Blik 1965/Leiklistarsaga Vestmannaeyja, 2. kafli, I. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 11. september 2010 kl. 13:19 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 11. september 2010 kl. 13:19 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1965




ÁRNI ÁRNASON:


ctr
(1. hluti)


Vorið 1962 birti Blik 1. kafla af leiklistarsögu Vestmannaeyja, sem Árni heit. Árnason, símritari, skrifaði á síðustu árum sínum. Sá kafli fjallaði um tímabilið 1852 er talið er að leikstarfsemi hefjist hér í Eyjum, til ársins 1910, en þá var Leikfélag Vestmannaeyja stofnað.

Leikfélag Vestmannaeyja (L.V.) stofnað


Að loknum leik á „Ævintýri á gönguför“ snemma vetrar 1910 fyrir Kvenfélagið Líkn, kom leikfólkinu saman um að stofna hér fast leikfélag.

Halldór Gunnlaugsson, læknir.

Að þeirri hugmynd munu hafa staðið Halldór læknir Gunnlaugsson, A.L. Petersen og frú, Guðjón í Fagurlyst og Guðjón á Strandbergi, Ólafur Ottesen, Árni Gíslason, Valdimar Ottesen o.fl. —Undirtektir manna voru góðar, þar eð fólkið allt unni leiklist af heilum hug. Ekki var verið að spyrja, hvað fengist fyrir þetta og hitt, heldur leikið sjálfum sér til ánægju og bæjarbúum til skemmtunar.

Valdimar Ottesen.

Þetta með stofnun leikfélagsins varð meira en umtalið, því að um sumarið, eða 22. ágúst 1910, voru félagslögin samþykkt á stofnfundinum. Þann fund sátu a.m.k. eftirtaldir leikarar og þá kosin fyrsta stjórn (frásögn Georgs Gíslasonar):
Frú Ágústa Eymundsdóttir, forstöðukona Kvenfélagsins Líknar, sem var kosin formaður; frú Guðbjörg Gísladóttir, Símstöðinni, þáverandi kona A.L. Petersen; Guðrún Þorgrímsdóttir, Lágafelli, fyrrum kona Edv. Frederiksen; Aage L.Petersen, símstöðvarstjóri, sem kosinn var gjaldkeri félagsins; Árni Gíslason í Stakkagerði, sem kosinn var ritari félagsins; Ólafur Ottesen, verzlunarmaður, kosinn endurskoðandi; Valdimar Ottesen, kaupmaður, varaformaður; Guðjón Guðjónsson, Strandbergi (Sjólyst); Guðjón Jósefsson, Fagurlyst, meðstjórnandi, og Kristján Gíslason, Hóli. Fræðari minn, Georg, var ekki viss um, að stofnendur hefðu verið fleiri, en taldi þó, að þeir hefðu getað verið það. Ekki vissi hann heldur gjörla, hvort Halldór læknir var félagsmaður, hélt helzt ekki, enda þótt leyfilegt væri samkv. lögum félagsins að veita félagsmönnum undanþágu frá skyldustörfum við félagið, ef sérsraklega stæði á. Halldór læknir var hins vegar ráðunautur félagsins og leiðbeinandi um margt, eftir því sem sívaxandi læknisstörf hans leyfðu. A.L. Petersen var einn mesti starfskraftur félagsins bœði á sviði og utan þess. Hann var alltaf sívinnandi að heill félagsins.
Félagslögin, er stofnfundurinn 22. ágúst 1910 samþykkti, voru þannig¹:
¹ Lögin eru hér birt eins og þau voru upphaflega fjölrituð og afhent hverjum félagsmanni. Þetta eru einu félagslögin, sem til eru, enda þótt þau séu úrelt fyrir löngu og ekkert eftir þeim farið nú orðið. Ég fékk þau árið 1922, er ég gekk í félagið, og gaf eintakið aftur L.V. 1942. Á.Á.

1. gr.

Nafn félagsins er „Leikfélag Vestmannaeyja“.

2. gr.

Tilgangur félagsins er að efla leikmennt í Vestmannaeyjum.

3. gr.

Upptöku í félagið geta aðeins þeir karlar og konur fengið, sem vilja skuldbinda sig til þess að leika þau hlutverk, sem þar til skipuð nefnd úthlutar þeim. Þó má veita undanþágu frá þessu með samþykki allra félagsmanna. Eftir að félagið er stofnað og lög þess samþykkt, geta nýir félagsmenn ekki fengið inngöngu í það nema 2/3 félagsmanna samþykki það á fundi. Þó eru þeir skuldbundnir, svo framarlega sem þess er krafizt, að sýna hæfileika sína 3ja manna nefnd, sem þá ræður úrslitum (sbr. 6. gr. fimmta lið).

4. gr.

Árstillag félagsmanna er 1 kr., sem borgist fyrirfram.

5. gr.

Embættismenn félagsins eru formaður, gjaldkeri og skrifari, kosnir til eins árs í senn á aðalfundi. Þeir hafa á hendi alla framkvæmd að undanteknu því, sem falið er sérstökum nefndum. Þó er æðsta vald félagsins samþykktir á lögmætum fundum (sbr. 8. gr.).

