Blik 1967/Gott er með góðu fólki

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 20. september 2010 kl. 09:50 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 20. september 2010 kl. 09:50 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit Bliks 1967


ÞORSTEINN L. JÓNSSON:


Gott er með góðu fólki


Hjónin í Suðurgarði í Vestmannaeyjum,
Jón Guðmundsson og Ingibjörg Jónsdóttir


I.

Hafir þú aldrei á lífsleiðinni hitt mann eða konu, sem ljóma af manngæðum, þá hefur þú farið mikils á mis. En sem betur fer, held ég þeir séu sárafáir, sem eru svo fátækir.
Vegna þess er ég líka sannfærður um það, að ekkert sé jafn heillandi eins og að kynnast þvílíku fólki, enda er fátt, sem hefur ljúfari áhrif en viðkynningin við það. Lifandi og langæ merla þau áhrif innan um aðrar ógleymanlegar minningar og gera okkur beinlínis að betri mönnum.
Það er óhjákvæmilegt, að þetta fólk geri okkur annað en gott. Það er engu líkara en það gjörbreyti gjörvöllu andrúmsloftinu kringum sig með góðhug sínum og breytni, svo að allt byrjar að ilma af mildi og öryggi í návist þess. Það veit sjálft bókstaflega ekkert af þessum persónutöfrum og það ætlast heldur ekki til neins af okkur í staðinn.
Það brosir hlýtt við okkur, en e.t.v. ekki með neinu sjáanlegu brosi, og það er heldur ekki bros, sem er á veiðum sér til vinsælda, því að það brosir jafnframt og ekki sízt með sínu innra brosi, - brosi fagurrar sálar, sem lifir sjálfa sig inn til mín, til skilnings á mér og til samfélags við mig. Það eru mildin og manngæðin, sem er lífið í þessu brosi.
Það er vegna þessara guðdómlegu hæfileika, sem þetta fólk skilur og leysir vandræði mín, sem ég hefði e.t.v. aldrei fundið lausn á.
Þessu fólki þarf ekki að segja neitt. Það þarf m.a. sjaldnast að spyrja neins. Með lífsreynslu sinni hefur það öðlazt eitthvert auka skilningarvit, sem sér og skilur stríð okkar og áhyggjur. Og það kemur til okkar að fyrra bragði og óvænt og leysir flækjurnar í einu átaki svo eðlilega og sársaukalaust, að töfrum er líkast, en við verðum endurnýjaðir menn.
En ætlast það þá ekki til neins í staðinn? - Nei, það ætlast ekki til neins. Það skilur auk þess varla, hví við erum að þakka því. Það er nefnilega svo kyrrlátt í andanum, þetta fólk, og yfirlætislaust. Í kyrrð og rósemi vinnur það óhjákvæmilega öll sín störf, en heiðarleikur og trúmennska í smámununum er höfuðprýði þess.
Þannig ber það hita og þunga dagsins, sem hinn trausti og innsti kjarni þjóðarsálarinnar, væntir sér hvorki hróss né útnefningar af neinu tæi og hverfur jafn hljóðlega til feðra sinna eins og það kom inn í þennan heim. En samt hefur það unnið sér ógleymanlegan sigursveig í hugum þeirra, sem voru svo hamingjusamir að fá að kynnast því og njóta manngæðanna, sem það átti í svo ríkum mæli. Og þótt ekki fari háværar sögur af þessu fólki, á það engu síður stórslegna og merkilega sögu, sem kallar á okkur til frásagnar a.m.k. þau brot úr lífi þess, sem orkaði á okkur dýpst. En enginn höfundur er betri en sá, sem geldur með lífi sínu fyrir efni sögu sinnar.

Fjölskylda Jóns og Ingibjargar í Suðurgarði. - Standandi frá vinstri: 1. Guðlaug Bergþórsdóttir, 2. Sigurgeir Jónsson, 3. Margrét Marta Jónsdóttir (Johnsen), 4. Guðrún Jónsdóttir, 5. Jóhann Jónsson, 6. Árný Sigurðardóttir. - Hjónin Jón og Ingibjörg sitja.
II.

