Blik 1961/Anna V. Benediktsdóttir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 17. nóvember 2016 kl. 22:13 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 17. nóvember 2016 kl. 22:13 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1961



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Anna V. Benediktsdóttir

ljósmóðir


Við hvörflum huga að Mosfelli í Mosfellssveit. Þar er prestur séra Benedikt Magnússon, sonur Magnúsar Andréssonar klausturhaldara í Þykkvabæjarklaustri. Séra Benedikt Magnússon var fæddur 4. des. 1782. Hann vígðist til prests 1811 og gerðist þá aðstoðarprestur hjá séra Þórhalla Magnússyni að Breiðabólsstað í Fljótshlíð. Tveim árum síðar giftist séra Benedikt prestsekkju frá Vestmannaeyjum, Þorbjörgu Pétursdóttur, ekkju séra Jóns Arasonar að Ofanleiti, sem lézt 1810. Þorbjörg var bóndadóttir frá Gjábakka í Eyjum.
Séra Benedikt Magnússon fékk Mosfell árið 1818 og fluttist þá þangað. Árið eftir missti hann konu sína Þorbjörgu Pétursdóttur. Hún dó 26. júní 1819.
Þá réðist bústýra til séra Benedikts að Mosfelli Þorbjörg Einarsdóttir, ættuð úr Eyjafirði.
Séra Benedikt þótti gáfaður maður og góður ræðumaður, þegar hann lagði sig fram, en drykkfelldur var hann og slarkgefinn í meira lagi, sérstaklega eftir að hann missti konu sína.
Enginn vissi betri deili á drykkjuskap séra Benedikts og slarki en Þorbjörg bústýra hans. Og þó að andinn sé að sönnu reiðubúinn, þá er holdið veikt. Það sannaðist m.a. á Þorbjörgu bústýru á Mosfelli. Hún gekk að giftast presti 17. júní 1821 eða tveim árum eftir fráfall prestskonunnar Þorbjargar nöfnu sinnar.
Þessi urðu börn séra Benedikts Magnússonar og Þorbjargar Einarsdóttur, síðari konu hans:

1. Jóhann Knútur, f. 7. apríl 1822, síðar prestur að Kálfafellsstað.
2. Þorvarður, f. 1824. Dó 14 daga gamall.
3. Annar Valgerður, f. 24. jan. 1831, síðar ljósmóðir í Vestmannaeyjum.
4. Helga, f. í apríl 1833. Dó fárra daga gömul.
5. Þórdís Helga, f. 14. júlí 1834.
6. Ólafur Diðrik, f. 6. ágúst 1837.
7. Þorvarður, f. 1842. Dó í maí 1844.

Séra Benedikt Magnússon lézt að Mosfelli 17. marz 1843. Skipting búsins fór fram í september um haustið. Kom þá berlega í ljós, hversu efnahagur prestshjónanna var rýr, eignir litlar og skuldir miklar, sérstaklega verzlunarskuldir.
Frá Mosfelli fluttist prestsekkjan Þorbjörg Einarsdóttir með börn sín að Mógilsá á Kjalarnesi, sem var hálfgert rýrðarkot, 13,7 hundruð að dýrleika. Þá var Jóhann Knútur sonur hennar 21 árs í skóla, Anna Valgerður 12 ára, Þórdís Helga 9 ára, Ólafur Diðrik 6 ára og Þorvarður eins og hálfs árs. Hann dó í maímánuði næsta ár, eins og fyrr segir.
Næstu tvö árin er það vitað, að Þorbjörg prestsekkja bjó að Mógilsá við mikla fátækt. Þaðan fermdist Anna Valgerður dóttir hennar vorið 1845, rúmlega hálf fimmtánda árs, „siðprúð stúlka, vel að sér og gáfuð“, segir presturinn um hana.


Þetta var einu sinni prestssetrið að Ofanleiti. Húsið var byggt 1863 en myndin er tekin 1901. Á myndinni eru prestshjónin séra Oddgeir Guðmundsen og frú Anna Guðmundsdóttir. Stúlkurnar við dyrnar eru Guðrún Oddgeirsdóttir, búsett í Reykjavík og Margrét Oddgeirsdóttir, búsett í Los Angeles í Californíu (gift Skúla Bjarnasyni, sem mörgum Íslendingum er kunnur).
