Blik 1973/Bréf til vinar míns og frænda, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. október 2010 kl. 21:58 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. október 2010 kl. 21:58 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Efnisyfirlit 1973



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda

(3. hluti)


Apinn og arfgengið


Maðurinn er kominn af öpum, kenndi hinn heimsfrægi Darwin og færði að þeirri kenningu ýmis líffræðileg rök.
Við erum stödd í dýragarðinum í Kaupmannahöfn. Ég virði fyrir mér „apahjón“ innan við járngrindur. Gestur kemur aðvífandi. Hann treður appelsínu inn milli járnteinanna. Hún féll í skaut karlapans. Hann virðist vera þjálfaður í þeirri list að kryfja appelsínu til mergjar, gera sér hana að góðu. Hann sígur úr henni vökvann og fleygir síðan ræksninu til „konunnar sinnar“, sem reynir að njóta leifanna eftir föngum.
Mér verður þetta litla fyrirbæri að íhugunarefni.
Það erum við, tvífættu karldýrin, sem í rauninni stjórnum veröldinni. Hvað veldur öllum hörmungunum í þeim stjórnarleik? — Sérgæzkan, eigingirnin, ágirndin og ofbeldishneigðin eru undirrætur allra styrjalda, hryðjuverka og hörmunga, sem yfir mennina dynja á þessari jörð. Eiginleikar karlapans í dýragarðinum koma þar berlega í ljós, aðeins í margfalt ríkara mæli, ferlegra sjónarspili, sökum meira vits, meiri tækni til hryðjuverka, manndrápa og gjöreyðingar.
Hvað um eiginkonuna, sem verður að gera sér gott af leifunum, þiggja hratið úr lífsberjunum, safalaust ræksnið úr appelsínu tilverunnar, börkinn af ávexti lífsins?
Eigum við að litast um í kringum okkur? Smáa myndin getur orðið stór með tæknilegum brögðum. Er ekki venjulegt heimili eilítil mynd af sjálfu þjóðfélaginu okkar? Hversu margt heimilið fer ekki í rúst og hjónabandið út um þúfur sökum eigingirni og sjálfselsku heimilisföðurins? Hvað er t.d. drykkjuskapur hans upprunalega annað en eigingirni og fíkn til þess að fullnægja eigin hvötum, sjúga appelsínuna til síðasta dropa á kostnað lífshamingju konu og barna? Finnum við ekki þarna apaeðlið í undirrótunum? Og apinn þessi er jafnan blindur í sjálfs síns sök rétt eins og karlapinn í dýragarðinum.
Og hér ber jafnan mikið á milli um arfgengi og eðli konu og karls. Ríkasti þátturinn í sálarlífi konunnar yfirleitt er fórnarviljinn. Því fer sem fer um margt hjónabandið t.d. nú á tímum, þrátt fyrir aukna fræðslu, aukið frelsi og víðsýni.
Ég sá með athygli leikritið Hitabylgju eftir Ted Willis.
Verkalýðsforinginn, sem þykist berjast fyrir jafnrétti og auknu frelsi verkalýðsins gegn misrétti og kúgun, fylgir rækilega fram apaeðli sínu og arfgengi, þegar heim kemur. Þar beitir hann konuna ofbeldi og kúgun. Hann sígur safann úr ávextinum, nýtur þess að vera til og hljóta heiður fyrir verkalýðsbaráttu sína, vonar til frægðar og frama. En hún reynir að gera sér að góðu „leifarnar“, þar til hún gefst upp, gefur allt frá sér. — Arfgengi apaeðlisins afréð henni leifarnar. Þeirra átti hún að njóta.
Eigingirni og sjálfselska okkar hinna tvífættu karldýra, afkomenda apakynsins, kemur jafnan í ljós í ýmsum myndum. Mér kemur í hug heimilisfaðirinn, sem hyggur sig njóta bezt safans úr ávexti lífsins og tilverunnar með því að neyta áfengis í meira eða minna ríkum mæli svo að segja um hverja helgi langan tíma úr árinu. Þessi háttur margra heimilisfeðra og eiginmanna hefur farið í vöxt með þjóðinni með vaxandi tómstundum eða lengdum helgarfríum. Þessir andlegu arfar apakynsins telja sig njóta bezt ávaxtanna, — ávaxta lífsins og tilverunnar. En hvað um eiginkonuna og börnin? Er þeirra hlutskipti eitthvað annað en tægjurnar, rytjurnar af ávextinum, hratið, safalaus tilveran? — Arfgengið er áleitið. Það sannast bezt á okkur, afkomendum apanna samkvæmt kenningum gamla Darwins. Og vitur var hann, sem skáldaði sköpunarsöguna. Hann lét skaparann gera konuna úr öðru efni en manninn. Hann hafði uppgötvað hinn mikla mismun kynjanna sálarlega séð.
Þessum skilgetnu afkvæmum apanna sálarlega séð, líkir norska skáldið Ibsen við þursa, þ.e. heimskingja. Íslenzka skáldið Bjarni Thorarensen líkir þeim við moldvörpu. Hann kveður:

Margur í mannslíki
moldvörpuandinn
sig einn sénan fær,
hann sér ekki lengra.


Spíritisminn og bókstafstrúin


Eftir að fréttir tóku að berast austur á Firði um sálarrannsóknir þeirra félaga Einars H. Kvarans, rithöfundar, og séra Haraldar Níelssonar, prófessors, virtust margir Austfirðingar taka að hugleiða hin svokölluðu eilífðarmál í nýju ljósi. Niðurstöður sálarrannsóknanna virtust falla vel að trúarskoðunum ýmissa Norðfirðinga þá.
Fósturforeldrar mínir virtust fljótlega verða hugteknir af spíritismanum og kenningum hans, eins og ég hef drepið á fyrr hér í greinarkorni þessu.
Ræðusafn séra Haraldar kom hins vegar ekki út fyrr en nokkrum árum síðar. Þá varð það megin húslestrarbók heimilisins eða fósturforeldra minna.
Ég kynntist lítilsháttar sértrúarflokki í Noregi þau ár, sem ég dvaldi þar við nám. Eitt sinn lenti ég í karpi við ofstækisfullan sértrúarmann, að mér fannst. Hann kvaðst vita allt sannast og réttast í trúarlegum efnum og byggði þær sannfæringar sínar á bókstafnum (biblíulestri) og ræðum predikara flokksins, sem hann virtist trúa á öðrum þræði.
Þessi sértrúarflokkur virtist hata allar sálarrannsóknir og spíritismann. Allt það starf sagði hann vera djöfulsins vélabrögð, — síðustu svikabrögð hans til þess að leiða trúgjarnar sálir afvega, tæla þær frá guði og guðstrú. Hann bað mig einlæglega að láta ekki djöfulinn blekkja mig þannig. Þá vaknaði með mér ertni. „Er það þá missögn,“ spurði ég, „að Kristur hafi á dauðastundinni fullyrt, að hann og hinn sanniðrandi ræningi yrðu þá samdægurs eða svo saman í paradís?“ „Sannlega segi ég þér, í dag skaltu vera með mér í paradís,“ stendur þar. Eru þetta misskilin orð?“ — „Já, vissulega,“ fullyrti hann, „komman er á skökkum stað í orðum Krists á krossinum. Og svo eru einhver orðabrengl í textanum,“ sagði hann, eftir því sem predikari flokksins staðhæfði, en ekki vissi hann nákvæmlega, í hverju þau voru fólgin.
„Nú, hvar á þá komman að vera í málsgreininni?“ spurði ég kankvís. „Það skal ég segja þér,“ sagði hann hreykinn, og sagðist byggja fullyrðingar sínar á kenningum foringjans, aðalpredikara flokksins. „Komman skal standa á eftir orðinu dag. ... „Sannlega segi ég þér í dag“ o.s.frv. „Hvernig hefur komman getað lent á skökkum stað í textanum, þar sem öll ritningin á að vera innblásin af sjálfum guði?“ spurði ég. „Sá hann þá ekki jafnframt um það, að allar kommur væru settar á réttan stað í textann, svo að orð hans og innblástur yrði ekki misskilið?“
Nú fullyrti bókstafstrúarmaðurinn, að síðustu orð mín bæru þess glögglega vitni, að sjálfum djöflinum hefði tekizt að blása óhreinum anda inn í sálarskarnið mitt til þess að blekkja mig eins og fleiri auðtrúa sálir og saklausar fyrir vélabrögðum hans. Þá hafði ég ánægju af að leita eilítið í honum.
Ég tók að leika sakleysingja og fáráðling, sem ekkert vissi. „Heyrðu, hvað mun láta nærri, að sjálf jörðin sé gömul?“ spurði ég. „Vandalaust er að ráða þá gátu,“ sagði hann. „Samkvæmt ritningunni lætur nærri, að hún sé 5000—6000 ára gömul. Sjálfur trúi ég því statt og stöðugt, að 5500 ár séu liðin síðan skaparinn tók sér hvíldina frá sköpunarverkinu.“ „Hvernig getur á því staðið,“ spurði ég, „að á Bergens museum (Björgvinjarsafninu heimsfræga) eru steingervingar, sem norskir vísindamenn fullyrða, að séu allt að 350 milljónir ára gamlir? Þá eiga þeir sem sé að hafa verið lifandi dýr á yfirborði jarðarinnar.“ „Þeir eru kjánar (tullinger),“ sagði hann. — Þá var mér skemmt ¹.
„Jæja, svo að blessaður karlsauðurinn hann Kölski hefur náð mér á sitt vald,“ sagði ég, „og blásið í mig óhreinum anda.“ „Því máttu trúa,“ sagði hann.
„Hefur hann þá breytt um starfshætti og stefnu?“ spurði ég, „því að mér virðist spíritisminn fremur hafa fegrað og göfgað mannlega hugsun með mér, en hið gagnstæða?“ — Bókstafstrúarmaðurinn hvarf frá mér í skyndingu og með hálfgerðri fyrirlitningu, fannst mér.