Guðmundur hét maður og var Guðmundsson, fimmti maður frá Högna prestaföður, en ekki verður getið ættar hans nánar hér. Bjó hann á Voðmúlastöðum í Austur-Landeyjum. Hann var talinn bóndi góður og ötull verkmaður, en hvorki ríkur né fátækur. Fara meiri sögur af honum sem góðum manni og hjálpsömum, heldur en búhöldi, því að hann vildi hvers manns vanda leysa, þegar til hans var leitað. Hann var tvígiftur og hafði átt tvær systur. Fyrri kona hans hét Guðrún, en hin síðari Margrét, og voru þær báðar Jónsdætur.
Á þeim árum gengu yfir landið banvænir faraldrar, sem einkum lögðust þungt á ungbörn, og verður sú harmasaga ekki rakin hér. En þau barna Guðmundar, sem upp komust, gat hann með Margréti, síðari konu sinni, og voru þau tvö, dóttir, sem Guðrún hét eftir fyrri konu hans, og sonur, sem Jón hét, heitinn eftir móðurafa sínum.
Systkinin ólust upp í foreldrahúsum á Voðmúlastöðum við svipuð kjör og alþýða fólks átti við að búa um þær mundir. En þegar þau voru milli tektar og tvítugs, dó móðir þeirra, og stóð nú Guðmundur uppi í annað skipti ekkjumaður. Tók þá Guðrún við öllum búsýslustörfum hjá föður sínum innan húss, þótt ung væri. Fórst henni það vel úr hendi, enda var hún fljótt hið mesta mannsefni, björt yfirlitum og fríð sýnum.
Guðmundur var svo mikill barnavinur, að til hans var jafnað í þeim efnum og löngu eftir hans dag. Er enn í frásögur fært það, sem Ingibjörg tengdadóttir hans sagði við Jóhann son sinn, þegar hann var að gera brúðkaup sitt: „Á því hefði ég trú, Hanni minn, ef þú eignast einhverntíma son, að þú látir hann heita eftir honum Guðmundi afa þínum. Svo góður var jafnan sá andi, sem hann hafði til barnanna, að ég er sannfærð um, að enn muni blessun og farsæld fylgja nafni hans.“ En Guðmundur var engu síður vinsæll í hópi hinna eldri, því að hann var einn þeirra nærgætnu manna, sem allir vildu fegnir eiga sér til fulltingis, þegar eitthvað bjátaði á um heilsufar, því að hann reyndist þá oft hinn bezti læknir. Var hann ávallt sóttur, þegar snögg veikindi eða slys báru að höndum. Þá var fátt lærðra lækna og erfitt til þeirra að sækja, enda voru læknishéruðin víðáttumikil, og vegleysur og vatnsmiklar ár hinar mestu torfærur, en „Þarfasti þjónninn“ eina farartækið.
Oft þurfti hann að búa um beinbrot. Greri allt svo vel saman úr höndum hans, að ekki þótti þörf að sækja lækni, nema ef illa hafði brotnað. Einhverju sinni hafði hann búið um lærbrot, en leggurinn hafði brotnað ofarlega, og lét Guðmundur senda eftir héraðslækninum. En þegar hann kom, sagðist hann ekki þurfa að hreyfa við umbúðunum. Bætti læknirinn því við, að Guðmundur hefði búið um brot þetta að fyrirmynd franskra lækna. En hann hafi komizt í kynni við þá í Vestmannaeyjum.
Ennfremur tók hann mönnum oft blóð eða sló þeim æð, eins og það var líka kallað. Til þess var notaður svokallaður bíldur og lítið nautgripahorn slóglaust og opið upp úr stiklinum. Var hornið sogið fast á hörundið, þar sem eymslin voru. Við þetta hvarf allt loft úr horninu, en til þess að varna því, að loft kæmist inn og hornið losnaði, var blautum líknarbelg brugðið yfir gatið, og límdist hann þar fastur og lokaði fyrir. Blóðkoppar og blóðtaka af þessu tæi þótti gefast mjög vel gegn gigt og margskonar öðrum kvillum, og menn töluðu um, að með þessu losnaði líkaminn við óholla vessa.
Tæki þessi gengu í arf til Jóns Guðmundssonar, og tók hann mörgum blóð eftir það, þótt hann yrði aldrei læknir sem faðir hans hafði verið, en Guðmundur hlýtur að hafa verið læknir af Guðs náð.
Þegar þessi tæki komust í eigu Jóns, var hann kvæntur Ingibjörgu Jónsdóttur bónda Brandssonar. Voru þau hjónin mörgum innan handar í þessum efnum með nærgætni sinni og alúð. Þau hjálpuðust að, Jón sló á æðina með bíldinum, en Ingibjörg sogaði hornið á.
Bíldurinn og hornið voru í eftirlátnum munum Ingibjargar, þegar hún lézt, og eru nú varðveitt í Byggðarsafni Vestmannaeyja, og þar geyma þau sína sögu. Þögult og orðvana er þeirra mál nú sem áður á hniginni öld. Þau túlkuðu í verki göfugt hjartalag og nákvæmar hendur, sem aldrei kröfðust launa fyrir veitta líkn.

