Blik 1963/Una Jónsdóttir skáldkona

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 17. mars 2015 kl. 22:34 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 17. mars 2015 kl. 22:34 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Una Jónsdóttir
SKÁLDKONA


Gesti ber að garði á Skurðbæ í Meðallandi, pilt og stúlku. Þau leiða kú til nauts á næsta bæ. Norðan næðingurinn bítur í kinnbeinin og frostnepjan vekur hroll mönnum og málleysingjum.
Kýrin er látin í húsaskjól, meðan þau hressa sig á kaffisopa hjá húsbændunum á Skurðbæ, Sigríði og Friðfinni. Síðan er kýrin leidd út í kuldann aftur til brottferðar. Yfir mölum hennar er pokaræfill til skjóls fyrir kuldanum. Síðjúgrið er kalt og spenarnir helkaldir. Áður en þau leggja aftur af stað með kúna, leysir vinnukonan á bænum af sér þykku, fagurgrænu ullarhyrnuna sína, sveipar henni um júfur kýrinnar, saumar að með ullarbandi og festir aftur um læri og upp um malir.
Boð fylgja hyrnunni: Henni skal skilað við kirkju næsta sunnudag. — Svo var gjört. — Úr hyrnunni hafði verið gjörður böggull, og féll úr honum smjörskaka, er hann var leystur upp. Það voru launin fyrir hyrnulánið og líknarlundina, sem vinnukonan hafði auðsýnt kusu.
Þessi samúðarríka og hjartagóða vinnukoná í Skurðbæ var ekkja frá Dölum í Vestmannaeyjum. Hún hét Ólöf Ólafsdóttir.
Dóttir ekkjunnar elst þarna upp hjá henni á Skurðbæ. Hún gengur til spurninga í Langholtskirkju hjá séra Bjarna Einarssyni á Mýrum í Álftaveri. Vel gengur henni sjálfri að læra kverið, því að hún er flugnæm og iðin í bezta lagi. En stallsystir hennar, bezta vinkona hennar, kann aldrei stakt orð í kverinu, svo að til hörmungar horfir fyrir henni. Og hörmungin dynur yfir, — ekki þó fyrr en varir. Prestur tjáir stallsysturinni, að hann geti ekki fermt hana sökum vankunnáttu í kristnum fræðum. Þá grætur dóttir ekkjunnar beiskum tárum yfir óhamingju vinkonu sinnar.
Fáum vikum síðar voru mæðgurnar á Skurðbæ við messu í Langholtskirkju eins og næstum alltaf, þegar messað var. Þar var í kirkjunni flogaveik stúlka með móður sinni. Þegar leið á messuna, féll stúlkan í yfirlið. Óstjórnleg samúðartilfinning og líknarkennd greip þá dóttur ekkjunnar á Skurðbæ. Hún rauk upp úr sæti sínu og skundaði inn að altari, þar sem prestur var að tóna, þreif í skyndi könnuna með drykkjarvatni prestsins, færði hana móðurinni, sem dreypti vatninu á enni veiku stúlkunnar sinnar. Raknaði hún þá við von bráðar.
„Mundi ég hafa vakið hneyksli í söfnuðinum fyrir tiltækið?“ spurði hin líknsama dóttir ekkjunnar sjálfa sig, þegar samúðarvíman rann af henni. Eftir messu þakkaði prestur henni með handarbandi fyrir velgjörninginn í kirkjunni. Þá fór óumræðilegur fögnuður um hjartataugar dóttur ekkjunnar. Í einlægri trú sinni færðu mæðgurnar guði þakkir fyrir forsjá hans og handleiðslu.

————
Guðmundur Guðlaugsson og Una Jónsdóttir.