¹ Til gamans vil ég geta þess, að sams konar steingervingar eru í Byggðarsafni Vestmannaeyja, gefnir mér í enskri kolanámu sumarið 1931.
Skýringarnar við steingervingana skrifaði ég upp í Bergens Museum.


Faðir minn situr miðilsfund


Sálarrannsóknirnar urðu mér svo æ hugstæðari. Faðir minn hafði einnig mikinn áhuga á þessum málum, ekki sízt eftir að hann missti seinni konu sína, stjúpu mína. Það var árið 1943. Árið eftir tók hann að kenna lasleika. Þá fór hann til Reykjavíkur til þess að leita sér lækninga. Hann var þá 67 ára (f. 1877). Þegar hann svo fór aftur austur, kom hann við hér í Eyjum og dvaldist um sinn hjá okkur hjónunum. Þá lét hann mig skrifa niður eftir sér þessa frásögn, sem ég birti hér nú eftir 29 ár. Síðar í grein þessari tjái ég lesanda mínum, hvernig á því stendur, að ég birti nú loks þessa frásögn hans.
Honum sagðist svo frá orðrétt: „Ég hafði kennt mér meins innvortis um nokkurt skeið. Ég afréð að leita mér lækninga í Reykjavík. Þangað fór ég svo fyrri hluta októbermánaðar (1944). Þar bjó ég hjá mági mínum, Jóni Gunnarssyni frá Holti í Mjóafirði. Hann býr að Höfðatúni 2 í borginni og stundar verzlunarstörf.
Ég missti konu mína árið áður (1943) og þráði að komast á fund miðils, þegar til Reykjavíkur kæmi. Þessa ósk mína vissi mágur minn og vann að því, að svo mætti verða.
Sonur minn af síðara hjónabandi, Gunnar að nafni, er kvæntur, og búa þau hjón í Mjóafirði eystra. Þau eiga þrjú börn, og er elzta barnið stúlka.
Áður en ég fór að heiman, hafði ég hugsað mér að ánafna sonardóttur okkar silfurpör af mittisbelti, sem konan mín hafði átt. Það vissi ég óskir hennar. Þetta gerði ég, áður en ég fór að heiman, ef ég skyldi ekki eiga afturkvæmt heim lifandi sökum veikinda minna. — Ég setti silfurpörin í umslag, merkti það sonardóttur okkar og læsti það síðan niðri í kommóðuskúffu.
Ekki hafði ég orð á þessu við nokkurn mann.
Í Reykjavík fann ég að máli Jens lækni. Afréð hann, að tekin skyldi af mér mynd í Landspítalanum. Að myndatökunni lokinni skrifaði læknirinn bréf varðandi sjúkdóm minn, lokaði því vandlega og lagði svo fyrir, að ég skyldi daginn eftir afhenda það sérfræðingi, sem hann til tók. Nafnið hans stóð skráð á umslagið. Ég stakk bréfinu í brjóstvasa minn og arkaði síðan frá Landspítalanum niður í bæ. Ekki hafði ég orð á því við nokkurn mann, að ég hefði þetta bréf meðferðis eða í vasanum.
