Blik 1962/Saga leiklistar í Vestmannaeyjum, I. kafli, I. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 1. september 2015 kl. 18:04 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 1. september 2015 kl. 18:04 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1962



ÁRNI ÁRNASON:


ctr
I. KAFLI
(1. hluti)



(Hér hefst í ritinu saga leiklistar i Vestmannaeyjum. Árni Árnason, símritari, skrifar þennan þátt í menningarsögu Eyjabúa og nýtur til þess nokkurs styrks úr bæjarsjóði. Þessi kafli, sem hér birtist að þessu sinni, fjallar um tímabilið frá 1852, að leikstarfsemi er talin hefjast í Eyjum, til ársins 1909).

Merk tímamót í sögu manna eða félagssamtaka gefa ávallt tilefni til þess að staldra við, líta yfir farinn veg og minnast einstakra viðburða, láta í ljós orð og athafnir, merkileg minninga tímabil, einstaklinga og félagasamtaka, sem varðað hafa þróunar og menningarsögu byggðarlagsins á ýmsum sviðum. Þetta geta að sjálfsögðu verið stórmerk atriði, sem geymzt hafa óskráð í hugskoti einstakra manna eða skráð í bókum félagssamtakanna. Þessar minningar, óskráðar og skráðar, gera það svo kleift að skrifa heildarsöguna og bjarga þar með frá gleymsku mjög verðmætum minningum.
Um þessar mundir á Leikfélag Vestmannaeyja 50 ára starfsafmæli. Félagið var stofnað 22. ágúst 1910. Það væri þess vegna vel við eigandi að rifja upp hinn mikla og merkilega starfsferil þess, sem er allsnar þáttur í menningarsögu þessa byggðarlags.
Um sömu mundir á leiklistarstarfsemi í Eyjum (rúmlega) aldarafmæli. Það væri þess vegna full ástæða til að stinga við fæti og horfa yfir troðnar slóðir þessarar menningarstarfsemi.
Fimmtíu ár geta varla kallazt langur tími, þó að hinsvegar sé hann löng ævi félagssamtaka. Fljótt á litið virðist þetta vera harla auðvelt, en þegar betur er að gáð, verður dálítið annað uppi á teningnum. Það verður að kannast við þann sorglega sannleika, að saga þessa merka félagsskapar verður vart sögð. Hún er glötuð að mestu leyti með bókum og skjölum félagsins. Með henni hafa horfið nokkur blöð úr menningarsögu þessa byggðarlags allt til ársins 1942, þótt nokkuð megi bæta þennan skaða með heimildum úr bæjarblöðum og styðjast við munnlegar heimildir frá eldri mönnum. Missir fundargjörðabóka og annarra skjala L.V. er svo tilfinnanlegur og skaðlegur, að það ætti að vera alvarleg áminning til annarra félagasamtaka að gæta betur en hér var gert sálar sinnar.
Gerðar hafa verið margvíslegar tilraunir til þess að hafa uppi á bókum L.V. innanhéraðs og utan um langan tíma, en allt hefur það komið fyrir ekki. Ekkert fundizt af bókum þess. Söfnun munnlegra heimilda um leikstarfsemina er ávallt mjög erfið, litlar og oftast ósamhljóða frásagnir um starfsemina fyrr á árum.