Heimild: Frú Anna Sigurðardóttir í Vatnsdal, sem gefið hefur Byggðarsafni Vestmannaeyja myndina. Við þökkum frúnni kælega fyrir ræktar- og hugulsemina. Myndin hefur sögulegt gildi.
Árið 1902 var byggt nýtt íbúðarhús á Ofanleiti. Það var rifið 1927, er steinhúsið var byggt, sem nú er þar. Þetta hús byggði séra Brynjólfur Jónsson.


Prestskonan að Ofanleiti í Vestmannaeyjum var á þessum árum Þórdís Magnúsdóttir, gift séra Jóni J. Austmann. Hún var systir séra Benedikts prests að Mosfelli. Til þessarar mætu konu fluttist Anna Valgerður, bróðurdóttir hennar, árið 1847 eða tveim árum eftir ferminguna. Þá var hún á 17. aldursári, fríð stúlka og nettvaxin, prúð og rík af yndisþokka.
Prestssonurinn á Ofanleiti var þá 18 ára gamall. Hann var ötull starfsmaður föður síns við búskapinn á Ofanleiti, en lítið hneigður til bóklegrar iðju.
Ekki höfðu þau lengi verið saman á Ofanleiti, frændsystkinin Anna og Stefán, er þau urðu ástfangin hvort af öðru. Maddama Þórdís, sem var glögg kona og gáfuð, sá brátt, hverju fram fór um soninn og frændkonuna. Hún kom eitt sinn að máli við prest um samdrátt þennan. Skuggi var á. Þau voru systkinabörn, skötuhjúin. Allt var þó látið afskiptalaust og kyrrt liggja.
Svo var það sunnudagskvöld að Önnu og Stefáni varð reikað í fögru veðri vestur í hraunið vestan Norðurgarðsbæjanna. Þar settust þau í grasigróinn hraunbolla. Sólina bar yfir Álsey og hellti hún geislum sínum yfir láð og lög. Aldan svarraði við flúðir og berg Ofanleitishamars. Smáfuglar tístu við hreiður sín í grasigrónum hraunbollum og fýllinn sveif á þöndum vængjum utan við bergið, þar sem hann átti egg í óvandaðri hreiðurskollu. Þarna var það, sem þau heitbundust, frændsystkinin á Ofanleiti, Anna og Stefán. Ártalið vitum við ekki. En árið 1852, 1. nóvember, gaf séra Jón J. Austmann þau saman í Landakirkju. Þau hófu búskap að Ofanleiti í skjóli prestshjónanna, þar sem ekkert jarðnæði að svo stöddu lá á lausu handa þeim.
Vorið 1853 fengu þessi ungu hjón, Stefán og Anna, byggingu fyrir Draumbæ eftir Helga Jónsson, sem þar hafði búið.
Það ár eignuðust þau fyrsta barn sitt, sveinbarn, sem skírt var Jóhann. Árið 1852 kom Ólafur Diðrik, bróðir Önnu, að Ofanleiti, 15 ára gamall. Ekki hefi ég fundið heimildir fyrir því, hvort Þorbjörg prestsekkja dó þá eða brá búi og fluttist burt úr Mosfellssveit eða Kjalarnesþingum. Ólafur Diðrik mun hafa dvalizt á Ofanleiti til sumarsins 1853 en siglt þá til Kaupmannahafnar, þar sem hann réðist nú til smíðanáms fyrir atbeina prestshjónanna á Ofanleiti og með aðstoð og hjálp N. N. Bryde kaupmanns í Danska Garði í Eyjum. Ólafur Diðrík lærði húsgagnasmíði, varð „snikkari“. Hann kom heim aftur sumarið 1856, þá 19 ára gamall, og hafði þá lokið námi. Þá gerðist hann heimilismaður systur sinnar og manns hennar í Draumbæ.
Árið 1856, 10 desember, ól Anna húsfreyja í Draumbæ annað barn sitt. Það var stúlkubarn og skírt Þorbjörg Jena Benedikta, nöfnum ömmu sinnar og afa frá Mosfelli. Þetta barn dó á 1. aldursári.
Rúmum 11 mánuðum síðar fæddi Anna húsfreyja þriðja barn sitt. Það var nær dauða en lífi, er það fæddist, svo að ekki þótti á það hættandi að draga að skíra það. Faðirinn skírði það sjálfur skemmri skírn þegar eftir fæðinguna eftir fyrri stúlkunni, sem þau höfðu átt. Það andaðist að skírnarathöfninni lokinni. Það var 21. nóvember 1853.
