiðslu aðra ráðstöfun. Þá skal og kjósa stjórnarnefnd og endurskoðunarmenn til eins árs.
8. Stjórnin skal skipuð 5 mönnum, sem eru formaður, varaformaður, ritari og meðstjórnendur. Auk þess skal kjósa 2 menn til vara, er sæti taka í stjórninni, ef einhver úr henni er forfallaður.
9. Stjórnin hefur framkvæmdir allra félagsmála, reikningsfærslu félagsins og viðskipti þess utanlands og innan; hún boðar til allra funda í félaginu og stjórnar þeim, annast um að allar ályktanir fundarins séu bókaðar í fundarbók félagsins, heldur stjórnarfundi, þegar þurfa þykir, og er sá fundur lögmætur, þegar meiri hluti hennar mætir.
10. Allir samningar og skuldbindingar, er stjórnin gjörir eða undirskrifar fyrir félagsins hönd, eru bindandi fyrir félagið; þó skal stjórnin um öll stærri mál leita álits félagsmanna.
11. Með því að enginn félagsmaður má skulda í bókum félagsins fyrir pöntun eða vörukaup lengur en stjórnin ákveður í hvert skipti, getur stjórnin heimtað fyrirfram tryggingu af einstökum félagsmönnum, nema lögmætur fundur samþykki með atkvæðagreiðslu pöntun hans.
12. Á skuldum félagsins bera allir félagsmenn ábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn.
Félagið getur hætt að starfa og ráðstafað eignum sínum, ef það á almennum fundi félagsmanna, þar sem mættir eru 2/3% allra félagsmanna, samþykkir að svo skuli gjört með 2/3% atkvæða þeirra, sem fund sækja.
Þegar þannig hefur verið samþykkt á fundi, sem formaður hefur boðað til með viku fyrirvara, að félagið skuli leysast upp, skal stjórnin koma í peninga öllum munum félagsins svo fljótt og haganlega, sem við verður komið.
Þegar allar skuldir eru greiddar, sem félagið kann að eiga óborgaðar, skiptist afgangurinn jafnt upp á stofnbréf allra félagsmanna.
14. Lögum þessum má breyta og bæta við þau á lögmætum fund, ef það er samþykkt með 2/3% atkvæðanna, er á fundi eru.
Hér skrifa svo stofnendur Kf. Bjarma undir lög félagsins:

1. Gísli Lárusson.
2. Magnús Guðmundsson.
3. Ólafur Auðunsson.
4. Högni Sigurðsson, Baldurshaga.
5. Geir Guðmundsson.
6. Þorsteinn Jónsson, Laufási.
7. Jón Einarsson, Hrauni.
8. Sigurður Ingimundars., Skjaldbr.
9. Helgi Guðmundsson, Steinum.
10. Magnús Þórðarson.
11. Magnús Ísleifsson, London
12. Helgi Jónsson.
13. Bernódus Sigurðsson.
14. Vigfús P. Schevmg, Vilb.stöðum.
15. Sveinn P. Scheving, Steinsstöðum.
16. Kristján Egilsson, Stað.
17. Kristján Ingimundarson, Klöpp.
18. Stefán Guðlaugsson, Gerði.
19. Friðrik Svipmundsson, Löndum.
20. Vigfús Jónsson, Holti.
21. Einar Símonarson, London.
22. Jón Ingimundarson, Mandal.
23. Stefán Björnsson, Skuld.
24. Símon Egilsson, Miðey.
25. Kristmann Þorkelss., yfirfiskimatsm.


Eins og lög félagsins bera með sér, var Bjarmi sambland af pöntunarfélagi og hlutafélagi. Rekstrarfjár var aflað með sama hætti og um hlutafélag væri að ræða. Þess vegna var félagið kallað hlutafélag. En ábyrgð lélagsmanna nam meira en hlutafénu. Hún var ótakmörkuð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, eins og venjan var í kaupfélögunum á þeim tímum, er Bjarmi var stofnaður. En svo var félag þetta lokað; félagsmenn gátu aðeins verið 25, og valdi stjórnin sjálf eða almennur fundur félagsmennina. Þannig var hin takmarkalausa ábyrgð hættuminni. Ofanskráðir félagar voru allir útgerðarmenn í kauptúninu.
Og nú var tekið til óspilltra málanna um rekstur félagsins undir stjórn þessara manna: Gísli Lárusson, formaður; Högni Sigurðsson, Baldurshaga, varaformaður; Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum ritari; meðstjórnendur: Ólafur Auðunsson, Þinghól, og Geir Guðmundsson á Geirlandi. Varastjórnarmenn Jón Einarsson, Hrauni, og Sveinn P Scheving, bóndi að Steinsstöðum.
Stjórnin sjálf hafði á hendi allar framkvæmdir félagsins. Skiptu stjórnarmenn stundum með sér verkum. T.d. var Högna Sigurðssyni falið að annast framkvæmdir við byggingu félagshússins, sem byggja skyldi í kálgarði ekkjunnar á Eystri-Vesturhúsum. Félagsstjórnin greiddi henni kr. 150,00 fyrir réttindin á kálgarðinum. Það voru ódýr lóðakaup! Aðrir stjórnarmenn leituðu tilboða hjá kaupmönnunum hér og víðar um kaup á veiðarfærum handa félagsmönnum og svo vörum til heimilanna. Þá þurfti einnig að leita tilboða í fisk félagsmanna og annast kaup á salti handa þeim. Keppnin um viðskiptin hafði drjúg áhrif á verð allrar nauðsynjavöru til lækkunar, og svo til hækkunar á söluverði afurðanna. Eftir fyrstu fisksöluna gat félagið greitt félagsmönnum 82 krónur fyrir skippundið (160 kg) af fyrsta flokks fiski. Það þótti gott verð og hagstætt framleiðandanum.
Þegar leið á haustið 1914 gat stjórnin haldið félagsfundi í hinu nýbyggða „pakkhúsi“ félagsins, sem það hafði byggt um sumarið, - að mestu leyti í júlí og ágúst.
Á vertíð næsta vetur (1915) seldi Bjarmi smálestina af saltinu fyrir kr. 31,00 og þótti mjög hagstætt verð. Jafnframt bætti félagið upp fiskverðið með 3 krónum hvert skippund af 1. flokks fiski.
Hinn eiginlegi framkvæmdastjóri félagsins var formaður þess, Gísli Lárusson.
Um miðjan ágúst 1915 var haldinn almennur fundur í félaginu og þar tilkynnt, að félagsmenn skyldu afhenda framkvæmdastjóra daginn eftir lista yfir þær heimilisnauðsynjar, er þeir æsktu að panta hjá félaginu, svo sem rúgmjöl, rúg, hveiti, grænsápu, kex, strásykur, rúsínur, sveskjur, sætsaft, haframjöl og sagogrjón, svo að eitthvað sé nefnt svona til fróðleiks og gamans. Vörurnar voru síðan afhentar í hinu nýbyggða „pakkhúsi“ félagsins norðan við Frydendal. Nauðsynjarnar voru að mestu leyti pantaðar frá Nathan og Olsen, Reykjavík.
Í september um haustið gat stjórnin afráðið verð á sjávarafurðunum til félagsmanna. Til fróðleiks skal verðið greint hér:


1. fl. þorskur ... kr. 112,00 skipp.
2. fl. þorskur ... — 112,40 —
Langa ........... ....— 95,20 —
1. fl. ýsa ............ — 74,80 —
og greitt skyldi fyrir hvert pund af
verkuðum sundmaga kr. 0,66.