Þá hef ég fylgt þeirri reglu í þessum söguslitrum, að láta þær umsagnir ráða úrslitum í hverju tilviki, þar sem tveim eða fleirum bar saman. Af framansögðu sést, að saga L.V. verður ekki sögð héðan af að nokkru verulegu leyti eða svo, að hvergi skeiki að óbreyttum aðstæðum, en hinsvegar gætu eftirfarandi sagnir og blaðaummæli orðið til þess að lyfta örlítið tjaldi, svo að hægt sé að skyggnast um á þessu hulda sviði leiklistarinnar í Eyjum. Lítil yfirsýn er þó betri en ekkert og ávallt má bæta inn í, ef aðstæður breytast og tök verða á. Þess skal strax getið, að umsagnar Fríðar Lárusdóttur frá Búastöðum um eitt og annað varðandi leikstarfsemi hér, hafa reynzt mjög góðar og öruggar. Hún var starfinu vel kunnug, lék allmikið sjálf og mundi eitt og annað frábærlega vel. Þannig var því eins varið um Pétur Lárusson á Búastöðum, bróður hennar. Þau voru bæði fróð og stálminnug. Þá reyndust frásagnir Georgs Gíslasonar, sem um mörg ár var starfandi með L.V., öruggar. Hann var formaður þess, enda tók hann snemma þátt í starfseminni og fylgdist vel með henni. Þá mætti og geta Haraldar Eiríkssonar, sem oft lék með félaginu og utan þess og hefur veitt marga fræðslu frá fyrri árum; Eyjólfs Gíslasonar á Bessastöðum, sem man margt um starfsemi leikflokka hér í bæ, og síðast en ekki sízt Kristins Ástgeirssonar frá Litlabæ, stórfróður og minnugur vel á þessu sviði. Ef við svo lítum enn lengra aftur í tímann um iðkun leiklistar í Eyjum þ.e.a.s. allt aftur til fyrstu ára þeirra menningarstarfa hér, er sömu sögu að segja. Heimildir eru mjög af skornum skammti og hafa verið að langmestu leyti ósamhljóða í sumum tilvikum. Margt af heimildarfólki mínu var á einhvern hátt starfseminni kunnugt, annaðhvort af beinni þátttöku eða af frásögnum eldra fólks, sem horfið er af sjónarsviðinu. Þessum heimildum verður að fara eftir og gera þær sem greinilegastar til frásagnar. Það verður að fletta þessum blaðaslitrum, mætti segja, ef það gæti orðið til þess að varpa einhverri ljósglætu á myrkvaða sögu leiklistarinnar í Eyjum. Ég vildi taka þetta allt fram til þess, að menn haldi ekki, að frásögn um ártöl o.fl. séu afritaðar gamlar skriflegar heimildir. Ég hefi farið yfir gömlu dagblöðin, t.d. Þjóðólf og Fjallkonuna, en þótt þar sé að finna einstaka pistla úr Eyjum, er þar lítið minnzt á leiklistarstarfsemi, þó að hinsvegar sé vissa fyrir því, að þegar um 1852 hefir sjónleikur verið sýndur í Eyjum, sbr. sveitarbók frá þeim tíma, bréf Jóh. G. Ól. o.fl. Enn geta komið í ljós einhverjar gamlar heimildir, og verður þá að bæta þeim inn í þetta söguslitur eftir ástæðum.
Inn á brautir leiklistar ganga Eyjamenn, sem sagt, um 1852. Þá greiða einhverjir leikendur nokkra peninga til sveitarsjóðs, ágóða af leiksýningu. Hverjir þá hafa verið að störfum, er ekki gott að segja, þar eð ekki er getið nafns neins gefandans að upphæð þessari. Ekki væri það ósennilegt, að það hafi verið einhver skólapiltur, sem upptökin hefir átt að þessari starfsemi, eða verzlunarþjónar selstöðuverzl. hér, sem kynnzt hafa leikstarfsemi annars staðar t.d. utanlands, og síðan hafizt handa um hana hér. Líklega er hér um fyrstu leiksýningu að ræða í Eyjum. Vel getur verið, að leikritið hafi verið eftir Sigurð Pétursson skáld og þá leikið á íslenzku, en það getur alveg eins hafa verið danskt leikrit og leikið á dönsku, eins og gert var í Reykjavík, Akureyri og Ísafirði.
Ég gluggaði dálítið í kirkjubækur Eyjanna á Þjóðskjalasafninu frá þessum árum og var hugsun mín sú að sjá, hverjir væru líklegastir til þess að koma hér leiksýningum af stað um 1850. Frá Dönum hér í byggðarlaginu eru þeir líklegastir J.N. Abel, kaupm. 28 ára, og kona hans Claudine Abel. Í Godthaab eru þá Ch.T. Abel kaupm. 28 ára og Johanne kona hans 28 ára, J. Salomonsen factor og C.V. Roed beykir, 27 ára.
Árið 1851 er í Garðinum J.J. Johnsen, factor, og kona hans 28 ára.
Árið 1853 er séra Brynjólfur Jónsson kominn til Eyja og býr í Nöjsomhed, 27 ára gamall, ásamt Ragnheiði konu sinni 24 ára. Árið eftir eru þau í sama húsi ásamt barni sínu Rósu Jóhönnu Sigríði, 1 árs gamalli. Árið 1855 eru þau enn í Nöjsomhed, og er Brynjólfur þá orðinn ábyrgðarkapellán.
Um þessar mundir er Kapt. Kohl hér og er hann í Ólafshúsum 1854 og 1855, í Landlyst 1856, 42 ára, og þar áfram til 1860, þá lézt hann 22 janúar.
