„Blik 1960/Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum, 2. kafli, I. hluti“: Munur á milli breytinga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ekkert breytingarágrip
Ekkert breytingarágrip
Lína 5: Lína 5:


<center>[[Þorsteinn Þ. Víglundsson|ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON]]:</center>
<center>[[Þorsteinn Þ. Víglundsson|ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON]]:</center>
==  Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum ==
=== II. kafli, 1800-1880 ===





Útgáfa síðunnar 13. september 2010 kl. 14:18

Efnisyfirlit 1960



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:

Saga barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum

II. kafli, 1800-1880

Saga barnafræðslunnar
í Vestmannaeyjum


II. kafli, 1800-1880
(1. hluti)



Í Bliki 1959 birtist 1. kafli af sögu barnafræðslunnar í Vestmannaeyjum. Sá kafli fjallaði um fyrsta barnaskóla á Íslandi, sem starfræktur var í Eyjum á árunum 1745—1766. Síðast í kaflanum var eilítil skýrsla yfir fædd börn og fermd í Eyjum 1785—1805. Það láðist þá að geta þess, að skýrsla þessi tekur aðeins yfir börn í Ofanleitissókn, og er hún tekin saman eftir ministerialbók þeirrar sóknar. Ministeríalbók Kirkjubæjarsóknar frá þessum árum er ekki til og hefur líklega aldrei verið færð. Má í því sambandi minna á orð séra Jóns J. Austmanns, prests á Ofanleiti, er hann lætur fylgja skrá yfir fædd börn, og svo dáin úr ginklofa, í Ofanleitissókn á árunum 1817—1842 og prentuð er með „Útskýringartilraun yfir Vestmannaeyjar“, sem sé sóknarlýsingu hans, sem skrifað mun á árinu 1843. Þar segir prestur:
„Allt til ársins 1837 er þessi listi saminn einungis yfir Ofanleitisprestakall. Orsakir til þess eru ærið margar, sumpart óviðráðanlegar misfellur og ávantanir á Kirkjubæjarprestakalls ministerialbókum, (sem ég meðtók við sameiningu brauðanna 1837). En síðan mér sama ár voru veitt bæði brauðin, eður 1837—1842 incl., nær listinn yfir alla eyjuna.“

Vissulega er ekki um auðugan garð að gresja, þegar leita skal heimilda um fræðslu barna og unglinga í Vestmannaeyjum á fyrri hluta síðustu aldar.
Þegar litið er yfir húsvitjunarbækur Vestmannaeyjasóknar frá þessu tímaskeiði, bregður manni í brún, þegar aðeins nafn eins og eins barns ber þar fyrir augu, en á mörgum bæjum er ekkert barn. Því veldur hinn skæði barnasjúkdómur, ginklofinn, sem geisaði í Eyjum fram undir miðja síðustu öld og hafði verið þar landlægur öldum saman. (Sjá Blik 1957).
Til þess að gera lesendum skiljanlegar þær hörmungar, sem þessi skæði barnasjúkdómur olli foreldrum í Eyjum og Eyjabúum í heild, meðan hann geisaði þar sem skæðast, er rétt t.d. að skrá hér dánarár nokkurra barna Bergs bónda Brynjólfssonar, sem eignaðist 17 börn, svo sem um var getið í Bliki 1958. (Traustir ættliðir); eitt lifði og komst til manns.
Árið 1793, 19. október, dó Jón Bergsson Brynjólfssonar og k.h. Sigríðar Jónsdóttur, 4 daga gamall. Árið 1796 dó Margrét dóttir sömu hjóna, fárra daga gömul. Árið eftir (1797) eignuðust sömu hjón annað stúlkubarn. Það var hið bráðasta vatni ausið og skírt Þuríður. Það lá liðið lík eftir nokkra daga.
Sigríður Jónsdóttir, fyrri kona Bergs Brynjólfssonar, dó 1798.
Árið 1800 eignaðist Bergur Brynjólfsson barn með síðari konu sinni, Guðfinnu Guðmundsdóttur. Var það skírt Sigríður eftir fyrri konu hans. Stúlkubarn þetta dó 5 daga gamalt. Árið 1801 eignuðust sömu hjón sveinbarn, sem skírt var Guðmundur. Hann dó fárra daga gamall. Árið 1802 eignuðust sömu hjón annað stúlkubarn, sem skírt var Þórdís. Dó rétt eftir fæðingu. Árið 1804 eignuðust sömu hjón stúlkubarn, sem einnig var skírt Þórdís. Dó eftir nokkra daga. Þá eignuðust sömu hjón sveinbarn árið eftir (1805) og var það skírt Jón. Það lá liðið lík stuttu eftir fæðingu. Árið 1808 ól Guðfinna húsfreyja enn stúlkubarn, sem skírt var Guðrún. Það lifði aðeins fáa daga. Árið 1810 eignuðust sömu hjón enn sveinbarn. Var það skírt Bergur í höfuðið á föður sínum. Andaðist eftir fáa daga. Árið 1812 eignuðust hjónin enn stúlkubarn og var skírt Margrét. Dó fárra daga gamalt. Öllum þessum börnum Bergs Brynjólfssonar varð ginklofinn að bana.
Í áður greindri ,,Útskýringartilraun“ sinni segir séra Jón Austmann, að af 210 börnum, sem fæddust í Ofanleitissókn á árunum 1817—1836, hafi 157 dáið úr ginklofa eða 71,8%. Á árunum 1837—1842 fæddust í Eyjum, báðum sóknum sameinuðum, 120 börn, þar af dóu 87 úr ginklofanum eða 72,5%.