Haustið 1871 búa í kofa einum í suðvesturhorni túnsins í Dölum í Vestmannaeyjum húsmennskuhjónin Jón Jónsson og Ólöf Ólafsdóttir. Þau eiga 4 börn. Jóhanna er elzt, 9 ára, Ólína 7 ára, Önundur á 4. ári og Ásbjörn nýlega fæddur eða á 1. ári.
Eftir áramótin heimsækir sár sorg friðsæla húsmennskuheimilið í Dölum. Hjónin misstu Önund son sinn 19. jan. 1872. Hann dó úr andateppusótt eða kíghósta.
Rúm tvö ár liðu.
Aðfaranótt 13. marz 1874 kallar Sighvatur Sigurðsson¹) á Vilborgarstöðum háseta sína á sjóinn. Þeir stunda hann með færin sín á vertíðinni, 7 saman, á sexæringnum Gauk. Fiskur er ör um morguninn og fram á miðjan dag, svo að þeir hlaða bátinn. Þá er haldið heim í höfn. Suður af Klettsnefi fyllir hjá þeim í austan hraklanda og vindkviku. Þeir drukkna allir, sem á bátnum eru. Auk formannsins fórst þar Árni Árnason¹) á Vilborgarstöðum, Gísli Brynjólfsson, ekkjumaður frá Móhúsum í Eyjum, faðir Þorsteins holdsveika þar, Brynjólfur Einarsson, vinnumaður í Jónshúsi, Erlendur Pétursson, vinnumaður í Litlakoti, Sigurður Eyjólfsson, vinnumaður á Steinsstöðum, Stefán J. Austmann, bóndi í Vanangri, eiginmaður Önnu Benediktsdóttur (sjá Blik 1961) og Jón Jónsson, húsmaður í Dölum. Ólöf Ólafsdóttir var orðin ekkja með 4 börn, — fátæk, bjargarlítil. En öllu er óhætt ennþá, hugsuðu hreppsnefndarmennirnir í Vestmannaeyjum, því að sveitfestin var þá 10 ár, og húsmennskuhjónin í Dölum, Jón og Ólöf, höfðu aðeins dvalizt 6 ár í Vestmannaeyjahreppi, verið búsett þar, þegar Jón drukknaði. Hann átti sveitfesti í Meðallandi.
Meðallendingar lögðu ekkjunni brátt lið í lífsbaráttunni. Yngri dóttur ekkjunnar, Ólínu, var komið fyrir í Presthúsum hjá hjónunum Jóni Jónssyni og Ingibjörgu Stefánsdóttur, afa og ömmu Stefáns útgerðarmanns í Gerði. Þar var Ólína niðursetningur til fermingaraldurs. Þá hættu Meðallendingar að gefa með henni. Eftir það kölluðu hjónin í Presthúsum hana fósturbarn sitt. Hjá þeim, þessum gæðahjónum, leið henni vel.
Árin liðu. —
Veturinn 1877 tók Jón Magnússon, húsmaður á Kirkjubæ að fjölga heimsóknum sínum í kot Ólafar ekkju í Dölum. Hann var hagyrðingur, kvæðamaður góður, gáfaður og ræðinn. Orð hans hög og æði allt var einkennilega, ísmeygilega töfrandi og tælandi, fannst Ólöfu ekkju í Dölum.
„Leið oss ekki í freistni,“ las hún á hverju kvöldi á koddanum sínum, blessuð ekkjan í Dölum. ,,Það, sem ég vil, gjöri ég ekki, en það, sem ég ekki vil, gjöri ég,“ segir trúarhetjan. „Lífið er strá, skjálfandi starir það straumfallið á,“ — svo fellur það og berst með straumnum, — snýst í hring, þar sem iða er í hylnum, — snarsnýst í straumköstunum og berst í kaf. -
Ekkjan í Dölum lét fallerast.
Á meðan svaf Halldóra Jónsdóttir, húsmannskona, eiginkona Jóns Magnússonar, værum blundi í kotinu sínu heima á Kirkjubæ.
¹) Leiðr. (Heimaslóð).

—————

Síðnætursól vorsins hellir logandi geislaflóði yfir Goðastein á Eyjafjallajökli og námunda hans. Þessa fögru vornótt voru liðnar 11 vikur miður en 250 ár frá því, að konan ól barnið við Sængurkonustein að Hund-Tyrkjanum ásjáandi.
„... Ó, hve þú ert morgunfögur. Úðaslæðan óðum dvín; eins og spegill hafið skín.“
Sængurkonusteini geturðu ávallt treyst um allt, sem hann sér og heyrir. Hann flíkar engu. Gagnstætt var því varið með hann „Manga Bryn ...“, niðursetninginn í Nýjabæ. Hann var lausmáll og kjöftugur. Hann gat aldrei orða bundizt um eitt eða neitt, sem hann heyrði.