Að þessu athuguðu finnst mér ekki óvarlegt að áætla að einmitt séra Brynjólfur Jónsson hafi byrjað leikstarfsemina 1852—53, þá að öllum líkindum í samráði við ofanritað fólk. Séra Brynj. Jónsson útskrifaðist úr skóla 1850, fékk veitingu fyrir Reynistaðarklaustri 1852, en afsalaði sér því brauði og gerðist aðstoðarprestur séra Jóns Austmanns í Eyjum.
Einmitt um þetta leyti hefjast leiksýningarnar í Eyjum og væri alls ekki ólíklegt, að séra Brynj. Jónsson hafi komið þeim upp í samráði við t.d. verzlunarfólkið strax við komu sína til Eyja. Er og ekki að efa, að t.d. kapt. Kohl hefir við komu sína 1853 verið þessari starfsemi hlynntur, þar eð störf hans hér miðuðu strax að aukinni menningu á fjölmörgum sviðum. Hafa þeir séra Brynj. Jónsson verið þar samhentir framherjar.
Það er nærri eðlilegt, að séra Brynj. Jónsson hefji leikstarfsemina hér. Hann var fjölhæfur maður, menningarfrömuður á fjölmörgum sviðum í byggðarlaginu, sem víða getur um. Það er líka talið fullvíst, að hann hafi komið upp leikritinu „Narfa“ eftir Sigurð Pétursson, 1860—61. Leikrit Sigurðar höfðu verið sýnd í skólatíð séra Brynjólfs og telja verður víst, að honum hafi verið leikstarfsemin vel kunn, a.m.k. leikrit Sigurðar Péturssonar, efnismeðferð þeirra, sviðsetning, og jafnvel trúlegt, að hann hafi starfað að sýningum í skóla, þótt hann hafi ekki leikið sjálfur. Fríður móðursystir mín sagðist hafa heyrt sagt, að séra Brynjólfur hafi aldrei leikið hér sjálfur, en verið lífið og sálin í leikstarfseminni, meðan hans naut við. Þetta hafa fleiri sagt.

Kristján Magnússon, verzlunarstjóri, snjall leikari á sinni tíð (d. 1865).

Hún sagðist líka hafa heyrt talað um, að í Narfa 1860—61 hafi leikið Kristján Magnússon, verzlunarstj., (d. 1865); Andrea Petrea kona hans, Ingimundur Jónsson á Gjábakka, Gísli Bjarnasen eldri, María kona hans, o.fl. Hún hélt, að Lars Tranberg hefði leikið þá, en hann lézt sama haustið. — Árið 1863 mun Narfi enn hafa verið leikinn að mestu af sama fólkinu, en þó mun Einar, sem nefndur var hinn stóri, Jónsson og Valgerður kona hans hafa leikið þá. Það var sama árið, sem Lárus og Kristín á Búastöðum, foreldrar Fríðar, fluttu til Eyja. Sagði Fríður, að sér væri minnisstætt í sambandi við þau hjónin, Einar og Valgerði, að foreldrar sínir hefðu sagt, að þau hefðu verið einustu hjónin í Eyjum þá, sem ekki drukku vín annaðhvort eða bæði.
Hún kvaðst hafa heyrt, að haustið 1864 hafi leikritið Hrólfur eður sá narragtugi biðill verið leikinn, eða árið eftir að foreldrar hennar fluttu til Eyja. Leikritið er eftir Sigurð Pétursson. Hélt hún, að þá hefði leikið mikið til sama fólkið, sem lék Narfa, og er það mjög sennilegt. Þessi árin taldi hún fullvíst, að Villy Thomsen hefði leikið.
Sem áður segir greiddi leikflokkur í Eyjum árið 1852 nokkra peninga í sveitarsjóð, sem var ágóði af leiksýningu. Ekkert er getið um nafn einstakra meðal gefenda, svo að ekkert verður sagt um, hverjir það hafa verið. Hinsvegar gæti maður hugsað sér, að það muni séra Brynjólfur, sem staðið hefur þar að baki. Honum hefir eflaust verið kunnugt um þörf sveitarsjóðsins fyrir peninga, hvern þann styrk er til félli, til þess m.a. að hjálpa fátækum Eyjabúum, en einmitt þeir áttu góðan hauk í horni, þar sem séra Brynjóltur var. Bar hann hag þeirra mjög fyrir brjósti. Má sjá það á því, að á hverju ári voru ávallt tveir kaggar fuglakjöts á Ofanleitisheimilinu, sem beinlínis voru ætlaðir til gjafar fátækum. (Hver kaggi rúmaði 1.200 lundabringur).
