Blik 1973/Bréf til vinar míns og frænda, I. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 2. október 2010 kl. 21:10 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 2. október 2010 kl. 21:10 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1973



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Bréf til vinar míns og frænda

Lífsskoðun mín, og svo trú og
siðgæði og sitthvað fleira.


Ég færi þér alúðarþakkir fyrir bréfin þín, hvatningarorðin og spurningarnar. Vissulega hefur dregizt úr hömlu fyrir mér að svara þér í Bliki mínu, eins og þú ætlast til og óskar eftir. Að því viltu vera valdur. Já, vissulega hefi ég velt fyrir mér þessum trúmálaspurningum öllum og þá spurt sjálfan mig: Hvað skal sagt og hvað skal láta ósagt? — Sum þessara mála eru viðkvæm og orka á tilfinningalífið. Ég geng þess ekki dulinn, að ég muni hneyksla ýmsa velunnara mína og vini, þegar ég hefi sagt allt, sem mér býr í brjósti um trú og trúrœkni, heilaga einfeldni og helvíti, samvizku og sálarrannsóknir, lausn undan oki ástríðna, guðlegar dyggðir og um sjálfan Kölska, áhrif rússneskrar byltingar á einfaldar sálir, bókstafstrú, hindurvitni, apann og arfgengið og sitt hvað fleira. Ég læt móðan mása eins og þú, sem knýrð á.
Já, ég hef afráðið að svara flestum spurningum þínum á mína vísu eftir nokkra íhugun og vangaveltur, sem kallað hafa fram í huga minn glögg minni um sérstæða atburði, sem mætt mér hafa og orkað á hug minn á langri lífsleið. Jafnframt viðurkenni ég það eða játa, að ég sem þetta allt og birti með hálfum huga af ótta við að hneyksla skelfilega vini mína og velunnara, eins og ég tók fram. En hvers vegna ekki að koma til dyranna, eins og maður er klæddur? Ég vona einungis, að ég raski ekki sálarfriði þeirra með þessum skrifum mínum.
Staðföst von mín er sú, að alfaðir okkar allra sætti okkur og sýni okkur hið rétta um tilveruna í heild, þegar við mætum þar öll fyrir dóminum mikla, eins og komizt var að orði, þegar ég bjó mig undir ferminguna í barnaskólanum á Nesi í Norðfirði á árunum 1910—1914.


Aldrei deilt um trúarskoðanir
við nokkurn mann


Ég óska að taka það fram strax, að ég hefi aldrei deilt við nokkurn mann um trúarskoðanir, aldrei staðið þar á vissum atriðum eins og hundur á beini, aldrei álasað nokkrum fyrir trúarskoðanir sínar eða trúarlega sannfæringu, hversu fráleit sem hún hefur virzt mér og andstæð mínum trúarskoðunum. Ég býst við, að í þessum efnum hafi gætt varanlegra áhrifa fósturforeldra minna og æskuheimilis míns að Hóli í Norðfirði, gætni þeirra og grandvarleik um öll þau mál, sem lutu að trú og tilbeiðslu, guðrækni og trúfræðilegum rannsóknum, sem þau lásu mikið um og ræddu sín á milli, þar sem ég einn var þögull áheyrandi.
Aldrei heyrði ég fósturforeldra mína álasa nokkrum manni fyrir trú sína eða trúarskoðanir, hversu ógeðfelldar eða hvimleiðar, sem þær virtust þeim, — jafnvel hneykslunarhella, þegar svo bar undir, — aldrei. Og ég dró og hefi ávallt dregið dám af háttum og heimilislífi fósturforeldra minna, sem ég mat mikils, virti og elskaði. Þar mótuðust trúarskoðanir mínar eins og aðrar lífsskoðanir, en hina svokölluðu barnatrú eignaðist ég aldrei, að ég bezt fæ skilið.
Ég held ég geti fullyrt, að ég sé sneyddur öllum dulrænum gáfum, eins og það hugtak er skilið í daglegu tali manna. Og þó að mér takist oft að lesa í hug manna og „kanna nýrun“, þá knýti ég þann eiginleika ekki við dulræna hæfileika.


