Blik 1965/Leiklistarsaga Vestmannaeyja, 2. kafli, III. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Efnisyfirlit 1965



ÁRNI ÁRNASON:


ctr
(3. hluti)


Snemma árs 1922 tóku sig saman nokkur ungmenni um að leika fyrir fólkið. Það var lítið leikrit er nefndist „Hattar í misgripum“ og er eftir S. Neumann. Það var leikið í Gúttó á vegum stúkunnar Báru nr. 2.
Leikendur voru þau:

Friðfinnur Finnsson, Brekkuhúsi
Filippus Árnason, Ásgarði
Katrín Árnadóttir, Ásgarði
Nikólína Jónsdóttir, Hásteinsv. 4
Valdimar Ástgeirsson, Litlabæ

Uppfærsla leikrits þessa þótti takast sæmilega og var þó ekki um mikla tilsögn að ræða hjá þessum nýliðum á sviði leiklistar. Þó aðstoðaði við uppfærslu leiksins og sviðsetningu Yngvi J. Þorkelsson, Eiðum, sem var mjög listrænn, ekki sízt á þessum vettvangi. Þessi leikur mun hafa verið upphaf að leikstarfsemi þessa fólks, sem sumt átti eftir að skemmta Eyjabúum með góðum leik í fjölmörgum leikritum, sem síðar mun á minnzt í pistlum þessum um leikstarfsemi í Eyjum.
Árið 1922 sýndi L.V. leikritin „Strokufangann“ og „Hún vill verða leikmær“ og sennilega fleiri þætti.
Árið 1924 sýndi Kvenfélagið „Happið“ eftir Pál Árdal. Það var einnig leikið 1925. Með sýningum félagsins á stuttum leikritum voru venjulega einhverjir aðrir dagskrárliðir, t.d. skrautsýningar og upplestur.
Á „skrautsýningu“ 1922 eða 1923 hjá Kvenfélaginu var t.d. sýnd „Litla stúlkan með eldspýturnar“ eftir H.C. Andersen. Þá man ég sérstaklega eftir Bergþóru Magnúsdóttur í Dal í hlutverki litlu stúlkunnar, enda hreif hún alla með fegurð sinni og góðum leik.
Þá var einnig „Burknirótin“ eftir Árdal o.fl. sýnd á skrautsýningum. Árið 1926 var sýndur kafli úr „Skyggnu augunum“ eftir Stein Sigurðsson fyrrverandi barnaskólastjóra hér í Eyjum (1904—1914), — kaflinn, þar sem álfkonan sækir umskiptinginn í vögguna, kastar frá sér hinu mennska barni, og rýkur á dyr í fússi með sitt eigið afkvæmi. (Sjá Blik 1963 um leikrit 1908—1909).
Þrátt fyrir tíðar sýningar Kvenfélagsins er sjaldnast getið um þær í bókum þess eða nöfn þeirra leikrita, sem sýnd voru hverju sinni, svo að eflaust eru þau miklu fleiri, en hér getur — bæði leikrit, sem sýnd voru almenningi og svo eingöngu á innanfélagsskemmtunum þess. Almennar skemmtanir félagsins voru leiksýningar, upplestrar og söngur. Oft sungu tvísöng fyrir félagið þeir Halldór læknir Gunnlaugsson og Kristján á Hóli Gíslason, og þá m.a. Gluntana eftir G. Wernerberg. Stundum söng og Halldór læknir gamanvísur og þóttu þær afbragðsgóðar.
Eftir að frú Anna Pálsdóttir, kona Sigurðar Sigurðssonar, lyfsala, kom til Eyja, lék hún oft einleik á slaghörpu á skemmtunum Kvenfélagsins og lék stundum fyrir dansi á árshátíðum þess. Margur mun enn minnast þess, er hún lék Les Lanciers, sem mjög var í tízku hér á þessum árum. Kvöldvökur Kvenfélagsins þóttu ávallt með afbrigðum góðar og voru jafnan mjög fjölsóttar*.
* Á afmælishófi Líknar þótti sjálfsagt, að hver einasta félagskona mætti með maka sinn og jafnvel elztu börnin sín líka. Hóf þessi voru undantekningarlaust hangikjötsveizlur, sem félagskonur sáu um að öllu leyti um allan undirbúning og framreiðslu. Gárungarnir kölluðu oft þessar hangikjötsveizlur Kvenfélagsins „kríkaböll“ eða „læraböll“.

