Blik 1972/Ávarp til Vestmannaeyinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 30. september 2010 kl. 21:46 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 30. september 2010 kl. 21:46 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1972



Ávarp til Vestmannaeyinga


Að þessu sinni birti ég hér í Bliki 1. kafla hinnar fyrirhuguðu Minjaskrár Byggðarsafns Vestmannaeyja. Ég stefni að því að geta birt framhald hennar næsta ár (1973) og þá megnið af henni, sem ég á þegar í uppkasti.
Þessi 1. kafli skrárinnar, sjávarútvegurinn, veitir ykkur nokkra hugmynd um það, hvernig skráin er hugsuð í heild. Hún skal geyma nöfn munanna og nokkur orð um notagildi þeirra, söguleg drög, þegar þess er kostur. En jafnframt skal skráin vera safn dálítilla minnisvarða yfir það fólk, sem hér hefur lifað, starfað og skapað sögu byggðarlagsins á liðnum tímum, svo langt sem munirnir gefa tilefni til þess. Nöfn þeirra Eyjabúa, sem enginn hlutur er til minnis um í Byggðarsafninu, verða vitaskuld ekki nefnd í minjaskránni.
Þetta minnisvarðasafn vildi ég biðja ykkur hér með að gera sem allra fjölþættasta með mér með því að afhenda Byggðarsafninu muni, sem geyma mættu nöfn karla og kvenna og söguleg drög.
Allir munir, sem berast Byggðarsafninu fyrir ágústlok í sumar, verða skráðir og birtir í framhaldi minjaskrárinnar í Bliki næsta ár.
Vestmannaeyingar! Með sameiginlegu átaki höfum við mótað og myndað Byggðarsafn kaupstaðarins, skapað það. Og með sameiginlegu átaki á þessu sumri getum við eflt það og aukið, fjölgað þar merkum, sögulegum munum. Mér er það ljóst, að til þess þarf nokkurn fórnarhug, fórna munum, sem e.t.v. eru sumum nokkurt augnayndi. En minnumst þess þá, að fórn eykur manngildið, eflir sálarlífið, stækkar manninn og merlar minningarnar, þá tímar líða. Ekki er heldur nokkur vissa fyrir því, að komandi kynslóð eða kynslóðir kunni að meta geymda gripi nema þá helzt á söfnum, þar sem skýringar fylgja þeim og „þeir eru ekki fyrir heima“. - Minjaskráin verður sérprentuð. Byggðarsafnið á þegar mikið af gömlum bókum og sögulegum skrám. Skrá um þá eign verður prentuð síðar.

Goðasteini, 1. jan. 1972.
Þorsteinn Þ. Víglundsson