6. gr.

Tveir aðalfundir skulu haldnir á ári, þ.e. í ágúst og í marz. Á ágústfundi fer fram:
Formaður leggur fram yfirlit yfir gerðir stjórnarinnar frá síðasta aðalfundi.
Gjaldkeri leggur fram endurskoðaðan reikning fyrir sama tímabil.
Stjórn kosin til eins árs svo og tveir menn til vara.
Tveir endurskoðunarmenn kosnir til eins árs.
Þriggja manna nefnd kosin til eins árs til þess að velja leikrit, skipa í hlutverk og reyna nýja félagsmenn.
Þriggja manna nefnd kosin til eins árs til þess að skipta milli þeirra, sem leika, 3/4 af ágóðanum (1/4 leggist í sjóð félagsins) og afhendi nefndin gjaldkera ákvörðun sína fyrir báða aðalfundi, en gjaldkeri borgar leikendum.
Á marz-aðalfundi fer fram það, sem tekið er fram í grein 1 og 2 undir ágúst-aðalfundi.

7. gr.

Til aukafundar skal boða, ef 1/3 meðlima óskar þess, og skal hann haldinn svo fljótt sem unnt er.

8. gr.

Til funda skal boðað með auglýsingu eða kalli. Lögmætur er fundur, ef helmingur meðlima mætir. Þó getur lagabreyting ekki farið fram nema 2/3 félagsmanna greiði atkvæði með henni.

9. gr.

Enginn félagsmaður má leika utan félags nema með fundar samþykki (sbr. 8. gr.).

10. gr.

Enginn félagsmaður má á nokkurn hátt skaða félagið með framkomu sinni. Geri hann það að áliti stjórnarinnar, verður brotið dæmt samkvæmt 12. gr.

11. gr.

Úrsagnir úr félaginu sendist skriflega formanni, þó getur enginn sagt sig úr félaginu, meðan hann hefur hlutverk á hendi.

12. gr.

Brot á lögum þessum varðar sektum, sem ákveðast af stjórninni, ef hún leggur málið fyrir fund, sem þá ákvarðar sektirnar eða víkur viðkomandi úr félaginu. Þó getur stjórnin ekki sektað menn hærra en um 10 kr.

13. gr.

Félaginu verður aðeins slitið á lögmætum fundi, sem sóttur er af minnst 4/5 félagsmanna og því aðeins að 3/4 félagsmanna samþykki. Sé svo, verða allar bækur og skjöl félagsins eign „Sýslubókasafns Vestmannaeyja“, en allar aðrar eignir félagsins falla til „Ekknasjóðs Vestmannaeyja“.