Nýja leikfélagið


Ár 1922/23 var stofnað hér í bæ nýtt leikfélag er nefndist Nýja leikfélagið. Meðlimir þess og stofnendur voru:

Kristinn Ástgeirsson, Miðhúsum
Valdimar Ástgeirsson, Litlabæ
Filippus Árnason, Ásgarði
Finnur J. Sigmundsson, Uppsölum
Eyþór Þórarinsson, Sólheimum
Yngvi J. Thorkelsson, Eiðum
Karl Gränz, Karlsbergi
Finnbogi Finnsson, Íshúsinu
Nikólína Jónsdóttir, Hásteinsv. 4
Jónína Jónsdóttir, Steinholti
Lilja Jónsdóttir, Mjölni
Björn Sigurðsson, frá Pétursborg.

Fyrsta verkefni þessa félags var að sýna leikritið „Almannarómur“ eftir St. Sigurðsson, skólastjóra.
Persónur og leikendur:

Jafet: Friðfinnur Finnsson
Dr. Hansen: Yngvi J. Thorkelsson
Tómas járnsmiður: Filippus Árnason
Gunnar stúdent: Eyþór Þórarinsson
Þorlákur: Valdimar Ástgeirsson
Þura gamla: Kristinn Ástgeirsson
Halla: Jónína Jónsdóttir
Sigrún: Sigríður Gísladóttir, Eyjarhólum.

Leikritið var sýnt í Gúttó og þótti yfirleitt takast ágætlega. Kristinn skilaði hlutverki Þuru gömlu með ágætum. Þá létu þau ekki sinn hlut eftir liggja í góðum leik, þau Filippus í Tómasi járnsmið, Jónína í Höllu konu Jafets, Yngvi í doktornum o.fl. Í heild hlaut leikritið beztu dóma almennings og þótti félagið fara vel af stað. Félagið var mjög heppið í vali verkefna, þó að ekki yrðu þau tekin til meðferðar. Mætti geta leikritanna „Ævintýri í Rosenborgargarði“, sem Kvenfélagið Líkn fékk hjá félaginu og sýndi 1929 við ágæta dóma, og leikritsins „Drengurinn minn“ eftir L. Aronge, sem L.V. fékk en sýndi þó aldrei. Ekki veit ég ástæðuna fyrir því, að leikritið var ekki og hefur enn ekki verið sýnt hér. Hefur félögunum sennilega vaxið erfiðleikarnir á hlutverkaskipaninni í augum.
Annað verkefni Nýja leikfélagsins var leikritið „Nei-ið“ eftir Heiberg eða Hringjarinn frá Grenaa, eins og það hefur löngum verið nefnt hér, eftir einni aðalpersónu þess. Hlutverkaskipting var að þessu sinni þannig:

Hringjarann frá Grenaa Hr Link lék Kristinn Ástgeirsson
Justisráðið: Finnbogi Finnsson
Hammer: Filippus Árnason
Soffíu: Lilja Jónsdóttir, Mjölni.

