Blik 1963/Saga sparisjóðanna í Vestmannaeyjum 1893-1963, fyrri hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 16. febrúar 2013 kl. 16:59 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 16. febrúar 2013 kl. 16:59 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


SAGA
sparisjóðanna í Vestmannaeyjum
1893-1963


Sparisjóður Vestmannaeyja 1893-1920.


Jón Magnússon, forsætisráðherra Íslands 1917-1922 og 1924 til dánardægurs, 26. júní 1926, var sýslumaður í Vestmannaeyjum 1891—1896. Þessi mæti maður markaði tvenn mikilvæg spor í menningarsögu byggðarlagsins þau 5 ár, er hann dvaldist þar.
Árið 1895 kom sýslumaður því til leiðar, að barnaskóli Vestmannaeyja veitti öllum börnum í hreppnum ókeypis skólavist. Áður höfðu nær einungis efnuðustu foreldrarnir tök á að greiða skólagjaldið, svo að börn þeirra gætu notið kennslu í skólanum.
Tveim árum áður beitti sýslumaður sér fyrir stofnun sparisjóðs í Vestmannaeyjum. Undirbúningur að stofnun hans fór fram sumarið 1893. Við stofnun sparisjóðsins kaus sýslumaður sér ötulan og traustan verzlunarmann, sem almenningur í hreppnum bar mikið traust til og verið hafði barnakennari þar undanfarin 7 ár, Árna Filippusson. Jafnframt barnakennslunni var hann „utanbúðarmaður“ hjá J.P.T. Bryde, hinum danska selstöðukaupmanni í Eyjum. Árni var talinn heiðarlegur maður í öllum viðskiptum, réttsýnn og áreiðanlegur. Þennan mann valdi sýslumaður til að vera gjaldkera sparisjóðsins, þar sem hann hafði ekki aðstöðu til að vera það sjálfur.
Síðan voru ábyrgðarmenn valdir, — 12 menn úr hópi hinna kunnustu og efnuðustu borgara sveitarfélagsins. Jafnframt var landshöfðingja skrifað og hann beðinn um réttindi sparisjóðnum til handa samkvæmt tilskipan dags. 5. jan. 1874. Lög voru samin sparisjóðnum og fleiri þættir að undirbúningi stofnunarinnar áttu sér stað. Loks 28. ágúst 1893 boðaði sýslumaður alla hina afráðnu ábyrðarmenn á fund, þar sem endanlega var gengið frá stofnuninni, sjóðnum samþykkt lög og reglur, sem ábyrgðarmennirnir rituðu nöfn sín þá undir og skuldbundu sig þar með til ábyrgðarinnar.
Í september 1893 barst stjórninni bréf frá landshöfðingjanum, þar sem hann veitti Sparisjóði Vestmannaeyja starfsréttindi næstu 5 árin. Um þessi réttindi þurfti síðan að sækja til landshöfðingja á 5 ára fresti. Þau voru kölluð hlunnindaleyfi. Var þá hægt að vinda bug að því að leggja síðustu hönd á stofnun Sparisjóðsins, svo að hann gætí tekið til starfa í síðasta lagi um næstu áramót.

LÖG
Sparisjóðs Vestmannaeyja.


1. gr.

Sparisjóðurinn er stofnaður til að geyma og ávaxta peninga fyrir Vestmannaeyinga; þá tekur hann og geymslufé af öðrum mönnum með sömu kostum sem af Vestmannaeyingum.
Stjórnendur sjóðsins skulu eiga heima í Vestmannaeyjum.

2. gr.

Til tryggingar því, að geymslufé samlagsmanna verði eigi glatað og að sjóðurinn standi í skilum, skal hann hafa eigi færri en 12 ábyrgðarmenn, er skuldbinda sig til að ábyrgjast 100 krónur hver með ekki skemmri fresti en ársfresti til uppsagnar ábyrgðinni. Ábyrgðarbréfin skal geyma hjá hreppsnefnd Vestmannaeyjahrepps og færa endurrit af þeim inn í gjörðabók sparisjóðsins.
Nú deyr ábyrgðarmaður eða segir upp ábyrgð sinni, og skal þá forstöðunefnd sparisjóðsins fá til annan ábyrgðarmann í hans stað.

3. gr.