Á þessum árum var Sólveig Pálsdóttir prests og skálds að Kirkjubæ ljósmóðir í Eyjum. Hún var yngsta dóttir prestshjónanna á Kirkjubæ og gift Matthíasi Markússyni snikkara í Landlyst.
Árið 1852 var danskur maður skipaður héraðslæknir í Vestmannaeyjum. Sá hét Philip Theodor Davidsen, ötull maður, áræðinn og framtakssamur. Hann mun hafa beitt sér fyrir því m.a., að búsettar yrðu í Eyjum tvær lærðar ljósmæður. Hann fékk brátt augastað á húsfreyjunni í Draumbæ til ljósmóðurnáms. Prestshjónin að Ofanleiti voru þess einnig fýsandi. Árin liðu og Davidsen læknir dó 1860. En hugsjón hans um tvær lærðar ljósmæður í Eyjum hélt lífi. Ekki er mér kunnugt um, hvenær Anna V. Benediktsdóttir sigldi til Kaupmannahafnar til þess að læra ljósmóðurfræðina, því að heimildir um það eru vandfundnar. Svo hefur mér reynzt að minnsta kosti. En bréf hefi ég í höndum frá Önnu til sýslunefndar Vestmannaeyja, dags. 2. júní 1883, og telur hún sig þá hafa verið ljósmóðir í Eyjum í 20 ár. Eftir því ætti hún að hafa orðið þar ljósmóðir við hlið Solveigar Pálsdóttur árið 1863, sem láta mun nærri staðreyndum.
Þær sagnir hafa lifað í Eyjum, að Anna hafi kostað sjálf nám sitt í Kaupmannahöfn á þann hátt, að hún hafi selt erfðasilfur sitt, er hún hafði átt að eignazt eftir foreldra sína og þá sérstaklega móður sína.
Rétt þykir mér að láta þess getið hér, að Jensína Björg, dóttir Sólveigar ljósmóður Pálsdóttur og Matthíasar Markússonar, snikkara í Landlyst, var fædd 1864 og ein af allra fyrstu börnum, sem Anna stóð ljósmóðir að, en Jensína var móðir herra Ásgeirs Ásgeirssonar, forseta Íslands, og þeirra systkina.
Föst ljósmóðurlaun munu hafa verið um þessar mundir 30 ríkisdalir yfir árið. Fyrstu árin fékk Anna ljósmóðir 5 ríkisdali í árslaun, sem teknir voru af launum Solveigar, en hún mun hafa haft hærri laun en allar aðrar ljósmæður í landinu eða alls um 70 ríkisdali, sökum þess að hún var sett læknir í Eyjum, þegar læknar voru þar engir. Það átti sér stað endur og eins.
Árið 1867 fluttust þau hjón Solveig og Matthías til Reykjavíkur, þar sem Solveig var ljósmóðir um margra ára skeið eftir það, og varð þá Anna Valgerður, húsfreyja í Draumbæ, eina ljósmóðirin í Vestmannaeyjum.
Árið 1863 fæddist þeim hjónum í Draumbæ 4. barnið. Það var stúlkubarn. Í þriðja sinn skyldi reynt að láta heita eftir prestshjónunum að Mosfelli. Barnið var skírt Þorbjörg Jena Benedikta.
Það bar við 1866, 23. júní. Fagurt var veðrið þennan dag. Fýllinn átti hreiður á syllunum í Ofanleitishamri. Drengirnir á bæjunum „fyrir ofan hraun“ fylgdust vel með fuglalífi í Hamrinum. Þeir fóru þar um brúnir og nafir hvern góðviðrisdag. Nú fylgdust þeir þrír að vestur á Hamarinn, Jóhann Stefánsson í Draumbæ, Guðlaugur sonur hjónanna í Brekkhúsi, Árna Guðmundssonar og Þóru Stígsdóttur, og tökudrengur af einum bænum þarna, 7 ára. Þeir námu staðar í grasigrónum hraunbolla vestur af Norðurgarði. Þar fundu þeir smáfuglshreiður. Ekki stóð nein von til þess, að Jóhann litli vissi það, að í þessum sama hraunbolla höfðu þau bundizt hjúskaparheitum, foreldrar hans, fyrir 16 árum, eða þar um bil. Síðan héldu þeir áfram ferð sinni vestur á hamarsbrúnina. Þetta skipti aðeins fáum augnablikum. Og Jóhann litli lá liðið lík niðri í Hamrinum, hrapaður til dauðs. Skuggi harma og sorgar hvíldi yfir öllum Ofanleitisbæjunum, því að hjónin í Draumbæ voru ástsæl af nágrönnum sínum. Ekki átti Anna húsfreyja minnstan þátt í þeirri vinsæld, svo rík sem hún var af mannkærleika og hjálpsemi. Samúð Ofanbyggjaranna var rík og einlæg með þeim hjónum í sorgum þeirra og þjáningum.
