Blik 1967/Solveig Pálsdóttir, ljósmóðir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Efnisyfirlit Bliks 1967


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Solveig Pálsdóttir, ljósmóðir


Fyrir fáum árum sýndi Ragnar ráðunautur Ásgeirsson Byggðarsafni Vestmannaeyja þá góðvild að gefa því myndina hérna til hægri.
Myndin er af ömmu hans, Solveigu Pálsdóttur, ljósmóður, sem er ein hin merkasta kona, er hér hefur búið og starfað.
Solveig ljósmóðir var dóttir prestshjónanna á Kirkjubæ hér í Eyjum, séra Páls skálda Jónssonar og Guðrúnar Jónsdóttur ljósmóður. Þessi prestshjón voru bæði komin af merkum bænda- og embættismannaættum og sumir forfeður þeirra kunnir í sögu þjóðarinnar. Hér í Bliki verður ekki farið út „í þá sálma“ að sinni.
Prestshjónin séra Páll og Guðrún eignuðust 13 börn að sagt er, þótt mér hafi ekki tekizt að finna fleiri en 11 þeirra í heimildum. Fimm barna þeirra hjóna komust til manndómsára. Flest hinna dóu ung.
Solveig ljósmóðir fæddist að Búastöðum í Eyjum 8. okt. 1821 að seinni tíðarmenn telja, enda þótt kirkjubókin kveði hana fædda 21. september það ár.
Þegar hún fæddist, hafði séra Páll skáldi, faðir hennar, verið aðstoðarprestur í Vestmannaeyjum í 3 ár hjá séra Bjarnhéðni Guðmundssyni, sóknarpresti, en hann lézt haustið, sem Solveig fæddist. Fékk þá faðir hennar brauðið og prestssetursjörðina að Kirkjubæ til að búa á. Þar ólst síðan Solveig Pálsdóttir upp.
Þessi unga prestsdóttir á Kirkjubæ hlaut það hlutskipti í lífinu að verða veigamikill aðili að þáttaskiptum í lífi sveitunga sinna á sínum tíma, er hinar sorglegustu sjúkdómsþrengingar þjökuðu Eyjabúa. Þá gat hún sér þann orðstír, sem ekki má algjörlega liggja í þagnargildi öllu lengur.
Um tvítugt afréði Solveig Pálsdóttir að gerast ljósmóðir eins og móðir hennar, sem þó hafði lítið lært til þeirra verka. Solveig vildi verða „lærð“ ljósmóðir, - sigld ljósmóðir. Til þess að öðlast fullkomna fræðslu í ljósmóðurfræðunum, eftir því sem þá voru bezt tök á að tileinka sér þau, þurfti hún að sigla til Kaupmannahafnar og fá þar námsvist á Fæðingarstofnun borgarinnar.
Miklar líkur eru til þess, að hinn danski héraðslæknir þá hér í Eyjum, dr. Haaland, hafi hvatt Solveigu Pálsdóttur til þess að nema ljósmóðurfræði í Kaupmannahöfn og átti drýgstan þátt í því, að hún að lokum fékk þar námsvist.
Á þessum tímum var líf Eyjabúa átakanlega ömurlegt. Svo hafði verið um langan tíma. Fátæktin var óskapleg eftir að einokunarverzlunin hafði mergsogið Eyjabændur og búaliða um tveggja alda skeið. Húsakynni Eyjafólks voru fádæma léleg og sóðaskapur og önnur ómenning á háu stigi. Fáfræði og þekkingarleysi almennt ríkjandi á flestum sviðum, svo að orð fóru af, séra Jóni Austmann til sárrar gremju. Ofan á allt þetta var svo ginklofasjúkdómurinn (Trismus neonatorum) landlægur eins og víðar á landi hér, þó skæðastur í Eyjum. Svo hafði það verið um langt árabil. Um það bil 7 börn af hverjum 10, sem fæddust í Eyjum þá, veiktust af ginklofa (krampa) á fyrstu 5-12 dögum ævinnar og létust öll.
Yfir byggðarlaginu grúfði þessi skelfilegi skuggi.
Mörg bréf fóru milli íslenzkra yfirvalda og annarra málsmetandi manna á Íslandi annars vegar og dönsku stjórnarvaldhafanna hinsvegar varðandi umsókn Solveigar Pálsdóttur heimasætu á Kirkjubæ í Eyjum um námsvist á Fæðingarstofnuninni í Kaupmannahöfn. Sumar mótbárur dönsku valdhafanna gegn námsvist Solveigar Pálsdóttur þóttu ærið fáránlegar og öfgakenndar, eins og t.d. sú, að heimasætan hefði ekki alið barn sjálf eða verið við karlmann kennd. Engin stúlka gat öðlazt leyfi til náms í þessari dönsku fæðingastofnun, nema hún hefði fyrst alið barn, - sjálf fætt af sér barn.