Á árunum 1880—1885 hefur eflaust verið leikið. Sögðu þau Fríður og Pétur Lárusson, að Þorsteinn Guðmundsson í London hefði leikið, bæði í Hrólfi og Narfa. Það hlýtur þessvegna að hafa verið á þessum árurn, þar eð hann var f. 1862 en fórst með Jósefínu 1885, aðeins 23 ára gamall. Ekki hef ég getað fundið heimildir fyrir leikstarfsemi á þessum árum í gömlum blöðum. En þessi tvö leikrit Sigurðar Péturssonar hafa átt hér miklum vinsældum að fagna sem annarsstaðar á landinu. Hafa þau án efa verið leikin annað slagið, þar eð úrval leikrita var um þær mundir ekki mikið.
Árin 1886 til 1888 var leikritið Hrólfur leikið hér í Kumbalda. Meðal leikenda voru þá: Árni Filippusson kennari, sem lék Hrólf 1886.
Sigurður Sigurfinnsson, síðar hreppstjóri.
Gísli Lárusson, Stakkagerði, sem lék í Hrólfi og Narfa árin 1886— 1889. Lék hann t.d. Andrés í Hrólfi.
Einar Bjarnason í Dölum.
Guðríður Bjarnadóttir, systir hans.
Jón Einarsson, Garðstöðum.
Gísli Bjarnason yngri.

Gísli Lárusson, Stakkagerði, gullsmiður, bóndi og útgerðarmaður. Góður leikkraftur hér á þeim árum, sem myndin er tekin af honum. Með honum á myndinni er kona hans, Jóhann Árnadóttir Diðrikssonar og tvö börn þeirra hjóna, Theódóra og Árni, sem bæði urðu ágœtir leikarar hér, meðan þeirra naut við.
Jón Einarsson, Garðstöðum.

Ef litið er til þeirra tíma, þegar Eyjamenn feta inn á brautir leiklistar, hlýtur maður að staldra við og renna augum yfir svið raunveruleikans um líf og hagi almennings. Því betur, sem skyggnzt er um á sviðinu, sést greinilegar, að það hefir ekki verið neinn leikur fyrir áhugamenn þeirrar starfsemi að ryðja brautina, svo að fært gæti talizt. Um það leyti hafa verið hér um 300 manns og fátækt ríkjandi meðal alls almennings. Allar jarðirnar eru fullsetnar, 48 alls, og tómthúsin eða þurrabúðirnar líklega um 30. Þær voru mismargar frá ári til árs, og fór tala þeirra eftir aflaföngum og árferði. Jarðirnar voru allflestar litlar, svo að erfitt var að framfleyta á þeim stórum fjölskyldum. Híbýli manna voru eins og tíðkaðist til sveita á meginlandinu á þeim tímum, þ.e. torfbæir. Bæjarveggir úr torfi og grjóti og baðstofur með skarsúð. Flestar höfðu þær timburstafn og trégólf, en þó voru ekki allar svo vel byggðar. Þökin voru hlaðin úr snyddu eða tyrfð. Þótt erfitt væri hér um slíkt byggingarefni vegna sérstakra ákvæða um torfskurð, urðu menn samt að fá það og var það því oft keypt frá meginlandinu, þótt dýrt væri. Á stöku stað voru fjósbaðstofur og gengu þá nautgripir og mannfólk um sömu göng. Tómthúsin voru sérlega lélegar kofabyggingar. Flest þeirra voru byggð upp úr gömlum hjöllum, sem þau svo drógu nafn sitt af t.d. Ömpuhjallur, Grímshjallur, Dalahjallur, Helgahjallur o.s.frv.
Niðri við höfnina þ.e. niður á Sandi, sem svo var nefnt, voru kaupmanna- og verzlunarmannahúsin. Þar var flest danskt fólk og bjó auðvitað í timburhúsum. Annað kom vart til mála með „fínasta fólkið“. Timburhús voru þó víðar, t.d. á Vilborgarstöðum og að Ofanleiti.
Lýsing baðstofunnar var gerð með lýsislömpum, sem gerðu allt sótugt og skítugt, og andrúmsloftið vitanlega daunillt þar inni. Við þetta blandaðist svo óþefurinn frá fílafiðurssængurfatnaði fólksins og frá eldiviðnum, sem brennt var í opnum hlóðum í eldhúsinu. Aðaleldiviðurinn var grútur, lundaspílur, harðir fiskhryggir, fýladrasl, þang, tað og fleira. Gefur að skilja, að óþefurinn hefur verið meir en lítill í íbúðum manna við slíkar aðstæður.
