Blik 1947/Þáttur nemenda

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 27. maí 2010 kl. 22:33 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 27. maí 2010 kl. 22:33 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1947



ÞÁTTUR NEMENDA


Bolludagurinn

Ég sat inni hjá mömmu, og hún var að búa til bolluvönd handa mér. Bolludagurinn var nefnilega á morgun.
Mikið hlakkaði ég til. Jæja, loksins var þá vöndurinn búinn. „Má ég aðeins prufa hann núna, mamma?“ spurði ég.
„Nei, nú skaltu fara að hátta og sofa, en á morgun máttu flengja eins mikið og þú vilt,“ sagði mamma.
Ég hlýddi og fór að hátta og áður en ég vissi af, var ég sofnuð. Þegar ég vaknaði um morguninn, varð mér strax litið á vöndinn, sem ég hafði lagt við rúmið mitt. Þá mundi ég allt í einu eftir bolludeginum og flýtti mér fram úr og klæddi mig. Síðan gaf mamma mér mjólk og smurt brauð. Þegar ég hafði gert því góð skil, flýtti ég mér inn og náði í vöndinn, hljóp svo fram í gang að stiganum, lagðist á magann á handriðið og renndi mér á fullri ferð niður.
Ég varð svo sem að flýta mér, áður en sjómennirnir, sem voru hjá okkur, færu á fætur.
En, æ, svo óheppilega vildi til, að ég gat ekki gripið um rimlana nógu fljótt og ég hélt áfram að renna og rann beint á rassinn.
En sem betur fór, var afi nýkominn inn úr dyrunum og hafði hann komið með nokkra strigapoka, sem hann af hendingu hafði lagt frá sér, beint undir handriðið, svo að ég lenti á pokunum, og slapp við öll alvarleg meiðsli, en ekki er gott að vita, hvernig farið hefði fyrir mér, hefði ég lent á beru steingólfinu.
Ég stóð á fætur í flýti og læddist að dyrunum og heyrði mér til mikillar gleði háar hrotur.
Ég var ekki að hafa neitt fyrir því að drepa á dyr, ónei. Þeir áttu nú að vakna við annað núna!
Þeir hefðu bara gott af því, þessir gemlingar, hugsaði ég með mér. Ég opnaði, læddist inn og gekk að fyrsta rúminu, sem varð fyrir mér, þar svaf Kristófer. En hvað hann var skrítinn, þar sem hann svaf tannlaus og gleraugnalaus, hvorttveggja lá á náttborðinu. Ég reiddi til höggs — en — átti ég nú annars að flengja Kristófer? Ætli hann mundi þá nokkurntíma spila við mig „Lönguvitleysu?“ Nei, líklega ekki. Jæja, þá Sigurjón. Hann svaf í næsta rúmi. Ég læddist þangað og sló laust á sængina, en um leið vildi svo illa til, að ég felldi um vatnsglas af borðinu og af því varð svo mikill hávaði, að allir vöknuðu. Ég sló nú aftur til Sigurjóns en hann sezt þá upp og ætlar að þrífa vöndinn, en ég skýzt undan og að rúmi Simba og flengi hann eitt högg — en bara eitt — hann vildi víst ekki meira, því að hann tók af mér vöndinn og faldi hann undir sænginni. En þá kom nú annað hljóð í strokkinn mín megin. Ég æddi hágrátandi upp til mömmu og sagði henni, að Simbi hefði tekið af mér vöndinn minn.
Ég skildi ekkert í því, hún bara hló að mér. En afi lézt verða fokvondur og fór með mér niður og skipaði þeim að láta mig fá vöndinn og það undir eins. Nú þorðu þeir víst ekki annað en að láta mig fá hann og sögðu nú, að ég mætti flengja sig eins og ég vildi og ég held, að ég hafi notað mér það.
En seinna um daginn færðu þeir mér tvo stóra poka fulla af bollum og hýrnaði þá heldur yfir mér.
Um kvöldið sátum við Kristófer og spiluðum ‚Lönguvitleysu‘ um leið og ég hámaði í mig rjómabollur.

Helga Scheving, III. b.