Nokkru eftir stofnfundinn gengu þessir í félagið:
Steingrímur Magnússon, Miðhúsum, Emelía Ottesen, Georg Gíslason, Ásta Ottesen, Eyjólfur Ottesen o.fl. Ekki hafði það oft átt sér stað, að sjónleikir væru sýndir hér á þjóðhátíðinni, en árið 1912 eða 1913 kom hingað frú Stefanía Guðmundsdóttir, leikkona, og léku þau Ólafur Ottesen leikritið „Hinrek og Pernella“ (einþáttungur eftir Baptisti) í Dalnum.
Hin síðari ár hefur einstöku sinnum verið leikið á þjóðhátíð, en ekki er þó mikið um það, enda erfitt að koma fyrir útileiksviði í Dalnum.
Þegar leikflokkar hafa komið frá Reykjavík um þetta leyti árs, hefur ávallt verið leikið í samkomuhúsum bæjarins. Í fyrsta sinn mun hafa verið sýndur sjónleikur í Dalnum á þjóðhátíð 1911. Voru þá sýnd tvö smáleikrit, er nefndust „Leiksoppurinn“ og „Seint fyrnast fornar ástir“. Var þá leiksviði komið fyrir uppi á svonefndum Herjólfshaug og leiktjöld höfð á þrjá vegu, en áhorfendur voru í brekkunni þar í kring. Þótti þessi skemmtun að vonum góð og nýstárleg. (Sbr. Ísafold 16. ágúst 1911). Ekkert er um það getið, hverjir léku, en gera má ráð fyrir, að þar hafi kvenfélagskonur verið að verki með aðstoð einhverra „kvenhollra“ aðstoðarmanna, þareð Kvenfélagið Líkn stóð fyrir þjóðhátíðinni þá. Einnig þótti þá í frásögur færandi, að þessa þjóðhátíð setti frú Jóhanna Árnadóttir í Stakkagerði. Hún var þá forstöðukona Kvenfélagsins og flutti snjalla setningarræðu. Sennilega er það í eina skiptið, sem kvenmaður hefur sett þjóðhátíð Vestmannaeyja. Þess vegna finnst mér rettlætanlegt að láta þessa getið hér, þótt það komi ekki leikfélagsstarfseminni beint við.
Eftir að L.V. var stofnað, komst leikstarfsemin hér í fastari skorður en verið hafði áður. Fyrr höfðu menn og konur aðeins talað sig saman um að leika eitthvað, þ.e. þeir, sem áhuga höfðu fyrir þeirri list. Var svo leikið eftir því sem aðstæður leyfðu. Það er furðulegt, hve miklu frumkvöðlar leiklistar hér hafa getað afkastað, þrátt fyrir mikla erfiðleika á margan hátt. Mann undrar áhuga þeirra og leikhússgesta fyrir þessari listgrein, og svo það, að fólkið gat séð af peningum til þess að njóta þessarar ánægju og fræðslu, svo sára lítið sem hér var af peningum í umferð fyrr á tímum með öllum almenningi.
Að stofnfundi L.V. loknum var þegar hafizt handa um að setja nýtt leikrit á svið. Var þá þegar samþykkt að fara þess á leit við Kvenfélagið Líkn, að það leigði Leikfélaginu leiktjöld frá Apakettinum og Ævintýrinu, því að starfsemin skyldi hefjast með leikritinu „Ævintýri á gönguför“ eftir Hostrup þá um haustið. Á fundi Kvenfélagsins var samþykkt að verða við þessum tilmælum Leikfélagsins gegn því skilyrði, að það héldi leiktjöldunum við og hefði þau ávallt tiltæk og í góðu standi, svo að Kvenfélagið hefði aðgang að þeim, ef það æskti að nota þau. Þetta varð að samkomulagi milli félaganna.
„Ævintýrið“ var svo sýnt seint um haustið 1910 við ágæta aðsókn.
Löngu eftir þessar sýningar L.V. á „Ævintýri á gönguför“ og „Apakettinum“, lifðu á vörum bæjarbúa söngvar úr nefndum leikritum. Voru þeir sungnir alls staðar, í tíma og ótíma. Enn í dag heyrir maður lögin hljóma í eyrum sér, sígild og fögur, því að enn er a.m.k. „Ævintýrið“ á ferðinni þótt „Apakötturinn“ sé það sjaldnar, og minna menn eitthvað svo notalega á þessi fyrstu verkefni L.V. Lögin minna á persónurnar, sem hinir liðnu leiklistarmeistarar Eyjanna mótuðu óafmáanlega í hugskot fólksins. Ég persónulega minnist bezt úr „Ævintýrinu“ þess atriðis, er Ólafur Ottesen söng, ásamt Guðjóni Jósefssyni, á nætursviðinu þegar Skrifta-Hans ætlaði að smeygja sér gegnum gluggann:

Hér er enginn maður,
Hans minn, vertu hraður,
allir blunda rótt o.s.frv.

Og svo söngur Skrifta-Hans um kærustuna, sem hann ætlar að eignast:

Ég vil fá mér kærustu
sem allra allra fyrst,
en ekki verður gott að finna hana ...

Þeir Guðjón og Ólafur sungu báðir mjög vel, svo eðlilega og nákvæmlega í samræmi við atriði leiksins og persónurnar, að söngur þeirra hlaut að þrengja sér innst í hug áheyrandans og varðveitast þar um áraraðir.
Þá var hann og ekkert viðvaningslegur söngur ungu stúlknanna í „Ævintýrinu“:

Nei, sko frænda, fljótt hann gekk;
fylgjast með honum gestir tveir ...

En þegar Vermundur söng inn í, fékk fólk ósjálfrátt óbeit á persónunni, sem Árni Gíslason túlkaði svo meistaralega vel. Þetta hreif fólkið, og þegar svo Krans (þ.e. Petersen), birtist á sviðinu og söng, þá var tólfunum fyrst kastað. Þetta var allt svo dásamlegt, ógleymanlegt. Lögin voru svo fögur og auðlærð, að allir kunnu þau strax eftir fyrstu og aðra sýningu. Það skal tekið fram, að fjöldi fólks fór tvisvar og jafnvel þrisvar til að sjá t.d. „Ævintýrið“. Þess voru jafnvel dæmi, að þegar lokasöngur „Ævintýrsins“ var sunginn, tóku áheyrendur fram í sal undir og sungu með, svo að allt var einn syngjandi lokasöngur: „Vort Ævintýri er á enda leikið senn“. Eldra fólk í Eyjum hafði þá á fyrstu árum L.V. vart lifað yndislegri skemmtistundir. Áttræðir menn muna enn þessar frumsýningar, sem þær hefðu farið fram í gær. Þær eru þeim með öllu ógleymanlegar. Af viðtali við slíka menn er ofanritað samið.
Georg Gíslason starfaði við þessa sýningu, var hvíslari, og mundi vel þessa frumsýningu L.V.
Þar með var starfsemi L.V. hafin, — starfsemi sem allt til þessa dags hefur stuðlað að því að kynna Eyjamönnum um hálfrar aldar skeið leiklistarmenningu, sem Eyjafólk hefur ávallt kunnað að meta frá því leiklistariðkun hófst í Eyjum um 1850. Miklu meira starf en margur gerir sér grein fyrir, felst í því að iðka leiklist í Vestmannaeyjum. Öll sú fyrirhöfn verður aldrei fullþökkuð. Hér reyndust oft og tíðum björg á veginum, miklir erfiðleikar við að stríða á ýmsa lund, en ódrepandi vilji og áhugi, fórnfýsi og elja fólksins, sem að leiklistinni stóð, sigraðist á öllum erfiðleikunum. Leikhússgestir létu heldur aldrei standa á sér og léttu þannig fjárhagslega afkomu Leikfélagsins og hvöttu til starfa og strits. Leikendur fundu það jafnan, að hjarta fólksins sló með og ekki var stritað fyrir gýg.
Þeir minnast einnig með hlýju söngvanna úr „Apakettinum“. Þegar t.d. Óli gamli, (þ.e. Guðjón Jósefsson), kom inn á sviðið með fullt fangið af pökkum og pinklum og söng:

Sem áburðarhestur loks hingað kem ég þá,
og hlaðinn af bögglum ég er,
en jómfrúin lagði mig allt þetta á,
svo engan þrótt í kroppnum ég ber.
En þarna situr siðug meyjan, sé ég ei rétt?
Og hún svarar:
Jú, sæll vertu, Óli minn kær ...

Í þessu atriði voru það Guðjón og Guðbjörg Gísladóttir sérlega skemmtileg. Seinna söng svo Óli gamli um apakött húsbóndans, viðskipti gömlu maddömunnar og apaköttinn:

Hún potaði í hann kústinum
og strax hann líka lá,
svo líða fannst mér yfir mig þá ...

Eftir stofnun L.V. stóð ekki á framkvæmdum. Hvert leikritið eftir annað var sýnt við miklar og góðar undirtektir leikhússgesta.
„Ævintýrið“ var einnig sýnt um áramótin 1912, þó að það væri sýnt fyrir tveim árum eða 1910.
Í febrúar 1912 sýndu L.V. leikritið „Apaköttinn“ eftir J.L. Heiberg, sem sýnt var 1910. Var leikritið enn sýnt við mikla aðsókn. — Óhætt er að fullyrða, að sýningin tókst vel, a.m.k. á þess tíma mælikvarða og með tilliti til mjög erfiðra aðstæðna.

Hlutverkaskipanin var þessi:
Iversen: Árni Gíslason, Stakkagerði.
Frú Sörensen: Ágústa Eymundsdóttir, Hóli.
Frk. Margarethe: Guðbjörg Gísladóttir, þá á Símstöðinni.
Hr. Lindal, unga manninn: Kristján Gíslason, Hóli.
Óli gamli: Guðjón Jósefsson, Fagurlyst.

Guðjón Jósefsson.

Í hlutverki Óla gamla sýndi Guðjón Jósefsson, hvílíkur snillingur hann var að leika. Má hiklaust fullyrða, að aldrei hafi þetta hlutverk verið betur af hendi leyst hér í bæ að öðrum ólöstuðum. Var leikur hans og persóna, er hann skóp í meðferð hlutverksins, alveg einstæð. Söngur hans, kímnin, hreyfingarnar og gervið, — allt með ágætum. Í hlutverki Óla gamla verður Guðjón Jósefsson öllum leiklistaraðdáendum, er hann sáu, ódauðlegur.
Ágústa skilaði einnig sínu hlutverki með miklum ágætum. Hygg ég, að þar hafi frúin skilað sínu bezta hlutverki, enda þótt segja megi með sanni, að hún hafi skilað þeim mörgum vel á sínum langa leiklistarferli.
Þau Kristján og Guðbjörg, systkinin frá Hlíðarhúsum, voru þarna í essinu sínu, létt og kát, ung og fríð, eins og hlutverk þeirra kröfðust.
Ekki má heldur gleyma hinum fagra söng þeirra. Þau voru í fám orðum sagt glæsileg í hlutverkum sínum.
Um Árna Gíslason er það að segja, að í hlutverki Iversens var hann aðdáunarverður. Margir héldu, að hann gæti lítið sem ekkert sungið. En hvernig fór? Í þessu hlutverki sannaðist það, að hann gat sungið laglega og í þetta sinn mjög laglega og í fullkomnu samræmi við orð og athafnir hlutverksins. Svo var það t.d., þegar hann söng um apann sinn:

Þegar á morgnana á fætur ég fer,
fyrst af öllu hugsa ég um minn apa.

