Blik 1969/Byggt gagnfræðaskólahús í Vestmannaeyjum, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. nóvember 2016 kl. 15:27 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. nóvember 2016 kl. 15:27 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1969



Þorsteinn Þ. Víglundsson:


Byggt gagnfræðaskólahús í Vestmannaeyjum


Baráttan við Fjárhagsráð og afturhaldið í Eyjum
(3. hluti)


Í júnímánuði sannfréttum við, að formaður Fjárhagsráðs hygðist taka sér hvíld frá störfum um stundarsakir og fara til útlanda. Þá hugði ég enn til hreyfings. Seint í þeim mánuði var hann horfinn af landi burt. Þá skrapp ég suður til þess að kanna hugarfar manna.
Ég stakk einu eintaki af blaðagrein Guðlaugs Gíslasonar, Stefnan mörkuð, í vasa minn. Hún birtist 1944, eins og ég hef drepið á.
Þrír menn höfðu róið hvað ötullegast í pólitískum leiðtogum í Reykjavík og grennd til þess að herja út sementsleyfið handa skólanum. Það voru bæjarfulltrúarnir Þorvaldur Sæmundsson, kennari, og Hrólfur Ingólfsson, bæjargjaldkeri og svo Helgi Benediktsson útgerðarmaður og kaupmaður.
Þungt var undir, þegar ég kom suður. Þó fékk ég að mæla vinstri mennina máli.
Þegar veggurinn virtist hvað brattastur, dró ég upp úr vasa mínum blaðagrein Guðlaugs Gíslasonar og sýndi þeim. Lesið var og skeggrætt. „Þú, Þorsteinn, hefur auðsjáanlega átt að verða fyrsti Gyðingurinn í Eyjum, ef allt hefði farið að óskum nazistanna um sigurinn í styrjöldinni,“ sagði þarna spaugsamur náungi. Við hlógum allir. Hér verða hvorki birt ljót orð né lastyrði, sem fuku.
Allir urðu þeir að lokum sammála um að hringja í hagfræðing Fjárhagsráðs. Sá var Jónas Haralz, núverandi formaður Efnahagsstofnunar ríkisins. Þeir tjáðu honum í léttum tón meginefni blaðagreinarinnar. Eftir nokkrar umræður skaut hann því að mér í lágum hljóðum, að hann vildi reyna að sameina öll öfl í Fjárhagsráði máli mínu og beiðni til framdráttar.
Svo var um talað, að ég biði við símann á Hótel Skjaldbreið, þar sem ég bjó. Þangað hét hagfræðingurinn að hringja til mín, áður en hann færi heim til miðdegisverðar. Klukkan var farin að halla í tólf. Tíminn leið og ég beið í ofvæni og hugleiddi hin dulúðugu öfl og átök, sem hér virtust eiga sér stað milli bænar og óbænar um þetta hugðarmál mitt. Annars vegar alþýðukonan, ein af minnstu þegnum þjóðfélagsins, einlæg, heiðarleg og heit í trú sinni, hjartað þrungið af góðvild og bæn. Hins vegar hálærður og hátitlaður ...
Í sannleika sagt eru þessir vegir órannsakanlegir. Enda fékk ég rétt bráðum á því að þreifa.
Klukkan var orðin 12 á hádegi og ekki lét hagfræðingurinn enn á sér kræla. Klukkan 12,05 hringdi síminn. Það var hagfræðingur Fjárhagsráðs.
Svarið var þetta: „Þú færð sementsleyfi eftir þörfum þetta sumar.“
Jósef Jakobsson (Ísraelsson) mælti við bræður sína: Ég er Jósef. Þér ætluðuð að gera mér illt, en ...
Þannig fór um sjóferð þá, enda fór ég sjóleiðis suður, og sjóleiðis kom ég heim sigurglaður.
Nú var ætlunin að steypa undirstöður fimleikahússins á þessu sumri (1949). Til þess þurfti vinnuafl, því að mikið þurfti að grafa fyrir undirstöðuveggjunum. Jarðvegurinn ofan á föstu var æði djúpur víðast hvar.
Vélskóflur voru þá óþekkt tæki í Eyjum. Allt verk varð því að vinna með reku í hönd.
Síldarvertíð var hafin, þegar sementsleyfið fékkst loks, og þess vegna engan mann að fá, sem inna vildi þetta verk af hendi. Það varð því að ráði, að ég ynni það sjálfur. Með mér í gröftinn fékk ég bráðduglegan og þrekmikinn ungling, Guðmund heitinn Guðmundsson að Faxastíg 27 hér í bæ.
Vikur liðu og við grófum og grófum. Þó ég aldrei nema til klukkan þrjú á daginn, því að klukkan fjögur varð ég að sinna skyldustörfum mínum í Sparisjóði Vestmannaeyja, eins og ég hafði gert frá stofnun hans.
Jafnframt því, að við grófum fyrir undirstöðuveggjum fimleikahússins, slógu smiðir upp mótum fyrir miðhæð byggingarinnar.
Svo liðu 3 mánuðir og ekkert heyrðist frá dómsmálaráðuneytinu. Ætluðu þeir að láta hér staðar numið?