Þegar ljósmóðirin í Landlyst, Solveig Pálsdóttir, fluttist til Reykjavíkur, varð Anna Benediktsdóttir eina ljósmóðirin í Eyjum, eins og áður er getið. Þá varð henni ljóst, hve erfitt það væri bæði henni og Eyjabúum í heild, að hún væri búsett fyrir ofan hraun.
Árið 1868 fluttust hjónin því frá Draumbæ norður í þorpið við höfnina og settut að í tómthúsinu Pétursborg, þar sem Davidsen læknir hafði búið nokkrum árum áður og ýmsir síðan. Það tómthús stóð stutt vestan við Jómsborg og norður af Kastala (nú Vegamót), sem sé á hluta af svæði því, sem nú er kallað Heimatorg.
En þarna bjuggu þau aðeins nokkra mánuði, því að stuttu síðar keyptu þau tómthúsið Vanangur, þar sem búið hafði um skeið Ingimundur Sigurðsson og Katrín Þorleifsdóttir. Það tómthús stóð austan Jómsborgar á svæðinu milli Sæbergs og Urðavegar.
Ingimundur Sigurðsson var framtakssamur maður og búhygginn. Sumarið 1864 fékk hann byggingu fyrir hálflendu einnar Vilborgarstaðajarðarinnar og 4 árum síðar byggingu fyrir hálfum Háagarði, sem var ein af 8 Vilborgarstaðajörðunum.
Sumarið 1869 fékk Stefán Austmann, maður Önnu ljósmóður, byggingu fyrir tómthúsinu Vanangri, sem hann hafði þá keypt af Ingimundi Sigurðssyni, og fluttist í um vorið. Með samþykki umboðsmannsins, Bjarna E. Magnússonar sýslumanns, höfðu þeir Ingimundur Sigurðsson og Stefán Austmann komið sér saman um að hafa jarðaskipti þannig, að Ingimundur fékk byggingu fyrir Draumbæ og Stefán jafnframt byggingu fyrir báðum hálflendunum, sem Ingimundur hafði haft til nytja úr Vilborgarstaðatorfunni, þ.e. hálfan Háagarð og hálfa Vilborgarstaðajörð aðra á móti Magnúsi Magnússyni, sem þar bjó.
Við úttekt á Draumbæjarjörðinni vorið 1869 kemur í ljós, hversu mikið húsnæði hjónin Stefán og Anna hafa haft þar til íbúðar. Baðstofan var 7,5 álnir (4,7 m) á lengd og 3 álnir (1.9 m) á breidd. Hún var „vel stæðileg“. Eldhúsið var 5 álnir (3,15 m) á lengd og 2,5 álnir (1,75 m) á breidd. Ingimundur Sigurðsson þótti greindur maður og var um skeið sýslunefndarmaður í Vestmannaeyjum, þó að hann væri þá óskrifandi, þegar hann var kosinn. Á sýslunefndarárum sínum lærði hann að skrifa nafnið sitt. Ingimundur var afi Kristmundar, er nú býr í Draumbæ.
Árið 1870 fæddist hjónunum í Vanangri, Stefáni Austmann og Önnu ljósmóður, sonur, sem var látinn heita eftir syni þeirra, sem hrapaði í Ofanleitishamar. Hann var skírður Jóhann Lárus.