Dulrænt fyrirbrigði?


Aðeins einu sinni hefur fyrir mig borið atburður, sem ég fékk aldrei skilning á, svo að ég hyrfi frá hugmyndinni um dulrænt fyrirbrigði.
Ég var á sjöunda árinu. Ég sat á nöf stigagats í íbúðarhúsi og horfði niður eftir stiganum, sem lá beinn og með nokkrum halla niður í koldimman gang í átt að útihurð hússins. Dálítið svæði var þó frá útihurð að stiganum.
Eilitla ljósglætu lagði niður í efstu stigaþrepin frá litlum loftglugga á súðinni fyrir ofan höfuð mitt eða til hliðar við það. Að öðru leyti var koldimmt í stiganum og ganginum. Frá útihurðinni inn með bröttum stiganum lá gangur álíka breiður og stiginn. Þar var einnig dimmt, þegar allar hurðir voru lokaðar, en að baki stigans voru eldhúshurð og stofuhurð.
Þar sem ég sit nú þarna í hugsunarleysi barnsins, tek ég allt í einu eftir því, að rauðleitur hnoðri líður inn ganginn og hverfur bak við stigann. Ég beygi mig og sný upp á búkinn til þess að geta séð hann sem allra lengst. Þarna hvarf hnoðrin inn í myrkrið að stigabaki.
Ekki fann ég til hræðslu við sýn þessa. En undrandi sat ég enn um stund, hugleiddi fyrirbrigðið og starði niður í myrkrið.
Hvað gat þetta verið, spyr ég sjálfan mig? — Dulrænt fyrirbrigði? Og hvers vegna aldrei framar?


Æskuheimili mitt


Með bréfi þessu til þín birti ég mynd af fósturforeldrum mínum og geri þar stutta grein fyrir þeim. Þau höfðu eignazt eitt barn, son, sem var sjö árum eldri en ég. Hann hvarf að heiman frá þeim um tvítugs aldur, — alfarinn.
(Sjá mynd af fjölskyldunni í Bliki árið 1967, bls. 193).
Mér er óhætt að fullyrða, að ég var frá fyrstu tíð, er ég kom að Hóli, þá sjö ára, augasteinn fósturforeldra minna, sérstaklega hans. Hann mótaði mig, ef til vill óafvitandi, — einnig í trúarlegum efnum.
Aðeins einu sinni ávítti hann mig eða áminnti þau 10—11 ár, sem ég dvaldist hjá þeim. Þá braut ég gegn siðgæðisvitund hans. Þá varð fóstri minn reiður, fannst mér. —
Og hvað hafði ég svo gert af mér? Að hans dómi hafði ég níðzt á strák, sem var eilítið yngri en ég, — neytt krafta minna til þess að binda hann við vatnsstokkinn, sem vatnið rann eftir úr læknum í fiskþvottakar stúlknanna.
Við strákarnir færðum fiskinn að og frá stúlkunum og urðum ósáttir eins og gengur. En níðast mátti ég ekki á honum eða fara illa með hann, af því að ég var eldri og sterkari en hann, — fyrst og fremst það. Það var siðgæðisbrot að dómi fóstra míns. Og það leið hann ekki.
Þessu atviki hef ég aldrei gleymt. Síðan hefur níðingsskapur í öllum myndum verið mér sjálfum viðurstyggð.
Og trúarskoðanir mínar, eins og svo margt annað í lífinu, mótuðust undir handarjaðri þessara hjóna.