Já, söngur hans var merkilega góður. Þegar lagið gekk á of háum tónum fyrir rödd hans, þá raulaði hann melodium hálfgrátandi, svo að áheyrendurnir urðu ekkert varir við erfiðleika hans að syngja lagið.
Þó komu enn betur í ljós leikarahæfileikar Árna Gíslasonar, er hann lék prófessor Moriarty í leikritinu Sherlock Holmes eftir W. Gillette. Það leikrit var alltaf nefnt hér „Týndi böggullinn“. Þar sýndi Árni meistaralegan leik, sem ég efast um, að aðrir hefðu gert betur, þó að lærðir væru í listinni. Það sagði líka Bjarni Björnsson, sem leikið hafði sjálfur aðalhlutverkið í Sherlock Holmes í Reykjavík. Bjarni Björnsson vissi, hvað hann söng í þessum efnum, sem í gamanvísnasöngnum. Að þessu leikriti kem ég annars nánar síðar.
Samtímis „Apakettinum“ var leikið hér leikritið „Leikkonan“, sem var einþáttungur. Ekki er mér kunnugt um, hverjir voru þar að leik.
Leikrit þessi voru svo sýnd aftur nokkru fyrir vertíðarlokin 1912.
Um áramótin 1911—1912 var haldin kvöldskemmtun í Gúttó. Þar voru sýndir þrír leikþættir og svo dansað á eftir. Þætti mér trúlegast, að Kvenfélagið Líkn hafi verið þarna að störfum. Ekki eru neinir leikendur tilnefndir eða hvaða leikrit hafi þá verið sýnd, svo að um þetta verður ekkert sagt með vissu. Að vísu koma fleiri aðilar til greina, sem gætu hafa sýnt þarna þessa leiki, t.d. Stúkan Bára nr. 2, sem hafði fjölmargar leiksýningar. En ótrúlegt þykir mér, að goodtemplararnir hafi verið með þrjá einþáttunga á einni kvöldskemmtun og síðan haft dans á eftir. Einnig er ekki trúlegt, að Leikfélagið hafi verið þarna að verki, því að þeir höfðu mjög sjaldan dans á eftir sýningum sínum, enda var L.V. yfirleitt með stærri verkefni en einþáttunga.
Þessarar skemmtunar er getið í dagbókum Brydeverzlunarinnar, en engar upplýsingar þar um skemmtendur eða skemmtiatriðin.
Þann 25. febrúar 1912 er aftur leikið og þá sennilega „Apinn“ og „Leikkonan“ og líklega eru það þessir leikir, sem eru endurteknir 7. apríl s.á., en getið er um leiksýningu þá.
Á fyrstu starfsárum L.V. urðu leikritin mörg, sem það tók til meðferðar, þó nokkuð fleiri en þegar hafa verið nefnd. Má þar á meðal nefna „Villidýrið“ eftir E. Bögh, sem sýnt var í byrjun árs 1913. Þá léku Ólafur Ottesen, Kristján Gíslason, Guðbjörg Gísladóttir og Ágústa Eymundsdóttir. Þá var einnig sýnt leikritið „Nei-ið“ eftir Heiberg. Þá léku þau Petersen, Guðbjörg, Guðjón Guðjónsson og Kristján. Það er danskur gleðileikur, sem hér var oftar nefndur „Hringjarinn frá Grensaa“ eftir einni aðalpersónu hans, sem Petersen lék af sinni alkunnu snilld. Hann mótaði þá persónu hér í bænum í augum margra. Til þess að fólki geðjaðist að „Hringjaranum“ seinni árin, varð sá, er hlutverkið hafði, að leika Petersen í því. Enginn hefur náð hylli Eyjabúa í hlutverki þessu eins og Petersen nema Kristinn Ástgeirsson frá Litlabæ. Hann þótti leika „Hringjarann“ afbragðs vel, enda var hann einn af færustu leikurum þessa bæjar og næstum sama, hvert hlutverkið var.
Þegar þessi leikrit „höfðu gengið sér til húðar“ í bráð, setti L.V. á svið leikritið „Heimilið“ eftir Sudermann. Það hefur líklega verið í febr.—marz 1913. Fólki fannst það gott leikrit, en ef til vill helzt til of alvarlegs eðlis. Þó gekk það allvel og þótti vel takast hjá sumum leikendunum og öðrum ágætlega, t.d. Ólafi Ottesen í Schwartse, Guðjóni Jósefssyni í prestinum, Árna Gíslasyni í Dr. Keller, Guðbjörgu í Mögðu, Petersen í hershöfðingjanum og Ágústu í dómarafrúnni.
Um haustið voru svo „Hermannaglettur Hostrups leiknar ásamt „Nei-inu“. Urðu tvær eða þrjár sýningar þá á þessum leikritum og þótti fólki öllu betur takast en í fyrri skiptin.
Síðar um haustið lék Kvenfélagið leikritið „Lifandi húsgögn“, sprenghlægilegan gamanleik, sem þótti takast vel.
Síðla haustsins var svo „Skugga-Sveinn“ leikinn af fólki utan Leikfélagsins. Leikritið var sýnt í Goodtemplarahúsinu. Mikil aðsókn var að leik þessum að venju og honum fagnað vel af öllum almenningi. Það er eins og það sé ávallt nýtt í augum fólksins, og það þreytist aldrei á að sjá „Gamla Svein“. Einstaka maður var þó ekki ánægður með hlutverkaskipanina, en yfirleitt fékk leikurinn góða dóma.
Samkv. dagbókum Brydeverzlunar var leikritið frumsýnt 28. nóv. 1913 og hlutverkaskipan þannig, eftir því sem frekast verður vitað nú:

Skuggasveinn: Guðmundur Felixson
Lárentzius: Jóhann Jónsson á Brekku
Ásta: Jóhanna, er síðar varð frú Linnet
Haraldur: Sigurður Jónsson, skósmiður
Sigurður í Dal: Helgi Guðmundsson í Dalbæ
Ögmundur: Ólafur Sigurðsson á Strönd
Ketill skrækur: Einar Einarsson frá Norðurgarði
Manga: Jónína Jónsdóttir frá Steinholti
Smala-Gvendur: Guðjón Helgason í Dalbæ
Jón sterki: Jón Hafliðason, Bergstöðum
Grasa-Gudda: Guðlaugur Hansson, Fögruvöllum
Grímur stúdent: Guðjón Guðjónsson
Helgi stúdent: Guðl. Hansson
Gran? stúdent: Guðjón Helgason, Dalbæ
Geir stúdent: Óvíst
Galdrahéðinn: Guðm. Felixson
Hróbjartur: Sig. Jónsson, skósmiður.

Jóhanna fékk ágæta dóma fyrir leik sinn í hlutverki Ástu, söng mjög laglega, framsögn ágæt og framkoma öll á sviðinu mjög að skapi almennings. Ekki þótti Sigurður að sama skapi góður í Haraldi. Fannst sumum hann helzt til tilgerðarsamur í framkomu, of „mikið á lofti“ og söngur hans ekki vel fágaður, helzt hrjúfur. Hann náði ekki tökum á hlutverkinu svo vel væri, að eldra fólk segir mér. Ólafur á Strönd skilaði hlutverki Ögmundar útilegumanns með sömu snilli og áður og Einar Einarsson frábærlega góður í Katli.

Helgi Guðmundsson, Dalbæ.

Sigurður bóndi í Dal var leikinn af Helga í Dalbæ Guðmundssyni og mun sú persóna ekki hafa verið jafn vel leikin hér áður nema ef vera skyldi af Einari Jónssyni mormóna. Helgi var fyrirmannlegur og stórbóndalegur á sviðinu, sýndi ótvírætt í fasi og málróm, að þar var lögréttumaður og höfðingi. Málfar hans og framsögnin var prýðileg og persónan öll geðþekk og fólki eftirminnileg, túlkun á stórbónda og göfugmenni. Guðjón í Dalbæ, sonur Helga, lék Smala-Gvend ágætlega. Sérstaklega átti hann góðan leik á grasafjallinu og síðar með Ástu í Dal, er hann kom inn titrandi á öllum beinum vegna hræðslu við útilegumennina.

Guðlaugur Hansson.

Guðlaugur Hansson lék Grasa-Guddu af sinni alkunnu snilld, og þá ekki sízt á grasafjallinu. Má vissulega telja Guðlaug til snjöllustu leikara þessa bæjar og til þeirra er albezt hafa skilað hlutverki Guddu gömlu. Nú skeði það, að Jóhann á Brekku lék Larentzius sýslumann í stað Guðjóns bróður síns á Oddsstöðum. Jóhann var sérstaklega fjölhæfur leikari, en ekki fannst fólki hann ná eins góðum tökum á sýslumanninum eins og Guðjón. Jóhann virðist helzt, að mér skilst af frásögn manna, hafa skort myndugleik persónunnar, þótt hann hins vegar væri glæsilegur á sviðinu. Þetta kom bezt fram í dómaraatriðinu yfir útilegumönnunum. Þar var eins og hann skorti eitthvað til þess að vera sannfærandi sem yfirvald, einmitt það, sem Guðjón bróðir hans lýsti svo vel með sínum leik í „sýslumanninum“. En með stúdentunum var Jóhann hreinasta afbragð og í atriðinu með Skuggasveini í næturheimsókn hans. Jónína skilaði Möngu ágætlega. Hún söng laglega, hreyfingar hennar liprar og líflegar. Jón Hafliðason fór með hlutverk nafna síns sterka svo vel, að grobbið skein út úr hverri hans hreyfingu og látbragði. Var tal hans allt hnitmiðað við persónuna. Einmitt eins og Jón skilaði hlutverki sínu og túlkaði þessa persónu, þannig fannst mér að Matth. Joch. mundi hafa hugsað sér hana. Yfirleitt ber öllum saman um, að Guðm. Felixson hafi ekki náð þeim tökum á hlutverki „Sveins gamla“, sem talizt gætu góð eða til að fullvissa mann um, að þarna væri sannur útilegumaður, fullhugi og hörkutól, vopnfimur, sterkur og illur viðureignar, mannvera, sem raunverulega væri á móti öllu mannfélaginu, jafnvel sínum eigin félögum. Þetta er sagt að Jóni Filippussyni hafi tekizt mjög vel að túlka á sviðinu fyrrum eða 1898, er hann lék Skuggasvein! Fjölmargir Eyjamenn minnast Jóns, sem þess bezta er þeir hafa séð á sviði í þessu vandasama hlutverki.
Stúdentana léku þeir Guðjón í Sjólyst og Guðl. Hansson, báðir hressilega, og Galdra-Héðinn lék Guðm. Felixson. Þar var hann öllu betri en í Skugga-Sveini, vildi þó ýkja galdramennskuframkomuna um of. Hróbjart lék Sigurður Jónsson, skósmiður.
Um miðjan des. 1913 og um áramótin lék L.V. leikrit er nefndist „Malarakonan fagra“. Hvergi hef ég getað fundið hlutverkaskipun í þessu leikriti, sem er eftir Duveycier, en gera má fyllilega ráð fyrir, að þar hafi leikið Ágústa, Ólafur, Petersen og Guðbjörg. Um þetta verður þó ekkert sagt með vissu.
Nokkru síðar sýndi svo L.V. „Sagt upp vistinni“, og „Varaskeifuna“. Er það fyrrnefnda eftir E. Möller, en hitt eftir E. Bögh. Voru þau sýnd sem undanfari hins stóra verkefnis félagsins, þ.e. Sherlock Holmes.

