Blik 1962/Þáttur spaugs og spés

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 1. september 2010 kl. 20:26 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 1. september 2010 kl. 20:26 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962



ctr
Tígulkóngarnir, sem annast ritstjórn þessa þáttar.


Leikhúskettirnir


Gerið svo vel, lesendur góðir, að virða fyrir yður einn af tígulkóngunum hérna fyrir ofan, þennan með pípuhattinn. Það eru ekki mörg ár síðan, að hann átti ríki sitt hér í Eyjum. Það var aðallega á fyrsta fjórðungi þessarar aldar. Það er góðkunningi hans, tígulkóngurinn lengst til vinstri, þessi með hattinn, sem segir þessa sögu. Dregin er fjöður yfir skírnarnöfnin.
Jóhannes E. Sakaríasson var það sem sumir kalla framtakssaman einstakling. Hann var alltaf að græða, að hann hélt lengi vel, og til þess að svo mætti verða, var hann alltaf að braska. Þannig vildi hann geta grætt með sem allra minnstri fyrirhöfn. „Útgerð getur vissulega gefið mér mikinn arð í aðra hönd,“ sagði hann, „en hún er svo stritsöm, að ég legg ekki í hana fjármuni.“ Svo braskaði herra Sakaríasson og braskaði, og var „stórlax“ um tíma, sem Eyjaskeggjar báru mikla virðingu fyrir, enda þá flestir sárfátækir sjálfir. Að því kom, að herra Sakaríasson tók að safna meiri skuldum en peningum. Þá mátti hann jafnvel ekki sýna sig á götu, án þess að á eftir honum þytu lánardrottnar hans eða reiðir viðskiptavinir, sem hann hafði svikið og prettað.
Eitt sinn þegar ég var nýkominn heim, kom herra Sakaríasson ákaflega mæðulegur á svip, fór úr frakkanum, tók af sér gljáandi pípuhattinn og hlammaði sér ofan í bezta hægindastólinn minn. Að því búnu stundi hann þungan og sagði:
„Nú er það svart, maður.“ Síðan sagði hann ekkert góða stund, en gaf við og við frá sér eitthvert eymdarvæl, ákaflega ömurlegt. Loks spurði ég, hvað væri svona óskaplega svart.
,,Allt farið á hausinn. Allt farið á hvínandi hausinn,“ sagði hann og stundi þungan yfir forgengileika þessa heims. Þá innti ég hann eftir því, hvað það væri, sem farið væri á hausinn. „Nú fyrirtækið, maður, — Leikhúskettirnir.“ —„Leikhúskettirnir, hvað er nú það?“ spurði ég. ,,Nú auðvitað kettir, sem leika, maður. Ég þjálfaði nokkra ketti til að leika.“ „Einskonar brúðuleikhús?“ spurði ég, „eða Andrés Önd.“ — „Já“. — „Og hvernig gekk það?“ — ,,Það er nú nefnilega það. Ég las það í amerísku blaði, sem leiðbeinir um gróðavegi án mikillar fyrirhafnar, að kettir hefðu hæfileika, leikarahæfileika. Það var í þætti, sem heitir: „Eva svarar bréfum lesenda.“ Í þessum þætti var bréf frá einhverri kerlingu, líklega miklum kattavini. Hún spurði, hvort kettir hefðu hæfileika, og svaraði Eva henni á þá lund, að amerískir vísindamenn hefðu sannað, að kettir gætu leikið. Þá datt mér í hug, að það hlyti að vera hægt að græða á kattaleikhúsi. Ég afréð að stofna kattaleikhús, en til þess þarf fyrst og fremst ketti og svo peninga. Ég útvegaði mér því nokkra ketti, sem voru reyndar flækingskettir af Heimaey, og fékk svo mikla peninga hjá Guðjóni Hyrónímusar að láni, bannsettum okraranum þeim arna, þar sem hvorki sparisjóðurinn né bankinn vildu lána peninga í þessa „útgerð“. Svo fékk ég leigt húsnæði hjá Guggu-Gvendi og byrjaði æfingar, sem gengu að vísu dálítið skrykkjótt, því að þetta voru allt illa uppaldir flækingskettir, nema einir 10, sem ég fékk úr Dagsbrún. Kattafjandarnir voru alltaf jafnlélegir, og peningarnir eyddust jafnt og þétt. Þess vegna varð ég að halda sýningu, leiksýningu, fyrr en skyldi og reyna að dorga inn dálítið fé af Eyjabúum. Leikritið var í rauninni franskt, og ákaflega lélegt í fyrstu, en ég hafði fengið andans jöfur Eyjanna, hann Ásta með 6. skilningarvitið, til þess að endursegja það og staðsetja. Svo eignaði ég honum allt leikritið, því að ég hélt, að hann mundi „knúsa“ hjörtu Eyjabúa og þeir fylla húsið dag eftir dag af einskærri átthagaást, þó að ekkert væri annað. En þetta brást allt saman. Það komu aðeins nokkrir krakkar og tvær gamlar kerlingar, sennilega miklir kattavinir. Það þarf víst ekki að segja það, að ég stórtapaði á þessu fyrirtæki mínu og er nú þrjóturinn á eftir mér, hvert sem ég fer. — Heyrðu annars, geturðu ekki lánað mér eitthvað smávegis til þess að sletta í karlskrattann? — aðeins svolitla ögn.“
„Nei,“ sagði ég, „ég er alveg staurblankur.“
„Nú, jæja,“ sagði hann vesaldarlega, „ég verð þá að reyna annars staðar.“