Í ágústmánuði 1949 skyldi Sigfús M. Johnsen skila af sér bæjarfógetaembættinu, samkvæmt eigin ósk. Hinn nýbakaði bæjarfógeti var Gunnar Þorsteinsson, hæstaréttarlögmaður.
Hinn 20. ágúst vorum við undir það búnir að steypa undirstöðuveggi fimleikahúss skólans. En þann dag tafðist ég frá verki, því að bæjarfógetinn nýi hafði hvatt mig til réttarhalds. Hann lét ekki dragast úr hömlu fyrir sér að draga sementssökudólginn fyrir lög og dóm.
Þarna voru þá tveir bæjarfógetar í kringum mig í réttarhaldskytrunni á Tindastóli, byggingu bæjarfógetaembættisins, og nýr fulltrúi, Jón Þorsteinsson minnir mig hann héti, - stjórnaði réttarhöldunum í áheyrn þeirra.
Samtals taldi ég þarna 24 gyllta hnappa á brjóstum og magálum, sem voru svona í þykkara lagi. Þannig hugsaði ég í beiskju minni og fleira í þeim dúr, meðan á bókun stóð, og gefa þær hugsanir eilitla hugmynd um hugarástand mitt.
„Þér hafið boðið 20 krónur í réttarsætt og það er smánarboð,“ sagði hinn nýi bæjarfógeti með þjósti. Augnaráðið og svipurinn gaf til kynna, að ég væri ósvífinn maður gegn valdhöfum, lögum og rétti, og þó léttvægur fundinn.
Þá svall mér móður. Hvorki fyrr né síðar hef ég fundið hjá mér hvöt til að láta hnefa semja sátt, eins og Stjáni blái gerði. Þá hefði hinn nýi bæjarfógeti vissulega fengið ástæðu til að sakfella mig og lögsækja. Ljóslifandi stóð mér fyrir hugskotssjónum frá æskuárunum þrútinn hrokadólgur. Þetta var fulltrúi ríkisvaldsins íslenzka, sem ég var að þræla fyrir kauplaust. Því bar að kosta byggingarframkvæmdirnar að hálfu leyti gegn bæjarsjóði samkvæmt lögum. Í stað þess beitti það mig rangsleitni, hlutdrægni og dilkadrætti. Í þessari andrá stóð mér sú vissa ljós fyrir, að timburkaupmaður í bænum, sem hafði selt mér allt steyputimbrið til byggingarinnar fyrir tugi ef ekki hundruð þúsunda króna án allra leyfa frá Fjárhagsráði, hafði síðan í óvild sinni og fávizku sagt formanni Fjárhagsráðs frá sementskaupum mínum og komið þannig málsókn þessari af stað. Vitaskuld var hann sjálfur í sök vegna hinna óleyfilegu timbursölu, en því máli öllu sleppti formaður Fjárhagsráðs til þess að timburkaupmaðurinn, flokksbróðir hans og pólitískur sálufélagi, lenti ekki í netinu með sér. Þannig voru þessi trippi öll rekin? Eru þau það ekki enn?
En hver seldi mér svo sementið? Það gerði bæjarstjórinn Ólafur Á. Kristjánsson, sem þeir töldu vera „bölvaðan bolsa“. Síðan varð hann að greiða sömu sektir og ég fyrir söluna á sementinu til skólans.
En nú gafst ekkert tóm til þess að velta fyrir sér einkennum hins spillta íslenzka þjóðfélags. Bæjarfógetanum nýja varð ég að svara: „Þið fáið ekki eina krónu í réttarsætt umfram það sem ég hef boðið,“ sagði ég í sama tón og til mín var talað.
„En heyrðu nú, Þorsteinn,“ sagði fráfarandi bæjarfógeti með sama velvildarblænum í röddinni og hógværðinni, „þú hafðir heitið mér því að greiða þessa upphæð með vísitöluálagi.“ - „Það er satt,“ sagði ég, „við það stend ég.“
„Munduð þér ekki fáanlegur til að greiða 100 krónur?“ spurði nýi fulltrúinn, sem sat þarna gegnt mér og bókaði. - „Ættu þær að greiðast með vísitöluálagi?“ spurði ég svona til þess að skemmta mér svolítið. „Það þyrfti ekki að vera,“ sagði hann. „Mikils virði eru þeim hverjar 10 krónurnar núna, þessum þjónum ríkisvaldsins,“ hugsaði ég. „Nei, alls ekki,“ svaraði ég fulltrúanum.
Þetta svar mitt heyrðu fógetarnir.
Þá hófst hljóðskraf milli bæjarfógetanna, og þó heyrði ég ávæning af því. Hinn nýi bæjarfógeti leitaði ráða hjá þeim fráfarandi. Hvað var réttast að gera gagnvart þessum sökudólg? - „Sættast við hann, sættast við hann, annað hefur aðeins meira illt í för með sér,“ heyrði ég, að hinn fráfarandi bæjarfógeti sagði. Þá lýsti Gunnar Þorsteinsson, bæjarfógeti, yfir því í heyranda hljóði að Bjarni Benediktsson (þannig orðaði hann það) hefði skipað sér að fá sem fyrst enda á þessa deilu, leiða hana til lykta. „Botninn er því hér með sleginn í mál þetta með því að stefndur greiði 60 krónur í réttarsætt.“

