Blik 1972/Lúðrasveitir í Vestmannaeyjum, fyrri hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 30. september 2010 kl. 17:34 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 30. september 2010 kl. 17:34 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1972



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Lúðrasveitir í Vestmannaeyjum


Lengi hefur það verið ásetningur minn að láta Blik geyma drög að samfelldri sögu lúðrasveita þeirra, sem starfað hafa hér í Eyjum frá því fyrsta, að lúðrasveit var stofnuð hér í kauptúninu árið 1904. Þá var það sem Hornaflokkur Vestmannaeyja, undir stjórn Brynjólfs Sigfússonar, var stofnaður og varð brátt merkur þáttur í lífi fólksins í byggðarlaginu.
Skrif mín hér verða aðeins eilítil drög að merkri tónlistarsögu, og því aðeins drög, að heimildir eru bæði fátæklegar og fábreytilegar nema heimildir um starf hinnar yngstu lúðrasveitar, Lúðrasveitar Vestmannaeyja, undir stjórn Oddgeirs heitins Kristjánssonar, en þeir piltar hafa frá fyrstu tíð fært ítarlegar bækur um starfsemina.


I
Hornaflokkur Vestmannaeyja (Lúðrafélag Vestmannaeyja)
1904-1916

Stjórnandi: Brynjólfur Sigfússon, organisti


Um stofnun þessarar fyrstu lúðrasveitar í Vestmannaeyjum er skrifað í Bliki árið 1967, bls. 39-41. Þar er skrifað um menningarframtak þetta eftir því sem gögn lágu fyrir og efni stóðu til og heimildir gáfu frekast til kynna. Aðeins verður fátt af því endurtekið hér.
Stofnendur fyrstu lúðrasveitarinnar voru 6 kunnir Eyjapiltar. Þeir mega með sanni teljast brautryðjendur í heimabyggð sinni á þessu tónlistarsviði.
Þeir voru þessir:
1. Pétur Lárusson bónda og hreppstjóra Jónssonar á Búastöðum og konu hans Kristínar húsfreyju Gísladóttur. Pétur lék á piccolo.
2. Guðni Jóhannsson Johnsen frá Frydendal, sonur hjónanna Jóhanns Jörgen Johnsen og konu hans Önnu Sigríðar Árnadóttur bónda Þórarinssonar á Oddstöðum. (Althorn).
3. Árni tómthúsmaður Árnason á Grund við Kirkjuveg (nr. 31). Hann var kvæntur Jóhönnu systur Péturs á Búastöðum. (Cornet).
4. Lárus Johannsson Johnsen, albróðir nr. 2. (Sólotenor).
5. Páll Ólafsson, verzlunarmaður, tengdasonur Gísla verzlunarstjóra Engilbertssonar í Júlíushaab.
6. Brynjólfur Sigfússon organista og póstafgreiðslumanns Árnasonar á Löndum og konu hans Jónínu Brynjólfsdóttur prests Jónssonar á Ofanleiti. (Bassahorn).


ctr


Brynjólfur og kona hans frú Ingrid Sigfússon og elzta barn þeirra Aðalsteinn.


Brynjólfur var tæplega tvítugur að aldri, er hann tók að stjórna Hornaflokknum, svo ungur, að orð var á haft utan Eyjanna.
Fenginn var „lúðraþeytari“ úr Reykjavík til þess að kenna Brynjólfi fyrstu tökin á að stjórna Hornaflokknum. Sá hét Gísli Guðmundsson og var þjálfaður í lúðrasveitum þar syðra. Hinum unga hljómsveitarstjóra tókst furðufljótt að nema „stjórnunina“, og reyndist þar sem fyrr og síðar náttúran náminu ríkari. (Sjá greinina Frumherjar í Bliki 1967).
Síðar gerðust þessir menn félagar í Hornaflokki Vestmannaeyja og léku þar um árabil:
1. Árni Jóhannsson Johnsen frá Frydendal, bróðir bræðranna Guðna og Lárusar.
2. Símon Egilsson frá Miðey í Landeyjum.
3. Sæmundur Jónsson frá Jómsborg, sonur hjónanna þar, Jóns bóksala Sighvatssonar og Karólínu húsfreyju Oddsdóttur.
4. Stefán Guðlaugsson í Gerði, sonur hjónanna þar, Guðlaugs bónda Jónssonar og konu hans.
5. Páll Oddgeirsson á Ofanleiti, sonur prestshjónanna þar, séra Oddgeirs Þórðarsonar Guðmundsen og mad. Önnu Guðmundsdóttur. 6. Arinbjörn Ólafsson, Reyni, sonur Ólafs verzlunarstjóra Arinbjarnarsonar í Garðinum og konu hans.
7. Helgi múrari Árnason. Hann var aðkomumaður, sem stundaði hér bæði sjómennsku og múrverk. Hann leigði húsnæði handa sér og fjölskyldu sinni, fyrst á loftinu í Höjdalshúsi (nr. 27 við Kirkjuveg) og síðar í Tungu (nr. 4 við Heimagötu).
8. Ólafur Sveinsson, úrsmiður frá Reykjavík.
9. Loftur Bjarnason, mormónatrúboði frá Utha í Bandaríkjunum. Dvaldist hann þá í Eyjum um tíma og var þjálfaður lúðraþeytari frá dvöl sinni vestra.
10. Jón A. Thordarson, mormónatrúboði, sem dvaldist hér með trúbræðrum sínum að vestan.

