Blik 1939, 5. tbl./Gömul saga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 28. desember 2011 kl. 22:31 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 28. desember 2011 kl. 22:31 eftir Viglundur (spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1939


Gömul saga.
      ———————————

Einu sinni bjó maður, sem hét Kolbeinn, í Suðurkoti í Krýsuvíkurhreppi, sem þá var í byggð. Þá var siður að fara á grasafjall og tína grös, sem höfð voru til matar og kölluð eru fjallagrös. Bóndi þessi fór með dóttur sína, Guðrúnu að nafni, 9 ára gamla, ásamt fleira fólki í grasaferð. Segir ekki af ferðum þeirra, fyrr en komið var á grasafjallið. Fólkið fór brátt að tína af kappi, en eftir nokkra stund vantaði reipi til að vefja um einn pokann. Guðrún litla var þá send að sækja reipi, sem lá hjá öðru dóti þar skammt frá. Yfir leiti var að fara og þar er hraun mikið og villugjarnt. Fólkið hvarf brátt sjónum hennar, svo að hún rataði ekki til þess aftur og hefir að líkindum farið í öfuga átt. Nú fer fólkinu að lengja eftir telpunni og fer að kalla á hana og svipast um eftir henni. En hvernig, sem leitað var og kallað, heyrðist ekk­ert til hennar né sást. Fór nú fólkið að verða órólegt, en fór samt heim, til þess að vita, ef ske kynni, að hún hefði komizt heim. En þá höfðu engir heimamenn orðið hennar varir. Var þá safnað fólki til þess að leita og leitað í marga daga en árangurslaust. En að síðustu rákust menn á slóð eftir reipið, sem telpan hafði dregið með sér. Og með því að rekja slóð þessa, fundu þeir lík barnsins að sjö dögum liðnum frá hvarfi þess. Undruðust allir, hve langa leið barnið hafði gengið, áður en það örmagnaðist. Atburður þessi er sannur og gerðist í kringum 1830.

Hrefna Sigmundsdóttir,
II. bekk, skráði.

Eftir sögn Katrínar Sigurðardóttur. Litla telpan var móðursystir Katrínar og móðir Katrínar sagði henni þessa sögu.