Ábyrgðarmenn sparisjóðsins skulu eiga með sér aðalfund einu sinni á ári í miðjum janúar. Á fundi þessum skal rannsaka bækur, skjöl og peninga sjóðsins og gjöra ályktanir um þau málefni hans, sem þörf er á að útkljá. Skal þá framleggja reikning sjóðsins fyrir umliðið almanaksár undirskrifaðan af stjórn sjóðsins. Á aðalfundi kjósa ábyrgðarmenn ár hvert úr sínum flokki þrjá menn í forstöðunefnd sparisjóðsins, formann, varaformann og gjaldkera. Til aukafundar kveður formaður, þá er honum lízt, og skylt er honum að halda aukafund, ef helmingur ábyrgðarmanna æskir þess. Þá er fundur lögmætur, er 2/3 ábyrgðarmanna eru á fundi, en engin ályktun er gild, nema meiri hluti atkvæðisbærra fundarmanna samþykki.
Samlagsmenn, sem eiga 100 kr. eða meira í sjóðnum, eiga rétt á að vera á fundum, en atkvæðisrétt hafa ábyrgðarmenn einir.

4. gr.

Formaður hefur aðalumsjón á fé sjóðsins, kemur því á vöxtu gegn fasteignaveði eða annarri áreiðanlegri ábyrgð, sem forstöðunefndin samþykkir, og innheimtir lánsfé aftur á gjalddaga. Hann kveður til funda, stýrir þeim og heldur gjörðabók sjóðsins. Enn fremur semur hann eftir aðalfund stutt yfirlit yfir hag sjóðsins um árslok og leggur það fram á hentugum stað í Vestmannaeyjum, svo að almenningur geti kynnt sér það. Hafi formaður eða gjaldkeri forfall, tekur varaformaður við störfum hans.

5. gr.

Gjaldkeri tekur á móti því, sem lagt er eða goldið inn í sjóðinn og borgar út úr honum, geymir peninga þá, sem eigi eru á vöxtum, og annað endurrit skuldabréfa sjóðsins, en þau skulu ætíð í tvennu lagi, og hefur formaður hitt.
Gjaldkeri heldur tvær embættisbækur: 1. reikningabók um viðskipti þeirra, er leggja fé í sjóðinn eða fá fé úr honum, og um aðrar tekjur og gjöld sjóðsins; 2. sjóðbók um allar innborganir og útborganir í samfelldri röð.

6. gr.

Hver, sem leggur peninga í sjóðinn, fær fyrir sanngjarnt verð viðskiptabók, er gjaldkerinn ritar í reikning þess, er hlut á í máli (sic), jafnskjótt sem hann ritar í reikningabókina og samhljóða því. Viðskiptabók gildir sem samningur við sjóðinn, þegar hún er löggilt af tveimur úr stjórnarnefndinni og undirrituð af gjaldkera.

7. gr.

Af því fé, sem lagt er í sjóðinn, verður ekki byrjað að reikna vöxtu fyrr en mánuði síðar en það er lagt í hann. Vextir eru 3,6 af hundraði um árið.
Við hver árslok skal gera upp reikninga sjóðsins, og skulu vextirnir lagðir við innstæðuna og ávaxtaðir með henni, ef eigandi eigi hefur vitjað vaxtanna fyrir lok janúar á eftir.
Vextir verða eigi goldnir af minni inneign en 4 krónum.

8. gr.

Nú vill sá, er fé á í sjóðnuin, fá það útborgað, og skal hann þá heimta það með fjögurra mánaða fyrirvara, nema féð sé 10 krónur eða minna, því að þá getur hann fengið það á mánaðarfresti.
Eftir gjalddaga er engum vöxtum svarað af uppsögðum höfuðstól.
Forstöðunefnd sjóðsins á rétt á að heimta, að við uppsagnarfé sé tekið, þegar er því er sagt upp eða innan skemmri tíma en ákveðið er. Sjóðurinn þarf eigi heldur að svara vöxtum lengur en til þess dags, er borgun er boðin.

9. gr.

Ef sérlegar ástæður eru fyrir hendi, má neita inntöku á fé í sjóðinn eða gjöra það að skilyrði, að féð skuli standa óhreyft í sjóðnum allt að einu ári og að því verði eigi sagt upp með skemmri fresti en allt að 8 mánaða.

10. gr.

Af ágóða sjóðsins skal borga allan kostnað við stjórn sjóðsins, en afganginn skal leggja í varasjóð meginsjóðnum til styrktar, ef hann skyldi verða fyrir fémissi.

11. gr.