Þetta haust gerði Gísli J. Johnsen félaginu hagstæðasta tilboðið um kaup á olíu handa félagsmönnum kr. 35,00 hverja tunnu hér á staðnum. Jafnframt bauðst hann til að greiða kr. 4,00 fyrir hverja tóma olíutunnu, en öll olía var þá flutt til landsins á tunnum, eikartunnum, að miklu leyti a.m.k.
Í desember 1915 hreyfði formaður félagsins, G. L., markverðu máli á almennum félagsfundi. Hann bar upp á fundinum þá hugmynd sína, hvort ekki væru tök á að stofna til hlutafélags í byggðarlaginu, sem hefði það markmið að stofna til síldveiða með snurpinót og stórum vélbátum eða vélskipum. Taldi hann, að Eyjamenn væru að dragast aftur úr um þessar framkvæmdir og veiðar. Mál þetta fékk góðar undirtektir manna og skyldi það íhugað nánar.
Sveinn P. Scheving var ráðinn til þess að veita afurðum félagsmanna móttöku í húsi félagsins og skyldi hann hafa 60 aura í kaup fyrir hverja unna klukkustund. Framkvæmdastjórinn fékk greiddar kr. 1800,00 í árskaup 1916, en þau laun voru síðar hækkuð upp í kr. 3000,00 vegna aukinna starfa.
Rétt er að minna á það, að heimsstyrjöldin fyrri var nú í algleymingi, og allt verðlag fór hækkandi ár frá ári. Til samanburðar við fyrri tölur vil ég hér geta þess, að sumarið 1916 var verð á 1. fl. Spánarfiski orðið kr. 129,00 skippundið, og kr. 125,00 af löngu, og hvert kg. af verkuðum sundmaga á kr. 1,55. Allar neyzluvörur hækkuðu gífurlega í verði.
Árið 1916 afréð stjórnin með samþykki félagsmanna að kaupa stóra húsið, sem stóð á Eiðinu, fyrir kr. 9.550,00 og flytja það síðan á starfssvæði félagsins, lóðir þess, við Sjómannasund. Svo var gert og bættu þau húsakaup mjög úr húsrýmiseklu félagsins, sem þurfti mikið húsrými til geymslu á neyzluvörum, salti og ekki sízt afurðum félagsmanna.
Einnig kom Bjarmi á stofn sérstakri lifrarbræðslu til þess að vinna lýsi til útflutningsins úr lifur félagsmanna sinna. Það bræðsluhús stóð við Strandveginn, þar sem íbúðarhúsið og verzlunarhúsið Sandur stendur nú, húsið nr. 63 við Strandveg.
Vegna hinnar miklu grósku í félagsstarfinu, óskuðu fleiri útgerðarmenn að gerast félagar í Bjarma og njóta hagsmuna af starfi félagsins. Í ársbyrjun 1917 sóttu 10 útgerðarmenn um inngöngu í félagið. Til svars við þeirri beiðni var samþykkt á almennum fundi í félaginu að gefa 7 af þessum 10 umsækjendum kost á að kaupa hlutabréf í félaginu. Þrem mönnum var hafnað. Þessir fengu þá að gerast félagsmenn:

1. Guðjón Eyjólfss., bóndi, Kirkjubæ
2. Sigurður Hróbjartsson, Litlalandi
3. Erlendur Árnason, Gilsbakka
4. Jón Jónsson,
5. Ísleifur Sigurðsson, Ráðagerði
6. Bjarni Einarsson, Hlaðbæ.
7. Lárus Halldórsson, Velli.

