Blik 1967/Sparisjóður Vestmannaeyja 25 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 20. september 2010 kl. 14:47 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 20. september 2010 kl. 14:47 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit Bliks 1967


ctr

Á þessu ári eru 25 ár liðin, síðan samþykktir Sparisjóðs Vestmannaeyja öðluðust staðfestingu ríkisvaldsins og þar með viðurkenningu. Það mun eðlilegast að telja aldur Sparisjóðsins frá staðfestingu á samþykktum hans samkvæmt gildandi landslögum, enda þótt hann tæki ekki til starfa fyrr en í apríl 1943. Undirbúningur allur að starfrækslunni tók sinn tíma. Margt handarvikið, margskonar starf þurfti að inna af hendi, áður en stofnunin gat tekið til starfa. Prenta þurfti sparisjóðsbækur, ávísanahefti, innláns- og úttektarseðla o.s.frv. Lengstan tíma tók þó að útvega þessari væntanlegu peningastofnun í bænum viðunandi húsnæði á aðal-viðskiptasvæði bæjarins.
Í Bliki 1963 og 1965 er minnzt á stofnun og starf Sparisjóðsins í þágu Eyjafólksins. Þess vegna verður hér komizt af með færri orð en ella til þess að gera efninu viðhlítandi skil.

ctr


Sparisjóðsbyggingin að Bárugötu 15. — Á 2. hæð byggingarinnar eru skrifstofur bæjarfógeta. Á 3. hæð er Byggðarsafn Vestmannaeyja og Náttúrugripasafn Eyjabúa.
Byggingarframkvæmdir hófust haustið 1960. Sparisjóðurinn tók til starfa í byggingunni 8. júlí 1962.

Þróun Sparisjóðs Vestmannaeyja var í nefndum árgöngum af Bliki gefin almenningi til kynna í tölum fyrst og fremst. Um áhrif stofnunarinnar á hið daglega líf Eyjafólks, heimilin í Eyjum og daglega önn, er erfitt að fullyrða nokkuð eða skilgreina. Þar verður hver og einn að hugsa fyrir sig og vera sér um sefa. Já, hver og einn verður þar að álykta af staðfestum tölum og svo reynslu og raun, sem fengizt hefur af starfsemi stofnunarinnar undanfarinn aldarfjórðung.
Um síðast liðin áramót hafði Sparisjóður Vestmannaeyja veitt Eyjafólki 1060 fasteignalán samtals frá stofnun hans eða um 41,5 milljónir króna. Þar að auki hefur stofnunin veitt fjölda ungs fólks hér lán til heimilismyndunar. Nema þau lán milljónum frá fyrstu tíð. Þá eru ótaldar milljónirnar sem Sparisjóðurinn hefur frá fyrstu tíð veitt hjónum hér til kaupa á margskonar tækjum til þess að létta húsmæðrunum heimilisverkin, - tízkutækjum knúðum rafmagni.
Stjórn Sparisjóðsins hefur jafnan leitazt við eftir megni að veita öllum, sem rétt hafa til, úrlausnir í peningamálunum og láta alla vera þar jafna fyrir lögum og rétti, fátæka sem ríka, volduga sem vesala. Það teljum við aðal okkar og helgustu skyldur, eftir því sem fjármagn hrekkur til hverju sinni og aðstæður allar leyfa. Nóg er um dilkadráttinn í þjóðfélaginu okkar og rangsleitnina, þó að Sparisjóður Vestmannaeyja reyni eftir megni að fullnægja öllu réttlæti og jafnrétti á sínu sviði.

Sveinn Guðmundsson, fulltrúi, í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja frá 1950. Formaður stjórnarinnar frá 4. jan. 1965
Magnús H. Magnússon, bæjarstjóri, í stjórn Sparisjóðsins síðan 1958.
Björn Guðmundsson, kaupmaður, í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja frá 1966.