Forstöðumenn sjóðsins mega ekki taka lán úr sjóðnum eða ábyrgjast.

12. gr.

Lög þessi skulu innfærð í gjörðabók sjóðsins og ábyrgðarmenn skrifa undir þau.

Vestmannaeyjum,
29. ágúst 1893.

Undirskrift 12 ábyrgðarmanna:

1. Jón Magnússon, sýslumaður.
2. Þorsteinn Jónsson, héraðslæknir.
3. J.P. Bjarnasen, verzlunarstjóri.
4. Anton Bjarnasen, verzlunarmaður.
5. Gísli Engilbertsson, verzlunarstjóri.
6. Árni Filippusson, verzlunarmaður.
7. Gísli Stefánsson, kaupmaður.
8. Jón Ingimundarson, þurrabúðarmaður, Sjólyst.
9. Guðmundur Þórarinsson, bóndi, Vesturhúsum.
10. Ólafur Magnússon, bóndi, London.
11. Sigurður Sigurfinnsson, bóndi, Dalbæ.

Síðari stofnfundur Sparisjóðsins var haldinn 28. okt. 1893. Þessi fundur afréð, að sjóðurinn skyldi taka til starfa um næstu áramót. Þá skyldu innlán og útlán hefjast.
Fyrstu 3 vikurnar, sem Sparisjóðurinn starfaði (3. jan. til 24. jan. 1894) kepptust Eyjabúar við að leggja inn í hann alla þá peninga, sem þeir gátu við sig losað, svo að þeir fengju leigu eftir þá, — vexti. Alls voru þá lagðar inn í Sjóðinn kr. 1.001,06 í sparifé. Á sama tíma var veitt eitt lán, sem nam kr. 300,00.
Tveir menn lögðu þá kr. 100,00 hvor inn á bók. Þeir voru hæstir og taldir auðmenn, sem fengu þau sérréttindi í krafti auðs síns að mega sitja aðalfundi Sparisjóðsins, samkv. 2. gr. laganna, enda þótt þeir væru ekki ábyrgðarmenn hans.
En nú vönduðust fjármálin fyrir stjórn Sparisjóðsins, því að enginn sótti eftir láni úr sjóðnum nema þessi eini aðili, sem ég veit ekki, hver var. Þessar 6—700 krónur, sem gjaldkerinn lá með í sjóði, gengu því ekki út en urðu „ómagar“ á stofnuninni, sem hún hafði heldur engin tök á að framfæra eða gefa með. Þess vegna kom það þegar til tals innan stjórnarinnar, að senda fé þetta til Reykjavíkur og ávaxta það í sparideild Landsbankans fyrst um sinn.
Innlánsvextir voru fyrst í stað eins og lögin mæltu fyrir, 3,6%, en aðalfundur gat breytt þeim eftir vild og ekið seglum eftir vindi í þeim efnum, hagað þeim eins og bezt henti hag stofnunarinnar.
Eftir tveggja ára rekstur lækkaði stjórnin innlánsvextina í 3 1/4% til þess m.a. að draga úr innlögnum manna, þar sem spurn eftir lánsfé var svo að segja engin og þess vegna hætta á rekstrartapi á innstæðufénu, nema það væri endurávaxtað í Landsbankanum eða Íslandsbanka í Reykjavík. Þessir erfiðleikar sparisjóðsstjórnarinnar við að ávaxta innstæðuféð tala sínu máli og gefa bezt til kynna þá deyfð og þann drunga, sem hvíldi yfir öllu atvinnu- og menningarlífi sveitarfélagsins í Vestmannaeyjum fyrir og um aldamótin síðustu eftir margra alda áþján danskra einokunar- og selstöðukaupmanna, allur framtakshugur drepinn í dróma, athafnadirfska koðnuð, — vonleysi og hugleysi hvarvetna ríkjandi, engir peningar í umferð; — lánsverzlun og skuldafjötrar heltaka allt og hamla allri þróun og öllum vexti mannsæmandi lífs.