Leikararnir Bjarni Björnsson, gamanvísnasöngvari, og Ólafur Ottesen (sitjandi).

Þá kom hingað Bjarni Björnsson leikari úr Reykjavík síðla haustsins og sviðsetti þetta mikla leikrit og stjórnaði því. Hann hafði sjálfur leikið eitt aðalhlutverkið í þessu leikriti þ.e.a.s. sjálfan Sherlock Holmes, leynilögreglumann, er það var leikið í Reykjavík skömmu áður. Þetta var stærsta og umfangsmesta viðfangsefni L.V. fram að þeim tíma og ávallt nefnt hér „Týndi böggullinn“, eins og fyrr segir, byggt upp af leynilögreglusögum Conan Doyle. Þættirnir voru nokkuð langir, svo að ég hygg að sýningartími leikritsins hafi verið um 2 1/2 til 3 tímar að hléum meðtöldum. Þetta stórverk var leikið síðast á árinu 1913 og fyrst í árinu 1914. Þar hreif A.L. Petersen áhorfendur svo í hlurverki Michael Shark, að allt ætlaði um koll að keyra af hlátri, sérstaklega þegar hann var að bisa við skápinn og í samtali sínu við Bob McLew í gaskjallaranum. Petersen var afbragðs leikari og þetta hlutverk var sem búið til fyrir hann, dönskuskotin íslenzkan með dönskum áherzlum, alls konar handapat, bukk og beygingar, hreyfingar allar léttar og fjaðurmagnaðar. Þeirri perrónu gleymir enginn þeirra, er sáu hana í „Týnda bögglinum“.

Ólafur Ottesen sem Sherlock Holmes; Vestmannaeyjum 1913.