Heildarumsetning hf. Bjarma nam kr. 362.253,49 árið 1916, sem var þriðja starfsár félagsins. Af upphæð þessari nam andvirði seldra fiskafurða kr. 261.252,21. Þess er að gæta, að sumir stærstu útgerðarmennirnir og um leið aflasælustu formennirnir voru félagsmenn í Bjarma.
Vorið 1917 var allt í óvissu um framtíð alls atvinnureksturs í landinu sökum ófriðarbálsins. Þá bauðst Bjarma 280 smálestir af salti til kaups á kr. 200,00 hverja smálest. Stjórn félagsins hafnaði þessu boði sökum þess, að allt var í óvissu um það, hvort nokkur olía fengist handa bátaflotanum á næstu misserum. Þó útlitið um atvinnureksturinn væri ískyggilegt, sóttu útgerðarmenn í Eyjum um inngöngu í Bjarma og þá að njóta allra félagsréttinda þar. Þannig stóð á því, að stjórn félagsins mælti með því öðru hvoru á almennum félagsfundum, að fleiri mönnum yrði bætt við félagalistann og fengu að skrifa sig inn í félagið. Fátt sannar betur það traust, sem félagsskapur þessi naut með Eyjamönnum undir stjórn Gísla Lárussonar, Magnúsar Guðmundssonar, Geirs á Geirlandi, Þorsteins í Laufási, Högna í Baldurshaga og Ólafs Auðunssonar.
Sumarið 1917 afréð stjórnin að greiða félagsmönnum fyrir lifrina frá síðustu vertíð 54 aura fyrir hvern líter af nr. 1 og 40 aura fyrir lifur nr. 2. Það þótti býsna gott verð þá á framleiðsluvöru þessari, enda átti Bjarmi sjálfur lifrarbræðslu sína og naut þannig hæsta verðs fyrir lýsið.
Þetta sumar seldi Bjarmi saltfisk nr. 1 á kr. 170,00 skippundið og fyrir kr. 164,00 af nr. 2. Það þótti gott verð þá. Langan nr. 1 var seld þá á kr. 160,00 hvert skpd í húsi, þ.e. án umbúða.
Þegar leið á sumarið, greiddist furðanlega úr öllum vandræðunum með kaup á steinolíu og salti. Útgerðarmenn höfðu til tveggja aðila að leita um olíukaupin, Hins íslenzka steinolíufélags og Landsverzlunarinnar.
Sumarið 1918 kostaði smálestin af saltinu útgerðarmanninn kr. 265,00 og kr. 305,00 það salt, sem var flutt til Eyja frá Reykjavík.
Þegar útgerðarreikningar félagsmanna í Bjarma voru gerðir upp eftir vertíðina 1919, kom það berlega í ljós, að þeir höfðu grætt mikið á undanförnum vertíðum og höfðu því töluvert fjármagn undir höndum. Ekki var sú góða afkoma þeirra minnst að þakka félagssamtökunum, útrýmingu milliliðanna. Nú gerðust sumir félagsmenn Bjarma stórhuga og vöktu máls á því, að þeir vildu leggja fé í togaraútgerð. Þó var það ekki hugmyndin, að Bjarmi væri beint við það mál riðinn. Formaður félagsins vakti máls á þessari hugdettu á almennum félagsfundi Bjarma 17. maí 1919. Þorsteinn í Laufási var talinn vera sá fyrsti, sem vakti máls á þessu með félagsmönnum. Talið var eðlilegast, að 5 þúsund króna hlutabréf yrði hið minnsta, sem félagsmönnum yrði gefinn kostur á að kaupa í togarahlutafélaginu. Enginn mótmælti því, og gæti það gefið svolitla hugmynd um hina traustu efnahagsafkomu þessara manna, því að 5 þúsund krónur 1919 voru ekki þá litlir peningar.
Hinn 21. júní 1919 lá fyrir stjórnarfundi í Bjarma sérlegt bréf. Árni J. Johnsen, eigandi húseignarinnar Frydendal býðst til að selja félaginu þessa húseign ásamt lóðarréttindum fyrir kr. 40.000,00. Frydendalur var tveggja hæða hús með íbúð eða íbúðum á efri hæð og búð á 1. hæð. Þar rak eigandinn sjálfur verzlun, þegar hér er komið sögu.
Í júlí um sumarið (1919) samþykktu allir félagsmenn Bjarma, sem sátu þá almennan fund í félaginu, að kaupa Frydendal fyrir kr. 42.000,00, með því að „félaginu munaði í raun og veru lítið um 2000 kr. hækkun, ef það álitist nauðsynlegt“ að kaupa húseignina. Þetta orðalag sannar enn hina sterku fjárhagsaðstöðu hf. Bjarma. Eftir að eigandi Frydendals hafði boðið Bjarma húseignina til kaups, hafði honum verið boðið í húsið kr. 42.000,00.
Var nú ætlan forustumanna samtakanna að opna búð og stofna til smásölu á vegum Bjarma. Þá hafði Bjarmi starfað í 5 ár og vörukaup félagsins og sala verið einskonar pöntunarfélagsstarfsemi. Nú loks skyldi Bjarmi opna búð.
Sumarið 1919 var stofnað „Eimskipafélag Suðurlands“. Þannig skyldi bætt úr brýnni þörf um auknar samgöngur við Suðurströnd landsins. Eyjamönnum var að sjálfsögðu boðið að leggja fé í fyrirtæki þetta, kaupa hlutabréf í félaginu. Bjarmamenn vildu vissulega stuðla að auknum og bættum samgöngum og neyttu nú gróða síns undanfarin ár og afréðu að leggja í „Eimskipafélag Suðurlands“ kr. 20.000,00. Það voru miklir fjármunir árið 1919 og Eyjamönnum í heild til verðugs sóma. Um líkt leyti gaf Bjarmi kr. 1000,00 í Ekknasjóð Eyjamanna.
Um haustið (1919) samþykkti almennur félagsfundur í Bjarma að gefa kr. 10.000,00 til Björgunarfélags Vestmannaeyja vegna kaupa þess á björgunarskipinu Þór.
Þannig má með sanni segja, að félagsmenn Bjarma hafi haft góðan vilja til að byggðarlagið nyti velgengni í félagsmálum þessum og hversu þeir höfðu notið mikils hagnaðar og hagræðis af samtökum sínum, eins og jafnan tekst, þegar vel og drengilega er á málum þeim haldið og hyggilega og heiðarlega.
Árið 1919 greiddi Bjarmi 80 aura fyrir lítirinn af lifur nr. 1 og 60 aura fyrir lifur nr. 2.
Íslandsbankaútibúið í Vestmannaeyjum var þess vissulega vitandi, að ábyrgðir í Bjarma voru einn fyrir alla og allir fyrir einn. Þetta notfærði bankastofnunin sér til öryggis í viðskiptunum við Bjarma, og félagsmönnum var það traust til mikils hagræðis. Þannig lánaði bankinn félagsstjórninni kr. 120.000,00 vorið 1920. Þetta fé lánaði hún síðan félagsmönnum í Bjarma til þess að létta þeim uppgjörið við vertíðarmenn sínan við vertíðarlokin. Þessa hjálp hafði stjórn Bjarma veitt félagsmönnum oftar undanfarin vor. Þannig höfðu þeir máttarminni í félagsskapnum stuðning og mikið hagræði af þeim, sem betur máttu sín fjárhagslega. Jafnframt þessu láni veitti bankinn félaginu 100 þúsund króna rekstrarlán, þar sem það hugðist nú opna smásöluverzlun.
Almennur félagsfundur var haldinn 2. ágúst 1921. Kom þar fyrst fram nokkur óánægja með reksturinn á Bjarma, og beindu félagsmenn óþægilegum spurningum til framkvæmdastjórans; t. d.:
1. Hver var ástæðan fyrir því, að Bjarmi var einasta fisksölufélagið í bænum, sem enn lá með óseldan fisk frá fyrra ári. Kváðu ýmsir, að það mundi stafa af slóðaskap og skeytingarleysi.
2. Ýmsir félagsmenn höfðu orð á því, að starfsmenn félagsins, hinir föstu, mundu óþarflega margir og ekki vel valdir, - sumir. (Vitað var, að þar voru drykkjumenn með í bland.)
3. Kvartað var undan því, hversu sjaldan voru haldnir fundir í félaginu. T.d. höfðu þarna liðið 11-12 vikur milli funda. Svo strjálir fundir mundu leiða af sér hirðuleysi félagsmanna um hag félagsins og skeytingarleysi, töldu félagsmenn.
Þessi aðfinnsla vakti miklar umræður á fundinum og heitar á köflum. Þó virtust allir sáttir að kalla, þegar slitið var fundi, og þótti ýmsum betur hefði úr rætzt en á horfðist um tíma á umræðu- og hitafundi þessum, því að þar voru sumir félagsmenn ómyrkir í máli. Grun hef ég um það, að sleifarlag það, er ýmsum þótti vera komið á rekstur Bjarma, hafi valdið því, að Ólafur Auðunsson gaf ekki kost á sér í stjórnina á síðasta aðalfundi. Hefur líklega heldur kosið að draga sig í hlé en vera bendlaður við óstjórn og standa í ófriði við gamla samstarfsmenn til að fá bót ráðna á henni.
Nú tók verulega að halla undan fæti í starfi og rekstri hf. Bjarma. Mest háði félaginu skorturinn á rekstrarfé, sem stafaði af því, að bæði félagsmönnum og ekki síður utanfélagsmönnum hafði verið lánað bæði veiðarfæri, salt , olía og neyzluvörur. Svo þegar innheimta átti eða fá skuldirnar greiddar, fékkst ekkert greitt. Þannig skapaðist viðskiptaöngþveiti, sem sligaði félagið.
Þessi vandræði leiddu til óánægju félagsmanna og tortryggni um rekstur og hag félagsins. Afleiðingarnar urðu þær, að félagsmenn sneru bakinu við félagsskapnum og beindu viðskiptum sínum annað.
Þessari erfiðu innheimtu olli m.a. verðfall á sjávarafurðum á þessum tímum og ógætileg lánastarfsemi, of mikil bjartsýni í öllu þessu viðskipta- og fjármálalífi. Hjá þeim, sem kynnist heimildunum, vaknar sá grunur, að linkind hafi nokkru valdið um slælega innheimtu, sem átti að einhverju leyti rætur að rekja til þess, að allir þekktu alla og lifðu í „landi kunningsskaparins.“
Haustið 1922 varð Bjarmi að selja 1. flokks saltfisk fyrir kr. 152,50 hvert skpd; 2. fl. fisk fyrir kr. 140,00; 1. fl. netafisk fyrir kr. 135,00; 2. fl. netafisk fyrir kr. 120,00 og 3. fl. fisk fyrir kr. 100,00 hvert skpd. Áður var fiskverðið miðað við fiskinn ópakkaðan eða stafla í húsi, en þetta verð, er ég nú greindi, var gefið fyrir fiskinn pakkaðan og kominn um borð í flutningaskipið. Hér var því um stórkostlegt verðfall að ræða miðað við það, sem áður var, þegar bezt lét.
Á stjórnarfundi 28. des. 1922 lýsti framkvæmdastjórinn og formaður félagsins, Gísli gullsmiður Lárusson, yfir því, að hann hætti störfum við félagið, er hann hefði lokið uppgjöri reikninga þess fyrir árið það ár. Jafnframt minnti hann á þá staðreynd, að hann hefði fyrir mörgum mánuðum sagt upp starfinu. Ekki gátu aðrir stjórnarmenn neitað því. Ekki hafði þá verið haldinn aðalfundur félagsins fyrir árið 1921. Hann var fyrst haldinn 4. jan. 1923. Áður hafði komið til tals á stjórnarfundi, að Bjarmi hætti störfum bæði sökum ofmikilla útistandandi skulda og svo hins, að töluverður hluti félagsmanna var hættur framleiðslu, hættur allri útgerð. Þeir töldust vera 9 eða nálægt 1/4 félagsmanna. Aðrir 8 félagsmenn voru svo skuldum hlaðnir, að lítill slægur var í þeim í félagsskapnum. Mikill hiti var í sumum stofnendum Bjarma á fundi þessum sökum þess, hvernig komið var fyrir félagsskapnum. Þeir vildu sumir sækja stjórnina til saka um hinar miklu lánveitingar,sem nú ollu mestu erfiðleikunum í rekstri félagsins. Þá gátu þessir menn óttazt, að þeir yrðu að blæða fyrir hina, þar sem ábyrgðin var sameiginleg að baki félaginu.
Á þessum aðalfundi voru einnig lesnir upp reikningar félagsins síðustu 5 mánuðina eða frá 1. jan. til 1. júní 1922. Vottuðu þeir, að félagið hefði tapað kr. 20.000,00 í eignum á þessum 5 mánuðum.
Vorið 1923, er stjórnin skyldi skila framtalsskýrslum félagsins, varð hún sammála um, að sanngjarnt og rétt væri að afskrifa útistandandi skuldir félagsins um kr. 17.018,72. Það voru miklir fjármunir á þeim tímum.