10 ára starf.
Árið 1904, 21. febrúar, var haldinn markverður aðalfundur Sparisjóðsins. Þá hafði hann starfað í 10 ár, og var þá gefið yfirlit yfir rekstur hans þann tíma. Veltan á þessum 10 árum nam samtals kr. 100.000,00 eða að meðaltali kr. 10.000,00 á ári. Fyrsta árið, sem Sparisjóðurinn starfaði (1894), hafði veltan orðið kr. 2.461,00, en 10. árið (1903) kr. 26.000,00. Innlög ársins 1894 urðu samtals kr. 2.681,00, en við áramótin 1903-1904 námu sparisjóðsinnstæður Eyjamanna alls kr. 11.258,00 í Sparisjóðnum.
Sparisjóðurinn veitti fasteignalán, til 10 ára. Eitt sinn vildi stjórnin stytta þennan lánstíma í 5 ár, en það olli mikilli óánægju, svo að stjórnin hvarf aftur frá þeirri ákvörðun sinni.
Árið 1908 kaus aðalfundur fyrst endurskoðendur til þess að endurskoða reikninga Sparisjóðsins, því að ekki var gert ráð fyrir nokkurri sérstakri endurskoðun í lögum Sjóðsins. Til þess tíma hafði stjórnin yfirlitið reikningshaldið hjá gjaldkera sjóðsins. Endurskoðendur voru þá kosnir Gísli J. Johnsen, kaupmaður, og Anton Bjarnasen, verzlunarstjóri.
Um greiðslu fyrir endurskoðunarstarfið var ekki að ræða fyrstu 4 árin, en árið 1912 fengu þeir greiddar kr. 10,00 fyrir starfann og eftir það jafnan nokkrar krónur.
Sparisjóður Vestmannaeyja var ekki starfræktur í neinu sérstöku húsnæði. Meðan Árni Filippusson, gjaldkeri hans, hafði ekki staðfest ráð sitt, annaðist hann afgreiðslu Sjóðsins í íveruherbergi sínu.
Eftir að þau hjón byggðu Ásgarð, (búðarhús sitt við Heimagötu (nr. 29)), annaðist Árni afgreiðsluna í skrifstofu sinni heima í Ásgarði. Eins var þetta þau ár, sem Gísli Engilbertsson annaðist gjaldkerastörfin. Hann innti afgreiðsluna af hendi í skrifstofu sinni í verzlunarhúsi Julíushaabsverzlunarinnar á Tanganum.
Þegar á fyrstu tveimur árunum (1906 og 1907), sem vélbátaútgerðin átti sér stað, komu berlega í ljós yfirburðir hennar um aflamagn og arð af útgerð miðað við útgerð opnu skipanna. Gífurlegur vöxtur, líf og kapp hljóp því í útgerð Eyjamanna með tilkomu vélbátanna. Skortur fjármagns í Eyjum varð því mjög tilfinnanlegur. Brátt kom að því, að Sparisjóður Vestmannaeyja gat hvergi nærri fullnægt eftirspurn um lánsfé og þörf atvinnulífsins á veltufé. Báðir kaupmennirnir Gísli J. Johnsen og J.P.T. Bryde gerðu sitt til að hjálpa mönnum til að eignast hluti í nýjum vélbátum. Ýmist lánuðu þeir mönnum þessum eigið fé eða útveguðu þeim bankalán til bátakaupanna. Yfirleitt batnaði hagur manna stórlega við aukna vélbátaútgerð. Framtakshugur óx þá einnig og athafnaþrá. En fjármagn er afl þeirra hluta sem gera skal. Brátt gat nú Sparisjóður Vestmannaeyja á engan hátt fullnægt þörfum Eyjamanna um lánsfé til bátakaupa, reksturs og húsbygginga.
Árið 1911, 6. okt., var haldinn aðalfundur Sparisjóðsins fyrir árið 1910. Á fundi þessum var mikið rætt um skortinn á fjármagni til aukinnar útgerðar og húsbygginga í Eyjum. Loks var á fundi þessum gjörð einróma samþykkt um það að fela stjórninni að útvega lánsfé handa Sparisjóðnum úr öðrum hvorum bankanum í Reykjavík. Ekki munu bankarnir hafa tekið vel þessari málaleitan Eyjamanna. Tók þá að vakna vilji manna um stofnun bankaútibús í Eyjum í þeirri von, að aukið fjármagn flyttist með því inn í sveitarfélagið. Ekki var stofnun þess auðsóttara mál en svo, að hugsjón þessi rættist fyrst að 9 árum liðnum.
Ábyrgðarfé hvers ábyrgðarmanns nam 100 krónum samkv. 2. gr. laganna. Samkvæmt sömu grein gat ábyrgðarmaður sagt upp ábyrgð sinni með eins árs fyrirvara. Þá varð stjórnin að útvega Sparisjóðnum annan ábyrgðarmann í stað hins, svo að ábyrgðarmennirnir yrðu aldrei færri en 12. Eins var það, ef ábyrgðarmaður féll frá.
Hér verður farið nokkrum orðum um þau ábyrgðarmannaskipti, sem áttu sér stað þau 26 ár, sem Sparisjóður Vestmannaeyja, hinn eldri, var starfræktur.
Guðjón Jónsson í Sjólyst drukknaði árið 1896. Það ár var Magnús Jónsson cand. juris frá Laugabóli í Norður-Ísafjarðarsýslu skipaður sýslumaður í Vestmannaeyjum. Hann gerðist ábyrgðarmaður Sparisjóðs Vestmannaeyja í stað Guðjóns Jónssonar.
Sama ár (1890) sagði Anton Bjarnasen, verzlunarstjóri, upp ábyrgð sinni. Þá gerðist Gísli gullsmiður Lárusson í Stakkagerði ábyrgðarmaður. Árið 1900 fluttist Jóhann P. Bjarnasen, bróðir Antons, burt úr Eyjum. Kom þá bróðir bróður í stað; Anton gerðist aftur ábyrgðarmaður Sparisjóðs Vestmannaeyja.
Árið 1903 lézt Gísli Stefánsson, kaupmaður í Hlíðarhúsi. Þá varð Gísli J. Johnsen, kaupmaður, hinn væntanlegi tengdasonur hjónanna í Hlíðarhúsi, ábyrgðarmaður Sparisjóðsins.
Árið 1904 lézt Ólafur Magnússon bóndi í London. Í hans stað gerðist Magnús Ísleifsson, trésmíðameistari, ábyrgðarmaður.
Árið 1900 sagði Þorsteinn læknir af sér ábyrgðaraðild, þar sem hann hugðist þá segja af sér héraðslæknisembættinu og flytja burt úr sveitarfélaginu, sem hann og gerði. Í stað hans fékk stjórn sparisjóðsins Þórarin Gíslason Engilbertssonar.
Árið 1908 fluttist Magnús sýslumaður Jónsson burt úr Eyjum og gerðist bæjarfógeti í Hafnarfirði og sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu. Bætti stjórn sparisjóðsins þá þrem mönnum við ábyrgðarmannatöluna, þeim Halldóri Gunnlaugssyni, héraðslækni, og þurrabúðarmönnunum Friðriki Svipmundssyni og Þorsteini Jónssyni í Laufási.
Á aðalfundi sparisjóðsins 3. okt. 1915 óskaði Gísli Engilbertsson að vera leystur frá ábyrgðinni sökum lasleika og elli. Fundarmenn þökkuðu honum einróma fyrir vel unnin störf í þágu sparisjóðsins í meir en 20 ár. Stjórnin fékk Magnús bónda Guðmundsson á Vesturhúsum ábyrgðarmann í stað Gísla Engilbertssonar.
Guðmundur Þórarinsson, bóndi, lézt 1916. Þá bætti stjórn Sparisjóðsins tveim ábyrgðarmönnum við, þeim séra Jes A. Gíslasyni, verzlunarstjóra, og Gísla Magnússyni, útgerðarmanni í Skálholti.