Pétur Lárusson.

Hornaflokkur Vestmannaeyja starfaði samfellt fyrstu 5 ár ævinnar (1904-1909) og veitti Eyjabúum oft mikla ánægju og skemmtun. En árið 1909 varð einhver semingur á starfseminni.
Árið 1911 hvarf Brynjólfur Sigfússon til tónlistarnáms í Danmörku. Þá hafði starf Hornaflokksins legið niðri s.l. tvö árin. En þegar hljómlistarstjórinn og organistinn var farinn úr bænum til níu mánaða dvalar erlendis, tóku félagar hans í Hornaflokknum höndum saman og æfðu og léku á lúðrana fyrir almenning í kauptúninu, svo að ánægja þótti að. Þá stjórnaði Hornaflokknum Sæmundur Jónsson frá Jómsborg.
Frá því að piltarnir í Hornaflokknum stofnuðu hann, kostuðu þeir kapps um að geta lagt sitt til um hljómlist á Þjóðhátíð Vestmannaeyja, sem haldin var í Herjólfsdal árlega síðan árið 1901 að öruggt er. Hafði Kvenfélagið Líkn veg og vanda af hátíðarhöldum þessum fyrstu árin eftir að það var stofnað.
Þá var einnig haldinn álfadans svo að segja á hverju ári í byrjun janúarmánaðar, og þótti þá sjálfsagt, að Hornaflokkurinn léki fyrir almenning í tilefni þess fagnaðar, ýmist í fararbroddi fylkingar á undan ,,kóngi og drottningu“ eða í Goodtemplarhúsinu á Mylluhól að lokinni skrúðgöngu, þar sem allur skarinn kom saman til að dansa lengi nætur.
Árið 1910, í ágústmánuði, gerðist merkur viðburður í Vestmannaeyjakaupstúni. Hinn kunni hljómsveitarstjóri í Reykjavík, P. Bernburg, heimsótti Vestmannaeyjakauptún og þá fyrst og fremst stjórnanda Hornaflokksins, Brynjólf Sigfússon. Í þeirri ferð P. Bernburgs til Eyja léku þeir tvívegis saman fyrir almenning, gesturinn með sína menn og stjórnandi Hornaflokksins og piltar hans. Þótti þetta samspil hljómlistarmannanna stórviðburður í þorpinu.
Ein heimild mín getur þess, að 17. júní 1911, hafi Vestmannaeyingar efnt til samkomu vestur á Brimhólaflöt til þess að minnast aldarafmælis Jóns Sigurðssonar. Mun þá Hornaflokkurinn hafa lagt sitt til og leikið þar nokkur tónverk.
Þegar Brynjólfur Sigfússon kom heim frá tónlistarnáminu ytra árið 1912, blés hann nýju lífi í lúðrasveit sína. Eftir það var Hornaflokkurinn kallaður Lúðrafélag Vestmannaeyja. Það líf og fjör entist lúðrasveitinni næstu fjögur árin.
Vorið 1913 byggði Ungmennafélag Vestmannaeyja sundskála austast á sunnanverðu Eiðinu. Þennan skála skyldi vígja 17. júni um sumarið. Þann dag var svo mikið sandrok á Eiðinu, að ekki þótti fært að koma þar saman. Var þá flúið undir Skiphella. Þar minntust Vestmannaeyingar dagsins með lúðrablæstri og ræðuhöldum.
En hinn 22. sama mánaðar var Sundskálinn vígður og opnaður almenningi til afnota. Fór sú athöfn fram við Jómsborgarhúsið. Þar voru fluttar ræður og Ungmennafélag Vestmannaeyja lofað og því þakkað framtakið undir forustu hins ötula barnaskólastjóra Steins Sigurðssonar. Veigamikill þáttur í þessum fagnaði var hornablástur Lúðrafélags Vestmannaeyja, sem fylkti liði á svölum Jómsborgarhússins og lék þar af fjöri og list, að almenningi þótti, svo að rómað var.
Hinn 27. júlí sama ár (1913) áttu kaupmannshjónin í verzluninni Vísi (í húseigninni Þingvöllum við Njarðarstíg) silfurbrúðkaupsafmæli. Þá lét Brynjólfur piltana sína leika nokkur lög við verzlunarhúsið, vinum sínum, silfurbrúðkaupshjónunum, til ánægju og heiðurs.
Árið 1916 færðist algjör doði yfir Lúðrafélag Vestmannaeyja, svo að starf þess lagðist að fullu og öllu niður. Lúðrarnir voru þó geymdir, ef ske kynni, að einhver tæki sig til að endurvekja þetta menningarstarf í kauptúninu. (Sjá greinina Frumherjar í Bliki 1967).