Ávíunin sögulega. Ríkinu greiddar sektir.

Ég tók upp ávísanaheftið mitt og skrifaði töluna 60 í reitinn efst til hægri á ávísanaeyðublað. „Nei, heyrðu, Þorsteinn,“ sagði hinn fráfarandi bæjarfógeti snöggt, eins og hann hefði allt í einu uppgötvað eitthvað sérlegt, sem hann hefði áður sett sér að muna, en gleymt nú um stundarsakir. „Heyrðu, Þorsteinn, það er málskostnaðurinn.“ - „Málskostnaðurinn?“ spurði ég undrandi. „Engan lögfræðing hef ég haft og engan lögfræðing hafið þið kostað.“ „Jú, málskostnað verðurðu að greiða,“ sagði hann. „Hver ætti hann svo sem að vera?“ spurði ég. „Hann má ekki vera minni en fimm krónur,“ sagði hann. Þá hló ég innra með mér, en það sýndi ég ekki á yfirborðinu þessari virðulegu samkundu til þess að særa ekki fráfarandi bæjarfógeta, sem ég bar virðingu fyrir. Ég vissi í huga hans, vissi, að málskostnaður verður að fylgja hverri málssókn eins og taglið merinni.
Með mesta alvörusvip skrifaði ég töluna 5 ofan í núllið og fyllti síðan ávísanablaðið út að fullu með þeirri hugsun að hnupla síðan ávísun þessari úr fylgiskjölum Sparisjóðsins og geyma hana vandlega til minja um einhverja allra hlægilegustu málsókn, sem ég get ímyndað mér að átt hafi sér stað í landinu. Síðan ber ég alltaf þakklætiskennd í brjósti til Fjárhagsráðs, prófessorsins, fyrir að setja þetta apaspil á svið og gefa mér þannig í elli minni tilefni til að skrá það. Og þarna var sjálft ríkisvaldið á ferðinni og þjónar þess í dýrð og mekt. Ég hins vegar vesæll þræll þeirrar hugsjónar að fá byggt hús yfir eina af uppeldisstofnun þessa sama ríkisvalds og fræðslustofnun.
Þetta blessað haust var lokið við að steypa gólfið í fimleikahús skólans. Einnig var öll miðhæð skólabyggingarinnar steypt upp. Mikið hafði á unnizt, þó að seint væri hafizt handa sökum þess, hve formaður Fjárhagsráðs tók sér seint hvíld frá störfum. Þegar á leið haustið, skorti okkur vissulega ekki vinnuaflið.
Satt að segja fannst mér eftir á, að okkur Sigfúsi bæjarfógeta hefði tekizt mæta vel að leika hlutverk okkar í þessu apaspili, sem prófessorinn hafði sett á svið að undirlagi eða áeggjan forustumanna andspyrnuaflanna í Vestmannaeyjum. Enda gnístu þeir tönnum og hugsuðu nú til bæjarstjórnarkosninganna, sem fram skyldu fara á næsta ári. Þá, þá, - ef til vill gæfist þá, eftir þau átök, kostur eða vald til að stöðva þessa „alóþörfu byggingarframkvæmd“, sem var framkvæmd á sama tíma sem togaraútgerð með milljóna tapi lamaði alla fjárhagsgetu bæjarsjóðs. Var þetta nokkurt vit ...?
Forustumenn andspyrnunnar í bænum höfðu frá upphafi baráttunnar gert byggingarmál skólans að pólitísku bitbeini. Frá mínum bæjardyrum séð hlutu því bæjarstjórnarkosningarnar 1950 að skera úr um framtíð byggingarframkvæmda skólans. Næðu andspyrnuöflin völdunum þá í bænum, þurfti ekki að spyrja um móðurhlýjuna eða örlætið til handa olnbogabarninu á heimilinu samkvæmt hinni „mörkuðu stefnu“ flokksins, því að mér flaug aldrei sú hugsun í hug að víkja úr stöðunni. Það hefðu verið svik við málstaðinn og hugsjónina.