Sigursæll er góður vilji

Sumum mönnum eru þær gáfur gefnar, að takast allt í fyrsta sinn, sem þeir leggja hönd eða huga á, en af fjöldanum eru þeir mjög fáir.
Flestir verða að leggja mikið á sig til þess að ná því marki, sem þeir hafa sett sér. Að setja sér markið hátt er frumskilyrðið og fylgja því síðan fast eftir og keppa að því með stöðugum vilja og krafti.
Unglingurinn ætti að gera þetta strax í bernsku og nota æskuárin vel, ekki fara út á götuna, eða leggjast í óreglu, heldur hafa fast markmið og leggja eitthvað á sig til þess að ná því. Með því verður hann að manni. En þó eitthvað mistakist, á maður ekki að leggja árar í bát og hugsa sem svo, að þetta sé of erfitt fyrir mann, eða að þetta geti maður ekki. Það er algilt, að baráttan er nauðsynleg til þess að sigrarnir vinnist, hvort sem um er að ræða sjálfstamningu eða önnur viðfangsefni lífsins. Flest afrek eru árangur af þrautseigri baráttu, og eru mörg dæmi um það.
En sigursæll er góður vilji. Það er t.d. sagt um einn af okkar fremstu bindindismönnum, að hann hafi 70 sinnum látið endurreisa sig, áður en hann náði því marki, að snúa varanlega baki við Bakkusi.
Íþróttamaðurinn er ábyggilega búinn að leggja mikið á sig, áður en hann nær metinu, sem hann keppir eftir. Hann er oft búinn að neita sér um þægindi eða skemmtanir, áður en hann nær takmarkinu.
Listmálarinn er búinn að kasta mörgum léreftstuskunum, áður en honum tekst að fá myndina, eins og hann ætlaðist til, að hún yrði.
Mörg handrit rithöfundarins eru búin að fara í ruslakörfuna, áður en hann lætur prenta bókina.
Og mörg hafa verið mistökin og vonbrigði vísindamannsins, áður en hann náði því marki, sem hann hafði sett sér. Og í hinum hversdagslegustu störfum hins daglega lífs endurtekur sig hin sama saga, að sigrarnir verða ekki unnir fyrirhafnar- eða baráttulaust. En gleðin ein yfir unnum sigri er nóg laun fyrir erfiði baráttunnar.

„Líf er nauðsyn, lát þig hvetja.
Líkstu ei gauði, berstu djarft.
Vertu ei sauður, heldur hetja.
Hníg ei dauður, fyrr en þarft.“
P.S., 3. bekk