Um kvöldið þennan sama dag (31. okt. 1944) hafði mágur minn fengið loforð um miðilsfund og hafði sagzt vilja hafa með sér frœnda sinn á fundinn, en við erum óskyldir.
Miðilsfundurinn hófst kl. 9 með því að sungnir voru fjórir sálmar, meðan miðillinn féll í trans. Lítil stúlka talaði gegnum miðilinn. Brátt beindi hún máli sínu að mér. Hún sagði: „Hér er komin kona með öldruðum manni gráskeggjuðum, lágum vexti á sauðskinnsskóm.“ Mér flaug í hug afi konu minnar. Hann þekkti ég vel. „Hvað heitir þessi gamli maður?“ spurði mágur minn. „Ég sé (finn) ekki betur, en að hann heiti sama nafni og þú,“ segir stúlkan. — Mágur minn heitir nafni afa síns, heitir Jón Gunnarsson, eins og ég drap á. Nafni konunnar gat stúlkan hins vegar ekki náð. Þá spurði ég, hvernig konan væri klædd og hvernig hún væri vaxinn. Stúlkan lýsti henni svo greinilega, að mér fannst ekki um að villast. — Þá kom stúlkan með þau skilaboð frá konunni, að henni hefði fallið vel, hvernig ég hefði ráðstafað silfurmillunum, áður en ég fór að heiman. Þau orð fannst mér óræk sönnun þess, að hún væri sú, sem ég hafði hugboð um, því að ég hafði ekki minnzt á ráðstöfun mína varðandi silfurmillurnar við nokkurn mann.
Þá færði stúlkan mér þau skilaboð frá konunni, að ég liti til með börnunum okkar þrem og líka því fjórða. Ég þóttist skilja það svo, að hér ætti hún við barnabörnin okkar þrjú, börn Gunnars sonar okkar. Um önnur börn gat ekki verið að ræða. En hvað gat hún átt við með fjórða barninu? — Þá rann upp ljós fyrir mér: Kona Gunnars var vanfær og komin langt á leið. Það hlaut að vera fjórða barnið, sem hún átti við, ályktaði ég.
En svo kom fjórða sönnunin fyrir því, að þetta væri hún sjálf: Stúlkan bar mér þau skilaboð frá henni, að ég gætti vel bréfsins, sem ég hefði í brjóstvasanum. — Eins og ég tók fram, þá hafði ég ekki minnzt á það bréf við nokkurn mann.
Að lokum sagði stúlkan: „Á myndinni af þér, sem hangir yfir rúminu þínu heima, ertu ekki með skegg, eins og núna.“ (Faðir minn hafði dálítið yfirvararskegg, frá því ég fyrst mundi eftir honum. Þ.Þ.V).

Myndin af föður mínum (8 ára), sem hékk yfir rúminu.

Í umgjörð yfir rúminu mínu heima eru margar barnamyndir, m.a. af dætrum mínum frá fyrra hjónabandi og svo mér. Hún var tekin, þegar ég var 8 ára. Konan mín lét ganga frá þessum myndum í umgjörðinni. Ekki hafði ég getið um þessar myndir við nokkurn mann í Reykjavík.“