—————

Þegar leið á haustið 1877 var Ólöf ekkja í Dölum tekin að þykkna undir belti. Í fyllingu tímans eða 31. jan. 1878 fæddi hún meybarn, sem séra Brynjólfur Jónsson að Ofanleiti jós vatni þrem dögum síðar í Landakirkju og skírði Unu.
Una litla Jónsdóttir í Dölum átti sér örlög, eins og sumir orða það. Þau urðu ekki umflúin. Frá þeim verður greint hér í færri orðum en efni standa til.
Faðir Unu litlu í Dölum gekkst við faðerninu. Hann var Jón Magnússon, húsmaður á Kirkjubæ, steinhöggvari að aukaiðn, fyrr í Stóra-Gerði, fyrst í Nýjabæ, þar sem hann var vinnumaður og barnaði tvær vinnukonur í Eyjum á sama árinu.
Legorðsbrot — tvö legorðsbrot. Siðgæðisbrot, sem séra Brynjólfi sóknarpresti bar að áminna fyrir. — Jón Magnússon átti um tvær barnsmæður sínar að velja. Hann lét tilleiðast sökum afskipta prestsins og kvæntist annarri, Halldóru Jónsdóttur vinnukonu frú Ásdísar í Stakkagerði.
Þegar Una var skírð og Jón gekkst við faðerninu, var hann 56 ára, Ólöf ekkja í Dölum var nær fertugu og Halldóra, kona Jóns, tveim árum yngri en maður hennar, þótt hún væri þeirra elzt í ýmsu tilliti, enda hafði hjónabandið ekki yngt hana um aldur.
Nokkru eftir að Jón Magnússon viðurkenndi faðernið að Unu, skildu hjónin að borði og sæng a.m.k.
Jón Magnússon var lengi eftir það vinnumaður í Nýjabæ. Hann lézt 7. nóvember 1907.
Þegar hér er komið sögu, er farið að fara um hreppsnefndarmennina í Vestmannaeyjum, þar sem „Eyjajarlinn“ Þorsteinn læknir skipaði forustu. Ekki tjóaði að láta ekkjuna í Dölum verða sveitfasta í hreppnum, úrræðalitla og bjargarvana með börnin sín. Þeim gat fjölgað enn. Þess voru einmitt dæmin þar í byggð, að stúlka átti 4 börn sitt með hverjum.
Í tæka tíð vorið 1878 var Ólöf ekkja í Dölum flutt nauðungarflutningi með Unu, hvítvoðunginn sinn, austur í Meðalland á hrepp Jóns heitins Jónssonar, eiginmannsins látna. Það mátti ekki seinna vera, því að á þessu sumri voru 10 ár liðin frá því, að þau hjón settust að í Eyjum.
Börnin voru öll nema Una tætt frá ekkjunni. Jóhanna dóttir hennar, sem fermd var og gat nú orðið unnið fyrir sér, var vistuð að Álftarhól í Landeyjum. Fullþroskuð fór Jóhanna til Austfjarða í atvinnuleit. Þar giftist hún, en missti mann sinn eftir fá ár. Þá hvarf hún til Ameríku. Þar giftist hún öðru sinni.
Ólína varð kyrr hjá hjónunum í Presthúsum, og Ásbjörn litli var vistaður vikadrengur hjá bændum í Meðallandi, niðursetningur þar.
Mæðgurnar, Ólöf og Una, voru settar niður hjá hreppstjóranum í Meðallandi. Árslaun ekkjunnar voru náðin sú, að mega vinna fyrir sér og barninu.