Stjórnendur og starfsár þeirra.
Jón sýslumaður Magnússon var kosinn formaður Sparisjóðs Vestmannaeyja á aðalstofnfundi hans. Sýslumaður gegndi því trúnaðarstarfi árin 1893-1896, er hann flutti burt úr Eyjum.
Árni verzlunarmaður Filippusson gerðist þegar í upphafi gjaldkeri Sparisjóðsins. Því starfi gegndi hann árin 1893—1897, en þá fluttist Árni burt úr Eyjum um nokkurt skeið. Til Eyja fluttist hann aftur 1901 og var þá á ný ráðinn gjaldkeri Sjóðsins. Það ábyrgðarstarf innti hann síðan af hendi, þar til Sparisjóðurinn hætti störfum 1920.
Gísli Engilbertsson, verzlunarstjóri Júlíushaabverzlunarinnar, var varaformaður Sparisjóðsins árið 1893-1897. Þá tók hann að sér gjaldkerastarfið, þegar Árni hvarf úr Eyjum. Gjaldkerastarfinu gegndi hann árin 1897—1901, er Árni tók aftur við því.
Þorsteinn Jónsson, héraðslæknir, var kosinn formaður Sparisjóðsins 1896, er Jón sýslumaður fluttist burt úr Eyjum. Þorsteinn læknir var formaður aðeins eitt ár. Þá skoraðist hann undan endurkosningu. Var hann þá kosinn varaformaður Sjóðsins. Það var hann síðan árin 1897-1906, en þá hugði hann til brottfarar úr sveitarfélaginu, með því að hann hafði þá sagt af sér héraðslæknisembættinu.
Magnús sýslumaður Jónsson gerðist ábyrgðarmaður Sparisjóðsins, er hann varð sýslumaður í Eyjum (1896), eins og áður segir. Árið 1897 var hann kosinn formaður Sjóðsins. Það var hann síðan til ársins 1908, er hann var skipaður bæjarfógeti í Hafnarfirði og sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu.
Þórarinn Gíslason, verzlunarmaður, sonur Gísla Engilbertssonar, var varaformaður Sparisjóðsins 1906-1910.
Halldór héraðslœknir Gunnlaugsson tók við formennsku Sparisjóðsins 1908, er Magnús sýslumaður hvarf brott úr Eyjum. Hann var það aðeins eitt ár. Þá varaformaður 1910-1920.
Gísli J. Johnsen, útgerðar- og kaupmaður, tók að sér formennsku Sparisjóðsins 1910. Hann var það síðan síðustu 10 árin eða þar til Sparisjóðurinn hætti störfum. Það varð því hans hlutskipti fremur en annarra að fá stofnsett bankaútibú í Eyjum.
Eftir aðalfundinn 6. okt. 1911, sem áður getur, hreyfði Gísli J. Johnsen því þegar við bankaráðin í Reykjavík, að bankaútibú yrði stofnsett í Eyjum og bauð það, samkv. vilja ábyrgðarmanna, að Sparisjóðurinn yrði sameinaður því. Næstu 5 árin hlaut þessi málaleitan litla áheyrn.
Á aðalfundi Sparisjóðsins 8. okt. 1916 var enn til umræðu hinn tilfinnanlegi skortur Eyjamanna á veltufé til hraðvaxandi vélbátaútgerðar, þrátt fyrir vaxandi innlög Eyjamanna í Sparisjóðinn sökum síbatnandi efnahags. Nokkrar tölur árétta þessar fullyrðingar mínar. Árið 1910 ganga 46 vélbátar frá Eyjum. Svo ör var fjölgun þeirra fyrstu 4 árin. Árið 1920 voru vélbátarnir orðnir 68. Á þessum áratug óx ársafli Eyjamanna úr 8.000 skippundum af fullverkuðum fiski í 18.600 skippund.¹ ¹ Heimild: Aldahvörf í Eyjum. (Þ.J.)