III.

Kirkjuland í Austur-Landeyjum var tvíbýlisjörð. Bjó þar á austurpartinum Bjarni nokkur Bjarnason ásamt konu sinni, Katrínu, og börnum sínum fjórum, öllum uppkomnum. Bjarni þessi var hinn mesti hagleiksmaður, listasmiður á tré og járn. Í hugkvæmni sinni hefur hann sjálfsagt ekki getað með öllu bundið bagga sína samtíðinni og aldrei verið á réttri hillu sem bóndi. Mun hann hafa átt erfitt með að una einangruninni og einhæfninni, sem af henni leiddi, og fýst að hleypa heimdraganum.
Þetta var á harðindaárunum upp úr 1880, meðan vesturferðir voru hvað tíðastar, þegar fjöldi fólks tók sig upp og flúði kuldann og sultinn og fór til Vesturheims. En þar var sagt, að skógarnir ilmuðu af byggingarviði, ávaxtatrén svignuðu undan aldinum eins og í Eden forðum og þar klæjaði mann í iljarnar undan gullinu, sem gengið væri á!
Bjarni fann nú umheiminn anda til sín þessum ilmi úr fréttum vesturfaranna, sem lofuðu gulli og grænum skógum. Þarna var hans draumaland. Þar mundi hann geta neytt hæfileika sinna og væri ekki lengur bundinn í báða skó.
Sagði nú Bjarni jörð sinni lausri og hélt til Vesturheims ásamt börnum sínum. En ekki hefur þetta orðið sársaukalaust, því að Katrínu brast kjark til að fylgja manni sínum og börnum út í óvissuna. Hún hefur víst ekki heldur getað fylgzt með honum, þegar hann byrjaði að reisa skýjaborgir sínar um nýtt líf og glæsilegt í framandi landi, langt vestan við sól og mána.
Guðmundur á Voðmúlastöðum undi ekki öllu lengur á þeim stað, þar sem dauðinn hafði svo oft höggið í sama knérunnann. Þar hafði hann orðið að horfa upp á lík barna sinna, sem höfðu látizt skömmu eftir að þau sáu ljós þessa dags, og loks höfðu þung örlög svift hann báðum ævifélögum hans. Nú var hann farinn að eldast og þreytast og vildi komast í nýtt umhverfi, ef hann með því gæti dreift og gleymt að nokkru hörmum sínum. Hann fékk byggingarbréf fyrir Kirkjulandi og fluttist þangað ásamt börnum sínum Guðrúnu og Jóni, og varð Guðrún áfram bústýra hans. Gerðist þetta í fardögum vorið, sem Bjarni flutti vestur um haf, en Katrín fékk að vera áfram til húsa á Kirkjulandi í skjóli Guðmundar og systkinanna, sem hún batt vináttu við til æviloka.

IV.