Eftir byggingarframkvæmdir sumarið 1949.

Árið 1950. Síðasta kjörtímabilið (1946-1950) hafði Framsóknarflokkurinn í Eyjum ekki átt neinn fulltrúa í bæjarstjórn kaupstaðarins. Nú leyfðu félagar mínir mér að vera í baráttusæti á listanum, sem reyndar var 2. sætið, eins og komið var fylgi flokksins. Þar var „eldlínan“.
Svo fóru unaðslegir tímar í hönd: Kosningabaráttan.
Mörg voru framfaramálin ofarlega á baugi hjá okkur, en framtíð Gagnfræðaskólans og byggingarinnar öllu ofar í mínum huga.
Enn lifa í Eyjum þeir menn og þær konur, sem muna átökin miklu á framboðsfundinum 27. jan. 1950. Og svo rann kosningadagurinn upp.
Framsóknarflokkurinn fékk tvo fulltrúa kosna í bæjarstjórn Vestmannaeyja, og þar með var Gagnfræðaskólanum tryggður sigurinn, með því að vinstri öflin báru gæfu til þess að sameinast um stjórn bæjarins næsta kjörtímabil.
Eftir þennan kosningasigur minn kom annað hljóð í strokk formanns Fjárhagsráðs. Nú lágu öll efnisleyfi á lausu til handa Gagnfræðaskólabyggingunni í Vestmannaeyjum. Engu var líkara, en að formanninum fyndist nú, að ég hefði fengið vald til að afráða, hverjir fylltu í framtíðinni flokkinn til hægri handar föðurnum, samkvæmt kenningum, þar sem hjörtun bærast undir sauðargærunum, og vafasamt gæti orðið, hvoru megin hann sjálfur fengi þá að vera eftir öll átökin!
Þó svo hefði verið um völd mín, þá hefði ég aldrei svift hann þar félagsskap timburkaupmanna og annarra sálufélaga. Nei, aldrei. Það vissi ég bezt af viðskiptunum við hann og Fjárhagsráð, að það er háskasamlegt að misnota vald sitt.- Sjálfum mér til handa hefði ég þá kosið að fylla flokk langskeggjanna til vinstri; þar eru eyru sæmst sem uxu, stendur þar.
Valdníðsla er viðurstyggð, og menn, sem neyta valds síns til þess að níðast á samborgurum sínum eða öðrum, eru mestu skaðræðismenn þjóðfélagsins.
Sumum til gamans langar mig til þess að skrá hér orðrétta frásögn mína upp úr dagbók minni 5. maí 1951. Hún sannar ráðríkið, ófrelsið og smámunasemina á tímum Fjárhagsráðs, er framtak einstaklingsins, a. m. kosti sumra einstaklinga, var heft svo, að þeim var ætlað að standa og sitja eftir vissum nótum skrifstofumanna í Reykjavík.
Ég er staddur í Reykjavík til þess m. a. að sækja sementskaupaleyfi til handa Gagnfræðaskólanum. Hér hefst frásögnin:
„Ég kem fyrst inn í biðstofuna. Þar er aðeins símastúlkan. Spyr hana, hvar ég geti fengið vitneskju um það, hvort leyft hafi verið að steypa að fullu upp fimleikasal Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum. Stúlkan vísar mér til Ásgeirs Torfasonar, og ég því fram á gang og þar inn um aðrar dyr.
Ásgeir situr þar við borð gegnt öðrum manni, og virtust þeir vera að bera saman tölur. Ég spyr Ásgeir, hvort við munum hafa fengið leyfi til að steypa upp fimleikasalinn. Hann kvaðst ekki muna það, en gæti gáð að því. Þá gellur hinn maðurinn við: „Þið fáið ekki að steypa salinn. Þið fáið 50 smálestir af sementi til þess að húða innan skólahúsið, en ekki til þess að steypa upp salinn.“ Ég dró í efa, að þetta gæti verið rétt, þar sem sementsleyfið var svo ríflegt (satt að segja sá ég ekki í fljótu bragði, hvernig við gátum klínt 50 smálestum af sementi á innveggi skólahússins það ár eða nokkru sinni).