Trúrækni fósturforeldra minna


Flest sunnudagskvöld vetrarins öll þau ár, sem ég dvaldist hjá þeim, las fóstri minn húslestur í „Péturspostillu“. Þá hafði hann oftast tvo áheyrendur til að byrja með, fóstru mína og mig. En ekki hafði hann lesið lengi, þegar ég var steinsofnaður í snærisbeddanum mínum þarna í stofunni gegnt rúminu þeirra, en þar svaf ég hjá þeim fyrstu tvö árin. En svo var ég fluttur til og þá urðu líka áheyrendastundirnar stopulli.
Á Föstunni las fóstri minn hugvekjur, oftast Péturshugvekjur, og þá sungu þau saman Passíusálmana. Hann spilaði þá á lítið orgel, sem þau áttu og stóð í stofunni. Á það lærði hann að spila mest af sjálfum sér, eins og það er orðað.
Yfir þessum guðræknistundum var alvöru -og tilbeiðslublær. Aðeins einu sinni brá út af því. Ég held ég verði að veita mér þann munað að segja þér þá sögu.
Í íbúðarhúsi þeirra hjóna á Hóli (í gamla húsinu, sem brann til kaldra kola í jan. 1920) var leiguíbúð. Eitt árið leigðu þar hjón með tvo drengi, sem þau áttu. Faðir þeirra talaði oft um trúmál og taldi sig mikið trúaðan mann, sem stundaði að jafnaði guðrækilegar hugleiðingar. Aldrei varð ég þess þó var, að hann læsi húslestra eða hugvekjur. Ekki skulum við álasa honum fyrir það. Stundum kom það fyrir, að þau leigjendahjónin sátu inni hjá okkur og hlustuðu á húslestur eða hugvekju hjá fóstra mínum.


„Farðu út með strákormana, Jórunn, svo að ...“


Eitt sinn beiddist leigjandinn þess að mega lesa hjá þeim hjónum einn lestur úr Vídalínspostillu, sem hann kvaðst lesa iðulega og vera sérlega hrifinn af. Það var auðsótt mál. — Ég breyti hér nöfnum í frásögn minni.
Þegar lesturinn hófst, vorum við sjö saman í dagstofunni okkar á Hóli, því að báðir drengirnir þeirra hjóna, leigjendanna, voru þarna einnig. Þeir voru 5 og 7 ára gamlir.
Svo hóf þá leigjandinn lesturinn. Hann var langur, eins og þeir eru allir í Jónspostillu.
Þegar leið fram á lesturinn, tóku drengirnir að ókyrrast og ég dottaði í sætinu mínu, en þó engum til meins. Drengirnir þrábáðu móður sína að lofa sér að fara til þess að hátta og sofa. Hún þráaðist við fyrst í stað og hlustaði á mann sinn lesa, enda þótt hann læsi svo hratt eins og reyfari væri og flýta þurfti sér einhver ósköp. Loks nam hann staðar í miðjum lestrinum og hreytti þessum orðum út úr sér: „Farðu út með strákormana, Jórunn, svo að við getum notið guðsorðsins í friði og ró.“ — Við þessi orð krossbrá mér, svo að ég glaðvaknaði. Fósturforeldrar mínir litu hvor til annars. Ég geri ráð fyrir, að þeim hafi fundizt nóg um, en aldrei heyrði ég þá ræða síðar þennan atburð. En leigjandinn las aldrei hjá okkur hugvekju eða lestur eftir það.
Eftir að predikunarsafn Haraldar prófessors Níelssonar, — Árin og eilífðin, — kom út, las fóstri minn þær predikanir hvern vetur. Þá var ég farinn frá þeim hjónum í skóla úti á landi. Dálæti þeirra á kenningum prófessorsins kom mér ekki á óvart, svo oft hafði ég heyrt þau hjón ræða spíritismann og eilífðarmálin í ljósi hans. Þá hlustaði ég vel. Að öllum líkindum hafa þær samræður þeirra mótað að einhverju leyti trúarskoðanir mínar. Þá lagði ég eyrun við og reyndi að hugsa, — gera mér eitt og annað í hugarlund í þessum efnum.
Ný trú, nýjar skoðanir og þó gömul með íslenzku þjóðinni, aðeins matreidd henni með nýjum hætti, nýjum orðum, meiri dirfsku.