Tveir eftirtektarverðir smíðisgripir eru til eftir Bjarna á Kirkjulandi, sem munu lengi halda nafni hans á loft og bera hagleik hans ótvírætt vitni, svo að ekki er geipað af hæfileikum hans. Er annar gripurinn klukka, en hinn útskorin rúmfjöl.
Klukkan er smíðuð að fyrirmynd þeirra klukkna, sem löngum hafa verið kenndar við Borgundarhólm. Stendur hún á gólfi, gengur fyrir lóðum og er dregin upp á átta daga fresti. Utan um klukkuna var smíðaður fallegur kassi, málaður í bláum lit í grunninn, en flúraður rósum á framhlið og hefur verið hin mesta stofuprýði. Skífuna og allt verkið smíðaði Bjarni í höndunum, og er það bezta sönnun þess, hver snillingur hann var. En þegar vestur kom, er sagt, að hann hafi einnig smíðað klukku með svipuðu sniði, sem sýndi ýmislegt fleira en tímatal í mínútum og stundum.
Rúmfjölin er skorin út af miklum hagleik. Hún var upphaflega máluð. Var grunnurinn svartur, en rósir grænar, og var þetta rúmfjöl konu Bjarna, en rúmfjalir þóttu miklir nauðsynjahlutir í þá daga. Sjálfsagt hefur Bjarni smíðað margan spóninn og askinn um dagana, sem hann hefur þá einnig myndskreytt með listafögrum útskurði, þótt ekkert slíkra muna sé e.t.v. lengur til.

V.

Á Kirkjulandi tók Jón Guðmundsson út þroska sinn í skjóli föður síns og Guðrúnar, systur sinnar, sem var fjórum árum eldri en bróðirinn. Bæði voru þau fædd á Voðmúlastöðum, hún 1864, en hann 2. sept. 1868.
Jón var ekki eftirbátur föður síns að því leyti að vera hugljúfi hvers manns, sem honum kynntist. Hann var lægri meðalmaður á hæð; fjörlegur og kvikur til átaka, jafnvægismaður í skapi, enda þéttur á velli og þéttur í lund. Hann var maður fríður sýnum, með ávallt nef, vel eygur og svipfallegur, hýrlegur á yfirbragð, jarphærður og bjartur yfirlitum. Dagfarslega var hann prúður, hógvær í orðum og hæverskur í allri sinni framkomu. Bjarmaði af honum velvildin, enda þótti ungum sem gömlum gott með honum að vera. Þess vegna var hann alls staðar aufúsugestur og sást hann hvergi glaðari en í glöðum vinahópi.
Hestamaður var hann prýðilegur og átti ávallt, meðan hann var í sveitinni, fjörmikla gæðinga - og átti reyndar alla tíð góða hesta. En kröfur til góðra hesta hlutu að breytast, eftir að hann fluttist til Vestmannaeyja, þar sem hver einn hestur varð að vera góður til allra starfa, dráttar, áburðar og reiðar.
Það leiðir þá og af sjálfu sér, að Jón var vandur að virðingu sinni, og stóðu orð hans jafnan eins og stafur á bók. Aldrei hallaði hann viljandi á neinn, en mildaði og bar í bætifláka fyrir þá, sem bornir voru sökum. Auk þess var hann hinn ágætasti mannasættir.
Þótt Jón stæði aldrei framarlega í félagsmálum, eða væri áberandi forystumaður, var hann engu að síður einn hinna traustustu bakhjarla, sem mynda nauðsynlegan kjarna í félagsmálum sveitar sinnar, enda var gott til hans að leita. Á þeim árum var keypt orgel til Krosskirkju. Kunni enginn þar í sveitinni á slíkt hljóðfæri. Var þá leitað til Jóns, því að hann var mjög söngelskur og hafði góða söngrödd. Brá hann sér þá til Vestmannaeyja og naut um tíma tilsagnar Sigfúsar Árnasonar organista. Keypti hann sér þá einnig orgel, þrátt fyrir lítil efni, en upp frá því var orgel á heimili Jóns, og þróaðist þar mikið sönglíf. Þannig varð Jón fyrsti organisti Krosskirkju.

VI.