Leikritið var sýnt síðast í apríl og fyrst í maímánuði (1923) og hlaut ágæta dóma almennings og mikla aðsókn. Kristinn þótti skila Hr. Link með miklum ágætum, lifandi eftirmynd A.L. Petersen í því hlutverki fyrrum. Þá náði unga parið ágætum tökum á sínum hlutverkum, sérílagi þegar þess er gætt, að þau voru ósviðsvön a.m.k. Lilja Jónsdóttir. Söngur þeirra var afbragðs góður, fas allt og gervi prýðilega útfært. Um justisráðið er það að segja, að hann var algjör nýliði á sviðinu, en gerði ýmis viðbrögð mjög laglega.
Skömmu síðar sýndi svo Nýja leikfélagið leikritið „Hattar í misgripum“ og „Sagt upp vistinni“. Þetta eru lítil leikrit, en þóttu ágætlega meðfarin. Þarna starfaði Yngvi Jón sem leikstjóri og maskagerðarmaður ásamt Karli Gränz, og leystu þeir verk sín prýðilega af höndum sem vænta mátti.
Yfirleitt fannst fólki félag þetta lofa góðu í leikstarfseminni og vænti sér margra ánægjustunda á vegum þess.
Haustið 1922 lék Kvenfél. Líkn leikritið „Strokufanginn“ og annað er nefndist „Hún vill verða leikmær“. Síðar lék svo félagið „Fjölskyldan skemmtir sér“. Voru leikrit þessi ýmist sýnd á innanfélagsskemmtunum Líknar eða á almenningsskemmtunum og voru þá gjarna með í skemmtiatriðum upplestrar og skrautsýningar og svo dans hafður á eftir. Þannig var þetta t.d. um jólin 1922 og á afmæli félagsins um haustið. Þá sýndi það „Fjölskyldan skemmtir sér“, og hafði skrautsýningu á „Mjallhvít“ og fór þá Bergþóra Magnúsdóttir, Dal, með hlutverk Mjallhvítar. Síðan var danssýning undir stjórn Jakobínu Sighvatsdóttur, fyrstu konu Georgs Gíslasonar. Undirleik við danssýninguna annaðist frú Anna Pálsd., Apótekinu. Þær, sem dönsuðu, voru Ágústa Jónsdóttir og Emilía Filippusdóttir, símastúlka. Þetta var sem sagt fyrst á afmælishófi félagsins, en síðar haldin almenningsskemmtun með nefndum skemmtiatriðum, sem þóttu takast ákaflega vel.
Árið 1923/24 sýndi Nýja leikfélagið á innanfélagsskemmtun leikrit eftir Sigurbjörn Sveinsson, skáld og kennara, er nefndist „Thorkel Petersen“, samnefni við eina af aðalpersónum leikritsins.

Leikendur og persónur voru: Thorkel Petersen: Hjálmar Eiríksson Vegamótum
Hómopatinn: Yngvi J. Thorkelsson, Eiðum
Eldri bóndi: E. Björn Sigurðsson, Pétursborg
Unga stúlkan: Sigríður Gísladóttir, Eyjarhólum.