Loks létu þó valdhafarnir við Eyrarsund undan síga í máli þessu og hétu Solveigu Pálsdóttur námsvistinni. Það gerðu þeir með kansellibréfi dagsettu 9. des. 1841. Mikil líkindi eru til þess, að orð hins danska læknis, dr. Haalands, hafi hér riðið baggamuninn málstað Sólveigar til sigurs. M.a. hélt læknirinn því fram í bréfum til dönsku valdhafanna, að fyrsta skilyrði til þess að uppræta „barnamorðingjann mikla“, ginklofann, væri það að fá til Eyja lærða ljósmóður til þess að annast sængurkonurnar. Allar skyldu þær jafnframt fæða börn sín í sérstakri stofnun, - fæðingarstofnun, - þar sem lærð ljósmóðir og héraðslæknirinn gætu annazt mæðurnar og börnin að öllu leyti fyrstu vikurnar eftir fæðinguna.
Sumarið 1842 sigldi síðan Solveig Pálsdóttir til Kaupmannahafnar og stundaði nám í fæðingarstofnun borgarinnar eitt ár.
Árið eftir (1843) kom hún heim aftur til Eyja og gerðist þá ljósmóðir þar. Þá var hún tæpra 22 ára.
Solveig Pálsdóttir var ein hin allra fyrsta ljósmóðir hérlendis, er numið hafði ljósmóðurfræði utanlands.
Þegar nú hinn danski héraðslæknir hafði náð því marki að fá ráðna lærða ljósmóður við hlið sér, herti hann sóknina á valdhafana um að fá stofnaða í Eyjum sérstaka fæðingarstofnun.
Dönsku stjórnarvöldin fóru sér að öllu hægt um það mál, og nýfæddu börnin í Eyjum héldu áfram að deyja drottni sínum.
Loks eftir nær 4 ára umhugsunartíma og vangaveltur létu þau tilleiðast. Vorið 1847 (7. apríl) var hinum danska lækni P. A. Schleisner falið að stofna fæðingarstofnun í Vestmannaeyjum og hefja þar jafnframt rannsóknir á orsökum ginklofans. Um haustið tók fæðingarstofnunin til starfa (fyrsta barn fæðist þar 25. sept). Árið eftir var rannsóknum þessum lokið.
Læknirinn segir í bók sinni, er hann skrifaði um Íslandsferð sína, að 23 konur hafi fætt undir handarjaðri hans þá mánuði, er hann dvaldist í Vestmannaeyjum við rannsóknarstörf sín. Þar af hafi 7 mæður ekki getað mjólkað börnum sínum eða „gefið þeim brjóst, sökum þess að vartan var fallin inn. Orsakir: Of þröngur klæðnaður um brjóstin.“
Ég drep á þetta hér til þess að gefa dálitla hugmynd um þá erfiðleika, sem ljósmóðirin hafði við að stríða í starfi sínu. Nýfæddu börnunum stafaði sem sé ekki aðeins hætta af fátæktinni og sóðaskapnum. Klæðatízkan var hér einnig þrándur í götu.
Árið eftir komu sína hingað, eða 1848, hvarf Schleisner læknir af landi burt og læknislaust varð í Eyjum. Læknirinn hafði lokið rannsóknum sínum, og árangur þessa starfs þeirra læknisins og ljósmóðurinnar var undraverður. Barnadauðinn minnkaði þegar á árinu 1849 niður í 5 af hundraði eða um það bil 62%. Flest þeirra barna, sem dóu í Eyjum úr ginklofa árið 1849-1850 fæddust ekki í fæðingarstofnuninni heldur heima, hver svo sem ástæðan kann að hafa verið.
Enginn læknir settist að í Eyjum fyrstu árin eftir veru P.A. Schleisners læknis þar. Þá var Solveigu ljósmóður falið að annast þar sjúkt fólk, veita því læknishjálp eftir beztu getu og kunnáttu, þar til læknir settist þar að.
Árið 1852 gerðist danski læknirinn Ph.Th. Davidsen héraðslæknir í Vestmannaeyjum og fékk inni í Steinshúsi (síðar bar það nafnið Pétursborg). Það var eitt lélegasta tómthúsið í Eyjum, og þá 30 ára gamalt. Davidsen læknir lézt í Vestmannaeyjum eftir 8 ára dvöl þar (1860).