Þessu hefur dr. Schleisner lýst allnákvæmlega í ritgerð sinni um heilbrigði og heimilishætti Eyjabúa í bók sinni um ginklofaveikina í Vestmannaeyjum, hreinlæti o.fl. Neyzluvatnið var sótt í Herjólfsdal, Lindina þar, gamla vatnspóstinn fyrir innan Sandskörð og í Vilpu uppi í Vilborgarstaðatúni. Engir brunnar voru við húsin almennt, nema opnir brunnar. Það voru gryfjur grafnar ofan í túnin heima við bæina og voru oft 2 til 4 tröppur ofan í þær Minnist ég slíkra brunna í Dölum og Miðhúsum. Vilpa var hið eiginlega vatnsból Eyjanna, a.m.k. íbúa í Austurgirðingunni, Gerðisbæja og fjölmargra niður í Sandi. Vilpa er dálítil kvos í túnum Vilborgarstaða. Rennur í hana vatn frá umliggjandi túnum, sem öll halla að Vilpu. Torf- og grjótgarður var hlaðinn umhverfis hana þannig, að hún var hringlaga og þvermál 20—25 álnir. Ekkert úrrennsli var á vatnsþró þessari nema í stærstu leysingum. Þá rann úr henni til austurs. Þá var hún svo stór, að allur garðurinn umhverfis hana var á kafi í vatni. Þetta þótti að margra áliti óheilsusamlegt vatnsból, en hvort óheilbrigði vatnsins sannaðist nokkurntíma — t.d. er hinir útlendu læknar voru hér vegna ginklofaveikinnar og svo landlæknir, — veit ég ekki. En að áliti þeirra var það býsna sóðalegt vatnsból og talið geta valdið umræddri veiki og annari óhollustu.
Eyjamenn lifðu auðvitað mest á fugli og fiski. Voru allar tekjur þeirra bundnar við þær veiðar. Að vísu höfðu bændur nokkur hlunnindi af jörðum sínum, en það gat varla verið um teljandi tekjur að ræða af búskapnum einum saman. Bændur áttu þess vegna einhvern hluta í útgerð og var það annað aðalbjargræði þeirra. Hitt var svo fuglatekjan, sem allir bændur höfðu af leigumálum sínum á Heimaey og í úteyjum. Hún gaf vel í aðra hönd, bæði mat til heimilanna og góða og útgengilega verzlunarvöru t.d. egg, fiður og fugl, auk mikils feitmetis til heimilis. Fiður var oftast í góðu verði t.d. lundafiður og eftirsótt verzlunarvara bæði af kaupmönnum og svo bændum á meginlandinu. Kom það sér vel sem gjaldmiðill fyrir hið dýra landtorf og aðrar landsafurðir, er bændur hér og tómthúsmenn urðu að kaupa. Að sjálfsögðu var aðal gjaldmiðill Eyjamanna fiskiföng og fugla-. — Gat vitanlega brugðið til beggja vona um þau aflabrögð en sjaldan hefir hvort tveggja brugðizt sama árið. Um peninga manna á milli var varla að ræða og sá var hátturinn, að út úr verzlunum fékkst helzt aldrei peningur. Það virðist hafa þróazt hið svonefnda milliskriftafargan á öllum sviðum. Eitt var þó, sem Eyjabúar þurftu lítið að fá að af nauðsynjum. Það var jarðarávöxtur, sem Madame Roed var brautryðjandi að í Eyjum. Árið 1860 er talið, að hér hafi verið um 100 kálgarðar. Voru Eyjamenn öðrum landsmönnum fremri í kartöflurækt o.fl.
Þótt Eyjamenn þannig legðu afurðir sínar inn í verzlanirnar, fengu þeir sjaldnast greidda peninga, heldur í milliskriftum eða með vörum verzlunarinnar. Manni skilst þess vegna, að ekki hafi verið mikið um peninga í umferð milli einstaklinga og til eyðslu t.d. til skemmtana, svo sem leiksýninga. Þó hlýtur það að hafa verið eitthvað örlítið, sem menn hafa átt í kistuhandraðanum.