Þetta þótti skemmtilegur gamanleikur. Yngvi Jón var stjórnandi. Hann var mjög nákvæmur um öll smáatriði í leik og vildi ávallt hafa allt sem eðlilegast. Í þetta skipti átti hann sem homopati að hafa sína lyfjatösku, því að hann stundaði lækningar. Í töskunni áttu að vera margs konar lyf. Honum nægði ekki að hafa dósir og glös, það urðu að vera ósvikin lyf, svo sem alls konar smyrsl: vaselin, terpentina, verk- og vindeyðandi dropar, asperinsskammtar, Hoffmannsdropar, brjóstsaft o.fl. — Í leiknum átti Thorkel Petersen þá Keli Pétursson að verða veikur og var homopatinn sóttur til hans. Kom hann með lyfjakassa sinn og var þar um allauðugt samansafn lyfja að ræða. Petersen lá í rúminu. Nú ætlaði homopatinn að gefa honum inn hreint vatn í teskeið, en tók í misgripum hoffmannsdropaglasið, hellti í teskeið og dreif það í Petersen, sem svelgdi það í sig. Þetta verkaði bæði fljótt og vel, því að Petersen hentist fram úr rúminu í háaloft, staðnæmdist á gólfinu og tók þar meir en lítil andköf og sog, hóstaði og frussaði. Fólk hafði ekki fyrr séð svo eðlilega leikið eða vel takast til um homopatisk lyf og skemmti sér hið bezta. Klappaði óspart lof leikaranum. En aumingja Petersen leið ekki vel, það eitt er víst. En allt fór þó vel. Hann jafnaði sig á þessum ósköpum, gat haldið áfram leiknum og þótti vel hafa tekizt um hlutverkið. En leikendur hlógu svo að öllu saman.
Upp úr þessu flosnaði félagið upp, svo það varð óstarfhæft. Um ástæður er mér ekki kunnugt, en það urðu mörgum vonbrigði, að svo skyldi fara.
Árið 1924 fyrst í marz var kvöldskemmtun í Gúttó. Var þá sýndur gamanleikurinn „Trina í stofufangelsi“ eftir D. Hansen. Þá var og kvæðaupplestur: „Vestmannaeyja Times square“, eftir P.V.G. Kolka. Síðan var skrautsýning: „Við klaustursdyrnar og tvísöngur kvenna: „Berðu mig til blómanna“. Guðný Þ. Guðjónsdóttir, verzlunarstúlka, gekkst fyrir skemmtun þessari til ágóða fyrir ljóslækningasjóð (sbr. Skjöld 8/3-24).
Um líkt leyti sýndi Kvenfél. Líkn sjónleikinn „Tengdamamma“ eftir Kristínu Sigfúsdóttur. Leikendur fóru yfirleitt vel með hlutverk sín. Tveim þeirra, þeim Ágústu Eymundsdóttur og Kristínu Þórðardóttur, Borg, tókst svo vel að unun var að heyra og sjá leik þeirra (sbr. Skjöld 8/3—24). Ekki er annara leikenda getið í blaðinu, en þá léku m.a. Haraldur Eiríksson: Ara; Páll S. Seheving: Prestinn; Stefán Árnason: Jón. Um leik þennan er enga aðra leikdóma að finna.
Haraldur Eiríksson sagði mér, að einu sinni á æfingu við þetta leikrit, hefði hann komið frú Ágústu alveg á óvart. Hann var að kveðja hana á sviðinu og átti víst kveðjan að vera með handabandi. Hann sagðist þá af einhverri rælni hafa kvatt tengdamömmuna í leiknum með kossi. Frú Ágústa var sízt við þessu búin, en sagði: „Við erum nú ekki vön að hafa þetta atriði svona í leiknum“... Nokkru síðar varð frú Ágústa tengdamóðir Haraldar í raunveruleikanum, því að hann giftist Sólveigu dóttur hennar 2. maí 1929. Bjuggu þau fyrst hér í Eyjum, en fluttu síðar til Reykjavíkur, þar sem þau búa síðan.
Síðar lék Kvenfélagið „Tengdamömmu“ í samráði við L.V. Var það leikárið 1930/31, þá léku m.a. frú Jóhanna Linnet, Mjallhvít Linnet, Guðrún Karlsdóttir, Haraldur Eiríksson, Georg Gíslason, Páll Scheving, Jónína Jónsdóttir, Jakobína Ásmundsdóttir, Stefán Árnason o.fl. Var sú frumsýning 25. nóv. 1930. Sjá nánar um þetta við það ár.
Ár 1923/24 lék Kvenfél. Líkn leikritið „Fru Prop“ undir stjórn frú Ingibjargar Theodórsdóttur, sem einnig lék með í leikritinu. Aðrir leikendur voru m.a. Páll Scheving, Sigurgeir Jónsson, Suðurgarði, og Kristján Gíslason, Hóli. Fyrst var leikritið sýnt á árshátíð félagsins, en svo endurtekið á gamalmennaskemmtun félagsins. Frú Ingibjörg hafði farizt bæði leikur og stjórn hans prýðilega úr hendi. Leik þessum var vel tekið af leikhússgestum. Ekki hef ég fundið leiks þessa getið sérstaklega í blöðum bæjarins nema hvað Skjöldur segir í des. 1923, að skemmtun þessi hafi verið haldin 13. des. Þá hafi Indriði Einarsson, rithöfundur, lesið upp og sagt skemmtilegar sögur og fólk hafði skemmt sér hið bezta. — Þetta er allt, sem um skemmtunina er skrifað. Leikritið „Frú Prop“ var áður leikið hér 1909.
Sennilegt er, að á leikárinu 1924/ 25 hafi leikritið „Æfintýri á gönguför verið leikið hér á vegum L.V. Ekki er nú fyllilega ljóst, hverjir þá fóru með hlutverk í þessu vinsæla leikriti. Þó er þetta vitað:

Skrifta-Hans: Georg Gíslason
Assesor Svale: Finnbogi Finnsson
Krans: Árni Gíslason
Helena: Ágústa Eymundsdóttir
Ejbekk: Þórarinn Ólason
Herluf: Kristján Gíslason
Jóhanna: Emilía Ottesen
Lára: Ragna Þorvarðardóttir, Borg
Pétur: Björn Sigurðsson, Pétursborg
Vermund: Ingi Kristmannsson.

