Blik 1965/Gúttó

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Efnisyfirlit 1965



ÁRNI ÁRNASON:


ctr


Nánar um gamla Gúttó. Það var byggt á svonefndum Mylnuhól, sem tilheyrði lóð Stakkagerðis, 1890—91. Sveinn Jónsson snikkari á Sveinsstöðum, faðir Ársæls Sveinssonar og þeirra systkina, var yfirsmiður. Hann tók að sér alla vinnu, er að hússmíðinni laut (utan grjót- og járnvinnu), glugga, hurðir með lömum og læsingum og að festa járnum í húsið. Líklega mun átt við það m.a. að á hverju horni hússins var komið fyrir keðjum og þær grafnar í jörð niður. Mun það hafa verið gert til öryggis því, að húsið fyki ekki af grunninum. Keðjur þessar voru lengi, og líklega til þess tíma að Gúttó var rifið, auðsjáanlegar á SA og SV horni hússins. Man ég glögglega eftir þeim. Eflaust hefur svo verið á fleiri húsum. Gúttó var fyrst 12 álna langt, 9 álnir á breidd að utanmáli og 14-4 1/2 alin undir bita að hæð. Það var með risi og sneri frá austri til vesturs, járnklætt með galvaniseruðu járni. Þrír gluggar voru á hvorri hlið með 8 rúðum og ein rúða á hjörum á hverjum glugga. Dyr voru á vesturgafli hússins með glugga sinn hvorum megin þeirra og einn gluggi uppi yfir dyrum. Hafði sá síðastnefndi 3 rúður en hinir tveir tvær rúður. Tveir hlerar voru á hjörum fyrir hverjum glugga og huldu þá. Var það gert til öryggis rúðubroti og til hlýindaauka.


Gamla Goodtemplarahúsið hér, sem kallað var „Gúttó“ manna á milli. Það stóð á Mylnuhól, þar sem Samkomuhús Vestmannaeyja stendur nú. Myndin var tekin í ágúst 1924. Þá kom hingað til Eyja norskur söngkór, Handelstandens Sangforening, frá Osló. —
Blaðið Þór segir svo frá þessum norsku gestum: — „Þeir voru velkomnir gestir hér, enda komu þeir svo vel fram að öllu leyti, að til þess verður lengi tekið. Þeir byrjuðu með því að syngja í Nýja Bíó, er þeir stigu á land hér á leið til Reykjavíkur, og eftir sönginn í Nýja Bíó, sungu þeir nokkur lög úti ... Dáðust menn almennt að söng þeirra, enda var það ekki af ástæðulausu.
Söngmennirnir voru mjög ánægðir yfir för sinni til Íslands, enda fengu þeir veður hið ákjósanlegasta og móttökur ágætar.“