Fjögur fyrstu árin í Meðallandi dvöldust þær mæðgur á þrem bæjum. Tvö seinni árin voru þær í Háukotey. Þar fékk Una litla mislinga fyrra árið og kíghósta síðara árið, svo að nærri svarf um líf hennar.
Frá Háukotey réðst Ólöf ekkja með dóttur sína að Skurðbæ til hinna mætu hjóna þar, Sigríðar Stefánsdóttur og Friðfinns Sigurðssonar.
Sigríður húsfreyja á Skurðbæ var smá kona vexti en góðlynd og glaðlynd. Hún var vel verki farin.
Sigríður hafði alizt upp við þröng kjör, oft svöng í æsku, þar sem hún flæktist milli manna úr einni vist í aðra. Hún var lífsreynd kona, sem á æskuskeiði trúlofaðist pilti þar í byggð. Hún ól honum barn, sem dó við fæðingu. Þá brást pilturinn henni.
Friðfinnur bóndi var ekkjumaður, þegar hann kvæntist Sigríði. Hjónaband þeirra var farsælt á marga lund. Þó áttu þau ekki börn saman. Fyrra hjónaband Friðfinns bónda var einnig barnlaust. Allir í sveitinni þóttust vita orsökina. Í æsku hafði Friðfinnur fengið heiftuga hettusótt, sem skildi eftir varanlegar minjar hjá honum. En Friðfinnur bóndi var göfugmenni, ljúfur og greindur, glaðlyndur og gamansamur. Hann var Völundur á tré og járn.
Hjónaband Friðfinns og Sigríðar var ástríkt og virðulegt. Hún mat bónda sinn mikils. Alltaf nefndi Sigríður hann Friðfinn, enda þótt öll hin á bænum nefndu hann aðeins Finn.
Húsbóndinn batt inn bækur á kvöldvökum, þegar hann las ekki heimilisfólkinu til fræðslu og skemmtunar, sem hann oft gerði.
Eftir kvöldverð var ávallt lesinn húslestur. Þá söng húsfreyja með manni sínum. Hún kunni alla Passíusálmana utanbókar.
Á Skurðbæ leið þeim mæðgum vel. Þar voru góð húsakynni, nægur matur, gott viðmót og göfugmennska og drenglund ríkjandi með háum sem lágum.
Þegar þær mæðgur komu að Skurðbæ, var þar gömul kona um nírætt, sívinnandi, þótt hún væri hrum og seinfær. Kristín hét hún.
Kvöld eitt skyldi hún fela eldinn. Það tók hana lengri tíma en eðlilegt var. Friðfinnur bóndi skipaði Unu að fara fram í eldhús og vita, hverju þetta sætti. Móðir Unu aftók það með öllu, að hún yrði send fram í eldhúsið að þessu sinni. Þá skrapp hin vinnukonan fram til þess að skyggnast um eftir gömlu konunni. Hún fann hana látna við hlóðirnar með taðköggul milli handanna. Ólöf kvaðst hafa séð feigðarsvipinn á gömlu konunni. Þess vegna aftók hún með öllu, að Una yrði send fram í eldhúsið.
Una litla var hæglát og þæg öllum. Hún var viðkvæm og meyrlynd og veil á heilsu nokkur ár eftir mislingana og kíghóstann. Móðirin kvað um litlu dóttur sína:

Eina dóttur á ég mér
yndislega, góða;
eitt er það, sem að henni' er:
hún einatt fer að hljóða.

Í sólskini og sumarblíðu sofnaði Una litla við fætur móður sinnar, þar sem hún sat flötum beinum úti í hlaðvarpanum og prjónaði.
Þá kvað móðirin:

Sittu á fótum, sálin blíð,
sæmileg á hverri tíð;
ekkert þjark né þrautastríð
við þessa litlu faldahlíð.

Ólöf vinnukona og Sigríður húsfreyja voru sérstaklega samrýmdar og ræddu stundum saman einkamál sín: „Vissirðu, áður en þú giftist Friðfinni, að hann gat ekki getið af sér barn?“ „Já,“ sagði húsfreyja og brosti, „en ég hafði ekki úr háum söðli að detta, og svo vonaði ég, að ég þyrfti ekki lengur að líða sult og lifa ófrjáls við þrældóm og vanmat á öllum sviðum. — Ég óskaði að eiga nokkrar frjálsar stundir, — og eins og þú veizt, hefur mér á marga lund orðið að óskum mínum, þó að á allt verði ekki kosið.“ Þær slitu samtalinu.
Á Skurðbæ var etið hrossakjöt árið um kring og þótti engin minnkun, þótt margir í sveitinni hefðu andstyggð á því, töldu það hvorki mannamat né hunda —.
Þegar Una var 12 ára, var hún fyrst látin vinna á engjum samfellt milli mála. Öll uppvaxtarárin hjá hinum góðu hjónum á Skurðbæ fékk Ólöf að ráða sjálf dóttur sinni. Iðulega var um hana beðið til snúninga á aðra bæi. Það leyfði Ólöf móðir hennar aldrei, því að heilsa Unu var jafnan veil árum saman, eftir legurnar í mislingum og kíghósta.
Árin liðu í Skurðbæ í sæld og samhug. Eftir fermingu taldist Una vinnukona hjónanna. Þegar hún hafði verið það í 9 ár og orðin 23 ára, fluttu hjónin, húsbændur hennar, frá Skurðbæ að Háukotey. Þá fóru þær mæðgur frá þeim. Var þá Ásbjörn Jónsson, sonur Ólafar og hálfbróðir Unu, farinn að búa. Hann tók nú móður sína í hornið til sín, komna á sjötugs aldur, en Una réðst vinnukona, fyrst að Langholti og síðan að Hnausum. Þar var hún í 2 ár hjá Stefáni bónda Hannessyni, drengskaparmanni, sem vildi í hvívetna fara vel með menn og skepnur. Stefán bóndi var ókvæntur og bjó með bústýru. Hann bjó blómabúi við allsnægtir. Það var meira en hægt var að segja um bændur þar í sveit yfirleitt á þeim árum. Oft þegar fram á leið og matarskortur og sultur tók að sverfa að mörgum heimilum, svo og heyleysið, miðlaði Stefán bóndi bændum bæði mat og heyi. Bústýra Stefáns bónda þótti stundum skammta knappt á engjarnar. Var þá Stefán bóndi vanur að miðla kökubleðlunum sínum milli starfsfólksins. „Ég get alltaf bætt mér þær upp heima,“ sagði hann þá.
Árskaup kvenna var þá 25 krónur og 3 skylduflíkur, sem svo voru nefndar. Húsbóndinn gaf vinnukonum sínum venjulega efni í svuntu eða dagtreyju, þegar hann kom heim úr kaupstaðarferð að vorinu.
Oft var þá „kátt í koti“ á ungmennafélagsfundunum í Meðallandi. Félagslífið var unaðsríkt, fannst Unu, og hún hlakkaði ávallt til næsta fundar. Þarna kynntist hún Eggert Guðmundssyni á Söndum, litbjarta og sviphreina piltinum með hýra brosið, sem dansaði stundum við hana eina allt kvöldið. Eitthvað hafði lifnað í brjósti hennar gagnvart honum, sem enginn annar hafði megnað að vekja þar.
Eitt sinn, er þau skildu, leitaði hann eftir hug hennar feiminn og óframfærinn. Hún hvorki vildi né gat dulið hug sinn til þessa pilts. Þarna stóð hún þögul, niðurlút og litverp. Hann sagði ekkert meira og — gerði ekkert, og — svo kom einhver aðvífandi. Allt varð að engu, en stundin gleymdist ekki, — aldrei. Bæði ólu þau með sér von, — og reyndar vissu.
Eftir tveggja ára vinnukonuvist á Hnausum réðst Una vinnukona að Leiðvelli í Meðallandi til hjónanna Sveins og Jóhönnu. Ekki löngu síðar fengu þau byggingu fyrir Eyvindarhólum undir Eyjafjöllum og fluttust þangað vestur. Una fluttist með þeim þangað. Hjá þeim hjónum var gott að vera. Þar leið Unu vel, þó að hún hefði mikið að gera. Jóhanna húsfreyja í Eyvindarhólum var lærð saumakona. Hjá henni lærði Una að sníða og sauma karlmannaföt. Þá var Una í blóma lífsins, 26 ára, bjartsýn og vonglöð.