Enn liðu þrjú ár. Haustið 1873 dó Þorbjörg Jena, dóttir þeirra, 10 ára, úr „andarteppu“, sem mun vera barnaveiki eða kíghósti. Á vertíð árið eftir, eða nánar tekið til 13. marz fórst 6 manna farið Gaukur sunnan við Klettsnef. Formaður á bátskel þessari var Sighvatur Sigurðsson bóndi að Vilborgarstöðum, og bjargaðist hann með öðrum manni, en 6 menn drukknuðu. Sigurður dó stuttu síðar af afleiðingum þess volks og kulda, er hann leið, áður en hann bjargaðist. Hann var afi Lofts Jónssonar bónda á Vilborgarstöðum og Júlíönu Ingveldar, fyrrv. húsfreyju á Búastöðum og þeirra systkina. Þeir, sem drukknuðu af Gauki, voru þessir:

Árni Árnason, bóndi að Vilborgarstöðum, afi Árna símritara Árnasonar frá Grund hér í Eyjum, Gísli Brynjólfsson ekkjumaður í Móhúsum, sem var ein af Kirkjubæjajörðunum, Erlendur Pétursson, vinnumaður í Litlakoti (nú Veggur), Jón Jónsson húsmaður í Dölum, Sigurður Eyjólfsson, vinnumaður á Steinsstöðum, og Stefán Austmann í Vanangri, maður Önnu V. Benediktsdóttur ljósmóður.

Enn liðu tvö ár. Þá réðist til ljósmóðurinnar í Vanangri vinnumaður að nafni Sigurður Magnússon. Hann var úr Dyrhólasókn, 26 ára. Haustið eftir gekk Anna ljósmóðir að giftast þessum vinnumanni sínum. Þau giftust 5. okt. 1877. Þá var hún 46 ára og vel það, en hann 27 ára. Sigurður Magnússon var mikill dugnaðarmaður, og færðist búskapur þeirra Önnu brátt í aukana. Árið eftir giftinguna hafa þau tvær vinnukonur og tvo vinnumenn á sínum snærum í Vanangri.
Í þessu hjónabandi var Anna ljósmóðir í tæp tvö ár, því að 2. júní 1879 dó Sigurður maður hennar úr brjóstveiki eða berklum 29 ára að aldri.
Þeim varð ekki barna auðið.
Sama árið, sem þau giftust, Anna og Sigurður, kom til þeirra í Vanangur ungur maður, sem hét Pétur Pétursson úr Mýrdal. Hann reyndist dugmikill vinnumaður og járnsmiður ágætur. Árið 1883, 18. okt, giftust þau Anna ljósmóðir og Pétur Pétursson, hún 52 ára en hann 26 ára gamall. Hafði hann þá verið vinnumaður hjá henni í 5—6 ár. Svaramenn voru þeir bræður Engilbertssynir, Gísli kaupmaður í Júlíushaab og Engilbert verzlunarþjónn í Jómsborg, sem giftur var mágkonu Önnu, Jórunni Jónsdóttur Austmann. Þess munu fádæmi, að kona giftist tvívegis mönnum, sem eru um það bil helmingi yngri en hún. Eitthvað hefur verið við þá konu, sem á eldri árum heillaði svo unga menn, að þeir vildu bindast henni hjúskaparböndum. Hins vegar eru líkindi til þess, að öryggiskenndin hafi ráðið mestu um það hjá ljósmóðurinni, að hún lét tilleiðast á efri árum að giftast. Svo mun það hafa verið bæði um hjónabandið hið annað og þriðja.
Nokkuð er vikið að ljósmóðurstarfi Önnu Benediktsdóttur í greininni Nýborgarheimilið, sem birtist í Bliki 1960.
Með bréfi dags. 2. júlí 1883 til sýslunefndar Vestmannaeyja óskar Anna ljósmóðir þess, að árleg laun hennar verði hækkuð um 20 kr. með því að hún hafi þá starfað ljósmóðir í Eyjum 20 ár og hafi rétt til að sækja um launaviðbót samkv. lögum, en það höfðu ljósmæður eftir 10 ára starf.
5. júlí um sumarið var bréf þetta tekið fyrir á fundi sýslunefndar. Sýslunefndin samþykkti að fresta þessu máli, þar til beiðandinn hefði fært fram frekari rök fyrir þörfum sínum á launauppbót þessari. Aftur var mál þetta tekið fyrir á sýslunefndarfundi 19. nóv. um haustið. Þá lét sýslunefnd bóka eftirfarandi klausu: „Þótti sýslunefndinni sér eigi heimilt eftir skilningi sínum á 3. grein yfirsetukvennalaganna frá 17. des 1875 að veita hina umbeðnu launaviðbót, þó að hún viðurkenni, að téð yfirsetukona hafi þjónað hér óaðfinnanlega í samfleytt 20 ár.“
Ekki lét Anna ljósmóðir þetta mál niður falla, því að henni þótti sýslunefndin gera sér rangt til og vera helzt til íhaldssöm og nærsýn. Skaut Anna nú máli sínu til amtráðs Suðuramtsins.
