Blik 1963/Ögmundur Ögmundsson í Landakoti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 7. október 2013 kl. 17:48 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 7. október 2013 kl. 17:48 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Ögmundur Ögmundsson
Landakoti


Ögmundur Ögmundsson (Hannes Hansson frá Hvoli, fóstursonur hjónanna í Landakoti, hefur gefið Byggðarsafni Vestmannaeyja málverk af Ögmundi fóstra sínum. Hér með eru Hannesi færðar alúðarþakkir fyrir þá góðu gjöf).


Þessi mynd er ein sú fyrsta, er við fundum markverða, þegar greining hófst hjá okkur á ljósmyndasafni Kjartans heitins Guðmundssonar. Myndin vakti þegar athygli mína, — ekki aðeins hin gömlu sjóklæði, stakkurinn, brókin, sjóskórnir, sjóhatturinn. Engu minna fannst mér andlit gamla mannsins draga að sér athygli mína. Það er eins og manngæðin og göfugmennskan skíni af því, þessu aldraða sjómannsandliti. „Hver er þetta?“ spurði ég „Eyjaspeking“ í Byggðarsafnsnefnd. „Þekkirðu ekki þennan? Hann var þó lífs og búsettur hér í nokkur ár, eftir að þú fluttir hingað.“ Nei, ég kom honum ekki fyrir mig.
Myndin reyndist vera af Ögmundi Ögmundssyni, sjómanni í Landakoti.
Blik lét síðan gera prentmynd af þessum gæðalega öldungi með þeirri ætlan að kynna hann eilítið lesendum sínum og geyma nafn hans „á viðkunnanlegum stað“, eins og skáldið segir um kerlinguna og sálina hans Jóns hennar.
Ögmundur Ögmundsson fæddist að Reynisholti í Mýrdal 2. ágúst 1849.
Haustið 1866 eða fyrir vertíð 1867 mun Ögmundur fyrst hafa komið til Vestmannaeyja. Þá var hann á 18. árinu. Hann réðst þá háseti á áttæringinn Gideon hjá Árna Diðrikssyni bónda og formanni í Stakkagerði. Með Árna reri hann 2 vertíðir. En árið 1869 á vetrarvertíð, gerðist Hannes Jónsson, síðar hafnsögumaður, formaður á Gideon, þá 17 ára gamall. Með Hannesi Jónssyni á Gideon reri Ögmundur Ögmundsson síðan 36 vetrarvertíðir. Þannig var Ö.Ö. háseti á Gideon samfleytt 38 vertíðir.
Fyrstu árin, sem Ögmundur reri hér á vetrarvertíðum, hvarf hann að vorinu heim í átthagana og stundaði heyskap á sumrin. En 1871 flytur hann alfarið til Eyja og verður þar heimilisfastur. Faðir Ögmundar var einnig Ögmundsson.
Hann var ekkjumaður þegar hér er komið ævi þeirra feðga, 63 ára gamall, ef treysta má kirkjulegum heimildum (fæddur 1808). Það ár, sem Ögmundur yngri gerðist heimilisfastur í Eyjum eða hið næsta, fluttist faðirinn einnig til Eyja og fékk inni í Stakkagerði fyrir orð og beiðni sonarins hjá þeim hjónum Árna og Ásdísi Jónsdóttur. Þau veittu honum húsaskjól og alla aðhlynningu í skjóli sonarins, sem þau mátu svo mikils, sökum dugnaðar og mannkosta, og vildu honum hjálpa til að létta föðurnum tilveruna, sem ekki var fullvinnufær lengur sökum lúa og lasleika.
Árið 1868 fluttist til Eyja 31 árs gömul sæta frá Akurey í Landeyjum, ættuð úr Þykkvabænum. Hún hét Vigdís Árnadóttir, tápmikil tróða, tiltakasöm og mannkostakona mikil. Vigdís hafði vissulega þá skoðun — og trú, — sem algeng var þá, að engin örvænta skyldi innan þrjátíu og sex. Fyrst réðst hún vinnukona til Jóns bónda Vigfússonar í Túni, sem það ár fékk byggingu fyrir þessari Kirkjubæjarjörð og hóf þar búskap. Síðar gerðist Vigdís vinnukona hjá hjónunum í Stakkagerði, Árna hreppstjóra Diðrikssyni og frú Ásdísi Jónsdóttur. Þar varð Vigdísi Árnadóttur að trú sinni, því að ekki hafði hún lengi dvalizt þar, er Ögmundur háseti tók að gera hosur sínar grænar fyrir henni. Þau hrifust hvort af öðru og felldu hugi saman. Og innri loginn brann með þeim Vigdísi og Ögmundi bæði í orði og á borði, svo að Ásdísi húsmóður þeirra þótti nóg um, enda þótt henni fyndist mikill jöfnuður með þessum vinnuhjúum sínum, sem hún mat mikils og virti sökum dugnaðar, góðrar manngerðar og veglyndis í daglegum samskiptum og önnum. Og ávextir logans helga létu ekki lengi á sér standa hjá þeim Ögmundi og Vigdísi, því að 1. desember 1873 fæddi Vigdís Ögmundi einkar efnilegt meybarn, frítt og föngulegt. Séra Brynjólfur Jónsson, sóknarprestur að Ofanleiti, hneykslaðist yfir þessari lausung og skráði „fyrsta legorðsbrot“ þeirra beggja í Kirkjubókina, en fólkið gladdist yfir innilegri hamingju og einlægri ást foreldranna og fullnægðri móðurþrá konuhjartans. Stúlkan litla var skírð Þóranna. Sökum hins bágborna efnahags foreldranna treystust þau ekki til að ganga í hjónaband að svo stöddu. Þó hófu þau hokur og fengu inni í tómthúsinu Fagurlyst. Að 4 árum liðnum (1877) gifti prestur þau Ögmund og Vigdísi. Þá var hann 28 ára og hún 39 eða nærri fertug.