Lærdómskverið.
„Drottinn gerir fátækan og ríkan.
Hann niðurlægir og upphefur“


Svo er það þá Kverið og nám þess í barnaskólanum. Yfirleitt lærðum við kver Helga lektors Hálfdánarsonar. Mér leiddist Kverið óskaplega og mér gekk illa að læra það, svo að vel væri. Það hafði á ýmsan hátt slæm áhrif á afstöðu mína til ýmissa kristilegra kenninga, í beiskju minni yfir fræðum þessum tók ég að hengja hatt minn á ýmsar fullyrðingar þar. Barnakennarinn kærði mig eitt sinn fyrir fósturforeldrum mínum vegna vanrækslu um það að læra Kverið viðhlítandi. Sagði hann sem satt var, að ég slægi slöku við að læra það og kynni það jafnan illa.
Frá þessum þululærdómi hefi ég ýmislegs fleira að minnast.
Eitt sinn arkaði ég í gremju minni til fóstra míns, þar sem hann var einn við smíðar á verkstæðinu sínu, en hann var öðrum þræði smiður á tré og járn. Ég var þá að rembast við að læra fimmta kafla Kversins, sem fjallar um forsjón guðs. Þar stóð þessi ritningargrein: „Drottinn gerir fátækan og ríkan. Hann niðurlægir og upphefur.“
Nú var það svo, að á næstu grösum var kaupmaðurinn með allan atvinnureksturinn sinn, útgerð og verzlun, fiskkaup af erlendum togurum og margt fleira, sem gaf mikinn gróða í aðra hönd. Það vissu bæði guð og menn, að hann mokaði saman auði á kostnað smáútgerðarmannanna og verkamanna sinna, sem naumast drógu fram lífið sökum hinna ofurlágu launa, sem þeir fengu greidd í vörum, sem kaupmaðurinn sjálfur réði verði á. Þeir gátu hvergi nærri lifað mannsæmandi lífi. Það skildi ég allt síðar. Voru þetta verk guðs, sem sagður var algóður og réttlátur? Um algæzku hans og réttlæti efaðist ég ekki samkvæmt sannfæringu fósturforeldra minna. Hvers vegna var þá lektorinn látinn skrökva þessu í okkur börnin? — Í sama kafla var fullyrt, að guð sjálfur niðurlægði og upphefði. — Þá hafði nýlega frétzt norður eftir til okkar, að kunnur fjárplógsmaður á Suðurfjörðunum (Syðri Austfjörðunum), eins og hann var sagður vera, hefði nýlega verið heiðraður eða hafinn upp með einhverri orðuveitingu, — einhverskonar fálka- eða riddarakrossi. Fyrir hvað var guð að verðlauna þennan mann og upphefja? Á sama tíma sáum við strákarnir, að verkstjóri hjá næsta atvinnurekanda leyfði sér að niðurlægja verkamennina með því að sparka í endann á þeim, ef honum fannst þeir vinna slælega. Var þessi niðurlæging verkamannsins vilji guðs? Blés hann þeirri hugsun í brjóst verkstjórans, að sparkið væri hin réttláta hirting? - Guð niðurlægir og upphefur, stóð þar. — Della, bölvuð villukenning og della. Ég arkaði til fóstra míns í hita og fítungi.
Fóstra mínum varð svarafátt. Hann viðurkenndi þó, að ég færi með rétt mál. Lektorinn vildi sjálfsagt láta skilja þetta á annan veg, hélt fóstri minn. Og svo bætti hann við: „Ójá, það ber oft við í lífinu, að eitt rekur sig á annars horn, eins og presturinn á Bægisá orðaði það um sálmabókina hans Magnúsar heitins. Við skulum ræða um þetta allt síðar, Steini minn. Reyndu eftir beztu getu að smjúga gegnum nálarauga fermingarinnar. Eftir það skaltu vera frjáls.“ —Ég lét sefast. Mikið var hann alltaf sannfærandi, hann fóstri minn, og íhugaði hlutina af sálarró og hyggindum, hugsaði ég.
Af sumum greinum Kversins hreifst ég. Þá þóttist ég skilja einhverja glóru í þeim. Þá minntist ég þess líka, að ég hafði heyrt fósturforeldra mína ræða efnið og leggja það út á sína vísu.