II
Lúðrasveit Vestmannaeyja 1918-1922

Stjórnendur: Helgi tónskáld Helgason, Ragnar Benediktsson og Hjálmar Eiríksson


Ungir Vestmannaeyingar létu ekki happ úr hendi sleppa.
Árið 1916 lagðist starf Hornaflokks Vestmannaeyja (Lúðrafélags Vestmannaeyja) alveg niður, með því að Brynjólfur Sigfússon, organisti og söngstjóri, gaf ekki kost á sér lengur til þess að stjórna honum.
Margir Eyjabúar söknuðu þess að heyra ekki lengur hina fögru tóna þessa vel þjálfaða, vel æfða hornaflokks, því að oft höfðu þeir haft mikla ánægju af lúðraleik þeirra við ýmis tækifæri í bænum, svo sem á þjóðhátíðinni í Herjólfsdal og broddi fylkingar, þegar álfadansar voru haldnir, sem títt var þá upp úr áramótum ár hvert. Oft ella lét Hornaflokkurinn til sín heyra í kauptúninu.
Ýmsir gátu sér þess til, að hljómsveitarstjórinn hefði verið orðinn þreyttur vegna hinna miklu erfiðleika við að halda saman hópnum og fá félagana til að mæta stöðugt og stundvíslega á æfingar, ekki sízt á vertíðum, mesta annatíma ársins. Þá hindraði oft atvinnulífið þátttöku í tónlistarstarfinu, eins og ávallt hefur átt sér stað fyrr og síðar í hinni miklu verstöð.
Oft koma tækifærin upp í hendurnar á okkur svo að segja fyrirhafnarlaust. Þá er það undir okkur sjálfum komið, hvort við höfum hyggjuvit og dugnað til þess að nota okkur þau til velferðar okkur sjálfum og svo öllum almenningi á sem hagkvæmastan og drengilegastan hátt. Þannig svo að segja flaug hið gullna tækifæri upp í fangið á nokkrum ungum Vestmannaeyingum til stofnunar nýrri lúðrasveit í kaupstaðnum.
Sumarið 1918 dvaldist í Vestmannaeyjum landskunnur tónlistarmaður og stjórnandi hljómsveita, bæði hér heima og vestur í Ameríku. Þessi maður var Helgi Helgason tónskáld. Þannig stóð á dvöl hans í Eyjum, að hann var tengdafaðir Egils kaupmanns Jakobsen, sem þá hafði um fimm ára bil rekið verzlun í Eyjum. Hann hafi byggt verzlunarhús neðst við Bárustíg og tengdafaðirinn vann að því að mála þetta verzlunarhús og dytta að því á aðra vegu, en hann hafði um langa ævi stundað ýmiskonar iðnaðarstörf, svo sem smíðar, húsamálningu o.fl. þvílíkt.
Meðan Helgi Helgason dvaldist Eyjum, leigði hann sér herbergi í húsinu Ásgarði við Heimagötu (nr. 29) hjá hjónunum Árna Filippussyni, gjaldkera, og frú Gíslínu Jónsdóttur. Sonur þeirra er, eins og kunnugt er, Filippus Árnason, fyrrv. yfirtollvörður hér í kaupstaðnum.
Kunningsskapur tónskáldsins og Filippusar Árnasonar vakti þá hugmynd að stofna lúðrasveit í kaupstaðnum, og nyti hún tilsagnar eða stjórnar Helga Helgasonar eftir því sem tök yrðu á þann tíma úr sumrinu, sem hann dveldi í Eyjum.
Liðið var á sumarið 1918, þegar nokkrir ungir menn í hinum verðandi kaupstað, Vestmannaeyjakaupstað, komu saman á fund, sem þeir höfðu þá undirbúið í þröngum kunningjahópi nokkru áður. Þessir fundarmenn beittu sér síðan fyrir stofnun lúðrasveitar. Síðan varð það að reynd, að Helgi Helgason gaf kost á sér til að kenna lúðrasveitarpiltunum fyrstu tökin á lúðrunum, stjórna hinni nýstofnuðu lúðrasveit, setja út lög handa henni og kenna piltunum undirstöðuatriði tónfræðinnar.