Um sumarið (í júní 1923) var svo Árni Gíslason, sonur hins fráfarandi framkvæmdastjóra, ráðinn framkvæmdastjóri félagsins með því skilyrði, að hann hætti víndrykkju, er hann hét stjórninni.
Þegar hér er komið sögu, leggjast bæði stjórnarfundir og félagsfundir í Bjarma á hilluna í 15 mánuði, svo að fátt verður vitað um athafnir félagsins þann tíma eða gjörðir stjórnarinnar til viðreisnar félaginu.
Síðari hluta janúar 1925 hélt félagið aðalfund ársins 1923 og svo að nokkru leyti fyrir árið 1922. Skiptar voru þar skoðanir um framtíð félagsins. Nú var svo komið, að maðurinn, sem jafnan hafði haft minnst fylgi félagsmanna í stjórn félagsins, meðan allt lék í lyndi fyrir því, hlaut nú við kosningu í stjórn félagsins meira traust en nokkru sinni fyrr. Það var Ólafur Auðunsson í Þinghól. Nú höfðu loks opnazt augu félagsmanna fyrir hyggindum hans og gætni um öll lánaviðskiptin. Nú loks var þeim það ljóst, að betur væri komið hag félagsins, ef hann hefði ekki verið borinn ráðum í stjórn þess og á almennum fundum þess, þegar Bjarmi hóf hin víðtæku lánaviðskipti sín. Sumir þeir félagsmenn, sem hæst höfðu haft áður og mest áhrifin í félagsskapnum, höfðu nú loks misst álit og fylgi félagsmanna. Sumir félagsmenn töldu það helzt til seint.
Í ágústmánuði 1925 var fenginn verzlunarmaður utan af landi til þess að gera upp reikninga Bjarma fyrir árið 1924, þegar sýnt þótti, að það uppgjör yrði ekki af hendi innt það ár. Sá maður var Hjálmur Konráðsson, verzlunarmaður. Nú dundu yfir stjórn K.f. Bjarma víxlakröfur og stefnur vegna skulda félagsins við bankastofnanir og einstaklinga — kröfur, sem það hafði ekki getað fullnægt sökum fjárskorts vegna hinna miklu útistandandi verzlunarskulda, sem ekki fengust greiddar. Persónulega voru stjórnarmenn kaupfélagsins ábyrgir fyrir töluverðum hluta af víxlunum.
Í sambandi við öll þessi viðskiptavandræði afréð stjórnin að skipta um framkvæmdastjóra í félaginu. — Hjálmur Konráðsson var ráðinn framkvæmdastjóri K/f Bjarma í október 1925. - Þá taldist félagið tæpast eiga fyrir skuldum eða vera eignalaust. Þó gat Hjálmur ekki tekið við framkvæmdunum eða beitt sér að þeim fyrr en hann hafði lokið við að gera upp reikninga félagsins, og var þá Magnúsi bónda Guðmundssyni á Vesturhúsum, ritara félagsins frá stofnun þess, falið að ráða fram úr skuldakröggunum og hindra, að gengið yrði að félaginu. Á aðalfundi félagsins í október 1925 sýndi það sig, að Ólafur Auðunsson og Magnús Guðmundsson nutu mests trausts félagsmanna til að bjarga Bjarma frá gjaldþroti eða dauða. Varð nú Ólafur formaður félagsins og Magnús ritari stjórnarinnar eins og alltaf áður.
Á aðalfundi félagsins, sem haldinn var í Goodtemplarahúsinu á Mylluhól, eins og flestir eða allir aðalfundir þess, var afráðið og samþykkt, að afskrifa af töpuðum skuldum nálega 20 þúsundir króna. Jafnframt var samþykkt, að hlutabréfin gömlu, sem um tíma, meðan reksturinn stóð í blóma, höfðu margfaldazt í verði, hengju enn í nafnverði, sem var kr. 200,00.
Á aðalfundi Bjarma 1925 hafði verið samþykkt að breyta lögum félagsins og móta það samvinnufélag samkvæmt gildandi landslögum um þau. Þessu var komið í framkvæmd á aðalfundinum 1926. Þá lagði stjórnin fram frumvarp til nýrra félagslaga, sem var samþykkt. Þar með var Hf. Bjarma breytt í K/f Bjarma og hlutafjáreign hvers félagsmanns breytt í stofnfjáreign. Stjórnina skipuðu í hinu nýja kaupfélagi þeir Ólafur Auðunsson, Þorsteinn Jónsson, Kristján Egilsson, Stað, Stefán Guðlaugsson, Gerði, og Magnús Guðmundsson.
Eftir því sem fiskverð hafði verið og virtist ætla að verða, afréð stjórn Kaupfélagsins Bjarma að greiða fyrir fisk á vertíð 1927 sem hér segir: Fyrir þorsk nr. 1 kr. 97,00 hvert skippund; fyrir þorsk nr. 2 kr. 88,00; fyrir netafisk nr. 1 kr.; 91,00 og fyrir allan þorsk nr. 3 kr. 79,00 hvert skpd. Lifrarverðið var þetta: Fyrir lifrarlítir nr. 1 kr. 0,40 og nr. 2 kr. 0,30.
Ef þetta verð er borið saman við afurðaverðið á styrjaldarárunum, kemur í ljós geysilegt verðfall á öllum sjávarafurðunum frá þeim árum.
Veldur hver á heldur, stendur þar. Eftir að Hjálmur Konráðsson hafði veitt Hf. Bjarma forstöðu í 1 ár, tók fjárhagur þess að rétta við, svo að um munaði. Félagsmenn fengu 7% ágóðahlut af öllum keyptum vörum. Þá var afgangurinn af hagnaðinum kr. 16.979,23, sem samþykkt var að leggja í húsbyggingarsjóð félagsins. En alls reyndist hagnaðurinn af rekstri kaupfélagsins árið 1927 kr. 36.839,43.
Frá því að Hf. Bjarma var breytt í kaupfélag, hafði verið á döfinni undirbúningur að búðarbyggingu við Miðstræti. En þegar til kom, vildi byggingarnefnd kaupstaðarins ekki leyfa lægra hús þar en tvær hæðir. Þetta verzlunarhús Hf. Bjarma átti að standa svo að segja rétt suður af Frydendal. Tveggja hæða hús svo nálægt Frydendal var talið spilla því húsi, skyggja á sól og fl.
Stjórn kaupfélagsins afréð því að flytja verzlunarhús sitt Frydendal um rúma breidd sína suður að Miðstrætinu. Þetta verk tóku tveir iðnaðarmenn í kaupstaðnum að sér að framkvæma, þeir Magnús Ísleifsson trésmíðameistari í London og Einar Magnússon járnsmíðameistari í Stóra-Hvammi við Kirkjuveg.
Þetta stórvirki var framkvæmt haustið 1928. Þegar svo lokið var við að flytja þetta tveggja hæða hús, hófst bygging búðar vestan við það og áfast því. Sú búð var mótuð einnar hæðar hús og jafnbreið sjálfu húsinu eða 7 metrar og 8 metra löng. Húsameistararnir Magnús Ísleifsson og Jóhann Jónsson á Brekku við Faxastíg áætluðu, að viðbygging þessi kostaði fullgerð 7-8 þúsundir króna.
Árið 1928 nam verzlunarhagnaður kaupfélagsins samtals kr. 52.947,50. Nú gerðist stjórn félagsins stórhuga, er svo vel gekk reksturinn, og ræddi um að reisa félaginu nýtt salt- og fiskgeymsluhús.
En útlit viðskipta- og atvinnulífsins breyttist mjög til hins verra, þegar leið á árið 1929. Heimskreppan mikla var í aðsigi.
Það voru ekki aðeins félagsmenn Kf. Bjarma, sem fundu á sér gróskuna í félagsskapnum. Bæjarbúar í heild fundu hana og margir sóttust eftir að verða félagsmenn með öllum óskertum félagsréttindum í Kf. Bjarma. Auðvitað var það fyrst og fremst kaupfélagsstjórinn og störf hans, sem áunnu félaginu allt þetta álit og traust og svo styrk og heiðarleg forustu Ólafs Auðunssonar og félaga hans. Fast var í taumana haldið og hvergi rasað um ráð fram.
Á aðalfundi 5. maí 1930 varð félagsmönnum það ljóst, að Kf. Bjarmi hafði ágóða eftir reksturinn 1929, sem nam hvorki meira né minna en kr. 52.822,59. Það voru miklir fjármunir á þeim tímum.
En á árinu 1930 tók fiskur mjög að lækka í verði á heimsmarkaðnum. Heimskreppan mikla var að færast í aukana. Þess vegna urðu öll viðskipti viðsjárverð, ekki sízt hjá fyrirtækjum, sem lánuðu stórfé í vörum út á hinn óskotna ref, afurðir, sem áttu verðgildi sitt undir duttlungum og veðrabrigðum í viðskiptalífinu á heimsmarkaðnum.
Kreppan sagði fljótt til sín í öllum rekstri Bjarma. Verðfall fisksins olli því, að útgerðarmenn náðu hvergi nærri saman endum í framleiðslustarfi sínu, afurðirnar hrukku ekki fyrir kostnaði. Þannig hlóðust skuldirnar upp hjá þeim bæði í Bjarma og annars staðar. Þó sýndu reikningar félagsins töluverðan hagnað af rekstrinum 1930 eða kr. 36.572,24. Þess er að gæta, að í veikri von sumra stjórnarmanna er gert ráð fyrir því, að útistandandi skuldir greiðist að mestu leyti, en svo kom fljótt skarð í allan þennan pappírsgróða, ef ég mætti nefna hann svo, þegar stjórnin neyddist til að afskrifa svo og svo mikið af útistandandi skuldum árlega, þar til gefizt var upp við reksturinn, lauparnir lagðir upp, með því að hagnaðurinn af rekstrinum fór minnkandi ár frá ári og á sama tíma uxu afskriftir hinna útistandandi skulda eða eigna, sem hurfu í kreppuna.
Í nóvember fór Hjálmur kaupfélagsstjóri til Reykjavíkur vegna vanheilsu, er hann hafði átt við að búa um nokkurt skeið. Hann var lagður þar inn á sjúkrahús til uppskurðar. Hann andaðist aðfaranótt 17. desember 1933.
Að Hjálmi Konráðssyni þótti mikill mannskaði hér í bæ. Kolka læknir skrifaði um hann. Þar standa þessi orð: „Hjálmur heitinn var einn þeirra manna, sem maður fékk því meiri mætur á, sem maður kynntist honum betur. Vinir hans geta því einir skilið til fulls, hvert tjón er í fráfalli hans.“ Hafi félagsmönnum Kf. Bjarma ekki skilizt til þessa, hvert traust og hald kaupfélagsstjóri eins og Hjálmur heitinn var því, þá hafa vissulega opnast augu þeirra fyrir því, er hann var allur. Hjálmur Konráðsson var Skagfirðingur, fæddur að Syðravatni þar í sýslu 23. nóvember 1895 og því 38 ára, er hann lézt. Eftir fráfall kaupfélagsstjórans réð stjórnin Sigurð Ólason framkvæmdastjóra Kf. Bjarma.
Félagið hafði ætlað að stofna til útgerðar, til þess að auka rekstur sinn í þeirri von, að tök yrðu á að standa undir skuldabyrðunum og standa af sér áföll kreppunnar. Í þessu skyni lét það byggja sér bát úti í Danmörku.
Í janúarmánuði (1934) lagði bátur þessi af stað til Íslands. Báturinn fórst á leiðinni nálægt Mandal í Noregi að talið var. Þar með hætti stjórn Bjarma að hugsa til útgerðar á vegum þess. Hún venti nú kvæði sínu í kross: Á almennum fundi í félaginu 7. febrúar 1934 hreyfði formaður félagsins, Ólafur Auðunsson, þeirri hugmynd að kjósa þá þegar skilanefnd, sem ynni að því að gera félagið upp, með því að skortur á veltufé stæði því gjörsamlega fyrir allri starfrækslu. Um þessa hugmynd urðu skiptar skoðanir á fundinum. Þó varð hún til þess, að félagsmenn tóku að hugleiða málið.
Hinn 15. febrúar var aftur haldinn almennur félagsfundur um framtíð Bjarma. Á þeim fundi var samþykkt tillaga formanns um að slíta félaginu. Voru 16 félagsmenn með tillögunni en 1 á móti. Enn var kallað á almennan félagsfund 19. febrúar. Voru þá enn tekin til meðferðar félagsslitin. Þá skrifuðu 27 félagsmenn undir þá ósk að slíta félaginu en 5 mótmæltu því.
Í skilanefnd Bjarma sátu þessir menn: Jón Hallvarðsson, fulltrúi bæjarfógeta sem lögfræðilegur ráðunautur nefndarinnar, Ólafur Auðunsson, Magnús Guðmundsson, Sigurður Ólason og Sigfús Scheving.
Þannig luku þessi merku félagssamtök starfsferli sínum. Með sanni verður sagt, að þau um eitt skeið sáu fagran fífil á ferli sínum. Jafnframt sannaðist á samtökum þessum máltækið kunna og sanna, að vandi er að gæta fengins fjár og sterk bein þarf til að þola góða daga. Ekki þurfa þeir þeirra sízt við, sem stjórna eiga og starfrækja fjárrík fyrirtæki.