Þeir Árni Filippusson, Vegamótum, og Eiríkur Hjálmarsson s.st., Engilbert Engilbertsson, Jómsborg, og Sigurður Sigurfinnsson tóku að sér að annast grjótflutninga og grjótvinnuna við húsið og svo viðarflutninga og járnsmíði, er byggingunni var samfara. Í ágústmán. 1891 var húsið stækkað og það þá lengt um 4 álnir í austur í sömu gólf og þakhæð. Þá tók trésmíðina að sér Sigurður Sigurfinnsson, ásamt gluggum. Var þá bætt við einum glugga á hvorri hlið, suður og norðurhlið, af sömu gerð og stærð og þeir, er fyrir voru. Þeir Árni Filippusson, Engilbert Engilbertsson, Sveinn Jónsson og Gísli Lárusson tóku hins vegar að sér grjót- og járnvinnu, er að byggingunni laut. Var húsið eftir þessa breytingu með fjórum gluggum á hvorri hlið og aðeins einn salur. Nokkru eftir aldamótin var svo húsinu enn breytt. Byggður var annar salur norðan við hinn og samfastur honum. Það var veitingasalurinn. Þar var síðar komið fyrir litlu eldhúsi og geymsluherbergi, (milliherberginu, er áður getur). Þessi nýja viðbótarbygging var einnig með risi eins og gamla húsið og sneru gaflar mót austri og vestri. Þá var byggð forstofa vestan við húsið. Hún var með flötu þaki en þar yfir risu stafnar beggja salanna mót vestri. Upp að innganginum í forstofuna voru steintröppur og steinpallur framan dyra, en þær voru mót vestri, tveggja hurða dyr. Sunnan þeirra var einn 8 rúðna gluggi. Forstofan var jafnbreið báðum sölum hússins og jafnjaðra við útveggi að sunnan og norðan. Norðan af forstofunni var afþiljað lítið herbergi. Það hafði einn 8 rúðna glugga mót norðri, eins að lögun og stærð og þeir, er voru á veitingasalnum. Inngangur í þetta litla herbergi var úr forstofunni til norðurs. Það hafði einar dyr með lúgu í hurðinni. Þar var aðgöngumiðasalan. Rétt við þessar dyr voru aðrar til austurs úr forstofunni. Þær voru inn í veitingasalinn. Sunnanverðu í forstofunni var og afþiljað eitt herbergi, nokkru stærra en hitt. Þar var geymt ýmislegt tilheyrandi húsinu t.d. borð og bekkir. Síðar voru þar sýningarvélarnar, er bíóreksturinn hófst í húsinu 1915. Dyr voru á þessu herbergi til austurs inn í stóra salinn, og aðrar fram í forstofuna. Einn 8 rúðna gluggi var á herberginu mót suðri. Þegar forstofan var fullgerð, voru sjö gluggar mót norðri allir 8 rúðna. Eftir að viðbyggingin hafði verið byggð austan við húsið, þ.e. leiksviðið, voru á viðbyggingu þeirri tveir 8 rúðna gluggar mót suðri, er voru á leiksviðinu sjálfu. Það hafði stafn mót austri á suður helmingnum, en stafn mót norðri á nyrðri helmingnum og hallandi þak mót austri. Ekki náði norðurstafninn jafnlangt norðurvegg veitingasalarins heldur myndaðist þar innskot 3—4 álna breitt. Þar á móti voru austari dyr inn í fyrrnefnt milliherbergi. Það voru hinar eiginlegu bakdyr hússins og notaðar af leikfólkinu og þeim, sem við veitingar og eldhúsið störfuðu. Þar voru trétröppur með trépalli framan dyra. Á þessum norðurstafni var einn gluggi 8 rúðna og var hann á búningsherbergi leikara. Að þeim glugga meðtöldum voru 8 gluggar á norðurhlið hússins eða jafnmargir og á suðurhlið. Það er sagt, að gamli Kumbaldi hafi verið einkennilegasti kumbaldi og jafnvel ekki átt sinn líka á landinu. En að byggingalagi var Gúttó lítið betra — sannkallaður kumbaldi og furðuleg bygging. Í viðbyggingunni austast var sem sagt leiksviðið og búningsherbergið. Var leiksviðið um 2—2 1/2 alin hærra en gólfflötur áhorfendasalsins, með kjallara undir, sem fyrr segir. Mjög þessu líkt leit húsið Gúttó út, er það var rifið 1936 og núverandi Samkomuhús Vestmannaeyja reist