Ragnar Benediktsson frá Borgareyri, Mjóafirði eystra.

Þessir sex „Eyjastrákar“ hófu þetta tónlistar og menningarstarf:
1. Kristinn Jónsson á Mosfelli, sem lék 1. cornet.
2. Árni Árnason (yngri) á Grund við Kirkjuveg, sem lék 2. cornet.
3. Filippus Árnason, Ásgarði, sem lék 1. alt.
4. Valdimar Ástgeirsson frá Litlabæ, sem lék 1. tenor.
5. Hjálmar Eiríksson frá Vegamótum, sem lék 2. tenor (básúnu).
6. Guðmundur Helgason frá Steinum, sem lék á túbu (bassa).
Var nú tekið til starfa, tekið að æfa sig af áhuga og krafti. „Strákarnir“ fengu lánað húsnæði til æfinganna hjá Ísfélagi Vestmannaeyja. Þeir fengu þar afnot af hinum rúmgóða gangi á lofti Ísfélagsbyggingarinnar fyrir framan skrifstofudyr fyrirtækisins. Þetta húsnæði fékk Filippus Árnason frá Ásgarði í skjóli föður síns, sem var gjaldkeri Ísfélagsins. Í algjörum húsnæðisvandræðum notaðist Lúðrasveitin við þetta loft, þó að það væri óupphitað og illa lýst. Sem sé var þar bæði kalt og skuggsýnt, en þá ókosti létu „strákarnir“ ekki aftra sér, enda ekki í annað hús að venda í hinum verðandi kaupstað.
Einbeittlega var til starfa gengið. Og hetjusögur fóru af „strákunum“ í nýju lúðrasveitinni, svo að sumar stúlkurnar í þorpinu lifnuðu við og tóku að þrá, og fleiri „strákar“ bætast í hljómsveitarhópinn, fá sér lúðra og blása.
Þessir fylltu brátt hópinn, sem fyrir var:
7. Ingi Kristmanns frá Steinholti.
8. Yngvi Þorkelsson, Eiðum.
9. Benedikt Friðriksson, skósmiður og skókaupmaður á Þingvöllum.
10. Nikulás Illugason í Sædal.
11. Gísli Finnsson úr Borgarnesi, til heimilis að Sólbakka.
12. Hjálmar Jónsson frá Dölum.
13. Haraldur Eiríksson frá Vegamótum.
14. Ragnar Benediktsson frá Borgareyri í Mjóafiri eystra.
Lúðrasveit þessi undir stjórn Helga Helgasonar lék t.d. opinberlega á svölum Vallhallar við Strandveg (nr. 43) á páskadag 1920. Áður hafði hún látið til sín heyra á opinberum vettvangi, enda þótt heimildir séu ekki skráðar um það að ég bezt veit.


ctr


Lúðrasveit Vestmannaeyja árið 1921.


Helgi Helgason tónskáld hefur nýlega flutt úr bænum og Ragnar Benediktsson tekið að sér að stjórna Lúðrasveitinni.


Aftari röð frá vinstri: Gísli Finnsson frá Borgarnesi, Árni Árnason (yngri) frá Grund við Kirkjuveg, Ingi Kristmanns frá Steinholti, Haraldur Eiríksson frá Vegamótum.
Fremri röð frá vinstri: Hjálmar Eiríksson frá Vegamótum, Filippus Árnason frá Ásgarði, Ragnar Benediktsson frá Borgareyri í Mjóafirði eystra, Harald St. Baldvinsson gullsmiðs Björnssonar.