Svo var það Ólafur Ottesen, sjálfur Sherloch Holmes, allt í senn: alvara og gleði, fullkomnasta framsögn og látbragðalist. Hann kom þarna fram í gervi ungmennis, — gamalmennis, — sem hinn djúpskyggni spekingur, öllum leynilögreglumönnum kænni. Leikur hans var frábær list og gervin eftir því. Ekki má heldur gleyma Professor Moriarty, stórglæpamanninum og morðingjanum, sem hafðist við í undirheimum stórborgarinnar ásamt illþýði sínu. Í því hlutverki sýndi Árni Gíslason sinn bezta og þróttmesta leik í gervi glæpamannsins. Átökin milli hans og Sherlock Holmes voru full af alls konar brögðum og snilldarlega útfærðum brellum, sem héldu leikhúsgestum iðandi í sætunum af æsingi. Það var í sannleika sagt heilsteyptur leikur í margs konar dulargervum, sem öll miðuðu að því að koma hvor öðrum fyrir kattarnef. Það var gaman að sjá andlit áhorfendanna í salnum. Allir stóðu á öndinni. Í gaskjallaranum fann Holmes Frk. Alice Faulkner lokaða inni í skápnum, og er illþýðið ætlaði að ráðast á Holmes, þreif hann stólinn annari hendi og mölbraut olíulampann með honum, svo að allt varð hulið myrkri á leiksviðinu. Áheyrendur voru á glóðum. Hvað kemur næst? Hvernig endar þetta? Skyldu þau sleppa? Og síðar kom prófessorinn í heimsókn til Holmes og var þá í dulargervi keyrslumanns. Holmes bað hann að spenna fyrir sig tösku og loka henni. Hann laut þá yfir töskuna, en þá allt í einu heyrði maður lítinn smell og handjárnin sátu föst um úlnlið Moriarty prófessors. Þá dundi við lófaklappið og húrrahrópin framan úr sal, svo að gamla Gúttó riðaði á grunni sínum. Kvenfólkið í hlutverkum sínum vakti einnig mikla ánægju, t.d. þær frú Ágústa í Mrs. Larrabee, Þóra Vikk í Miss Aliee Faulkner, Guðbjörg í Therese o.fl. Þess má og geta, að konurnar í L.V. um þessar mundir voru engir viðvaningar á leiksviðinu, t.d. Ágústa Eymundsd. í „Ævintýri á gönguför“ og í „Týnda bögglinum og „Heimilinu“ að ógleymdum „Apakettinum“. Guðbjörg var alltaf unga stúlkan laglega í leikritinu, gædd sérstaklega góðri söngrödd, lipur og létt í öllum hreyfingum. Hún var dáð persóna á leiksviðinu í fjölmörgum hlutverkum og naut allra hylli. Guðrún Þorgrímsdóttir, yndisfögur ásýndum, söng með afbrigðum vel og glæsibragurinn ljómaði af hverri hennar hreyfingu. Þóru Vigfúsdóttur, verzlunarstúlku í Edinborg, sem hálfur bærinn gekk á eftir með grasið í skónum, þ.e.a.s. karlmennirnir, dáðu allir. L.V. vantaði ekki á þeim árum í kvenhlutverk leikritanna.
Þessu mikla leikriti stjórnaði sem sagt Bjarni Björnsson af sinni alkunnu snilld. Hann var og afbragðs leikari og leiðbeinandi, sem L.V. naut mikils góðs af í starfsemi sinni á þessum árum.
Ég hygg, að L. V. hafi á þessum árum ekki verið neinn eftirbátur annarra leikfélaga á meginlandinu, nema ef síður væri, þrátt fyrir mjög mikla og margháttaða erfiðleika. M.a. má þar til nefna mjög ófullkominn húsakost, húsið lítið og mest á lengdina, búningsherbergi aðeins eitt og mjög lítið, leiksviðið þröngt og grunnt og allur aðbúnaður þar, t.d. ljós, mjög frumstæður. En fólkið vildi leika og taldi ekkert erfiði eftir sér. Þegar t.d. „Týndi böggullinn“ var prófsýndur, var byrjað kl. 8 um kvöldið, en klukkan rúmlega sex morguninn eftir var haldið heim. Hafði þá margt verið tví- og þríyfirfarið og allar sviðsbreytingar hafðar eins og þær áttu að vera, með alls konar furðulegum útbúnaði. Alla sviðsfleka varð að bera inn í næstu herbergi og jafnvel út á hólinn við austurdyrnar á Goodtemplarahúsinu. Þetta tók þess vegna langan tíma, en enginn taldi erfiðið eftir sér. Leikritið hreif líka bæjarbúa og var sýnt a.m.k. sjö sinnum fyrir fullu húsi og mun það vera nálægt því að tæp 1.800 manns hafi séð leikritið. Það var góð aðsókn í ekki stærri bæ.
Þess skal getið hér, að í forföllum Björns Sigurðssonar, sem lék Daniel ropara, son Halta skratta, lék Iðunn Sigurðardóttir hans hlutverk. Kom atriði þess hlutverks fyrir í Gaskjallaranum. Daniel átti að vera mállaus, en skynja á einhvern dularfullan hátt, er bófunum steðjaði hætta af einhverju. Þegar svo bar við, átti Daniel að ropa mjög kröftuglega. Iðunni gekk þessi list illa, gat ekki gert þetta nógu hátt, svo að Ólafur Ottesen framkvæmdi þetta hættumerki Daniels bak við tjöldin, þar sem Daniel sat á tunnunni sinni.
Þetta var einasta hlutverk Iðunnar í leik hér. Karl Gränz bjó til gervi hennar og gerði það svo vel, að hún var með öllu óþekkjanleg. (Sögn Iðunnar Sig., 1960).

Hlutverkaskipting í Sherlock Holmes var þannig:
Sherlock Holmes: Ólafur Ottesen
Dr. Watson: Kristján Gíslason
Moriatty: Árni Gíslason
J. Larrabee: Sigurður Jónsson
L. Larrabee: Ágústa Eymundsdóttir
Alice Faulkner: Þóra Vigfúsdóttir
Billie sendill: Síta Sigurðardóttir
Miehael Shark: A.L. Petersen
Therese: Guðbjörg Gísladóttir
Þjónn Sherlock Holmes: Georg Gíslason
Þjónn Dr. Watson: Eyjólfur Ottesen
Halti skratti: Georg Gíslason
Daniel ropari: Björn Sigurðsson
Bob McLew: Steingrímur Magnússon
Jónas kæfari: Karl Gränz

Leikrit þetta mun hafa verið leikið oftar en önnur leikrit fram að þeim tíma, eða a.m.k. 7 sinnum. Sumir segja 9 eða 10 sinnum, leikárið 1913-1914.
Svo minnti þá Georg Gíslason, Karl Gränz og Steingrím Magnússon. Hefur þeim átt að vera þetta nokkuð kunnugt, þareð þeir léku allir í leikritinu. Georg var einn af aðalleikurum þorpsins eftir þetta. Steingrímur lék og mikið og vann á ýmsan hátt að leiksýningum, og Karl Gränz smíðaði leiktjöld, málaði þau og lagfærði, eftir því sem þörf gerðist.

II. hluti