Embættistíð séra Jóns J.
Austmanns


Til er í þjóðskjalasafni Ministeríalbók Ofanleitissóknar 1806—1816 (11 ár). Þau ár eru fermd í sókninni 37 börn flest 14—16 ára. Tvö þeirra 17 og 19 ára. Það er tekið fram, að foreldrar, fósturforeldrar eða húsbændur barnanna hafi annazt kennsluna, sem líklega eingöngu var fólgin í lestrarnámi, og svo lærður Ponti¹ sálmar, einstök vers og bænir. Að vísu hafði Balles-lærdómsbókin² víðast þá verið tekin í notkun samkv. tilskipun 1798, en í afskekktum sveitarfélögum mun Ponti hafa verið notaður öðrum þræði enn nokkur ár, og svo var það í Eyjum fyrst eftir aldamótin 1800. En 1813 er það tekið fram, að fermingarbörnin hafi lært „þá nýju lærdómsbók“. Presti bar að sjá um það með húsvitjunum, að börnin og unglingarnir lærðu að lesa í heimahúsum, og svo kverið, sálma og bænir eftir því sem næmi og aðrar guðsgjafir hrukku til hjá barninu.
Mjög fór það eftir dyggðugu starfi prestanna, áhuga þeirra og lagni, hversu árangurinn af þessu heimanámi varð mikill. Tornæmu börnin voru oft og tíðum ekki fermd fyrr en 17— 19 ára. Þá loks töldust þau hafa lokið hæfilegum fermingarundirbúningi til þess að vera tekin í kristinna manna tölu. Þó munu prestar bæði hér í Eyjum og annarsstaðar hafa látið tilleiðast að ferma tornæma unglinga, þó að námi væri mjög ábótavant. Þetta vissu biskupar og tóku stundum óstinnt upp fyrir prestum. Varðandi þetta atriði skrifar Hannes biskup Finnsson í bréf 1784 og er æði stórorður, hinn prúði maður:
.... ,,til Confirmationar (fermingar) má ekki taka ófróðar skepnur fyrir það, þó þær gráti, veini og lofi framförum ...
Confirmationen er ekki nein ölmusa, sem prestar ráða fyrir að úthluta þeim, sem um hana betla.“
Á árunum 1790—1837, eða þar til báðar sóknirnar í Vestmannaeyjum voru sameinaðar í eina sókn, Vestmannaeyjasókn, sem svo var nefnd, voru ekki færri en 9 prestar starfandi í Eyjum. Þeir voru þessir³:

Ofanleitissókn:
Séra Ari Guðlaugsson 1790—1809
Sr. Jón Arason, s.hans 1809—1810
Sr. Jón Högnason 1811—1825
Sr. Snæbjörn Björnsson 1825—1827
Sr. Jón J. Austmann 1827—1837
Kirkjubæjarsókn:
Séra Bjarnhéðinn Guðmundsson 1792—1821
Sr. Högni Stefánsson,
aðstoðarprestur
1807—1817
Sr. Stefán Stefánsson,
aðstoðarprestur
1817—1821
Sr. Páll Jónsson (Páll skáldi) 1822—1837

Vissulega höfðu þessi tíðu prestaskipti í för með sér minni festu og ekki alltaf eins náin kynni með prestunum og heimilunum eins og ella, þar sem sami prestur starfar um langt árabil. Þessi tíðu prestaskipti höfðu óneitanlega áhrif til hins verra á kennslustarf heimilanna, sem svo mjög var háð góðum kynnum prestsins við heimilin og náinni „sálusorgun“.
Á þessum árum fer agaleysi yngri kynslóðarinnar í Eyjum mjög í vöxt, drykkjuskapur eykst, slæpingsháttur og lausung í ýmsum myndum fer vaxandi og búðarstöðurnar illræmdu jafnvel enn skaðlegri áhrifavaldar á þessum árum en fyrr og síðar. Sumir af þessum prestum voru sjálfir vægast sagt agalitlir menn og litlar fyrirmyndir sóknarbarna sinna, og „hvað höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það.“ Enda benda ofangreind orð séra Jóns J. Austmanns varðandi Ministeríalbækur Kirkjubæjarsóknar til þess, að ekki hafi þar allt verið með felldu í prestskaparstarfinu, t.d. hjá séra Páli Jónssyni og hefur það sleifarlag ekki minnst bitnað á uppfræðslu æskulýðsins, námi hans og uppeldi.

¹ Þetta spurningakver hét „Sannleikur guðhræðslunnar“, en var „uppnefnt“ eftir höfundi sínum Pontoppidan, biskupi í Danmörku. Það var þýtt úr dönsku handa íslenzkum börnum. Kver þetta var notað til fermingarundirbúnings frá 1746 og fram um aldamótin 1800. Eftir 1772 voru notaðar með kveri þessu sérstakar spurningar, sem séra Vigfús Jónsson, prestur í Miklholti samdi.
Sjá Sögu alþýðufræðslunnar á Íslandi eftir Gunnar M. Magnúss.

² Höfundur Balles-kversins var Balle biskup á Sjálandi. Titill þess var: Lærdómsbók í evangelískum, kristilegum trúarbrögðum handa unglingum, selst almennt innbundin 10 fiskum.
Íslendingar nefndu kver þetta eftir höfundi sínum eins og Ponta. Það var notað hér á landi um 70 ára skeið, og þótti það kostur á kverinu, miðað við Ponta, að það var styttra.
Dönsku börnin í Vestmannaeyjum, börn hinna dönsku verzlunarþjóna og verzlunarstjóra, svo og sýslumanna, þegar þeir voru Danir, sem fluttust til Eyja með stálpuð börn, lærðu Balles-kverið á frummálinu, dönsku, og fermd „upp á það“ með biskupsleyfi.

³ Saga Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen, fyrrv. bæjarfógeta.