Hinn 17. júní sumarið 1920 var efnt til samkomu vestur á Brimhólaflöt. Þá fylktu Eyjabúar liði og gengu í skrúðgöngu úr bænum fyrir Brimhóla með Lúðrasveit Vestmannaeyja í fararbroddi. Þá gekk Helgi hljómsveitarstjóri fyrir lúðrasveitinni, sló taktinn og spilaði sjálfur á einn lúðurinn. Þarna voru ræður fluttar í tilefni þjóðhátíðardagsins, sungið og skemmt sér lengi dags.
Fjögur sumur samfleytt dvaldist Helgi Helgason tónskáld og hljómsveitarstjóri hér í Vestmannaeyjum. Öll sumurin stjórnaði hann Lúðrasveit Vestmannaeyja af röggsemi og leikni, og „strákarnir“ dáðu hann og mátu að verðleikum.
Þann tíma ársins, sem tónskáldið dvaldi ekki í Eyjum, kom það að mestu leyti í hlut Ragnars Benediktssonar að æfa lúðrasveitina og stjórna henni. Hann var líka formaður hennar, kjörinn af félögum sínum, meðan hún var við lýði. Einhvern tíma mun Hjálmar Eiríksson hafa stjórnað sveitinni. Þá mun hvorugur hinna hafa verið í bænum.
Síðari hluta sumars 1921 fluttist Helgi Helgason alfarinn frá Vestmannaeyjum. Þá var um tíma fenginn stjórnandi frá Reykjavík, Auðbjörn Emilsson að nafni. En svo annaðist Ragnar Benediktsson stjórn lúðrasveitarinnar, það sem hún átti eftir ævinnar, en hún lognaðist út af haustið 1922. Orsakirnar til þess munu fyrst og fremst hafa verið þeir erfiðleikar, sem atvinnulífið olli um það, að piltarnir gætu sótt æfingar reglulega og stundvíslega. Þeir erfiðleikar deyddu með tíð og tíma áhuga forgöngumanna, svo að félagsskapurinn tærðist upp, ef svo mætti orða það, dó sínum drottni.
Þegar Helgi var horfinn frá starfinu, tóku dauðamerkin að gera vart við sig. Um þetta atriði kemst Árni Árnason svo að orði í 10 ára afmælisriti hinnar yngstu Lúðrasveitar Vestmannaeyja árið 1949: „Það var eins og allt vantaði, þegar gamli maðurinn var ekki meða1 okkar.“


III
Lúðrasveit Vestmannaeyja 1924-1931

Stjórnendur: Ásbjörn Einarsson, Hallgrímur Þorsteinsson og Ragnar Benediktsson


Haustið 1924 hafði hljómlistarlífið í Vestmannaeyjakaupstað að mestu legið niðri undanfarin tvö ár. Þá var hafizt handa að endurvekja Lúðrasveit Vestmannaeyja. Forgöngumennirnir voru félagar úr lúðrasveit Helga Helgasonar og þá sérstaklega Ragnar Benediktsson og Ingi Kristmanns.
Haustið 1924 fluttist hingað Ásbjörn nokkur Einarsson, lúðraþeytari úr Reykjavík m.m., og tókst hann á hendur að hefja æfingar með félögum hinnar endurreistu Lúðrasveitar Vestmannaeyja. Starfskraftarnir voru að nokkru leyti hinir sömu og áður fyrst í stað, en svo bættust við nýir og nýtir félagar, þegar fram leið. Ásbjörn Einarsson æfði lúðrasvéitina til áramóta 1924/1925 með sæmilegum árangri. Æft var af áhuga og tíminn vel notaður. Hin endurreista lúðrasveit fékk til afnota og æfinga loftið í frystihúsi Ísfélags Vestmannaeyja. Þar var stundum svalt og ekki beint vistlegt, en hvað verður ekki notað í neyð?
Þessir piltar voru starfandi kraftar í Lúðrasveit Vestmannaeyja, hinni þriðju, þau 7 ár, sem hún starfaði:
1. Gísli Finnsson frá Borgarnesi, til heimilis að Sólbakka við Hásteinsveg (clarinet).
2. Oddgeir Kristjánsson frá Heiðarbrún (cornet).
3. Willum Andersen frá Sólbakka (cornet).
4. Harald St. Björnsson, sonur Baldvins Björnssonar gullsmiðs (tromba).
5. Þorsteinn Sigurðsson frá Melstað (tromba).
6. Sigurður Scheving frá Hjalla (tromba).
7. Kristinn Friðriksson frá Látrum (cornet).
8. Guðjón Gíslason frá Uppsölum (tromba).
9. Hreggviður Jónsson frá Hlíð (alt).
10. Þorsteinn Lúther Jónsson, til heimilis í Suðurgarði, námsm., síðar prestur (alt).
11. Jóhannes Gíslason frá Eyjarhólum (alt).
12. Jóhannes Bynjólfsson frá Odda (tenor).
13. Stefán Jónsson, verkamaður frá Sigtúni (tenor).
14. Ólafur Björnsson frá Kirkjulandi (tenor).
15. Ólafur Á. Kristjánsson frá Heiðarbrún (tenor).
16. Jón Rafnsson, til heimilis að Löndum (tenorbásúna).
17. Ragnar Benediktsson frá Borgareyri í Mjóafirði eystra (tuba).
18. Guðmundur Helgason frá Steinum (tuba).
19. Eyjólfur Ottesen frá Dalbæ ( tromba) .
20. Jón Þorleifsson, Hlíð (bassatrumba).
21. Hafsteinn Snorrason frá Hlíðarenda (es piston).
22. Kristinn Jónsson frá Mosfelli (cornet).
23. Benedikt Friðriksson, skókaupmaður, Þingvöllum við Njarðarstíg (tromma).
Öll þessi húsanöfn og heimili eru kunn í Eyjum frá fyrstu 2-3 áratugum aldarinnar og nokkur þeirra til þessa dags.
Gísli Finnsson hafði á æskuskeiði í Borgarnesi æft hornablástur hjá Hallgrími Þorsteinssyni organista þar og hljómsveitarstjóra. Gísli átti því drýgstan þátt í því, að Hallgrímur Þorsteinsson fékkst til þess að dveljast hér í Vestmannaeyjum nokkurn hluta úr fjórum sumrum og kenna piltunum á lúðrana og æfa þá. Vorið 1925 fluttist Hallgrímur Þorsteinsson fyrst frá Reykjavík til Vestmannaeyja. Brátt tók hann að sér að stjórna lúðrasveitinni og vann ötullega að æfingum og viðgangi hennar allt sumarið. Lúðrasveitin tók þá miklum og góðum framförum, enda var Hallgrímur mjög þjálfaður hljómsveitarstjóri og víðkunnur fyrir ágæti sitt í starfinu. Hann hvarf úr Eyjum haustið 1925, eins og ráð hafði verið fyrir gert.