Jón Brandsson bjó í Hallgeirsey, sem þá var þríbýli og bjó hann í austurbænum. Hans kona hét Guðrún og var Bergsdóttir.
Þau áttu þrjár dætur og einn son. Steinvör hét sú elzta, Ingibjörg sú í miðið og Guðbjörg þeirra yngst. Bróðirinn hét Jón og var hann vangefinn. Náði hann aldrei fullum þroska andlega, en var alla tíð eins og gott lítið barn og hafði mikið yndi af söng.
Jón Brandsson var búhöldur hinn bezti og athafnamaður, smiður á tré og járn. Frá Landeyjasandi hafa verið stundaðir sjóróðrar allt frá landnámstíð og svo var enn og allt fram undir 1930, en fór þá minnkandi upp úr heimsstyrjöldinni fyrri, unz þeir lögðust alveg niður upp úr 1930. Voru það einkum bændur, sem bjuggu fram við sjávarsíðuna, sem gegndu þarna forustuhlutverki útvegsbænda. Þessi útvegur var þó ekki stundaður beinlínis sem atvinnuvegur, heldur fyrst og fremst til þess að afla fiskmetis til heimilisþarfa, enda hefur fiskur jafnan gengið þarna fast upp að ströndinni og því stutt að sækja þegar gæftir komu. En þær voru stopular, enda ströndin fyrir opnu hafi og hafnlaus með öllu.
En fiskurinn var mikill og blessuð björg fyrir þessar sveitir. Kom sér það vel að fá í soðið nýjan fisk á útlíðandi vetri, þegar mörg heimili fóru að verða bjargarlaus. Hefur þetta útræði þá líka bjargað mörgum heimilum frá hreinum skorti eða vorsníkjum eins og það var líka kallað, og má geta nærri, að gómsætur hefur hann þá reynzt nýi fiskurinn, og svo kúttmagarnir. Og þá mun þorskalýsið hafa mörgum bjargað frá hreinni kröm og langvarandi heilsutjóni.
Bændur á sjávarbæjunum voru margir hverjir formenn og áttu skipin sjálfir að einhverju eða öllu leyti, en það voru sex og upp í tíu-mannaför, sem einkum voru notuð á vetrarvertíðum, rammbyggð skip og traust *.
* Stóðu þessir menn líka betur að vígi um smíði skipa, því að þarna voru fengsælar rekafjörur, en menn þá ekki of ríkir til að hagnýta sér rekann.
Jón Brandsson þótti á sinni tíð skara mjög fram úr sem dugandi og aflasæll formaður, djarfur, en sjómaður góður, heppinn og farsæll. Bátur hans hét Bæringur og var hið traustasta sjóskip. Var orð á því haft, að sjaldan kæmi hann með blautan bagga úr Sandi.
Jón Brandsson hefur sjálfsagt ekki getað unað því að þurfa að sitja oft dögum og vikum saman í landi án þess að komast út á miðin, sem voru aðeins fáa faðma frá landi eða svo gott sem, en verða vegna hafnleysis að sjá Eyjabátana hlaða beint fyrir framan augun á sér dag eftir dag og geta ekki aðhafzt, enda blæddi þetta fleirum í augum. Urðu því nokkrir til þess, sem áttu heimangengt, að fara með skip sitt og áhöfn til Eyja og róa þaðan vetrarvertíðina, og hélt Jón skipi sínu Bæringi til Vestmannaeyja og gerði út þaðan margar vertíðir.
Þegar húsbóndinn fór þannig að heiman langdvölum, tók hann jafnan með sér allt karlmannalið, og skyldu konur og börn annast heimilisstörfin og gegningar. Urðu þá eiginkonurnar að gegna báðum hlutverkunum, húsfreyjunnar og bóndans. Guðrún Bergsdóttir var mikilhæf kona og skörungur til allra búverka og enginn eftirbátur manns síns að dugnaði og kjarki. Lét hún sig ekki muna um að bæta þessu á sig, enda gegndi hún með sóma þessum húsmóðurskyldum um margra ára skeið og síðustu árin sem búandi ekkja.

VII.