Aftur féll það í hlut Solveigar ljósmóður að gegna læknisstörfum í byggðarlaginu, þar til læknir fengist til þess að setjast þar að. Þannig liðu þrjú ár. Árið 1863 settist Magnús Stephensen cand. med. og chir. að í Eyjum, gerðist þar héraðslæknir. Hann lézt eftir 16-17 mánuði.
Þá féll enn í hlut ljósmóðurinnar að annast læknisstörfin í héraðinu. Á sjálfa sig varð hún að treysta í öllu sínu starfi. Þar var hvergi í annað hús að venda, hvað sem að höndum bar. Mættum við hvarfla huga til nútímans og bera saman aðstöðu ljósmæðra hér nú og þá?
Haustið 1865 fluttist Þorsteinn Jónsson læknir til Vestmannaeyja. Hér var hann síðan héraðslæknir í 40 ár, - þar af 38 ár skipaður -, eða þar til 1905.
Árið 1841 kom til Vestmannaeyja sigldur Íslendingur, Matthías Markússon „Snedker“, lærður trésmíðasveinn, sem farið hafði víða um erlendis, eftir að hann lauk trésmíðanámi í Kaupmannahöfn. Þannig jók hann þekkingu sína á lífi og starfi fólks, bæði víðsvegar í Danmörku og Þýzkalandi. Það var á árunum 1838-1840. Til þeirrar farar fékk hann sérstakt vegabréf (Vandrebog), er „Snedker-Svend Mathias Thordersen“ fékk í Kaupmannahöfn 4. des. 1838. Þar eru skráð þessi helztu einkenni á hinum íslenzka trésmíðasveini: Hár vexti og svarar sér vel um gildleikann; hárið jarpt, augu blá og munnur og nef „almindelig“. Þá var Matthías 29 ára. („Vandrebog“ Matthíasar Markússonar er nú geymd í Byggðarsafni Vestmannaeyja, ásamt alinmáli dönsku, sem hann átti og tréblýanti. Allir þessir hlutir eru gjöf frá Ragnari ráðunaut, dóttursyni hans).
Matthías Markússon var Vestfirðingur, sonur séra Markúsar Þórðarsonar á Álftamýri við Arnarfjörð Ólafssonar lögsagnara á Eyri í Seyðisfirði vestra. Kona séra Markúsar og móðir Matthíasar var Þorbjörg Þorvaldsdóttir hreppstjóra Sveinssonar.
Matthías var 32 ára, er hann settist að hér í Vestmannaeyjum, f. 3. júní 1809. Hinn lærði „Snedker-Svend“, Matthías Markússon, og Solveig ljósmóðir felldu hugi saman. Þau giftust 24. okt. 1844¹) og fengu inni til búskapar í Kornhól, þar til þau byggðu eigið hús.
Nokkur vafi hefur leikið á því, hvenær hjónin Matthías og Solveig byggðu íbúðarhús sitt, sem þau kölluðu Landlyst. En nú er vissa fengin fyrir því. Í umræddu vegabréfi er þetta skráð á bls. 8, auðri bls. annars: „1848 bygð Landlyst. 1850 bygð Stiftelsen með einum gafli í vestri enda.“ Tveim árum síðar láta dönsku stjórnarvöldin Matthías Markússon byggja yfir Fæðingarstofnunina við vesturenda Landlystar, áfast við íbúðarhúsið að vestanverðu.
(Sjá grein um Landlyst í Bliki 1960).
Þá þótti ákjósanlegt, að Fæðingarstofnunin væri starfrækt sem allra næst heimili ljósmóðurinnar, sem hafði í rauninni veg og vanda af öllu daglegu starfi þar og heilsugæzlu, annaðist sængurkonurnar svo að segja dag og nótt, hafði eftirlit með fæði þeirra og allri hjúkrun, og svo nýfæddu börnunum, fæðslu þeirra og klæðnaði, - hvítavoðum. Allt þurfti að gera með ítarlegri athugun og gát, því að hér var um rannsóknarstofnun að ræða. Stafaði ginklofinn óbeint af fæði móðurinnar, meðan hún lá á sæng? Eða ollu hvítavoðirnar eða reifarnar sjúkdómnum? Þetta vissi enginn fyrst í stað. Solveig ljósmóðir og dr. A. Schleisner unnu saman að rannsókn þessari. Allur þvottur var „breiddur á blæ“ í Eyjum á þessum tíma eða þurrkaður á steingörðum, sem mold fauk yfir í þurrastormum.
Hér leyndist bölvaldurinn. Sóttkveikjan lifði í jarðveginum og komst úr honum í naflabindið, Þar sem það var þurrkað á jörðinni eða garðinum, og barst með því að nafla barnsins og inn í blóð þess.