ctr


Lúðrasveit Vestmannaeyja 1928 undir stjórn Hallgríms Þorsteinssonar, hljómsveitarstjóra.


Aftasta röð frá vinstri (6 menn): Ólafur Á. Kristjánsson frá Heiðarbrún, Jóhannes Gíslason frá Eyjarhólum, Hreggviður Jónsson frá Hlíð, Ólafur Björnsson frá Kirkjulandi, Sigurður S. Scheving frá Hjalla, Oddgeir Kristjánsson frá Heiðarbrún.
Miðröð frá vinstri (7 menn): Guðmundur Helgason frá Steinum, Ragnar Benediktsson frá Borgareyri í Mjóafirði, Jón Rafnsson Löndum, Þorsteinn L. Jónsson Suðurgarði, síðar sóknarprestur í Eyjum, Harald St. Baldvinsson gullsmiðs Björnssonar, Willum Andersen frá Sólbakka, Gísli Finnsson frá Borgarnesi.
Fremsta röð frá vinstri (3 menn): Jón Þorleifsson frá Hlíð, Hallgrímur Þorsteinsson, hljómsveitarstjóri, Eyjólfur Ottesen frá Dalbæ.

Vorið 1926 kom hann aftur til Eyja til þess að æfa og stjórna lúðrasveitinni. Bættist þá vel við starfskrafta lúðrasveitarinnar, svo að um munaði. Þá áskotnaðist henni líka nýir lúðrar frá Þýzkalandi. Þeir kostuðu kr. 4.000,00. Það fé var að mestu leyti tekið að láni um stundarsakir.
Þessir 23 „lúðurþeytarar“, sem ég hef hér talið upp, voru að sjálfsögðu mismunandi lengi virkir starfskraftar í lúðrasveitinni. Sumir voru öll ár hennar áhugasamir félagar, svo sem bræðurnir Oddgeir og Ólafur Kristjánssynir, Gísli Finnsson, Ólafur Björnsson, Ragnar Benediktsson, Eyjólfur Ottesen og Jón Þorleifsson. Aðrir voru þar virkir félagsmenn færri ár og sumir mjög stuttan tíma.
Eins og hinar fyrri lúðrasveitir í Eyjum, var þessi hin þriðja Lúðrasveit Vestmannaeyja alltaf á hrakhólum með húsnæði til æfinga. Töluverðan hluta úr ævinni varð hún að notast við króarloft vestur við Strandveg í kulda þar og óvistlegum húsakynnum. Um sinn fékk hún inni í skóverzlun trommuleikara síns, Benedikts Friðrikssonar, sem rak skóverzlun sína í húseigninni Þingvöllum. Líka kom það fyrir, að Lúðrasveitin varð að hýrast inni á skóverkstæði trommuleikarans í sama húsi.
Veturinn 1928 vaknaði sú hugsjón með lúðrasveitarpiltunum að byggja hljómskála í kaupstaðnum. Þessi hugsjón magnaðist og varð að brennandi áhugamáli. Þeir efndu oft til skemmtana á vertíðinni og fram á vor 1928, bæði í Goodtemplarahúsinu og Nýjabíó (Vestmannabraut 28) til tekna byggingarsjóði sínum. Einnig efndu þeir til hlutaveltu í sama tilgangi. Allt gekk þetta fjársöfnunarstarf þeirra vel og stundum með afbrigðum vel, því að Eyjabúar skildu vel þessi áhugamál piltanna, skildu vel, hversu skórinn kreppti að um viðunandi húsnæði handa lúðrasveitinni. Eyjabúar sóttu því vel skemmtanir þeirra, og svo gáfu þeir ótrauðir hluti á hlutavelturnar, ekki sízt verzlunareigendurnir. Einn af lúðrasveitarpiltunum hefur tjáð mér, sem þetta skrifar, að eftir eina hlutaveltuna með dansskemmtun jafnframt, hafi hreinn ágóði reynzt kr. 1.800,00, en átján hundruð krónur voru talsverðir peningar árið 1928.
Fyrst fékk Lúðrasveit Vestmannaeyja byggingarlóð við Skólaveg í námunda við Grundarbrekku (nr. 11), en einhvern veginn varð ekkert úr því, að byggt yrði þar. Síðar sama ár var Lúðrasveitinni afráðin lóð við Hvítingaveg (nr. 10), og þar hófust byggingarframkvæmdir sumarið 1928. Vitaskuld unnu piltarnir sjálfir mest að byggingunni. Þeir grófu og steyptu. Og það var mikið erfiði, því að engin voru tækin þá í kaupstaðnum til að grafa með nema rekan og hakinn, og engin tök á að hræra steypu nema á „bretti“ með sementsrekunum. Handleggirnir og bakið voru þeir hlutar líkamans, sem mest reyndi á við strit þetta. Og áfram þokaðist verkið. Þeir megnuðu að steypa upp hljómskálann sinn um haustið. Þetta var dálítið sérkennilegt hús með bogadregnum gluggum. Ólafur Á. Kristjánsson frá Heiðarbrún, einn af ötulustu félögunum þeirra, gerði teikninguna að húsinu. Hann átti þá eftir að gera mjög margar húsateikningar fyrir Eyjabúa.
Þeir múrhúðuðu húsið utan og innan án allrar einangrunar. Húsið reyndist þess vegna kalt og rakasamt, þó að þar væri kolaofn til kyndingar.