4. Kaupfélagið Fram

Það gerðist í nóvember 1916 að 27 útvegsbændur í Vestmannaeyjum ræddust við í eilitlum salarkynnum í byggingu ísfélags Vestmannaeyja við Strandstíg. Þeir ræddu um stofnun kaupfélags til sóknar og varnar í hagsmunamálum sínum og útvegs síns, til sóknar og varnar í daglegum viðskiptum sínum og atvinnurekstri um vörukaup heimilanna og sölu sjávarafurða. Sumir þeirra voru hvassyrtir og brýndu röddu, nefndu afætur og okrara, einokun og alveldi, arðsugur og illþýði. Aðrir fóru rólega í sakirnar, bentu á kaupfélagið Bjarma, sem þá hafði verið starfrækt í 2 ár útvegsbændum þar til ómetanlegs hagræðis. En þessir bændur vildu ekki vera þar í félagsskap þó að hann væri nýtur og góður. Enda ekki alveg ánægðir eða yfir sig hrifnir af forustunni í þeim samtökum. Þeir voru sér um sefa, þessir framsæknu dugnaðarþjarkar og vinnuþrælar, sem gert höfðu út vélbáta frá fyrsta ári vélbátaútvegsins, sumir þeirra að minnsta kosti. Þeir vissu bezt, hvar skórinn kreppti að um verkun og geymslu sjávarframleiðslunnar. Þá skorti stakkstæði til þess að þurrka saltfiskinn á að sumrinu. Þá skorti. og þá skorti. Úr þeim skorti yrði ekki bætt nema með samtökum. Þarna á íshússfundinum kusu þessir útvegsbændur þriggja manna nefnd, sem ætlað var það hlutverk að ráða framkvæmdastjóra, sem koma skyldi félaginu á stofn, - vera með í ráðum um lagasmíð og húsakaup, skipulag verzlunar og aðrar verklegar framkvæmdir.