Á aðalfundi þessum gjörðu ábyrgðarmennirnir svofellda ályktun:
„Fundurinn felur Gísla konsúl Johnsen, formanni Sparisjóðsins, að leita fyrir sér hjá bönkunum í Reykjavík og semja við annan hvorn þeirra, — ef þess er kostur, — helzt þó Íslandsbanka, — um stofnun útibús hér hið fyrsta, þannig að Sparisjóðurinn renni saman við það, með því að fundurinn álítur það hagkvæmara Eyjabúum. Og jafnframt, ef til samninga kæmi um slíkt útibú, felur fundurinn sparisjóðsstjórninni að sækja um leyfi stjórnarráðsins til þess að Sparisjóðurinn mætti starfa á sama hátt og að undanförnu, þangað til slík samsteypa Sparisjóðsins og útibús á sér stað.
Gísli J. Johnsen hélt málinu vakandi og ámálgaði það sífellt við ráðandi menn. Því var jafnan vel tekið en framkvæmdir urðu enn engar.
Þegar Sparisjóðurinn tók til starfa, tók Árni Filippusson að sér gjaldkerastarfið án endurgjalds. Árslaun hans fyrir það starf voru jafnan afráðin eftir á.
Þau voru þessi:

1895 kr. 10,00
1896 - 25,00
1897 - 25,00
1898 - 25,00
1899 - 25,00
1900 - 25,00
1901 - 25,00
1902 - 40,00
1903 - 100,00
1904 - 100,00
1905 - 180,00
1906 - 180,00
1907 - 300,00
1908 - 300,00
1909 - 300,00
1910 - 360,00
1911 - 400,00

Tölur þessar segja sína sögu. Hér voru fyrst og fremst hugsjónamenn að starfi, sem var starfið allt; innheimta fullra daglauna að kvöldi var þeim aukaatriði. Í rauninni fullheimti Árni aldrei nema lítinn hluta þeirra launa, sem honum bar fyrir ábyrgðarmikið starf.
Húsaleigu greiddi Sparisjóðurinn Árna Filippussyni fyrst 1911, og þá 40 krónur fyrir þau 15 ár, sem hann hafði verið gjaldkeri Sparisjóðsins og annazt afgreiðslu hans, fyrst í leiguherbergi sínu og síðan í skrifstofu sinni að Ásgarði, eftir að þau hjón byggðu það hús (1902).