K.


Aðsent yfir álinn


Gunnhildur Bjarnadóttir frá Sigguseli á Mýrum orti þessa vísu um sjálfa sig:

Stælta sál í stuttum skrokk
stöðug hef ég borið.
Vökur þótti, var þó brokk
venjulega sporið.

Á æskuárum Gunnhildar í Lækjarkoti var útlendur smiður í Borgarnesi. Hún hafði ort glens um hann. Sá útlendi svaraði:

Í Lækjarkoti ein ótugt er,
ekki lœrir hún sitt kver,
heldur gerir hún vísur að mér;
Gunnhildur trúi ég nafn hennar er.

Ekkja bjó á góðri jörð uppi í sveit í Borgarfirði. Hún var talin allvel efnuð. Hinn útlendi maður hafði séð hana og orðið ásthrifinn af henni við fyrstu sýn. En nokkru síðar frétti hann, að hún hefði lofað öðrum manni eiginorði. Þá orti útlendingurinn í gremju sinni:

Langi mannen trúlofaður er
stúlkurinn, sem eitt sinn elskaði mér;
hún á bæði sauðir og smér. —
allt það til djefelinn fer.

Sami útlendingur búsettur í Borgarnesi orti þessa vísu um kaupmann, sem verzlaði þar:

Í Borgarnesi höfðinginn búer,
undir sig hann sveitunginn kúer.
Með svikin og lýgin hann spiller sig opp.
Ég trúr hann er ekki af den mjallahvíti flokk.

Sami útlendingur dvaldist við smíðar á sveitabæ, þar sem fjármaður stóð yfir fé á daginn, og var honum skammtaður meiri matur en þeim, sem heima voru, þegar hann kom heim á kvöldin.
Þá kvað útlendingurinn:

Skrítinn siður hefur ég séð,
síðan ég kom í vetur
að húsmóðirin skammtað getur,
þegar vinnumaðurinn kemur og étur!

Eiginkona á Suðvesturlandi kvað svo til bónda síns:

Fögur orð og flærðin nóg
flesta kann að villa.
Bágt er að vera í báða skó
bundin fast og illa.

Sama kona gerði manni sínum upp þessa vísu:

Ég hef mestar mœtur á
að mega skamma og níða
konuna, sem mér kúrir hjá,
þó kunni hana eitthvað að prýða.

Sigurður Helgason á Jörfa gisti eitt sinn á Svínhóli ásamt mörgum öðrum þá nótt. Þar stóð kolla ein mikil á miðju gólfi, og var hún allra gagn. Sigurður var árrisull og fór á fætur á undan félögum sínum, áður en bjart var orðið. Varð honum þá að stíga öðrum fæti ofan í kolluna, og gerðu félagar hans gys að honum fyrir. Þá kvað Sigurður:

Siggi þræta þess ei má,
þó að mæti spotti;
hafði gœtur ei sér á,
óð í nœturpotti.