Sjálfur sit ég miðilsfund


Þetta var þá orðrétt frásögn föður míns, sem ég birti hér samkvæmt orðsendingu hans á miðilsfundi í Reykjavík 10. marz 1972. Þennan fund sat ég sjálfur og hafði ég þá aldrei setið miðilsfund fyrr, þrátt fyrir trú mína og sannfæringu á kjarna spíritismans.
Þessi miðilsfundur varð mér svo markvert fyrirbrigði, að hann líður mér naumast úr minni. Ekki færri en 51 persóna lét mig og okkur hjónin vita af sér þarna í nálægðinni. Ég óska að taka það fram, að við hjónin vissum það aðeins með tveggja og hálfs tíma fyrirvara, að við ættum þess kost að sitja þennan miðilsfund.
Þetta fólk allt var mér kunnugt, ýmist á uppvaxtarárum mínum á Norðfirði (10 persónur) eða hér í kaupstaðnum, eftir að við fluttum hingað (41 persóna). Ég veit, að ýmsum lesendum mínum væri forvitni á að vita flest af því, sem sumir þessir kunningjar mínir og vinir ræddu við mig. Flest af því gat enginn, sem hlut átti að fundi þessum, vitað. Það var einkamál. Sumt af því var sérstaklega persónulegt, þar sem minnzt var á samstarf okkar og einkaviðskipti, meðan við öll vorum lífs hér í kaupstaðnum. Samvizka mín býður mér ekki að flíka því. Sumar raddirnar þekkti ég mæta vel. Aðrar persónurnar létu skilaboð nægja. En flest þau skilaboð voru mér ljós og rifjuðu upp gömul persónuleg samskipti. Frá sumum þessum samstarfsmönnum mínum hér í kaupstaðnum hafði ég fengið kveðjur áður af slíkum fundum, þegar nánustu vinir mínir og ástvinir sátu þá fundi.
Faðir minn sagði orðrétt: „Þú manst það, Steini minn, að ég fæddist á nesinu, þar sem jökullinn gnæfir að baki byggðanna.“ (Faðir minn var fæddur að Grunnasundsnesi á Snæfellsnesi norðanverðu 2. okt. 1877). Og þarna var faðir minn sem sé kominn til þess m.a. að sanna okkur hjónum, að hann lifði eftir líkamsdauðann og fylgdist m.a. með lífi og tilveru þessarar fjölskyldu hér í Vestmannaeyjum. Hann lézt árið áður en við hófum byggingu á Goðasteini, íbúðarhúsinu okkar. Þó gat hann lýst íbúðinni okkar og mynd, sem er í stofunni, sérstakri mynd, sem hann virtist vilja annast um eða væri honum hugleikin.
Hann lét færa mér þau skilaboð, að nú mætti ég fara að minnast greinarinnar, sem geymd væri í brúna umslaginu í skrifborðsskápnum mínum hægra megin, þegar ég sæti við skrifborðið. (Ekki skyldi á því villast, hvorn skápinn hann ætti við). Í þessum skáp hægra megin var einmitt geymd greinin um miðilsfundinn í Reykjavík. Frásögn hans af þeim fundi hafði ég geymt frá árinu 1944. Liðin eru því 28 ár frá þeim samfundi okkar, þegar þessi grein er skrifuð.
Að lokum sagði faðir minn, að enn væri lokkurinn af ungu stúlkunni geymdur í efstu kommóðuskúffunni í svefnherbergi okkar hjóna. Og ekki væri sá hárlokkur af þeirri dóttur okkar, sem með okkur sæti þennan fund. Það var Kristín dóttir okkar. Ég gaf þessu ekki gaum á fundinum. Hélt satt að segja, að hér væri einhver ruglingur í málinu. Eftir fundinn kom mér þó til hugar, að spyrja konu mína, hvaða brú væri í þessu um hárlokkinn. Jú, hún kannaðist við hann. Lokkurinn væri af yngri dóttur okkar, klipptur af henni smátelpu, og hefði hann alltaf síðan verið geymdur í umslagi þarna í kommóðuskúffunni. Konan sýndi mér hárlokkinn, þegar við komum heim.
Ég hef ávallt haft mikið dálæti á séra Matthíasi, skáldinu og trúmanninum einlæga. Er ég las óbrotin erfiljóð í ljóðasafninu hans, rakst ég þar á erindi, sem gagntók huga minn. Og af hverju það? Af þeirri einföldu ástæðu, að efni þess hafði lifað í huga mér frá unglingsárunum. Mér bauð í grun. Mér fannst, að vakað væri yfir velferð minni. Jú, meira að segja teknar ákvarðanir fyrir mig, þegar vit mitt hrökk ekki til eða þroski. Oft fór ýmislegt öðruvísi en ég hafði ætlað mér eða hugsað. Alltaf sá ég það eftirá, að bezt fór sem fór. Og mér fannst, og mér fannst, og þó hef ég aldrei búið yfir neinum dulargáfum að mínu viti.
Og þessi erfiljóðavísa eða erindi séra Matthíasar er þannig:

Einn ertu aldrei. —
það innir hyggjan mín,
því að verur eru nærri,
sem vilja gæta þín.