Fasteignalánakjör Sparisjóðs Vestmannaeyja hafa um árabil verið þau, að lántakandi hefur fengið lánin til 6 ára með jöfnum greiðslum á 5 árum, en fyrsta árið aðeins greiddir vextir af láninu. Þessir greiðsluhættir eru mótaðir með fyllsta tilliti til húsbyggjandans í bæjarfélaginu. Hann er yfirleitt ekki fjársterkur maður, en hefur trú á eigin mátt og dugnað, elju og atorku til þess að geta eignazt eigið íbúðarhús. Og vissulega verður Eyjabúanum að þessari trú sinni. Öllum tekjum sínum umfram daglegar þarfir fjölskyldunnar og skatta ver hann til kaupa á byggingarefni og öðrum þörfum smáum og stórum, sem til þess þarf að byggja vandað íbúðarhús og búa það öllum gögnum og gæðum, allt til þess að „auka ánægjuna“ og skapa skilyrði til hamingjuríks og mennilegs heimilislífs. Þess vegna krefst Sparisjóður Vestmannaeyja ekki annars en vaxtanna af byggingarlánunum fyrsta árið. Þannig hefur stofnunin um árabil tekið óskorað tillit til umhverfisins, til lífsbaráttu fólksins, sem hún á að þjóna og ber að þjóna. Og fasteignalán sjóðsins hafa orðið þess valdandi, að húsbyggjandanum hefur aukizt kjarkur og máttur og hann hefur þokað húsi sínu undir þak af eigin atorku og ötulleik. Þegar því marki var náð, hefur honum staðið opin leið til byggingarláns hjá Húsnæðismálastjórninni. Það lán hefur hann síðan notað til að fullgera húsið eða því sem næst. Tíminn og tökin ljúka því svo að fullu.
Hvörflum síðan huga til allra hinna stæðilegu og myndarlegu íbúðarhúsa, sem hér hafa risið af grunni á s.l. 20 árum. Vissulega er það okkur ánægjuefni, sem borið höfum hitann og þungann af rekstri Sparisjóðs Vestmannaeyja og vera þess vitandi, hversu vel Eyjabúar kunna að meta alla þessa starfsemi stofunarinnar og gildan þátt í athafnalífinu, með því að efla hann með sparifé sínu ár frá ári.
Í dag er Sparisjóður Vestmannaeyja einn af hinum 6 stærstu sparisjóðum í landinu og þó langyngstur þeirra stærstu. Vissulega ber þessi öri vöxtur stofnunarinnar Eyjafólki fagurt vitni. Það skilur og hefur skilið af reynslu sinni, að því meir sem það eflir þessa stofnun í bæjarfélaginu með fé sínu, því öflugri hjálp megnar hún að veita því í lífsbaráttunni. Ég man þann dag enn, er við höfðum aðeins stofnfé til umráða, kr. 15.000,00. Ekkert varð gert, fyrr en nokkrir venzlamenn ábyrgðarmannanna og svo þeir sjálfir lögðu inn í Sjóðinn nokkurt fé svo að nam samtals kr. 180.000,00. Þá veittum við fyrsta fasteignarlánið, kr. 1500,00.
Ekki er því að neita, að Sparisjóður Vestmannaeyja eignaðist strax öfluga andstæðinga og andróðursmenn. Hrakspánum rigndi yfir. Og margir gerðust þá „trúaðir“. Ég var sannfærður um, að andúðin og vantrúin olli því, að einungis kr. 60.000,00 sparifé voru lagðar inn í stofnunina fyrstu 8 mánuðina, sem hún starfaði. Og þar fólust þó í vertíðarlok sæmilegrar aflavertíðar. Hér var því aðeins eitt að gera: Þola og þrauka. Þá list kunni ég persónulega. Ég hafði lært hana í skólastarfi mínu og þjálfazt í henni þar. Fjandmenn skólastarfsins urðu strax fjandmenn Sparisjóðsins. Ímigusturinn á öllum menningarlegum nýjungum hafði gagntekið sálarlíf þessara smáborgara. Efnis- og aurahyggjan var þar alls ráðandi. Og enn tókst þeim að leika á ótrúlega margar sálir samborgara sinna.
En rótgróinni ómenningu verður ekki breytt í menningu með áhlaupi, heldur seiglu og þrotlausu starfi að settu marki. ,,Sá, sem veit sitt hlutverk, á helgast afl um heim, eins hátt og lágt má falla fyrir kraftinum þeim,“ segir skáldið. Það eru vissulega orð að sönnu. Með starfi sínu einu megnaði Sparisjóður Vestmannaeyja að þagga niður í andróðursröddunum.
Tindarnir tóku að hrinja og fúadíkin að fyllast upp. Fólkið hætti að krjúpa á kné fyrir peningavaldi og maurapúkahætti. Það tók að hugsa sjálfstætt og skapa sér sínar eigin skoðanir og draga sínar eigin ályktanir. Í þeim eigindum fólksins fólst mátturinn mesti hjá Sparisjóði Vestmannaeyja. Þá var honum sigurinn vís, því að hann er ríkur þáttur í myndugleik og persónulegri og efnahagslegri sjálfstæðisbaráttu Eyjafólks í heild.

- - -

Á s.l. ári uku Eyjabúar sparifé Sparisjóðsins um kr. 3,4 milljónir. Sjálfir fengu þeir svo lán til húsbygginga úr stofnun þessari, sem námu 10 milljónum króna. Aðeins þessar tölur sanna okkur, svo að óhrekjanlegt er, að efling Sparisjóðsins er efling eigin hagsmuna með Eyjafólki.