Með bréfi dags. 17. júlí 1885 tilkynnir skrifstofa Suðuramtsins sýslunefnd Vestmannaeyja, að hún hafi samkv. áliti Amtsráðsins fulla heimild til að veita yfirsetukonunni hér í Eyjum 20 króna launaviðbót, ,,sem hún hefur sótt um“. Jafnframt skorar amtsráðið á sýslunefnd að skýra því frá, hvort nefndin hér eftir vilji leggja til, að hin umsótta launaviðbót verði veitt, með því að amtsráðið hugðist leggja málið undir úrskurð landshöfðingja. Þá samþykkti sýslunefnd að „setja sig ekki upp á móti því, að 20 króna launaviðbót yrði veitt beiðanda“.
Ég skýri frá þessari togstreytu hér til þess að gefa glöggum lesanda hugmynd um nákvæmnina og fastheldnina í opinberum fjármálum annars vegar og þá miklu fyrirhöfn og tíma, sem það gat tekið að fá leiðrétting mála sinna á þessum tímum. Á þessum árum var tímakaup verkamanns 14 aurar. Ef við miðum þessar 20 krónur við nútíma kaupgjald, svarar umsókn ljósmóðurinnar til rúmlega 3000 kr. nú á tímum.
Vorið 1886 samþykkti svo loks sýslunefndin að veita Önnu ljósmóður þessa 20 króna launaviðbót fyrir það ár „að gefnu tilefni“, þ.e.: amtsráðið skipaði nefndinni að gera það. En þetta vor hafði amtsráðið veitt Önnu ljósmóður lausn frá ljósmóðurstörfum samkv. ósk hennar sjálfrar sökum lasleika hennar og magnleysis, enda var nú önnur lærð ljósmóðir starfandi í Eyjum við hlið Önnu, þar sem var Þóranna Ingimundardóttir í Nýborg. Á fundi sínum 11. apríl 1886 ályktaði sýslunefndin að veita Önnu Benediktsdóttur, ljósmóður, árlega 30 kr. eftirlaun úr sýslusjóði frá fardögum það ár eftir 23 ára starf. Og nú, þegar Anna hafði fengið lausn í náð, viðurkennir sýslunefndin, að efnahagur hennar sé mjög erfiður.
Anna ljósmóðir var nú hálfsextug að aldri. Frásögn mín hér á undan gefur eilitla hugmynd um, hversu sorgir hennar og andstreymi í lífinu hafði verið mikið og söknuður sár og lamandi. Hún var nú farin að heilsu, kraftar þrotnir. En traust kvenna í Eyjum á ljósmóðurinni og vinarhugur þeirra til hennar bæði vegna starfshæfni hennar og mannkosta svo og samúðin með henni sökum alls, sem lífið hafði á hana lagt, áttu sér lítil takmörk. Konur gátu ekki hugsað sér að missa hana frá starfi. Hvort sem þessi hlýhugur allur og vinavild hefur megnað að orka til bóta á heilsu ljósmóðurinnar eða eitthvað annað, þá er það víst, að heilsa hennar fór batnandi eftir þetta og starfskraftar vaxandi. Enn sinnti hún því kalli að rúmi sængurkvenna í Eyjum í mörg ár, og var svo eftirsótt og ástsæl ljósmóðir, að hin unga og lærða Þóranna í Nýborg hafði mjög lítið að gera um margra ára skeið. (Samanber greinina Nýborgarheimilið í Bliki 1960).
Hér slitnar þráður sögu minnar um Önnu ljósmóður. Því að svo virðist, sem allar kirkjulegar heimildir um fólk í Eyjum séu tapaðar frá árunum 1895 —1906. Að minnsta kosti hefur mér ekki tekizt að finna þær og ekki eru þær handbærar í Þjóðskjalasafninu.
Um aldamótin breyttu hjónin Anna ljósmóðir og Pétur Pétursson nafninu á tómthúsi sínu Vanangri og kölluðu það Péturshús. Almenningur í Eyjum hélt þó enn við gamla nafninu í daglegu tali. Svo var það, meðan tómthúsið Vanangur var við lýði.
Pétur Pétursson í Vanangri, þriðji maður Önnu ljósmóður, var mikill dugnaðarmaður og framtakssamur. Hann var einnig búhyggjumaður og góður sjómaður.