Um mann, sem eignaðist margar konur (þó eina í senn!):

Stórlega skáldsins vandi vex,
en verst er fyrir konu greyin,
ef þœr þyrpast allar sex
upp í til hans hinu megin.

Stúlka í Húnavatnssýslu sagði unnusta sínum upp. Þá kvað Natan Rósantsson:

Njólu gjóla nöpur hékk
niður á Ólafs hjarta.
Óláns-hóla undir gekk
auðarsólin bjarta.

Þórhallur Bjarnarson lektor, — síðar biskup — var maður sanngjarn og leit jafnan á málefnin „frá almennu sjónarmiði“. Þegar hann átti sæti á Alþingi, komu þessi orð oft fyrir í ræðum hans. Þá orti Sigfús Blöndal, síðar orðabókarhöfundur, þessa þingvísu:

Ég segi nei og segi já,
sitt með hvoru liði.
Enda svo með amen, frá
almennu sjónarmiði.

Forustumaður sértrúarflokks fékkst við laxveiðar á sumrin milli þátta. Eitt sinn fékk hann stóran lax á færið sitt og var mjög lengi að þreyta hann. Síðar sagði hann frá sinni ströngu viðureign við laxinn eins og „sport“-veiðimanna er siður.
Bóndi, sem hlustaði á frásögn predikarans, orti þessa vísu:

Það má segja um þetta strax,
það er himneskt gaman
af kristnum manni að kvelja lax
klukkustundum saman.

Eyjaskeggi, sem reyndi eftir megni að fleyta sér á vinnu annarra manna, fékk eitt sinn þessa vísu:

Skrokknum sitja alltaf á
ótal fitulopar,
þrælnum smita utan á,
annarra svitadropar.

Símon Dalaskáld orti þessa vísu um Grím Thomsen skáld á Bessastöðum:

Grímur klingir, gœða þurr,
gómabjöllu sinni.
Er á þingi ónýtur,
Álftnesinga meinvœttur.

En síðan vék Símon vísunni við og þá varð hún svona:

Grímur klingir, góðsamur,
gómabjöllu sinni.
Er á þingi alkunnur
Álftnesinga bjargvættur.

Drykkfelldur prestur var að messa, er St. Einarsson gekk fram hjá kirkjunni. Þá kvað hann:

Ingólfur er að messa.
orðin hans marga hressa,
gáfu- og guðdómleg
þó hefur hann til þessa
þrammað hinn breiða veg.

Húnvetnsk vísa um tófu:

Hreyfir búkinn hélugrá,
hart má fjúkið kanna;
háramjúk og lappalág
leggst á dúkinn fanna.

Júlíus í Hítarnesi kom inn til Stefáns Ólafssonar skósmiðs í Borgarnesi og sagði:

Þig ég finna fyrstan kaus,
frjálsan, vinnuhlýjan.
Sólinn minn er svona laus,
settu pinnna í hann.

Hún var vinnukona í „afskaplega, voðalega fínu“ húsi og var ákaflega hrifin af því að komast í svona fínt hús í sjálfu milljónahverfinu á Heimaey.
Þegar henni var greitt kaupið fyrir fyrsta mánuðinn, var henni ekki greitt það í peningum, heldur með blaði, sem fara skyldi með í Sparisjóðinn.
Hún tifaði síðan niður í Sparisjóð á háu hælunum sínum með ávísunina.
Þorsteinn tók henni vingjarnlega en kvað hana ekki fá peningana, nema hún skrifaði nafnið sitt aftan á ávísunina.
„Hvurnig þá?“ spurði hún.
„Nú, svona rétt eins og þegar þú skrifar undir sendibréfin þín,“ sagði Þorsteinn.
Já, hún hafði oft skrifað sendibréf.
Þorsteinn tók ávísunina og las.
Aftan á henni stóð: „Þín heitt elskandi Gödda.“


Heimafenginn baggi


Úr skriflegum prófum í heilsufræði:

Brennisteinssýran í maganum drepur bakteríur...