Yfirlit yfir eignir og skuldir Sparisjóðsins s.l. þrjú ár

Eignir 31. des.: Víxileign Bundið fé í seðlabankanum Aðrar eignir Eignir alls
1964 17.871.604,62 5.719.548,00 5.912.842,26 29.503.994,83
1965 27.532.309,74 6.824.022,00 7.270.224,59 41.626.556,33
1966 28.645.154,56 9.481.938,00 7.152.466,51 45.279.559,07
Skuldir 31. des.: Sparifé og ávísanir Aðrar skuldir Skuldir alls
1964 27.963.172,32 1.540.822,56 29.503.994,83
1965 37.500.757,25 4.125.799,08 41.626.556,33
1966 40.901.493,63 4.378.065,44 45.279.559,07

Í „öðrum eignum“ felst verð húseignarinnar að Bárugötu 15, sem nú stendur í sem næst 3,9 milljónum króna.
Árið 1965 námu fasteignalán þau, sem Sparisjóður Vestmannaeyja veitti Eyjabúum samtals kr. 6.950.000,00. Árið 1966 námu þessi lán samtals kr. 10 milljónum.
Frá upphafi til 31. des. 1966 hefur Sparisjóðurinn lánað Eyjabúum fasteignalán sem nema samtals kr. 41.445.345,00.


Stofnendur og fyrstu ábyrgðarmenn Sparisjóðs Vestmannaeyja, (1942)

Sigurgeir Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar, í stjórn Sparisjóðsins síðan 1958.
Benedikt Ragnarsson, bókhaldari Sparisjóðs Vestmannaeyja síðan 3. júní 1963.
Þorsteinn Þ. Víglundsson
  1. Filippus Árnason, Austurvegi 2.
  2. Guðni Grímsson, Helgafellsbraut 8.
  3. Guðmundur Böðvarsson, Hásteinsvegi 8
  4. Helgi Benediktsson, Heiðarvegi 21
  5. Sveinn Guðmundsson, Arnarstapa.
  6. Einar Lárusson, Þorvaldseyri, Vestmannabraut 35
  7. Anders Bergesen Hals, Þinghól
  8. Óskar Jónsson, Sólhlíð 6
  9. Stefán Guðlaugsson, Gerði
  10. Einar Guðmundsson, Austurvegi 18
  11. Kjartan Ólafsson, Hrauni
  12. Ásmundur Guðjónsson, Gjábakka
  13. Sigurður G. Bjarnason, Svanhóli
  14. Gunnar M. Jónsson, Vestmannabraut 1
  15. Þorbjörn Guðjónsson, Kirkjubæ
  16. Einar Guttormsson, Kirkjuvegi 11
  17. Hermann Guðjónsson, tollvörður
  18. Jóhann Sigfússon, Sólhlíð
  19. Jón Jónsson, Hlíð
  20. Gísli Þórðarson, Görðum
  21. Sigurjón Sigurbjörnsson, Gefjun
  22. Bjarni G. Magnússon, Lágafelli
  23. Guðlaugur Brynjólfsson, Lundi
  24. Jón Ólafsson, Hólmi
  25. Magnús Guðbjartsson, Kirkjuvegi
  26. Konráð Bjarnason frá Selvogi
  27. Þórður Benediktsson
  28. Kjartan Guðmundsson, Skólavegi 10
  29. Kristinn Ólafsson, Reyni
  30. Þorsteinn Þ. Víglundsson, Háagarði

Síðan hafa þessir ábyrgðarmenn fallið frá: Nr. 3, nr. 6, nr. 9, nr. 12, nr. 19, nr. 20. nr. 24, nr. 28 og nr. 29.


Þessir gjörðust ábyrgðarmenn á árunum 1949 og 1958:

  1. Guðmundur Ólafsson, Hrafnagili
  2. Friðfinnur Finnsson, Oddgeirshólum
  3. Óskar Sigurðsson, Hvassafelli
  4. Páll Þorbjarnarsson, Heiðarvegi 46
  5. Jóhann Björnsson, Hólagötu 14
  6. Torfi Jóhannsson, Tindastóli
  7. Gísli R. Sigurðsson, Faxastíg 41
  8. Ingólfur Arnarsson, Austurvegi 7
  9. Sveinbjörn Guðlaugsson
  10. Tómas Sveinsson, Faxastíg 13
  11. Eiríkur Ásbjörnsson, Urðavegi 41
  12. Guðlaugur Gíslason, Skólavegi 21
  13. Magnús H. Magnússon, Símstöðinni
  14. Sigurgeir Kristjánsson, Boðaslóð 24

Síðan hafa tveir fallið frá: Nr. 1 og nr. 6.

Þessir ábyrgðarmenn eru nú búsettir utan bæjarins:

Nr. 17, nr. 18, nr. 21, nr. 22, nr. 23, nr. 25, nr. 26, nr. 27 og nr. 9 af hinum síðari ábyrgðarmönnum.




ctr


Þetta málverk af Vestmannaeyjahöfn málaði Freymóður listmálari Jóhannsson sumarið 1966. – Það hangir í afgreiðslusal Sparisjóðsins og er gjöf hans til Eyjafólks til minningar um farsæl viðskipti og örugg um aldarfjórðungsskeið, þar sem ekki hefir enn tapazt ein króna af lánum Sjóðsins til Eyjabúa.