Vorið 1895 fékk Pétur Pétursson byggingu fyrir hálfri jörðinni Eystri-Hlaðbæ á Vilborgarstöðum, er ekkjan Arnbjörg Árnadóttir flutti af jörðinni.
Vorið 1897 fékk Pétur í Vanangri einnig byggingu fyrir hálfum Háagarði, er Magnús Guðmundsson, síðar kenndur við Hlíðarás, flutti af jörðinni. Þannig hafði Pétur þá orðið tvær Vilborgarstaðajarðir til ábúðar. Jafnframt ræktaði Pétur út tún fyrir sunnan Fagurlyst. Það er nú leikvangur barna.
Pétur Pétursson stundaði einnig járnsmíðar í tómstundum sínum, því að hann var járnsmiður góður, eins og áður segir. — Efnahagur þeirra hjóna fór batnandi ár frá ári.
Vertíðina 1908 réri Pétur Pétursson á vélbátnum Ástríði, sem var 7,6 lestir að stærð. Formaður var Árni Ingimundarson, búandi að Brekku við Faxastíg. Hann var bróðir Sigurðar Ingimundarsonar á Skjaldbreið. 1. apríl þessa vertíð fórst báturinn með allri áhöfn, 6 mönnum, í aftaka austan veðri. Þar drukknaði Pétur Pétursson í Péturshúsi, og Anna ljósmóðir var orðin ekkja í þriðja sinn. Þá var hún 77 ára að aldri. Anna ljósmóðir dó tæpu hálfu öðru ári síðar eða 11. sept. 1909, á 79. aldursári.
Á fyrsta sumardag 1907 heimsóttu konur í Eyjum Önnu ljósmóður og tjáðu henni virðingu sína og vinarhug kvenna í sveitarfélaginu fyrir langt og heilladrjúgt starf í þjónustu þeirra. Þær færðu þá hinni öldnu ljósmóður kvæði það, sem hér fer á eftir:


Þú hefir svo þráfalt um ævinnar ár
mátt andstreymi vonbrigða reyna
og hugprúð oft gengið með holundarsár
sem hetja því reyndir að leyna.
En nú er það Elli, sem amar að þér
og angrar þitt viðkvæma hjarta
en himneska vonin því hugsvölun lér
frá hásæti guðdómsins bjarta.
Á sólskýja vængjunum sumarið blítt
oss sendir nú ljósguð frá hæðum
og geislar þess lýsa upp gamalt og nýtt
og gegnhita blóðið í æðum,
svo þína vér munum nú hjúkrandi hönd
og hjartað á mannelsku stöðvum
þar senn finnast vel geymd þau ástríkis bönd,
sem áttir í þolgóðum vöðvum.
En glöggt svo þú skiljir, hvað með þessu er meint,
þér minjar vors þakklætis færum
en óskunum verður til alföður beint,
sem ann þínum silfruðu hærum
og blessað æ hefur þitt vandasamt verk,
hin veglegu ljósmóður störfin.
Vér biðjum að himneska höndin guðs sterk
þér hjálpi nær mest krefur þörfin.
(Nokkrar konur)


ctr


Aftari röð frá vinstri: l. Ólafur Diðrik Sigurðsson frá Strönd í Eyjum. Hann var sonarsonur Ólafs Diðriks Benediktssonar prests að Mosfelli Magnússonar og hét fullu nafni afa síns. Þannig var Anna ljósmóðir afasystir Ólafs á Strönd. (Sjá greinina um Önnu ljósmóður). 2. Guðrún Bjarnadóttir, kona Ólafs Sigurðssonar. 3. Guðbjörg Guðlaugsdóttir frá Gerði, systir Stefáns skipstjóra og útgerðarm. 4. Guðfinna Kristjánsdóttir frá Klöpp, síðar kona Georgs Gíslasonar kaupm. 5. Sigurbjörg Sigurðardóttir, kona Kristjáns Ingimundarsonar. 6. Sigurjón Kristjánsson frá Klöpp. 7. Kristján Ingimundarson, Klöpp, form. og aflamaður á opnum skipum hér í Eyjum um langt skeið, bjargveiðimaður fram á níræðisaldur og mörg síðustu ár ævinnar meðhjálpari í Landakirkju. Kristján var sonur Ingimundar bónda Jónssonar á Gjábakka og k.h. Margrétar Jónsdóttur bónda á Gjábakka Einarssonar (Sjá greinina Nýborgarheimilið í Bliki 1960). 8. Magnús Helgason, faðir Magnúsar stöðvarstjóra hér í Eyjum.