Það gefur að skilja, að menning hefir ekki verið hér á háu stigi á þessu tímaskeiði fremur en á meginlandinu. Hér var einangrun mikil og samgöngur mjög erfiðar og strjálar. Gátu jafnvel allar samgöngur við Eyjar teppzt svo vikum og mánuðum skipti. Samneyti við annað fólk gat því verið lítið. Fábreytilegt daglegt líf varð orsök til hinnar svonefndu búðarstöðu manna. Menn löbbuðu í búðirnar, sem urðu samkomustaðir þeirra í iðjuleysinu, og freistuðust þá til þess að kaupa brennivín meira en efnahagur þeirra leyfði. Til verzlananna fóru því vissulega margir skildingar fyrir þessar dýru veigar, ef til vill þeir einustu skildingar, sem menn höfðu ráð yfir. Að vísu var vín ódýrt þá eða sem næst 5 skildingar pelinn af brennivíninu, en sú upphæð gat vel orðið allt upp í 20 skildingar yfir daginn hjá einstaka manni. Margir þurftu að fá að dreypa á pytlunni og fyrr en varði var búið úr henni og þurfti þá að fá aftur á pelann til að halda brjóstylnum við. Vín var alltaf fáanlegt, jafnvel hugsað meira um að hafa það til í verzlununum heldur en margar nauðsynjavörur.
Siðferði manna var hér talið fremur bágborið. Þó hefir það enganveginn verið verra en annars staðar. Meira bar á slíku framferði hér í þrengslunum, en þar sem rými var meira til hreyfings og dreifingar. Menning og siðferði fylgjast ávallt að. Um 1860 fór tala ólæsra barna hækkandi. Árið 1862 voru hér 148 börn ólæs og 13 læs innan 15 ára aldurs. Árið 1863 eru um 30 af hundraði Eyjabúa ólæsir. En þá fór þetta að breytast mjög til batnaðar með hverju árinu sem leið, svo að 1884 eru aðeins 12% ólæsir hér. Hefir þetta eflaust verið góðum kennimönnum að þakka t.d. menntafrömuðinum séra Brynjólfi Jónssyni að Ofanleiti, sem lét sér mjög annt um uppfræðingu barna og að eyða búðastöðum og drykkjuskap Eyjamanna. Í þessum efnum hefir einnig Herfylking Vestmannaeyja átt sinn góða þátt til umbóta, bæði varðandi drykkjuskap, búðarstöður og hverskonar aðra ómenningu. Hún hafði sínar ströngu reglur fyrir „hermennina“, hafði sitt eigið bókasafn, sem eflaust hefir ýtt undir, að börn lærðu lestur eða a.m.k. kynntust bókum hjá feðrum sínum. Þá hefir það verið stórt skref til úrbóta, er Lestrarfélag Vestmannaeyja var stofnað 1862.
Hefur það átt sinn mikla þátt í lestrarframför almennings. Þá hefir og Lestrarfélagið átt sinn þátt í að stemma stigu við búðastöðunum, sem áttu sinn þátt í ómennsku og ómenningu.
Eins og áður getur, var líf hér fremur fábreytilegt. Þó var hér glaðlynt fólk, og skemmtanalíf hefir verið meira en ætla mætti. Hér voru tíðkaðar margsháttar fugla- og fiskimannaveizlur, stórar brúðkaupsveizlur, heimsóknir húsa í milli og þá gjarnan spilað og manntafl teflt. Svo voru blysfarir og álfadansar, grímuferðir húsa í milli m.fl., er til gleðskapar mátti verða í hinu fábreytilega daglega lífi. Svo koma sjónleikirnir til sögunnar um 1852, og festir sú skemmtan rætur við komu séra Brynjólfs Jónssonar. Þá hefst nýr menningarþáttur í sögu Eyjanna, sem ég eigna honum.
Þá er ég kominn að kjarna þessa máls, leiksýningum í þorpinu.
Við höfum aðeins staldrað við og litast um, skyggnzt inn í daglegt líf Eyjabúa á þessum tímum. Sviðið er opið hugskotssjónum mínum. Er ég litast um, er mér óskiljanlegt, hvernig almenningur gat veitt sér þann munað að fara í leikhús til að sjá sjónleiki. Þar hefir ekki verið gjaldfrjáls aðgangur. Menn hafa þá eins og síðar orðið að greiða einhvern inngangseyri, a.m.k. nokkra skildinga, en þeir virðast ekki hafa legið á lausu. Fólkið virðist naumast hafa haft peninga fyrir nauðþurftum sínum, hvað þá fyrir leiksýningar.