Þá voru teknar fram leyfaskrár. - Jú, rétt, við máttum vinna úr 50 smálestum af sementi og festa 200 þúsundir króna í húsinu, en ekki steypa salinn. Ég efaðist samt um, að þetta gæti verið svona. (Mér fannst valdbeiting þessi minna á það, þegar konungsvaldið danska meinaði Eyjabændum að gera út til fiskjar og skipaði þeim í þess stað í skiprúmin á konungsbátunum. Þeir fengu ekki einu sinni að ráða, á hvaða skipi þeir réru).
Þá var kallað á Helga Eyjólfsson, arkitekt. Hann kvað það rétt vera, að ekki mætti steypa salinn. Ég fullyrti, að það þýddi stöðvun á byggingarframkvæmdunum, þar sem við létum ekki þakið á húsið, fyrr en salurinn væri steyptur upp. Leit þá arkitektinn á teikningu af húsinu og taldi ekkert til fyrirstöðu að loka því, þótt salurinn biði.
„Á nú að fara að byrja á nýjum deilum, réttarhöldum og sektum?“ spurði ég. „Hvað eigið þér við?“ spurði hann. „Ég á við það, að við steypum salinn, hvað sem þið segið.“ „Þá fáið þið ekkert, ef þið eruð með hótanir,“ sagði arkitektinn.
Ekkert meira sagt. Engar kveðjur. Ég út um aðrar dyrnar. Hann út um hinar. Mættumst á ganginum þegjandi.
Daginn eftir mætti ég á götu Aðalsteini Eiríkssyni námsstjóra gagnfræðastigsins. Hann hafði lengi ætlað sér að koma út í Eyjar til okkar til eftirlits. Næsta dag kom námsstjórinn til Eyja. - Hann tjáði mér m. a., að Skagfirðingar hefðu tekið það ráð að grafa undirstöður hins væntanlega Varmahlíðarskóla í jörðu til þess að verja þær frostskemmdum, þegar útilokað var, að þeir fengju sementsleyfi til frekari byggingarframkvæmda hjá Fjárhagsráði. Grun hef ég um, að undirstöðurnar séu enn ónotaðar.
Siglfirðingar grófu einnig fyrir byggingu yfir gagnfræðaskólann sinn. Öll sú vinna varð til einskis, sagði námsstjórinn, með því að sement fengu þeir aldrei, ekki einn poka.(Þessir skólar voru einnig olnbogabörn stjúpunnar).
Jafnframt tjáði námsstjóri mér, að Helgi Eyjólfsson arkitekt, sem reiknað mun hafa út sementsmagnið á innveggi skólans, hafi kært mig fyrir fræðslumálaráðuneytinu fyrir ósæmilega framkomu við sig varðandi fimleikasalinn.

- - -

Nú liðu nokkrir dagar. Þá fór ég aftur til Reykjavíkur vegna uppgjörs bæjarsjóðs og skuldaskila við ýmsar stofnanir.
Einn daginn gerði ég boð á undan mér á fræðslumálaskrifstofuna. (Spurðist fyrir um það, hvort fræðslumálastjóri væri við látinn). Kom þar klukkan 9 að morgni. Eftir 15 mínútur kom Þorsteinn Einarsson, íþróttafulltrúi, að máli við mig. Var hann þá að koma frá Fjárhagsráði með þau skilaboð til mín, að bezt væri, að við steyptum upp „fjandans salinn“. Þá var sá sigur unninn. Þeir byggja með góðmennskunni fyrir norðan! Ég hef valið hitt, því að annað gagnar mér ekki!“ - Þannig hef ég skráð þetta í dagbók mína, þegar ég kom heim. Ég óska að taka það fram, að ég átti engan hlut að því, að Fjárhagsráð breytti samþykkt sinni varðandi notkun þessara 50 smálesta.

