Blik 1959/Opna skipið Fortúna og skipshöfn þess

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Prentvæn útgáfa er ekki lengur studd og gæti verið með myndgerðarvillur. Uppfærðu bókamerki vafrans þíns og notaðu frekar sjálfgefna prentunaraðgerð vafrans.

Efnisyfirlit 1959




Opna skipið FORTÚNA
og skipshöfn þess



ctr


Myndin er af teinæringnum FORTÚNU og skipshöfn hennar — nema tveim mönnum — árið 1901.


Frá vinstri:
1. Sigurður Ólafsson, formaður, frá Bólstað við Vestmannabraut hér í Eyjum. Sigurður fæddist í Hrútafellskoti undir Austur-Eyjafjöllum 15. okt. 1859. Þar ólst hann upp hjá foreldrum sínum og dvaldist þar til ársins 1893, er Sigurður Þorbjarnarson (faðir Sigurður á Hæli hér), bóndi á Kirkjulandshjáleigu, fórst. Gerðist þá Sigurður Ólafsson fyrirvinna heimilisins á Kirkjulandshjáleigu og var það um árabil. Þá gerðist hann lausamaður um nokkur ár og var þá á Önundarstöðum í A.-Landeyjum.
Sigurður var lærður húsasmiður. Stundaði hann um margra ára skeið á yngri aldri húsasmíðar á sumrum en sjó á vetrum. Var hann formaður á teinæringnum Fortúnu margar vertíðir og oftast hér í Eyjum.
Sigurður Ólafsson var dugmikill maður og jafnan aflasæll.
Árð 1909 fluttist hann til Eyja og giftist þá Auðbjörgu Jónsdóttur frá Tungu í Fljótshlíð. Þau bjuggu hér í Bólstað við Vestmannabraut 31 ár eða þar til Sigurður Ólafsson dó (2. september 1940). Þeim varð þriggja barna auðið; búa tvö þeirra hér í Eyjum, Óskar og Bára, en Lilja býr á Eyrarbakka.
Sigurður Ólafsson var formaður aðeins eina vertíð á Fortúnu, eftir að hann fluttist hingað. Árið 1906 gerðist Sigurður útgerðarmaður og eignaðist þá hlut í vélbátnum Bergþóru, VE 88. Bátur þessi sökk 20. febrúar 1908. Aftur eignaðist Sigurður Ólafsson hlut í vélbát. Hann átti um skeið í v/b Olgu Esbjerg VE 147. Lengst átti Sigurður hlut í v/b. Hjálparanum VE 232 og var útgerðarmaður til dauðadags. (Heimild A.J., k.h., o.fl.).
2. Oddur Guðmundsson frá Skíðbakka, 7 ára gamall, — stendur uppi á þóftu hjá Sigurði formanni. Hann var systursonur hans
3. Bergur Jónsson frá Hólmum.
4. Sigurður Sæmundsson bóndi í Hlíð undir Eyjafjöllum; var faðir þeirra systra hér Geirlaugar á Landamótum við Vesturveg og Guðbjargar í Hólum við Hásteinsveg. Sigurður dó hér á Landamótum hjá Geirlaugu dóttur sinni.
5. Þorkell Þórðarson frá Sandprýði hér í Eyjum. Hann reri ekki háseti á Fortúnu, en fékk að vera með skipshöfninni, þegar myndin var tekin.
6. Guðmundur Ólafsson, bróðir Sigurðar formanns. Hann var bóndi að Hrútafellskoti og drukknaði með Birni í Skarðshlíð.
7. Jónas Jónasson, bóndi í Hólmahjáleigu í Landeyjum.
8. Stefán Jónsson frá Butru í Landeyjum, síðar bóndi í Yztakoti í sömu sveit.
9. Pétur Níelsson, Krókvelli undir A-Eyjafjöllum.
10. Björn Tyrfingsson, bóndi á Bryggjum í Austur-Landeyjum.
11. Elí Hjörleifsson, Tjörnum.
12. Guðmundur Guðmundsson, sem kenndur var síðar við Hrísnes hér í Eyjum. Hann var fæddur að Efri-Úlfsstaðahjáleigu í Landeyjum 26. ágúst 1867 og dó að Hrísnesi við Skólaveg hér 24. febrúr 1951. Hann ólst að mestu leyti upp í Miðey hjá Jóni bónda.
Foreldrar Guðmundar voru vinnuhjú, ógift. Faðir hans var Guðmundur Diðriksson, bróðir Árna Diðrikssonar bónda og hreppstjóra hér í Stakkagerði, (d. 1903), (— Sjá Blik 1957), en móðir Sigríður Árnadóttir.
Guðmundur Guðmundsson giftist Guðríði Andrésdóttur frá Múlakoti í Fljótshlíð 19. júlí 1910 og fluttust þau til Vestmannaeyja árið eftir (1911). Guðríður býr enn í Hrísnesi.
Áður en Guðmundur giftist og fluttist hingað, var hann vinnumaður m.a. í Hólmum hjá Jóni bónda Bergssyni og í Dalseli hjá Ólafi Ólafssyni, síðar bónda í Eyvindarholti, föður Ingibjargar í Bólstaðarhlíð.
Hjónin Guðmundur og Guðríður byggðu Hrísnes árið 1924 (Heimild: G.A., k.h.).
13. Sigurður Jónsson frá Hólmahjáleigu í Landeyjum, fæddur í Ey í V.-Landeyjum 13. júní 1874, en alinn upp í Hallgeirsey. Þar dvaldist hann til 13 ára aldurs. Þaðan fór hann vinnumaður að Hildisey og var þar með móður sinni í 4 ár. Foreldrar Sigurðar giftust aldrei en voru vinnuhjú. Þau áttu saman tvö börn. Alls var Sigurður sex ár í Hildisey. Síðan var hann eitt ár vinnumaður á Ljótarstöðum hjá Magnúsi bónda Björnssyni og konu hans Margréti Þorkelsdóttur bátasmiðs og bónda Jónssonar (Sjá Blik 1958). Um það leyti gerðist Jónas Jónasson (nr. 7 á myndinni) bóndi á Hólmahjáleigunni og fluttist Sigurður Jónsson með honum þangað og var vinnumaður hans í 17 ár. Þaðan fluttist svo Sigurður hingað til Vestmannaeyja 1912 og hefir dvalizt hér síðan.
Systir Sigurðar, Ingibjörg, giftist Gottskálki Hreiðarssyni (nr. 17 á myndinni) árið 1913 og missti hann 22. maí 1936. Síðan hafa þau búið saman systkinin.
14. Tyrfingur Björnsson frá Bryggjum, sonur Björns bónda. Bjó í Þykkvabæ og dó þar.
15. Þorsteinn Sigurðsson frá Snotru í Landeyjum. Var lengi hér í Eyjum og dó hér.
16. Ársæll Ísleifsson bóndi á Önundarstöðum í Landeyjum.
17. Gottskálk Hreiðarsson bóndi í Vatnshóli í Landeyjum. Hann bjó síðar í Hraungerði hér í Eyjum og dó þar. Hann var faðir Sigurðar Gottskálkssonar, er síðar var bóndi að Kirkjubæ.
(Aðalheimildarmaður um nöfn skipshafnarmanna er Sigurður Jónsson, nr. 13).
Opna skipið Fortúna, sem um getur í Sögu Vestmannaeyja eftir Sigfús M. Johnsen, II. b. bls. 117, er ekki það skip, sem hér um ræðir.
Nafnið Fortúna mun tekið eftir nafni á opnu konungsskipi hér á 16. öld.

Þ.Þ.V.