Þarna hljóta kaupmenn að hafa hlaupið undir bagga með almenningi á einhvern hátt, hvort sem það hefir verið með því að láta viðskiptamenn sína fá einhverja peninga til þessa menningarauka eða þeir hafa gert almenningi fært að ,,fara á leikinn“ með einhverjum milliskriftum. Þarna kemur glögglega fram menntunarþorsti Eyjamanna. Þeir hafa viljað sjá sjónleikina og lagt hart að sér til þess að geta veitt sér það. Ekki væri óvarlegt að ætla, að peningar þeir, sem áður fóru í vín í búðastöðum manna, hafi nú runnið til leikstarfseminnar og búðastöðurnar minnkað að mun. Það er staðreynd, að eftir 1860, þegar farið er að leika hér að staðaldri, eru sýningar vel sóttar. Menn fara að auka menntun sína, styðja góða viðleitni manna til að koma upp leikstarfsemi. Þeir hafa þá fundið og séð, að þeim var betra að verja skildingunum til menntunar, heldur en auðga vínsalana og þyngja pyngju þeirra, dýrka Bakkus með búðastöðum og rápi. Með tilhliðrunarsemi og velvild verzl.stjóranna og kaupmanna, voru tök á að greiða aðgangseyri með milliskriftum, eða að þeir hafa verið leikstarfseminni svo hlynntir, að þeir hafi látið menn fá eitthvað af peningum út í reikning sinn við verzlunina. Það segir sig sjálft, að fólk hefir haft einhver örlítil peningaráð, sem það hefir varið til þessarar menningarstarfsemi og skemmtunar. Öðru vísi gat hún ekki þróazt í byggðarlaginu.
Ég drap á það, að leikritið Hrólfur hafi verið sýnt í Kumbalda 1886.
Sönnunin fyrir þessari sýningu haustið 1886 er, að þá bauð kennari barnaskólans, Árni Filippusson, öllum skólabörnunum á eina sýninguna. Pétur Lárusson á Búastöðum var þá í skóla í fyrsta sinn, þá aðeins 9 ára gamall. Hann var látinn þangað til að fylla upp í tilskylda nemendatölu, svo að styrkur fengist til skólans. Pétri var þetta vel minnisstætt. Þetta var fyrsta leiksýning, sem börnin sáu og vakti þessi góðsemi kennarans við þau feikna fögnuð og ánægju meðal þeirra og athygli þorpsbúa, sem voru honum mjög þakklátir fyrir þessa hugulsemi og eindæma rausn. Árið eftir taldi Pétur, að Narfi hefði verið leikinn, og voru það sömu menn og konur er leikið höfðu í Hrólfi árið áður. Sagði Pétur, að Einar Bjarnason í Dölum hefði leikið sérstaklega vel. Hann hefði þótt ágætur leikari og verið góður söngmaður. Þá var og Guðríður systir hans ágætur leikari, létt og lipur á sviði, og vakti hún mikla athygli með leik sínum. Vissi Pétur þetta gjörla, því að hún var vel kunnug Búastaðafólkinu, þar sem hún hafði verið vinnukona um skeið. Þar var og Friðrik bróðir hennar til heimilis, er hann fórst á Jósefínu árið 1885. Hann hafði verið sérstakt prúðmenni og geðþekkur öllum. Þá sagði Pétur, að Oddur Árnason á Oddsstöðum hefði verið mjög góður leikari og mikill söngmaður. Hann hefði leikið bæði í Hrólfi og Narfa.
Leiklistarsnilli Einars Bjarnasonar og Guðríðar systur hans virðast hafa gengið í erfðir til afkomenda þeirra, því að eins og síðar getur í pistlum þessum, var Guðjón í Sjólyst sonur Guðríðar og prýðis góður leikari og fjölhæfur og lék hér við mjög góðan orðstír um margra ára bil. (Guðríður var á Búastöðum a.m.k. 1882 og 1883 þá 25—26 ára gömul). Tómas M. Guðjónsson lék einnig ágætlega, t.d. Smala-Gvend í Skugga-Sveini 1908. Á árunum 1889 til 1893 var nokkuð leikið, og er talið að Hrólfur hafi verið leikinn 1889 og Narfi 1890 eða ‘91. Sannar þetta enn betur vinsældir þessara tveggja ísl. leikrita. Útlánaskrá Bókasafns Vestmannaeyja sýnir einnig, að þessi leikrit hafa verið mjög mikið lesin af almenningi á þessum árum. Búastaðasystkinin héldu, að haustið eða fyrst á árinu 1892 hafi leikritið Tólfkóngavitið verið leikið hér, og fannst fólki það ágætt leikrit. Rétt síðar eða fyrst á árinu 1893 hefði svo verið leikið leikrit, sem hét „Hinn þriðji“ eftir C. Hostrup. Þeir, sem fremstir stóðu að þessum leiksýningum, voru þeir Gísli Stefánsson, Hjalti Jónsson, síðar skipstjóri, Einar Bjarnason í Dölum, þó aðeins til 1891, (en þá fór hann alfari vestur um haf), Oddur Árnason, Jón Einarsson, Garðstöðum, Gísli Lárusson í Stakkagerði, Guðrún Runólfsdóttir, Sveinsstöðum, [Sigurbjörg R. Pétursdóttir, Vegamótum, kona Eiríks Hjálmarssonar, Guðlaugur Hansson, Litlabæ, o.fl.