3. hæð og fimleikasalurinn steyptur upp sumarið 1951.

Árið 1951 var lokið við að steypa upp 3. hæð gagnfræðaskólabyggingarinnar og húsið gert fokhelt um haustið. Þá var einnig fimleikasalurinn steyptur upp að fullu.

Fánar við hún. Risgjöld 29. september 1951.

Risgjöld Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum áttu sér stað að Hótel H. B. 29. september 1951. Ekkert áfengi var þar á borðum. Það þótti nýlunda í kaupstaðnum. Enginn bæjarfulltrúi andspyrnuaflanna í bænum né skólanefndarmenn þeirra sátu þetta myndarlega boð bæjarstjórnarinnar. Sárindi ósigursins grúfðu þannig yfir þessum veslings mönnum. Mannpeðið er æði oft ekki lítið skrítið. Sárindunum hefur líklega valdið lífsgæfan eða hamingjan, sem hvíldi yfir öllu þessu starfi frá upphafi. Ég hef alltaf þakkað þá hamingju bæn konunnar. Ég var þjónninn, framkvæmandinn. - Öll sú gifta var foringjum and-spyrnunnar óskiljanleg og órannsakanleg eins og vegir drottins. Eitt var prófessornum hulið, að hann barðist látlaust gegn mættinum mikla, sem hann þó hafði áratugum saman sagt prestsefnum þjóðarinnar að væri ósigrandi.
Mér varð að trú minni. Verkin sýndu merkin.
Árið 1952. Vorið eða sumarið 1952 var skólanum sagt upp leiguhúsnæði því að Breiðabliki, þar sem hann hafði verið til húsa undanfarin 18 ár. Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum var þá gjörsamlega „á götunni“, því að hvergi var að fá húsnæði í bænum nothæft til reksturs skólanum. Nú var því illt í efni. Vonlítið var að geta lokið svo við neðstu hæð nýja hússins, að þar yrðu tök á að reka skólann. Tíminn naumur af því að svo mikið var ógert, og þó verst það, að engir voru peningar í hendi, ekki einn eyrir til byggingarframkvæmdanna. Bæjarsjóður var í sárri fjárþröng. Bar þar margt til, og þó fyrst og fremst milljónatöp á rekstri bæjartogaranna á undanförnum árum. Aðeins lausaskuldir þeirra námu 2 milljónum króna vorið 1952.
Eina píslargönguna átti ég þá eftir enn. Nú var hún gengin milli valdamanna á sviði fjármálanna í Reykjavík. Mér taldist svo til, að ég hefði í þeirri göngu vorið 1952 fundið meir en 10 slíka valdamenn að máli og beiðzt þess, að þeir létu stofnanir þær, sem þeir stjórnuðu, veita lán Vestmannaeyjakaupstað eða Gagnfræðaskólanum eða mér persónulega með íbúðarhús að veði. Þetta voru bankastjórar, forstjórar tryggingafélaga og annarra stofnana, sem ég vissi að lúrðu á fjármagni. Alls staðar fékk ég sama svarið. Bæjarsjóður Vestmannaeyja var skuldunum vafinn sökum milljónataps á undanförnum árum og skuldir hans höfðu þess vegna hlaðizt upp í bönkum og við ýmsar opinberar stofnanir.
Enn kom ég heim ef til vill öngulsárari en nokkru sinni fyrr. Ekki var annað sjáanlegt en að starfsemi skólans yrði að liggja á hillunni að minnsta kosti eitt ár.
Hverjar urðu svo afleiðingar þess? Hvað var til ráða?
Nú varð ekki flúið á náðir Sparisjóðs Vestmannaeyja lengur. Þar var ekkert fé, sem festa mátti í byggingunni, þar til ríkinu þóknaðist einhvern tíma að greiða framlag sitt til hennar. Almenningur hafði haft rýrar tekjur og þá varð Sparisjóðurinn að vera því vaxinn, þegar haustaði að hlaupa undir bagga með verst stæðu fjölskyldunum i bænum. Einnig mátti búast við rýrnun á innstæðum fólks af sömu ástæðum.
Á miðju sumri tókst fræðslumálastjóra að útvega mér handa skólanum 30 þúsund króna lán. Sjálfum tókst mér að herja út 20 þúsund króna lán í Búnaðarbankanum. Öll önnur sund lokuð. Þá var áætlað, að okkur skorti ekki minna en 200 þúsundir króna til þess að komast skammlaust í bygginguna með skólann á komandi hausti. M.a. vantaði allt til kyndingar í húsið og svo vatnsleiðslukerfið.
Allt efni lá á lausu og öll tæki, líka kyndingarketillinn, en greiða þurfti hlutina ásamt allri vinnu við bygginguna. Mikil múrvinna í kjallara hússins var líka ógjörð, svo að skólinn yrði starfhæfur þar. Hærra var ekki hugsað.
Múrvinnan hófst á miðju sumri og hana greiddi ég með fengnum 50 þúsundunum.