Samvizkan


„Guð ber vitni um sjálfan sig, eigi aðeins hið ytra í náttúrunni og stjórn sinni á högum mannanna, heldur og hið innra í sálum vorum, sér í lagi samvizkunni, er gefur öllum mönnum vísbendingu um guðs vilja. Þess vegna hafa allar þjóðir meðvitund um einhvern guðdóm.“ — Þessa kenningu í kverinu fannst mér ég skilja mæta vel. Helzt fannst mér ýmislegt bera vitni um það, að blessaður guðdómurinn léti ekki stjórn sína á högum mannanna vitna svo mjög um almætti sitt og algæzku. Mundi hann ekki lofa okkur mönnunum að vera okkar eigin gæfusmiðir og taka svo afleiðingunum, til þess að glæða skilning okkar á tilverunni í heild, markmiði hennar og lögmálum?
Ritningargreinin úr Rómverjabréfinu fannst mér athyglisverð: „Þegar heiðingjarnir, sem ekki hafa lögmál, gjöra af náttúrunni það, sem lögmálinu er samkvæmt, þá eru þeir, þótt ekki hafi þeir lögmál, sjálfum sér lögmál, því að þeir sýna, að verk lögmálsins er ritað í hjörtu þeirra, með því líka, að samvizka þeirra vitnar, og hugrenningar ýmist ásaka eða afsaka þá.“
Þessar greinar í lærdómskverinu fannst mér ég skilja vel. Ég mat þær. Það er og var óneitanlega lögmál samvizkunnar, rödd hennar, sem mestu máli skipti. Væri hún vel vakandi, segði hún okkur, hvað skyldi gert og hvað látið ógert í hverju tilviki. Þar bærði guðsneistinn á sér í brjósti hvers manns, lifandi og glæddur hjá mörgum, hulinn eða kæfður hjá allt of mörgum, allt eftir manngerðinni og þroskanum. Þennan skilning staðfesti fóstri minn. — Sé samvizkan vond, brennur þar í brjósti manns hið heita helvíti í sálarlífinu, ekki sízt eftir líkamsdauðann. Annað helvíti er ekki til. Allar aðrar kenningar um það eru lygar og blekkingar. Þannig var hið grófa orð upphaflega hugsað og myndað: Vítið eftir líkamsdauðann, það er hin kveljandi vonda samvizka eftir viðskilnaðinn. Eftir að ég hafði lesið Hinn guðdómlega sjónleik eftir Dante — það gerðist svo sem 7 árum eftir ferminguna — varð þessi lygakenning katólsku kirkjunnar um kvalastaðinn mér ennþá meiri viðurstyggð. Ömurlegt og átakanlegt er að hugsa sér eða velta fyrir sér kristilegu kenningunum, þar sem guð er sagður algóður, alvitur og almáttugur, og á þá eiginleika hans trúi ég, og svo lætur hann „óvininum mikla“ og áhrifamikla það eftir að þjá og kvelja svo og svo mikinn hluta af mannkyninu, sjálfri kórónu sköpunarverksins, í helvítiseldi, og það til eilífðar eftir líkamsdauðann. Hvílíkt guðlast. Hvílík svívirða. Slíka kennimenn vil ég láta húðstrýkja á almannafæri og víta þá stofnun, sem þeir þjóna. — Veldur sérgæzka og eigingirni þeirrar stofnunar öllum hörmungunum á Írlandi.
Við sumir strákarnir á Nesi, sem lásum Helgakverið fyrir ferminguna og gengum til spurninga hjá sóknarprestinum, séra Jóni prófasti Guðmundssyni, tókum að hugleiða þessi mál öll og efast, en aldrei hættum við á að leita álits prestsins um þau.
Við komum okkur ekki að því, og þó mátum við hann mikils og bárum traust til hans.
Kristnifræðikennarinn í barnaskólanum skilgreindi fyrir okkur merkingu hins dásamlega orðs í móðurmálinu, orðsins samvizka. Það þýddi, sagði hann, að vita með guði skil góðs og ills. Sú skilgreining féll vel að skilningi okkar og hugsun. Þetta fagra orð hlaut því að vera hugsað og myndað af djúphyggju og skörpum skilningi á dýpstu rökum lögmálsins mikla og tilverunnar í heild. Allt er hjóm og endaleysa, fimbulfamb, spilling í hugsun og gjörðum án raddarinnar miklu, áttavitans óbrigðula, sé hann í heiðri hafður, sé rækt við hann lögð. Þá ályktun staðfesti fóstri minn. Þá hlaut það að vera rétt, ályktaði ég.
Og svo féllu orð og gerðust atvik, sem ég undraðist, af því að hið heittrúaða fólk olli þeim, fólkið, sem sérstaklega virtist vilja vanda orð sín og athafnir guði til þóknunar og dýrðar. Eflaust taldi það sig sjálft ganga á guðsvegum, og enga nema það.