Stúlkurnar í fremi röð frá vinstri: 1. Guðrún Lilja Ólafsdóttir Sigurðssonar frá Strönd, nú kona Þorsteins Gíslasonar skipstjóra frá Görðum. 2. Guðrún Ólafsdóttir, systir Guðrúnar Lilju.

Ólafur Diðrik, bróðir Önnu ljósmóður, giftist 1860 Guðríði Sigurðardóttur frá Dalhjalli í Eyjum. Þau bjuggu í Sjólyst. Ólafur Diðrik dó sama ár. Þau eignuðust eitt barn, sveinbarn, sem skírt var Sigurður, nafni móðurafa síns.
Sigurður Ólafsson kvæntist Guðrúnu Þórðardóttur Einarssonar frá Vilborgarstöðum. Sonur þeirra var Ólafur Diðrik Sigurðsson, sem bjó lengi á Strönd við Miðstræti, kvæntur Guðrúnu Bjarnadóttur frá Skála undir Eyjafjöllum.


Í Sögum og sögnum úr Vestmannaeyjum, sem Jóhann Gunnar Ólafsson safnaði og Bókaverzlun Þorsteins Johnson gaf út, heitir ein sagan „Huldukona vitjar nafns“. Þar er drepið á ýmislegt úr ævi Önnu Valgerðar ljósmóður og Stefáns fyrsta manns hennar. Þar segir svo: ,,Meðan þau Anna bjuggu í Draumbæ, eignuðust þau dóttur, efnilegasta barn. Skömmu áður en skíra átti barnið, kom kona til Önnu í draumi og bað hana um að láta barnið heita Ágústu. En engu þóttist hún lofa um það. Nóttina áður en skíra átti, dreymdi Önnu enn hina sömu konu, og ánýjaði hún, að barnið yrði skírt Ágústa. Anna þóttist þá spyrja konuna, hver hún væri, og kvaðst hún vera huldukona. Neitaði Anna þá að skíra barnið að bón hennar, því hún var ákveðin í að láta barnið heita öðru nafni. Um morguninn, þegar fólkið vaknaði í Draumbæ, sá það, að skrifað hafði verið á baðstofuhurðina: „Láttu barnið heita Ágústu“. Svo var letrið fast á hurðinni, að það varð ekki þurrkað af. Lét Stefán bóndi höggva það burtu og bar hurðin þessa alla tíð merki síðan, meðan hún entist. Sá Sæmundur Ingimundarson, bóndi í Draumbæ, hurðina í æsku sinni, og eru honum axarhöggin í henni enn minnisstæð.
Daginn eftir var séra Jón Austmann, faðir Stefáns, sóttur til þess að skíra barnið, og fór skírnin fram, eins og ákveðið hafði verið, og var barnið látið heita Þorbjörg Jena Benedikta. Nokkru síðar andaðist barnið, og segja sumir, að það hafi aðeins orðið sex daga gamalt. Þegar séra Jóni var sagt frá draumi Önnu og letruninni á hurðinni, varð honum að orði, að hann mundi hafa skírt barnið Ágústu, hvað sem Anna hefði sagt, ef hann hefði vitað þetta.
Árið eftir eignaðist Anna barn að nýju, og hafði engin mannsmynd verið á því að sögn þeirra, er sáu það. Dó það strax eftir fæðingu.“ ... Talið var að barnaólán þeirra hjóna hefði stafað af því, að Anna varð ekki við tilmælum draumkonu sinnar, huldukonunnar.“
(Sögn Guðríðar Bjarnadóttur Ólafssonar í Svaðkoti og Sæmundar bónda Ingimundarsonar í Draumbæ Sigurðssonar).
Vorið 1910, 4. maí, var Háagarðsjörðin „tekin út“, þ.e. bæjarhús og jörð metin og borin saman við úttekt jarðarinnar, þegar Stefán Austmann fékk byggingu fyrir helmingi hennar árið 1869 og Pétur fyrir hinni hálflendunni 1897.
Þetta vor, 1910, fékk Gunnar Ólafsson kaupmaður, byggingu fyrir Háagarðinum. Við úttektina gætti Gísli J. Johnsen hagsmuna dánarbús Önnu ljósmóður f.h. hins eina erfingja hennar, sonarins Jóhanns Lárusar Austmann, sem dó 28. jan. 1919, 49 ára að aldri.