Leikrit þetta sagði Fríður, að hefði verið byggt upp með miklum söngvum, eins og önnur leikrit Hostrups. Var söng þeirra Guðrúnar og Sigurbjargar lengi minnzt sem frábærlega góðum. Sagði Fríður, að þær hefðu sungið mjög vel báðar. Sérstaklega hefði Guðrúnu verið klappað lof í lófa, en hún söng eftirfarandi:

1.
Babbi segir: „Sittu róleg heima,
sauma, vefa, falda dag og nótt.“
„Hvað þá, pabbi? Hvenær skal mig dreyma;
heldur þú ég anzi slíku fljótt?“
2.
Mamma segir: „Menntuð skaltu vera,“
og mokar að mér bókum jafnt og þétt.
Hvað er ég að hugsa þá og gera,
hjarta mitt á nóg að lesa samt.
3.
Pabbi ann mér aldrei frjálsra stunda,
annir, strit, og bjástur vill hann sjá.
Hvað er ég að hugsa þá og grunda,
hvílíkt strit er mínu brjósti á.
4.
Undan mömmu eins ég hlýt að kvarta,
„Emmy,“ segir hún, „viltu sitja kyrr?“
En sitja kyrr og hafa í brjósti hjarta,
hvað þá? „Er það nokkurt vit?“ ég spyr.

Þótt þetta sé ekki neinn afbragðs skáldskapur eða þýðing úr erlendu máli, fannst mér rétt að láta það fljóta með. Með þessum vísum, sem sungnar voru undir fallegu lagi, má segja, að nafn Guðrúnar á Sveinsstöðum hafi verið á hvers manns vörum.
Lagið lærðu allir og vísurnar með og var hvort tveggja á vörum almennings mjög lengi. Allir dáðu Guðrúnu fyrir fagran söng og skemmtilega meðferð hlutverksins á sviðinu. Einnig hafði Sigurbjörg á Vegamótum gert sínu hlutverki mjög góð skil, og sagði Fríður Lárusdóttir, að söngur hennar hefði verið sérlega góður. Í þessu leikriti lék Jón Einarsson á Garðstöðum hlutverk Mörks af hinni mestu snilld.
Á árunum 1894—98 er talið, að sýnd hafi verið leikritin Sveitarútsvarið eftir Þ. Egilsson, „Vefarinn með tólfkóngavitið,“ „Hinn þriðji“ og síðast sýnt leikritið „Neyddur til að kvongast“.

Jón Jónsson frá Hlíð. Myndin er tekin á þeim árum, er hann gat sér beztan orðstír á leiksviði í Eyjum.

Mest var í þann tíma við leikstarfsemina fyrrnefnt fólk, þ.e. frá árunum 1889—93. Þá var kominn í hópinn t.d. í Tólfkóngavitinu, Jón Jónsson, Hlíð, en hann fluttist til Eyja 1893. Jón var sagður ágætur leikari og átti eftir þetta að koma mjög við sögu leiklistar í Eyjum. Í Tólfkóngavitinu lék hann Teit stúdent og Imbu á klossunum? (sögn hans sjálfs). Oddur Árnason, Oddsstöðum, var ekki við leikstarfsemina nema 1896. Hann lézt úr lungnabólgu 8. ágúst þ.á.
Í leikritinu segir, að kóngarnir 12 hafi verið þessir:

Húsbóndinn og Felix eru tveir,
Þorkell þófari, þrír,
Marteinn malari, fjórir,
Filippus fjallkóngur, fimm,
Marteinn meinlausi, sex,
Lýður lausamaður, sjö,
Jón tófusprengur, átta,
Gunnar gutlari, níu,
Teitur stúdent, tíu,
Jörundur hattari, ellefu,
Magnús sálarháski, tólf.

II. hluti