Eggert Guðmundsson frá Söndum lærði til fullnustu ljósmyndagerð. Að því námi loknu hittust þau Una og hann á förnum vegi í Vík í Mýrdal. Hún hafði skroppið austur í Meðalland til þess að sjá móður sína og bróður.
„Ég þarf að tala við þig leyndarmál,“ sagði Eggert feimnislega við hana. „Velkomið,“ sagði hún og roðnaði. Þau voru bæði að flýta sér á þeirri stundu haustið 1904. Svo talaðist til, að Eggert kæmi vestur að Eyvindarhólum um veturinn til að finna Unu og ræða við hana „leyndarmálið“.
Veturinn 1904-1905 gekk í garð með frosti og snjóum.
Aðfaranótt 18. febr. dreymdi Unu draum. Hún þóttist sitja á rúmi sínu í Eyvindarhólum. Þá kom Magnús, vinur Eggerts á Söndum, inn til hennar. Þau þekktust vel, því að Magnús var alinn upp á Skurðbæ. „Maður nokkur er í kirkjunni og vill finna þig,“ sagði hann. — Þau gengu saman út að kirkjudyrunum. Magnús opnaði kirkjudyrnar og Una gekk inn. Síðan læsti hann dyrunum á eftir þeim.
Una sá mann standa inni á kirkjugólfinu. Hann var votur, fannst henni. Þá greindi hún það allt í einu, að maðurinn var enginn annar en Eggert frá Söndum. „Hvaðan kemur þú?“ spurði hún. „Ég kem sjóveginn,“ sagði hann, „því að ég er dauður, en þú mátt ekki vera hrædd við mig; ég geri þér ekkert illt.“ Þá rétti hann henni hendina. Hún hikaði. „Þú mátt ekki vera hrædd við mig,“ endurtók hann. „Ég ætlaði að heimsækja þig í þessum mánuði; það dróst fyrir mér. Það gilti einu, fyrst svona fór.“ Þá flaug Unu í hug, að einmitt með þessari hendi hefði hann haldið utan um hana, þegar hann dansaði við hana síðast. Hún tók þá í hönd hans, sem reyndist köld sem klaki. „Ég kom aðeins til að biðja þig að minnast mín,“ sagði hann. „Ekki veit ég, hvort ég get það,“ sagði hún og komst við. „Gerðu það fyrir mig, að minnast mín,“ þrábað hann. Því hét hún, ef hún gæti. Þá sleppti hann hendi hennar og hún vaknaði.
Eftir tvo daga barst sú fregn um sveitir, að Eggert Guðmundsson, ljósmyndari frá Söndum, hefði drukknað í Kúðafljóti 17. febrúar, er hann var að fylgja ferðamönnum yfir það. Ísinn brast, og Eggert hvarf undir hann.
Una orti síðan erfiljóð eftir Eggert Guðmundsson og sendi þau móður hans, sem skrifaði Unu og þakkaði. Seinna heimsótti Una hana og meðtók þá kvæðalaun. Þetta var eitt af allra fyrstu kvæðunum hennar.
Árið eftir eða 1906 fluttist hún alfarin frá Eyvindarhólum að Stóruborg. Aðfaranótt flutningsdagsins sá hún Eggert bregða fyrir í draumi. Hann virtist hnugginn. „Þakka þér fyrir kvæðið, Una mín,“ sagði hann, „ég skal minnast þín og standa við hlið þér, þegar þú þarft mest hjálpar við.“ Svo hvarf hann.
Margrét húsfreyja á Stóruborg undir Eyjafjöllum sótti mjög eftir Unu vinnukonu í Eyvindarhólum handa Þorgeir syni sínum. Hann virtist einnig fús til þess að faðma hana og kyssa.
Á Stóruborg var Una Jónsdóttir í 6 ár. Ekki vildi Þorgeir giftast henni. Á þessum 6 árum áttu þau saman tvö börn, tvær stúlkur, Jónínu og Ástríði.
Fátæktin og féleysið svarf að. Una var látin fara til Vestmannaeyja á vetrarvertíðum til þess að afla tekna, sem runnu inn í heimilið á Stóruborg til framfærslu börnunum.
Eiríkur bóndi á Stóruborg reyndist Unu mesti gæðamaður, sem alltaf kom fram til góðs gagnvart henni. En hann átti í vök að verjast, og Margrét húsfreyja og Una áttu ekki lund saman.
Þegar Una hafði dvalizt 6 ár á Stóruborg, var hún vanfær að þriðja barninu. Þá slitnaði alveg upp úr samvistum þeirra Þorgeirs og hennar, svo að hún varð að hröklast burt af bænum. — Hvað var þá til ráða og hjálpar?
Þegar Una dvaldist í Eyjum á vertíðum, hafði hún kynnzt ýmsu góðu fólki þar. Þangað leitaði nú hugur hennar. Hún skilur við dætur sínar. Í Eyjum ól hún yngstu dóttur sína, sem hlaut nafnið Sigurbjörg. Hún var fædd 1912 í Grafarholti, sem nú er Kirkjuvegur nr. 11. Þar bjuggu þá hjónin Jónína Jónsdóttir og Guðmundur Benediktsson. Þau reyndust Unu mikil gæðahjón, sem áttu í reynd mikið stærra hjartarúm en húsrúm. Margt fólk í Eyjum varð til þess að leggja Unu Jónsdóttur hjálparhönd á þessum árum, sérstaklega margar konur.