Sameining sóknanna í Eyjum (1837) verður merkur atburður í menningarsögu byggðarlagsins. Það á fyrst og fremst rætur að rekja til þess, að næstu 47 árin starfa í Eyjum aðeins tveir prestar, hinir mætustu menn á ýmsa lund og merkir frumkvöðlar í menningarmálum Eyjabúa. Þá ber og byggðarlagið gæfu til þess að eiga á þessu tímabili nokkra veraldlega höfðingja, sem leggja hönd á plóginn með prestunum og vinna með þeim vel og ötullega að endurreisninni. Þessir mikilhæfu prestar og safnaðarleiðtogar eru þeir séra Jón J. Austmann og séra Brynjólfur Jónsson.
Svo virðist sem á tímabilinu 1800—1840 hafi komið mörg góð aflaár í Vestmannaeyjum, svo að hagur manna fór á ýmsa lund batnandi á því árabili. Þessi góðu aflaár ollu því meðal annars, að fólki fór nú sífellt fjölgandi í Eyjum og tvöfaldaðist fólkstalan á þessu umrædda tímabili. Á sama tíma og að sama skapi fækkaði sífellt fermingarbörnum sökum hins mikla barnadauða.
Til fræðslu og glöggvunar fróðleiksfúsum lesendum birtist hér skrá yfir fermd börn í Vestmannaeyjum á árunum 1818—1838.

Ár Fermd börn í
Kirkjubæjarsókn
Fermd börn í
Ofanleitissókn
1818 6
1819 3 1
1820 3 2
1821 0 3
1822 0 0
1823 3 1
1824 0 1
1825 0 0
1826 3 1
1826 3 1
1827 0 5
1828 1 3
1829 3 0
1830 4 2
1831 0 0
1832 2 3
1833 0 0
1834 1 0
1835 2 1
1836 4 5
1837 1 4
1838 0 0
Samtals 36 börn 32 börn

Flest eru þessi börn á aldrinum 14 og 15 ára, þegar þau eru fermd. Tvö eru 16 ára gömul, eitt 17 ára. Þau eru öll talin læs, hafa lært hið lögboðna kver með eða án „merkinga“. Þau hafa lært eitthvað af sálmum, versum og bænum eftir gáfum og getu, löngun og lundarfari. Fyrst hafa foreldrar, eða fósturforeldrar kennt þeim að lesa, eða þá húsbændur, ef þau voru sveitarbörn, en síðan hefur prestur tekið við og spurt þau og hvatt nokkurn hluta úr árinu, oftast hafið það starf með föstu og gert það eitthvað fram á vorið, stundum aðeins eitt ár fyrir fermingu, stundum tvö, stundum þrjú.
Ef til vill er rétt að skyggnast eilítið inn í húsakynnin hjá Eyjaskeggjum á þessum árum.
Enskur maður er á ferð hér á landi á árunum 1814—1815. Hann hét Ebenezer Henderson. Hann skrifaði mikla sögu af ferðum sínum hér á landi þessi ár. Hún er talin hið merkasta rit, sannorð, sanngjörn og góðviljuð, hleypidóma- og öfgalaus. M.a. ferðaðist Henderson austur undir Eyjafjöll, en til Eyja lagði hann ekki leið sína. Eyfellingar þekktu vel til í Vestmannaeyjum og gátu frætt þennan merka enska fræðimann um margt þar um atvinnuhætti og líf fólksins yfirleitt. Sérstaklega virðist hinn enski ferðamaður hafa skráð hjá sér frásögn prestsins í Holti, séra Brynjólfs Sivertsens, um líf Eyjabúa. Þarna segir m.a. um Vestmannaeyjar:
„Verzlun er þar töluverð, og er einkum verzlað með fisk og fiður af bjargfugli. Er mikið veitt af honum, enda eru Eyjaskeggjar frábærlega fimir að klífa björg, jafnvel hin ægilegustu, og síga í reipum niður á varpsyllurnar. Kjötið af fuglinum nota þeir ekki einungis til manneldis, heldur þurrka það einnig og brenna því. Lyktin af því eldsneyti er svo ill, að hún gerir aðkomumönnum ólíft í kofunum, sem að öðru leyti eru óskemmtileg híbýli.“
Í þessum híbýlum lærðu börnin og unglingarnir lesturinn og hin kristnu fræði sín. Þar lærðu þau líka ýmisleg verkleg störf, sem þeim var nauðsynlegt að kunna, þegar lífsbaráttan tók við, svo sem skinnklæðagerð, seglasaum, vefnað og ýmsar smíðar. Á vorin og sumrin voru börnin og unglingarnir látnir hefja sjósókn, jafnvel ekki eldri en 10 til 12 ára. Í tómstundum sínum allan ársins hring iðkuðu börn og unglingar svo sprang og ýmsar aðrar íþróttir, fimi og leiki, sem stæltu kjark og dirfsku til fjallaferða og alls annars bjargræðis.