Mun þetta vera nálægt sanni, þareð flestum ber saman um þessa hlutverkaskipan.
Ég get ekkert um þessa leiksýningu dæmt að eigin sjón, þareð ég sá hana ekki, en menn hafa sagt mér, að mjög vel hafi rætzt úr með öll hlutverkin. Georg hafði skilað Skrifta-Hans með ágætum, enda þótt um söng hans mætti deila. En einmitt söngur hans, t.d. í Skrifta-Hans, virðist hafa getað orðið í merkilega góðu samræmi við atriði leiksins, því að Georg var enginn söngmaður, þótt ekki væri hann laglaus. Og þar sem ekki er svo bráðnauðsynlegt að fylgja melodiunni út í yztu æsar, líkt og sungnar eru gamanvísur, hefur þetta ekki orðið að neinni sök og ekki verið svo mjög fráleitt með tilliti til melodiunnar. Laginu gat hann haldið á lægri tónunum en notað svonefndar „Lagbrellur“, er lagið gekk hærra.
Árið 1926 í desember voru leikin hér leikrit eftir E. Bögh er heita „Ofvitinn í Oddasveit“ og „Háa-C“. Ungir menn og stúlkur tóku sig saman um að leika, sér og bæjarbúum til skemmtunar. Allt var þetta fólk svo til nýliðar á leiksviði, en þeir sem léku voru:

Jóhanna Ágústsdóttir, Kiðabergi
Jakobína Ásmundsdóttir, verzlunarstúlka
Páll Scheving, Hjalla
Sigurgeir Jónsson, Suðurgarði
Jón Sigurðsson, Pétursborg
Sigurður Gíslason og
Guðmundur Jónsson.

Eftir atvikum leystu þau öll hlutverk sín vel af hendi, þegar þess er gætt, að hér eru viðvaningar að störfum í þessari vandasömu list. Þótt sumt hafi farið allvel, mátti sjá viðvaningsbraginn meðal annars af því, að þau vissu oft ekki, hvernig þau á heppilegan hátt áttu að koma fram á sviðinu. Hins vegar var skilningur þeirra á hlutverkunum viðunanlegur. Það, sem þessu veldur, virðist stafa af ófullkominni tilsögn við æfingar og svo æfingaleysi, fremur en skorti á leikhæfni.
Eftir umsögn ritstjóra Skeggja (13/12—1926) um leiksýningu þessa, er ekki annað að heyra, en hér hafi um þessar mundir verið „steindautt leikfélag“, eða a.m.k. alls ekki starfhæft. Hefur það efalaust legið í dásvefni, sem nokkuð oft hefur heltekið þennan menningarlega félagsskap, sem þá var orðinn 15 ára gamall, hverju svo sem um hefur verið að kenna.
Um áramótin 1926 hafði Kvenfél. Líkn kvöldskemmtun og sýndi þá 2 leikþætti þ.e. „ Lotteriseðill nr. 101“ og skrautsýningu á hluta úr leikriti Steins Sigurðssonar, „Skyggnu augun“. Það hafði þá ekki sézt hér á sviði síðan 1909. Skrautsýningin gafst vel og þótti góð skemmtun, þareð mjög lítið var um leikstarfsemi í bænum. Helzt var það Kvenfél. Líkn, sem eitthvað lét að sér kveða í því efni og lék þá oftast einþáttunga. Konur lásu þá oft upp kvæði eða smásögur t.d. þær Guðrún Þorgrímsdóttir, Lágafelli, Halldóra Vigfúsdóttir, Guðný Þ. Guðjónsdóttir, Jóhanna Linnet o.fl. Á skemmtunum Kvenfélagsins voru oft til skemmtunar ein- eða tvísöngvar karla og kvenna. Meðal smáleikrita félagsins mætti hér minnast frá þessum árum t.d. „Trina í stofufangelsi“, „Frúin sefur“, „Sagt upp vistinni“, „Lifandi húsgögn“, „Hann drekkur“, „Fólkið í húsinu“, „Nei-ið“, „Hjónaleysin“, „Dvölin hjá Schöller“, „Ferðin milli Kaupmannahafnar og Árósa“, „Hinn setti eiginmaður“, „Happið“, „Kox og Box“, o.m.fl.
Er ekkert ofsagt, að leikstarfsemi Kvenfélagsins hafi frá fyrstu tíð verið all þróttmikil og sýnt hafi verið með stuttu millibili á innanfélagsskemmtunum þess, og þar svo á eftir fyrir almenning. Þess má og geta, að eftir að Kvenfél. fór að halda sínar árlegu skemmtanir fyrir eldra fólkið, hafa leikþættir verið einn af föstum skemmtiliðum dagskrárinnar.
Því miður virðist ekki vera vinnandi leið, að finna út helming þeirra leikþátta, sem sýndir hafa verið um þetta leyti og nokkur ár á eftir. Þess er yfirleitt ekki getið í bókum Kvenfélagsins, hvaða leikrit hafi verið sýnt á þessari eða hinni skemmtuninni.
Ár 1929 sýnir Kvenfél. Líkn leikritið „Upp til Selja“, norskan söngva- og gleðileik. Stjórnandi þess var frú Ingibjörg Ólafsdóttir, Símstöðinni, ásamt Sigurbjörgu Sigurðardóttur, konu Árna Gíslasonar. Leikendur voru sumir af símastöðinni, starfsfólk þar, en voru annars þessir:

Stefán Árnason, sem lék skólameistarann
Filippus Árnason, Ásgarði
Hjálmar Eiríksson, Vegamótum
Jón Th. Sigurðsson, Pétursborg
Lára E Óladóttir, Grafarholti
Anna Eiríksdóttir, Vegamótum
Árni Árnason, Grund
og Þórarinn Ólason, Þrúðvangi.

Sama ár (16. apríl) frumsýndi Kvenfél. Líkn leikritið „Ævintýrið í Rosenborgargarði“. Leiktjöldin málaði Axel Einarsson, Garðhúsum eftir póstkorti. Leikendur voru:

Stefán Árnason, lögregluþjónn: Hr. Winter
Árni Árnason, símritari: Pétur, þjónn Winters
Ágústa Eymundsdóttir, Hóli: Frú Sommer
Ragnheiður Jónsdóttir, Brautarholti: Stína
Hjálmar Eiríksson, Vegamótum: Humlegaard
Tómas Jóhannsson, Vöruhúsinu: Fellmark
Bergþóra Árnadóttir, Grund og
Margrét J. Johnsen, Suðurgarði
Þrjú börn léku:
Ása María Þórhallsdóttir, Símstöðinni
Berta Ottesen, Dalbæ og
Elísabet Linnet, Tindastóli.

ctr

Leikendur í Ævintýrinu í Rósinborgargarði, leikið 1928—1929. —
Frá vinstri: Margrét J. Johnsen, Suðurgarði; Tómas Jóhannsson
Reykjavík; Bergþóra Árnadóttir frá Grund; Hjálmar Eiríksson
Vegmótum; Árni Árnason frá Grund; Ragnheiður Jónsdóttir frá
Brautarholti; Stefán Árnason, lögregluþjónn; Ágústa Eymundsdóttir, Hóli. —
Börn, talin frá vinstri: Ása Þórhallsdóttir; Berta Gísladóttir
og Elísabet Linnet. — Leikstjóri var Ingibjörg Ólafsdóttir, símstöðinni.

ctr

Úr „ævintýrinu í Rósinborgargarði“. Árni á Grund og Stefán Árnason.

Leikdómur um Ævintýrið, sbr. Víðir, 23. apríl 1929:
„Aðstöður eru erfiðar hér til þess að sýna sjónleiki. Húsið er lítið og lélegt og leiksviðið í Gúttó alltof þröngt. Til þessa verður að taka tillit, þegar dæma skal um, hvernig leiksýningar fari úr hendi. Fyrst og fremst eru leikritin valin með tilliti til húsrýmisins og helzt tekin til meðferðar leikrit, sem hafa óbrotinn og fyrirferðalítinn leiksviðsútbúnað. Í öðru lagi njóta leikendur sín ekki á jafn litlu og óhentugu leiksviði, sem er hér. Ævintýrið í Rosenborgargarði er nokkuð erfitt með köflum fyrir leikendurna. Samtal þeirra Humlegaard, (Hj. Eir.) og Fellmark, (T. Jóhannss:), í byrjun leiksins er hálf leiðinlegt frá höfundarins hendi. Séu setningarnar illa sagðar eða leikendur kunna miður vel, eins og kom hér fyrir, þá er sá kafli leikritsins drepleiðinlegur. Sönglögin í leik þessum eru ekki öll sem bezt, sum þunglamaleg og illa sönghæf. Yfirleitt var meðferð hlutverkanna mjög sæmileg. En bezt mun fólki hafa þótt takast hjá þeim Winter, (St. Árnasyni), frú Sommer, (Ágústu Eymundsdóttur), Stínu (Ragnheiði Jónsdóttur, Brautarholti) og Pétri, (Árna Árnasyni), enda eru hlutverk þeirra skemmtilegust. Þær glompur, sem á urðu í leiknum, má eflaust kenna því, að sumir leikendurnir kunnu ekki hlutverk sín vel, en þetta lagast líklega strax eftir næsta skipti.
Seinni hluti leikritsins er skemmtilegur og allt er gott, þegar endirinn allra beztur verður. Ættu menn að sjá leikrit þetta. Um leið og þeir styðja gott málefni, fá þeir sér hálfs annars tíma hlátursstund.“ Víðir 23/4 1929.