Þegar fæðan er komin í magann fulltuggin, fara meltingarkvarnirnar í maganum að eltast við fæðuna ... síðan fer fæðan inn í smáþarmana, inn í brisgöngin, inn í lifrina, þar leysir gallið upp fituna...

Helztu meltingarvökvarnir eru kolsýra og súrefni. Kolsýra myndast í hárnetju og súrefni í lungum.

Maðurinn fær súrefni úr loftinu og vinna aðallega lungun að framleiðslu þess. Súrefni er manninum nauðsynlegt til öndunar.

Útlimir skiptast í hendur og fætur, sem eru tvær af hvoru.

Lærleggirnir eru í skálum í mjaðmargrindinni, sem nefnast augnatóftir.

Maðurinn er hryggdýr, spendýr, efst er hauskúpan.

Mjaðmagrindin er fest á lendaliðina, niður úr þeim ganga lærleggirnir fjórir...

Súrefni fær líkaminn með blóðinu til þess að taka alla þá næringu, sem er í súrefninu.

Brjósthol takmarkast af þind, rifjum og einhverju fleiru.

Starf beinagrindarvöðva er að halda líkamanum og gera hann stöðugan.

Beinin skýla líkamanum á ýmsa vegu. Heilinn færi í mél, ef hauskúpan væri ekki utan um hann. Mjaðmagrind skýlir ýmsum beinum í magaholinu.


Aðsent yfir álinn


ÁKVÆÐAVÍSA
— AÐ NORÐAN
Guð í pokann gefur mér
þó góðsemd lokir þinni,
en af mun þokast auðnan þér
upp þó hrokir sinni.


RAUNAVÍSUR
Margt er böggum mínum í,
minnkar þol að bera.
On'í milli þeirra því
þungt má ekki vera.
— —
Hér er öngu, öngu breytt,
enn er þröng í sinni.
Ég er löngu löngu þreytt
lífs á göngu minni.


VESTUR-ÍSLENDINGUR
ORTI ÞESSA VÍSU
Sakna ég allra söngfugla
er svifu um hjalla og bala.
Sakna valla sóleyja
sakna fjalla og dala.

Eva, dóttir séra Páls skálda, prests að Kirkjubæ í Vestmannaeyjum, var einu sinni að snúa band í kveiki í lýsislampa. Gekk henni það heldur illa og orti þá þessa vísu:

Heyrðu snöggvast, skollaskarn,
skrafa ég lítið gaman —:
Til þín ljósa- taktu -garn,
það tollir aldrei saman.

Guðrún „skálda“ systir Evu var einu sinni stödd í Bryde-búð í Eyjum. Þrengdu þá búðarstöðumenn eitthvað að henni. Þá kvað hún:

Orð hér hvölfast ekki góð,
yður skrattinn flengir.
Hvaða bölvað strákastóð!
Standið þið fjær mér, drengir.

Maður austur á Fljótsdalshéraði hét Gísli og var kallaður „rusl“. Um hann kvað Páll Ólafsson skáld:

Íslenzk písl með usl og busl
ypptir sljóum frama.
Gísli er Gísli, rusl er rusl,
reyndar þó hið sama.
VÍSUR, EIGNAÐAR
PÁLI ÓLAFSSYNI SKÁLDI:
Það að nísti frostið fast
og fölni grænir hagar,
eftir þetta kuldakast
koma betri dagar.
Þó að ég spaugi þar og hér,
þegar ég kem á bæi,
kann svo margt að kreppa að mér
kjafturinn þó að hlæi.
— —
Vondskan tryllir galinn glóp,
góðu hylli vikinn.
Ef þú ei fyllir þræla hóp,
þá er ég illa svikinn.


HÚNVETNSKAR VÍSUR,
eftir fátækan bónda.
Fátœktin mér finnst ei þung,
þó fjölda manns hún beygi.
Ég á konu og jóðin ung,
ég er á gróðavegi.
Úr því rætist, er mín spá,
einn þar Drottinn ræður.
Léleg hreppsnefnd lagðist á
lamaðar kringumstæður.
GÁTA
Þó að ég sé mögur og mjó,
margra næ ég hylli.
Eg í skógi eitt sinn bjó
aldna trjáa milli.