Ung ég flutt var yfir sjó,
agnar lítil meyja.
Báran aftur bar mig þó
blessaðra til Eyja.

Kvenfélagið Líkn í Eyjum og ýmsar konur þar í fararbroddi reyndust Unu Jónsdóttur oft miklar hjálparhellur, veittu henni bæði fé og föt.

Fædd ég var í fátækt þó
Fell við Vestmannaeyja —,
óska bara í elli og ró,
að hér megi deyja.

Það var ekki sízt hjálpsemin og hjartagæzkan, er Una naut í Eyjum á þessum þrautatímum hennar, sem ollu því, að þessar óskir urðu til.
Árin 1912-1920 liðu. Flest árin þau var Una Jónsdóttir sjálfra sín með barnið. Hún leigði sér húsnæði á ýmsum stöðum í bænum. Fyrstu tvö árin var hún í Grafarholti. Einnig leigði hún íbúð t.d. í Fagurlyst og Nýlendu, og svo var hún einn vetur „eldabuska“ hjá Jóni Guðmundssyni í París. Á sumrum var hún í kaupavinnu með Sigurbjörgu litlu, oftast í Landeyjum.
Alltaf var það efst í huga Unu, eftir að hún fluttist til Eyja, að eignast eigið húsnæði þar. Hægara var að óska þess en koma því í framkvæmd, örsnauðri konu með barn á framfæri. Þó tókst Unu þetta með hjálp Guðs og góðra manna og kvenna, sem gáfu henni bæði peninga og dagsverk. Sjálf lagði hún ávallt fyrir árlega nokkrar krónur, í þessu skyni, eftir að hún kom til Eyja.
Árið 1920 var Sólbrekka við Faxastíg byggð. Þá hafði Una náð takmarki, sem veitti henni mikla ánægju og framtíðarvonir. Nú voru henni ýmsar fjáröflunarleiðir færar, sem áður voru lokaðar. Hún tók nú til að selja aðkomnum vertíðarmönnum fæði. Margir urðu þeir ekki í senn, svo þröng og rúmlítil sem Sólbrekka er, en samtals urðu matkaupamenn Unu um 100, og keyptu sumir þeirra fæði hjá henni 6—7 vertíðir samfleytt. Fæðið og þjónusta var þá oftast greitt með 3 krónum á dag, en Una þjónaði einnig mörgum þeim vertíðarmönnum, sem keyptu fæði hjá henni.
Dætur Unu, Jónína og Ástríður, dóu báðar uppkomnar og giftar. Sigurbjörg lézt á 16. ári. Allar dóu þær úr berklum.
Einn af fæðiskaupasveinum Unu var Guðmundur Guðlaugsson, Ölfusingur að uppruna, f. 12. júlí 1885. Hann kom til Eyja 1922. Þennan mann tók húsmóðirin í Sólbrekku að sér 1924 og bjó með honum í 36 ár, eða til hinztu stundar. Þau giftust ekki.
Þau Una og Guðmundur voru samhent og viljasterk til sjálfsbjargar. Á „ræktunaröldinni“ í Eyjum (1926-1939) ræktuðu þau stórt tún suður í Kinn í Sæfelli. Bæði unnu þau að túnræktinni. Margan hnullunginn losaði Una Jónsdóttir þar með litla járnkarlinum sínum, meðan Guðmundur fjarlægði grjótið og pældi. Meginið af túninu var unnið á frumstæðan hátt. Þetta tún sitt heyjuðu þau um árabil og leigðu sér tún til slægna mörg sumur. Mest höfðu þau á Sólbrekku 5 kýr í fjósi og 21 kind á fóðrum.
Guðmundur Guðlaugsson reyndist Unu í alla staði vel. Hann reyndist handlaginn og endurbætti Sólbrekku og hélt húsinu vel við.
Líknarlund Unu Jónsdóttur glæddist, er henni óx efnalegur styrkur og sjálfstæði. Hún tók að kynna sér grasalækningar og stunda þær með furðu góðum árangri. Fyrst í stað hamlaði grasalækningum hennar skortur á fróðleik í þeim efnum. En dag einn bar gest að garði á Sólbrekku. Sá bar með sér bók, sem fjallaði um notkun ýmissa grasa til lækninga. Hana las Una vel. Eftir það reyndist hún býsna slyng grasakona, sem fjölmargir leituðu ráða hjá í veikindaþrautum sínum. Alls munu nær 900 manns hafa leitað ráða hennar og notið lækninga hjá henni. Fráleitt myndu svo margir hafa gert það, ef árangur af grasalækningum Unu hefði aldrei reynzt neinn. Líknarhundin og hjálpsemin var Unu Jónsdóttur í blóð borin, enda átti hún ekki langt að sækja hana, ef við íhugum samúð þá og drenglund, sem móðir hennar, vinnukonan á Skurðbæ, ekkjan frá Dölum, sýndi og sannaði, er hún leysti af sér hyrnuna forðum til þess að hlýja að helköldu júfri kýrinnar, er getið er um í upphafi þessa greinarkorns. Una kvað:

Er það hjartans unun mín
ýmsra að létta pínu,
einhver þó að geri grín
að grasavatni mínu.

Una Jónsdóttir var einlæg trúkona, og bera kvæði hennar og vísur ljóst vitni um það. Velvildin og hugarhlýjan til alls og allra gagnsýrir kveðskap hennar.
Þess er fyrr getið, að Jón Magnússon, faðir Unu, var góður hagyrðingur. Hann átti safn kvæða, sem hann gaf Unu dóttur sinni á efri árum sínum og hún hugðist gefa út, er hún mætti því við koma. Kvæðasafn Jóns fór forgörðum á annarlegan hátt. Þessa hagyrðingsgáfu föður síns erfði Una Jónsdóttir. Hún hafði oft yndi af að gera vísu, ef tilefni gafst. Tvær litlar kvæðabækur komu út eftir hana. Sú fyrri kom út árið 1929. Þá kvæðabók kallaði hún „Vestmannaeyjaljóð“.
Síðari bók hennar, „Blandaðir ávextir“, kom út 1956. Báðar ljóðabækur sínar mun hún hafa gefið út sjálf.
Una skáldkona lézt 29. febrúar 1960. Séra Jóhann Hlíðar, sóknarprestur, jarðsöng hana 8. marz. Í ræðu, er prestur flutti við kistu hennar í Landakirkju sagði hann: „Sorgirnar fengu ekki beygt hana né gert sál hennar beiska vegna þess einfaldlega, að hún átti í hjarta sér ljós lifandi trúar og vonar... Með Unu er gengin góð, göfug og hrein sál, sem skírðist í eldi reynslunnar.“
Okkur, sem þekktum Unu skáldkonu bezt, finnst, að sóknarprestinum mælist hér vel og réttilega.
Að lokum birtir Blik nokkrar vísur eftir Unu skáldkonu.
Fólk í Eyjum hafði ávallt reynzt Unu vel:

Íbúunum Eyjanna
óska ég gleði um jólin;
bið þeim öllum blessunar,
björt þá hækkar sólin.

Hún eldist og allar dætur hennar eru dánar. Hún syrgir þær sárlega:

Æskan horfin er mér frá
og því langir tímar;
sitja ein í sorgum má;
svala mun ei neinni þrá;
dauðinn sótti dætur allar mínar.
———
Eflaust maður um það veizt,
ei þótt hafir grátið,
að oft er súrt og sætt og beiskt
í sumra bikar látið.


Hér við skiljast hljótum frá
hópnum barna og vina;
mun sú tíðin mikið smá
móts við eilífðina.

Trúin á annað líf:

Allt, sem andar, — allt sem bærist
um almættið vitni ber.
Allt, sem deyr, það endurfæðist,
öndin því ódauðleg er.

Túnið okkar Guðmundar suður í Kinn:

Túnið okkar, blessuð brekkan —
brjóstin mæðir stundum of, —
þykir falleg; þar um rekkar
þrátt Guðmundi tala lof.


Síðast liðið hundrað hesta
höfðum við yfir sumarið.
Orkuna má ekki bresta,
ef því verður haldið við.

Brosað gegnum tárin:

Ef þér svíða, elsku fljóð,
illa menguð sárin,
blessuð reyndu blíð og góð
að brosa gegnum tárin.
———
Oft þá sýnist glöð í geði
á göngu minni hér,
blandað saman beiskju og gleði
í bikar lífsins er.


Una kveður vini sína:

Halda þegar heim ég má
heims frá leiðu grandi:
óska ég vini alla sjá
inni' á dýrðarlandi.