Blik 1971/Vestmannaeyingar!

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. september 2010 kl. 20:25 eftir Viglundur (Spjall | framlög) Útgáfa frá 28. september 2010 kl. 20:25 eftir Viglundur (Spjall | framlög) (Verndaði „Blik 1971/Vestmannaeyingar!“ [edit=sysop:move=sysop])
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Núverandi útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Stökkva á: flakk, leita

Efnisyfirlit 1971Vestmannaeyingar!


ctr


Um leið og ég læt Blik mitt birta ykkur hér mynd af einum merkasta hlut í Byggðarsafni Vestmannaeyinga, rambaldinu (klukkuásnum) úr turni Landakirkju, sem eitt sinn (1573-1627) var í klukknaporti kirkju Eyjafólks á Fornu-Löndum, þá langar mig til þess að tjá ykkur, að ég er nú að vinna að skráningu allra muna í Byggðarsafninu og búa skrá þessa undir prentun. Skrá þessi sannar vissulega, hve marga og merka hluti Byggðarsafnið okkar allra á nú, og vitnar jafnframt um þann góða skilning, velvilja og manndóm, sem þið hafið sýnt þessu starfi, sérstaklega á seinni árum.
Enn langar mig að láta þær óskir mínar í ljós við ykkur, að Byggðarsafninu mætti enn áskotnast úr eigu ykkar merkir og mikilvægir hlutir, sem vitna um eitt og annað varðandi líf þess fólks, líf þeirra kynslóða, sem hér hafa lifað og starfað á undanförnum áratugum og jafavel öldum. Vænst þykir mér að fá til geymslu í safninu þá hluti, sem geta verið athyglisverðir minjagripir um þær mætu konur og merkismenn, sem hér hafa lagt hönd á plóginn í lífi sínu og starfi og mótað framtíðina í smáu og stóru okkur öllum til heilla. Minnumst þess, að minning feðranna er framhvöt niðjanna.
Stefnt er að því að prenta nokkurn hluta minjaskrárinnar næsta ár. Þess vegna mælist ég nú til þess, að sem flestir góðir minjagripir mættu berast Byggðarsafninu hið allra fyrsta. Kosti þeir hóflega greiðslu, skal hún innt af hendi með ánægju.

Goðasteini, 13. febr. 1971.
Þorsteinn Þ. Víglundsson