Dagur í skólanum

„Hvaða dæmalaus læti eru þetta,“ hugsa ég eða segi mitt á milli svefns og vöku.
Það er vekjaraklukkan, sem hringir. Ég þýt upp til þess að fyrirbyggja, að hún æri mig alveg. Því næst kveiki ég ljós og lít á klukkuna. Hana vantar 15 mínútur í 8. Ég nudda stírurnar úr augunum og lít svo aftur á klukkuna. — Jú, það er ekki um að villast. Ég þýt fram úr rúminu og í fötin í einu hendings kasti. Það verður hálfgerður kisuþvottur á mér í þetta sinn, en ég hugsa mér, að ég geti bætt það upp seinna. Svo gríp ég töskuna, kápuna og leikfimisfötin og þýt af stað. Það er nefnilega leikfimi í fyrstu kennslustund og leiðin liggur því upp í fimleikasal barnaskólans. Þegar þangað kemur, berst að eyrum mér hávaði og kliður af fjörugum samræðum. Meðal annars er rætt um, hve mikill öfuguggaháttur ríki í heiminum, að maður skuli þurfa að klæða sig og hátta svona oft.
Við smokrum okkur úr fötunum. Þegar ég er að fara í annan leikfimisskóinn, blæs Sigurður kennari í hljóðpípuna sína.
Sem betur fer kemst ég nógu fljótt inn í salinn til þess að missa ekki af „þolhlaupinu mikla“, sem hver fimleikatími hefst á. Þegar því loks er lokið, göngum við áfram nokkra hringi.
Þá hefjast allskonar æfingar. Síðan eru slárnar teknar fram. Það gengur ekki alveg slysalaust að ganga á þeim. Sumir fara of hratt, missa jafnvægið og detta, svo að glymur í öllu, aðrir titra og skjálfa, baða út öngunum og gera ýmsar aukakúnstir, sem koma okkur hinum í gott skap. Svona líður leikfimistíminn. Kl. er 8,45. Við klæðum okkur í skyndi og skundum niður í Gagnfræðaskóla. Þar hefst næsta kennslustund kl. 9,15. Sumir nemendurnir skjótast heim í leið inni, til að fá sér eitthvað í gogginn.
Á mínútunni hringir Óskar, hinn mikli hringjari skólans, inn í kennslustundina. Þá erum við öll setzt. Eftir andartak kemur skólastjóri inn með tíu mílna hraða: „Góðan daginn, börn,“ og skelfingar skruðningur heyrist um bekkinn, því að allir standa upp, til að heilsa á móti. Sumir taka undir fullum hálsi, í öðrum mjamtar. Svo hefst kennslan. Það er íslenzka. Kvæði Einars Benediktssonar „Úr Einræðum Starkaðar“ skal krufið til mergjar. Skólastjóri lítur sínum arnaraugum yfir bekkinn með hörkuna í öðru munnvikinu, en mildina í hinu. „Halldór, gerðu svo vel að lesa fyrir mig, góði minn,“ og Dóri les fyrsta erindið. Síðan segir hann efnið úr því með sínum orðum. Skáldið trúir því að guð sé til, almætti, sem gerir kraftaverk. Skáldið bruðlar eða tortímir auði hjarta síns, sínum innra manni, yfir víndrykkju og einskisverðum hugsunum eða skeggræðum, raupi og gaspri. „Þannig fer mörgum manninum,“ bætir skólastjóri við. „Munngátin sjálf, hún ber moldarkeim,“ segir skáldið. Halldór þýðir: „Ölið ber feigðina í sér“, „Já, víndrykkjan leiðir margan góðan mann til efnalegs, andlegs og líkamlegs dauða. Það er staðreynd, sem jafn vitur maður og Einar Benediktsson gerði sér ljóst.“ Þessu bætir skólastjóri við og leggur áherzlu á orðin. Svo hefst greining. Erindið er rakið sundur í setningar, aðalsetning­ar og aukasetningar og þær í liði, frumlag, andlag, umsögn, sagnfylling, og kannske finnst þar líka viðurlag, umsagnarígildi og sagnauki eða hvað það nú heitir, þetta torf.
Þá eru það beygingar. „Sveinbjörn, gerðu svo vel að beygja fyrir mig orðið brúður í öllum föllum.“
Beygingin í eintölu kemur í smágusum út úr Simba og rétt þó. Þá er það fleirtalan. Þar stendur í honum. Hann leggur heilann í bleyti, en árangurslaust. „Af hverju skyldi brúður eiga að vera ríkust, Sveinbjörn minn?“ spyr kennarinn í blíðasta rómi. „Peningum,“ gellur Páll við. Allir skellihlæja. En nú man Simbi það: „af ást,“ segir hann, „orðið brúður beygist eins og ást í fleirtölu,“ og hnúturinn er leystur. — Tíminn er á enda og Óskar hringir út.
Langa hléið hefst.
Út eigum við að fara og verðum að fara. Hvert skal halda? Sumir fara heim og fá sér eitthvað í svanginn, aðrir heimsækja hina vinsælu, ágætu Siggu og kaupa sér volg vínarbrauð, eða franskar vöflur hjá Magnúsi.
Eftir 25 mínútur hefst kennsla á ný. Það er dönskutími. Við erum setzt, þegar kennarinn kemur inn, lítill og léttur í spori, með stór spyrjandi augu, brún eins og fötin hans. Við stöndum upp og heilsum. Síðan hefst kennslustundin. Kennarinn er með dönsku stílana okkar undir hendinni. Umsjónarmaðurinn útbýtir þeim og við teljum villurnar. En það litaskrúð, — sambland af bláum og rauðum strikum. Kennarinn er alveg í öngum sínum yfir öllum enskuslettunum: hot fyrir varm og Garden fyrir Have o.s.frv. Þá hefjast endursagnir. Nonni spyr, hvort ekki megi hegna þessum miskunnarlausu mönnum, sem lögðu endursagnirnar á okkur. Þá segir Palli ósköp mannalegur: „Látum guð um það.“
Einar rekur úr okkur garnirnar. S. er tekinn upp. Það kemur mikið fát á hann, þegar Einar segir honum að fara með endursögnina. Samt byrjar hann. Setningarnar koma eins og rokur út úr honum og hlé á milli, en allt endar vel að lokum. Þá kemur að Nínu. Hún snýr upp á vettlinginn sinn í gríð og ergi, meðan á athöfnninni stendur og hefur sig út úr því bærilega, enda dönsk í aðra ætt.
Óskar hringjari aftrar því, að fleiri lendi í prísundinni að þessu sinni, því að hann hringir út. Þá tekur við 5 mínútna hlé. Við þjótum út með handboltann og „rífumst“ um hann um stund. Eftir góðan sprett er hringt inn. Þá tekur enskan við. Hana kennir séra Kolbeins okkur. Brátt erum við öll setzt. Nú sjáum við, hvar prestur kemur á „fullri ferð“ upp eftir götunni. Hann kemur beint inn og segir okkur að setjast, áður en sitjandinn hefur lyfzt úr sætinu.
„Óvenjulega seinn í þetta sinn,“ hugsum við. Strax hefst kennslan. Prestur hefur hátt, svo að okknr finnst nóg um, en það leynir sér ekki, að hann er mikill tungumálagarpur.
Enskan streymir af tungu hans. Þegar við höfum lesið og þýtt, lætur hann okkur segja enskar setningar. Hans uppáhaldssetningar eru: Hann kyssti stúlkuna sína og hún fer á mis við kossinn. Klukkan er 12. Tíminn er á enda. Matarhlé í eina klukkustund.
Í dag er mánudagur
Eftir hádegi er kennsla í handavinnu. Þá er alltaf glatt og kátt á hjalla og er þá margt spjallað, t.d. um tízkuna, síðustu bíómyndir, strákana, pilsið á þessari og blússuna á hinni o.s.frv.
Ungfrú Kolbeins hastar furðu lítið á okkur, því að flestar vinna um leið, þrátt fyrir allt masið.
Allt í einu kveður mikið örvæntingaróp við í stofunni. Svo stendur sem sé á, að Lilla stendur á undirkjólnum, þegar Óskar kemur inn, til þess að hringja. Hún þýtur bak við reykháf, en við engjumst sundur og saman af hlátri yfir þessu broslega atviki og biðjum Óskar blessaðan að drepa á dyr næst, því að engin vill verða fyrir svona truflun aftur, og hann lofar því.
Þannig lauk þessum degi í skólanum okkar og margar okkar beztu endurminningar eru þaðan runnar.