ctr


Lúðrasveit Vestmannaeyja, stödd á íþróttamóti að Lambey í Fljótshlíðarhreppi 3. júlí 1928.


Frá hægri: Þorsteinn Sigurðsson frá Blátindi, Jóhannes Brynjólfsson frá Kirkjulandi, Jóhannes Gíslason frá Eyjarhólum, Sigurður S. Scheving frá Hjalla, Oddgeir Kristjánsson frá Heiðarbrún, Ólafur Á. Kristjánsson frá Heiðarbrún, Eyjólfur Ottesen frá Dalbæ (framan við Ó.Á.K.), Hallgrímur Þorsteinsson, hljómsveitarstjóri og tónskáld, Hafsteinn Snorrason frá Hlíðarenda, Hreggviður Jónsson frá Hlíð, Kristinn Friðriksson frá Látrum. Öll heimilin eru kunn í Eyjum.
Á myndina vantar þessa hljómlistarmenn, sem léku í Lúðrasveitinni: Jón Þorleifsson frá Hlíð, Ragnar Benediktsson Mjófirðing, Stefán Jónsson frá Sigtúni.

Það tjá mér kunnugir, að Ólafur Á. Kristjánsson og Jóhannes Brynjólfsson, hafi verið framkvæmdaraflið við byggingu þessa, krafturinn í byggingarframkvæmdum lúðrasveitarpiltanna. Hinir piltarnir smituðust síðan af áhuga þeirra og fórnarlund og létu sitt ekki eftir liggja við hugsjónamálið, flestir.
En svo tóku að breytast tímar. Árið 1928 hvarf Hallgrímur Þorsteinsson hljómsveitarstjóri að fullu úr Eyjum eftir að hafa stjórnað og kennt piltunum fjögur sumur af mikilli kostgæfni.
Áhugi piltanna fór minnkandi ár frá ári. Æ erfiðara reyndist að fá þá til að sinna skyldum sínum við lúðrana og félagsskapinn í heild. Loks var gefizt upp, hljómskálinn seldur og andvirði hans skipt bróðurlega milli félaganna, því sem afgangs var skuldum. En þær voru mjög litlar. Sveinbjörn Einarsson, trésmíðameistari í kaupstaðnum, keypti húseignina á þrettán hundruð krónur. Þá höfðu lúðrarnir þýzku verið greiddir með fé, sem lúðrasveitin hafði aflað sér með skemmtunum. Um opinberan styrk var ekki enn að ræða til slíks menningarstarfs, hvorki frá bæ eða ríki.
Lúðrasveitin naut alltaf hjálpar og velvildar vissra kvenna og karla í bæjarfélaginu, sem ávallt voru reiðubúin að veita henni stuðning og létta róðurinn. Þar nefnir Oddgeir Kristjánsson til í skrifum sínum um lúðrasveitina alveg sérstaklega frú Láru Guðjónsdóttur á Kirkjulandi, móður Ólafs Björnssonar. Hún reyndist ávallt reiðubúin að veita lúðrasveitinni hjálp, t.d. við skemmtanir, þegar lúðrasveitin aflaði sér fjár með kaffisölu. Þá annaðist frú Lára jafnan veitingasöluna lúðrasveitinni að kostnaðarlausu. Einnig héldu félagarnir oft fundi á heimili þeirra hjóna á Kirkjulandi, Björns Finnbogasonar og frú Láru, og nutu þar gestrisni í ríkum mæli. Að lokum segir Oddgeir: „Ætti tónlistin marga slíka vini, sem þetta fólk, væri lengra komið í tónlistarmálum þjóðarinnar í dag.“ (Afmælisrit Lúðrasveitar Vestmannaeyja 1949).