Jón Guðmundsson á Kirkjulandi og Ingibjörg Jónsdóttir í Hallgeirsey lögðu hugi saman og giftust haustið 1892 - og fluttu út til Vestmannaeyja.
Þá um vorið hafði orðið sú breyting á, að Guðrún systir Jóns hafði trúlofast ágætum manni, Jóni Þorsteinssyni frá Rimakoti. Ætluðu þau að hefja búskap á Kirkjulandi vorið eftir. Mun þetta hafa orðið til þess, að Jón og Ingibjörg réðu af að flytja úr sveitinni og setjast að í Eyjum. Réðist Jón þá til Kristjáns í Klöpp og réri með honum á Farsæli, einu Vestmannaeyjaskipanna, en Ingibjörg varð vertíðarkona hjá föður sínum. Hann var þá orðinn svo mikill athafnamaður, að hann hafði keypt eða byggt tómthúsið Hólshús, sem þá hét víst París. Bjó hann þar ásamt skipverjum sínum, og varð þetta fyrsta heimili ungu hjónanna, Jóns og Ingibjargar, og var það meining þeirra að setjast þarna að fyrir fullt og allt. En margt fer öðruvísi en ætlað er.
Svo bar við laugardaginn fyrir páska, veturinn 1893, að Jón Brandsson kom undan Sandi um miðjan dag og sem oftar með hlaðið skip. Sjóveður var eins gott og það gat verið bezt. Er þeir höfðu komið aflanum í land, réru þeir hið bráðasta aftur til sömu miða. En þetta varð hans síðasta ferð - hann drukknaði í útróðrinum þennan dag á leið heim.
Þeir höfðu lent í örum fiski og hlóðu skipið á skammri stundu og héldu svo heim. Var þá komin lítilsháttar kæla og voru þeir undir seglum, en útnorður af Faxaskeri og í námunda við það fyllti bátinn og fórust þar allir.
Þetta sama vor og fáum dögum eftir þennan atburð fórst annað skip úr Landeyjum. Formaður á því var Sigurður Þorbjörnsson frá Kirkjulandshjáleigu.
Þá tíðkaðist talsvert í Landeyjum og undir Eyjafjöllum, að formenn fóru með skip sín til Eyja á útlíðandi vertíð, um eða upp úr sumarmálum til þess að færa björg í bú, sem víðast var kærkomin, enda lítið orðið til af ætu nema mjólkurdreitillinn, ef einhver var.
Sigurður var að leggja í slíka ferð, þegar hann fórst. Hvolfdi þeim á útrifinu og drukknuðu allir. Sannaðist og hér sem svo oft endranær, að ekki verður feigum forðað, né ófeigum í hel komið. Tveir af mönnum Sigurðar höfðu orðið of seinir í Sandinn og komust því ekki út með honum. En aðrir tveir, Eyfellingar, voru þarna og fengu að fljóta með, fyrst svona stóð á.
Þótt Austur-Landeyjar hafi jafnan verið þéttbýll hreppur og allfjölmennur, munar að sjálfsögðu um minna en þrjátíu mannslíf svo að segja í einu. Var þetta vissulega óvenjumikil blóðtaka og djúpt og mikið sár, sem lengi var að gróa um heilt. Þarna fórust tveir mikilhæfustu formenn Landeyinga á þeirri tíð og með þeim hörkuduglegir úrvalsmenn á bezta aldri, enda réðust aldrei til slíkra formanna aðrir en útmetnir sjómenn, sem kunnu að taka í árinni og höfðu brek til að berja sjóinn í hvaða tvísýnu sem var, án þess að gefast upp eða guggna, þegar í harðbakkann sló.
Með Sigurði Þorbjarnarsyni fórust þarna tveir bræður frá Rimakoti og var annar þeirra Jón, sá sem fyrr er nefndur, unnusti Guðrúnar á Kirkjulandi, sem þá um fardaga skyldi taka við jörð og búi af tengdaföður sínum tilvonandi.
Fór hér svo sem oft fyrr og síðar, að oft er fljótt að skipta sköpum. Og þótt mennirnir haldi sig geta hugsað fram í tímann og haldið nákvæmar áætlanir, reyna menn það ósjaldan, að óvænt er tekið í taumana og stýrt inn á aðrar leiðir en ætlunin var að fara. Og svo fór hér og víðar en ég kann gjörla skil á, því að hann var ekki fámennur hópurinn, sem svall sorg í sefa við að sjá á bak maka og fyrirvinnu fjölmennra fjölskyldna og ómegðar. En þótt við fáum hér að vita fæst um það, getum við farið nærri um, að þessir atburðir breyttu miklu í framtíðaráætlunum Jóns og Ingibjargar.