Trúin á annað líf eftir viðskilnaðinn hérna megin er gömul með íslenzku þjóðinni. Og þessi trú hefur þróazt og þroskazt á seinustu áratugunum. Hin sterka og einlæga ást er jarðsækin, hvort sem það er hjónaást, ást milli barna og foreldra eða af öðrum toga spunnin. — Ástin, kærleikurinn — er máttugasta aflið í tilveru okkar mannanna. Og fögur og lífvænleg eru þessi ljóðorð Jónasar Hallgrímssonar í kvæðinu Ferðalokum. Þau lifa svo lengi sem íslenzkt mál verður til og íslenzka þjóðin trúir og hugsar, ígrundar hin dýpstu rök og elskar menn og málefni. Ljóðorðin eru þessi:

Anda, sem unnast,
fær aldregi
eilífð að skilið.

Og óbrotinn alþýðumaður íslenzkur orðar þessa hugsun í ljóði sínu með þessum orðum:

Öndum tveim, sem unnast heitt.
eilífð hefur veginn greitt
upp og fram til samlífs, dugs og dáða.

Nú fer ég að kveðja þig, kæri vinur og frændi. Ég hefi lagt mikla vinnu af mörkum til þess að fullnægja sem mest og bezt spurningum þínum, hugsun eða hugarfóstri.
Aðeins þetta er eftir:
Þegar tækifærið bauðst mér, ræddi ég þennan miðilsfund, sem ég sat, undir fjögur augu við góðkunningja minn í sértrúarflokki. Hann hlustaði á mig auðsjáanlega af mikilli meðaumkun og sagði síðan: „Ég get sagt þér það einlæglega og hreinskilnislega, Þorsteinn minn, að þetta eru þær slyngustu og háskasamlegustu blekkingar djöfulsins, sem ég hef heyrt sagt frá nú lengi. Hann leggur sig auðheyrilega í líma með að blekkja þig og pota þér beina leið til helvítis.“ — Þá hló ég. — Ó, vei mér vantrúuðum.
Þarna fékk ég það óþvegið hjá þessum vini mínum og velunnara, og er hann þó enginn heimskingi. Fjarri fer því. Þessum ósköpum svaraði ég þannig af hreinskilni: „Veslingurinn hann Kölski hefur aldrei verið mér neinn óvinur. Vissulega er hann oft knæfur, blessaður karlinn með hornin og klaufirnar. Það hneykslar mig þó mest, að íslenzka þjóðin skyldi endilega þurfa að einkenna hann með hornum og klaufum svo sem eins og til háðungar og óhróðurs því húsdýrinu, sem mest og bezt hélt lífinu í henni allar sultaraldirnar og fram til þessa dags öðrum þræði. Þá hefði ég heldur kosið á hann silkipípuhatt, og hann gljáandi, eða borðalagða og fagurskreytta einkennishúfu, því að þannig hafa jafnan háskasamlegustu mannverur mannkynsins verið búnar til höfuðsins, — hinir sönnu og fyrirferðarmestu arfnjótar apakynsins.“
Ég kveð þig frændi minn góður og vinur með góðum óskum og virktum.
Ef til vill á ég enn eftir að svara spurningum frá þér varðandi sum gömul bæjarmál hérna í kaupstaðnum. Þau svör bíða þá seinni tíma.
Lifðu sæll í trú þinni. Það skiptir mestu máli.

Til baka



Horft á hljómsveitina „Tilveru“ í sjónvarpinu

Væri ég ungur og ærslagjarn drengur,
inn í mig tónlistin smygi,
en fimmtugur öldungur er ekki lengur
á þessu tilverustigi.
H.St.