Árið 1830 var stofnaður barnaskóli í Reykjavík. Þennan skóla stofnuðu danskir kaupmenn, og svo embættismenn, íslenzkir og danskir. Skólinn var fyrst og fremst stofnaður handa börnum þeirra, en svo var leyfilegt að taka þar inn „alþýðubörn“, ef foreldrarnir óskuðu þess og gátu greitt fyrir þau. Barnaskóli þessi var styrktur af Thorkilliisjóðnum, þó hafði gefandinn og stofnandi sjóðsins, Jón fyrrv. rektor Þorkelsson, tekið það fram í gjafabréfinu, að sjóðnum skyldi varið til stofnunar, þar sem allra aumustu og fátækustu börn í Kjalarnesþingi fengju kristilegt uppeldi. — Steingrímur Jónsson biskup mælir með stuðningi við skóla þennan við hið háa „collegium“ í bréfi til cancellísins 1830, (stjórnarráðsins). Segir hann þar, að feður í Reykjavík geti lítt sinnt því að kenna börnum sínum, þar sem allur þorri þeirra stundi fisk- og eyrarvinnu, og efnaskortur valdi því, að foreldrar yfirleitt geti ekki sent börn sín í skóla þennan⁴.

Mikil ástæða er til að hafa þetta bréf í huga og orð biskups, Steingríms Jónssonar, um skóla þennan og meðmæli hans til cancellísins í Kaupmannahöfn til stuðnings honum, því að hann átti eftir að fá bréf frá séra Jóni Austmann í Vestmannaeyjum varðandi stofnun barnaskóla þar, þegar hann mælti einlæglega með stuðningi við barnaskóla embættismannanna og dönsku kaupmannanna í Reykjavík.
Árið 1830 tók víða að vakna áhugi ýmissa mætra manna í landinu fyrir stofnun barnaskóla. Margir skyldu það mæta vel, að feður eða mæður víðsvegar um landið höfðu ekki tíma eða aðstæður eða þá næga þekkingu til að kenna börnum sínum á heimilunum, svo að lag væri á og kröfum laganna og sjálfs lífsins yrði fullnægt. Það voru sem sé langt um fleiri en heimilisfeðurnir, sem unnu við fiskvinnu og á eyrinni í Reykjavík, sem ekki gátu fullnægt þessum kröfum.
Meðal þeirra voru heimilisfeður í Vestmannaeyjum. Engum var það ljósara en hinum gáfaða presti Eyjanna og fræðsluunnanda, séra Jóni Austmann. Árið 1830 skrifar hann Steingrími biskupi Jónssyni bréf og fer þess á flot, að Eyjabúar verði styrktir til að stofna barnaskóla í Vestmannaeyjum. Ekki lét biskup á svari sínu standa. Í því kveðst hann ekki sjá meiri ástæður til að stofna barnaskóla í Vestmannaeyjum en annars staðar í landinu, þar sem ekki sé nokkurs staðar barnaskóli nema í Reykjavík. Biskup segist heldur ekki sjá nokkur ráð til að kosta slíka stofnun, þar sem ekki megi lögum samkv. verja til hennar fé úr fátækrasjóði⁴. Steingrímur biskup hefur þá skoðun, að heimilin geti annazt barnafræðsluna framvegis sem hingað til og að hyggnir menn telji ekki fært að stofna hér á landi almennt til barnaskóla eins og í Danmörku, eins og ástatt sé í landinu.
Með þessu bréfi sínu og svari stakk biskup barnaskólahugsjóninni í Eyjum svefnþorn. Síðan svaf hún meira en hálfan fjórða áratug.