Ragnar Ásgeirsson.

Hjónunum Matthíasi Markússyni og Solveigu Pálsdóttur varð 9 barna auðið.

  1. Pálína
  2. Karólína Guðrún
  3. María Kristín
  4. Jóhanna Martha
  5. Sigríður
  6. Matthías
  7. Jensína Björg

(Í 2. bindi af Skruddu eftir Ragnar ráðunaut Ásgeirsson er gerð frekari grein fyrir börnum þeirra hjóna).
Öll börn Matthíasar og Solveigar voru fædd í Vestmannaeyjum á árunum 1845-1864. Rétt þykir mér hér að geta þess, að forseti Íslands, hr. Ásgeir Ásgeirsson og Ragnar ráðunautur Ásgeirsson eru synir Jensínu Bjargar, sem var gift Ásgeiri Eyþórssyni kaupmanni í Kóranesi.
Árið 1867 fluttust hjónin Matthías og Solveig til Reykjavíkur. Þar gerðist Solveig Pálsdóttir ljósmóðir, önnur af tveim þá þar í bæ. Hjónin byggðu sér íbúðarhús við Skólavörðustíginn og nefndu það Holt. Þar fengu þau einnig land til ræktunar. Þau ræktuðu sér æðistórt tún og höfðu þannig nokkrar grasnytjar öðrum þræði þar í Holti.
Í Reykjavík var Solveig Pálsdóttir ljósmóðir til dauðadags. Hún lézt 24. maí 1886. Matthías maður hennar andaðist tveim árum síðar, 5. maí 1888.

Landlyst. (Þetta mun vera elzta mynd, sem til er af húsinu).

Svo sem að er vikið hér í greinarkorni þessu og á öðrum stað einnig í riti þessu, þá unnu þær saman um eins árs bil í Fæðingarstofnuninni, - Stiftelsinu, - Solveig ljósmóðir og Guðfinna Jónsdóttir frá Ofanleiti, síðar húsfreyja á Vilborgarstöðum. Ávallt síðar hélzt innileg vinátta milli þeirra og heimila þeirra að Holti við Skólavörðustíg og í Austurbænum á Vilborgarstöðum. Holtsheimilið var veitandi og hjartarúm þeirra hjóna í rauninni stærra að sínu leyti en húsrýmið. Þess vegna gátu þau ekki hýst „skólastrákana“ úr Vestmannaeyjum, sem stunduðu nám á vetrum í Lærða skólanum, en fæði fengu þeir fyrir sanngjarnan pening hjá Holtshjónunum. Þannig hefi ég vissu fyrir því, að Lárus Árnason frá Vilborgarstöðum, síðar lyfsali í Chicago í Vesturheimi, var í fæði í Holti veturinn 1877-1878, er hann stundaði nám í Lærða skólanum og stefndi að stúdentsprófi. „Vestmannaeyjastrákarnir“ Gísli Brynjólfsson prests á Ofanleiti, síðar læknir í Kaupmannahöfn, og Lárus Árnason frá Vilborgarstöðum, sváfu saman í litlu herbergi í námunda við heimili þeirra Holtshjóna, en höfðu aðhlynningu og fæði (a.m.k. Lárus) hjá þeim hjónum við Skólavörðustíginn.
Góðvildin og vinarhugur hjónanna í Holti og barna þeirra var þessum skólapiltum úr Vestmannaeyjum ómetanlegt, meðan þeir dvöldust við námið svo fjarri sínum.

Minningarljóð, sem ort var á sínum tíma eftir Solveigu ljósmóður, hefur mér áskotnazt. Því miður er mér það ókunnugt, hver orti. Ég bið Blik að geyma það til minningar um hina mætu konu og hið mikilvæga starf, er hún innti af hendi hér í byggð.

Með trú og dyggð sitt skylduverk hún vann,
já, vann, og þreytt en örugg dauðans beið,
því mannást skær í brjósti brann,
og blys það var, sem lýsti hennar skeið.
Hún græddi tíðum margra sjúkra mein,
en meira bætti höndin ör á laun,
því hjartað tryggt var gull-lind heit og hrein,
sem hugga vildi og lækna hverja raun.
Hún trúði því og treysti alla stund,
að tæki annað betra líf oss við,
sú sigurvon var sól í hennar lund,
er signdi hana og veitti henni frið.


Leggst nú til hvíldar
frá lífsins starfi
aldurhnigin
öðlingur kvenna
SOLVEIG PÁLSDÓTTIR
yfirsetukona

Hún var fædd 8. okt. 1821.
Sigldi til Kaupmannahafnar og nam yfirsetufræði 1841.
Var yfirsetukona í Vestmannaeyjum 1842-1867 og í Reykjavik frá 1867 til dauðadags.
Giftist 24. okt. 1845 trésmið Matthíasi Markússyni og átti með honum 9 börn; 2 dóu í æsku, en 7 lifa.
Hún andaðist 24. maí 1886.

¹) Leiðr., samkv. pr.þj.bók. (Heimaslóð)