ctr


Kennarar og nemendur sækja sand norður fyrir Eiði til múrhúðunar innan húss.


Eftir miklar vangaveltur fundust fjármálaúrræðin, ef ... ef ... ef Eyjabúar sjálfir vildu hlaupa undir bagga með mér, leggja fé inn í Sparisjóðinn, og ég fengi það svo lánað handa skólanum. Allur þorri þessa fólks hafði aldrei brugðizt mér, þegar að þrengdi og á var knúið. Þessi „hugsjónaangurgapi“, eins og einn af andspyrnuforingjunum kallaði mig í gremju sinni eitt sinn á opinberum fundi, átti sín ítök, líka meðal kjósenda andspyrnuforustunnar. Aldur leyfir mér nú orðið að segja bæði þetta og annað í grein þessari. Meiri hluti sparisjóðsstjórnarinnar var því fylgjandi, að skólinn fengi það fé lánað til byggingarframkvæmdanna, er ég gæti klófest inn á sparisjóðsbækur með áróðri þá um sumarið, allt að 200 þúsund króna.
Ég hafði trú á „fyrirtækinu“. Og mér varð svo sannarlega að trú minni. Spariféð streymdi inn til mín í hundruðum þúsunda. Ég minnist þess t.d. að einn af betri borgurunum lét senda sér 25 þúsundir, sem hann hafði átt geymdar í banka í Reykjavík. Og víst væri ljótt af mér að draga fjöður yfir það, að langflestar hjálparhellurnar voru fólk, sem vitað var að fylgdi andspyrnuforingjunum að málum, foreldrar, sem átt höfðu unglinga við nám í skólanum. Samtals lánaði Sparisjóður Vestmannaeyja 260 þúsundir til skólabyggingarinnar þetta sumar og haust, og framkvæmdunum miðaði næstum ótrúlega vel áfram, enda vel unnið. Múrarameistari frá upphafi var Júlíus Jónsson í Stafholti. Hann var sjálfur enginn meðalmaður til afkasta, og eftir höfðinu dönsuðu limirnir þar. Einar Sæmundsson frá Staðarfelli var trésmiðameistarinn. Hann og Einar sonur hans voru afburðamenn í sínu starfi.
Septembermánuður leið, og flestir eða allir framhaldsskólar í landinu hófu vetrarstarfið nema Gagnfræðaskólinn í Vestmannaeyjum. Þar var mikið óunnið enn, svo að kjallari hússins teldist nothæfur. Einnig skorti vinnuafl, áður en heimaveiðum og síldarvertíð lauk að haustinu.
Við Sigurður Finnsson, sem þá var aðalkennari minn við skólann, bárum saman ráð okkar. Ég vissi að hann var víkingur til líkamlegrar vinnu, ef hann vildi leggja hönd á plóginn, ekki síður en í kennslustarfinu.
Við urðum á eitt sáttir um það, að vinna sjálfir í skólahúsinu hvern dag eftir því sem við gætum komið því við.
Þarna unnum við svo þau verk helzt, sem aðrir veigruðu sér við að vinna eða vildu sízt inna af hendi. T.d. hjuggum við öll gólfin í kennslustofum og gangi neðstu hæðarinnar, sem við vildum geta tekið í notkun þetta haust. Rásir í múr hjuggum við einnig.
Ekki þarf að orðlengja þetta frekar. Hinn 4. október var hitinn fenginn í húsnæðið. Og 19. okt, settum við gagnfræðaskólann fyrsta sinni í nýju Gagnfræðaskólabyggingunni. Það var hátíðlegur dagur í huga okkar. Þó vantaði þar margt, sem sjálfsagt þykir til þæginda og hreinlætis. T. d. voru engir dúkar á gólfum. Þau voru aðeins snöggmáluð. Um hendur gátu þó nemendur þvegið sér. Það var nýlunda í Gagnfræðaskólanum í Vestmannaeyjum. Og fjölmargt fleira var þar þegar til bóta og stóð til bóta.
Við höfðum þarna 4 kennslustofur til afnota, og vel fannst okkur fara þarna um stofnunina í heild, þrátt fyrir skort á mörgu.
Í öðru tilliti höfðum við nú líka náð merkum áfanga. Nú var fræðslulögum landsins frá 1946 fyrst framfylgt í Vestmannaeyjum. Lengur vorum við ekki eftirbátar annarra skólahéraða í landinu í því tilliti. Hið nýja hús Gagnfræðaskólans skapaði skilyrði til þeirra veigamiklu framfara. En skrattalaust komst sú skipan ekki á í byggðarlaginu. Einnig þá og þar var spyrnt við fæti, eins og fundargerðabók skólanefndar vottar. Loks fékkst því framgengt, að fræðslumálastjóri var kvaddur til Eyja og úrskurðaði hann að lögunum skyldi framfylgt, þar sem skilyrði voru nú til þess í bænum.
Árið 1953. Nokkur stöðnun komst nú á byggingarframkvæmdirnar sökum fjárskorts eftir átökin miklu árið áður (1952). Þó gátum við fullgert að mestu tvær kennslustofur á aðalhæð byggingarinnar þetta sumar og unnið lítilsháttar að lagfæringu á lóð skólans.
Árið 1954. Haustið 1954 var hægt að taka meginið af aðalhæð skólahússins í notkun, fjórar kennslustofur. Síðast í nóvember var húsnæði þetta nothæft. Síðustu dagana í nóvember vann allt kennaralið skólans að því að leggja gólfdúka á aðalhæðina undir stjórn fagmanns í starfinu. Þarna fengum við þá tvær kennslustofur samliggjandi með færanlegum skilvegg til nota handa félagslífi nemenda, en það var snar þáttur í uppeldisstarfi skólans alla tíð.
Einnig var á þessu ári lagt gólfið í fimleikasalinn. Sú framkvæmd kostaði mikla peninga, svo vandað sem það er eða á að vera í alla staði.