„Hundalæknir“ (hundahreinsunarmaður) í Eyjum skrifaði eitt sinn svohljóðandi auglýsingu og festi á vegg Landakirkju fyrir messutíma: „Hér með tilkynnist öllum hundaeigendum, að þeir verða hreinsaðir þann 10. okt. að Kirkjubóli og eru allir stranglega áminntir að koma.“

Það var á ylríkum, sólbjörtum vordegi eftir skúrasama nótt. Upp með taðköggli, sem lá á jörðinni, gægðist ánamaðkur.
Hann teygði sig upp og lét sólina ...
Eftir andartak tók hann að líta í kringum sig. Kom hann þá auga á annan orm, sem líka virtist teygja endann upp í sólskinið hinumegin við taðköggulinn. Úr þessu varð ást við fyrstu sýn.
„En hvað vorloftið er hressandi,“ sagði hinn fyrrnefndi, „ég var alveg að kafna niðri í holunni minni, sem fylltist af vatni í nótt. Það er svo dásamlegt að fá frískt loft og dálítinn yl af sólinni. Ég finn unað lífsins streyma um mig allan. — O, kæra ungfrú, unaðsfagra meyja, viltu ekki verða konan mín?“
En ungfrúin var ekki tilkippileg. Hún reigði sig alla og hreytti út úr sér: „Þegiðu, asninn þinn, ég er hinn endinn á sjálfum þér.“

Gamall Eyjaskeggi kom inn á Símstöðina í Reykjavík og sá þar þá húslyftu í fyrsta sinni. Hann horfði fyrst lengi á þennan undraklefa. Þá kom þar að gömul kona, gekk inn í klefann, sem lyftist og hvarf. Gamli maðurinn beið hugsi drykklanga stund. Bráðlega kom lyftan niður aftur og út úr henni steig ung og fögur stúlka. Þá undraðist gamli maðurinn og sagði:
„Ég hefði betur haft kerlinguna mína með mér til þess að yngja hana svolítið upp.“

Það átti sér stað við Heiðarveg.
Stúlka á fermingaraldri var á gangi fram og aftur fyrir framan búðarborðið og var sýnilega í vandræðum. Kaupmaðurinn spurði blíðum rómi, hvað hann gæti gert fyrir hana.
Stúlkan roðnaði, — benti síðan á gínu með brjóstahöld og sagði lágt og vandræðalega:
„Hafið þið ekki svona fyrir byrjendur?“

Eitt sinn var haldinn safnaðarfundur í Eyjum. Rætt var um að stækka kirkjugarðinn til norðurs.
Einar bóndi í Norðurgarði tók til máls og mótmælti því kröftuglega, að kirkjugarðurinn yrði færður út til norðurs, slíkt væri brot á siðgæðislögum kristinna manna og minnti illa og óþægilega á leiðina „norður og niður.“
Síðan bar Einar bóndi fram þá tillögu á fundinum, að enginn léti jarða í nýja garðinum, yrði hann mótaður fyrir norðan gamla garðinn.
Safnaðarfundarmenn samþykktu tillögu þessa einum rómi.
Gamli maðurinn í Norðurgarði sagði oft frá ræðu sinni og tillögu á þessum safnaðarfundi: „Ég réði fundinum þeim,“ sagði hann.

Á heimili í Eyjum var færeysk vinnustúlka. Gest bar þar að garði og var við skál. Tók hann til að flangsa og glettast við hina færeysku, sem ýtti honum frá sér og varðist einbeitt og ákveðin, svo að gesturinn varð að gjalti.
Þá kvað heimilisfaðirinn:

Einar gestur út á mar
einn á báti réri.
Í fárviðri við Færeyjar
fleytan lenti á skeri.


HÚNVETNSK EFTIRMÆLI:
Árum saddur seggja um frón,
sæmd með skadda og bramla,
heiminn kvaddi og hreppinn Jón,
húsgangs paddan gamla.


(Ráðning á gátu: Eldspýta)