Þrír af skeleggustu forgöngumönnum hugsjónarinnar voru kosnir í þessa nefnd, þeir Högni Sigurðsson í Vatnsdal, Arni Jónsson í Görðum og Jón Jónsson í Hlíð. Allir voru þeir úr hópi kunnustu útvegsbænda í kauptúninu. Vissulega unnu þeir ötullega að framkvæmdunum. undirbúningi fyrirtækisins. - Eftir nokkra daga eða 20. nóvember (19161 kvaddi nefndin félaga sína á fund. Sá fundur var haldinn í verzluninni Vísi, þar sem Valdimar kaupmaður Ottesen hafði verzlað um skeið. (Það hús hlaut síðar nafnið Þingvellir). Á fundi þessum hafði Högni Sigurðsson orð fyrir nefndarmönnum.

Ýmislegt hafði nefndin innt af hendi til eflingar hinu væntanlega kaupfélagi. Ásókn útvegsbænda til þess að fá að vera með í félaginu hafði reynzt mikil, svo að nær fjörutíu sátu fund þennan. Högni og þeir nefndarfélagar höfðu þá þegar fest kaup á húseigninni Vísi handa félaginu og innheimt kr. 160,00 af hverjum þeim, sem æskti að vera stofnandi félagsins og starfandi félagsmaður. Og þetta fé hafði nefndin þá þegar greitt upp í andvirði verzlunarhússins, en kaupverð þess var kr. 23.000,00. Auðvitað hafði nefndin haft samráð við aðra framámenn hugsjónarinnar um stofnun félagsins utan fundar og um framkvæmdir þessar.

Fundurinn lýsti yfir ánægju sinni með húskaupin og aðrar gjörðir nefndarinnar, sem líka hafði lagt drög að því að ráða kaupfélaginu framkvæmdastjóra. Jón Hinriksson, verzlunarstjóri í Garðinum, við Garðsverzlun, hafði gefið kost á sér til þessa starfs. Starfssamningurinn milli hans og kaupfélagsstjórnarinnar var undirritaður í desember 1916. Hér hlýt ég að gera nokkra grein fyrir hinum nýráðna framkvæmdastjóra. Jón Hinriksson, framkvæmdastjóri, var Húnvetningur, fæddur að Ósum á Vatnsnesi 23. maí 1881. Hann lauk kennaraprófi við Flensborgarskólann í Hafnarfirði og gerðist síðan barnakennari í Firðinum. Jafnframt barnakennslunni annaðist Jón Hinriksson bókhald Brydeverzlunarinnar í Hafnarfirði. Hann var síðan aðalbókari hjá þeirri verzlun á árunum 1911-1913. Árið 1910 lézt J. P. T. Bryde kaupmaður, sem rekið hafði einokunarverzlunina gömlu í Vestmannaeyjum frá dánardægri föður síns 1879 til dauðadags. Hvað svo um leifar þessarar gömlu einokunarverzlunar í Vestmannaeyjum eftir fráfall eigandans? Ekkja hans, Þóra Ágústa (f. Brandt) fékk leyfi til að sitja í óskiptu búi. Þegar gamli einokunarkaupmaðurinn andaðist, var Ólafur Arinbjarnarson verzlunarstjóri Garðsverzlunar í Eyjum. Hann lézt árið 1913. Eftir fráfall hans rak Herluf Bryde, sonur J. P. T. Bryde, verzlunina, þar til hún var lýst gjaldþrota. Þá var verzlunarfyrirtæki þetta, - Garðsverzlun í Vestmannaeyjum, einokunarverzlun Brydeanna þar frá árinu 1844, - gerð upp af þar til skipaðri skilanefnd. Hún seldi síðan firmanu H. P. Duus verzlunarstaðinn Garðinn og er afsalsbréfið dagsett 16. marz 1917. Aðaleigandi H. P. Duus-firm-ans þá var Ólafur kaupmaður Ólafsson Sveinbjarnarsonar i Keflavík Ólafssonar. Eftir fráfall Ólafs verzlunarstjóra Arinbjarnarsonar réðst Jón Hinriksson til Vestmannaeyja og gerðist aðalbókari Brydeverzlunar þar eða Garðsverzlunar og að nokkru leyti verzlunarstjóri. Þegar svo Duusfirmað keypti fyrirtækið, gerðist Jón Hinriksson verzlunarstjóri. Og svo liðu aðeins þrír mánuðir. Þá gerðust „kaupin á eyrinni".

Og svo höldum við áfram með sögu Kf. Fram í Eyjum. Afráðið var, að fimm menn skyldu skipa stjórn hins nýja kaupfélags. Og félagsmenn voru sammála um að kjósa strax stjórnina til starfa með kaupfélagsstjóranum, enda þótt eftir væri að semja félaginu lög og samþykkja þau. Á fundinum kom fram munnleg tillaga um stjórnarmenn. En hún var felld. Félagsmenn vildu hafa stjórnarkjörið skriflegt og leynilegt. Var þá kjörseðlum úthlutað. Þessir Eyjamenn hlutu kosningu í fyrstu stjórn Kaupfélagsins Fram: Jón Guðmundsson í Breiðholti við Vestmannabraut, síðar búandi að Mosfelli; Árni Jónsson, Görðum: Högni Sigurðsson, Vatnsdal; Sigurjón Jónsson á Hrafnagili (síðar í Víðidal; sjá Blik 1973, bls. 180), og Jón Jónsson, Hlíð. Eftir hálfan mánuð eða 5. desember (1916) var siðan aðalstofnfundur Kaupfélagsins Fram haldinn í húseigninni Vísi, sem var nú orðin eign félagsins samkvæmt framansögðu. Fund þennan sátu 42 útvegsbændur eða félagsmenn, eins og þeir eru kallaðir í fundargjörð. Þarna voru kaupfélaginu samþykkt lög og framtíðarmálin rædd og skýrð. Hinn nýráðni kaupfélagsstjóri, Jón Hinriksson, gerði það að tillögu sinni, að hver félagsmaður greiddi kr. 500,00 í stofngjald í félagssjóð, og hefðu þeir allir lokið þeirri greiðslu fyrir 1. júní árið eftir (1917) eða að sex mánuðum liðnum. Tillaga þessi var mikið rædd á fundinum og samþykkt að lokum mótatkvæðalaust eða með öllum greiddum atkvæðum. Hin fyrstu lög Kf. Fram voru í 21. grein. Hér verður aðeins drepið á helzta efni þeirra. Tilgangur Kaupfélagsins Fram:

a) að safna stofnsjóði, - veltufé, -með framlagi félagsmanna til þess að geta ávallt keypt útlendan varning, aðallega gegn greiðslu út í hönd.
b) að safna varasjóði til þess að tryggja framtíð félagsins.
c) að fækka svo sem auðið er öllum óeðlilegum milliliðum í verzlunarviðskiptum.
d) að útvega félagsmönnum sem beztar vörur við svo hagstæðu verði, sem unnt er, og selja afurðir þeirra við svo háu verði, sem kostur er.
e) að auka þekkingu félagsmanna einkum á því er snertir samvinnufélagsskap, verklegar framkvæmdir, vöruvöndun o. fl.

