Blik 1962/Sexæringurinn Hannibal og skipshöfn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Efnisyfirlit 1962



SEXÆRINGURINN HANNIBAL OG SKIPSHÖFN



ctr


Mennirnir eru þessir (f.v.): Ólafur Diðrik Sigurðsson, Strönd, Arnbjörn Ögmundsson, Prestshúsum, Guðjón Eyjólfsson, Kirkjubæ, sem sést naumast á myndinni. Ögmundur Ögmundsson, Landakoti, Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum.
Við birtum þessa mynd m.a. til þess að minna á og fræða um almenna staðreynd í atvinnulífi Eyjabúa, þar til vélbátaútvegurinn hefst 1906. Magnús Guðmundsson, bóndi á Vesturhúsum, var á síðustu tímum opnu vertíðarskipanna formaður á stærsta skipinu í Vestmannaeyjahöfn, Ingólfi.
Á vorin og sumrin stundaði hann sjóinn á Hannibal, nema þá lundaveiðitímann. Við vitum með vissu, að hann réri á Hannibal 10 vor- og sumarvertíðir. Eftir að línan var tekin í notkun 1897, veiddist mjög mikið af löngu á grunnmiðunum við Eyjar og var sjósókn stunduð af kappi.
Með Magnúsi réru mörg vor og sumur fastir hásetar á vetrarvertíðarskipinu Gideon með Hannesi Jónssyni.
Á þjóðhátíð Vestmannaeyja 1901 var háður kappróður á feræringum yfir höfnina. Þá vann þessi skipshöfn á Hannibal kappróðurinn.
Á Þorra (9. febr.) 1895 hvolfdi Hannibal á Leiðinni og drukknuðu þá tveir menn af bátnum, Lárus Jónsson, bóndi og hreppstjóri á Búastöðum, og Bjarni Jónsson. Kristján Ingimundarson, Klöpp, og skipshöfn hans björguðu þá 5 mönnum af bátnum.
Mynd þessi, sem hér birtist af Hannibal, er tekin eftir mynd, sem Jórunn Hannesdóttir, ekkja Magnúsar Guðmundssonar á Vesturhúsum, hefur gefið Byggðasafni Vestmannaeyja.