Sjá Safn til íslenzkrar skólasögu. Jóh. Sigfússon, Lbs. 2518, 8°

Barnafræðslan


Þeim fáu börnum, sem lifðu og uxu úr grasi í Vestmannaeyjum meginhluta 19. aldarinnar var kenndur lestur, kver, sálmar og bænir eftir því sem tök þóttu á og efni stóðu til hjá börnunum og tíminn leyfði foreldrum, fósturforeldrum og húsbændum frá daglegu striti og basli, sem oft og mikinn tíma ársins kostaði langan vinnudag.
Þegar foreldrar eða aðrir aðstandendur barnanna voru ekki sjálfir skrifandi eða kunnu ekki að draga til stafs, var börnunum undantekningarlítið ekki kennt að skrifa. Sama var með reikningslistina. Þeir voru teljandi, sem kunnu svo mikið sem margföldunartöfluna.
Prestur hóf spurningastarfið með föstuinngangi flest árin og fermdi oftast seint í maí eða í júni. Börnin gengu til hans 2 —4 síðustu árin fyrir fermingu. Einnig húsvitjaði prestur á heimilunum einu sinni eða tvisvar að vetrinum. M.a. lét hann þá börnin lesa, hvatti til náms, greiddi fyrir um útvegun námsbóka o.s.frv. Fyrst var það stafrófskver, sem öðru hvoru voru gefin út í landinu, eða þá ef skortur var á þeim, sem stundum kom fyrir, Biblían sjálf eða hluti hennar, oftast þá Nýjatestamentið.