Félagsmenn ábyrgjast allir skuldir félagsins in solidum (í samábyrgð). Af þeim, sem panta vörur í félaginu, getur framkvæmdarstjóri eða stjórn félagsins heimtað tryggingu. Stofnfénu má verja til húsakaupa, byggingarframkvæmda, vörukaupa, flutninga og hvers annars, sem samrýmist tilgangi félagsins. Allar vörur, sem félagið útvegar einstökum félagsmönnum og þeir veita móttöku og greiða á tilteknum tíma,skulu þeir fá með minnsta álagi, er stjórn félagsins sér sér fært að leggja á vörurnar, hvort sem varan er innlend eða útlend. Enginn getur selt öðrum hluta sinn í félaginu nema með samþykki allrar stjórnarinnar. Enginn félagsmaður getur sagt sig úr félaginu, nema hann hafi tilkynnt stjórninni það með árs fyrirvara. Þannig var þá Kaupfélagið Fram sambland af pöntunarfélagi, hlutafélagi og kaupfélagi, sem rak opna verzlun eins og kaupmennirnir í kauptúninu. Að lokum gerði framkvæmdastjórinn Jón Hinriksson þetta að tillögu sinni: „Ef einhver félagsmaður verður uppvís að því að vinna á móti félaginu, annað hvort til orða eða verka, er hann félagsrækur án nokkurs fyrirvara og á ekkert afturkræft af því, sem hann hefur lagt í félagið og ekki tilkall til arðs félagsins. Samt skal mál hans lagt í gerð." Starfssamningur við framkvæmdastjórann Jón Hinriksson, var gjörður og undirritaður 8. desember 1916. Hann var ráðinn til 5 ára. Árskaup hans var kr. 3500,00 og dýrtíðaruppbót, ef efnahagur kaupfélagsins taldist leyfa þá greiðslu. Jafnframt skyldi framkvæmdastjórinn hafa til nota ókeypis íbúð á efri hæð verzlunarhússins Vísis.

Vorið 1917 barst sú frétt út, að í ráði væri að Duus-fyrirtækið í Reykjavík seldi eigur sínar í Vestmannaeyjum og gæfi frá sér allan rekstur þar. Ef til vill áttu hin nýstofnuðu kaupfélög útgerðarmanna í Eyjum sinn ríka þátt í því, Kaupfélagið Bjarmi og kf. Fram. Stofnun þeirra og starfræksla dró stórum úr hagnaðarvon einstaklings af viðskiptum við útvegsbændur í Eyjum. Og svo var Edinborgarverzlunin á hinu leitinu, verzlun Gísla J. Johnsen, sem átti rík ítök í hug og hjarta margra Eyjabúa, ekki minnst sökum þess, að sú verzlun braut einokunarísinn í Eyjum svo að um munaði og ruddi brautir í atvinnu- og viðskiptamálum öllum þar í byggð. Og nú var stórmál á dagskrá hjá stjórnendum og framkvæmdastjóra Kf. Fram Þeir höfðu gert tilboð í allar eignir Duus í Vestmannaeyjum. - vildu greiða fyrir þær kr. 65.000,00 — þ. e. stóra verzlunarhúsið, steinhúsið, sem byggt var 1880, salthús. fisk¬geymsluhúsið Kumbalda, Kornloftið svokallaða, bræðsluhús o. fl., og svo hinar miklu og verðmætu lóðir og lendur verzlunarinnar. Boðað var til aukafundar með kaupfélagsmönnum 17. júní (1917) til þess að skýra fyrir þeim gang málanna. Þeir voru áhugasamir og hrifnir mjög, og dáðust að forustumönnum sínum. Og þarna í hópnum fundust menn, sem skildu, hvað eiginlega var að gerast í Vestmannaeyjum: íslendingar sjálfir, og það Eyjamenn, voru að eignast verzlunarlóðir og verzlunarhús, sem aldrei höfðu fyrr verið í eigu landsmanna, en útlendingar haft eignarhald á og notað ósleitilega til að kúga og undiroka, þrælka og þjaka Eyjafólk um aldir. Og allt tókst þetta giftusamlega fyrir Jóni Hinrikssyni framkvæmdarstjóra og félögum hans. Hinn 23. júní (1917) var kaupsamningur undirritaður, og daginn eftir boðuðu þeir til fundar og tjáðu kaupfélagsmönnum, hvað gerzt hafði. Þeir höfðu fest kaup á öllum eignunum fyrir það verð, sem þeir höfðu boðið. Og eignirnar voru: Sölubúð, öll pakkhús, íbúðarhús, bræðsluhús, skúrar og lóðir, stakkstæði og lóðarréttindi „til lands og sjávar", eins og það er orðað í frumheimild, bryggja, bólverk, fiskverkunarpallar, girðingar að engu undanskildu, allt eins og seljandi eignaðist eignir þessar með afsalsbréfi frá firmanu J. P. T. Bryde dags. 16. marz 1917. Og greiðslur skyldu þannig og þá inntar af hendi:

a) Kr. 5.000,00 voru greiddar við undirritun kaupsamningsins.
b) Kr. 25.000,00 skyldu greiðast 1. ágúst um sumarið.
c) Kr. 35.000,00 skyldu greiðast 1. okt. um haustið.

Rétt er að geta þess, að íslandsbanki í Reykjavík veitti Kf. Fram lán kr. 35.000,00 sama dag og kaupsamningurinn var undirritaður í minningu þess, sem gerzt hafði, - til minningar um hinn sögulega viðburð, eða hvað? - Og félagsmenn lánuðu kaupfélagi sínu fé úr eigin vasa til þess að standa straum af andvirði húsa og lóða til Duus, því að útgerðarreksturinn hafði gengið mætavel undanfarin ár og peningar safnazt í pyngjur útvegsbænda. Og nú fór vertíðin 1918 í hönd. í byrjun jan. 1918 afréð stjórn kaupfélagsins að hefjast skyldi handa um lifrarbræðsluna á vegum félagsins. Atta vélbátar kaupfélagsmanna voru þegar reiðubúnir að leggja inn lifur hjá félaginu. Tveir bræðslumenn voru þegar ráðnir. Kaup þeirra var kr. 80,00 fyrir mánuð hvern og tvær krónur í premíu fyrir hverja tunnu lýsis. Og smámsaman færðist meira líf í rekstur kaupfélagsins.

Í lok janúar 1918 ræddi stjórnin a fundi sínum verðtilboð Coplands í fiskbirgðir kaupfélagsins. Samþykkt var að taka boði þessa kunna fiskkaupmanns, því að það þótti mjög hagstætt þá og var sem hér segir: Fyrsta flokks saltfiskur kr. 167,00 fyrir hvert skipp.; langa kr. 160,00; smáfiskur kr. 134,00; ýsa kr. 130,00. Verð afurðanna var miðað við það, að þeim væri skilað um borð í skip á Vestmannaeyjahöfn. Um sama leyti fékk kaupfélagið fyrsta saltfarm sinn sendan frá Reykjavík. Og þróunin heldur áfram. Kaupfélagið býður til kaups lýsi á kr. 200,00 hverja tunnu, þ. e. 105 kg. - Og svo gera félagsmenn pantanir á vörum til heimila sinna. - Kaupfélagsstjórinn þykir vel vaxinn starfa sínum og viðskiptin fara ört vaxandi.

Enginn banki var enn í Eyjum og Sparisjóður Vestmannaeyja (hinn eldri I lítils megnugur samanborið við hina miklu fjárþörf hins örtvaxandi vélbátaútvegs Eyjamanna. Öðrum þræði var það ástæðan fyrir því, að kaupfélaginu var mikil þörf á að selja framleiðslu manna sinna sem fyrst og örast á vetrarvertíð. Þá þurfti félagið að gerast kaupandi að fiskinum fyrir afráðið verð, svo að félagsmenn gætu þegar fengið fé í hönd til greiðslu á vinnulaunum og öðrum útgerðarkostnaði. I marzlok 1918 var þetta atriði fullrætt og afráðið. Fiskverð til félagsmanna var sett sem hér segir, miðað við skipp.:

1. flokks saltfiskur kr. 160,00
2. flokks saltfiskur — 150,00
Langa — 140,00
Smáfiskur, undir 18 þuml. — 114,00
Ýsa — 110,00

Hver útgerðarmaður kostaði kapps um að gera sér mat úr sundmaga. Hann lét því skera hann úr dálki og verka hann. Kaupfélagið greiddi 65 aura fyrir hvert kg af verkuðum sundmaga. Þessi afurðaverð eru tjáð hér til fróðleiks og glöggvunar þeim lesendum Bliks, sem ekki láta sögulegan fróðleik fara fram hjá sér, heldur íhuga hann til glöggvunar á samtíð sinni.