Fóstru minni boðuð vítisvist


Sértrúarflokkur átti nokkru fylgi að fagna, þegar ég var að alast upp á Nesi. Ein sértrúarhjónin voru um tíma leigjendur hjá fósturforeldrum mínum. Þetta voru mikil sæmdarhjón, sem ekki máttu vamm sitt vita og virtust vanda daglegt líf sitt samkvæmt kenningunum. Þau voru grandvör og trúuð. Eitt sinn sagði fóstra mín í léttum tón við leigjanda sinn, sértrúarflokkskonuna: „Trúað gæti ég því, Guðný mín (nafninu breyti ég), að við ættum eftir að lifa saman í himnaríki.“ Þá sagði konan orð, sem aldrei gleymast mér: „Nei, biddu fyrir þér, Stefanía mín, svo mikið djúp er staðfest á milli okkar í trúarlegum efnum, að þvílíkt getur ekki átt sér stað.“ — Nú, voru nema tveir dvalarstaðir þarna hinu megin grafar? Var þá nema um kvalarstaðinn að ræða fyrir fóstru mína, fyrst himnaríki var henni lokað? Fóstra mín steinþagnaði. Síðan heyrði ég fósturforeldra mína ræða þetta svar konunnar. Annars var aldrei minnzt á það framar, svo að ég heyrði eða vissi til. Og engin áhrif hafði heljarvistunin á framkomu og hlýleik fóstru minnar gagnvart konunni. Þar sýndi hún og sannaði hinn sanna þroska hinnar trúuðu sálar. Ég hygg, að fóstra mín hafi litið á svar konunnar eins og ávöxt misskilnings á algæzku guðs og miskunnsemi. Í augum fóstru minnar var „neðri vegurinn“ ekki til, heldur aðeins hinn eini vegur, sem mannssálunum gengi svo mismunandi vel að finna og fika sig eftir upp og fram, ef ég mætti orða það þannig. Öll velgengni okkar á þeim eina vegi var háð þroska okkar, hugsun, vitund og vilja. Hinn algóði guð fóstru minnar gat ekki verið hefnigjarn guð eða haldinn kvalaþorsta. Kenningin um eldinn skelfilega var henni hið guðlastandi orðagjálfur, hið óskaplegasta guðlast.