27. apríl 1929 segir svo í „Víði“:
„Það má meira en merkilegt heita, að í svo stórum bæ, sem Vestm.eyjum, skuli ekki vera til starfandi Leikfélag. Kvenfél. Líkn hefur í vetur sýnt tvö leikrit og var aðsókn að þeim yfirleitt góð. Þar af sést, að fólk vill sjá sjónleiki. Kvenfélagið á þakkir skyldar fyrir þá viðleitni og væri óskandi, að það gæti haldið áfram þeirri starfsemi. Það er ekki langt síðan að hér var til leikfélag, þ.e. „Leikfélag Vestm.eyja“. Ég hygg, að það hafi staðið sig vel efnalega og verklega, því hér voru og eru enn allgóðir leikarar, þótt sumir séu farnir héðan og aðrir, sem ekki mundu aftur fara að gefa sig að slíkri aukavinnu. Einhverjir mundu þó verða til þess. Húsrúm er að vísu slæmt og verður í vali leikrita að taka tillit til þess. En svona hefur það verið undanfarin ár og gekk nokkurn veginn vel enda þótt með köflum væri það erfitt. Það ætti því að vera hægt að notast við húsplássið enn eða þartil annað betra býðst, sem hlýtur að verða innan tíðar, ef einhvert félag tæki að sér framkvæmdina.
L.V. mun sennil. ekki hafa hætt störfum vegna húsnæðisins heldur af hinu, að menn hafa ekki getað gefið sig nægilega vel að leikstarfinu vegna anna, og kannske líka vegna stjórnleysis í félaginu. Til eru menn hér í bæ, sem stjórnað gætu leikfélagi af reynslu og þekkingu, ef þeir fengjust til þess.
Að mínu áliti er engum betur fært að sigrast á öllum erfiðleikum, sem stofnun leikfélags eru samfara, en Kvenfél. Líkn, eða einstökum meðlimum þess.
Sönnun þess höfum við þegar séð.“
Þetta voru orð Víðis.
Það verður ekki annað séð af ofanrituðu, en heldur muni hafa verið dauft yfir starfsemi L.V. þessi árin og verður ekki vart við nein lífsmörk með því. Aðeins Kvenfélagið heldur uppi leikstarfsemi.

Um Bjarna Björnsson, leikara og gamanvísnasöngvara


Skömmu eftir að Bjarni Björnsson fór frá Eyjum, fór hann til Ameríku. Þangað var hann kominn árið 1917 og er þá í Canada. Ferðaðist hann víða um Íslendingabyggðir og skemmti með leiklist og gamanvísnasöng. Þá má geta þess, að þar komst hann í samband við frú Stefaníu Guðmundsdóttur, leikkonu. Komu þau ásamt fleiri Íslendingum vestra upp leikritinu „Kinnarhvolssystrum“, „Ímyndunarveikinni“ og „Heimilinu“. Þóttu þessar leiksýningar með ágætum og vöktu almenna ánægju. Það mun hafa verið um 1920 að þessi leikrit voru sýnd vestra og var frú Stefanía þar líklega árlangt eða lengur á vegum ísl. félagasamtaka í Winnipeg. Með Stefaníu voru þá 3 börn hennar, þau Anna, Emilía og Óskar. Ferðaðist leikflokkur þessi víða um vestra og skemmti með leik sínum. Hlaut frú Stefanía mikið lof fyrir leik sinn í Kinnarhvolssystrum. Sögðu margir og blöðin vestra að „leikur hennar var með eindæmum góður og Bjarni hreinasti snillingur í sviðssetning og leik.“ Minntist margur þess, „að varla hefur hér sézt meiri snilldarmeðferð ísl. leikrita fyrr.“
Bjarni ávann sér vestra ágæta dóma í leiklist og söng. Má segja að för hans vestur yfir hafið hafi verið hin mesta frægðarför.
Hann varð og hérlendis þjóðfrægur maður fyrir leik og gamanvísnasöng, sem enginn hefur fram að þessum tíma getað jafnast á við að neinu leyti. Vísur hans urðu landsþekktar svo mjög, að hvert mannsbarn kunni þær utanað og varð aldrei leitt á að heyra Bjarna syngja þær. Allir muna víst eftir vísunum um hana „Nikkolínu“ eftir Ingimund (þ.e. Kr. Linnet), og vísunum um hundinn, sem gerðist nærgöngull við Bjarna, er hann fór út að labba sér til gamans, en þetta er upphafið að þeim:

Hafið þið kanske heyrt það fyr
um hundinn og hann Bjarna? ég spyr.
Það er nú saga að segja frá;
setjist þið niður og hlustið á.
Á kvöldin þegar Bjarni er
úti að ganga og skemmta sér
og horfa fríðu fljóðin á
og fleira, sem ei nefna má.


Og svo komu Áramótavísur Halldórs Gunnlaugssonar, sem þá og enn gera mikla lukku meðal áheyrenda, þ.e.a.s., ef Bjarni syngur þær (það var tekið upp á plötu og hefur oft verið leikið í Útvarpinu):

Um aldamótin ekki neitt eg segi
að einhvern tíma komi að þeim degi.


Svona mætti telja í það óendanlega, vísur, sem stöðugt juku hróður Bjarna, er þær heyrðust og heyrast.
Þegar Bjarni söng gamanvísur, var hlegið af hjartans lyst, því að bæði söng hann skemmtilega og lék um leið. Hann var leiklistarmaður ágætur og snjall leiðbeinandi á leiksviði, svo að af var látið.
Líklega mun Bjarni Björnsson vera fyrsti Íslendingurinn, sem gerði leiklistina að lífsstarfi. Hann byrjaði það starf snemma og ungur að aldri og vann þess utan að ýmsu, er að leikstarfseminni laut. Hann var t.d. lengi leiktjaldamálari í Reykjavík og tók við því starfi af Guðmundi Magnússyni skáldi (Jóni Trausta). Hér í Eyjum var hann einnig mjög mikið við leiktjaldamálun og málaði m.a., sem fyrr segir, leiktjaldið í Gúttó, þ.e. sviðstjaldið gamla. Það var steingrátt að lit með stórri mynd af Heimakletti og umhverfi. Þá málaði hann og sviðstjöldin í leikritinu „Gestir í sumarleyfi“ ásamt Engilbert Gíslasyni. Voru það fegurstu leiktjöld, er fram að þeim tíma höfðu sézt í Eyjum.
Bjarni var mjög víðförull um Ísland enda landsþekktur maður fyrir leik sinn og gamanvísur. Eftir að hann fór héðan til Reykjavíkur 1917, átti hann oft leið til Eyja í stuttar heimsóknir, söng þá og lék og var ávallt fagnað innilega.
Meðan Bjarni var í USA, komst hann til Hollywood og lék þar a.m.k. í einni kvikmynd, sem sýnd var síðar í Reykjavík. En leið hans lá þó aftur heim til Íslands.
Bjarni kvæntist Torfhildi Dalhoff, dóttur Dalhoffs gullsmiðs. Þau eignuðust 2 dætur. Þau hjónin komu nokkrum sinnum til Eyja og héldu hér skemmtanir. Þá lék frúin undir söng hans, enda var hún góður píanóleikari. — Bjarni lézt í Reykjavík 26. febrúar 1942. Þar var skarð fyrir skildi orðið! —
Mér fannst ekki hægt að minnast á leikstarfsemi hér nema minnast Bjarna Björnssonar eitthvað lítillega. Þótt hann væri ekki Eyjamaður, lagði hann svo mikið starf í þágu leikstarfseminnar, að líkja má við störf Halldórs Gunnlaugssonar og Ólafs Ottesen. Þau störf verða seint fullþökkuð.

Á.Á.

Til baka








Þessi mynd er af leikendum í „Apakettinum“ árið 1922. — Frá vinstri: Filippus G. Árnason, Ásgarði; Frú Margrét J. Johnsen, Suðurgarði: Guðjón Jósefsson frá Fagurlyst: Árni Gíslason frá Stakkagerði: Frú Ágústa Eymundsdóttir, Hóli. — Sjá bls. 62 hér í ritinu.








Leikendur í leikritinu Ævintýrið í Rósinborgargarði 1928-1929. Sjá bls. 74 hér í ritinu.