Sumarið 1918 unnu Eyjamenn að því að safna fé til kaupa á björgunarskipi til Eyja. Kaupfélagið Fram greiddi kr. 1.000,00 í skipskaupasjóðinn. Þótti það drengilega gert og bera forustumönnunum fagurt vitni. Með síaukinni framleiðslu fiskafurða fór skortur á stakkstæðum á Heimaey mjög í vöxt, þar sem allur saltfiskur var þurrkaður á þeim. Unnið var að því öll haust að rífa upp grjót, flytja það á hestvögnum á stakkstæðislóðirnar og leggja grjótið, laga þurrkreiti. Nú skorti Kaupfélagið Fram tilfinnanlega þurrkreiti fyrir hinar miklu fiskbirgðir, sem féllu því í skaut. Lóðir fékk það í ríkum mæli og vinnuafl ókeypis til þess að skapa félagsmönnum sínum bætta aðstöðu til fiskþurrkunar. Hverjum kaupfélagsmanni var gert að skyldu að fórna félaginu 50 stunda vinnu við þetta starf. Það gerðu þeir með ljúfum huga. Það sannar okkur bezt, hve einhuga þessi félagsskapur var og skilningsríkir félagsmenn á gildi samtakanna og mátt samstöðunnar. Á styrjaldarárunum fyrri fór allt verðlag mjög hækkandi eins og jafn- an, þegar öngþveiti ófriðar og illra norna grúfir yfir mannheimi. Ég hef nefnt nokkrar tölur um verð á innlendum afurðum, þegar Kaupfélagið Fram hóf afurðasölu sína. Og nú þrem árum síðar býður það fisk sinn í samræmi við annað verðlag og selur Þorsteini Jónssyni á Seyðisfirði:

Línuþorsk nr. 1 ... kr. 265,00 skpd
Línuþorsk nr. 2 ... — 250,00 -
Netafisk nr. 1 — 255,00 -
Netafisk nr. 2 — 240,00 -

Fiskverðið er miðað við afurðirnar komnar um borð í flutningaskipið. Kaupfélagið seldi samtals um 1400 skippund af línu- og netaþorski í júlílokin 1919. Á stjórnarfundi 5. nóv. 1921 var ráðningartími framkvæmdarstjórans endurnýjaður til næstu 5 ára frá 1. júní 1922 að telja. Þegar hann réðist kaupfélagsstjóri, var árskaup hans afráðið kr. 3.500,00, en nú fimm árum síðar kr. 8.000,00, og svo dýrtíðaruppbót eins og áður, ef kaupfélagið reyndist hafa efni á að greiða honum þær launauppbætur, eins og tekið er fram í frumheimild. í byrjun vertíðar 1922 voru ráðnir nýir bræðslumenn við lifrarbræðslu kaupfélagsins. Þar þurfti nú orðið þrjá menn, og mánaðarkaup þeirra var orðið kr. 250-350 krónur.

Eiginlegir félagsmenn Kaupfélagsins Fram voru rúmlega 40, þegar þeir voru flestir. Fleiri fengu ekki að vera þar með, eftir því sem næst verður komizt. Völdum viðskiptamönnum var hins vegar gefinn kostur á að skipta við félagið og efna til skuldar við það. í desember 1921 samþykkti stjórn félagsins t. d. að leyfa 13 kunnum Eyjabúum að fá vörulán hjá félaginu, efna þar til verzlunarskulda, en fjórum var hafnað, sjálfsagt sökum oflítils lánstrausts. Það bar við, að sótzt var eftir að kaupa hluti í félaginu, kaupa þessi 500 króna bréf, sem upphaflega áttu sér stað þar við stofnun kaupfélagsins. Þeirra viðskipta nutu aðeins valdir menn með samþykki stjórnarinnar. T. d. fékk Jón Guðmundsson á Mosfelli, sem fyrstu árin var formaður félagsins en nú óskaði að ganga úr því, leyfi stjórnarinnar til að selja Eyvindi Þórarinssyni fimm hundruð króna hlutabréfið sitt. Þá var verð þess orðið kr. 3.000,00 eða sexfalt. Bendir það ekki til uppgangs og velgengni í rekstri kaupfélagsins? - Reikninga þess hef ég ekki til athugunar, og á þess vegna erfitt með að sanna þetta að öðru leyti.

Arið 1921 var mjög óhagstætt sjávarútveginum. Fiskverðið var of lágt til þess að mæta hinum mikla og stóraukna tilkostnaði útgerðarinnar. Þetta óhagstæða afurðaverð dró þó furðu lítið úr framkvæmdarhug margra útgerðarmanna í Eyjum, eins og t. d. félagsmanna Kaupfélagsins Fram. Árið 1923 höfðu skuldir félagsmanna kaupfélagsins vaxið því svo að segja yfir höfuð. Þær tóku að hnekkja rekstri þess. Hinn 9. nóvember um haustið tók stjórn félagsins allt þetta skuldafargan félagsmanna og utanfélagsmanna, sem einnig höfðu þar skuldareikning, til gaum¬gæfilegrar yfirvegunar. Stjórn félagsins afréð að hefta mest öll lánaviðskipti, þó að það væri erfitt á þessum tíma árs, nema skuldararnir gengjust undir skuldbindingu, skrifuðu undir eftirfarandi hátíðlegt loforð: „Með því að Kaupfélagið Fram í Vestmannaeyjum hefur í dag lofað að lána mér til næstkomandi vertíðar vörur þær, sem ég nauðsynlega þarfn-ast til útgerðar, sem og peninga fyrir beitu, einnig vörur til heimilis, allt eftir því sem nefnt Kaupfélag Fram hefur vörur þessar til á þeim og þeim tíma, þá lofa ég og skuldbind mig til að greiða lán þetta með fiski, lifur, sundmaga og hrognum, sem ég kann að afla á næstkomandi vertíð, svo framt sem ég afla það mikið, að það nægi til lúkningar láninu. Sömuleiðis lofa ég og skuldbind mig til að gefa nefndu félagi afsal fyrir fiskinum og fiskafurðunum jafnóðum og ég afla þeirra eða hvenær sem félagið óskar þess. Skylt er mér að leggja inn lifrina jafnóðum og hún aflast, - einnig að annast hirðingu og verkun á fiskinum og hinum fiskafurðunum."

Þannig hljóðaði þá þessi skuldbinding. Flestir skuldunautarnir skrifuðu undir orðalaust. En sumir vildu heldur selja hlut sinn í kaupfélaginu, greiða skuldir sínar með vissum afföllum og vera þannig lausir allra mála. Þennan 500 króna hlut félagsmannsins greiddi kaupfélagið með kr. 3.250,00 og féll þá varasjóðseign seljandans til félagsins án sérstaks gjalds, enda setti þá skuldunauturinn næga tryggingu fyrir skuld sinni. Einn skuldunauturinn, sem var varamaður í stjórn kaupfélagsins, gerði uppreisn og neitaði með öllu að viðurkenna skuld sína við félagið nema munnlega, þó lýsti þessi félagsmaður yfir því, að honum fyndizt skuldbindingin vel orðuð og ágæt og nauðsynleg kaupfélaginu, framtíð þess og gengi, en ekki um það að ræða, að hann skrifaði undir hana. Óskaði hann þó allrar fyrirgreiðslu sjálfum sér til handa af hálfu kaupfélagsins í framtíðinni. Stjórn kaupfélagsins vildi ekki hlíta kröfum þessa varastjórnarmanns og afréð að loka reikningi hans og sækja hann til saka, sækja hann tilskuldagreiðslu, ef hann stæði ekki í skilum við félagið á næstu vertíð. - Þar við sat.