Austurhlið fimleikasalarins. Séð norður yfir íþróttavöllinn nýja.

Árið 1955. Í byrjun ársins 1955 var hafizt handa um að einangra alla útveggi fimleikasalarins. Hann er allur einangraður með tveggja þumlunga korkplötum. Plasteinangrun var þá lítt kunn hér á landi. Hitalögn var lögð í salinn um haustið og hann málaður allur. Salurinn tekinn til nota seint um haustið.
Öll snyrtiherbergi skólans fullgerð þetta ár og varanlegur kyndingarketill settur í húsið. Vinna hófst á þessu ári við að einangra útveggi á efstu hæð skólabyggingarinnar. Unnið var að byggingunni megin hluta ársins.
Árið 1956. Þetta ár var lokið við að múrhúða efstu hæð skólabyggingarinnar. Landssmiðjan smíðaði helztu fimleikaáhöldin í salinn og setti þau upp í febrúar um veturinn.
Þetta ár var unnið mikið að lóð skólans. Veggurinn austan við hana steyptur og fleira gert lóð hans til þurftar.
Segja má, að lokið væri að fullu við að byggja Gagnfræðaskólabygginguna þetta haust. Höfðu þá þessar framkvæmdir staðið yfir tæp 10 ár.
Æskilegt væri, að sem allra flestum valdníðslumönnum íslenzku þjóðarinnar gæfist kostur á að lesa þessa grein mína. (Heimild: Dagbók mín 1946-1956)


———————————


ctr


Gagnfræðaskólabyggingin í Vestmannaeyjum.


Heildar byggingarkostnaður nam kr. 3.563.763,03 hinn 31. des. 1957. Rúmmál byggingarinnar er um 8500 rúmmetrar. Kostnaður á hvern rúmmetra þannig um kr. 420,00. Ábyrgur starfsmaður í menntamálaráðuneytinu tjáði mér, að þessi bygging hefði reynzt sú ódýrasta, sem byggð hafði verið á vegum hins opinbera árin 1947-1957. Þ.Þ.V.


Til baka