Glæpsamlegt athæfi


Og svo gerðist atburður, sem ég hef aldrei gleymt. Hann átti sér stað veturinn 1914. Þá var ég á 15. árinu og átti að fermast um vorið. Þann vetur rak Ólafur Sveinsson frá Firði í Mjóafirði unglingaskóla í kauptúninu á Nesi, og við fimm skólasystkinin í efsta bekk barnaskólans vorum látin stunda nám í unglingaskólanum hjá Ólafi síðasta veturinn okkar fyrir ferminguna. Bágindi mín við utanbókarlærdóminn lét barnaskólastjórinn, Valdimar Long, síðar kaupmaður í Hafnarfirði, ekki hamla því, að ég fengi að njóta getu minnar á öðrum sviðum bóknámsins.
Einhver stöðvun var á rekstri unglingaskólans nokkra daga um veturinn.
Þá fór ein kunnasta fuglaskytta í kauptúninu þess á flot við fósturforeldra mína, að þeir lánuðu mig á „skytterí“, fyrst ég hefði nokkurt tóm frá náminu. Það var auðsótt mál, enda áttu þau að fá vel í soðið fyrir starf mitt. Snemma morguns rérum við svo tveir á skektu fugladreparans út með landinu. Utan við Uxavogstanga sáum við, hvar æðarhópur kom fljúgandi í góðu skotfæri. Þá greip skyttan til byssunnar, miðaði og skaut. — Fimm fuglar féllu í sjóinn. Af þeim náðum við tveim. Hinir sluppu undan okkur meira og minna særðir. Á leiðinni út með landinu út að Nípustapa skaut hann nokkra svartfugla.
Í nánd við Stapann kom æðistór hópur æðarfugla fljúgandi og í „góðu færi“. Hann miðaði og skaut. Mig minnir, að sjö fuglar féllu í sjóinn. Af þeim náðum við þrem. Hinir sluppu meira og minna særðir.
Svo lögðum við leið okkar yfir fjörðinn, suður að Norðfjarðarhorni. Þar skaut hann, drap og særði marga fugla. Brim var við ströndina, svo að hættulegt gat reynzt að fara þar of nærri. Hann skaut á svartfugl í átt til lands. Fuglinn særðist mikið en drapst ekki. Vængurinn annar var skotinn sundur og loddi við búkinn. Fuglinn virtist synda í látlausa hringi. Af því dró ég þá ályktun, að annar fóturinn væri brotinn og að hann synti með heila fætinum.
Við vildum reyna að ná fuglinum og nálguðumst landið. En þá hryggjaði brátt undir fleytunni okkar, svo að við snérum frá. — Þarna misstum við þennan fugl helsærðan upp í brimið.
Liðið var fast að hádegi, þegar við héldum heim. Ég var þögull á leiðinni í land og réri af kappi. Og hvað olli svo þögn minni? Jú, ég hafði í ógáti verið lánaður til þess að vinna glæpsamlegt athæfi. Hvað um fuglana, sem sluppu meira og minna særðir undan okkur? Þetta var glæpur, og ég var þátttakandi í illverkinu. Ég gat ekki á heilum mér tekið.
Þegar við svo lentum, var allur æðarfuglinn, sem við höfðum drepið, látinn í poka og bundið kyrfilega fyrir. Þetta var friðaður fugl, sem sektir lágu við að skjóta. Auk glæpsins var hér framið lögbrot. Margir drápu þó þennan fugl, báru hann heim í pokum, svo að minna bæri á lögbrotinu. Þess vegna voru fuglar þessir jafnan kallaðir pokaendur í daglegu tali. Hreppstjórinn í kauptúninu, umboðsmaður sýslumannsins á Eskifirði, átti bágt með að þola þetta lögbrot eða vita af því svo að segja fyrir augunum á sér. En hvað verður ekki á sig að leggja stundum til þess að halda friði við samborgara sína?
Þegar ég kom heim frá glæpaverknaði þessum, rann af mér þöglin. Þá skýrði ég fósturforeldrum mínum frá athöfn þessari og verknaði, hvernig fuglarnir væru meira og minna særðir, brotnir vængir og fætur, hagl eða högl í bringu o.s.frv.
Fósturforeldrar mínir urðu agndofa við frásögn mína. Þeir höfðu þá aldrei gert sér í hugarlund, hvernig þetta gerðist og hverjar afleiðingarnar yrðu af skotferðum þessum. Og við vorum öll sammála um það, að þetta væri óguðlegt athæfi að særa dýrin, hálfdrepa þau og yfirgefa þau þannig. Slíkar athafnir samrýmdust ekki hinni kristnu hugsun fósturforeldra minna. Þau hétu því að lána mig aldrei framar til slíkra verka. Það heit efndu þau, meðan ég var hjá þeim.
Í nær 50 ár hefur þessi spurning vakað innra með mér: Er nokkurt samband á milli þessa atburðar, þegar við eltum vængbrotinn og meira særðan svartfuglinn upp að brimgarðinum við Norðfjarðarhorn og urðum frá að hverfa án hans, og svo slyssins mikla, er Óli Vigfússon, fóstbróðir minn, drukknaði á sama stað haustið 1923 við að elta særðan fugl upp að brimgarðinum? Þeir voguðu sér of nærri landi, svo að yfir þá braut holskeflan, að haldið var? Já, er þarna nokkurt samband eða aðeins tilviljunin ein?