Enn bjuggu þau hjón um árabil í Fagurlyst eða til ársins 1886. Þá byggðu þau sér lítinn bæ, sem þau kölluðu Landakot. Veggir voru úr torfi og grjóti, eins og tíðast gerðist þá í Eyjum. Þak var gjört úr viði lagt tjörupappa. Risið var hátt og sneri stafn með glugga gegn suðri.
Hjá þeim hjónum var framvegis á framfæri Ögmundur Ögmundsson, faðir húsbóndans. Hann var þá 78 ára, er þau fluttu í Landakot. Eins og áður getur reri Ögmundur í Landakoti 38 vertíðir á áttæringnum Gideon, eftir því sem Hannes Jónsson, formaður hans, tjáði samferðamönnum sínum löngu síðar.
Vetrarvertíðin 1905 mun hafa verið hin síðasta er Gideon gekk til fiskjar. Eftir þá vertíð hætti Ögmundur í Landakoti sjómennsku á vetrarvertíðum. Enn hélt hann áfram að róa til fiskjar á vorin og sumrin. Meðan hann var háseti á Gideon, reri hann nokkur sumur fyrir og um aldamótin á Hannibal hjá Magnúsi Guðmundssyni bónda og formanni að Vesturhúsum.
Árið 1907 eignaðist Ögmundur í Landakoti 1/10 hluta í v/b Vestmannaey, VE 104, með Sigurði Ingimundarsyni í Skjaldbreið. Sá bátur hvarf í hafið tveim árum síðar (1909). Ári síðar keyptu sömu menn o.fl. annan vélbát. Það var Gnoð, VE 143. Einnig í þeim vélbáti eignaðist Ögmundur 1/10 hluta. Sigurður Ingimundarson var eigandi að 3/10 hlutum í bátum þessum.
Sigurður Ingimundarson, Ögmundur í Landakoti og meðeigendur þeirra í v/b Gnoð ruddu brautir í Eyjum um útbúnað vélbáta. Fyrstir manna þar létu þeir setja skýli eða stýrishús á vélbát sinn, eftir því sem mér er tjáð og er reyndar skráð hjá Þ.J. í Laufási í bók hans Aldahvörf í Eyjum.
Eftir að Ögmundur í Landakoti hætti sjómennsku og eignaðist hlut í vélbát mun hann hafa gert að aflahlut sínum á vetrarvertíðum meðan kraftar leyfðu.
Árið 1881 tók Ögmundur í Landakoti á leigu hið svokallaða Nýjatún (sjá um það greinarkorn hér á eftir). Þetta tún heyjaði hann síðan hvert sumar, og höfðu þau hjón eina kú og um 20 kindur. Afnot hans af túni þessu og nytjum olli því, að þau hjón byggðu sér bæinn sinn, þar sem húsið nr. 51 við Strandveg stendur nú.
Tveir kunnir Eyjamenn ólust upp hjá hjónunum í Landakoti. Það voru þeir Þorbjörn Arnbjarnarson, Vesturvegi 15 B, bróðursonur Ögmundar, og Hannes Hansson, útgerðarmaður, sem lengi bjó á Hvoli hér. Báðir komu þeir til hjónanna á 1. ári, en Þorbjörn mun vera 7 árum eldri. Hann varð eftir hjá þeim hjónum, er foreldrar hans afréðu Ameríkuför, sem þó varð ekki farin sökum þess, að farkosturinn brást.
Vigdís Árnadóttir, húsfreyja í Landakoti, lézt nokkru eftir aldamótin. Ögmundur Ögmundsson lézt 8. okt. 1932, rúmlega 83 ára.
Þóranna Ögmundsdóttir, einkadóttir þeirra hjóna, fæddist eins og fyrr segir 1. des. 1873. Séra Stefán Thordersen fermdi hana í Landakirkju 27. maí 1888. Hún giftist Sigurði Jónssyni, ættuðum af Vesturlandi, eftir því sem mér er tjáð. Hann drukknaði, er vélbáturinn Ísak fórst 2. febrúar 1911. Þá áttu þau hjón 4 börn í ómegð. Þau eru:
Ögmundur, útgerðarmaður, Hásteinsvegi 49,
Sigurjón, bifreiðastjóri, Vallargötu 18,
Sigurrós, búsett í Reykjavík og
Guðrún Sigurðardóttir, Blátindi hér í bæ.
Ögmundur og Vigdís í Landakoti voru mikil gæðahjón, sem margt fólk í Eyjum minnist enn með hlýhug og velvild, sérstaklega hans, sem lifði til ársins 1932, eins og fyrr segir.