Ennfremur skrifar Oddgeir í sama rit: ,,Eitt af því sem háð hefur öllum tónlistarfélögum í þessu byggðarlagi eru hin sífelldu mannaskipti, og fékk þessi lúðrasveit (1924-1931) óspart að kenna á því ... Húsnæðið, sem lúðrasveitin hafði til æfinga, var oft æði lélegt og má segja, að framan af hafi það mál verið ein sorgarsaga. Fyrst var æft á lofti í Íshúsinu, síðan á bifreiðaverkstæði Sigurjóns Jónssonar, þá í Fangahúsinu, á króarlofti um alllangt skeið og svo í aðgöngumiðasölunni í Nýjabíó. Stundum var kuldinn svo mikill í sumum þessara húsa, að félagar urðu að berja sér til hita og dugði eigi.“ Þannig lýsir Oddgeir aðbúnaðinum, þegar hann hóf þátttöku í þessu tónlistarstarfi 1926.
Þau sumur, sem Hallgrímur Þorsteinsson dvaldist í Eyjum, bjó hann hjá hjónunum í Hlíð, Jóni útgerðarmanni Jónssyni og Þórunni Snorradóttur. Þau tóku ekki eyri af lúðrasveitinni fyrir dvöl hans þar, fæði og húsnæði. Þau hjón vissu sem var, að ekki var um auðugan garð að gresja hjá lúðrasveitinni og var þetta hinn veigamikli fjárhagslegi stuðningur þeirra hjóna við fagurt hugsjóna- og menningarstarf í bænum. En ekki voru þau hjón ein um þann stuðning. Sum sumurin bjó Hallgrímur tónlistarmaður hjá hjónunum á Sólbakka, þeim Pétri Andersen, útgerðarmanni og skipstjóra, og konu hans Jóhönnu Guðjónsdóttur Andersen, sem veittu hljómsveitarstjóranum fæði og húsnæði með sömu kjörum og hjónin í Hlíð, sem sé: Lúðrasveitinni að kostnaðarlausu. Þess ber að minnast sem vel er gert.
Þegar leið á sumarið 1925 kom fyrir atvik, sem veikti um stundarsakir félagsskap þeirra ungu tónlistarmanna í kaupstaðnum, sem voru einskonar menningarvitar byggðarlagsins: Fjórir af piltunum höfðu stofnað sérstaka danshljómsveit og léku fyrir dansi á almennum skemmtunum. Það voru þeir Ingi Kristmanns, Árni Árnason, Harald St. Björnsson og Eyjólfur Ottesen. Það er mér tjáð og fullyrt, að þetta sé fyrsta danshljómsveit, sem stofnuð er og starfrækt í Vestmannaeyjum.
Þetta framtak fjórmenninganna tók hljómsveitarstjórinn H.Þ. óstinnt upp fyrir þeim. Sú óánægja hans með stofnun danshljómsveitarinnar leiddi til þess, að þeir urðu að hverfa úr Lúðrasveit Vestmannaeyja, svo ágætir starfskraftar, sem þeir voru þar.
Af þessum gjörðum, þessari þröngsýni hljómsveitarstjórans, spannst mikil óánægja innan lúðrasveitarinnar. En góð öfl innan félaganna milduðu ágreininginn, svo að Harald og Eyjólfur hófu brátt þátttöku sína aftur í lúðrasveitinni, en þátttöku Árna Árnasonar og Inga Kristmanns var að fullu lokið þar.
Í ágústmánuði 1931 lék lúðrasveit þessi í síðasta sinn á Þjóðhátíð Vestmannaeyja. Nokkru síðar má segja, að starf hennar legðist niður að fullu og öllu. Að vísu komu þá ný öfl til sögunnar, sem vildu halda starfinu áfram, en þau reyndust ekki starfanum vaxin, með því líka að sumir beztu og ötulustu félagarnir fluttu burt úr bænum um haustið. Það voru þeir Hreggviður Jónsson frá Hlíð og Oddgeir Kristjánsson frá Heiðarbrún. Haustið 1931 hóf Oddgeir tónlistarnám í Reykjavík.

Síðari hluti