„... Hið vonda, sem ég vil ekki, það gjöri ég“


Þrem árum síðar kom fyrir mig atburður, sem ég skil ekki enn, hvernig gat hent mig. Ég blygðast mín enn með sjálfum mér fyrir þetta athæfi mitt. Og hvert var það athæfi? — Ég vann níðingsverk á fugli.
Ég dvaldist um tíma á bæ, þar sem ungir menn fóru svo að segja daglega með byssur og skutu fugla fram með ströndinni til daglegrar fæðu. Skyldi ég geta skotið úr byssu, hugsaði ég, og hitt eins og strákarnir? Svo var það einn daginn, að ég fékk lánaða byssu, hlaðna byssu. Ég rölti með hana niður á klöpp við sjóinn. Þar sá ég æðarkollu synda á voginum, sem myndaðist milli tveggja klappa. Ég miðaði og skaut. Og sjá: Ég hitti dýrið, en drap það þó ekki. Þarna synti það látlaust í hringi. Efalaust var annar fóturinn brotinn eða a.m.k. lamaður, og svo högl í búk eða bringu. Nú greip mig óumræðilegt kvalræði. Ég hafði unnið ódæði, óskaplegt ódæði, níðingsverk á saklausum fugli. Ég hljóp heim að bænum til þess að fá lánaðan sundhundinn. Hann var fyrst og fremst notaður til þess að sækja út frá ströndinni særða og dauða fugla, þegar á þá var skotið frá landi. En hundinn fann ég ekki. Nú tók kvalræðiseldurinn að þjá mig. Ég hafði vonda samvizku. Þessi helvítiseldur brennur innra með hverjum þeim, sem vinnur ódæðisverk og fær opin augun fyrir því. Sektarkenndin brennur í sálinni. Þá fékk ég persónulega að reyna hin frægu orð Páls postula: „Því að hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég ekki vil, það gjöri ég.“ (Rómverjabréfið, 7. kafli).
Trúað gæti ég því, að heimfæra mætti þessi orð postulans upp á ýmislegt í lifnaðarháttum og gjörðum okkar Íslendinga. Tek ég þar dæmi frá þeim atvinnuvegi, sem varðar fuglaveiðarnar bæði hér í Vestmannaeyjum og víðar við strendur landsins. Það vekur athygli mína, hversu þessi þjóð hefur á liðnum tímum beitt grimmd og miskunnarleysi við fugladrápið, jafn vel gerð þjóð sem íslenzka þjóðin er í raun og veru. Þá hef ég í huga, þegar Vestmannaeyingar kræktu lundann út úr holum sínum með eins konar goggum, greflum kölluðum, stungu í lifandi fuglinn, ýmist í brjóst eða kvið. Þvílík viðurstyggð.
Þá hefi ég lesið um aðfarir þeirra, sem veiddu svartfuglinn við Drangey, svo að ég nefni dæmi. Þá var hann veiddur á fleka. Við lesum: „Til þess að lokka fuglinn frekar upp á flekana, var lifandi fugl tjóðraður á flekana. Sá fugl var nefndur bandingi. Fuglarnir, sem létu lokkast upp á flekana, festust á fótum í hrosshárssnörum. Oft kom það þá fyrir að fuglarnir héngu fastir á fótum og börðust um á flekunum úti á rúmsjó lemstraðir og svangir.“ — Þegar svo þessir veiðimenn komu heim frá unnu afreki, tóku þeir gjarnan guðsorðabókina ofan af hillu og lásu fyrir fólk sitt, sem oftast söng sálm á undan og eftir lesturinn. Hvernig var sálarlífi þessara manna varið? Blindar hin ofurharða lífsbarátta innra augað og lamar allar kenndir fyrir lífi fórnardýranna? Þessar hryllilegu athafnir framkvæma oft menn, sem reynast hinir beztu í daglegum viðskiptum við samborgara sína og góðir og umhyggjusamir ástvinir. Þetta sálfræðilega atriði hefur lengi verið mér ráðgáta. Sannast ekki á þeim hin frægu orð Páls heitins postula?

II. hluti