Vaxtagreiðslur nokkur ár.

Ár Innlánsv. Útlánsv.
1894 3,6% 5%
1896 3 1/4% 4 1/4%
1901 3 1/3% 4 1/2%
1902 3 1/2% 4 1/2%
1903 3 1/2% 4 1/2%
1904 3 3/5% 5%
1917 6%

Hœsta lánið.
Eftir því sem ég veit bezt, var hæsta lán, sem Sparisjóðurinn veitti, veitt Vestmannaeyjahreppi til byggingar barnaskólahússins norðan Landakirkju.
Það nam fyrst kr. 50.000,00 og var veitt 20. júní 1916 til 20 ára. Ári síðar eða 20. ágúst 1917 veitti Sparisjóðurinn hreppnum viðbótarlán til skólabyggingarinnar kr. 10.000,00. Þá skipuðu þessir menn hreppsnefnd Vestmannaeyja: Högni Sigurðsson (Baldurshaga), Sveinn P. Scheving, Kristján Ingimundarson, Geir Guðmundsson og Símon Egilsson.

Bankaútibúið enn.
Á aðalfundi 1918, 31. maí, var formaðurinn beðinn sagna um það, hvað liði og ræki með stofnun bankaútibúsins frá öðrum hvorum bankanum í Reykjavík, helzt þó Íslandsbanka. Sagði formaður, að stjórn Íslandsbanka hefði jafnan tekið málaleitan þessari vel, en ýmsir erfiðleikar sökum heimsstyrjaldarinnar hindruðu enn framkvæmdir. Bankaráðið hafði því samþykkt að setja á stofn útibúið, sagði formaður. Jafnframt gat formaður þess, að alþingi hefði samþykkt að stofna í Eyjum útibú frá Landsbanka Íslands svo fremi, að Íslandsbanki gerði það ekki. Fundurinn fól einróma formanni Sparisjóðsins að halda máli þessu vakandi og knýja á um stofnun útibúsins.
Þegar aðalfundur Sparisjóðsins var haldinn 1919, 14. júní, höfðu engar framkvæmdir átt sér stað um stofnun bankaútibúsins.

Úr reikningum Sparisjóðsins.

Innlög alls 31. des 1894 kr. 2.682,00
lnnlög alls 31. des. 1903 - 11.258,00
Varasjóður 31. des. 1899 - 198,50
Varasjóður 31. des. 1900 - 257,23
Varasjóður 31. des. 1903 - 601,00
1917 Innlög alls á árinu kr. 113.068,04
Tekjur alls - 407.312,66
Gjöld:
Lánað á árinu alls kr. 137.215,35
Sparifé út alls - 105.350,93
Rekstrarkostnaður - 1.701,80
Eignir:
Skuldabréf fyrir lánum kr. 198.563,22
Eignir alls - 211.035,55
Skuldir:
Innlög 750 sparifjáreigenda kr. 191.406,65
Varasjóður - 10.350,81
1918 Innlög alls á árinu kr. 146.802,73
Tekjur alls - 448.069,39
Gjöld:
Lánað á árinu kr. 197.330,48
Sparifé út - 82.091,03
Reksturskostnaður - 2.152,50
Eignir:
Skuldabréf fyrir lánum kr. 234.396,48
Eignir alls - 280.485,30
Skuldir:
Innlög 825 sparifjáreigenda kr. 265.570,20
Varasjóður - 13.095.51