H.K. og Á., 3. bekk, og allar hinar.


Dáðir drýgðar

„Ætlið þið þá að byrja að grafa í dag, börn?“ spurði skólastjórinn, þegar hann kom inn í stofuna. Því var svarað með „kórjái“. „Þá skuluð þið fara heim og búa ykkur, við leggjum af stað frá skólanum klukkan hálf tíu.“ Piltar og stúlkur þustu út, allir vildu verða fyrstir. Klukkan hálf tíu var lagt af stað með rekur um öxl til skólagrunnsins og var mesti vígahugur í öllum hópnum. Þegar upp eftir kom, kom það í ljós, að nokkrar rekur vantaði, en Valtýr Brandsson og fleiri góðhjartaðir náungar þarna í nágrenninu líknuðu sig yfir þennan framgjarna unglingahóp og lánuðu sínar rekur.
Þá var tekið til að grafa. Frost hafði verið um nóttina og því nokkuð vont að komast niður úr klakanum, en þegar því var lokið, fór verkinu að miða ört áfram. En eina reku vantaði enn og það var reka handa sjálfum skólastjóranum, sem var alveg í öngum sínum yfir því að fá ekki að níðast á fósturjörðinni eins og hinir, en það var fljótt bætt úr því.
Við fengum margar heimsóknir. Fyrst kom bæjarstjórinn. Hann hélt í fyrstu, að lítið gagn mundi vera að stúlkunum, en þar hafði hann rangt fyrir sér. Síðan kom sóknarpresturinn. Hann dáðist mjög að krafti okkar og dugnaði, en bað okkur blessuð að ofreyna okkur ekki, svo að við gætum ekki lært ensku endursögnina fyrir morgundaginn.
Þá kom Óskar Jónsson, sem kann á allar vélar, allt frá músagildrum og kaffikönnum upp í jarðýtur og gufuvélar. Hann virtist líka kunna á rekur, því að hann greip þá, sem hendi var næst og fór að hjálpa til við gröftinn og hamaðist svo mjög, að þrjár rekur virtust vera á lofti í einu.
Stúlkurnar kunnu ágætlega við sig í gallabuxunum og lögðu sig allar fram til að sýna strákunum, hvað þær væri duglegar. Strákarnir létu fljúga brandara, nýjustu fréttir og skammir hver um annan fyrir leti, en allt í mesta bróðerni. Þegar komið var að matartíma, fóru sumir að ympra á því, að þeir mundu hafa góða matarlyst, þegar heim kæmi og efa ég ekki, að svo hafi verið.
Klukkan tólf var farið „í mat“ og varð að samkomulagi, að allir skyldu hittast upp við skóla og halda hópinn upp eftir. En vegna ákafans gleymdu drengirnir þessu, og fóru hver í sínu lagi strax, þegar þeir voru búnir að borða, svo að Þorsteinn varð að gjöra svo vel að fara einn með stúlkunum upp eftir. Þá var tekið til að hamast á nýjan leik.
Stúlkunum þótti þetta ákaflega skemmtilegt og sögðu, að þetta væri alveg „brandari“, og næst færu þær í aðgerð.
Þegar við vorum nýbyrjuð, komu barnaskólakennararnir til þess að heilsa upp á okkur. Þeir undruðust yfir afköstum okkar og fannst, að eiginlega ætti að kvikmynda þetta. En því var ekki hægt að koma við. En aftur á móti kom Kjartan ljósmyndari uppeftir til okkar og tók myndir af greftrinum og eins af okkur, meðan við drukkum kaffið.
Klukkan hálf fjögur var haldið heim til þess að læra.
Ég held, að aldrei hafi jafn glaðir verkamenn haldið heim eftir vel unnið dagsverk, því að þeir vissu, að þeir höfðu ekki einungis unnið bæjarfélaginu gagn heldur allri þjóðinni.

Páll Steingrímsson, III. b.
fréttaritari vinnufl. III. b.