Hér að framan hefi ég helzt haft í huga fræðslustarfið í tíð séra Jóns J. Austmanns að Ofanleiti. Í „Útskýringartilraun“ sinni, sem fyrr er getið, segir hann 68 manns skrifandi í Eyjum, 56 karla og 12 konur, og eru búsettir Danir þá ekki taldir með. Fleiri skrifandi ungir en gamlir eftir tiltölu, segir prestur. Þá bjuggu innan við 400 manns í Vestmannaeyjum. Enginn lagði stund á hljómlistarnám. Það þekktist ekki, eftir því sem séra Jón segir:
„Hvorki eru hér hljóðfæri né neinir, er þekki nótnasöng, innlendir, svo að í lagi sé.“
Þá segir prestur ennfremur: „Meiri samblendni, viðskipti og samheldni innbyrðis og við aðra út í frá en áður var. En það er auðvitað, að þetta allt saman muni ekki hafa tekið undir sig stökk hérna, heldur en neins staðar annars staðar, en það má held ég þykja gott, þegar því fer fremur fram en aftur meðal alþýðu. Nú eru menn líka farnir að kaupa bækur, helzt andlegar, á hverjum hér við komu mína var mesti skortur.“
Þessi orð prests leyfa okkur að álykta, að hann sé ekki beint óánægður með árangurinn af starfi sínu í Eyjum, því að honum finnst þokast í rétta átt, þótt hægt gangi og við mikla erfiðleika sé að etja. Samblendni og samheldni fólksins hefur farið vaxandi, segir prestur. Það hefur sín áhrif á hugsun og uppeldi barna og unglinga, þó að sá tími sé langt framundan, að þeir kostir notist fólkinu verulega í lífsbaráttunni.
Bókakostur Eyjaskeggja hefur aukizt og þess vegna meira lesið. Það eykur svo lestrarfýsn æskulýðsins og löngun til að verða „bænarbókarfær.“ Allt er þetta árangur af starfi prestsins, séra Jóns Austmanns, hins dyggðuga þjóns og andlega leiðtoga Eyjaskeggja. Og enn er ýmislegt ótalið, sem batnandi hefur farið með starfi prestsins. Hann segir: „Ofdrykkja í og við kirkjuna, sem áður var hér hneykslanleg, er nú að kalla öldungis liðin undir lok.“
Og fleira hefur gerzt í menningarátt, sem m.a. hefur bætandi áhrif á æskulýðinn. Prestur segir:
„Er meiri kurteisi, siðsemi og hreinlæti farið að ryðja sér til rúms hér, meira en áður var, þó að Eyjabúarnir, eins og Íslendingar yfir höfuð, standi að baki annarra þjóða í þessu efni.“
Og enn segir prestur:
„ ... En siðferðinu fer hér óneitanlega fram, þar eð þekking trúarbragðanna, sem áður var hér langt um minni en nú er, fór að hafa sín heillasömu áhrif á breytni innbúanna.“
En við raman reip er að draga. Hin harða lífsbarátta og atvinnulífið, hamlar fræðslustarfinu eða hindrar það. Fólkið má alls ekki vera að sinna því á þeim tíma árs er helzt skyldi. Á mjög fáum stöðum í landinu fer þetta svo illa saman, tími aðalbjargræðisins og tími fræðslustarfs, sem í Vestmannaeyjum. Allir, sem vettlingi gátu valdið, urðu að gera sitt gagn og taka þátt í lífsbaráttunni og auka bjargræðið eftir föngum. Og þó að árangur stritsins væri oft lítill, þá var hugurinn bundinn því og mátti ekki hvarfla til annars. Séra Jón lýsti atvinnulífi Eyjabúa um miðja öldina í fáum dráttum á þessa leið: „Frá því með byrjun febrúarmánaðar hættir öll innivinna. Karlmenn stunda þá sjóinn til vertíðarloka (12. maí), og kvenfólkið hirðir og gerir að með þeim því, sem á land kemur, og oft eingöngu, þegar í róðrum stendur. Eftir vertíðina koma lundaveiðarnar, sem haldast við til sláttar, og hafa þá karlar og konur nóg að sýsla. Eftir lundatímann kemur hinn stutti túnasláttur, og er hann byrjaður seint í 13. vikunni og helzt við þangað til í 16. Þá er nú farið að flytja lömbin af Heimalandinu (en þangað til ganga þau undir ánum) í úteyjarnar. Stundum eru þau ekki heldur flutt fyrr en eftir fýlaferðir. Þessu næst byrja fýla- súlna- og pysjuveiðarnar og haldast við til þess 20 vikur eru af sumri. Þá koma landferðir (kaupferðir), úteyjaferðir og eins útivinna, þar til 2 vikur af vetri. Þá byrjar tóvinnan og helzt við til vertíðar. Þó eru karlmenn á þessum tíma annað hvort að róa, smíða eða gera við skip sín, sauma segl og skinnklæði og búa sig undir vertíðina með ýmis áhöld og vefa, því að karlmenn vefa hér oftast nær (en hér eru 12 vefstaðir). En við og við, helzt á haustin og sumrin, er verið að róa til fiskveiða á julunum, og á vorin og einkum á haustin gera menn helzt við eður byggja að stofni hús og garða. Þetta er nú sú helzta vinna hérna, og má með fullu sanni segja að óvíða muni eins mikið að vinna sem hér, og rangindi eru það, þegar Eyjabúum er brigzlað um leti og ómennsku.“ Þegar við svo hugleiðum þessar annir allar árið í kring, vaknar sú spurning, hvenær heimilin eða heimilisfólkið hafi eiginlega haft tíma til að sinna lestrarkennslu barnanna og kristinfræðináminu, kenna börnunum sálma, vers og bænir og annað, sem orka skyldi á siðgæði þeirra hér í lífi og tryggja þeim sáluhjálp og sælu samkvæmt tíð og trú. Mundi það ekki helzt hafa verið í nóvember og desember, eða þegar tóvinnan hófst, segla- og sjóklæðasaumurinn og vefnaðarstarfið? En þá var það einnig, sem unglingarnir þurftu sjálfir að læra þessi verk, því að þau urðu „sett í askana“, en bókvitið ekki, eins og hugsað var þá og sagt.

II. hluti