Þá samþykktu ábyrgðarmenn Sparisjóðsins að senda þá Gísla J. Johnsen og Árna Filippusson, formann og gjaldkera, til Reykjavíkur á fund stjórnar Íslandsbanka og leitast við að fá skýlaus svör hjá henni um stofnun útibúsins. För þessi bar þann árangur, að bankaútibúið var sett á stofn á næsta ári.
Á aðalfundi 1920, 31. maí, sem haldinn var í Ásgarði, heimili Árna Filippussonar, gjaldkera, var rætt um, hvernig verja skyldi varasjóði sparisjóðsins, þegar hann hætti að fullu störfum. Sjóðurinn nam kr. 17.400,00. Helzt var hallazt að því, að leggja hann í væntanlegan byggingarsjóð sjúkrahúss í Eyjum. Stjórn Sparisjóðsins var falið að koma síðar fram með tillögu um það, hvernig verja skyldi varasjóðnum.
Þá var rætt um, hvernig ráðstafa skyldi þrem hlutum, sem Sparisjóðurinn átti, þ.e. peningaskáp, skrifborði og peningakassa. Samþykkt var einróma að gefa gjaldkera muni þessa í uppbót á lítil og engin laun í mörg ár.
Það varð að samkomulagi, að hið nýstofnaða útibú Íslandsbanka í Eyjum skyldi taka að sér allar skuldbindingar Sparisjóðs Vestmannaeyja og eignir frá 1. jan. 1920. Þar með hætti Sparisjóðurinn störfum.

Vísir að byggingarsjóði sjúkrahúss.
Þegar hér er komið máli þessu, hugleiðir fyrrverandi formaður Sparisjóðsins, Gísli J. Johnsen, hvernig varasjóði hans, sem ekki var enn handbær, yrði bezt varið til hagnaðar byggðarlaginu í heild og til menningar. Hann minntist hugmyndar þeirrar, er fram kom á síðasta aðalfundinum, sem haldinn var í Ásgarði 31. maí. Hún var sú, að varasjóðnum yrði varið til stofnunar á byggingarsjóði sjúkrahúss í Eyjum. Við þessar hugleiðingar fæddist með Gísla J. Johnsen djarfleg og stórhöfðingleg hugsjón. Hann afréð að beita sér fyrir byggingu sjúkrahússins, safna fé til þess og leggja sjálfur af mörkum fúlgur fjár til þess að hugsjónin mætti verða að veruleika.
Fjögur ár liðu og allt lá í þagnargildi um varasjóðinn, enda var hann ekki handbær, þegar Sparisjóðurinn var sameinaður bankaútibúi Íslandsbanka 1920.
Samt vann Gísli J. Johnsen látlaust að hugsjón sinni.
Fimmtudaginn 24. apríl 1924 kvaddi hann fyrrverandi meðstjórnendur sína í sparisjóðsstjórninni á fund sinn, þá Árna gjaldkera Filippusson og Halldór lækni Gunnlaugsson. Sá fundur var haldinn að Breiðabliki, heimili Gísla. Þar bar hann fram þá tillögu, að varasjóðurinn yrði látinn renna í byggingarsjóð sjúkrahúss, sem þau hjón, Gísli og Ásdís Gísladóttir Stefánssonar, ætluðu að beita sér fyrir að byggt yrði í Vestmannaeyjum eftir teikningu, sem Rögnvaldur sál. Ólafsson hafði gjört og hlotið hafði samþykki landlæknis og beggja læknanna í Eyjum. Tillaga þessi var samþykkt með ánægju. Þrem dögum síðar kvaddi fyrrv. stjórn Sparisjóðsins alla fyrrv. ábyrgðarmennina á fund sinn til að fjalla um tillöguna varðandi varasjóðinn. Þeir samþykktu hana einróma. Nú lét fyrrv. formaður ekki sitja við orðin tóm eða samþykktir. Heldur hófst hann handa um byggingarframkvæmdirnar og gat afhent Vestmannaeyjakaupstað sjúkrahúsið árið 1927 með öllum gögnum og gæðum. Mikið fé hafði honum áskotnazt í byggingarsjóðinn víða að, en mest höfðu þau hjón sjálf látið af mörkum til byggingarinnar, hennar sjálfrar og alls innbús. Saga þess mikilvæga og markverða framtaks þeirra hjóna verður að sjálfsögðu ítarlega skráð, þá tímar líða.
Funi kveikist af funa stendur á gildum stað í íslenzkum bókmenntum. Hinn litli varasjóður Sparisjóðs Vestmannaeyja varð vísir til framkvæmda á stórkostlegri hugsjón, sem fjöldi manna og kvenna innan Eyja og utan hefur notið í sárum og sjúkdómum undanfarin þrjátíu og 35 ár.

Síðari hluti