á hinum gamla Mylnuhól, sem allur var sprengdur niður, og út frá honum til allra hliða. Árið 1906 var gamla Gúttó tryggt fyrir eldsvoða og segir í tryggingarbeiðninni, að húsið sé notað til almennra funda, fundahalda Góðtemplarareglunnar, fyrir tombólur, dansleiki, sjónleiki, grímudansa o.fl. Þar sé ekkert eldstæði, en þó sé þar stundum hitað kaffi við ýmis tækifæri. Tryggingarbeiðni þessi var skrifuð 21. okt. 1906. Þá er eldhúsið ekki komið í húsið eins og síðar varð, svo að eftir það hefur sú breyting orðið á. Þar var síðan stór og góð eldavél, skápar fyrir leirtau og önnur eldhúsáhöld.
Í blaðinu Fjallkonan segir svo um Gúttó í nóv. 1890:
Góðtemplarahúsið í Eyjum er byggt á Mylnuhólnum. Það er tólf álna langt, 9 álna breitt og 4 1/3 alin undir bita. Það er með járnþaki og kjallara undir gólfi. Vegna féleysis verður húsið ekki þiljað innan á þessum vetri.“ —
Góðtemplarahúsið í Rvík var vígt 2. okt. 1887, þá voru 360 meðlimir þar í reglunni.
Um ljós í húsinu hér getur ekkert, en eflaust hefur það þá verið lýst með olíulömpum sem áður getur.
Árið 1906 hefur ekkert eldstæði verið í húsinu. Þá hefur einhverntíma verið kalt þar við leikæfingar og sýningar. Árið 1915 breyttist þetta stórkostlega til batnaðar, er bærinn var raflýstur. Gúttó var þá haft á sérlínu ásamt Símstöðinni, svo að sem sjaldnast kæmi til, að húsið yrði ljóslaust vegna línubilana á aðallínum, sem oft kom fyrir, þar eð allar línur voru ofanjarðar á staurum. Sérlína þessi var stutt og bilaði sjaldan, enda traustlega byggð. En eins og krosstré brotna, brotna aðrir raftar og þannig fór um aukalínuna. Hún vildi alloft bila í ofviðrum og varð þá allt í glórulausu myrkri, þar til viðgerð tókst í ofsaveðri. Það voru stundum erfiðir tímar hjá starfsmönnum rafstöðvarinnar undir slíkum kringumstæðum. Þegar allt slitnaði niður meir og minna, og allir heimtuðu ljós. Reyndu þeir að verða við óskum manna, þótt hins vegar væri það vart á mannlegu færi að fara upp í staura í ofsaroki, svarta byl og kolsvarta myrkri. Í sannleika sagt mjög erfiðir tímar fyrir starfsmenn rafstöðvarinnar en fæstir þökkuðu þeim sem vert var.
Það fylgdi lengstum Gúttó, að reimleikar væru allmiklir í húsinu.
Fólki fannst þetta ekkert óeðlilegt, að minnsta kosti héldu og sumir því mjög fram allt til síðustu ára hússins. Þar væri stundum allt á tjá og tundri vegna reimleikanna. Enginn virtist þó vita, hvað væri þar á seyði eða hvernig reimleikarnir lýstu sér. Ég legg engan dóm á ummæli almennings en vil gjarna geta hér í sambandi við Gúttó einkennilegs atviks, er þar kom einu sinni fyrir. Ef til vill hefur einhver gaman af að lesa um það. Það gæti líka gert sitt til þess, að menn fengju aðrar hugmyndir um einhver afbrigði reimleikanna. Ég fyrir mitt leyti er sannfærður um, að það eru ekki allt draugar sem gaula, eða selir sem sýnast. Hins vegar hefur ávallt verið sagt reimt í Gúttó og á Símstöðinni? Þær byggingar voru reistar í námunda við svonefnda Hólshjalla, en þar átti að vera mjög reimt. Svo sagði Anna Thomsen, tengdamóðir Daníels Kr. Oddssonar, er var símstjóri í Eyjum 1921—1922, að hún færi alls ekki ein niður í kjallara á gamla símstöðvarhúsinu á kvöldin. Sagðist hún ekki vilja hafa helv. drauginn riðlandi á sér oftar en einu sinni. Það heit hélt hún líka. Aldrei fór hún ein niður í kjallara eftir að skyggja tók. Í Gúttó hafa og margir frómir menn orðið ýmislegs varir, en ekki orðað það út um hvippinn og hvappinn. Jafnvel eftir að Samkomuhúsið var byggt, hafa menn þótzt verða einhvers varir, er þeir ekki skildu.